• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Meistaradeild Evrópu

Meistaradeildin heldur áfram að rúlla

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 3. nóvember, 2020 | Engin ummæli

Þá er komið að þriðju umferð í H riðli Meistaradeildarinnar þar sem tyrknesku meistararnir í Istanbul Başakşehir taka á móti Rauðu djöflunum heima í Tyrklandi. United trónir á toppi riðilsins með fullt hús stiga og +6 í markatölu eftir glæsilega sigra á PSG og RB Leipzig en Meistaradeildin virðist vera eini vígvöllurinn sem hentar United þessa stundina. Mótherjinn er sá sem á pappír gæti virst auðveldasta viðureignin en það hafa einmitt reynst erfiðustu bitarnir fyrir Ole Gunnar Solskjær og hans menn. Hvort þeim norska reynist erfitt að peppa menn upp í minni leikina eða leikmenn einfaldlega séu að ofmetnast/vanmeta andstæðinginn er álitamál en hitt er næsta öruggt að enginn leikur getur lengur talist skyldusigur fyrir United eins og liðið er að spila í dag.

 

Istanbul Başakşehir

En hverjir eru Istanbul Başakşehir og afhverju er talað um þá sem eina hötuðustu meistarana í Evrópu? Undir venjulegum kringumstæðum væri líklegt að fólk myndi fagna því að eitthvað annað lið frá Tyrklandi en stóru risarnir þrír, Galatasary, Beşiktaş og Fenerbahçe, myndi hampa titlinum en þessi lið hafa einokað titilinn í 35 ár að undanskildu tímabilinu 2009-10 þegar Bursaspor vann sinn eina deildartitil. En titill Istanbul Başakşehir er ekki fairytale saga undirmagnans gegn stóru liðunum eins og Leicester City undir Claudio Ranieri. Þvert á móti hefur liðið komist á toppinn með vafasömum hætti sem hefur valdið gremju meðal stuðningsmanna annarra liða í deildinni og jafnvel út fyrir landamærin.

Istanbul Başakşehir var stofnað árið 1990 en hét þá Istanbul Buyuksehir Belediyesi. Félagið varð til við samruna þriggja áhugamannaliða, þar á meðal ISIK ISK sem var í eigu vatnsveitufyrirtækis á vegum borgarinnar. Fyrrum borgarstjóri Istanbul hafði mikið með það að gera að félagið var sett á laggirnar og þá hefur félagið einnig beina tengingu við hinn umdeilda forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan, en liðið spilar einmitt í appelsínugulum og bláum búningum sem eru einkennislitir Rétt­læt­is- og þró­un­ar­flokk­sins (AKP) sem er flokkur Erdogans. Hann hefur heldur ekkert farið leynt með stuðning sinn við liðið enda gæti það reynst erfitt meðan að það hangir stærðarinnar mynd af honum á vellinum.

Öll þrjú fyrrnefndu stórveldin í tyrkneska boltanum eru staðsett í Istanbul og því myndu margir halda að nýtt lið gæti átt erfitt uppdráttar í borg sem hefur jafn rótgróinn fótboltaáhuga og lið með jafn dygga stuðningsmenn og Istanbul. Engu að síður tókst liðinu að vinna sig upp í atvinnumannadeild á fyrsta tímabilinu sínu og tók síðan einungis tvö tímabil að komast upp um deild aftur (voru þá komnir í næstefstu deild í Tyrklandi).

Helsti stuðningsaðili liðsins, Medipol, er ríkisrekið fyrirtæki og því eflaust ekki erfitt að yfirstíga áhugamannadeildina með slíkum stuðning og fjárveitingum. Hluti af gagnrýninni og óvinsældum liðsins í heimalandinu má einmitt rekja til þess að þarna er komið lið sem er styrkt af ríkinu sjálfu og borginni, semsagt með peningum skattgreiðenda sem eru í langflestum tilvikum stuðningsmenn annarra liða. Þá hefur liðið einnig fengið það umdeilda gælunafn, Erdogan FC, sem vísar í það að hér sé um að ræða gæluverkefni forsetans.

Í raun kristallaðist súrrealisminn í hugmyndinni þegar liðið var flutt á nýjan leikvang (Atatürk Olympic Stadium – sem tók þá ríflega 80.000 áhorfendur), allt á kostnað borgarinnar, þ.e. borgaríbúa. Á þessum tíma voru vanalega fleiri áhorfendur frá gestaliðinu á vellinum en stuðningsmenn heimamanna. Það að einhverjum hafi dottið í hug að lið í þriðju efstu deildinni í Tyrklandi þyrfti stærri leikvang en Old Trafford er höfundi óskiljanlegt en félagið flutti leiki sína árið 2014 á núverandi völl, Başakşehir Fatih Terim Stadium, sem tekur um 17 þúsund manns.

Liðið féll svo á sínu öðru tímabili og það tók Başakşehir tvær tilraunir að komast aftur upp og þá tók við áratugur í næstefstu deild. Liðið komst að lokum upp í efstu deild Tyrklands (Super Lig) árið 2007 og þrátt fyrir að hafa fallið 2013 komust þeir beint aftur upp og náðu fjórða sæti deildarinnar tímabilið 2013-14 og hafa ekki lent utan top4 síðan þá. Það hefur skilað þeim inn í Evrópudeildina og núna síðast Meistaradeildina en glöggir lesendur muna eflaust eftir því að Manchester United hefði geta lent á móti Başakşehir ef FCK hefði ekki lagt þá að velli í 16 liða úrslitum. Þeim hefur hins vegar ekki gengið vel í Evrópukeppnum og eru þessa stundina á botni riðilsins eftir tvo 2-0 tapleiki gegn PSG og RB Leipzig.

Með stuðnings stjórnvalda hefur liðinu tekist að trekkja að gamlar kempur eins og Emmanuel Adebayor, Gael Clichy, Demba Ba, Martin Škrtel og Edin Višća en þeir þrír síðustu spila enn með liðinu. Á sama tíma eru stóru þrjú félögin í bullandi mínus og hafa öll gerst sek um að brjóta FFP reglurnar á undanförnum árum. Başakşehir sá sér því leik á borði og nýtti vel vandræði stórveldanna og vann deildina í fyrsta sinn á síðasta ári og urðu þar með einungis sjötta liðið í sögu deildarinnar til að vinna hana frá stofnun hennar 1959.

Embed from Getty Images

Liðið er undir stjórn Okan Buruk, sem spilaði með Galtasaray, Besiktas og Inter Milan og á að baki fjölmarga leiki með landsliði Tyrkja. Hann hefur bara þjálfað lið í Tyrklandi en hann hefur spilað 4-1-4-1 í báðum Meistaradeildarleikjum sínum en hefur þó spilað önnur kerfi í deildinni, t.d. 4-2-3-1, 4-4-2 og 4-2-2-2. Hann er því óhræddur við að hrista upp í liðsuppstillingunni enda með marga leikmenn sem eru langt gengnir í fertugt og hafa ekki burði til að spila marga leiki í viku.

Ég býst við að hann haldi sig við 4-1-4-1 og liðið gæti litið út eitthvað á þessa leið:

34
M. Gunok
63
B. Bolingoli-Mbombo
6
A. Epureanu
37
M. Skrtel
4
Rafael
5
M. Topal
23
d. Turuc
17
I. Kahveci
10
B. Özcan
7
E. Visca
27
E. Crivelli

Helstu markaskorarar liðsins á síðustu leiktíð voru þeir Demba Ba og Edin Višća og búast má við að spil liðsins gangi mikið út á að boltinn rati í lappirnar á þeim.

 

Manchester United

Hvar á að byrja? Gengið á þessari leiktíð hefur verið hræðilegt ef miðað er við Úrvalsdeildina en hins vegar óaðfinnanlegt í Evrópukeppni. Liðið situr annars vegar í 15. sæti deildarinnar með 7 stig úr sex leikjum á meðan liðið hefur fullt hús stiga í H-riðli í Meistaradeildinni eftir sterkan útisigur á PSG og slátrun á RasenBallsport Leipzig þar sem Rashford skoraði sína fyrstu þrennu. En þess á milli tekst liðinu ekki að skora, hvorki gegn Chelsea né Arsenal. Þá virðist vera farið að hitna undir Ole Gunnar Solskjær og sérstaklega í ljósi þess að Mauricio Pochettino gaf það út á dögunum á SkySports að hann vildi ólmur komast aftur af stað í þjálfun og helst í ensku deildina.

Embed from Getty Images

Leikmenn United hafa verið langt frá sínu besta, að undanskildum þessum leikjum í Meistaradeildinni og nú er svo komið að þeir þurfa að stíga upp fyrir stjórann sinn því þeir hafa svo sannarlega ekki gert það síðan tímabilið byrjaði. Liðið getur með sigri í næstu tveimur Evrópuleikjum, sem báðir eru gegn Başakşehir, tryggt sig inn í 16-liða úrslitin en fyrir fyrstu umferðina var talið líklegast að United myndi verða það lið sem sæti eftir í riðlinum og færi í Evrópudeildina. Það væri þó eftir bókinni ef United myndi misstíga sig núna á þessu stigi enda má tæplega vanmeta andstæðinginn og lengi vel hafa ferðalög til Tyrklands reynst liðum í Meistaradeildinni erfið.

Hópurinn sem ferðaðist til Tyrklands í dag:

Markmenn: David de Gea, Dean Henderson og Lee Grant
Varnarmenn: Timothy Fosu-Mensah, Victor Lindelöf, Harry Maguire, Teden Mengi, Luke Shaw, Alex Tuanzebe, Aaron Wan-Bissaka og Brandon Williams.
Miðjumenn: Fred, Bruno Fernandes, Daniel James, Juan Mata, Nemanja Matic, Scott McTominay, Paul Pogba, Donny van de Beek.
Framherjar: Edinson Cavani, Mason Greenwood, Odion Ighalo, Anthony Martial og Marcus Rashford.

Liðsuppstillingin sem ég vil sjá:

26
Henderson
23
Shaw
38
Tuanzebe
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
31
Matic
17
Fred
34
van de Beek
18
Bruno
10
Rashford
9
Martial

Á meiðslalistanum eru þeir Jesse Lingard, Phil Jones, Eric Bailly og Alex Telles (vegna COVID) en Facundo Pellistri var skilinn eftir heima í Manchesterborg einnig. Miðað við hvernig Tuanzebe kom inn í leikinn gegn PSG yrði ég hissa á að sjá hann ekki í liðinu en hann átti hreint út sagt stórleik gegn frönsku meisturunum. Donny van de Beek þarf einnig að fá leiki en það er eins og hann fái ekki tækifæri sama hversu illa liðið spilar. Þá ætti Martial að hafa haft nægan tíma til að hugsa sinn gang og einbeita sér að Meistaradeildinni á meðan hann var í þriggja leikja banni í deildinni en ég vona innilega að þessir þrír fái tækifærið á morgun.

Rashford flakkar á milli þess að vera stórkostlegur og gjörsamlega heillum horfinn í leikjum en hugsanlega gæti hann haft gott af hvíldinni en Solskjær lætur samt tæplega sinn markahæsta mann sitja á bekknum í Tyrklandi. Hann átti þó magnaða innkomu gegn RB Leipzig og því ekki úr vegi að skoða aðra möguleika þar sem erfiður Everton leikur bíður okkar í deildinni.

Embed from Getty Images

David de Gea virðist hafa tvíelfst við að fá meiri samkeppni en Deano mætti mín vegna byrja þennan leik þó ég telji það ólíklegt. Alex Telles væri fullkominn í þennan leik en sökum faraldursins varð hann eftir í Manchester. Þá mega þeir Pogba og Maguire báðir setjast á tréverkið og leyfa vinnusemi og ákefðinni að skína sem þeir Tuanzebe og van de Beek hafa upp á að bjóða.

Ef liðið tekur 3 stig úr þessum leik, sem er alls ekki gefins, verður liðið í frábærri stöðu fyrir síðari hluta riðlakeppninnar og þyrfti að öllum líkindum bara 1 stig úr síðustu þremur leikjunum til að tryggja sig áfram. Meistaradeildin virðist vera eini vonarneisti og sólarglæta sem stuðningsmenn United hafa þessa stundina og vonandi tekst ekki Istanbul Başakşehir að slökkva á honum.

United hefur gengið frábærlega á útivöllum upp á síðkastið (ef frá er talinn leikurinn gegn Sevilla) og fara leikmenn liðsins eflaust inn í þennan leik fullir sjálfstraust eftir því. Síðar sama kvöld tekur RB Leipzig á móti PSG í leik sem gæti haft gríðarlega mikið um það að segja hvaða lið fara upp úr riðlinum. Bæði lið hafa 3 stig eftir 2-0 sigur gegn Istanbul Başakşehir og tap gegn United og það er vafalaust ekki í samræmi við væntingar liðanna um árangur í Meistaradeildinni að sitja með einungis 3 stig eftir fyrstu 3 leikina.

Leikurinn hefst 17:55 á morgun en dómari leiksins verður Davide Massa.

Efnisorð: Istanbul Başakşehir Meistaradeild Evrópu Ole Gunnar Solskjær 0

Reader Interactions

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Má bjóða þér að auglýsa

Síðustu ummæli

  • TonyD um Tvö ár Solskjær
  • Valdi um Tvö ár Solskjær
  • Erlingur um Liverpool 0:0 Manchester United
  • Tómas um Tvö ár Solskjær
  • Georg um Liverpool 0:0 Manchester United

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2021 · Keyrt á WordPress