• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Brighton 0:3 Manchester United

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 30. júní, 2020 | 6 ummæli

Í kvöld tóku Mávarnir í Brighton á móti Manchester United í þriðja deildarleik þeirra rauðklæddu eftir að deildin hófst að nýju. Fyrir leik var United í 6. sætinu eftir að Úlfarnir unnu sinn leik og Chelsea og Leicester voru 5 og 6 stigum á undan okkur í Meistaradeildarsætunum.

Solskjær tók því enga áhættu fyrir leikinn í dag og stillti upp sínu sterkasta liði:

1
De Gea
23
Shaw
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
6
Pogba
31
Matic
10
Rashford
18
Bruno
26
Greenwood
9
Martial

Graham Potter ákvað að taka nokkra áhættu og skildi Neal Maupay og Leandro Trossard á bekknum og byrjaði með Aaron Connolly fremstan í 3-5-1-1.

Ryan
Burn
Lewis
Dunk
Montoya
Bissouma
Stephens
Pröpper
Lamptey
McAllister
Connolly

Leikurinn fór vel af stað og fljótlega sást í hvað stefndi, gestirnir voru mikið meira með boltann og talsvert líklegri. Enda voru þeir það, Bruno Fernandes átti hörkuskot í stöngina eftir þrettán mínútna leik. Eftir það fikruðu heimamenn sig lengra upp á skaftið en Mason nokkur Greenwood lét þá til skarar skríða og tók einleik með boltann inn í teig, skellti í tvöföld skæri og smellti knettinum á nærstöngina og framhjá Matt Ryan í markinu. Frábært mark og staðan orðin 1-0.

Embed from Getty Images

Eftir tuttugu mínútna leik krækti Paul Pogba í aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateiginn, frábært tækifæri fyrir Fernandes en skot hans fór yfir markið. Sóknarþungi United virtist bara aukast ef eitthvað en þá kom að hinni valkvæðu vatnspásu sem áður fyrr hefur truflað flæði í leik liðsins, til að mynda gegn Tottenham.

Hins vegar voru leikmenn United ekki á þeim buxunum að láta það endurtaka sig og byrjuðu af krafti. Þeir voru ekki lengi að setja Brighton menn aftur í vandræði þegar boltinn barst út á vinstri vænginn þar sem Rashford átti skemmtilega stungu inn á Luke Shaw sem kom í hlaupinu og bar boltann upp að endalínu áður en hann kom með með fyrirgjöfina. Sú rataði reyndar ekki á neinn rauðklæddan en Pogba fékk hann á endanum fyrir utan teig og lagði hann til vinstri á Bruno. Sá þakkaði pent fyrir sig með því að skora annað mark United. 2-0 og United með tögl og hagldir á þessum leik.

Embed from Getty Images

Hugsanlega hefði markið ekki átt að standa þar sem Greenwood missti boltann útaf vellinum í aðdraganda sóknarinnar en þar sem dómaratríóið tók ekki eftir þessu og VAR-sjáin gerði ekki athugasemd við það þar sem þeim þótti of langt liðið frá atvikinu, fékk markið að standa.

United hélt áfram að spila vel en tókst ekki að finna leið framhjá vörn Brighton aftur áður en flautað var til hálfleiks. Auðveld hálfleiksræða fyrir Ole Gunnar Solskjær og spurning hvort lykilleikmenn yrðu ekki bara hvíldir enda voru United 69% með boltann í fyrri hálfleik, áttu sjö skot og tvö á rammann og bæði enduðu í netinu á meðan Brighton var ekki búið að láta reyna á David de Gea hinu megin á vellinum.

Embed from Getty Images

 

Síðari hálfleikur

Graham Potter var greinilega ekki sáttur með sína menn og setti þá Leandro Trossard og Neal Maupay inn á. Stoðsendingahæsti leikmaðurinn og markahæsti leikmaðurinn báðir inn fyrir þá Lamptey og Pröpper. Það voru þó ekki þeir sem voru á ferðinni á 50. mínútu heldur Harry Maguire sem hreinsaði boltann út úr teig beint á Nemanja Matic sem tók boltann á bringuna og klippti hann svo guðdómlega út á vinstri vænginn.

Þar kom Mason Greenwood á siglingunni og bar boltann hátt upp á völlinn og lyfti boltanum inn í vítateiginn hárfínt yfir alla varnarmenn Brighton og beint í lappirnar á portúgalska töframanninum. Sá þakkaði pent fyrir sig með því að skjóta boltanum í jörðina og framhjá Ryan og breytti stöðunni í 3-0 fyrir United.

Embed from Getty Images

Skömmu síðar kom fyrsta almennilega færi heimamanna þegar Burn geystist upp kantinn og kom með góða fyrirgjöf en Maupay náði ekki til boltans sem endaði í fanginu á de Gea. Ekki í síðasta skiptið sem sá spænski þurfti að bregðast við því heimamenn voru að vakna til lífsins.

Þrátt fyrir yfirgnæfandi yfirburði og að þremur mörkum yfir var ekkert lát á pressunni en Brighton átti reyndar gott færi þegar Pogba gaf þeim aukaspyrnu á miðjum vallarhelming United. Leandro Trossard tók þá gott hlaup og var allt í einu aleinn í vítateignum með boltann og átti skot sem sleikti stöngina.

Loksins eftir rúmlega klukkustund tók Solskjær skiptingar þegar Brandon Williams, Scott McTominay og Andreas Pereira komu inn á í stað Shaw, Pogba og Bruno.

Paul Pogba and Bruno Fernandes have spent 219 minutes on the field together. In that time, Man Utd have scored 8 goals and conceded 0.

Running the show from midfield. 🙌 pic.twitter.com/QFAl8lpWYO

— Statman Dave (@StatmanDave) June 30, 2020

Aaron Connolly átti síðan þrususkot sem de Gea varði með sjónvarpsvörslu og stuttu síðar átti Trossard gott skot sem fór hárfínt framhjá. Brighton byrjaðir að gera sig líklegri og forvitnilegt að sjá hvernig síðustu tuttugu mínúturnar eða svo færu. David de Gea var svo enn og aftur í eldlínunni þegar hann þurfti aftur að verja þegar heimamenn áttu lúmskt skot á nærstöngina eftir klunnalegan varnarleik við d-bogann.

Solskjær henti svo í tvöfalda skiptingu og leyfði Daniel James og Odion Ighalo að spreyta sig síðustu mínútur leiksins. Þessar lokamínútur voru algjörlega firrtar allri spennu eða dramatík en McTominay átti reyndar öflugt skot á 85. mínútu sem Matt Ryan þurfti að hafa sig allan við að verja. James átti nokkur skot en lítil sem engin hætta fylgdi þeim. Leikurinn fjaraði síðan út og geta lærisveinar Solskjær vel við unað við gott dagsverk.

Embed from Getty Images

0-3 útisigur í höfn og United klifrar upp fyrir Úlfana og tillir sér í 5. sætið. Frábær sýning fyrsta klukkutímann og greinilegt að United er á mikilli siglingu. Liðið hefur núna leikið 15 leiki án þess að tapa og samvinna Bruno Fernandes og Paul Pogba hefur sannarlega verið biðarinnar virði en saman hafa þeir spila 219 mínútur og á þeim tíma hefur United skorað 8 mörk og ekki fengið á sig eitt einasta fótboltamark. Nemanja Matic heldur áfram að hnýta saman vörnina og sjá til þess að tvíeykið fái frjálsari fætur fram á við og það er heldur betur að skila sér.

Nemanja Matic’s last 6 Premier League starts:

• clean sheet
• clean sheet
• 1 conceded
• clean sheet
• clean sheet
• clean sheet

Solid. 💪🇷🇸 pic.twitter.com/1K2zx4rIO8

— Statman Dave (@StatmanDave) June 30, 2020

Næsti leikur liðsins er svo á laugardaginn gegn lánlausum leikmönnum Bournemouth sem sitja í fallsæti í dag. Þeir eru jafnir West Ham að stigum eftir jafnmarga leiki en Hamrarnir eiga einmitt leik við Chelsea á morgun. Vonandi tekst okkar gamla stjóra að gera okkur loksins einhvern greiða með því að kroppa stig af bláliðunum í Lundúnaslagnum á morgun.

Efnisorð: Bruno Fernandes David de Gea Graham Potter Nemanja Matic Ole Gunnar Solskjær Paul Pogba 6

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Rúnar P says

    30. júní, 2020 at 19:47

    Bruno.. Fernandes…….

    4
  2. 2

    Bjarni Ellertsson says

    30. júní, 2020 at 20:26

    Enn með gæsahúð eftir þriðja markið.

    12
  3. 3

    Cantona no 7 says

    30. júní, 2020 at 21:45

    Snilld

    4
  4. 4

    Timbo says

    1. júlí, 2020 at 04:13

    Slúttið hjá Greenwood í fyrsta markinu var sóðalegt, ég ætlaði ekki að trúa því að það hefði ekki viðkomu í varnarmann.

    Stórt prik á fyrirliðann. Heldur Lindelöf við efnið og skilar alltaf fullri vakt, hefði viljað sjá Ole gefa honum hálftíma hvíld í kvöld.

    Liðið kemur vel út eftir pásuna. Rashford er áberandi taktlaus en hann hefur alla burði til að hjálpa okkur að setja pressu á Leicester og Chelsea.

    5
  5. 5

    Sindri says

    1. júlí, 2020 at 04:26

    Get ekki beðið eftir þessum Europa League leikjum í ágúst því við erum 100p að fara slátra þeirri afsláttarkepnni, rétt í aðdraganda næsta tímabils.
    9, 10 og 26 eru að verða að hættulegasta sóknarþrennu heims. Á meðan að að 18, 6 og 31 eru með þeim á velli, þarf ekki mikið meira en breiddina. 17, 39 og 21 ættu að duga til að byrja með. Svo vonandi fær einhver JadonS að taka við treyju #7.
    GGMU

    1
  6. 6

    sigurvald says

    1. júlí, 2020 at 23:57

    Þvílík afbrags snilld að kaupa Bruno. Það sem einn maður getur gert fyrir heilt knattspyrnulið er með ólíkindum.
    Svo eru allt í einu bara 3 stig þriðja sæti!
    Sjitturinn hve það er gaman núna!

    2

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Dór um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Tony D um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Sindri um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Scaltastic um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • SHS um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress