• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Dýrlingarnir heimsækja Old Trafford

Daníel Smári skrifaði þann 1. febrúar, 2021 | Engin ummæli

Snúið verkefni bíður Manchester United þegar að Ralph Hasenhüttl og lærisveinar hans í Southampton mæta á Old Trafford á morgun, 2. febrúar – kl. 20:15.

Þá reyna okkar menn að rétta úr kútnum eftir brösugt gengi í síðustu tveimur leikjum gegn Sheffield United og Arsenal en þar tókst liðinu einungis að næla í eitt stig. Það þarf ekki að orðlengja um hvað okkur stuðningsmönnum finnst um þá stigasöfnun. Nú gefst United glimrandi tækifæri til að svara gagnrýnisröddum og halda sér sem næst toppliði Manchester City og agnarsmáu skrefi á undan Liverpool.

Vangaveltur og liðsfréttir

Eftir gríðarlega svekkjandi jafntefli á Emirates er nauðsynlegt að sækja þrjú stig í þessum leik. Sama með hvaða hætti það er gert. Líklega er kominn tími á eitt vafasamt Bruno víti … langt síðan síðast. Öfugt við Sheffield United leikinn þar sem að illa gekk að skapa færi að þá fékk United algjör dauðafæri til að klára Arsenal. Mislagðir fætur Cavani og frábærar vörslur Bernd Leno komu í veg fyrir að við yrðum óþolandi á Twitter. Maður fær það á tilfinninguna að þetta sé stífla sem þurfi að losa um á einn eða annan hátt og þegar það loksins gerist að þá fáum við markaveislu.

Við þekkjum það af eigin reynslu hversu erfitt þetta Southampton lið er, eftir að hafa stolið sigrinum með frábærri endurkomu á St. Mary’s í fyrri leik liðanna. Í síðustu heimsókn Dýrlinganna þá fengum við jöfnunarmark í andlitið á 96. mínútu þegar að Michael Obafemi nýtti sér afleita dekkningu United í síðustu hornspyrnu leiksins og laumaði sér á fjærstöngina til að pota boltanum yfir línuna. Ole Gunnar var full pragmatískur í sinni nálgun gegn Arsenal og það myndi gleðja stuðningsmenn ægilega mikið ef að hann stillti upp sókndjörfu liði annað kvöld. Einungis tveir leikmenn eru á meiðslalista liðsins en það eru þeir Scott McTominay og hinn eldhressi Phil Jones. McTominay þurfti að yfirgefa völlinn snemma í síðasta leik vegna magakrampa og ólíklegt að hann taki þátt gegn Southampton.

Það taka kannski glöggir lesendur eftir því að Marcos Rojo er ekki lengur á meiðslalista United, en hann er hársbreidd frá því að snúa aftur til Argentínu og ganga til liðs við Boca Juniors. Þá er 7 (!) ára ferli Rojo hjá United lokið. Þá hefur liðið verið duglegt að lána leikmenn út í janúarglugganum. Þar ber helst að nefna Jesse Lingard til West Ham, Facundo Pellistri til Deportivo Alavés og Tahith Chong hefur yfirgefið Werder Bremen og gengur til liðs við Club Brugge á láni nr. 2 út tímabilið. Gangi þeim allt í haginn!

Fílbeinsstrendingurinn ungi, Amad Diallo, byrjaði heldur betur frábærlega með U-23 ára liði United þegar hann skoraði tvívegis í 6-3 sigri á erkifjendunum í Liverpool. Hann leit afar vel út í leiknum og líklega aðeins of góður fyrir þetta þrep. Það væri skemmtilegt að sjá hann í hópnum en það er líkast til bara óskhyggja. Mason Greenwood spilaði bara 10 mínútur gegn Arsenal svo að hann er óþreyttur og gæti byrjað á hægri kantinum. Annar sem verður sennilega óþreyttur í lok tímabils er Hollendingurinn Donny van de Beek. Eftir að hafa spilað vel gegn Liverpool fékk hann 7 mínútur gegn Sheffield United og kom ekki inná í síðasta leik. Það var Edinson Cavani sem leiddi United til sigurs á St. Mary’s og þrátt fyrir að hann hafi byrjað gegn Arsenal þá spái ég honum byrjunarliðssæti á morgun.

Líklegt byrjunarlið Man Utd:

1
De Gea
23
Shaw
5
Maguire
3
Bailly
29
Wan-Bissaka
6
Pogba
17
Fred
10
Rashford
18
Fernandes
11
Greenwood
7
Cavani

Mótherjinn

Gengi gestanna hefur verið slakt í síðustu fimm leikjum en liðinu hefur einungis tekist að vinna einn af þeim og það var gegn Liverpool. Þeir hafa skorað lítið sem ekkert og það reynist gjarnan erfitt að vinna fótboltaleiki þegar það er raunin. Southampton þarf sárlega á því að halda að fá markahrókinn Danny Ings í gang en hann spilaði lykilhlutverk þegar liðinu gekk sem best í upphafi tímabils. Hann hefur skorað 7 mörk í deildinni en sigurmark hans gegn Liverpool er hans eina í síðustu 7 leikjum. Aðrir leikmenn sem ber að varast eru aukaspyrnusérfræðingurinn James Ward-Prowse og hinn eldsnöggi Che Adams. Ward-Prowse skoraði og lagði upp í fyrri leik þessara liða – sælla minninga!

Ralph Hasenhüttl hefur verið án danska miðvarðarins Jannick Vestergaard síðan um jólin og hann verður ólíklega með í þessum leik. Vestergaard hefur verið stór partur af uppgangi liðsins en hann og Jan Bednarek hafa myndað gott samstarf í hjarta varnarinnar. Þá eru Oriol Romeu, Kyle Walker-Peters og Theo Walcott allir tæpir. Romeu er þó ekki útilokaður. Ég fagna ekki meiðslum andstæðingsins en ég væri feginn ef að liðið þyrfti ekki að mæta Romeu. Hann er grófasti leikmaður deildarinnar og það er með hreinum ólíkindum hversu oft hann hefur sloppið við reisupassann, miðað við tæklingar og seinleika.

Southampton mátti sætta sig við 0-1 tap á heimavelli í síðasta leik gegn Aston Villa en bæði lið eru í baráttu um Evrópusæti. Þar taldi Danny Ings sig hafa jafnað leikinn á 93. mínútu en VAR hélt aldeilis ekki. Hendi Ings var fyrir innan og því rangstæður. Grátleg niðurstaða og gestirnir koma því særðir á Old Trafford. Því þarf að mæta af festu og miskunnarleysi.

Líklegt byrjunarlið Southampton:

1
McCarthy
3
Bertrand
35
Bednarek
5
Stephens
18
Valery
17
Armstrong
6
Romeu
8
Ward-Prowse
11
Redmond
9
Ings
10
Adams

Spá

Það er ekkert lát á bjartsýni hjá okkur þrátt fyrir vonbrigði undanfarið. Öruggur 2-0 sigur og ekkert múður. Við þurfum eitthvað gott í hjartað. Áfram Manchester United!

0

Reader Interactions

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Turninn Pallister um Mánuður af sumarfríi
  • Arni um Mánuður af sumarfríi
  • Halldór Marteins um Mánuður af sumarfríi
  • Helgi P um Mánuður af sumarfríi
  • Scaltastic um Mánuður af sumarfríi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress