• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Evrópudeildin

Sevilla 3:0 Manchester United

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 20. apríl, 2023 | 9 ummæli

Sevilla tók á móti Manchester United í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld en Sevilla hefur verið ótrúlega seigt í þessari keppni síðastliðinn áratug eða svo. Erik ten Hag stillti upp í 4-2-3-1 og fyrsta sumarlið United var svona:

1
De Gea
20
Dalot
2
Lindelöf
5
Maguire
29
Wan-Bissaka
18
Casemiro
15
Sabitzer
25
Sancho
14
Eriksen
21
Antony
9
Martial

Bekkurinn: Butland, Vitek, Malacia, Shaw, Fred, Pellistri, Iqbal, Elanga, Rashford og Weghorst.

 

Sevilla gerði fjórar breytingar frá seinasta leik:

Bono
Acuna
Marcao
Bade
Navas
Gudelj
Fernando
Lamela
Rakitic
Ocampos
En-Nesyri

 

Fyrri hálfleikur

Fyrstu mínúturnar af leiknum voru fjörugar og United hélt boltanum ágætlega ofarlega á vellinum og virtust sprækir flestir en þegar dróg til tíðinda þá var það því miður hinu megin á vellinum. Strax á 7. mínútu renndi Harry Maguire boltanum til baka á David de Gea eftir að sá enski var pressaður meðan hann var á boltanum. Pressa heimamanna færðist þá ofar og En-Nesyri nálgaðist Spánverjann hratt. Maguire bauð sig mitt á milli tveggja sóknarmanna og de Gea renndi boltanum á hann en fyrirliðinn var með þrjá menn í kringum sig og endaði á að setja boltann í Erik Lamela og þaðan hrökk boltinn fyrir fætur En-Nesyri. Eftirleikurinn var of auðveldur og renndi hann boltanum framhjá de Gea sem átti ekki möguleika á að koma vörnum við og staðan orðin 1-0.

Embed from Getty Images

Miðvörður heimamanna, Marcao, þurfti að fara meiddur út af eftir hálftíma leik en í hans stað kom Suso (ekki sem miðvörður).

Á 40. mínútu áttu heimamenn aðra góða sókn sem endaði með því að Acuna átti fyrirgjöf frá vinstri vængnum að vítateigspunktinum og þar tók Lucas Ocampos við tuðrunni, lagði hana fyrir sig og smellti honum í hægra hornið fram hjá de Gea en VAR kom til bjargað og hélt stöðunni í 1-0 þar sem Acuna var hársbreidd fyrir innan varnarlínuna.

Raunar var þetta nokkuð búið að liggja í loftinu. Stuttu áður hafði Ocampos komist í gott færi þegar fyrirgjöf kom frá vinstri kantinum þar sem de Gea þurfti að slengja höndinni mitt á milli Diogo Dalot og Ocampos til að blaka honum frá og koma í veg fyrir gráupplagt dauðafæri.

United byrjaði hálfleikinn vel en eftir þetta mark virtist liðið hafa fengið högg á sig sem það náði ekki að hrista af sér. United átti nokkrar góðar sóknir en heimamenn tóku smám saman völdin á veldinum og líklegast sanngjarnt að fara inn í hálfleikinn í stöðunni 1-0.

Embed from Getty Images

 

Síðari hálfleikur

Erik ten Hag gerði tvær breytingar í hálfleik, Jadon Sancho og Aaron Wan-Bissaka fóru útaf og í þeirra stað komu Marcus Rashford og Luke Shaw eftir smávægileg meiðsli héldu þeim frá síðustu leikjum.

En það var ekki til að breyta miklu því leiknum lauk eftir einungis 80 sekúndur af síðari hálfleik þegar Rakitic tók hornspyrnu og smellti henni fyrir markið þar sem Loic Badé reis manna hæst en þrátt fyrir að hann hitti ekki boltann tók honum að skora. Boltinn hrökk af öxlinni á honum og hátt í loftið í boga yfir de Gea sem stökk máttleysislega í átt að boltanum sem endaði í slánni og datt þaðan inn fyrir línuna og staðan orðin 2-0 og þá 4-2 í heildina.

Embed from Getty Images

Rakitic var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann átti hörku gott færi við vítateigshornin vinstra megin en de Gea sló boltann út fyrir og í horn. Aftur skapaðist mikil hætta fyrir framan markið þegar boltinn virtist hafa viðkomu í öllum mönnunum í báðum liðum sem stóðu í markmannsteignum en inn vildi tuðran ekki. Hreint út sagt ótrúlegt að boltinn hafi ekki farið inn en að lokum dæmt brot á heimamenn.

Enn ein meiðslin hjá Anthony Martial litu svo dagsins ljós í dag en hann neyddist til að fara útaf á 54. mínútu og Wout Weghorst mætti í hans stað. Fred fékk svo óvænt tækifæri þegar Sabitzer var tekinn útaf á 68. mínútu en Sevilla menn réðu lögum og lofum í leiknum þá og það kórónaði Youssef En-Nesyri þegar um níu mínútur voru eftir af leiknum. Acuna hreinsaði þá boltann hátt og langt frá markinu eftir að United var búið að liggja í smá pressu á heimamönnum og Marokkómaðurinn tók á rás með Lindelöf á hælunum en David de Gea var á sjaldséðnum stað langt fyrir utan vítateig og sýndi okkur afhverju hann fer sjaldan út úr teignum.

Embed from Getty Images

Því þegar hann ætlaði að hreinsa boltann virtist hann gleyma því í hálfa sekúndu að hann væri í fótbolta því hann reyndi að stíga á boltann að því er virtist og snertingin sem hann náði gerði nánast ekkert nema að fullkomna færið fyrir En-Nesyri sem tók boltann viðstöðulaust og lagði hann auðveldlega framhjá de Gea og rak síðasta naglann í kistuna og tryggði Sevilla inn í undanúrslitin. Leikurinn fjaraði svo út eftir það, United tókst ekki að gera mikið til að trufla taugar heimamanna enda þriggja marka munur sem erfitt er að vinna upp á innan við korteri.

 

Að leik loknum…

Það er auðvelt að vera svartsýnn, pirraður og jafnvel reiður eftir slíka frammistöðu eins og við horfðum upp á í kvöld. Slíkt var getuleysið, metnaðarleysi, baráttuleysið og hugleysið. Ekki einn leikmaður á vellinum vann fyrir laununum sínum með þessari frammistöðu ætla ég mér að fullyrða. Það er alveg hægt að fela sig á bak við það að varnarlínan var samsett af varamönnum eða mönnum að spila úr stöðum, okkar bestu menn voru í banni eða gátu ekki byrjað en þetta var sorglega léleg frammistaða. Sama þó þarna hafi United mætt með vængbrotið lið.

Fram á við var ekkert að frétta og þegar þú mætir á útivöll og þarf að skora til að vinna, þá gengur það ekki upp. Varnarlega var glundroði sem einkenni okkur. Við sáum um að koma Sevilla inn í næstu umferð því án markanna sem við skoruðum eða gáfum þeim þá skoruðu þeir einungis eitt mark. Hin mörkin komu á silfurfati.

Embed from Getty Images

En ef við eigum að líta á björtu hliðarnar þá mætum við Brighton í næsta leik í undanúrslitum bikarsins og þá verður Bruno Fernandes tiltölulega vel hvíldur þar sem hann kom ekkert við sögu í þessum leik. Fyrir þá sem óttast að Harry Maguire muni skora sjálfsmark í því einvígi þá getiði huggað ykkur við það að hann er í leikbanni en líklega erum við núna komnir í bobba þegar Luke Shaw var farinn að haltra en það hefði verið best að notast við hann í miðvarðarstöðunni um helgina.

Hópurinn er ansi þunnur en fyrir Pollýönnurnar þarna úti þá er hægt að líta á það sem tækifæri fyrir aðra til að skína. Því miður var enginn að skína í þessum leik en það kemur leikur eftir þennan leik og dagur eftir þennan dag. Glory, glory!

Embed from Getty Images

 

 

 

9

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Rúnar P says

    20. apríl, 2023 at 19:11

    Verður gott þegar við verðum laus við Harry og De Gea í sumar

    4
  2. 2

    Helgi P says

    20. apríl, 2023 at 20:12

    Þetta lið er svo sprungið

    4
  3. 3

    Dór says

    20. apríl, 2023 at 20:47

    Við verðum að fara ná í nýjan markmann

    3
  4. 4

    Dr Gylforce says

    20. apríl, 2023 at 21:00

    Það verður algjört „callenge“ fyrir Eirík frá Högum að taka eitthvað jákvætt úr þessum leik, enginn gat neitt.

    2
  5. 5

    Helgi P says

    20. apríl, 2023 at 21:09

    Lindelöf og maguire er versta miðvarðarpar í sögunni

    3
  6. 6

    Egill says

    20. apríl, 2023 at 21:17

    Það heppnaðist líka svona frábærlega hjá ETH að halda fengnum hlut í stöðunni 2-0 í fyrri leiknum með því að gera verstu skiptingu sögunnar á 60. min.

    Ef Liverpool og Chelsea væru ekki að eiga svona lélegt tímabil væri 4. sætið úr sögunni. Liðið er gjörsamlega sprungið og menn að hrynja í meiðsli.

    Við getum þó huggað okkur við að Maguire verður í banni gegn Brighton um helgina.

    2
  7. 7

    Einar Ingi Einarsson says

    20. apríl, 2023 at 21:18

    Orðlaus

    1
  8. 8

    Scaltastic says

    20. apríl, 2023 at 21:23

    Þessi Evrópudeildar krossferð hjá ETH er að setja topp 4 möguleikana í alvöru uppnám. Hvað í fjáranum var hann pæla með að setja tvo hálfmeidda lykilmenn inná í hálfleik, eftir að hafa misst út miðvaraparið í síðustu viku?

    Er ekki að afsaka frammistöðu leikmannana en stóra L-ið í kvöld fer á þjálfarann, goosefraba…

    4
  9. 9

    Gummi says

    21. apríl, 2023 at 11:41

    Þetta er að breytast í algjöra martröð þetta tímabil við erum ekki að fara vinna Brighton með þessa vörn

    3

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Einar um Chelsea mætir á Old Trafford í miðri viku
  • Elis um Newcastle 1:0 Manchester United
  • Tómas um Newcastle á morgun
  • Dór um Newcastle á morgun
  • Tòmas um Newcastle á morgun

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2023 · Keyrt á WordPress