Erik ten Hag stillti upp frekar sterku liði: Onana, Dalot, Maguire, Martinez, Mazraoui, Eriksen, Bruno, Ugarte, Rashford, Zirkzee og Amad.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór rólega af stað en á áttundu mínútu fengu gestirnir frábært færi þegar Diogo Dalot ákvað að vera kærulaus út við hornfánann. Hann reyndi að skýla boltanum útaf en boltinn var hirtur af honum og rennt fyrir markið þar sem Sam Lammers sparkaði boltanum þvert framhjá markinu.
United fengu þó fyrsta færið sitt stuttu seinna þegar Rashford og Zirkzee tók létt þríhyrningaspil í gegnum varnarlínu gestanna sem endaði með fyrirgjöf rétt fyrir utan markið en rataði ekki á samherja.
Að öðru leyti var fyrsta korterið heldur rólegt, ekkert nema hálffæri og rólegheit. En um leið og orðinu var sleppt kom hættuleg sókn hjá United þegar Amad Diallo vann boltann hátt á vellinum og komst inn í teiginn. Þar renndi hann boltanum fyrir á Zirkzee sem mistókst að ná skotinu en þaðan barst boltinn á Bruno en skot hann af varnarmanni og á Eriksen sem endurtók sma leikinn, það er skaut í varnarmann.
United fékk svo gráupplagt tækifæri til að ná forystunni eftir um 25 mínútna leik þegar Bruno átti laglega fyrirgjöf sem rataði á pönnuna á Martinez og þaðan datt boltinn fyrir Zirkzee. Hollendingnum tókst að ná góðri snertingu á boltann og kom honum á rammann en Unnerstall átti fyrirtaks sjónvarpsvörslu og bjargaði í horn. Rashford og Zirkzee voru svo aftur á ferðinni þegar Dalot stakk boltanum út á vinstri vænginn þar sem sá enski renndi boltanum fyrir en Hollendingurinn náði ekki til boltans. Rashford lék svo listir sínar á kostnað van Wolfswinkel og lagði upp skottækifæri fyrir liðsfélaga sinn en skotið í varnarmann.
Loksins á 35. mínútu dró til tíðinda þegar Bruno fann samlanda sinn og bakvörðinn Dalot inn í teignum sem missti boltann frá sér en eftir klafs og mislukkaða hreinsun lenti boltinn fyrir fætur Eriksen sem gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum uppi í fjærhornið og BÆNG eins og Fiskikóngurinn myndi orða það sjálfur, 1-0.
Síðustu tíu mínúturnar að leikhléinu voru afskaplega bragðdaufa og litlausar og liðið skellti sér inn í búningsklefa með þægilega 1-0 forystu og ekki hægt að segja að sóknarleikur gestanna hafi skapað nokkurn raunverulegan hausverk fyrir öftustu línu okkar manna. Hins vegar vantaði töluvert upp á sóknarleikinn þessar fyrstu 45 mínútur.
Síðari hálfleikur
Engar breytingar voru gerðar á liðunum í hálfleik og leikurinn rúllaði rólega af stað. Það voru komnar sjö mínútur á klukkuna í síðari hálfleik áður en fyrsta skotið kom en Harry Maguire átti það eftir hornspyrnu en máttlaust og beint í fangið á Unnerstall. Martinez ákvað svo að gefa ódýra aukaspyrnu fyrir utan teiginn okkar og þurfti Onana að hafa sig allan við og nýta alla sentimetrana sína til að koma boltanum aftur fyrir.
Leikurinn flaut áfram og lítið marktækt sem gerðist enda virtust bæði liðin vera í öðrum gír og varla líkleg til að gíra sig upp og bjóða upp á alvöru leik. Erik ten Hag ákvað svo að gera breytingu á 67. mínútu þegar Garnacho kom inn á í stað Diallo.
En akkurat á þeirri stundu missti Christian Eriksen sig sekan um slæm mistök og leyfði gestunum að stela boltanum af sér og þeir voru þá mættir í yfirtölu gegn Martinez og Onana. Lommers setti boltann framhjá Kamerúnanum og jafnaði leikinn sem hafði verið steindauður fram að þessu. En þá lifnaði aðeins við okkar mönnum en þetta var fyrsta markið í fjórum leikjum sem liðið fær á sig.
Hins vegar virtust leikmenn Twente fá verulega aukið sjálfstraust við þetta og blésu líka til sóknar. Næsta færi United kom þegar liðið setti þunga pressu á gestina og kom boltanum á Zirkzee inn í teignum en skot hans varið í horn. Eftir að hún var tekin ákvað Erik ten Hag að henda í þrefalda breytingu, inn á komu þeir Mainoo, Hojlund og Mount í stað Eriksen, Zirkzee og Rashford.
Bruno Fernandes fékk svo gott skotfæri eftir að Ugarte lagði boltann fyrir hann en skotið hans sveif rétt framhjá markinu. Dalot átti svo ágætisskotfæri stuttu síðar en leikmenn Twente vörðust eins og enginn væri morgundagurinn. United virtust vera fastir í öðrum gírnum þrátt fyrir að þurfa á marki að halda.
United fengu þó gott dauðafæri undir lok leiks en Unnerstall átti frábæra markvörslu af stuttu færi. Maguire lagði boltann með skalla fyrir Martinez sem potaði boltanum en Þjóðverjinn náði að blaka í boltann og stoppa hann. Bruno fékk svo eina aukaspyrnu þegar nokkrar sekúndur voru eftir af uppbótartíma en skot hans af löngu færi skapaði enga hættu. 1-1 og Evrrópa byrjar ekki frábærlega.
Pælingar að leik loknum
Lokatölur í leiknum gefa eflaust ekki vel til kynna gang leiksins. United fór með stjórnina í leiknum og hefði undir venjulegum kringumstæðum átt að halda hreinu fjórða leikinn í röð. Einstaklingsmistök hafa reynst okkur gríðarlega dýrkeypt á þessum fyrstu vikum tímabilsins.
United átti að vera búið að jarða leikinn en þetta er sagan endalausa, við erum að hanga á eins marks forystu og svo dettur einbeitingin niður í smá og menn gera sig seka um klaufaleg mistök sem kosta okkur mörk og að lokum stig. Þetta sáum við t.d. með Onana á síðasta tímabili, Casemiro í Liverpool leiknum og svo mætti lengi telja.
Stigið er enginn hryllingur en Twente er þó andstæðingur sem United ætti að vinna en það sem merkilegast er reynist staðreyndin að leikmenn voru á hálfum hraða meiri hluta leiksins. Þú uppskerð eins og þú sáir og í kvöld voru okkar menn ekki að uppskera neitt annað en það sem þeir áttu skilið, eitt stig.
Þessi leikur hefði átt að vinnast og var í raun mjög þægilegur fyrir okkar menn en þegar liðið leiðir einungis með einu marki og er ekki að leitast eftir því endilega að skora, þá býður það hættunni heim sem sprakk svo í andlitið á okkur þegar Eriksen gerðist sekur um það sama og hann gerði í 4-0 leiknum gegn Brentford á síðustu leiktíð. Hausinn ekki rétt skrúfaður á og þannig missir maður sætið sitt í byrjunarliði en Eriksen hefur spilað líklega meiri mínútur en flestir stuðningsmenn hafa gert ráð fyrir.
En upp, upp og áfram sagði einhver. Næsti leikur er gegn Tottenham um helgina. Vonandi verður þetta smá spark í rassinn fyrir okkar menn til að mæta dýrvitlausir í þann leik.
ETH says
Dnt wry b hpy
Helgi P says
Versti stjóri í sögu united
Dór says
Hvernig er hægt að réttlæta það að brunó sè í byrjunarliðinu hann er ekki búinn að geta neitt í 2 ár
Zorri says
Eric Ten Hag nær ekki til leikmanna..það virðist enginn í liðinu vera ánægður eða með rétt hugarfar….svo er hann alltaf með afsakanir fyrir hinu og þessu….orðið óþolandi að allir leikir okkar eru basl og vesen.Hann verður látinn fara annað er galið….9 leikir í röð í Evrópukeppni….aðeins 1 sigur hjá honum…hann slær öll met í rugglinu