• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Crystal Palace 0:0 Man Utd

Daníel Smári skrifaði þann 3. mars, 2021 | 12 ummæli

Crystal Palace og Manchester United buðu ekki uppá neina knattspyrnuveislu þegar liðin mættust í kvöld. Liðin gerðu markalaust jafntefli í leik sem að færi í sögubækurnar af öllum röngu ástæðunum. Leikurinn var með þeim leiðinlegri sem undirritaður hefur séð og það var í raun sárt að fylgjast með spilamennsku United á löngum köflum. Fyrirsjáanlegir, hægir og algjörlega gæðalausir.

Svona stilltu liðin upp:

Manchester United

26
Henderson
23
Shaw
5
Maguire
3
Bailly
29
Wan-Bissaka
17
Fred
31
Matić
10
Rashford
18
Bruno
11
Greenwood
7
Cavani

Crystal Palace 

31
Guaita
3
van Aanholt
8
Kouyate
24
Cahill
2
Ward
25
Eze
4
Milivojevic
22
McCarthy
9
Ayew
20
Benteke
10
Townsend

Fyrri hálfleikur

Það virtist sem United liðið hafi ekki heyrt í upphafsflauti Andre Marriner, dómara leiksins, því að liðið var hreinlega ekki með fyrstu 10 mínútur leiksins. Í þrígang gaf vörnin boltann kæruleysislega frá sér og bauð Palace upp í dans, en taktleysi heimamanna fyrir framan markið bjargaði andliti okkar manna. Liðinu gekk afleitlega að halda í boltann og Palace-menn voru á undan í alla seinni bolta.

Sem betur fer rankaði liðið við sér og fór að sýna smá gæði á boltanum. Á 13. mínútu fékk Mason Greenwood boltann úti hægra megin, átti stórhættulega fyrirgjöf inní teig en enginn náði að reka tá í boltann. Boltinn endaði hjá Luke Shaw sem lagði hann fyrir fætur Bruno Fernandes. Bruno setti boltann fyrir Nemanja Matic sem lét vaða og eftir að boltinn hafði haft viðkomu í varnarmanni þá þurfti Guaita að hafa sig allan við til að blaka boltanum framhjá stönginni. Glæsileg markvarsla hjá Spánverjanum. Stuttu síðar áttu Bruno og Shaw gott samspil sem endaði með því að vinstri bakvörðurinn átti fasta sendingu inní teiginn. Þar var Marcus Rashford eiginlega einn á auðum sjó í ákjósanlegu færi en brást heldur betur bogalistin og hitti ekki einu sinni markið.

Nokkrum mínútum seinna áttu Edinson Cavani, sem sneri til baka eftir meiðsli og Mason Greenwood ágætis samspil en Greenwood náði ekki nægilega góðu skoti, rétt fyrir utan teig Palace. Í kjölfar þess þá varð leikurinn að miklu moði og kæruleysið á boltanum var algjört. Fred og Matic gerðu sitt besta til að líta út fyrir að vera leikstjórnendur en þeirra hæfileikar felast í öðrum pörtum leiksins. Bruno virkaði týndur og Greenwood var í litlum takti við leikinn. Liðið varð gífurlega fyrirsjáanlegt, en öll vötn runnu til vinstri kantsins og Palace voru fljótir að loka á Shaw og Rashford.

Skömmu fyrir leikhlé renndi Fred boltanum út á kant á Aaron Wan-Bissaka sem átti frábæra fyrirgjöf sem virtist ætla að sigla alla leið á Cavani á fjærstönginni en á síðustu stundu bjargaði Joel Ward hetjulega með glæsilegri tæklingu. Eftir það gerðist lítið og Andre Marriner hafði ekki einu sinni fyrir því að bæta við mínútu fyrir kurteisissakir. 0-0 í leikhléi og United ekki búið að skora mark í fjórar klukkustundir í öllum keppnum – margt sem þurfti að skerpa á fyrir síðari hálfleik.

Seinni hálfleikur

Það mætti svipað United lið til leiks í seinni hálfleik. Virtust hafa lítinn áhuga á því að snerta boltann mikið eða færast nær marki Palace. Hugmyndaauðgi miðju- og sóknarmanna var sama og ekkert og ég er nokkuð viss um að Súlan á Stöðvarfirði hefði ekki átt í nokkrum einustu vandræðum með að verjast sóknaraðgerðum liðsins – ef ég mætti gerast svo djarfur að lýsa aðgerðum liðsins þannig. Það kom því lítið á óvart að fyrsta tilraun seinni hálfleiks félli í skaut Palace. Þá átti Christian Benteke klippu á lofti sem fór af varnarmanni og yfir.

Nokkrum mínútum síðar fengu Palace aukaspyrnu eftir klaufalegt brot hjá Fred. Luka Milivojevic átti slaka spyrnu en boltinn barst á endanum til Andros Townsend. Hann náði ágætis skoti og Dean Henderson virtist ekki alveg viss um hvort boltinn stefndi inn eða ekki. Blessunarlega fyrir United þá fór boltinn rétt framhjá markinu. Næstu 20 mínútur gerðist nákvæmlega ekki neitt.

Það var svo um 10 mínútum fyrir leikslok sem að varamaðurinn Daniel James fékk gott skallafæri eftir fyrirgjöf frá vinstri kantinum, en Wales-verjinn hitti ekki boltann og því gátu heimamenn andað léttar. Þremur mínútum seinna átti Mason Greenwood ágætis sprett sem endaði með föstu skoti sem fór yfir markið. Þar má í raun segja að síðasti séns United, ef séns má kalla, hafi farið. Á 90. mínútu fengu svo heimamenn langbesta færi leiksins þegar að Harry Maguire spilaði Patrick van Aanholt réttstæðan. Hollendingurinn var einn gegn Dean Henderson en markmaðurinn gjörsamlega át van Aanholt og bjargaði því að United næði að minnsta kosti stigi úr leiknum. Nokkrum andartökum síðar hafði Andre Marriner flautað til leiksloka.

Pælingar

0-0 í þriðja leiknum í röð og liðið var aldrei líklegt til þess að ná í sigurinn. Það er gífurlegt áhyggjuefni hversu hugmyndasnauður og hægur sóknarleikur liðsins er. Maður hljómar eins og biluð plata, að segja sama hlutinn leik eftir leik. Ef að Bruno Fernandes er ekki á deginum sínum og nú er orðið svolítið síðan að hann átti flottan leik, að þá er sóknarleikur liðsins bara enginn. Marcus Rashford, Mason Greenwood og Edinson Cavani sýndu lítið sem ekkert sömuleiðis.

Liðið saknar Paul Pogba svo um munar. Vera hans á miðjunni gerir það að verkum að pláss skapast fyrir Bruno, bæði af því að andstæðingurinn þarf að hafa áhyggjur af Pogba og líka af því að Frakkinn kann að finna Bruno í réttu svæðunum. Þú færð ekki mörk og stoðsendingar frá Bruno Fernandes með því að troða boltanum í lappirnar á honum á þröngum svæðum þar sem að auðvelt er að tví- og þrímenna á hann. Það er ekki helsti kostur Bruno Fernandes að sóla sig út úr hlutunum eins og Lionel Messi.

Miðjan sem samanstendur af Fred og Matic er ofboðslega neikvæð og aðstoðar fremstu menn lítið. Fred er klaufskur á boltanum og Matic hreyfist eins og John Deere dráttarvél. Gæðin í sendingum hjá hverjum einasta leikmanni liðsins voru í besta falli vandræðaleg og í versta falli til skammar. Leikmenn virðast hreinlega ekki vera á sömu bylgjulengd. Sumir hefðu haldið að það væri laglegt spark í rassinn að sjá Leicester tapa stigum gegn Burnley og fengið blóð á tennurnar. Ónei. United liðið mætti bara varla til leiks og gekk í svefni nánast allan leikinn.

Framundan er leikur gegn toppliði Manchester City og þar hreinlega óttast undirritaður hið versta. City hafa verið ógnvænlegir að undanförnu og spilað frábæran fótbolta. Við höfum verið algjörlega á hinum enda pólsins og átt erfitt með að klára þríhyrningsspil, hvað þá að opna bestu vörn deildarinnar. Það verður í það minnsta áhugavert að sjá hvernig sá leikur spilast. Veit ekki hvort ég gangi svo langt að segjast hlakka til.

En jæja. Áfram Manchester United.

12

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Turninn Pallister says

    3. mars, 2021 at 20:23

    Úff hvað þetta er döpur byrjun hjá okkar mönnum…

    4
  2. 2

    Scaltastic says

    3. mars, 2021 at 21:07

    Greenwood er eins og hann hefur verið allt tímabilið, gjörsamlega týndur. Það er núll sannfæring, áræðni og jákvæðni í hans aðgerðum. Vill taka það fram að að ég tel að framtíð hans innan félagsins er enn björt. Hins vegar þá er kominntími á að hann tilli sér á bekkinn að mínu mati.

    7
  3. 3

    Turninn Pallister says

    3. mars, 2021 at 21:34

    Fred er að eiga virkilega dapran leik í kvöld, virðist hreinlega ekki geta átt eina heppnaða sendingu. Sömu sögu má segja um flesta af okkar fremstu sóknarmönnum (utan Cavani) og svo fyrirliðann sem hefur verið kærulaus og virðist vera fyrirmunað að berja leikmenn í gang á vellinum.

    4
  4. 4

    Helgi P says

    3. mars, 2021 at 21:44

    Er ekki kominn tími á nýjan stjóra sem getur náð einhverju útur þessum hóp þetta er alltaf það sama hjá Solskjær leiðinnlegur varnarbolti

    8
  5. 5

    gummi says

    3. mars, 2021 at 21:46

    Af hverju treystir hann ekki bekknum þetta er fáránlegt Solskjær VERÐUR að fara

    8
  6. 6

    Turninn Pallister says

    3. mars, 2021 at 22:04

    Ohh Shaw, þegar hann hamrar boltann langt framhjá þegar létt sending á Greenwood hefði gefið dauðafæri. Liðið virðist ekki vera stillt saman, eini ljósi punkturinn er innkoma McTominay og James, sem því miður komu bara allt of allt of seint inn á í þennan leik.

    3
  7. 7

    Scaltastic says

    3. mars, 2021 at 22:08

    Það þarf ekkert að sykurhúða það… þessi frammistaða var horbjóður. Augljóst mál að Ole og leikmenn vilja dansa tangó um topp 4, verði þeim að góðu…

    4
  8. 8

    Einar Ingi Einarsson says

    3. mars, 2021 at 22:12

    Þvílík vonbrigði .

    4
  9. 9

    Egill says

    3. mars, 2021 at 22:15

    Það er kraftaverk að jafn illa þjálfað lið og Man Utd séu ennþá í öðru sæti.
    Menn virðast ekkert vita hvað þeir eigi að gera á vellinum og ekkert plan, ekki einu sinni plan A. Ole treystir bara á að Bruno eða Pogba finni upp á einhverri snilld til að bjarga málunum, og þegar Bruno skilar svona skítaframmistöðu þá getur liðið ekki neitt.
    Þá fær Ole þá snilldarhugmynd að setja lélegasta kanntmann deildarinnar inná fyrir einn besta framherja í heimi þegar við þurfum mark, en heldur Rashford inná sem hefur ekki getað neitt í marga mánuði núna. 9 mörk í deild er ekki ásættanlegt af manni af hans kaliberi.

    Það er svo morgunljóst af frammistöðu Rashford, Greenwood og Martial á þessu tímabili að Ole hefur ekki hugmynd um hvernig hann eigi að nota þá.
    Jafnvel þjálfarar í C deildinni myndu henda mönnum á bekkinn fyrir svona frammistöðu, en ekki norski Mourinho.

    Næsti leikur er svo gegn besta liði Evrópu…
    Mikið rosalega er ég feginn að stjórnin hafi ákveðið að bíða fram á sumar með að taka ákvörðun um framtíð Ole.

    4
  10. 10

    Helgi P says

    4. mars, 2021 at 03:54

    Ef Solskjær gerir ekki breytingar þá erum við ekki að fara enda í topp 4 en hann er þrjóskari en Mourinho þannig við erum að fara sjá sömu skitinu það sem eftir er af þessu tímabili

    6
  11. 11

    Audunn says

    4. mars, 2021 at 11:43

    Líklega lélegasti leikur sem ég hef séð að hálfu United á þessari öld.
    Vá hvað liðið var hauslaust og lélegt, og afhverju gera menn ekki breytingar eftir 55 eða 60 mín þegar ekkert er að gerast í spilamennsku liðsins er mér hulin ráðgáta.
    Að hafa tvo dmc inn á vellinum sem skapa nákvæmlega ekkert framávið í svona leik er vægast sagt furðuleg ákvörðun.
    United á að vera þannig lið að þeir mæta í svona leik til að sækja, sækja og sækja og klára hann í fyrrihálfleik. Þá er hægt að gera skiptingar og hafa tvo dmc svona til að róa leikinn og halda fengnum hlut.
    Ole Gunnar hefur ekki bein í nefinu til að taka djarfar ákvarðanir sem verður líklega til þess að þetta lið nær ekki topp 4.
    Gjörsamlega hræðileg spilamennska sem menn ættu að skammast sín yfir og biðjast afsökunar
    Er líka orðinn þreyttur á manni eins og Rashford, greinilega eitthvað að pirra hann. það má brosa og reyna að hafa gaman að þessu, hvetja samherja áfram osfr.
    Það er eins og allir séu í fýlu inn á vellinum, engin gleði í þessu.

    10
  12. 12

    Cantona no 7 says

    5. mars, 2021 at 13:34

    Ole

    0

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Magnús Þór um Manchester Utd 3:1 Fulham
  • Arni um Manchester Utd 3:1 Fulham
  • Bjarni um Önnur ferð til Sevilla!
  • Egill um Real Betis 0:1 Manchester United
  • Helgi P um United 0 – 0 Southampton

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2023 · Keyrt á WordPress