• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Manchester United 3:1 Burnley

Halldór Marteins skrifaði þann 30. desember, 2021 | 2 ummæli

Besti knattspyrnustjóri allra tíma, Sir Alex Ferguson, fagnar 80 ára afmæli sínu á morgun, gamlársdag. Hann var mættur á leikinn og fékk sérstakar heiðursmóttökur í stúkunni og fína frammistöðu leikmanna inni á vellinum. Það vantar enn sitthvað upp á að liðið nái þeim hæðum sem það gerði undir stjórn Skotans en það voru þó allavega fínir sprettir í þessum leik og heilt yfir örugg frammistaða sem innihélt 3 United-mörk og 3 stig fyrir Manchester United. Gott að klára árið á þessu og vonandi fínt nesti inn í nýja árið.

Byrjunarlið og skiptingar

Síðasta byrjunarlið Manchester United á árinu 2021 var svona:

1
de Gea
23
Shaw
5
Maguire
3
Bailly
29
Wan-Bissaka
25
Sancho
31
Matic
39
McTominay
11
Greenwood
21
Cavani
7
Ronaldo

*Ath, þetta var 4-2-2-2 en það vantar möguleikann á þeirri uppstillingu í kerfinu okkar…*

Bekkur: Henderson, Rashford, Lingard, Fred (93′ fyrir Ronaldo), Varane (66′ fyrir Bailly), Dalot (81′ fyrir Greenwood), Telles, Elanga, van de Beek.

Gestirnir frá Burnley hófu leik með þetta lið:

13
Hennessey
3
Taylor
6
Mee
5
Tarkowski
2
Lowton
11
McNeil
4
Cork
18
Westwood
7
Jóhann Berg
9
Wood
17
Lennon

Bekkur: Norris, Collins, Bardsley, Pieters (84′ fyrir McNeil), Stephens (58′ fyrir Cork), Thomas, Vydra (74′ fyrir Lennon).

Leikurinn sjálfur

Það var töluverð rigning þegar leikurinn var flautaður á sem hafði áhrif á leikinn fyrstu mínúturnar. Manchester United var töluvert meira með boltann allan leikinn en fyrstu fimm mínúturnar gerðu Burnley meira við hann og sköpuðu sér strax ágætis færi sem enduðu þó yfirleitt í vörn United eða framhjá markinu.

Manchester United hafði fram að þessum leik ekki enn skorað mark á fyrstu fimmtán mínútunum í deildarleik. En það breyttist í þessum leik. Fyrst fékk reyndar Ronaldo algjört dauðafæri á 5. mínútu eftir flotta, langa sendingu frá Luke Shaw yfir alla vörn Burnley á Ronaldo sem lúrði á milli miðvarða Burnley. Ronaldo lagði boltann fyrir sig en þurfti þó að taka hann á lofti og skaut yfir. Það virkaði pínu eins og hann ætlaði of mikið að stimpla boltann í skeytin frekar en að láta bara vaða á rammann sjálfan. Hann var sjáanlega mjög pirraður með sig fyrir að hafa klúðrað færinu.

Á 8. mínútu hélt hann líklega að tækifærið væri komið til að bæta fyrir það þegar Mason Greenwood, eftir að hafa bombað skoti í varnarmann í teignum og fengið frákastið til baka, sendi kraftsendingu út úr teignum á Ronaldo. Ronaldo misreiknaði móttökuna örlítið þegar hann ætlaði að leggja boltann fyrir sig en úr varð þessi fína sending á Scott „McSauce“ McTominay sem þakkaði fyrir sig með þrumuskoti, algjörlega óverjandi fyrir Hennessey í marki Burnley og alveg út við stöng. Frábært mark!

Embed from Getty Images

Bakverðir United voru sprækir í þessum leik. Wan-Bissaka átti í baráttu við Jóhann Berg og hafði heilt yfir betur, varnarlega í það minnsta. Jói átti tilraun á 10. mínútu sem Wan-Bissaka blokkaði vel.

Hinum megin var Shaw líflegur líka, varðist heilt yfir vel og var áræðinn fram á við. Á 20. mínútu fékk hann boltann, sá pláss og hljóp í það með boltann. Hann bar boltann alla leið upp völlinn, fann enga álitlega sendingu en nóg af plássi svo hann endaði á að bera boltann alla leið að teignum og lét vaða. Rétt framhjá nærstönginni en þetta var mjög góð tilraun.

Sjö mínútum síðar áttu þeir Shaw og Sancho fínt spil upp vinstri kantinn. Shaw reyndi að gefa boltann inn völlinn þar sem hann endaði í Burnley-manni en Shaw gerði mjög vel í að vinna boltann aftur í baráttu við þrjá leikmenn Burnley. Hann sá þá hvernig opnaðist fyrir Sancho og sendi boltann á hann. Sancho keyrði á vörn Burnley, bjó sér til skotpláss og lét vaða. Boltinn fór meðfram jörðinni og endaði út við stöng fjær. Frábært mark! Því miður fær Sancho þetta mark líklega ekki skráð á sig þar sem Ben Mee snerti boltann örlítið á leið í markið. Mikil synd því Sancho átti sannarlega skilið að fá þetta fyrsta mark hans á Old Trafford skráð á sig.

Embed from Getty Images

Frammistaða Sancho var annars pínu gloppótt í þessum leik, eins og átti reyndar við um fleiri leikmenn United. Hann hélt þó alltaf áfram að reyna og þegar hann náði sér á strik þá sýndi hann algjörlega merki um hvað býr í þessum leikmanni. Megi 2022 verða árið hans!

Besti maður leiksins var hins vegar Scott McTominay. Fyrir utan markið sem hann skoraði þá var hann frábær í baráttunni og blómstraði í þessu box-to-box hlutverki sem hann fékk að sinna með Matic við hliðina á sér. Ótal sinnum var hann á réttum stað við vítateigsjaðarinn til að láta vaða, brjóta upp mögulegar skyndisóknir eða taka þátt í að viðhalda spili Manchester United.

Eftir hálftíma leik gerði hann mjög vel þegar hann fann Ronaldo í góðri stöðu við teiginn. Ronaldo leitaði að skoti og fann það loks en fór aðeins af varnarmanni. Enn var Ronaldo pirraður á því að ná ekki að skora, hann ætlaði að enda árið á marki.

Það tókst líka fimm mínútum síðar og það verður seint sagt að þetta hafi verið erfiðasta markið sem Ronaldo skoraði á ferlinum. Enn og aftur var það Scott McTominay sem var réttur maður á réttum stað. Hann átti fast skot af löngu færi, hvorki hans fyrsta né síðasta í þessum leik, sem Hennessey í marki Burnley varði gríðarlega vel í stöngina en því miður fyrir Hennessey fór boltinn aftur út í teiginn þar sem Ronaldo var fyrstur að átta sig og stýrði boltanum með hælnum í tómt markið. Það er ákveðin listgrein í því að ná svona oft að lúra réttstæður í akkúrat réttu stöðunni til að vera fyrstur að veiða fráköstin.

Embed from Getty Images

Lukku-Láki var skjótari en skugginn að skjóta. Ronaldo er skjótari en skugginn að átta sig á hvert boltinn endurkastast. Mark númer 14 hjá þeim portúgalska á tímabilinu fyrir Manchester United.

Þarna var staðan orðin ansi fín og flestir leikmenn Manchester United að spila ágætlega. Þá tókst miðvarðaparinu að koma Burnley aðeins inn í leikinn aftur með því að gefa mark. Eric Bailly missti boltann mjög klaufalega frá sér á Aaron Lennon sem náði að fara auðveldlega fram hjá Bailly í leiðinni. Hann lallaði sér svo áfram að teig Manchester United þar sem Harry Maguire gerði enga sérstaka tilraun til að stoppa hann. Lennon átti ekki í neinum vandræðum með að finna sér skot þegar hann var rétt kominn inn í teiginn og setti boltann í fjærhornið, ekkert sérstaklega fast en þó þokkalega út við stöng. Gef de Gea sénsinn á því að hafa séð boltann seint en Bailly og Maguire áttu að gera miklu, miklu betur þarna.

United sigldi þó með 3-1 forskot inn í leikhlé og tók seinni hálfleikinn bara nokkuð þægilega á þessari forystu. Það var engin sérstök flugeldasýning í gangi en þó nokkrir skemmtilegir sprettir í skyndisóknum sem hefði mátt nýta betur. Ronaldo tók líka ca. korter í að stilla sér upp fyrir aukaspyrnu á hættulegum stað og leyfði öllum á Old Trafford að rífa upp símann, finna heppilegt forrit til að taka myndband og setja það í gang áður en hann gerði sitt besta til að rota Tarkowski með aukaspyrnunni.

Burnley átti einhver hálffæri og næstum-því-dauðafæri en þau voru fá og engin alvöru hætta af þeim. Segir sitt að Burnley átti bara 2 tilraunir á rammann í kvöld. 3-1 sigur staðreynd.

Pælingar eftir leik

Sigurinn hjá Manchester United var öruggur og mjög sanngjarn en það er spurning hversu mikið þetta var Burnley að vera daprir. Engin ástæða samt til annars en gleðjast yfir sigrinum og fagna nýju ári þannig.

Leiðinlegt þó að Eric Bailly, sem flaug sérstaklega inn til að taka þennan leik, meiddist í seinni hálfleik. Það er spurning hvort þessi flugferð verði til þess að hann missi af Afríkukeppninni.

Embed from Getty Images

Eins og ég sagði áður fannst mér bakverðirnir fínir í þessum leik. Ég kunni líka vel að meta margt af því sem Mason Greenwood og Jadon Sancho voru að gera. Þeir voru duglegir að víxla köntum og skiptast á að leita inn á við eða halda breiddinni út á köntum. Oft munaði alls ekki miklu að skyndisóknir sem þeir komu nálægt, fyrirgjafir eða aðrir sóknartilburðir yrðu að einhverju meira og Sancho hefði alveg mátt fá þetta mark sem hann skoraði skráð á sig.

Maður leiksins var hins vegar án alls vafa Scott McTominay. Þetta er leikmaður með alvöru United-hjarta, alvöru vél og karakter. Gott að hafa þennan leikmann í hópnum og þegar hann nær sér almennilega á strik er þetta mjög öflugur leikmaður. Það ætti í það minnsta alltaf að vera pláss í hópnum fyrir svona gaura.

Scott McTominay's game by numbers vs. Burnley:

100% shot accuracy
75% pass accuracy
9 ball recoveries (most)
8 duels won (most)
5 fouls won (most)
1 goal

A Man of the Match performance. 🏴󠁧󠁢󠁳󠁣󠁴󠁿 pic.twitter.com/WmY4bIv3Io

— Statman Dave (@StatmanDave) December 30, 2021

Helsta samkeppni Scott McTominay um þennan titil var líklega frá Wayne Hennessey, markverði Burnley. Hann varði oft ótrúlega vel úr dauðafærum og kom í veg fyrir mun stærra tap sinna manna.

United endar árið í 6. sætinu, 4 stigum frá Arsenal en með leik til góða. West Ham er í fimmta sæti á markatölu. Það er ekki gott þegar Manchester United er með daprari markatölu en West Ham. En vonandi fer að rætast úr því.

Næsti leikur liðsins, sá fyrsti á árinu 2022, verður á mánudaginn þegar United fær Wolves í heimsókn í deildinni. Manchester United gegn Wolves í janúar er ekki beint ávísun á blússandi skemmtun og fjör en vonandi sýna okkar menn í það minnsta þá seiglu og baráttu sem þarf til að byrja árið á 3 stigum.

Efnisorð: Cristiano Ronaldo Jadon Sancho Scott McTominay Sir Alex Ferguson 2

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Rúnar P says

    30. desember, 2021 at 20:59

    Besti varnarmaður fyrri hálfleiks: Cavani!

    0
  2. 2

    Turninn Pallister says

    31. desember, 2021 at 01:05

    Fínn sigur, auðvitað ekki fullkomið en kærkomið eftir Newcastle skituna.
    Ánægður að sjá að liðið er ekki vonlaust þó það vanti Bruno og að McTominay getur verið án Fred.
    Gleðilegt nýtt ár og gg Man Utd

    8

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Tòmas um Brentford 4:0 Manchester United
  • Helgi P um Brentford 4:0 Manchester United
  • zorro um Brentford 4:0 Manchester United
  • zorro um Brentford 4:0 Manchester United
  • Danni um Brentford 4:0 Manchester United

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress