Í fyrsta skipti síðan Rio Ferdinand kom til liðsins 2002 kaupir United leikmann sem á án nokkurs vafa að smella beint inn í hópinn. Þegar Berbatov kom voru fyrir Tevez, Rooney og Ronaldo og Dimi kom inn í baráttu um stöður. Það er hins vegar deginum ljósara að Robin van Persie mun spila hvenær sem hann er heill.
Það þarf ekki að ræða það í löngu máli að í nokkur ár hafa flestir stuðningsmenn verið sammála um að það vanti sterkan jaxl á miðjuna, en hvað sem tautar og raular er Sir Alex ekki sammála því og þess vegna þýðir lítið að vera að ræða hvaða menn við vildum frekar sjá en Van Persie.
Þess vegna horfum við bara núna á kaupin og hugsum okkur gott til glóðarinnar. Van Persie var lang besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili, eitraður markaskorari úr öllum hugsanlegum færum og mun setja skerpu í sóknina. Eftir góða byrjun í fyrra haust vorum við oft frekar bitlausir, sér í lagi í Meistaradeildinni og það er augljóst að það á ekki eftir að gerast aftur.
Á móti kemur að við vitum lítið um hvað er sterkasta lið okkar í dag, frekar en fyrri daginn. Þó að sumir vilji að Rooney og Van Persie geti ekki spilað sama, til þess séu þeir of líkir leikmenn, þá hafa þeir báðir í gegnum tíðina spilað víða á vellinum. Rooney var á tíðum kominn aftast á miðjuna á síðasta tímabili og Van Persie spilaði fyrir aftan Adebayor á sínum tíma. Þeir eiga því ekki að eiga í neinum vandræðum að aðlagast því að spila saman.
Fyrir aftan þá í biðröðinni eru í raun þrír leikmenn. Shinji Kagawa á þá eðlilegustu stöðu að spila fyrir aftan senter og ég yrði ekki hissa að sjá þá stöðu í leikjum í vetur að Kagawa væri fyrir aftan Van Persie og Rooney úti á kanti þar sem við höfum oft séð hann. Danny Welbeck er að tryggja sig inn sem aðalframherja enska landsliðsins og ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef hann lítur ekki á þetta sem áskorun. Hann á eftir að spila í vetur og verðskuldar alla þá leiki sem hann fær. Loks að vini okkar allra, Javier Hernandez. Síðustu daga hefur alls konar orðrómur sprottið upp um hann, að hann hafi farið fram á sölu, eða sé á leiðinni til Arsenal. Það verður erfitt að halda öllum góðum og eftir erfitt tímabil síðast þegar meiðsli voru að hrjá hann er líklegt að hann sé aftast í þessari framherjabiðröð. Þó að sagt sé að topp lið þurfi fjóra toppframherja verður erfitt að halda öllum ánægðum. Mitt mat er þó að ef einhver þarf að vera númer fjögur er ekki hægt að biðja um betri mann til að sætta sig við fjórða sætið og gera samt alltaf sitt besta en Chicharito. Nema ef vera skyldi Ole Gunnar Solskjær.
Eitt af því sem þessi samkeppni gerir er að nú er í fyrsta skipti komin upp sú staða að Wayne Rooney á ekki skilyrðislaust sæti í liðinu. Ég býst hiklaust við að hann haldi því en ef sú staða kemur upp að hann þurfi smá hvíld þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Við vitum að það hafa komið tímabil þar sem Rooney hefur ekki verið í 100% standi og nú er það ekki vandamál. Að sama skapi hefur álagið við að vera númer 1 hjá Arsenal ekki hjálpað Van Persie í meiðslamálum. Ef hann meiðist eitthvað næstu fjögur árin, verður ekki um það að ræað að hann þurfi að koma of snemma til baka án nægrar endurhæfingar
Robin stóð sig vel í viðtali við MUTV áðan, sagði alla réttu hlutina og á eftir að eiga frábæra innkomu í liðið. Það er ekki nokkur vafi á því og við ljúkum þessu með hans eigin orðum. „Let’s do this“
Skildu eftir svar