Það hafðist, fallegt var það ekki, en endamínúturnar voru mun jafnari en þær hefðu þurft að vera. Manchester United vann sinn fyrsta sigur í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð gegn Burnley á Old Trafford í dag. Sigurmarkið kom í uppbótartíma.
United var töluvert betra í fyrri hálfleik og hefði trúlega getað gert út um leikinn þá. Liðið fékk snemma dæmda vítaspyrnu, sem var tekin til baka eftir VAR-skoðun, þegar Mason Mount féll við eftir viðskipti við Kyle Walker.
Fyrsta markið kom á 27. mínútu og var sjálfsmark. Casemiro skallaði eftir hornspyrnu í slána, þaðan hrökk boltinn í varnarmanninn og inn. United fékk fleiri góð færi, Mbeumo komst í ágæt skotfæri og Amad var einn við vítateigspunktinn eftir hornspyrnu. Hann fékk síðan besta færið rétt fyrir hálfleik, þegar United náði skyndisókn, Mbeumo gaf þvert fyrir markið en boltinn skoppaði þannig Amad setti hann yfir.
Að nýta færin ekki betur í fyrri hálfleik reyndist United dýrt þegar Foster jafnaði á 55. mínútu. De Ligt hafði farið út til vinstri til að loka, ákvað svo að fara til baka. Þetta þýddi að hvorki hann né Dalot voru á sínum stað til að loka á fyrirgjöf Bruun Larsen né hreinsa hana frá. Dalot sýndi hins vegar mikið harðfylgi rúmri mínútu síðar. Hann braust framhjá Walker og sendi fyrir á Mbeumo sem kom United aftur yfir.
En vesenið var ekki búið. Á 66. mínútu fékk Burnley innkast. Casemiro réði ekki við stóra manninn fyrir framan sig en sá skallaði inn á teiginn. Burnley fékk færi meðan United mistókst að hreinsa og maðurinn með hið áhugaverða nafn Jadon Anthony kom boltanum að lokum inn.
United sótti án þess að fá kannski afgerandi færi en á fjórðu mínútu uppbótartíma freistaðist Anthony til að toga í Amad sem var að hlaupa framhjá honum inn á teiginn til að taka við sendingu frá Bruno. Skjádómararnir sáu atvikið og í kjölfarið var dæmd vítaspyrna. Bruno mætti til að taka sitt fjórða víti á sex dögum og skoraði.
Markvarðastaðan
Bayindir hélt byrjunarliðssæti sínu í deildinni eftir martröð Onana gegn Grimsby. Bayindir er með góðar langar sendingar og slapp að mestu við horn í gær en hann hefði þurft að gera betur í öðru markinu. Markverðirnir hjá United gefa vörninni ekkert sjálfstraust.
United hefur eytt síðustu dögum í að eltast við Senne Lammens, ríflega tvítugan Belga frá Antwerpen. Það er galið að ætlast til að slíkur strákur sé svarið við þeim vandamálum og pressu sem er á markverði United. Ef peningur er til væri trúlega skynsamlegra að athuga með Emi Martinez.
Vængbakverðirnir
Dalot kom inn í staðinn fyrir Dorgu og átti ágætan leik, hefði átt að gera betur í fyrsta markinu en bjó svo að segja til annað markið þannig það jafnast út. Hinu megin var Amad góður fram á við og skilaði því sem hægt var að ætlast til af honum varnarlega.
Meiðsli og varamenn
Cunha fór út af meiddur eftir hálftíma, trúlega með tognun aftan í læri. Sú er vonandi ekki alvarleg. Zirkzee kom inn í staðinn. Hann verðskuldaði það eftir ágæta innkomu gegn Grimsby. Hann hefur sína kosti, vinnur vel, vinnur skallaeinvígi eða tekur vel á móti boltanum og skilar á samherja. Hann er hins vegar ekki klassískur framherji sem skilar boltanum frá sér og sprettar svo inn á markteiginn, virðist frekar vilja lúra úti á teignum. Þá ákefð vantaði þá mínútur sem hann spilaði sem fremsti maður í gær.
Mason Mount átti skínandi fyrri hálfleik, næstum því vítið kom eftir að hann hafði pressað varnarmann og náð boltanum. Hann var að vinna bolta í pressu, en líka finna leikmenn í góðum stöðum í kringum sig, bæði með löngum og stuttum sendingum. Hann var tekinn út af í hálfleik til öryggis vegna meiðsla.
Mainoo kom inn, átti ágæta frammistöðu en ekkert afburða.
Sesko kom hins vegar inn á 72. mínútu fyrir Casemiro. Hann fékk lítið að gera fyrst, var með tvær snertingar fyrstu tíu mínúturnar. Hann sýndi síðan styrk sinn, Mbeumo sendi bolta fyrir sem var helst til of hár en Sesko náði með ótrúlegu stökki að skalla boltann.
Maður leiksins
Mbeumo. Of snemmt að fagna eftir fjóra leiki, en mögulega bestu kaup United í áraraðir – sem er kannski ekki hár standard. Leikskipulagið í fyrri hálfleik virtist vera að koma boltanum sem fyrst á hann og því fylgdu miðjumennirnir vel. Mbeumo kemur með mikinn hraða inn í leik United, hann teygir á andstæðingunum, hefur frábæra fyrstu snertingu, góð skot og sendingar, ekki síst úr föstum leikatriðum.
Léttir að vinna
Leikmenn United fögnuðu sigurmarkinu gríðarlega, sem og öllu sem féll þeim í hag eftir það. Það er sérstakt, því nýliðar á Old Trafford ættu alltaf að vera þægilegur sigur. Ekki það að United gerði nóg í leiknum til að vinna þægilega en fögnuðurinn sýndi þá pressu sem er á liðinu. Gengi liðsins snýst frekar um sálarástand eftir áreiti og opinbera niðurlægingu fyrir mistök frekar en hvort það spilar 3-5-2, 4-2-3-1 eða gamla góða „four-four-fucking-two“.
Amorim sýndi mikið stress, meðan jafnt var gekk hann órólegur fram og aftur boðvanginn og horfði upp í stúku meðan Bruno tók vítið.
Salmar says
Þetta var sannfærandi sigur sem vekur von um titil
speed stars says
The article offers a detailed account of the match, but I wish it included more analysis on Uniteds strategic decisions and player performances.speed stars unlock