• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Meistaradeild Evrópu

Meistaradeildin snýr aftur! Galatasaray í heimsókn á morgun.

Björn Friðgeir skrifaði þann 18. september, 2012 | 6 ummæli

Loksins er runninn upp stundin sem við höfum beðið eftir frá því að skelfilegri riðlakeppni Meistaradeildarinnar lauk í fyrra. Þrátt fyrir að vera í þokkalega léttum riðli tókst okkur ekki að vinna nema tvo leiki og lentum í þriðja sæti eftir tap gegn Basel í síðasta leik. Skuldinni má að hluta skella á meiðsli en einnig er ljóst að Sir Alex tók allt of létt á keppninni og ætlaði að vinna þetta með vinstri, hvíldi leikmenn of mikið og því sem fór.

Það hefur verið alveg ljóst síðan þá að ekki á að gera sömu mistök í ár. Enn eitt árið fáum við alveg fínan drátt, við mikinn fögnuð samsæriskenningasmiða og enn verðum við að segja að United á hiklaust að komast upp úr riðlinum og gera má kröfu um að vinna hann. Eitt sem skaut mönnum skelk í bringu þegar deildarleikjaplanið kom var að við áttum útileiki við Liverpool, Newcastle, Chelsea og Manchester City helgina á eftir Meistaradeildarleikjum. Drátturinn varð okkur síðan það hagstæður að það er aðeins Newcastle leikurinn sem fylgir í kjölfar útileiks og því ekki ferðalögin til að þreyta okkur.

Fyrsti leikurinn í Meistaradeild Evrópu er sem sagt á morgun þegar Galatasaray AŞ kemur í heimsókn á Old Trafford í þriðja skipti. Fyrir þá stuðningsmenn United sem komnir eru um og yfir þrítugt fylgja þessu nafni slæmar minningar. Haustið 1993 fékk Manchester United loksins tækifæri til að reyna sig í Evrópukeppni meistaraliða í 24 ár og reyndar var það annað árið sem keppnin bar hinn nýja titil ‘Meistaradeild Evrópu’. Honved var sigrað í fyrstu umferð og síðan beið Galatasaray. Það sem menn héldu yrði auðvelt varð það síður en svo. Í fyrri leiknum rétt náðu United 3-3 jafntefli með jöfnunarmarki Eric Cantona á 80. mínútu eftir að United hafði komist í 2-0 eftir kortér.

Í geðveiku andrúmslofti á gamla Ali Sami Yen vellinum náði Galatasaray síðan að halda 0-0 jafntefli í seinni leiknum, leik sem við fjöllun nánar um í upphitun fyrir útileikinn. United féll þannig úr keppni við mikil vonbrigði.

Árið eftir mættust liðin aftur, nú í riðlakeppni. Fyrri leiknum í Istanbúl lauk sem fyrr 0-0 en í seinni leiknum voru möguleikar United að komast áfram úti og  nokkrir ungir leikmenn fengu tækifæri og United vann 4-0. Enginn man nú eftir Simon Davies sem sem skoraði fyrsta markið, en einhverjir muna eftir öðrum pilti sem skoraði sitt fyrsta United mark, David Beckham.

Og eins fjarstæðukennt og það hljómar um leiki fyrir 18 og 19 árum síðan var þessi 4-0 leikur sá eini sem Ryan Giggs missti af af þessum fjórum. Knattspyrnulegt langlífi hans hættir aldrei að verða ótrúlegt.

En nú eru Galatasaray, eða Galata höllin, aftur komnir í heimsókn sem Tyrklandsmeistarar.

Þeir hafa byrjað vel í deildinni í vetur, unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli og unnu leik sinn um helgina 4-0 eins og við og ættu því að koma fullir sjálfstrausts í leikinn. Í liðinu er þó nokkrir leikmenn sem víðhorfðir knattspyrnuáhugamenn kannast við. Markvörður er Fernando Muslera, landsliðsmarkvörður Úrúgvæa, toppkeeper þar á ferð. í vörninni er Emmanuel Eboué, á miðjunni Hamit Altıntop kominn til Tyrklands eftir næsta árangurslaust tímabil hjá Real Madrid og Brasilíumaðurinn Felipe Melo og frammi þeir Johan Elmander og Milan Baros. Baros hefur ekki leikið í vetur, Elmander hefur skorað 2 mörk, en það hefur líka Tyrkinn Burak Yılmaz. Markaskorarinn hjá Galatasaray virðst þó vera Umut Bulut, 29 ára leikmaður sem hefur lítið farið utan Tyrklands nema hvað á síðasta tímabili fór hann til Toulouse í Frakklandi. Hann er nú á láni hjá Galatasaray. Annar fyrrum púlari, og reyndar fyrrum City maður lika er hjá Galatasaray, en ólíklegt er að Albert Riera byrji leikinn.

Þjálfari Galatasaray er gamla brýnið Fatih Terim, sem hefur komið víða við, var þjálfari Galatasaray áður en hann varð þjálfari Tyrklands þegar þeir komust í fyrsta skipti á EM ’96, tók síðan við Fiorentina og AC Milan og er nú aftur kominn til Galatasaray.

Þessir leikmenn og þjálfari sýna að engin ástæða er til að vanmeta Galatasaray, en engu að síður á United að vinna þennan leik

Sem fyrr segir hefur Fergie staðhæft að í þetta sinn verði engir sénsar teknir. Þrátt fyrir að leikurinn um næstu helgi sé eilítið mikilvægur… svo ekki sé dýpra í árina tekið… þá ætla ég að spá sterku liði.

De Gea

Rafael Vidic Evans Evra

Cleverley Carrick

Valencia Kagawa Nani

Van Persie

Menn hafa túlkað Fergie á blaðamannafundinum sem svo að De Gea verði í marki og ég fagna því. Kagawa og Van Persie eru heilir og spila örugglega en Young er víst ekki góður og því er Nani á kantinum. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Rio Ferdinand hvíli fyrir Liverpool leikinn og Jonny Evans komi í staðinn til að fá leik eftir meiðslin.

Þetta er lið sem á að vinna leikinn, 2-0.

Efnisorð: Galatasaray Upphitun 6
Enska úrvalsdeildin

Manchester United 4:0 Wigan

Tryggvi Páll skrifaði þann 15. september, 2012 | 17 ummæli

Wigan kom í heimsókn á Old Trafford á þessum fallega eftirmiðdegi. Leikar enduðu 4-0 í  nokkuð þægilegum heimasigri fyrir Manchester United. Liðið sem byrjaði var svona:

Lindegaard

Rafael Rio Vidic Büttner

Scholes Carrick

Nani Welbeck Giggs

Chicarito

Fyrir leikinn var mikið rætt um hvort að Kagawa og Robin van Persie myndu byrja inná en þeir fengu sæti á bekknum og inn komu Javier Hernandez, Paul Scholes og Ryan Giggs. Alexander Büttner spilaði svo sinn fyrsta leik fyrir félagið. Lindegaard hélt sæti sínu í markinu.

Leikurinn byrjaði vel fyrir United því strax á 6. mínútu fengu okkar menn víti þegar Danny Welbeck var felldur af markmanni Wigan Ali Al-Habsi. Javier Hernandez steig á punktinn en honum tókst á ótrúlegan hátt að taka lélegra víti en van Persie í síðasta leik og því var auðvelt fyrir Al-Habsi í markinu að verja spyrnuna.

Eftir vítið gerðist fátt markvert í fyrri hálfleik sem verður að segjast að hafi verið afskaplega dapur af hálfu okkar manna. Danny Welbeck var kannski sprækasti leikmaður liðsins og á 8-mínútna kafla í fyrri hálfleik átti hann þrjár ágætar tilraunir að marki án þess þó að skora. Í sínum fyrsta leik fyrir félagið var Alexander Buttner mjög sprækur og duglegur að koma upp vinstri kantinn. Wigan-liðið gerði ekki mikið en þeir áttu þó með skömmu millibili um miðjan hálfleikinn ágætar tilraunir að marki þar sem okkar menn í vörninni voru sofandi. Það kom þó ekki að sök og smám saman fjaraði þessi fyrri hálfleikur út.

Eitthvað hefur verið sagt við leikmennina í hálfleik því þeir komu mun sprækari út í seinni hálfleik. Hann var aðeins fimm mínútna gamall þegar United setti þunga pressu á varnarlínu Wigan sem endaði með því að Nani sendi fastan bolta fyrir markið, Al-Habsi í markinu sló boltann beint út í teig þar sem ellismellurinn Paul Scholes var mættur í frákastið og skoraði fyrsta mark leiksins, 1-0.

Eftir markið hafði United tögl og haldir í leiknum. Á 62. mínútu barst boltinn til Alexander Büttner sem sendi bolta fyrir markið og þar var Javier Hernandez mættur til þess að bæta fyrir vítaklúðrið. Hann var spilaður réttstæður af Emerson Boyce og skoraði týpískt Chicarito-mark, staðan orðin 2-0.

Örfáum mínútum síðar var Büttner með boltann á vinstri kantinum, virtist vera kominn í eitthvað rugl en náði að hrista af sér varnarmanninn. Hann tók svo bara beina stefnu inn í markteiginn, lék á tvo varnarmenn Wigan og var kominn alveg upp að endalínu þegar hann skaut að marki og boltinn fór í Al-Habsi, sem hefur átt betri leiki en þessa, og þaðan í markið. Draumabyrjun á United-ferlinum hjá unga Hollendingnum og staðan orðin 3-0.

Á 70. mínútu komu öldungarnir Paul Scholes og Ryan Giggs útaf fyrir Robin van Persie og Nick Powell. Þeir tveir voru ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Með innkomu van Persie varð sóknarleikurinn markvissari og var Robin van Persie klaufi að skora ekki skömmu eftur að hann kom inná en hann setti boltann einhvernveginn framhjá fyrir opnu marki undir pressu frá varnarmönnum Wigan Á 81. mínútu skoraði svo Nick Powell glæsilegt mark sem hann mun að öllum líkindum aldrei gleyma. Eftir hraða sókn United fékk hann boltann fyrir utan vítateiginn, lék á einn varnarmann og þrumaði boltanum í markhornið. Glæsilega gert og morgunljóst að hann hefur verið að fylgjast með Paul Scholes á æfingum.

Eftir fjórða markið fjaraði leikurinn smám saman út. Okkar menn sköpuðu sér nokkur hálffæri án þess þó að skora fimmta markið og enduðu leikar 4-0.

Það er erfitt að draga eitthvað sérstakt út eftir svona leik. Vissulega var maður nokkuð pirraður á leik liðsins í fyrri hálfleik enda var hann hægur og hugmyndalaus. Í seinni hálfleik settu okkar menn hinsvegar í gírinn og kláruðu þennan leik nokkuð örugglega.

Það var frábært að sjá nýliðina setja mark sitt á þennan leik. Sóknarleikur Alexander Büttner var mjög góður. Hann er augljóslega fullur sjálfstrausts og óhræddur við að sækja fram á við eins og sást bersýnilega í markinu hans. Það er þó augljós veikleiki á leik hans að hann virðist ekkert vera sérstaklega öruggur varnarlega og þarf að læra ýmislegt í þeim efnum. Það er hinsvegar ómetanlegt fyrir liðið að fá samkeppni í þessa stöðu enda Patrice Evra orðinn vel þreyttur. Nick Powell gerði mjög vel í markinu sínu og það verður spennandi að fylgjast með honum þróa leik sinn áfram.

Mér fannst Danny Welbeck vera besti leikmaður liðsins í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik datt leikur hans niður. Javier Hernandez skoraði mjög gott mark og vonandi að hann nýti tækifæri sín á þennan hátt. Nani var afar dapur í fyrri hálfleik en var mjög líflegur í seinni hálfleik. Það er þó aðeins einn maður sem getur gert tilkall til þess að vera útnefndur maður leiksins. Það er Alexander Büttner. Það er alls ekki ónýtt að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið á Old Trafford og bæði leggja upp og skora mark. Frábært opnunarleikur og við viljum meira af því sama.

Næsti leikur er í Meistaradeildinni gegn Galatasaray á Old Trafford nk. miðvikudag.

Efnisorð: Leikskýrslur Wigan Athletic 17
Enska úrvalsdeildin

Liðið gegn Wigan

Tryggvi Páll skrifaði þann 15. september, 2012 | 6 ummæli

Liðin eru komin og þau líta svona út:

Lindegaard

Rafael Rio Vidic Buttner

Scholes Carrick

Nani Welbeck Giggs

Chicarito

Bekkur:De Gea, Evans, Valencia, RVP, Cleverley, Powell, Kagawa

Lindegaard heldur sæti sínu í liðinu og Buttner spilar sinn fyrsta leik fyrir liðið. Robin van Persie og Kagawa detta á bekkinn. Þetta kemur svo sem ekki á óvart, það var alltaf líklegt að RvP og Kagawa yrðu hvíldir. Þeir koma væntanlega ekki inná nema þess þurfi. Powell er einnig á bekknum. Væri gaman að sjá hann fá að spreyta sig. Held að við munum sjá Welbeck spila örlítið fyrir aftan Chicarito. Set Giggs á kantinn en hann mun ef til vill draga sig inná miðjuna sem ætti að gefa Buttner tækifæri á að spreyta sig á upphlaupum upp vinstri kantinn.

Liðið hjá Wigan er svona og er óbreytt frá síðasta leik.

Al Habsi

Ramis Caldwell Figueroa

Boyce McArthur McCarthy Beausejour

Kone Di Santo Maloney

Bekkur: Pollitt, Watson, Crusat, Jones, Gomez, Boselli, Miyaichi

Efnisorð: Liðsuppstilling Wigan Athletic 6
Enska úrvalsdeildin

Wigan á morgun

Tryggvi Páll skrifaði þann 14. september, 2012 | 10 ummæli

Manchester United – Wigan

Jæja, nú er landsleikjahléinu lokið og menn geta tekið gleði sína á ný. Okkar menn taka á móti Roberto Martinez og strákunum hans í Wigan. Eftir nokkuð erfiðan 2-3 útisigur á Southampton fáum við það sem er samkvæmt bókinni „léttur“ heimaleikur.

Hver einn og einasti stuðningsmaður United fékk vægt taugaáfall þegar fréttir bárust á sama degi að Shinji Kagawa og Robin van Persie hefðu báðir meiðst í landsliðsverkefnum sínum. Fréttir gefa þó til kynna að þeir glími ekki við alvarleg meiðsli og spánýjar fréttir gefa til kynna að þeir séu klárir í slaginn. Að öðrum meiðslapésum er það helst að frétta að Phil Jones verður frá næstu tvo mánuðina eftir að hafa orðið fyrir bakmeiðslum á æfingu og Chris Smalling er ennþá frá.  Jonny Evans virðist hinsvegar vera að braggast og spilaði hann báða landsleiki N-Írlands. Það eru góðar fréttir því að nú þegar Meistaradeildin fer að fara af stað er liðið að sigla inn í þétt leikjaprógram og því gott að hægt sé að hvíla Rio og Vidic. Ashley Young er ásamt þeim félögum RvP og Kagawa spurningarmerki fyrir þennan leik. Ferguson sagði að Darren Fletcher yrði í hópnum fyrir þennan leik og eru það gleðifregnir, sérstaklega fyrir þá okkar sem höfðu afskrifað hann.

Það er samt ekki alveg klippt og skorið hvernig Ferguson stillir upp liðinu gegn Wigan. Ég ætla að skjóta á að það verði einhvernveginn á þessa leið:

De Gea

Rafael Ferdinand Vidic Buttner

Anderson Carrick

Valencia Kagawa Nani

Van Persie

Ég geri ráð fyrir því að RvP og Kagawa byrji en mér þætti það hinsvegar ekki ólíklegt ef a.m.k. annar þeirra yrði hvíldur fyrir komandi átök og inn komi Hernandez/Welbeck og Scholes/Cleverley fyrir þá félaga, sérstaklega ef þeir eru ekki alveg 100% heilir. Ég vil sjá Buttner spila sinn fyrsta leik því að Evra á það svo sannarlega skilið að fá hvíld. Helst vildi ég að Evra myndi ekki vera í hóp fyrir þennan leik til þess að senda honum skilaboð um að hysja upp um sig buxurnar en það er víst ekki að fara að gerast. Mér finnst líklegt að Ferguson byrji að rótera liðinu meira en hann hefur gert hingað til enda leikið stíft fram að 7. október. Það er leikur á 3-4 daga fresti þangað til.

Andstæðingar okkar hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum gegn United á Old Trafford, í síðustu þremur leikjum þessara liða á Old Trafford hefur United tvisvar hampað 5-0 sigri. Wigan vann hinsvegar sinn fyrsta sigur á United í síðustu viðureign þessara liða á DW Stadium í apríl sl. Roberto Martinez stillti þá upp í 3-4-3 og módelaði leik liðsins eftir leik Bilbao gegn United. United átti ekkert svar við leik Wigan þá frekar en þeir áttu svar gegn Bilbæingum. Það verður því afar fróðlegt að sjá hvort að Roberto Martinez stilli upp liðinu á þennan hátt. Helstu póstar í liði Wigan eru Ali Al-Habsi í markinu, Steven Caldwell í hjarta varnarinnar og svo á Franco di Santo það til að hrynja í gang.

Ég hef hinsvegar takmarkaðar áhyggjur af þessum leik. Lið eins og Wigan eiga venjulega ekki séns á Old Trafford og ég býst fastlega við því að það verði raunin. Ég ætla að skrá þetta niður sem þægilegan 4-0 heimasigur og ég hef sterka tilfinningu fyrir því að Javier Hernandez skori a.m.k. eitt mark.

Vert er að taka það fram að ef Ryan Giggs spilar mun hann taka þátt í sínum 600. úrvalsdeildarleik. Paul Scholes mun ná í 700 leiki fyrir United og fastlega má búast við því að ferill Rio Ferdinand hjá United telji 400 leiki þegar dómarinn blæs til loka leiks.

Dómari leiksins er Michael Oliver og leikurinn hefst klukkan 14.00 á morgun, laugardaginn 15. september.

Efnisorð: Upphitun Wigan Athletic 10
Lesefni

Rauðu djöflarnir lesa:

ellioman skrifaði þann 13. september, 2012 | Engin ummæli

Þá er þessu blessaða landsleikjafríi lokið og styttist í að við fáum að sjá United loksins spila. Til að stytta ykkur stundir, á meðan við bíðum, þá höfum við hér hinn vikulega skammt af því áhugaverðasta United-tengdu lesefni þessa vikuna.

  • Ferguson fjölgar njósnurum í Suður- og Mið-Ameríku
  • Kagawa er fullviss um að koma fljótt til baka eftir bakmeiðslin í vikunni
  • Ferdinand missir ökuleyfið næstu 6 mánuði
  • Beautifully Red sýnir okkur fimm bestu United-mómentin í ágúst
  • Manchester Evening News með fínt viðtal við Rooney
  • Mirror telur líklegt að Buttner spili sinn fyrsta leik fyrir United gegn Wigan um helgina
  • Ashley Young hrósar Valencia í hástert
  • Gabriele Marcotti með góða grein um Financial Fair Play (FFP)
  • Stytta af Fergie verður sett upp fyrir utan Sir Alex Ferguson stúkuna

Svo minnum við ykkur á upphitunina fyrir leik United gegn Wigan sem birtist hér á morgun.

0
  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 436
  • Page 437
  • Page 438
  • Page 439
  • Page 440
  • Interim pages omitted …
  • Page 444
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • sófinn um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Helgi P um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Elis um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Halldór Marteins um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Steve Bruce um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2025 · Keyrt á WordPress