• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Fulham 1:1 Manchester United

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 24. ágúst, 2025 | 7 ummæli

Manchester United mætti á Craven Cottage þar sem heimamenn í Fulham tóku á móti þeim. United beið lægri hlut fyrir Arsenal í fyrstu umferðinni á heimavelli á meðan Fulham fór í heimsókn til mávanna í Brighton og stálu stigi á lokasekúndum leiksins.

Byrjunarlið United: Altay Bayindir, Leny Yoro, Matthijs de Ligt, Luke Shaw, Amad Diallo, Casemiro, Bruno Fernandes, Patrick Dorgu, Bryan Mbeumo, Mason Mount og Matheus Cunha.

Á bekknum voru þeir Andre Onana, Diogo Dalot (52′), Harry Maguire (87′), Joshua Zirkzee, Manuel Ugarte (69′), Ayden Heaven (87′), Benjamin Sesko (53′), Tyler Fredricson, Kobbie Mainoo.

Embed from Getty Images

Fyrri hálfleikur

United byrjaði eins og líf þeirra allra væri undir, svo mikil var ákefðin. Mattheus Cunha komst strax í þrusugott tækifæri en skotið hans rétt fyrir utan teig sveif nokkra sentimetra yfir slánna. Brasilíumaðurinn var svo aftur á ferðinni þegar hann fékk stungusendingu inn í teig sem endaði með því að hann setti boltann á milli fóta Calvin Bassey hjá Fulham en boltinn small neðst í fjærstöngina og út. Þetta var áður en við sáum tvær mínútur komnar á klukkuna.

Embed from Getty Images

Patrick Dorgu brunaði svo upp vinstri kantinn og slapp inn fyrir rangstöðugildru heimamanna, fékk boltann og komst í þröngt skotfæri en skotið endaði í hliðarnetinu. Áfram héldu gestirnir að gera sig líklega og voru um 70% með boltann fyrstu tíu mínúturnar sem lofuðu mjög góðu.

Það voru hins vegar heimamenn sem tóku völdin á vellinum næstu tíu til fimmtán mínúturnar eða svo. Þeir héldu boltanum töluvert og sáu til þess að United var bara í endalausum eltingaleik en leið og slökknaði í smástund á varnarlínunni tókst táningnum Josh King að skapa sér færi með því að taka gott hlaup inn fyrir vörnina og fá stungusendingu en Altay Bayindir var fljótur út á móti honum og varði vel með vinstri fætinum.

Embed from Getty Images

Næsta færi kom svo einmitt eftir langa sendingu frá Tyrkjanum sem þrumaði boltanum yfir völlinn, beint í átt að marki heimamanna og Cunha ýtti Andersen frá sér, tók frábæra fyrstu snertingu og steindrap boltann og var kominn einn á móti markmanninum. Hann opnaði líkamann og setti boltann í hægra hornið. En þá var komið að hinum markverðinum að sýna listir sínar. Bernd Leno kastaði sér í rétta átt og varði boltann meistaralega í horn.

En þá komum við að einmitt lykilorðinu, horn. Hættan sem skapaðist úr horninu var lítil sem engin en hinu meginn á vellinum, nánar tiltekið í vítateig United, skapaðist alltaf glundroði og hætta þegar heimamenn fengu horn. Trekk í trekk virtist Bayindir ætla að endurtaka leikinn og gefa mark eftir hornspyrnu en hann ýmist missti af boltanum, rann til eða var í einskismannslandi og bara klaufaheppni að við fengum ekki á okkur mark úr horni í þessum leik.

Embed from Getty Images

En þá kom að atviki leiksins. United fékk hornspyrnu og rétt eins og áður skapaðist ekki mikil hætta út frá henni en menn féllu hver um annan þveran í teignum eftir rúmlega hálftíma leik. Ekkert var dæmt en stuttu síðar var Chris Kavanagh kallaður í skjáinn. Kavanagh hafði látið leikinn ganga frekar mikið og lítið flautað í leiknum fram til þessa en í endursýningunni sást að Calvin Bassey tók blásaklausan Mason Mount og fleygði honum til í teignum en Casemiro og Tete féllu á sama tíma og kuðluðust allir leikmennirnir saman í eina væna hrúgu.

Í skjánum sá Kavanagh Bassey taka íslenskan glímuleik við fyrrum enska landsliðsmanninn og var ekki lengi að ákveða að blása í flautuna og benda á punktinn. Víti og auðvitað steig Bruno Fernandes sem hafði verið heldur hljóðlátur þennan fyrsta hálftíma. Á punktinum lenti hann í smá samstuði við Kavangah og kvartaði Portúgalinn yfir því og stillti boltanum aftur upp. Það hefði hann kannski ekki átt að gera því eitthvað við þetta allt saman gerði það að verkum að skot fyrirliðans fór himinhátt yfir markið.

Embed from Getty Images

Casemiro fékk síðan réttilega gult spjald fyrir dýfu eftir að hann reyndi að fiska aukaspyrnu fyrir utan teig heimamanna. Alex Iwobi átti svo hörku góðan sprett inn í teig eftir að hafa unnið boltann af Amad Diallo en sá stutti vann vel til baka og bjargaði í horn. Rétt áður en blásið var til hálfleiks fékk Muniz tækifæri til að skalla boltann í tómt markið úr hornspyrnu eftir skelfingarúthlaup Bayindir en skalli hans framhjá. Þá reyndi hann einnig bakfallsspyrnu rétt áður en flautað var tikl hálfleiks en hitti ekki boltann af um 15 metrum frá marki.

Síðari hálfleikur

Sá síðari byrjaði ekki ólíkt þeim fyrri, United voru mun líflegri og sprækari en Fulham þurfti smástund til að komast í takt við leikinn. Amorim gerði breytingar snemma í síðari hálfleik og inn á komu þeir Diogo Dalot og Benjamin Sesko í stað Casemiro og Amad sem báðir hafa átt betri daga í United treyjunni.

Örskömmu síðar sýndi Leny Yoro enn og aftur frá á snilld sína sem miðvörður þrátt fyrir ungan aldur. Josh King virtist þá vera að sleppa einn inn í gegn frá miðjuboganum en Frakkinn knái fylgdi honum á eftir og tækling hans gerði það að verkum að færið rann út í sandinn en ef hann hefði klikkað hefði hann farið beint í sturtu.

Embed from Getty Images

Heimamenn fengu svo enn eina hornspyrnuna eftir misskilning milli Mount og Shaw en sem betur fer var skallinn frá Kenny Tete slakur og varð æfingabolti fyrir Bayindir sem líklegast hefur andað mun léttar í þann mund. Hinu meginn á vellinum fengum við svo hornspyrnu og að þessu sinni tókst okkur að skapa hættu út frá föstu leikatriði.

Bryan Mbeumo tók spyrnuna frá hægra horninu og fyrirgjöf hans endaði á Leny Yoro sem skallaði boltann áfram þangað sem hann lenti í bakinu á Muniz og þaðan í netið. Ekki fallegt mark og skráð sem sjálfsmark en engu að síður telur jafn mikið. Einhverjir heimamenn vildu sjá dómarann flauta markið af þar sem Yoro setti hendurnar á bakið á Bassey og ýtti við honum en á svona er sjaldnast dæmt í Úrvalsdeildinni.

Embed from Getty Images

Áður en langt var um liðið gerði heimaliðið tvær breytingar, Emile Smith-Rowe og Raúl Jimenez komu þá inn á fyrir Muniz og King en á sama tíma tók Amorim Mount útaf og setti Ugarte inn. Það tók ekki langan tíma fyrir varamennina hjá Fulham að stimpla sig inn.

United voru kærulausir eftir sókn heimamanna, hreinsuðu boltann út úr teignum og út vinstra meginn þar sem Diogo Dalot tók skringilegan snúning og tapaði boltanum. Heimamenn þustu í sókn og Jimenez sendi boltann inn í teiginn og varnarlína United virtist alveg sofandi. Iwobi tókst að pota boltanum áfram og á Smith-Rowe sem átti ekki í nokkrum vandræðum með að setja hann í netið. 1-1 og stuðningsmenn Fulham tóku trylling.

Embed from Getty Images

Eftir markið voru heimamenn líklegri til að stela sigrinum en United. Skiptingarnar hjá þeim virtust sannarlega hafa hjálpað þeim að skipta um gír en skiptingar United virtust gera það þveröfuga. Rétt undir lok venjulegs leiktíma voru félagarnir Harry Maguire og Ayden Heaven settir inn á og það var strax í næstu sókn sem United fékk hornspyrnu og rataði fyrirgjöfin á höfuðið á gamla fyrirliðanum sem setti boltann rétt framhjá markinu.

Leikurinn fjaraði svo út þar sem þreyta var farin að segja til sín hjá báðum liðum og mikið var um brot. Niðurstaðan var eitt stig á haus.

Næsti leikur er svo gegn Grimsby Town í deildarbikarnum en leikurinn fer fram á heimavelli Grimsby sem tekur um 8500 manns í sæti. Liðið leikur í League Two, þremur deildum neðar en þeir hafa ekki tapað leik í síðustu sex viðureignum sínum. Þangað til þá.

Embed from Getty Images

7

Reader Interactions

Comments

  1. T-P says

    24. ágúst, 2025 at 18:38

    Slappt í dag og pínu vonbrigði eftir ágætan fyrsta leik á tímabilinu (þrátt fyrir tap). Við eigum vægast sagt erfiða byrjun í ár, svo ef þetta er það sem komast skal, þá hugsa ég (og vona) að Amorim verði farinn í nóvember.
    Mikið væri svo gaman ef það verður settur alvöru metnaður í ráðningu á næsta stjóra. Við eigum betra skilið.

  2. Helgi P says

    25. ágúst, 2025 at 08:05

    Ef Amorim fer ekki að vinna leiki þá verður hann að fara

  3. Steve Bruce says

    25. ágúst, 2025 at 10:23

    Sá ekki leikinn en samkvæmt þeim myndbrotum sem sýnd voru í Messunni á SýnSport hefðum við átt að vinna. Klúðrað víti, stangarskot (Cunha hefði getað skorað þrennu fyrsta korterið). Samt voru Fulham með aðeins hærra xG. Það var eitthvað að angra Bruno í þessum leik, ekki endilega tengt fótboltanum gæti ég trúað. Þessi hegðun hans kringum vítaspyrnuna var mjög skrítin og vítið sem slíkt ekkert líkt venjulegu víti frá honum.

  4. T-P says

    27. ágúst, 2025 at 19:33

    Jæja, má ekki reka þennan trúð bara í hálfleik?
    Best að segja upp SÝN, slá út rafmagninu, henda sjónvarpinu niður af svölunum og hringja sig inn veikann í vinnuna á morgun.

  5. Dór says

    27. ágúst, 2025 at 20:32

    Við erum að fara falla með þennan þjálfara sem stjóra

  6. Spekingurinn says

    27. ágúst, 2025 at 22:21

    Þegar engin evrópukeppni er í boði þá skipta bikarkeppnirnar meira máli.

    Liðið á ekki breik í deildina en miði er möguleiki í bikarkeppnum.

    Á meðan stóru strákarnir sátu hjá datt liðið út gegn Grimsby.

    Það er ágúst og næsti bikarleikur er í janúar.

  7. SMJ says

    27. ágúst, 2025 at 22:38

    Fyrir þessa bikarkeppni er í alvörunni í boði evrópukeppni. Ekki merkileg evrópukeppni, en evrópukeppni engu að síður.

    Og þetta var ekki einu sinni neitt varalið…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Síðustu ummæli

  • Arni um Liðið í Manchester slagnum
  • Helgi P um Liðið í Manchester slagnum
  • Gummi um Liðið í Manchester slagnum
  • Halldór Marteins um Liðið í Manchester slagnum
  • sófinn um Liðið í Manchester slagnum

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2025 · Keyrt á WordPress