• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Meistaradeild Evrópu

Meistaradeildin heldur áfram, Benfica mætir í heimsókn

Halldór Marteins skrifaði þann 30. október, 2017 | 2 ummæli

Eftir þrjá sigra í jafnmörgum leikjum er Manchester United í mjög góðri stöðu á toppi A-riðils og hefur í þokkabót klárað tvo af þremur útileikjum sínum í riðlinum. Seinni helmingur riðlakeppninnar hefst á heimavelli gegn liðinu sem er nokkuð óvænt í neðsta sætinu, stigalaust. Flest bjuggust við að Benfica myndi veita Manchester United hörðustu samkeppnina um efsta sætið en annað hefur komið á daginn. Sigur í þessum leik tryggir sæti í útsláttarkeppnina og ætti að fara langleiðina með að tryggja Manchester United efsta sætið í riðlinum. Það væri afskaplega huggulegt ef liðið gæti verið búið að tryggja þetta fyrir lokaleikinn í Meistaradeildinni því þá væri hægt að hvíla leikmenn fyrir erfiðan leik gegn Manchester City helgina eftir lokaumferðina.

En hér erum við komin fulllangt fram úr okkur í bili. Við byrjum á þessum leik. Benfica á Old Trafford, miðvikudaginn 31. október klukkan 19:45. Dómari í leiknum verður Gediminas Mažeika frá Litháen.

Sögulegur dagur

Í dag er nokkuð merkilegur dagur í sögu Manchester United. Það eru nefnilega 80 ár síðan liðið mætti Fulham á Craven Cottage, laugardaginn 30. október 1937. Það hefur reyndar oft verið bjartara yfir hjá Manchester United en það var þennan dag, Manchester United og Fulham voru í 2. deildinni þetta tímabilið og þetta var næst síðasti leikurinn sem Scott Duncan var knattspyrnustjóri Manchester United áður en hann var rekinn. Tæplega sex árum fyrr hafði félaginu verið bjargað frá gjaldþroti á síðustu stundu þegar James Gibson samþykkti að greiða skuldir félagsins og fjármagna rekstur þess.

Það var Gibson sem átti stóran þátt í að koma unglingastarfi Manchester United á laggirnar því það var hans hugsjón að Manchester United myndi ekki bara mynda lið með því að kaupa leikmenn heldur ætti það einnig að búa til leikmenn í gegnum gott unglingastarf. Tímabilið 1932-33 hafði Manchester United fylgt því eftir með því að skrá unglingalið félagsins til leiks í þar til gerða keppni í Manchester. Stjórinn Scott Duncan hafði gert það og náði að vera stjóri nógu lengi til að upplifa ákveðin tímamót hvað það varðar, jafnvel þótt hann ætti á þeim tímapunkti ekki langan tíma eftir í sinni stöðu.

Knattspyrnumennirnir Tom Manley og Jackie Wassall komu báðir upp í gegnum þetta unglingastarf Manchester United, meðal þeirra fyrstu sem það gerðu eftir áherslubreytingarnar frá James Gibson. Hvorugur þeirra var þarna að spila sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins og hvorugur þeirra náði að koma í veg fyrir 0-1 tap United í leiknum. En þetta var svo sannarlega ákveðið upphaf. Manchester United endaði tímabilið á því að vinna sér sæti í efstu deild aftur og frá þessum leik gegn Fulham hefur Manchester United haft leikmann úr unglingastarfi sínu í hverjum einasta leikmannahópi aðalliðsins. Þetta eru núna orðnir 3.883 leikir í röð.

Í rúmlega 73 ár af þessum 80 var metið þó umtalsvert merkilegra því á því tímabili var ávallt a.m.k. einn leikmaður byrjunarliðs Manchester United sem hafði komið upp í gegnum unglingastarfið. Þann 1. maí 2011 tefldi Sir Alex Ferguson hins vegar fram byrjunarliði sem braut þá reglu. En metið í núverandi mynd er engu að síður frábært. Everton er núna það lið sem kemst næst Manchester United hvað þetta varðar, Everton hefur náð rúmlega 1.000 leikjum í röð á tímabili sem spannar 21 ár. En það er ansi langt frá meti Manchester United.

Embed from Getty Images

Með uppalda leikmenn á borð við Paul Pogba, Marcus Rashford og Jesse Lingard í stórum hlutverkum og með unga leikmenn á borð við Andreas Pereira, Timothy Fosu-Mensah, Axel Tuanzebe og Scott McTominay nálægt aðalliðinu er ekki útlit fyrir að þessi methrina taki enda alveg á næstunni. Að auki virðist liðið vera að þróa virkilega spennandi leikmannahóp í u18-liðinu, með fyrirliða u17-heimsmeistara Englands, Angel Gomes, fremstan í flokki. Þegar unglingastarfið er gott þá er framtíðin alltaf björt.

Embed from Getty Images

Okkar lið

En aftur að þessum leik. Nátengt þessari tilfinningu að Manchester United vilji búa til leikmenn í gegnum unglingastarf er sú tilfinning að Manchester United vilji hafa gaman í Evrópukeppnum. Enda fylgist þetta oft að. The Busby Babes náðu að marka sín spor í Evrópu áður en flugvélin fórst í Munchen, þegar liðið svo sigraði 1968 voru 7 af 11 leikmönnum liðsins úr unglingastarfinu. Árið 1999 var The Class of ’92 mjög áberandi. Árið 2008 voru Scholes og Giggs enn á sínum stað, auk Wes Brown. M.a.s. í Evrópudeildarsigrinum í fyrra var það okkar eigin Paul Pogba sem braut ísinn. Marcus Rashford var auk þess í byrjunarliðinu og Jesse Lingard kom inn á, tveir local lads, gerist varla betra.

Embed from Getty Images

Marcus Rashford tryggði Manchester United sigur í fyrri leiknum með frábærri aukaspyrnu sem hinn ungi Svilar í marki Benfica réð ekki við. Vissulega um mistök að ræða hjá markverðinum óreynda en Rashford má fá fullt kredit fyrir að láta reyna á þetta í föstu leikatriðunum, það var nákvæmlega engin heppni í þessu hjá Rashford.

Það er ennþá töluvert um meiðsli hjá Manchester United, sérstaklega á miðjunni. Pogba er frá og óvíst hvenær hann snýr aftur, Fellaini og Carrick eru sömuleiðis á meiðslalistanum. Zlatan og Rojo nálgast en eru ekki tilbúnir ennþá. Matic og Herrera ættu þá nokkurn veginn að velja sig sjálfir á miðjuna, nema Mourinho vilji gefa McTominay byrjunarliðsleik eftir fína frammistöðu gegn Swansea í síðustu viku.

Byrjunarliðið gæti litið nokkurn veginn svona út:

1
De Gea
17
Blind
12
Smalling
2
Lindelöf
36
Darmian
31
Matic
21
Herrera
11
Martial
14
Lingard
8
Mata
9
Lukaku

Þetta er lið sem nær að rótera smá en er samt nógu sterkt til að það ætti að klára þennan leik. Árangur liðsins á Old Trafford hefur verið frábær á tímabilinu, það má alveg endilega halda áfram í þessum leik.

Benfica

Benfica vann tvennuna í heimalandinu á síðasta tímabili en hefur ekki byrjað þetta tímabil sérstaklega vel á sinn mælikvarða. Eftir 10 umferðir er liðið í 3. sæti deildarinnar, 5 stigum frá toppliði Porto. Í Meistaradeildinni hefur liðið hins vegar ekki getað neitt. Það hefur tapað öllum þremur leikjum sínum, aðeins skorað 1 mark en fengið 8 á sig.

Embed from Getty Images

Það er búist við að Mile Svilar verði áfram í markinu hjá Benfica. Þessi efnilegi Belgi fæddist eftir að Manchester United vann þrennuna og varð í síðasta leik yngsti markvörðurinn til að spila í Meistaradeildinni. Hann á eftir að mæta staðráðinn í að bæta fyrir mistökin í síðasta leik og mun sennilega kýla alla bolta frekar en að reyna að grípa þá. Svilar hélt hreinu í síðasta leik með Benfica, þurfti þá að verja 5 bolta gegn Feirensa. Allar tilraunirnar komu innan markteigs.

Hægri bakvörðurinn Douglas meiddist og miðvörðurinn Luisão fékk rautt spjald gegn Manchester United svo það er ljóst að helmingur varnarlínunnar verður breytt frá því í fyrri leik liðanna. André Almeida kemur inn í hægri bakvörð en hann hefði líklega spilað síðasta leik ef hann hefði ekki verið í leikbanni. Það er heldur verra fyrir Benfica að missa miðvörðinn út því þeir sem helst koma til greina í staðinn fyrir hann, Jardel og López, hafa báðir verið frá vegna meiðsla síðustu vikur.

Benfica mun líklega stilla upp í þessa áttina:

1
Svilar
3
Grimaldo
66
Grimaldo
2
López
34
Almeida
22
Cervi
5
Fejsa
21
Pizzi
18
Salvio
14
Seferovic
10
Jonas

Framherjinn Jonas hefur verið sérstaklega heitur að undanförnu. Hann hefur skorað 8 mörk í síðustu 10 leikjum sínum, þar af 3 mörk í síðustu 2 leikjum. Það er alveg ljóst að það þarf að hafa góðar gætur á honum í leiknum.

Efnisorð: Benfica Old Trafford Upphitun 2

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Rúnar P. says

    30. október, 2017 at 20:32

    Þetta verður ekki gefins!

    1
  2. 2

    Bjarni says

    30. október, 2017 at 20:41

    Nei ekki gefins en við verðum að mæta og spila af sama krafti og í síðasta leik, þá verður þetta öruggt. Hef trú á því að svo verði. Nota verður þennan leik til að byggja upp móment fyrir næsta deildarleik þar sem mætast stálin stinn.

    2

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Scaltastic um Crystal Palace 1:0 Manchester United
  • Helgi P um Crystal Palace 1:0 Manchester United
  • Þorleifur um Lokaleikur á morgun: Til hvers?
  • Tony um Lokaleikur á morgun: Til hvers?
  • Dór um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress