• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Meistaradeild Evrópu

Manchester United 3:2 Atalanta

Halldór Marteins skrifaði þann 20. október, 2021 | 10 ummæli

Það hafa sjálfsagt ansi margir verið búnir að reka Solskjær þegar Manchester United gekk inn í búningsklefa í hálfleik tveimur mörkum undir og í neðsta sæti F-riðils. En frábær endurkoma í seinni hálfleik þýðir að Manchester United er í efsta sæti riðilsins þegar riðlakeppnin er hálfnuð. Áfram er spurningamerki um ýmislegt í spilamennsku liðsins og uppleggi en sem knattspyrnuáhugamaður og United-stuðningsmaður þá getur maður ekki annað en glaðst á svona kvöldi. Sjáum svo bara til hvað gleðin endist lengi í þetta skiptið.

Byrjunarliðið

Solskjær ákvað að setja sitt traust á Ronaldo í þessum leik frekar en Cavani en Paul Pogba fékk sæti á bekknum. Fyrirliðinn Harry Maguire var áfram í liðinu eftir vafasama frammistöðu gegn Leicester um helgina. Þetta var byrjunarlið Manchester United í leiknum:

1
de Gea
23
Shaw
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
17
Fred
39
McTominay
10
Rashford
18
Fernandes
11
Greenwood
7
Ronaldo

Bekkur: Henderson, Alex Telles, Bailly, Dalot, Lingard, Mata, Matic, Pogba, van de Beek, Cavani, Elanga, Sancho.

Gestirnir stilltu svona upp:

1
Musso
6
Palomino
28
Demiral
15
de Roon
3
Maehle
11
Freuler
7
Koopmeiners
77
Zappacosta
88
Pasalic
9
Muriel
72
Ilicic

Bekkur: Rossi, Sportiello, Pezzella, Malinovsky, Scalvini, Miranchuk, Lovato, Zapata, Piccoli.

Skiptingar:

Gestirnir þurftu að gera miðvarðaskiptingu í hálfleik þegar Tyrkin Demiral fór af velli fyrir hinn unga Lovato. Demiral hafði verið mikið í því að þjösnast á leikmönnum United og komist upp með ansi áhugaverðan varnarleik á köflum. Það hefur sjálfsagt munað ansi miklu fyrir gestina um að missa hann út.

Á 56. mínútu fór sóknarmaðurinn Luis Muriel af velli fyrir Duván Zapata. Sóknarmaður fyrir sóknarmann, sennilega bara til að hvíla Muriel sem hefur verið að jafna sig af meiðslum.

Á 66. mínútu gerði Solskjær tvöfalda skiptingu til að reyna að fríska enn meira upp á sóknarleik Manchester United. Pogba og Cavani komu þá inn á fyrir McTominay og Rashford.

Atalanta svaraði því 2 mínútum síðar með því að setja ferskar lappir inn á. Miranchuk og Malinovskyi komu inn á fyrir Ilicic og Pasalic.

Á 73. mínútu gerði Solskjær aðra skiptingu þegar Sancho kom inn á fyrir Greenwood. Aðeins 2 mínútum síðar jafnaði Harry Maguire leikinn. Sancho kom ekki beint að því marki en innkoma hans skemmdi í það minnsta ekkert fyrir.

Atalanta gerði eina skiptingu til viðbótar, á 80. mínútu kom Guiseppe Pezzella inn á fyrir Teun Koopmeiners. Síðasta skipting leiksins var hins vegar frá Solskjær sem setti Matic inn fyrir Fred í lokin til að halda forskotinu. Það virkaði.

Leikurinn sjálfur

Þetta var mjög skrýtinn fyrri hálfleikur. Hann byrjaði fjörlega, var endanna á milli fyrst um sinn og bæði lið virtust ætla að sækja. Atalanta datt þó niður í varnarvegg, hélt ákefðinni nokkuð vel í varnarleiknum en keyrði svo á fjölmennum skyndisóknum þegar færi gafst.

Gestirnir fóru með verðskuldaða 2-0 forystu í hálfleikinn jafnvel þótt Manchester United hefði fengið færi til að skora nokkur mörk. Mörk Atalanta voru í og með flottu uppleggi þeirra í skyndisóknum og áframhaldandi andleysi í varnarleik United að kenna.

Fyrra markið kom eftir korters leik. Af einhverjum ástæðum hafði það spilast þannig fram að því að Ronaldo var meira úti á kantinum vinstra megin og Rashford fremsti maður. Það olli því að þegar Atalanta sótti þá vantaði stuðning á vinstri kantinum fyrir Shaw. Það er ekki eitthvað sem hefði átt að koma á óvart í leik gestanna að þeir eigi það til að fjölmenna í því að keyra upp kantana til að reyna að skapa liðsmun, það er eitthvað sem þeir gera oft. Þarna kom það þeim vel þar sem gamli Chelsea-maðurinn Davide Zappacosta fékk boltann eftir overlap og dúndraði boltanum fyrir. Mario Pasalic hafði tekið hlaup af miðjunni og var kominn innfyrir alla vörn United. Því miður var hann þó fyrir aftan boltann þegar fyrirgjöfin kom og því ekki rangstæður. McTominay var sá eini sem hafði fylgt honum en náði honum ekki þegar boltinn kom fyrir og Pasalic skoraði alltof þægilega.

Embed from Getty Images

United svaraði því þó nokkuð vel fram á við. Mér fannst ágætis flæði í spili liðsins á köflum og United nýtti sér líka miðjumannshlaup inn í teig með fínum árangri í færasköpun þótt ekki hafi tekist að slútta þeim færum. Þá fékk Rashford góð tækifæri til að skora og hefði algjörlega átt að skora 1-2 mörk í fyrri hálfleik. Vonum að það sé leikformið sem hafi verið aðalsökudólgurinn þar.

En í staðinn fyrir að United myndi nýta þennan fína kafla til að jafna voru það gestirnir sem náðu að skora aftur. Annað ótrúlega einfalt mark. Hornspyrna. Maguire sofandi. Miðvörðuinn Merih Demiral aleinn og skallaði af rúmlega metersfæri í markið. Bæði mörkin voru gjörsamlega óverjandi fyrir de Gea en eitthvað sem liðið sjálft hefði getað varist betur. Það virkaði bara eins og það væri ekki nógu vel kveikt á mönnum. Ekki nógu gott.

Embed from Getty Images

Rashford átti sláarskot í fyrri og í upphafi seinni hálfleiks komst Ronaldo einn gegn markverði en setti boltann beint í markmanninn. Átti þetta bara að vera eitt af þessum kvöldum þar sem ekkert gengi almennilega upp?

En þá kom fyrsta mark Manchester United. Það kom eiginlega ekki upp úr neinu en samt var það svo listilega vel gert. Sóknarmaðurinn Josip Ilicic, sem hafði bókstaflega hent sér fyrir langskot hjá Rashford í fyrri hálfleik til að verja það, ætlaði þá að gefa til baka inn í varnarlínu Atalanta sem var komin mjög hátt upp völlinn. Sendingin gekk ekki betur en svo að hún lenti bent á Bruno Fernandes. Bruno var fljótur að hugsa og sendi flotta stungusendingu inn fyrir vörnina í fyrsta, beint á Dr. Marcus Rashford MBE. Rashford kom sér í þrönga stöðu vinstra megin á vellinum í vítateig Atalanta en gerði gríðarlega vel í að sveigja upp á líkamann og leggja boltann óverjandi í markið rétt út við fjærstöngina. Hann var búinn að klúðra nokkrum mikið betri færum en þarna sýndi hann svo sannarlega hvað hann getur. Stórgott mark í hans 6. marktilraun í leiknum.

Embed from Getty Images

Þarna var almennilegt líf komið í Manchester United, loksins loksins. Scott McTominay átti frábært hlaup inn að nærstönginni en náði því miður ekki að stýra fyrirgjöf annað en í stöngina. United hélt áfram að eiga tilraunir en náði ekki beint að nýta þær. Hinum megin þurfti de Gea að minna á sig með því að éta tvö dauðafæri frá gestunum og halda United áfram inni í leiknum. Þvílík gleði að hann sé aftur að finna sitt alvöru form.

Það er mikið búið að gagnrýna Harry Maguire síðustu daga. Réttilega, hann var hrikalegur gegn Leicester og átti að gera betur í það minnsta í seinna markinu núna í kvöld. Það var því afskaplega skemmtilegt fyrir okkur á Maguire-vagninum (#Maguirevagninn) þegar fyrirliðinn okkar poppaði upp með jöfnunarmark. Eftir hornspyrnu náði Atalanta ekki að hreinsa boltann almennilega og United hélt pressunni. Eftir fyrirgjöf barst boltinn af Cavani yfir á fjær þar sem Maguire lúrði aleinn og lúðraði boltanum í fyrsta í nærhornið, gjörsamlega óverjandi fyrir Musso í marki Atalanta. Frábærlegt slútt.

Embed from Getty Images

Það er vert að minnast á hversu líflegur Old Trafford var, sérstaklega í seinni hálfleik. Eftir að hafa baulað á leikmenn á leið inn í klefann í hálfleik þá sýndu þeir mikinn stuðning í verki í seinni hálfleik með miklum söng og látum. Það hefur örugglega hjálpað liðinu að halda uppi meira tempói og betri ákefð en liðið sýndi í fyrri hálfleik.

Svo kom sigurmarkið. Og það var ekki frumlegasti markaskorarinn í heimi sem poppaði upp til að skora það mark. Eftir aðra hornspyrnu sem Atalanta náði ekki almennilega að hreinsa barst boltinn út á vinstri kantinn á Luke Shaw. Hann var utarlega en leit upp og sá Ronaldo í teignum. Kom svo með þessa líka frábæru fyrirgjöfina sem var fullkomin fyrir hástökk frá Ronaldo. Skalli í fjær og 3 stig í höfn. Alvöru viðsnúningur!

Embed from Getty Images

Staðan í riðlinum og framhaldið

Staðan í riðlinum er þá góð en hún getur verið ansi fljót að breytast. Manchester United er í efsta sæti en það eru aðeins 3 stig í liðið sem er í neðsta sæti. Framundan í riðlinum eru tveir erfiðir útileikir, fyrst hjá Atalanta og svo á Spáni. Síðasti leikur riðilsins verður svo heimaleikur gegn Young Boys í desember.

Framundan í deildinni eru hins vegar leikir gegn flestum stóru liðunum. Fyrst er það leikur gegn Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn.

Það var einmitt eftir arfaslakt og sannfærandi tap gegn Liverpool sem Mourinho missti starfið sitt. Ef leikurinn í kvöld hefði endað með tapi þá hefðu sömu örlög líklega getað beðið Solskjær. En það er spurning hvað hann á inni núna.

Efnisorð: Cristiano Ronaldo Harry Maguire Marcus Rashford 10

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Helgi P says

    20. október, 2021 at 18:25

    Hvernig geta fred og scott og maguire byrjað nánast alla leiki eftir þessar frammistöður á tímabilinu þessi stjóri verður að fara

    5
  2. 2

    Gummi says

    20. október, 2021 at 18:49

    Okkur verður slátrað

    4
  3. 3

    Zorro says

    20. október, 2021 at 19:32

    Skelfilegt…..nù hlìtur Ole að fara sjálfur😞😞😞

    3
  4. 4

    Dór says

    20. október, 2021 at 19:33

    Það best fyrir þennan trúð að koma sér í burtu

    3
  5. 5

    Hallmar says

    20. október, 2021 at 20:47

    Er hann ole að reyna tapa þessu með því að setja hann Matic inná

    0
  6. 6

    Þorsteinn says

    20. október, 2021 at 20:57

    Kræst, þvílík endurkoma loksins líf og fjör – aðeins of taugatrekkjandi að halda með þessu liði.

    5
  7. 7

    Scaltastic says

    21. október, 2021 at 02:19

    Frábær frammistaða í seinni hálfleik og bráðnauðsynlegur sigur. Ekki veitti af eftir 5. flokks varnarleik, enn fokking einu sinni. Eftir fíaskóið á laugardaginn þá er fáranlegt að fá á sig tvö mörk úr „dauðu“ play-i. Það er orðið löngu tímabært að fyrirliðinn fari að gjöra svo vel að tala við/stýra vörnina sína. Afgreiðslan hjá honum var hins vegar frábær… Hrein rist, gef honum það :)

    Nú bíður bara hið fróðlega verkefni á sunnudaginn að halda einum ágætum Þjóðverja uppteknum á hliðarlínunni við að nöldra, nöldra og nöldra ögn meir. 0-0 væri draumur í dós, óraunhæft að vísu en það sakar ekki að vera óhóflega bjartsýnn öfugt vanalega.

    1
  8. 8

    Robbi Mich says

    21. október, 2021 at 09:54

    Langar bara að benda tuðurunum á að árið 2012, með Sir Alex Ferguson sem líklega er besti knattspyrnustjóri sögunnar í brúnni, lendir Man Utd tveimur mörkun undir á móti Braga í Meistaradeildinni.

    Liðið vinnur 3-2. Sagan endurtekur sig. Gefum Ole tíma. Hann er að læra. SAF þurfti 6 ár að byggja upp sitt lið. Ole er á þriðja ári.

    3
  9. 9

    Steve Bruce says

    21. október, 2021 at 10:37

    SAF tók ekki beinlínis við liði sem var hátt metið á þeim tíma. Urðu vissulega í 4. sæti vorið 1986 en stóru nöfnin voru ekki að hugsa um Old Trafford áður en þeir fóru að sofa á kvöldin. Ole Gunnar hefur fengið að eyða ævintýralegum peningum. Nú er svo komið að afturliggjandi miðjumaður er í raun eina staðan á vellinum sem með sanni má segja að núverandi leikmenn í þeirri stöðu hafi ekki getu til að spila með liðinu (Matic, Fred, McTominay (sá síðastnefndi góður squad player þegar hann er heill)). Þessi hópur er þannig skipaður að ef andstæðurinn skorar 3 mörk ætti Man.Utd að gera 4 mörk. Sköpunin fram á við undanfarið hefur hinsvegar verið ævintýralega lítil miðað við gæðin sem við vitum að miðju- og framherjar búa yfir.
    Þess vegna blæs ég á að Ole þurfi meiri tíma. Hann tók við árið 2018.

    4
  10. 10

    Hjöri says

    21. október, 2021 at 21:04

    Eiga menn ekki bara að taka því rólega á lyklaborðinu þar til leik er lokið, og koma þá með allar svívirðingarnar ef tilefni er til. Áfram Ole.

    2

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Dór um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Tony D um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Sindri um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Scaltastic um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • SHS um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress