Hversu lengi getur vont versnað? Í kvöld lét Manchester United lið úr fjórðu deild Englands henda sér út úr enska deildarbikarnum. Verst er að það var heppni að United skyldi knýja fram vítakeppni.
Fyrra mark Grimsby kom á 22. mínútu. Diallo tapaði boltanum á miðjunni og Ugarte lét kjöta sig. Þar með skapaðist svæði til hægri, þaðan kom fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Vernam var frír og skoraði.
Grimsby skoraði síðan annað mark sem dæmt var af því boltinn fór í hönd varnarmanns. Vörn United leit ekki vel út í því atviki en slapp með skrekkinn. Á 30. mínútu mínútu kom hins vegar mark þegar Onana missti af hornspyrnu og Warren, fyrrum unglingaliðsmaður United, skoraði í autt markið.
Grimsby-liðið var miklu betra í fyrri hálfleik. Sóknaruppbygging United var hæg og ómarkviss. Helst var líf í Sesko fremst en hann tók vondar ákvarðanir. Ungu mennirnir Fredicson og Hayden gátu engan vegin spilað boltanum út úr vörninni og voru einfaldlega í vandræðum með sóknarmenn Grimsby.
Reyndi að blása í glæðurnar í hálfleik
Ruben Amorim reyndi að bjarga því sem bjargað varð með þremur skiptingum í hálfleik. Dorgu, Ugarte og Fredicson fóru út fyrir Mbeumo, Bruno og de Ligt. Það var hins vegar snemma í hálfleiknum sem Grimsby fékk algjört dauðafæri til að skora þriðja markið en Heaven náði að fórna sér fyrir skot af markteignum.
Snemma í seinni hálfleik gerði úrhellisrigningu sem eiginlega drap leikinn niður á tímabili og reyndar eftir það voru leikmenn alveg í vandræðum með völlinn. Þegar rigningunni slotaði þyngdist sókn United og Mbeumo minnkaði muninn með góðu skoti á 75. mínútu.
Fimm mínútum fyrr hafði reyndar verið dæmt mark af Grimsby vegna rangstöðu. Sá sem skoraði var í rangstöðu þegar boltanum var leikið, hann breytti reyndar verulega um stefnu af Harry Maguire án þess að hann væri undir pressu, en samkvæmt nýjustu útgáfu reglnanna virðist dómurinn hafa verið réttur (fyrir áhugasöm má benda á útskýringu 13 í hagnýtum upplýsingum um rangstöðu í knattspyrnulögunum!)
Kæruleysi í fimmtu spyrnu
United bætti í sóknina. Mount kom til dæmis inn fyrir Heaven og síðan var Amad fórnað fyrir Zirkzee. Gott færi fékkst eftir hornspyrnu en Grimsby bjargaði sér. Á 88. mínútu fékk United aðra hornspyrnu og hana stangaði Maguire inn á fjær og bjargaði því andliti United – í bili.
United fékk færi á lokasekúndum uppbótartímans þegar boltinn féll fyrir de Ligt og Sesko á markteig en boltinn var skoppandi og Slóveninn skóflaði honum yfir.
Í deildarbikarnum er engin framlenging heldur farið beint í vítaspyrnukeppni. Andre Onana varði þriðju spyrnu Grimsby og því gat Cunha tryggt sigurinn þegar hann fór til að taka fimmtu spyrnu United. Hún var arfaslök og varin. Ekki klúðruðust fleiri spyrnur og því varð að hefja annan hring. Í annarri spyrnu hans setti Mbeumo boltann í slána.
Hvað ályktanir drögum við af þessum úrslitum?
Það má vera að United hafi þótt gott gegn Arsenal á fyrsta degi. Það breytir því ekki að úr 22 skotum voru væntu mörkin (xG) 1,5 sem þýðir að skotið hefur verið úr lélegum færum. Til að fylgja þeirri spilamennsku eftir var eðlilegt að ætlast til þriggja sigra í þessari viku gegn Fulham, Grimsby og Burnley. Burnley leikurinn er nú einn eftir. Úrslitin og frammistaðan þýða hins vegar að United er komið í enn eina krísuna og virkilega spurt af alvöru hvort Amorim ráði nokkuð við starfið.
Síðustu dagar hafa verið litaðir af meintri óánægju Kobbie Mainoo með að fá ekki að spila og möguleikum á að hann verði seldur. Hann fékk að byrja í dag, hann var ekki verstur en ekkert frábær og sýndi takmarkanir sínar í löngum sendingum sem fóru út í buskann.
Það er ekki hægt að tína neitt jákvætt til eftir tap gegn fjórðu deildarliði. United veitti ekki af deildarbikarnum til að hafa verkefni fyrir hópinn sem er í stærra lagi miðað við úrvalsdeildina eina. Það hefði líka verið gott fyrir sjálfstraustið að eiga góða bikarkeppni, en það er mölbrotið enn og aftur.
Eflaust er freistandi að skella tapinu á Onana fyrir annað markið. Kannski hefði hann átt að verja annað markið, en það er erfitt að ætlast til að hann verji opið færi. Hann sýndi hins vegar af hverju hann var ekki valinn í fyrstu tvo leikina. Kannski er fertugur Tom Heaton skásti kosturinn núna.
Hvað er til ráða? Miðað við lýsingar blaðamanna á Amorim í viðtölum eftir leik virtist hann búinn að gefast upp. Sam Allardyce og Sean Dyche eru á lausu og þekktir fyrir að bjarga liðum frá falli. En sennilega er United frekar verkefni fyrir Galdrakarlinn í Oz.
Erlingur Gudjonsson says
Þvílík skrif Gunnar. Eru menn að reyna að slá um sig með sorp eins og á DV.is
Þetta var arfalélegt um það þarf ekki að deila, en að halda því fram að allt sé bara búið áður en það byrjaði og að þjálfarinn sé búinn að gefast upp. Það er bara della.
En við hverju er svosum að búast frá aðdáendum. Ætlum við núna að fara kalla eftir höfði stjórans enn eitt skiptið og byrja upp á nýtt. Nei afsakið ég er ekki sammála því. 👎🏻
T-P says
Ég trúi ekki að það séu enn til Unitedmenn sem styðja Amorim. Það er með öllu óskiljanlegt. Þegar Ten Hag var rekinn, þá var staðan vissulega ekki frábær. Þegar nýr stjóri tekur við þá er ein krafa, að liðið sýni framför. Annars hefðum við alveg eins getað haldið áfram með Ten Hag. Nú hefur Amorim fengið 9 mánuði með félagið og uppskeran er vægast sagt rýr. 29 leikir í deild, 7 sigrar og 7 jafntefli 15 töp… Ef þetta væri á heilu tímabili þá værum við í fallsæti. Í síðustu 11 leikjum Ten Hag þá skoraði liðið 1,8 mark að meðaltali í leik á meðan liðið hans Amorim hefur skorað 1,5. Það er engin bæting það er bara afturför og engin batamerki sjást. Þá fékk stjórinn 250 milljónir til að eyða í þessum glugga, til að bæta liðið fyrir tímabilið og fá leikmenn sem henta hans kerfi. Það er ekki hægt að sjá að þær fjárfestingar hafi eitthvað gefið af sér.
Mistökin eru að ráða Amorim strax á eftir Ten Hag. Þú ert að ráða stjóra sem vill bara spila eitt leikkerfi sem er gjörólíkt því kerfi sem stjórinn á undan var að spila og búinn að byggja lið upp fyrir. Þegar Amorim mætir á miðju tímabili, þá erum við ekki með hóp til að spila kerfið hans. Hann hefur samt svo mikla óbilandi trú á þessu að hann spilar mönnum bara úr stöðu til að geta spilað kerfið. Við taka mánuðir af skitu í deild og svo niðurlægjandi tap fyrir Spurs í úrslitum Evrópudeildar. Allt þetta grefur undan móral og virðingu fyrir Amorim í klefanum. Nú er klefinn farinn, menn vilja annaðhvort fara eða gefast upp við minnsta mótlæti. M.ö.o. eru ekki lengur að spila fyrir stjórann eða klúbbinn. Þetta ástand mun ekki lagast eða batna, annaðhvort þurfa allir 22 leikmennirnir að fara eða stjórinn. Ef við viljum ekki spila í Championship á næsta ári, þá verður að gera breytingar.
Elis says
Alltaf þegar maður heldur að þetta getur ekki versnað þá versnar það.
Man utd er á skelfilegum stað og hlakkar í stuðningsmönnum annara liða. Ryan Giggs sagði árið 2011 að liði myndi aldrei sökkva eins langt niður og Liverpool gerði og hafði hann 100% rétt fyrir sér. Liðið er á miklu verri stað en Liverpool var nokkrum tíman.
Hvað er hægt að gera? Jú, reka stjóran en það hefur verið venjan að gera það með stuttu milli bili frá því að Alex hætti með ekki góðum árangri. Vonin fer hátt um að næsti stjóri ætlar að laga þetta og hann fær fullt af seðlum og liðið verður skelfilegt og nýr stjóri tekur við.
Ég held að það sé ekkert rétt svar með hvað á að gera. Jújú það má alveg prófa nýjan stjóra en það eru ekki margir spennandi kostir í boði.
Það er vitað mál að liðið er ekki að fara að berjast um titla í vetur alveg sama hver er stjóri og því kannski besta í stöðunni bara að láta hann klára þetta tímabil. Liðið leit vel út gegn Arsenal og hefði getað klárð Fulham og þá hefði verið annað hljóð í stuðningsmönnum liðsins.
Allt tal um að berjast um meistardeildar sæti segir manni hvað margir stuðningsmenn liðsins eru orðnir veruleikafyrtir. Ekki hægt að ætlast til þess að lið sem endar í 15.sæti bæti við sig þremur sóknarmönnum en er með sama markmann, sömu vörn, sömu miðju fer allt í einu 10.sætum fyrir ofan. Því að önnur lið eru líka að reyna að styrkja sig.
TonyD says
Tapið gegn MK Dons var ekki betra í minningunni… en hvað sem því líður þá er virkilega erfitt að fara að horfa upp á enn eina uppbygginguna ef það verður skipt um stjóra.
Ekki það að Amorim sé að verðskulda áframhaldandi traust með úrslitum og árangurinn er hörmulegur enn sem komið er. Þetta var farið að lofa góðu í fyrsta leiknum þannig lagað, fyrir utan aðalmálið, úrslitin. Ég er ekki alveg viss hvort að það ætti að losa okkur við hann á þessum tímapunkti en eitthvað þarf að breytast.
Þessi leikur fór eins illa og hægt er, hræðileg mistök Onana og menn mættu illa gíraðir í leikinn. Vonandi taka menn sig saman í andlitinu og gera eitthvað til að bjarga tímabilinu.