Eric Cantona
On the twelfth day of Christmas my true love sent to me;
Twelve Cantonas!
6. desember 1992 var, líkt og árið 2015, annar sunnudagur í aðventu. Jólin mjökuðust nær, jólalögin ómuðu sem aldrei fyrr, jólapróf víða í fullum gangi og líkt og sama sunnudag 23 árum síðar var spilað í enska boltanum. Þarna var enska úrvalsdeildin glæný og á sínu fyrsta tímabili. Manchester United hafði átt ansi gloppótta byrjun á tímabilinu. Til að byrja með komu tvö töp, gegn Sheffield United og Everton, áður en liðið gerði jafntefli við Ipswich Town. Þá kom góður sprettur og 5 sigrar í röð, þar á meðal gegn ríkjandi deildarmeisturum í Leeds United. Þann leik vann United 2-0 með mörkum frá Andrei Kanchelskis og Steve Bruce. Eftir það kom lægð, fimm jafnteflisleikir í röð og tveir tapleikir beint í kjölfarið. United var þó aðeins farið að rétta úr kútnum og var á þessum tíma búið að vinna síðustu 2 leiki sína.