Toppslagur helgarinnar: United heimsækir Hull

skrifaði þann 26. ágúst, 2016

Hull City - Manchester United MediumÞað er algjör toppslagur á morgun þegar okkar menn heimsækja spútniklið Hull City í síðdegisleik morgundagsins.

Við spáðum Hull lóðbeint niður en eins og frægt er orðið erum við líklega minnstu spámenn allra tíma. Auðvitað er Hull taplaust það sem af er tímabili í þriðja sæti með fullt hús stiga líkt og Manchester-liðin tvö.

Dregið var í riðla Evrópudeildarinnar í dag. Við fórum yfir andstæðingana.

Liðið hló framan í opið geðið á öllum þeim sem eitthvað þykjast vita um enska boltann með því að leggja meistarana sjálfa, Leicester, á heimavelli áður en að Swansea fékk að kenna á tígrísdýrunum á eigin heimavelli. Hvernig stendur eiginlega á þessu? Svarið er einfalt.

King Mike Phelan

Já, það er einn maður ábyrgur fyrir þessu góða gengi Hull og það er Mike Phelan sem stýrir liðinu tímabundið, en líklega til frambúðar, eftir að Steve Bruce gafst upp á ruglinu sem einkenndi undirbúningstímabil félagsins.

Hull City tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili með því að sigra í umspilinu. Sumarið hefur verið algjör rússíbani fyrir alla þá sem tengjast Hull. Eigandi liðsins, hinn afar óvinsæli Assem Allan, er alvarlega veikur og hefur sonur hans, Ehab Allan ekki beint verið að brillera. Þeir feðgar eru víst æstir í að selja félagið og voru nálægt því í sumar en það gekk ekki eftir.

Líklega er það þetta söluferli á félaginu sem hefur gert það að verkum að liðið styrkti sig lítið sem ekki neitt fyrir komandi átök. Sé leikmannahópur liðsins frá síðasta tímabili borinn saman við þann sem er nú hjá liðinu er auðvelt að draga þá ályktum að liðið hafi veikst á milli ára sem er auðvitað fullkomlega galið hjá liði sem er að koma upp í úrvalsdeildina.

Steve Bruce bað um sex nýja leikmenn, þar á meðal tvo framherja, til þess að liðið gæti orðið samkeppnishæft á meðal þeirra bestu. Hann fékk einn. Hinn átján ára gamla markvörð Will Mannion sem á að spila með u21-liðinu!

Það skal því engan undra að Bruce hafi sagt bless þremur vikum fyrir tímabilið þegar hann fékk ekki að kaupa Nick Powell. Aðstoðarmaður hans Mike Phelan tók við til þess að redda málunum og það hefur hann svo sannarlega gert.

Phelan er auðvitað góðkunningi okkar United-manna og þekkjum við hann flest frá því að hann var aðstoðarmaður Sir Alex Ferguson síðustu ár stjóratíðar hans. Phelan er United-maður í gegn og lék einnig með okkar mönnum á árunum 1989-1994 og lék 102 leiki.

tumblr_n4lwn87Mub1tp5565o1_400

Hann hefur þurft að púsla saman þessu Hull-liði og gert það afskaplega vel þrátt fyrir að hafa aðeins fengið inn einn leikmann, hinn átján ára gamla Bradley Maslen Jones. Liðið hefur glímt við meiðsli í upphafi leiktíðar sem gert hefur það að verkum að Phelan hefur verið að velja úr hópi 15-16 alvöru leikmanna fyrir hvern leik.

Þetta er eiginlega hálfgert grín og alveg magnað að liðið sé nú þegar komið með sex stig. Inn á milli eru þó ágætis leikmenn og ber þar helst að nefna Robert Snodgrass, Tom Huddlestone og mögulega Abel Hernandez.

Mike Phelan sagði í viðtali fyrir leikinn að hann hafi akkúrat ekkert að sanna á Old Trafford en hann vilji nú samt vinna leikinn á morgun og þá helst til þess að tryggja sér starfið hjá Hull.

Oft er verst að mæta nýliðunum í deildinni í upphafi tímabils þegar þau eru eldfersk og æst í að sanna sig og líklega er það hluti skýringarinnar á því að Hull er núna í toppbaráttunni með Manchester United og Manchester City. Okkar menn munu nú fljótlega sprengja þessu blöðru en við gefum okkur að Hull stilli upp á eftirfarandi hátt á morgun

Jakupovic
Elmohamady
Livermore
Davies
Robertson
Clucas
Huddlestone
Meyler
Snodgrass
Hernandes
Diomande

En hvað með okkar menn?

Miðað við þann standard á knattspyrnustjórum sem eru í deildinni núna er ljóst að baráttan um titilinn mun sjaldan vera jafn hörð og nú. Hvert sig og mögulega hvert mark mun skipta máli þegar upp er staðið og þá skiptir öllu máli að tapa ekki stigum gegn þeim liðum sem lið eins og United á alltaf að sigra.

Þar á meðal eru liðin sem koma upp um deild og þau lið sem munu verma neðsta þriðjung deildarinnar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit mun Hull verða eitt af þessum liðum.  Eitt af vandamálunum við Louis van Gaal var það að liðið átti í stökustu vandræðum með að sigra í leikjum gegn þessum liðum.

Screen Shot 2016-08-25 at 23.06.47

Taflan hér að ofan sýnir gengi United á síðasta tímabili gegn þeim átta neðstu liðum deildarinnar. Þarna sést glögglega hvað United gekk illa í þessum leikjum miðað við efstu lið deildarinnar. Þarna sést til að mynda að City fékk 12 stigum meira en United gegn þessum liðum, einmitt 12 stigum meira en munaði á United og City í 4. og 5. sæti deildarinnar á síðasta tímabili. Þetta skiptir máli.

Það verður nógu erfitt að sækja sigra gegn City, Chelsea og fleiri liðum á komandi tímabili og því má ekki misstíga sig gegn Hull, Middlesboro, Burnley og þessum liðum. Það bara má ekki gerast ætli United sér titilinn.

Af þessu hefur maður svo sem ekki teljandi áhyggjur undir stjórn Morinhou sem veit þetta vel enda hafa lið hans í gegnum tíðina gengið vel gegn þessum liðum. Þrátt fyrir gott gengi Hull til þessa er engin ástæða til þess að ætla annað en að United muni rífa þetta lið rækilega niður á morgun, slíkur er einfaldlega gæðamunurinn á leikmannahópum þessara liða.

Spurningin sem brennur á hjá okkur er líklega hvernig Mourinho stillir upp liðinu því að fyrsta sinn síðan ég bókstaflega man ekki hvenær er ekki einn einasti leikmaður United meiddur. Stjóri liðsins getur bara valið á milli allra leikmanna liðsins. Þetta er stórundalegt en þó eitthvað sem maður gæti vel vanist. Það verður því kannski svolítið vandasamt verk fyrir Mourinho að velja liðið.

Kemur Smalling inn fyrir Blind eða Bailly sem báðir hafa staðið sig með prýði hingað til? Breytir hann eitthvað til á miðjunni og kemur Mkhitaryan loksins inn í byrjunarliðið? Hvað með Martial sem sem hefur ekki byrjað þetta tímabil af mesta krafti í heimi?

Mín tilfinning er sú að Mkhitaryan komi inn í liðið á kostnað Mata sem hefur þó verið að spila vel. Mögulega mun Martial detta út en mér segir svo hugur að menn reynir frekar spila hann í gang fyrir leikinn gegn City eftir landsleikjahlé. Ég spái liðinu því eitthvað á þessa leið:

1
De Gea
23
Shaw
3
Bailly
12
Smalling
25
Valencia
6
Pogba
27
Fellaini
11
Martial
10
Rooney
22
Mkhitaryan
9
Zlatan

Auðvitað væri maður til í að sjá meira af Rashford auk þess sem að það væri gaman að sjá hvernig Memphis og Schneiderlin pluma sig undir stjórn Mourinho. Þessar fyrstu vikur eru þó alltaf erfiðar þegar vika er á milli leikja og stjórarnir rótera ekki mikið. Það er þó skammt í það að tímabilið fari á fullt og liðið fari að spila á 3-4 daga fresti. Þá getum við bókað það að Mourinho farið að nota hópinn meira.

Í millitíðinni viljum við þó sjá sigur á Hull enda væri fullt hús stiga frábært veganesti fyrir leikinn gegn City á Old Trafford þann 10. september eftir landsleikjahléið.

Leikurinn gegn Hull hefst klukkan 16.30 á morgun.

Mótherjar Manchester United í Evrópudeildinni

skrifaði þann 26. ágúst, 2016

Manchester United mun leika í A-riðli Evrópudeildarinnar þetta tímabilið. Í þessari færslu ætla ég að renna létt yfir hin lið riðilsins.

Fenerbahçe S.K.

962Þetta er líklega eitt frægasta lið Tyrklands. Liðið hefur verið viðloðandi Evrópukeppir nánast síðan ég man eftir mér. Liðið hefur þó ekki verið sérstaklega sigursælt í Evrópu en besti árangur þeirra er undanúrslit Evrópudeildarinnar 2012-2013 en þar datt liðið út gegn liði Benfica frá Lissabon. Einu sinni tókst liðinu að komast í 8-liða úrslit Meistradeildar Evrópu en þar þurfti liðið að lúta í lægra haldi gegn Chelsea tímabilið 2007-2008 en við munum flest hverjir unnu keppnina það árið.

Liðið samanstendur aðallega af Tyrkjum en þó leika nokkur kunn nöfn með liðinu. Þar ber fyrst að nefna fyrrum framherja Manchester United og Arsenal, sjálfan Robin van Persie. Einnig má þar finna leikmenn eins og Gregory van der Wiel, Martin Škrtel, Volkan Demirel fyrirliða og Mehmet Topal varafyrirliða. Þjálfari liðsins er hinn margreyndi Dick Advocaat.

Til gaman má geta að fyrsti leikur Wayne Rooney var einmitt gegn Fenerbahçe í Meistradeildinni en þar gerði Rooney sér lítið fyrir og skoraði þrennu.

Heimavöllur liðsins er Ülker Stadyumu sem er staðsettur í Ístanbúl.

Feyenoord Rotterdam

FeyenoordÞetta er án efa eitt af frægustu liðum Evrópu. Ólíkt Tyrkjunum hefur hollenska liðið unnið bikara í Evrópu. Tímabilið 1969-1970 sigraði liðið Celtic frá Glasgow í Evrópukeppni meistaraliða (European Cup). Evrópukeppni félagsliða (UEFA Cup) hefur liðið sigrað tvívegis. Í fyrra skiptið vann liðið Tottenham í úrslitum kepnnarinnar tímabilið 1973-1974. Seinna skiptið vann liðið Borussia Dortmund í úrslitaleik keppnarinnar tímabilið 2001-2002.

Í gegnum tíðina hafa margir heimsþekktir leikmenn leikið með Feyenoord. Um þessar mundir er það ekki alveg raunin en samt má finna kunnugleg nöfn. Leikmenn eins og Dirk Kuyt sem er fyrirliði, Brad Jones, Eljero Elia og Karim El-Ahmadi sem er varafyrirliði. Þjálfari liðsins er fyrrum Feyenoord og hollenska landsliðsins Giovanni van Bronckhorst.

Heimavöllur Feyenoord er hinn frægi völllur De Kuip í Rotterdam.

Zorya Luhansk

zorya-luhansk-logoÞetta lið er algjörlega óþekkt stærð í Evrópuboltanum. Liðið hefur tekið þátt í Evrópukeppnum á byrjunarstigi en þetta er í fyrsta skiptið sem liðið nær svona langt.

Leikmenn liðsins eru langflestir frá Úkraínu og verður að viðurkennast þetta eru ekki þekkt nöfn. En kannski munu einhverjir leikmenn liðsins slá í gegn og kynna sig fyrir umheiminum. Þjálfari liðsins er Yuriy Vernydub.

Heimavöllur liðsins er Slavutych-Arena í Luhansk en liðið mun ekki leika á þeim velli í þessari keppni að sökum ástandsins í Úkraínu en Chernomorets völlurinn í Odessa verður þeirra heimavöllur í keppninni.

Leikdagar

NYON, SWITZERLAND - AUGUST 08: The UEFA Europa League trophy is displayed during the 2014/15 UEFA Europa League Play-off round draw at the UEFA headquarters, The House of European Football on August 8, 2014 in Nyon, Switzerland. (Photo by Harold Cunningham/Getty Images)

*Uppfært* Dregið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á morgun

skrifaði þann 25. ágúst, 2016

Athugið, færslan hefur verið uppfærð, nú má sjá endanlega styrkleikaflokkaröðun hérna neðst.

Á morgun verður dregið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. 48 lið verða í pottinum og verða þau dregin í 12 riðla. Drátturinn fer fram í Mónakó og hefst klukkan 11:00 að íslenskum tíma. Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með drættinum og færa fréttir af niðurstöðunni.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar þetta tímabilið mun fara fram á Friends Arena í Stokkhólmi miðvikudaginn 24. maí 2017. Manchester United hefur aldrei spilað leik á Friends Arena svo það er alveg kominn tími á það.

Keppnin

Forveri UEFA Cup var keppni sem hét Inter-Cities Fairs Cup. Sú keppni hóf göngu sína árið 1955 og var þá tengd alþjóðlegum vörusýningum sem haldnar voru í evrópskum borgum. Liðin sem tóku þátt í keppninni komu frá borgunum sem héldu þessar vörusýningar, árangur liðanna í deildum heima fyrir hafði þá ekkert að segja.

Upphaflega tóku 11 lið þátt í Inter-Cities Fairs Cup en sú keppni stækkaði bæði að umfangi og vinsældum næstu árin og 1971 voru liðin orðin 64. UEFA tók þá yfir keppnina, breytti nafninu í UEFA Cup og fyrsta tímabilið í þeirri keppni var veturinn 1971-72.

UEFA Cup var, líkt og Inter-Cities Fairs Cup á undan, eingöngu útsláttarkeppni. Fram til 1997 var spilað heima og að heiman á öllum stigum mótsins en frá og með úrslitaviðureigninni 1998 var aðeins spilaður einn úrslitaleikur.

Árið 2009 var keppninni breytt í núverandi fyrirkomulag. Í stað þess að eingöngu væri um útsláttarkeppni að ræða var tekin upp riðlafyrirkomulag svipað því sem er í Meistaradeild Evrópu.

Alls taka 188 lið frá 54 þjóðum þátt í keppninni á þessu tímabili og koma inn í keppnina á mismunandi stigum hennar. Áður en komið er að riðlakeppninni þarf að fara í gegnum 3 umferðir af undankeppni og í kjölfar þeirra eru umspilsleikir áður en 48 lið standa eftir, tilbúin í riðlakeppnina.

Árangur Manchester United í keppninni til þessa

Manchester United tók einu sinni þátt í Inter-Cities Fairs Cup. Það var tímabilið 1964-65. Þá fór United alla leið í undanúrslit eftir að hafa lagt Djurgården, Borussia Dortmund, Everton og Strasbourg. Í undanúrslitum var andstæðingurinn ungverska liðið Ferencváros frá Budapest. United vann heimaleikinn 3-2 en tapaði síðan 0-1 á útivelli. Þá var engin útimarkaregla en í staðinn var leikinn aukaleikur til að fá niðurstöðu. Aftur var spilað á heimavelli Ungverjanna og aftur unnu heimamenn, í þetta skiptið 2-1. Ferencváros vann síðan Juventus í úrslitaleiknum.

United hefur 8 sinnum tekið þátt í UEFA Cup/Europa League. Tvisvar missti félagið af tækifærinu til að taka þátt vegna þess að ensk lið voru í banni frá Evrópukeppnum í kjölfar harmleiksins á Haysel árið 1985. Árangur United í keppninni hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir, í helming skipta féll liðið út strax í fyrstu umferð.

Besti árangur liðsins kom tímabilið 1984-85. Þá sigraði United ungverska liðið Rába ETO Gyor, PSV og Dundee United áður en það tapaði í 8-liða úrslitum fyrir Videoton (annað ungverskt lið) eftir vítaspyrnukeppni. Videoton fór alla leið í úrslitaleikinn það ár en tapaði þar fyrir Real Madrid.

United hefur tvisvar tekið þátt í keppninni eftir að hún varð þekkt sem Evrópudeildin. Í hvorugt skiptið hefur liðið þurft að fara í gegnum riðlakeppnina heldur öðlast þátttökurétt í Evrópudeildinni með því að enda í 3. sæti síns riðils í Meistaradeildinni.

Árangurinn í bæði skipti var mjög áþekkur. Fyrst kom sigur í 32-liða úrslitum þar sem United þurfti að taka seinni leik á Old Trafford til að snúa við tapi úr fyrri leiknum (Ajax árið 2012 og Midtjylland nú í ár) áður en eftir fylgdi sannfærandi tap í 16-liða úrslitum (gegn Athletic Bilbao 2012 og Liverpool í ár).

Mögulegir andstæðingar

Þegar þetta er skrifað eru 26 lið örugg um sæti í riðlakeppninni. Það kemur svo í ljós í kvöld hver hin 22 liðin verða eftir að seinni leikirnir í umspilsviðureignum Evrópudeildarinnar klárast. Þá kemur líka endanlega í ljós í hvaða styrkleikaflokk liðin raðast.

Manchester United verður samt í efsta styrkleikaflokki, svo mikið er öruggt. Þar eru 8 önnur lið örugg sem United mun því ekki mæta í riðlakeppninni. Þau eru:

 • Schalke 04 (Þýskaland)
 • Zenit Saint Petersburg (Rússland)
 • Athletic Bilbao (Spánn)
 • Villareal (Spánn)
 • Ajax (Holland)
 • Internationale (Ítalía)
 • Fiorentina (Ítalía)
 • Viktoria Plzen (Tékkland)

Að auki getur Manchester United ekki mætt Southampton (sem verður í styrkleikaflokki 2, 3 eða 4 eftir því hvaða lið komast áfram í kvöld) þar sem lið frá sama landi eru ekki dregin saman í riðlakeppninni.

Liðin sem eru komin áfram og United getur mætt eru því:

 • Braga (Portúgal)
 • Red Bull Salzburg (Austurríki)
 • Roma (Ítalía)

(Liðin hér að ofan gætu endað í efsta styrkleikaflokki eftir leiki kvöldsins, annars í 2. flokki.)

 • Steaua Bukuresti (Rúmenía)
 • APOEL (Kýpur)
 • Standard Liege (Belgía)

(Liðin að ofan verða í 2. styrkleikaflokki.)

 • Young Boys (Sviss)
 • Celta Vigo (Spánn)
 • Feyernoord (Holland)
 • Mainz 05 (Þýskaland)

(Liðin að ofan verða í 2. eða 3. styrkleikaflokki.)

 • Zürich (Sviss)
 • Nice (Frakkland)

(Liðin að ofan gætu farið í 2., 3. eða 4. styrkleikaflokk.)

 • Zorya Luhansk (Úkraína)
 • Konyaspor (Tyrkland)

(Liðin að ofan verða í 3. eða 4. styrkleikaflokki.)

 • Hapoel Be’er Sheva (Ísrael)
 • Dundalk (Írland)

(Liðin að ofan verða í 4. styrkleikaflokki.)

Fyrsti umspilsleikurinn í dag hefst klukkan 16:30 og sá síðasti klukkan 19:05. Það ætti því að vera komið í ljós milli 21 og 22 hvaða lið fara áfram og hvernig liðin raðast í styrkleikaflokka.

Hér má sjá liðin sem mætast í kvöld og hvernig fyrri leikir liðanna fóru:playoffs

Leikdagar

Þrátt fyrir að enn eigi eftir að draga í riðla þá eru leikdagarnir samt sem áður komnir á hreint. Við munum spila á fimmtudögum, það er bara þannig. Ekki skemmtilegasti dagurinn fyrir Evrópuleiki en það verður bara að hafa það í þetta skiptið. Verður svo væntanlega breyting á því á næsta tímabili þegar við fáum inn þriðjudags- og miðvikudagsleiki aftur.

Tímasetningin á fimmtudagsleikjunum mun hins vegar verða breytileg. Fyrstu þrír leikirnir verða ýmist klukkan 17:00 eða 19:05 að íslenskum tíma en seinni leikirnir þrír verða eftir að vetrartími verður tekinn upp í Evrópu og því spilaðir klukkan 18:00 eða 20:05 að íslenskum tíma. Leikdagarnir sjálfir verða:

 • 15. september
 • 29. september
 • 20. október
 • 3. nóvember
 • 24. nóvember
 • 8. desember

Væntingar fyrir tímabilið

Manchester United hefur aldrei komist nálægt því að vinna þessa keppni. Ýmist hefur liðið ekki verið nógu gott til að vinna hana eða ekki tekið hana nógu alvarlega. Þessi keppni hefur vissulega ekki sama glamúrinn og stóri bróðir hennar, Meistaradeildin. En þetta er bikar sem Manchester United vantar í safnið svo það er um að gera að sækja hann líka.

En deildinni verður aldrei fórnað fyrir þessa keppni, við vitum það alveg. Og réttilega, aðalfókusinn á að vera á aðalkeppninni. Manchester United er hins vegar komið með góðan hóp leikmanna sem ættu að gera Mourinho kleift að stilla upp sterku og skemmtilegu liði í þessari keppni jafnvel þótt einnig verði hægt að hvíla mikilvæga menn fyrir deildina sem þurfa á hvíld að halda. Mourinho hefur talað mikið um að hann bíði spenntur eftir að fleiri keppnir hefjist svo hann geti leyft fleiri leikmönnum að spila. Það er alveg hægt að taka undir það.

Uppfærsla, endanleg styrkleikaflokkun

Nú er öllum leikjum lokið í umspilinu og komið í ljós hvaða lið verða í pottinum og í hvaða styrkleikaflokkum.

Styrkleikaflokkur 1 (Manchester United mætir engum liðum úr þessum flokki)

 • Schalke 04 (Þýskaland)
 • Zenit Saint Petersburg (Rússland)
 • Manchester United
 • Shakhtar Donetsk (Úkraína)
 • Athletic Bilbao (Spánn)
 • Olympiacos (Grikkland)
 • Villareal (Spánn)
 • Ajax (Holland)
 • Internationale (Ítalía)
 • Fiorentina (Ítalía)
 • Anderlecht (Belgía)
 • Viktoria Plzeň (Tékkland)

Styrkleikaflokkur 2

 • AZ Alkmaar (Holland)
 • Braga (Portúgal)
 • Red Bull Salzburg (Austurríki)
 • Roma (Ítalía)
 • Fenerbahçe (Tyrkland)
 • Sparta Prague (Tékkland)
 • PAOK (Grikkland)
 • Steaua București (Rúmanía)
 • Genk (Belgía)
 • APOEL (Kýpur)
 • Standard Liège (Belgía)
 • Saint-Ètienne (Frakkland)

Styrkleikaflokkur 3 (Manchester United getur ekki mætt Southampton)

 • Gent (Belgía)
 • Young Boys (Sviss)
 • Krasnodar (Rússland)
 • Rapid Wien (Austurríki)
 • Slovan Liberec (Tékkland)
 • Celta Vigo (Spánn)
 • Maccabi Tel Aviv (Ísrael)
 • Feyernoord (Holland)
 • Austria Wien (Austurríki)
 • Mainz 05 (Þýskaland)
 • Zürich (Sviss)
 • Southampton (England)

Styrkleikaflokkur 4

 • Panathinaikos (Grikkland)
 • Sassuolo (Ítalía)
 • Quarabağ (Aserbaídsjan)
 • Astana (Kasakstan)
 • Nice (Frakkland)
 • Zorya Luhansk (Úkraína)
 • Astra Giurgiu (Rúmenía)
 • Konyaspor (Tyrkland)
 • Osmanlıspor (Tyrkland)
 • Gabala (Aserbaídsjan)
 • Hapoel Be’er Sheva (Ísrael)
 • Dundalk (Írland)

Það eru nokkrar reglur varðandi dráttinn. Lið frá sama landi geta til að mynda ekki dregist saman. Lið frá Rússlandi og Úkraínu geta ekki dregist í sama riðil. Riðlarnir skiptast svo í tvo helminga, annars vegar A-F og hins vegar G-L. Það hefur áhrif á klukkan hvað leikirnir eru. Sérstaklega verður passað upp á að lið frá sömu löndum dreifist vel milli þessara helminga. Þá þarf að passa upp á að lið frá sömu borg eigi ekki heimaleiki á sama degi.

Það er ljóst að á síðustu metrunum hafa bæst við þó nokkur lið frá Fjarskanistan og Langtíburtistan, lið sem væri mjög gott að sleppa við upp á að þurfa ekki að leggja í löng og leiðinleg ferðalög. Við myndum því alltaf vilja sleppa við lið frá löndum eins og Rússlandi, Úkraínu, Aserbaídsjan, Ísrael og jafnvel Tyrklandi. En við tökum því sem kemur, það er góður skóli í þessu öllu.

EFL Bikarinn: United heimsækir Northampton Town

skrifaði þann 24. ágúst, 2016

northamptonManchester United hefur keppni í þriðju umferð enska deildabikarsins. Andstæðingurinn verður Northampton Town sem leikur í League One (2.deild).

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hljóti að teljast algjör skyldusigur. Ekki er útilokað að við munum fá að sjá leikmenn spreyta sig í þessum leik sem eru ekki að spila mikið þessa dagana.

Liðin hafa í gegnum tíðina mæst fjórum sinnum og er United taplaust í þessum viðureignum með þrjá sigra og eitt jafntefli. Liðin mættust síðast árið 2004 í FA-bikarnum og þá vann United 3-0 með sjálfsmarki frá Chris (ekki Owen) Hargreaves og mörkum frá Mikael Silvestre og Diego Forlan.

Leikurinn fer fram 20. eða 21. september á Sixfields Stadium, heimavelli Northampton.

Myndasyrpa úr fyrsta leik Paul Pogba

skrifaði þann 21. ágúst, 2016

Paul Pogba lék sinn fyrsta leik fyrir Manchester United í rúm fjögur ár á föstudagsköldinu síðastliðnu. Það væri hægt að tala um að virkilega góð stemmning hafi verið á vellinum en samkvæmt fólki á vellinum var þetta háværasti leikur sem margir muna eftir.

Ég tók mig saman og týndi saman nokkrar myndir frá þessari sérstöku kvöldstund þar sem aðdáendur Manchester United um allan heim samglöddust yfir því að fá týnda soninn heim.