• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska bikarkeppnin

Arsenal 1-3 Manchester United

Halldór Marteins skrifaði þann 25. janúar, 2019 | 16 ummæli

Ef þessi sami bikarleikur hefði verið settur á fyrir 6 vikum síðan þá hefði maður líklega upplifað miklu meira stress en spennu fyrir leik og sennilega óskað eftir því að skemmtanastigið í leiknum yrði við frostmark því þar lægju helst möguleikar Manchester United til að fá eitthvað út úr þessum leik. Ó, hve mikil breyting hefur orðið á ekki lengri tíma. Núna beið undirritaður óþreyjufullur alla vikuna eftir leiknum, hlakkaði mikið til að sjá hvernig liðið yrði og var verulega bjartsýnn bæði á að leikurinn gæti orðið skemmtilegur áhorfs og að það myndi einmitt þýða að Manchester United ætti góðan séns á að halda sigurgöngu sinni áfram. Enda gekk það líka eftir!

Solskjær, þú fallegi maður!

Byrjunarlið Manchester United í þessum leik var svona::

22
Romero
23
Shaw
2
Lindelöf
3
Bailly
18
Young
6
Pogba
31
Matic
21
Herrera
14
Lingard
7
Alexis
9
Lukaku

Varamenn: Grant, Dalot, Jones, Fred, Mata, Martial, Rashford.

Lið heimamanna í Arsenal var þannig skipað:

1
Cech
31
Kolasinac
6
Koscielny
5
Sokratis
15
Maitland-Niles
17
Iwobi
34
Xhaka
11
Torreira
8
Ramsey
9
Lacazette
14
Aubameyang

Varamenn: Leno, Mustafi, Monreal, Lichtsteiner, Elneny, Guendouzi, Özil.

Leikurinn sjálfur

Þegar leikurinn hófst mátti sjá að Manchester United stillti upp í sambærilegu kerfi og það notaði gegn Tottenham um daginn. Jesse Lingard var þá fölsk nía á meðan þeir Alexis Sánchez og Romelo Lukaku spiluðu sem kantmenn sem leituðu inn í framherjaholuna eftir því sem tækifæri gafst til. Allir þrír voru gríðarlega vinnusamir frá fyrsta flauti.

Arsenal hafði þó yfirburði á boltanum strax frá byrjun, þeir héldu boltanum og reyndu að byggja upp langar sóknir á meðan Manchester United reyndi frekar að sækja markvisst og snöggt við hvert tækifæri. Að mörgu leyti ekki ósvipað því sem lagt var upp með gegn Spurs. Arsenal hélt boltanum en gerði þó lítið við hann. Miðvarðaparið Bailly og Lindelöf steig varla feilspor í öllum leiknum, unnu báðir allar sínar tæklingar og öll sín skallaeinvígi.

Embed from Getty Images

Það var aðeins önnur saga hjá miðvarðapari Arsenal. Eftir um 20 mínútna leik sneri Socratis sig illa á ökkla þegar hann lenti eftir einvígi. Hann þurfti skömmu síðar að fara af velli og tók sér sinn tíma í það. Eitthvað sem endurtók sig svo í seinni hálfleik hjá hinum byrjunarliðsmiðverði Arsenal. Stuttu eftir það átti Jesse Lingard flotta fyrirgjöf frá hægri sem rétt smaug framhjá Pogba og Lukaku í markteignum. Þrátt fyrir að Arsenal hafði verið með boltann 60-70% leiktímans þá hafði United skapað hættulegri færi og álitlegri sóknir.

United náði svo líka að skora fyrstu mörkin. Hið fyrsta kom á 31. mínútu. Þá fékk Romelu Lukaku boltann rétt fyrir utan teig Arsenal. Hann hótaði skotinu og gerði það svo vel að þegar hann sleppti skotinu og laumaði inn stungusendingu í staðinn þá gabbaði það alla varnarlínuna og sendi Alexis Sánchez einan inn fyrir gegn Cech í markinu. Sánchez kom sér framhjá markverðinum og sendi boltann svo í markið úr þröngu færi. Frábærlega vel gert hjá báðum og Sánchez virkilega kunni vel að meta það að þagga niður í stuðningsmönnum Arsenal sem bauluðu á Sílemanninn út leikinn.

Embed from Getty Images

Innan við tveimur mínútum síðar hafði United aukið forskotið og það var eitt það klassískasta í fótboltaheiminum: skyndisóknarmark Manchester United á heimavelli Arsenal. Arsenal freistaði þess að svara marki United strax en góður varnarleikur Manchester United sendi Lukaku á sprett upp hægri kantinn. Með honum voru Jesse Lingard og Alexis Sánchez. Lukaku kom að teignum og sá þar hvar Lingard stansaði utarlega í teignum frekar en að halda hlaupinu áfram. Með því bjó hann sér til pláss og þegar hann fékk góða fyrirgjöf frá Lukaku gat hann tekið við boltanum og sent hann innanfótar í markið, óverjandi fyrir Cech. Aftur virkilega vel gert hjá United, Lukaku kominn með tvær flottar stoðsendingar og United komið með góða stöðu í þessum leik. Big Game Jesse bara elskar að skora í stóru leikjunum. Hann elskar að skora gegn Arsenal!

Embed from Getty Images

Þegar fyrri hálfleik var að ljúka náði Arsenal að byggja upp pressu á United. Það skilaði því að þeir náðu að minnka muninn, með þeirra fyrstu alvöru hættulegu tilraun leiksins. Iwobi fann Ramsey með sendingu upp teiginn vinstra megin. Ramsey bar boltann upp að endamörkum og átti fína fyrirgjöf sem fór framhjá tveimur Arsenalmönnum, allri Unitedvörninni og endaði hjá markahróknum Aubameyang á fjærstönginni. Gabonmaðurinn þurfti ekki nema rétt snerta boltann til að koma honum í tómt markið. Vel gert hjá Arsenal en þótt varnarleikurinn hafi svo sem ekki verið algjört klúður hjá United þá hefðu þeir getað gert betur þarna.

Embed from Getty Images

Arsenal reyndi síðan að láta kné fylgja kviði í uppbótartímanum með því að byggja upp meiri pressu. Vörn United náði þó alltaf að verjast því áður en það varð að almennilega hættulegum tækifærum, jafnvel þótt það virkaði ekki alltaf mjög öruggt. United fór með 2-1 forskot inn í leikhlé.

Seinni hálfleikurinn hófst svipað og sá fyrri hafði endað, Arsenal reyndi að pressa og koma vörn United í vandræði. Hálfleikurinn var varla byrjaður þegar Aubameyang komst upp að endamörkum hægra megin innan teigs, sendi fína fyrirgjöf beint á kollinn á Ramsey sem átti skalla af stuttu færi. Í marki United var enginn David de Gea en þar var hins vegar besti varamarkvörður heims, Sergio Romero, og hann tók þvílíka reflex-vörslu og hélt United í forystu. Frábær markvarsla og mikilvæg.

Embed from Getty Images

Eftir um 5 mínútur losnaði um pressuna og United fór að geta haldið boltanum líka og byggt upp sínar sóknir. Liðin skiptust á að sækja og þetta var hin skemmtilegasti leikur. Mest munaði um Paul Pogba sem var virkilega öflugur í því að bera boltann upp völlinn þegar tækifæri gafst. Þá var Alexis Sánchez yfirleitt mjög sterkur sömuleiðis í að halda boltanum og gefa Unitedliðinu tækifæri á að færa sig ofar á völlinn. Pogba og Matic nýttu sömuleiðis reynsluna oftar en einu sinni til að ná sér í aukaspyrnur, hægja leikinn þegar á þurfti að halda, losa pressur og eyða tíma.

Þegar seinni hálfleikur var um 10 mínútna gamall varð Koscielny fyrir meiðslum þegar hann féll í grasið og fékk takkann frá Lukaku í hálsinn. Það var óviljaverk að sjálfsögðu en það tók langan tíma að huga að Koscielny og að lokum koma honum út af vellinum. Emery hafði varnarmenn á bekknum en kaus þess í stað að setja Guendouzi og Özil inn á og taka Iwobi út af með miðverðinum. Granit Xhaka fór í miðvörðinn og það átti greinilega að reyna að sækja meira.

Embed from Getty Images

Áfram var þó miðvarðapar United öflugt og miðjumennirnir klókir. Á 72. mínútu gerði Solskjær svo sína fyrstu skiptingu og hún var mjög skemmtileg. Þá komu Marcus Rashford og Anthony Martial inn á völlinn í staðinn fyrir Romelu Lukaku og Alexis Sánchez. Verulega öflugt að geta hent í þessa skiptingu á þessum tímapunkti. Martial virtist þó ekki alveg ná tengingu við leikinn fyrstu mínúturnar, missti boltann auðveldlega og náði ekki að gera mikið af viti rétt til að byrja með. Heilt yfir hafði það þó jákvæð áhrif að skipta og leikurinn varð jafnari. Liðin héldu áfram að skiptast á að sækja.

Þegar um 8 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma átti Paul Pogba enn einn hörkusprett upp völlinn. Það er hreint ótrúlegt að sjá hann spretta upp völlinn með boltann í sínum löngu skrefum, sem stundum minna jafnvel á góðan þrístökkvara í lengd. Í þetta skiptið reyndi hann ekki að finna neina stungusendingu heldur lét vaða þegar hann var kominn að vítateig Arsenal. Skotið var fast, niðri og vinstra megin frá Pogba séð. Cech náði að henda sér niður og verja boltann en hvorki halda honum né koma honum í skjól heldur hrökk hann út í teig aftur þar sem Anthony Martial var mættur og kláraði færið með marki. Enn ein hættuleg skyndisókn og annað flott skyndisóknarmark.

Embed from Getty Images

Eftir þetta var leikurinn í raun búinn. Það mátti sjá það á leikmönnum beggja liða að þeir vissu allir hvernig þessi leikur myndi enda. Kolasinac varð eitthvað pirraður út í Rashford á einum tímapunkti sem endaði með gamaldags hasar milli leikmanna Manchester United og Arsenal, það var bara gaman að sjá svoleiðis og minnti á gömlu tímana þegar þessi lið elskuðu að hata hvort annað.

Uppbótartíminn var svo 10 mínútur, eftir meiðslin hjá Koscielny, en uppbótartíminn fór allur í það að bíða eftir því að Craig Pawson flautaði til leiksloka. Hann gerði það svo að lokum og staðfesti þennan flotta, sannfærandi og sanngjarna sigur Manchester United. Okkar lið verður því eftir allt saman í hattinum á mánudagskvöld þegar dregið verður í fimmtu umferðina.

Embed from Getty Images

Hvílíkt stuð!

Átta sigurleikir í röð. Markatalan 22-5. Ekki enn lent undir síðan Solskjær tók við. 12 hálfleikir sigraðir af 16 mögulegum. Frábært!

Enn heldur Solskjær áfram að standast prófin með glans. Það verður vissulega fróðlegt að sjá hvað gerist þegar liðið tapar stigum eða lendir í einhverjum mótvind, hvernig bregst þjálfarateymið við þá? Hvernig bregðast leikmennirnir við þá? Það er seinni tíma vandamál, núna njótum við þess bara að sjá Manchester United spila eins og Manchester United á að spila. Og vinna leiki!

Embed from Getty Images

Maður leiksins? Lukaku kom sterkur inn, með 2 flottar stoðsendingar og mjög góða vakt á kantinum. Sánchez kom sömuleiðis sterkur inn, skoraði fyrsta markið og vann mjög mikla vinnu bæði í hápressuvörn og í að halda boltanum þegar United þurfti á því að halda. Lingard heldur áfram að sinna gríðarlega mikilli og góðri vinnu fyrir liðið. Það sem hann getur hlaupið! Er líka alltaf jafn góður taktískt séð, með auga fyrir því að leysa mjög ólíkar stöður og hlutverk í mismunandi uppstillingum. Dýrmætur eiginleiki.

Romero leysti de Gea af velli með glæsibrag eins og vanalega. Lindelöf heldur áfram að blómstra og Bailly var virkilega fókuseraður, yfirvegaður og flottur við hlið hans. Það var sniðugt hjá Solskjær að smella Bailly í byrjunarliðið eftir orðróma um að Arsenal hefði áhuga á að kaupa Fílabeinsstrendinginn.

Embed from Getty Images

En ég held ég verði að skella þessu á Paul Pogba. Hann er bara svo mikill yfirburðarleikmaður. Solskjær nefndi hann í samhengi við fyrirliðastöðu Manchester United um daginn, þegar hann er í þessum ham þá er erfitt að sjá annað fyrir sér en að hann verði fyrirliði. Hann leiddi liðið í þessum leik og hann kláraði leikinn. Hann var einn stærsti munurinn á milli þessara liða. Meira svona, Paul!

Eins og áður sagði verður dregið í fimmtu umferð enska bikarsins á mánudagskvöldið, eftir leik kvöldsins. Frá og með fimmtu umferð verður ekki lengur möguleiki á að lenda í endurteknum bikarleik heldur verða allir bikarleikir kláraðir í einum leik. Og þá framlengingu og vítakeppni eftir þörfum.

Næsta verkefni er þó í deildinni, Manchester United tekur á móti Burnley á þriðjudagskvöldið. Heldur sigurgangan áfram?

Efnisorð: Alexis Sanchez Anthony Martial Arsenal Emirates Jesse Lingard Ole Gunnar Solskjær Paul Pogba Romelu Lukaku 16

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Runar P says

    25. janúar, 2019 at 21:55

    Ætla bara að copy/past fyrri komment frá mér um Solskjær

    Ef ManU er ekki alvarlega að hugsa um að ráða hann til frambúðar, þá skal ég lofa ykkur að það eru MÖRG önnur stórlið að horfa á hann sem sjóðheitann arftaka fyrir sitt lit ef svo skildi að ManU vildi hann ekki, lið eins og t.d. Chelsea, AC Milan og Real Madrid, og því ættu þau ekki að vera því eftir þetta frábæra gengi?

    15
  2. 2

    Bjarni Ellertsson says

    25. janúar, 2019 at 21:59

    Frábær byrjun á Þorranum.

    10
  3. 3

    Auðunn says

    25. janúar, 2019 at 22:12

    Vel gert United og vei gert Óli Gunnar.
    United gerði ekki margt rangt í þessum leik, fannst þeir alltaf hafa andstæðinginn í vasanum ef svo má segja.
    Auðvitað mun Arsenal alltaf skapa vandræði á sínum heimavelli en fyrir utan 2-3 færi voru þeir máttlausir og höfðu engin svör við leik United.
    Þrátt fyrir frábæra byrjun Ola Gunnar þá er ég ekki ennþá sannfærður um að hann sé rétti maðurinn í starfið til lengri tíma.
    Það þarf að koma meiri reynslu. Hvernig bregst hann við brekku og þegar á móti blæs?
    Stjórn United á líka alls alls ekki að taka neinar ákvarðanir fyrr en eftir að vera búnir að igrunda þær vel og ofan í kjölinn.
    Það liggur ekkert á ennþá.
    Það er um að gera að fara sér hægt og taka engar fljótfærnislegar ákvarðanir.
    Njótum augnabliksins og sjáum til.
    En endilega meira svona United og Oli Gunnar ⚽⚽⚽👍👍

    5
  4. 4

    EgillG says

    25. janúar, 2019 at 22:36

    flottur leikur, allt á réttri leið
    GGMU

    4
  5. 5

    Georg says

    25. janúar, 2019 at 23:14

    Sammála Auðunni og þarf lítið að bæta þar við nema hvað ég var sáttur við hvað menn spiluðu með hjartanu. Lögðu sig 120% með nokkrum átökum og hrindingum ekki það að ég sé sáttur við það alltaf en í svona „rival“ leik þá fokk já pardon my anglais. Mér fannst liðið ekki vera að fara að tapa þessum leik eftir fyrsta markið og hvað var staðan 2-1?? þegar við vorum að pressa vörnina með 4 mönnum við markteigslínu í enda leiks….yndisleg að sjá !!

    1
  6. 6

    Turninn Pallister says

    26. janúar, 2019 at 00:17

    Flottur leikur og vel uppstillt hjá Óla frænda. Aftur erum við að vinna heimavinnuna okkar fyrir leiki. Greinilegt að það var búið að kortleggja veiku punktana hjá Arsenal og leggja áherslu á það hvernig best væri að stoppa þá þar sem þeir eru hættulegastir. Fannst minn maður Lingard vera flottur í dag, þó auðvitað hafi Rom gert vel þar sem hann lagði upp fyrstu tvö mörkin. Allt annað að sjá til kauða út á kanti heldur en að bolast upp á topp. Þessa stöðu hefur hann stundum verið að spila með Belgíu og komið vel út, af hverju þá ekki að prufa hann svona hjá okkur?
    Kannski var Óli að svara ykkur félögunum í podcastinu með þessu útspili. Í dag eru Rash, Tony og Jessie okkar sterkasta sóknarlína, en það eru samt alveg möguleikar í Alexis og Rom, ef meiðsli koma upp.
    Fannst Alexis eiga einn af sínum betri leikjum frá því hann kom til okkar. Vona svo innilega að hann sé að koma til.
    8 in 8 og við erum aftur orðnir liðið sem hin liðin eru hrædd að mæta.

    3
  7. 7

    Egill says

    26. janúar, 2019 at 00:58

    Lukaku átti tvær flottar stoðsendingar í leiknum, mjög vel gert hjá honum. En því miður þá verð ég að segja að gæjinn er að skemma sóknarleikinn svo rosalega mikið. Ef við horfum framhjá þessum stoðsendingum þá var hann gjörsamlega jafn týndur og Ozil þegar hann kom inná. Sóknarleikurinn var á pari við sóknarleik Mourinho þangað til hann fór útaf. Ég tek það ekki af honum að þetta voru virkilega flottar stoðsendingar, sérstaklega sú fyrri, en í heildina litið þá hægir hann á öllu sem gerist á vallarhelmingi andstæðingsins. Hann þarf ca 15 dauðafæri til að skora eitt mark, hann hægir á sóknarleiknum, eins ótrúlegt og það hljómar þá er hann alls ekki sterkur í loftinu, fyrsta snertingin er á pari við Macheda og hann er ítrekaður „outmuscled“ af minni miðvörðum en hann sjálfur. Ofan á þetta má bæta við að hann er á mega launum. Því miður þá er Lukaku búinn að vera vandamál síðan í febrúar 2018 hið minnsta.
    Við þurfum að losna við Lukaku sem allra fyrst og fá inn alvöru striker fyrir Rashford til að berjast við, það er engin samkeppni í 130 kg trölli sem ræður ekki við boltann.

    En að jákvæðu hlutunum.
    Lindelög hefur verið að bæta sig jafnt og þétt síðustu mánuði, líka undir stjórn Móra. Hann er að verða frábær leikmaður.
    Við erum að reyna að sækja jafnvel þótt Lukaku sé hraðahindrun. Sanchez átti flottan leik eftir langt hlé og virðist vera að fá frelsið. Talandi um frelsi, Pogba er að brillera, núna er ljóst af hverju hann kostaði svona mikið, hann er bara svona fáránlega góður.
    Martial er að gera geggjaða hluti, virðist vera að njóta sín í botn. Rashford er allt í einu orðinn einn mest spennandi ungi leikmaður í heiminum, það er geggjað.
    Svo finnst mér æðislegt að sjá Herrera fá að spila. Gæinn er með baráttuhjarta fyrir allan peninginn. Eini leikmaðurinn sem hefur verið keyptur eftir tíð SAF sem hefði passað inní hugmyndafræði SAF. Never say die.
    Það er svo ljúft að slátra Arsenal :)

    2
  8. 8

    Karl Garðars says

    26. janúar, 2019 at 09:46

    Flottur leikur og þvílíkt run hjá okkar mönnum.
    Arsenal óheppnir að missa tvo lykilmenn út.
    Verð að segja að ég er ekki alveg sammála með Lukaku. Hann er kannski ekki alveg týpan sem maður vill sjá almennt sem fyrsta kost en þessi frammistaða og þessar stoðsendingar í gær voru úr efstu hillu. Hann sýndi mikla óeigingirni og þroska sem liðsmaður og við þurfum svona leikmenn eins og hann, Fellaini o.fl. til að geta breytt um taktík og verið ófyrirsjáanleg. Klúbburinn hefur efni á því og þá á að láta það eftir sér ef þessir leikmenn sætta sig við að koma af tréverkinu og berjast fyrir liðið.
    Það er eiginlega ekki hægt að velja mann leiksins því allir sem komu að leiknum, leikmenn og þjálfarar ættu skilið tilnefningu.
    Skyldu miðverðirnir hans Jose ætla að leysa vandann hjá okkur ásamt Matic, Herrera og blússandi sóknarbolta??
    Maður er eiginlega orðinn þrælspenntur að sjá hvernig liðið mun bregðast við mótlæti og það styttist vissulega í þessa erfiðu leiki.

    1
  9. 9

    Cantona no 7 says

    26. janúar, 2019 at 13:51

    Frábær sigur.
    Liðið er að spila betur og betur með hverjum leik,
    Lukaku með fínar stoðsendingar.
    Liðið er spila eins og Man. Utd. á að gera að spila sóknarbolta á
    móti öllum liðum og menn farnir að berjast fyrir hvern annan.

    G G M U

    3
  10. 10

    Tómas Freyr Kristjánsson says

    26. janúar, 2019 at 14:20

    Sturlaðasta stemmning sem ég hef upplifað… Þvílík upplifun á Emirates

    8
  11. 11

    Robert says

    27. janúar, 2019 at 00:48

    Ætla rett að vona að stjornin hja ykkur hugsi eins og Auðunn. Besta spilamennska siðan fergie hætti og hvað hefur reynslan i moyes van gaal og mourinho fært ykkur nema gratur. Auðvelt að segja að allir stjorar hefðu bætt liðið eftir storslysið sem mourinho var en breytingarnar eru meiri en allir attu von a undir ole.

    Kv fra liverpool byst við geggjuðum leik eftir nokkrar vikur og megi betra liðið vinna! :)

    4
  12. 12

    Robbi Mich says

    27. janúar, 2019 at 13:22

    Mér finnst þetta svo geggjað. Loksins loksins er maður orðinn spenntur fyrir leikjum aftur og kominn með sigurfiðring fyrirfram. Eftir mörg mögur ár er loksins kominn stjóri sem leggur leikinn upp með það að markmiði að skora mörk í stað þess að leggja leikinn upp að fá ekki mark á sig.

    Leikmenn og aðdáendur eru sáttir. Ég segi: Gefið Ole Gunnar sénsinn. Menn tala mikið um að reyna að fá Mauricio Pottechino en hann er ári eldri en Ole og með örlítið meiri þjálfarareynslu en ég tel að hugarfar Ole og sú staðreynd að hann þekkir klúbbinn inn og út sem lærisveinn SAF í yfir áratug sé margfalt mikilvægara en að fá Mauricio inn þó hann sé með meiri reynslu sem þjálfari liðs í ensku deildinni.

    3
  13. 13

    Njalli says

    28. janúar, 2019 at 08:27

    En að slúðrinu.. Getur einhver sagt mér hversvegna í andsk.. United er ekki á eftir þessum manni? Paris St-Germain’s France midfielder Adrien Rabiot has rejected Tottenham because the 23-year-old wants to join Liverpool instead

    Verður samningslaus í sumar, á frábærum aldri og frábær leikmaður.

    1
  14. 14

    gummi says

    28. janúar, 2019 at 12:48

    Veit einhver hvenar verður dregið í næstu umferð

    0
  15. 15

    Cantona no 7 says

    28. janúar, 2019 at 15:00

    Það verður dregið á BBC kl. 19.00 í kvöld

    2
  16. 16

    Helgi P says

    28. janúar, 2019 at 19:30

    það er bara chelsea Úti

    4

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Scaltastic um Mánuður af sumarfríi
  • Dór um Mánuður af sumarfríi
  • Sir Roy Keane um Mánuður af sumarfríi
  • Halldór Marteins um Mánuður af sumarfríi
  • Helgi P um Mánuður af sumarfríi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress