Réttast að gleyma eða loksins komin næg fjarlægð til að rifja upp? Síðastliðið tímabil hjá Manchester United var, miðað við endanlegt sæti í deild, það versta í hálfa öld. Rauðu djöflarnir hafa undanfarnar vikur sleikt sárin og eru að rísa upp við byrjun nýs tímabils. En fyrst þurfti ritstjórnin að gera upp það versta – og það skásta – frá síðustu leiktíð.
Hrólfur Eyjólfsson:
Besti leikmaður tímabilsins (sem ekki er Bruno)? Amad er sennilega sá eini sem kemur til greina fyrir utan Bruno. Ég er ekki viss um hver er besta staðan hans en honum verður sennilega spilað þegar hægt er.
Fallegasta markið? Sigurmark Amad gegn City – en það er ekki úr mörgum að velja.
Augnablik tímabilsins? Tvöfaldi klobbinn hjá Zirkzee á Saliba í bikarnum á Emirates.
Besti leikur? 7-0 sigurinn á Barnsley gaf mér vonina um að þetta væri á leið í rétta átt
Versti leikur? Of margir lélegir leikir á þessu tímabili. Ég hallast annað hvort að tapinu gegn West Ham, sem varð til þess að ten Hag var rekinn, eða gegn Wolves á annan í jólum.
Stjóri ársins? Marc Skinner, þjálfari kvennaliðsins. Kom þeim í Meistaradeildina og annan bikarúrslitaleikinn í röð.
Þinn dómur um tímabilið? Þetta var erfitt og pirrandi tímabil, en það gerist þegar tvisvar er ráðist í umbyltingar á leikmannahópi og leikstíl á einu tímabili. Vonandi er eina leiðin upp á við eftir þessa skelfingu en það þarf þolinmæði til að byggja þetta lið nánast frá grunni.
Björn Friðgeir Björnsson
Besti leikmaður tímabilsins (sem ekki er Bruno)? Noussair Mazraoui
Fallegasta markið? Amad gegn City.
Augnablik tímabilsins? Sigurinn á Lyon.
Besti leikur? Sigurinn á Lyon.
Versti leikur? Tapið fyrir Tottenham í úrslitum Evrópudeildarinnar.
Stjóri ársins? Hjá okkur??
Þinn dómur um tímabilið? Það er nauðsynlegt að gleyma því sem fyrst og horfa fram á veginn. Þetta bara gerðist ekki. Allar líkur eru á að við náum í það minnsta að skora meira næsta vetur og ef það gerist þá verður þetta skárra. En það er hollt og gott að fá áminningu um að árangur er ekki sjálfgefinn. Kannski læra nógu margir í klúbbnum af því.
Zunderman
Besti leikmaður tímabilsins (sem ekki er Bruno)? Noussair Mazraoui. Kannski því hann fór fram úr væntingum, hann var alltaf meiddur hjá Bayern og kom þess vegna ódýrt. En síðan var þetta traustur og vel spilandi varnarmaður.
Vil líka nefna Diego Dalot. Alltaf til taks og spilaði miklu meira en eðlilegt hefði getað talist, sem trúlega kom aðeins niður á hans leik.
Fallegasta markið? Kobbie Mainoo gegn Lyon. Snyrtilegt spil og yfirvegað skot. Eftir þetta vonaði ég að hann yrði framherji út tímabilið, meðal annars í þeirri trú að liðið myndi halda boltanum betur.
Augnablik tímabilsins? Skallinn hjá Harry. Jafnvel 2-4 undir trúði ég. Eftir að Kobbie skoraði var ég orðinn sigurviss.
Besti leikur? Lyon leikurinn er leikurinn sem munað verður eftir því hann vannst. Leikirnir gegn Bilbao voru traustir því andstæðingurinn var góður. 4-0 sigurinn gegn Everton var leikurinn þar sem allt gekk upp.
Versti leikur? Tapið gegn Tottenham, dauf frammistaða gegn ómerkilegum mótherja. Spurs hafði í vor þorið til að gera það sem við gerðum ekki í fyrra, að reka þjálfara þrátt fyrir bikar.
Wolves um jólin. Það voru einhverjar vonir um að liðið myndi rétta við undir nýjum þjálfara gegn liði í fallbaráttunni en svo var bara enginn heima og Bruno rekinn út af.
Heimaleikurinn gegn Tottenham. Tímabilið átti að vera nýtt upphaf, en svo var bara hlaupið í gegnum vörnina hjá okkur, meira að segja áður en Bruno var rekinn út af.
Stjóri ársins? Ruud van Nistelrooy. Eini sem náði því mesta út úr mannskapnum og miðaði alla sína vinnu við það.
Þinn dómur um tímabilið? Ég var á þeirri skoðun að undirliggjandi tölfræði í deildinni þýddi að reka ætti Erik ten Hag, þrátt fyrir bikarsigur. Ég óttaðist að um leið og leikur tapaðist yrði aftur byrjað að tala um að hann ætti að fara. Því miður var það rétt. Það versta var að hann fékk sumarið og leikmenn voru keyptir inn miðað við hans leikstíl. Síðan kemur Ruben með annan leikstíl og þarf öðruvísi leikmenn. Þetta eru dýr mistök í tímum og peningum.
Þess vegna trúði ég að rétt væri að ráða pragmatískan stjóra eins og Thomas Frank, sem ár eftir ár hefur náð miklu meira út úr liðinu en laun leikmanna segja til um. Ruben er hins vegar ákveðinn hugsjónamaður en það vantaði mikið upp á hópinn fyrir hann. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Magnús Þór Magnússon
Besti leikmaður tímabilsins (sem ekki er Bruno)? Það er erfitt að nefna ekki Amad Diallo sem næstbesta leikmann tímabilsins. Á þessu tímabili vonbrigða og lágra dala voru ekki margir sem litu vel út. Amad stóð allt fyrir sínu og var öflugur hvort sem hann spilaði sem vængbakvörður eða sóknartengill. Hlakka mikið til að sjá hvað hann gerir næsta tímabil.
Fallegasta markið? Samspil Lisandro og Martínez og Amad gegn City var frábært. Hnitmiðuð sending Licha yfir varnarlínu City og stórkostleg móttaka Amad og svellköld afgreiðsla í kjölfarið. Skemmir heldur ekki fyrir að gera þetta gegn erkifjendunum.
Þrumufleygur Casemiro gegn Leicester fær svokallað „honorable mention.“
Augnablik tímabilsins? Ég hreinlega get ekki nefnt annað en sigurmark Harry Maguire gegn Lyon. Þvílík dramatík og gleði sem hefur vantað í langan tíma hjá Manchester United. Evrópukvöldin á Old Trafford hafa oft mikinn sjarma og það er grátlegt að sitja hjá næsta tímabil.
Besti leikur? Frammistöðulega var það klárlega seinni leikurinn gegn Athletic Club. Það var einhver töfraára yfir liðinu í þeim leik og nánast allir áttu góðan leik. Minnisstæðust var frammistaða Mason Mount, sérstaklega seinna mark hans í leiknum. En því náði United ekki að fylgja þessu eftir eins og svo oft á tímabilinu.
Dramatískasti leikurinn var seinni leikurinn gegn Lyon. United virtust ætla að sigla þessu í höfn með 2:0 sigri en tossaskapur liðsins hjálpaði gestunum að komast í framlengingu. Og það hætti ekki þar en Lyon tókst að komast í 2:4 forystu gegn ótrúlega vanvirku United liði. En á einhvern ótrúlegan hátt tókst United að snúa taflinu við í uppbótartíma og vinna 5:4 sigur.
Versti leikur? Hversu sorglegt er það að þessi flokkur býður upp á flestu möguleikana? Það væri hægt að nefna slæm töp í deildinni en þar var af nógu að taka. Frammistaðan í deildarbikarnum og enska bikarnum var heldur ekki uppá marga fiska. En það er einn sem er verstur og á afdrifaríkasta hátt.
Úrslitaleikurinn gegn Tottenham í Evrópudeildinni hlýtur að vera verstur. Tapið þýddi að United kæmist ekki í Meistaradeild Evrópu eða neina aðra Evrópukeppni. Fjárhagslegt tjónið á eftir að koma betur í ljós, það er að segja áhrifin sem það mun hafa á félagaskiptagluggann og næsta tímabilið í heild. Að tapa gegn þessu lélega Tottenham liði í einum leiðinlegasta leik tímabilsins var ófyrirgefanlegt.
Stjóri ársins? Tímabilið hófst hjá ten Hag eftir bikarsigurinn í fyrravor, hann fékk að eyða töluverðum fjármunum í að styrkja liðið en bikarsigurinn var frávik og honum var sparkað í október. Líklega hefði hann átt að fjúka fyrr.
Ruud van Nistelrooy kom heim sem aðstoðarmaður ten Hag í fyrra sumar. Hann varð síðan staðgengill og liðið sýndi ágæta takta hjá honum.
Rúben Amorim er þá þriðji kandídatinn. Hann hefur þótt einn mest spennandi ungi þjálfari Evrópu og Sporting liðið hans var bæði það besta í Portúgal og skemmtilegt að horfa á. En hann vill spila 3-4-2-1 og er ekki sveigjanlegur með það. Hann var aldrei með rétta mannskapinn í það og allur tíminn fór í að venja menn við kerfið. Það er erfitt að dæma hann á tímabilinu, bæði því hann hafði aldrei sitt sterkasta lið og framherjarnir voru hörmung. Ég vel hann því ég held að í honum búi eitthvað sem ég hef ekki séð hjá stjóra United lengi.
Þinn dómur um tímabilið? Tímabilinu á undan lauk með bikarsigri en skammarlegri stöðu í deildinni. Ratcliffe og félagar tóku sér langan tíma í að veita ten Hag áfram traustið.
Liðið átti svo margar lélegar frammistöður á tímabilinu og það er erfitt að nefna einstaka leiki því það var nánast ekkert sem var að ganga. Markaskorunin var bara ekki til. Vesalings Rasmus Höjlund veldur því engan vegin að skora né Joshua Zirkzee þótt sá síðarnefndi geti spilað fótbolta. Marcus Rashford og Antony voru lánaðir út en bara sá síðarnefndi stóð sig en hann smellpassaði í Real Betis liðið.
Bikarkeppnirnar voru vonbrigði og leiðinlegt að komast ekki í stöðu til að verja titilinn og tryggja einhverskonar þátttöku í Evrópu.
Ljósasti punkturinn var þá þátttakan í Evrópudeildinni og fram að úrslitaleiknum var United eina liðið sem ekki hafði tapað leik. En það kom svo gegn Tottenham í drepleiðinlegum leik. Enn og aftur var markaskorunin vandamál og klárlega mistök þjálfarans að gera ekki breytingar töluvert fyrr í leiknum.
Heilt yfir fær tímabilið falleinkunn og gífurlega mikilvægur sumargluggi framundan þar sem ekki þarf bara að kaupa rétt heldur einnig að selja rétt.
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri í þessari samtalsmeðferð? Það er búið að rita margt neikvætt um Manchester United bæði á síðasta tímabili og vikurnar á eftir. Það gefur samt jákvæð fyrirheit að sjá leikmennina sem United er að sækja. Matheus Cunha var kláraður mjög snemma og mun klárlega bæta liðið og smellpassa í þetta tveggja sóknartengla kerfi Amorim. Bryan Mbeumo frá Brentford hefur verið stöðugt besti leikmaður Lundúnafélagsins en hann getur spilað á hægri kanti og einnig sem hægri sóknartengill. Vissulega vantar framherja og minnst tvo miðjumenn. Mikið er talað um markverði en það ætti ekki að vera forgangsstaða í þessum glugga þó svo að vissulega sé Onana varla líklegur til að vera framtíðarmarkvörður Manchester United. Við bíðum enn.
Skildu eftir svar