Flugvél frá Loftleiðum, dótturfélagi Icelandair, var leigð til að ferja lið Manchester United í og úr leik liðsins gegn Porto í Evrópudeildinni í gærkvöldi. Fyrirtækið hefur að undanförnu markaðssett vélar útbúnar lúxusfarrýmum til evrópskra knattspyrnuliða.
Það var Samuel Luckhurst, sem dekkar United fyrir staðarblaðið Manchester Evening News, sem vakti athygli á því að flugvél United hefði þurft að hringsóla fyrir ofan Porto þegar United flaug þangað á miðvikudag. Glöggir Íslendingar tóku hins vegar eftir að flugferillinn var frá vél með íslenskri skráningu, TF-FIA.
Í svari Icelandair, við fyrirspurn Rauðu djöflanna, segir að United hafi ferðast með einni af þremur Boeing 757 VIP flugvélum sem Loftleiðir, leiguflugshluti fyrirtækisins, sé með í rekstri. Alla jafna séu þær mest bókaðar fyrir erlenda ferðaheildsala sem bjóði upp á heimsferðir en í ár hafi verið lögð meiri áhersla á að bjóða þær í styttri verkefni þegar þær séu ekki bókaðar í heimsferðirnar.
Liður í því hafi verið að kynna þjónustuna fyrir mörgum af stærri knattspyrnufélögum Evrópu. Í sumar hafi til að mynda RB Leipzig flogið með VIP vél Loftleiða í æfingaferð sína til Bandaríkjanna. Í þessari viku hafi United nýtt sér þjónustuna.
Vélarnar eru ýmist búnar 50 eða 80 lúxussætum. United nýtti sér 80 sæta vél. Myndir og nánari upplýsingar um vélarnar má finna á vef Loftleiða.
Íslensk áhöfn fylgdi vélinni, sem samkvæmt FlightRadar, flaug frá Keflavík til Manchester fyrir hádegi á miðvikudag, sótti þar liðið og flaug til Porto þar sem lent var á miðvikudagskvöld. Eftir því sem næst verður komist tafði þoka lendingu þótt kenningar séu einnig á lofti um hringsólið að Antony hafi fengið að grípa í stýrið.
Meðfylgjandi mynd frá Icelandair sýnir farþegarými vélarinnar undirbúið fyrir leikmenn United. Þar er að finna matseðilinn um borð. Sesarsalat er í forrétt en í aðalrétt má velja um reyktan íslenskan lax á dönsku rúgbrauði eða kjúklingabringu með risóttó. Ávaxtasalat er í eftirrétt. Drykkjaseðillinn inniheldur aðeins te eða ávaxtasafa.
Samkvæmt FlightRadar á vélin að fara frá Porto upp úr klukkan 14 í dag að staðartíma, sem er um klukkutíma á undan þeim íslenska.
Skildu eftir svar