Fyrir 23 árum fóru 96 knattspyrnuáhugamenn á fótboltaleik og komu aldrei heim aftur.
Það er ekki ofsögum sagt að dagurinn í dag sé einn sá merkilegasti í knattspyrnusögu Englands. Loksins hefur hulunni verið svipt af tuttugu og þremur árum af yfirhylmingu, lygum og svikum af hálfu yfirvalda, lögreglu og annarra sem öll beindust að því að koma ábyrgð á ölvaða áhorfendur í stað þess sem raunin var að öll ábyrgð var á höndum yfirvalda, mistökum þeirra og vanrækslu má kenna um allt sem gerðist.
Forsætisráðherra Bretlands baðst í dag fullrar afsökunar á öllum þessum misgjörðum eftir að birtar hafa verið niðurstöður nefndar sem safnaði saman gríðarlegu magni gagna um slysið, stór hluti af þeim höfðu verið haldið leyndum öll þess ár. Í framhaldinu verða vonandi þeir sem ábyrgð bera á vanrækslu við löggæslu á leiknum, aðgang neyðarþjónusta og síðan yfirhylmingunni allri sóttir til saka
Það hefur verið gríðarlega áhrifamikið að fylgjast með atburðum dagsins og yfirlit yfir niðurstöður rannsóknarinnar eru sláandi, og þá eins nálægt því í bókstaflegri merkingu og hægt er að komast við lestur einn saman. Ef það var einhver eftir sem hafði sem mikið sem minnstu hugmyndir um að þetta hefði nú að einhverju leyti þessu fulla fótboltapakki að kenna, Englendingar væru jú bara byttur, þá er alveg óhætt að segja að viðkomandi getur straujað þær hugsanir út úr sínum huga.
Þetta hefði getað komið fyrir hvaða stuðningsmannahóp sem er og sýnir hvers konar fyrirlitning var kerfislæg í lögreglunni og stjórnkerfinu gegn fótboltaáhorfendum á þessum tíma, fyrirlitning sem átti rætur sínar í stéttaskiptingu og fyrirlitningu á verkamannastétt. Þess vegna er þessi dagur hafinn yfir allan félagaríg. Stéttaskiptingin í Englandi er nefnilega eitthvað sem við Íslendingar áttum okkur sjaldnast á, og jafnvel þó við vitum af henni þá kemur sú vitund ekki nægilega inn í almennan þankagang okkar.
Það er ekki hægt að óska Liverpool til hamingju með daginn, til þess var harmleikurinn of stór. En það er samt hægt að fagna því að í dag sigraði sannleikurinn. Réttlætið mun svo vonandi fylgja í kjölfarið.