• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Burnley 0:1 Manchester United

Kristófer Kristjánsson skrifaði þann 20. janúar, 2018 | 12 ummæli

Manchester United spyrnti sér aðeins frá Chelsea og Liverpool með sigri á Burnley í dag, þökk sé Anthony Martial sem skoraði eina mark leiksins. Þetta var nokkuð bragðdauft hjá okkar mönnum sem áttu aðeins tvö skot á markið en Martial nýtti annað þeirra áður en Jóhann Berg Guðmundsson þrumaði boltanum í þverslánna úr aukaspyrnu! Burnley reyndu og reyndu í lokin en án árangurs og fjórði sigurinn í fjórum leikjum árið 2018 orðinn að raun.

Jose Mourinho gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliðinu frá síðasta leik en Ashley Young sneri til baka úr leikbanni og tók við af Luke Shaw í vinstri bakverði.

1
De Gea
18
Young
4
Jones
12
Smalling
25
Valencia
6
Pogba
31
Matić
11
Martial
14
Lingard
8
Mata
9
Lukaku

Varamenn: Romero, Rojo, Shaw, McTominay, Fellaini, Herrera, Rashford.

Leikurinn

United hefur nú ekki tapað í átta deildarleikjum í röð en það eru úrslitin sem gleðja í dag, ekki frammistaðan. Okkar menn voru bitlausir í sókninni og það varð dágóð bið eftir markverðum fregnum. Paul Pogba vildi vítaspyrnu eftir um hálftíma leik eftir að Phil Bardsley knúsaði hann létt en dómari leiksins, Mike Dean, hafði ekki mikinn áhuga á því. Anthony Martial var líflegastur strax frá byrjun og reyndi ágætt skot skömmu fyrir hlé sem fór í varnarmann en Ashley Young átti sennilega augnablik hálfleiksins. Young fór þá afar illa með Jóhann Berg á vinstri kantinum og stakk sér inn í teig þar sem hann reyndi að snúa boltann í fjærhornið en rétt framhjá fór hann. Fyrir utan þessi andartök var fyrri hálfleikurinn hreinlega ógnbrunginn.

Embed from Getty Images

Síðari hálfleikurinn var aðeins 10 mínútna gamall þegar Martial loksins braut ísinn og með engu smá slútti! Romelu Lukaku vaknaði loks til lífs, sótti boltann með frekju hægra megin við vítateiginn og renndi honum þvert yfir til Martial sem stillti miðið og þrumaði í slá og inn af 15 metra færi. Geggjað mark! Einhverjum þremur mínútum síðar var Jóhann Berg Guðmundsson hársbreidd frá því að jafna metin þegar hann smellti aukaspyrnu í þverslánna en sem betur fer fór boltinn þaðan yfir og aftur fyrir.

Jóhann Berg var áfram óþolandi (góður) og eftir um klukkutíma leik átti hann fyrirgjöf inn í teig sem skoppaði af Chris Smalling. Heimamenn vildu hendi, Mike Dean dæmdi ekkert. Tíu mínútum síðar átti hann svo eitraða þversendingu inn í teig sem James Tarkowski og Jack Cork rétt svo misstu af. Fleiri urðu dauðafæri Burnley ekki þó lærsveinar Sean Dyche hafi bankað hressilega á dyrnar allt til enda. Það ber að hrósa Phil Jones og Chris Smalling sérstaklega en þeir áttu afbragðsleik í hjarta varnarinnar, unnu samtals 23 skallabolta og gáfu stóru mönnum Burnley úr litlu að moða.

Embed from Getty Images

Sem fyrr verða þó spurningamerki sett við sóknarleikinn. United átti 10 tilraunir sem ekki hittu rammann á meðan Martial átti einu tvær sem fóru á markið. Lukaku átti, eins og oft áður, nokkuð erfitt uppdráttar og Juan Mata gat ekki haft þau áhrif á leikinn sem hann vill. það er ekki erfitt að sjá af hverju félagið er tilbúið að borga stórfé fyrir Alexis Sanchez; hann gæti komið með þann hraða og þá bragðvísi sem oft á tíðum sárlega vantar.

3 points ⚽🔴 My little man made his debut in the away end today. He was all over it. “Please can we come next week Dad?”👌🏼 #AwayDays #RedArmy pic.twitter.com/o0InSvsr8X

— Michael Carrick (@carras16) January 20, 2018

Umræðupunktar eftir leik

Þetta er ástæðan fyrir því að okkur vantar Alexis Sanchez. United komst ótt og títt í álitlegar stöður í sókninni en Nick Pope þurfti sjaldan að taka á honum stóra sínum í marki Burnley. Það er ekki erfitt að sjá af hverju stuðningsmenn bíða spenntir eftir lævísi og klókindum Sílemannsins þegar kemur að því að opna þrjóskar varnir.

Er Anthony Martial loks að verða góður en ekki bara efnilegur? Frakkinn hefur nú, í fyrsta sinn á United ferlinum, skorað í þremur úrvalsdeildarleikjum í röð. Aðspurður um markaskorarann sinn í viðtali eftir leik sagði Mourinho: „Við vitum hverjir hæfileikarnir eru, þetta er bara spurning um stöðugleika, ekki bara með mörkunum sem hann skorar heldur líka í því hvernig hann spilar. Það er enginn spurning að Anthony hefur bætt sig mikið frá því í fyrra.“

Eftir aðeins tvo útisigra í tíu leikjum hefur United nú unnið fimm af síðustu sex. Ef við hefðum nú bara sleppt þessum tveimur jafnteflum á Old Trafford um jólin… ef og hefði. David de Gea hefur svo haldið hreinu 14 sinnum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, enginn hefur gert betur.

Þetta var engin klassík en punktarnir þrír skiluðu sér. Jose Mourinho sagði í viðtölum eftir leik að hann væri bjartsýnn á að Alexis Sanchez muni ganga til liðs við United innan skamms og það er því heilmikið til að vera spenntur yfir. Næst er það C-deildarlið Yeovil Town í enska bikarnum á föstudaginn kemur en þar liggur sennilega okkar besta tækifæri á bikar í vor. Sömuleiðis er mikilvægt að halda dampi í deildinni, ef ekki til að ná City núna þá til að hafa eitthvað til að byggja ofan á fyrir næsta vetur. Nú og svo fáum við auðvitað útsláttarleiki í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í fjögur ár! Það er yfir engu að kvarta krakkar mínir, áfram með smjörið!

#AnnounceSanchez.

12

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Karl Garðars says

    20. janúar, 2018 at 15:33

    Og af hverju er Young kominn inn á kostnað Shaw?? Hann setur örugglega mark í smettið á mér fyrir að segja þetta en ég bara skil þetta ekki. Shaw er búinn að vera fínn í síðustu leikjum.

    2
  2. 2

    EgillG says

    20. janúar, 2018 at 15:40

    Ég vill sjá Young og Mata út, er ekki að sjá neitt frá þeim

    4
  3. 3

    Jói says

    20. janúar, 2018 at 15:44

    Sami helvitis Mórabolti!

    2
  4. 4

    Helgi P says

    20. janúar, 2018 at 15:51

    skelfilegur fyrir hálfleikur

    1
  5. 5

    Karl Garðars says

    20. janúar, 2018 at 16:01

    Þrautleiðinlegt alveg. Menn virka hálf þungir og latir á meðan Burnley eru grimmari. Pogba vælandi í staðinn fyrir að berjast. Deyja Vu…

    Er farinn að hlakka til að sjá Sanchez þarna ef af verður, hann virkar á mann sem svona passlega tapsár týpa.

    1
  6. 6

    Bjarni says

    20. janúar, 2018 at 16:13

    Mun chile maðurinn gera gæfu munin. Kemur í ljós en ég held samt að menn vilja koma til okkar út af laununum frekar en spilamennskunni hjá liðinu.

    1
  7. 7

    Rúnar P. says

    20. janúar, 2018 at 16:58

    Afhverju í andskotanum geta okkar menn aldrei komið háu boltunum út úr teig án þess að þeir endi í höndum andstæðingsins???

    0
  8. 8

    Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says

    20. janúar, 2018 at 17:41

    Þetta er alveg ótrúlega lélegt hjá okkar mönnum og Móra. Pobga er búin að brillera framar á vellinum og Shaw er búin að vera einn af okkar allra bestu mönnum….þá færum við auðvitað Pobga aftar á völlinn og setjum Shaw á bekkinn ?? Það er geinilegt að Herrera er nýjasta kjötið í frystikistunni hjá Móra en það sem skelfir mig mest er móralinn og hversu mikið menn eru að spila fyrir sjálfan sig en ekki liðið :-(
    kv,
    SAF

    0
  9. 9

    Hjöri says

    20. janúar, 2018 at 17:48

    Þarf ekki að halda mönnum aðeins við efnið, hafa þá ekki alltaf í frystinum. Kanski það hafi orsakað að Mikki náði sér ekki á strik, var frystur of mikið?

    2
  10. 10

    Cantona no 7 says

    20. janúar, 2018 at 18:27

    Góður sigur á erfiðum útivelli.
    Flottur leikur hjá Jones og Martial.
    G G M U

    3
  11. 11

    Cantona no 7 says

    20. janúar, 2018 at 21:35

    Bjarni
    Menn vilja koma til Man Utd v.þ,a. klúbburinn er stærsti klúbbur í heimi og Mourinho er að byggja upp nýtt hörku lið.
    Alexis fer í skiptum og borgum ekki krónu fyrir hann.

    G G M U

    1
  12. 12

    Audunn says

    22. janúar, 2018 at 08:56

    Mikilvægur sigur en enn og aftur hræðilegur fótbolti hjá okkar mönnum.
    Maður þarf að finna sér eitthvað annað að gera um helgar en að horfa á þetta lið, þvílík tímasóun og pirringur.
    Enn og aftur skil ég ekki útá hvað taktík United gengur né hversvegna sendingargeta leikmanna er svona hrikalega légleg.
    Þetta er allt svo tilviljunarkennt og ómarkvist, oftar en ekki er boltanum bara sparkað eitthvað út í loftið og vonað það besta.
    Allt of lítið um skemmtilegt og hratt spil, United hefur klárlega nógu góða einstaklinga til að spila sig í gegnum svona lið og þa mörgum sinnum í leik.
    En jæja, þetta voru þó þrjú stig sem maður verður að vera sáttur við.

    2

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Scaltastic um Mánuður af sumarfríi
  • Dór um Mánuður af sumarfríi
  • Sir Roy Keane um Mánuður af sumarfríi
  • Halldór Marteins um Mánuður af sumarfríi
  • Helgi P um Mánuður af sumarfríi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress