WBA 2:2 Manchester United

skrifaði þann 20. október, 2014

Því miður þá þarf ég að skrifa skýrslu um tvö mikilvæg stig töpuð í kvöld. Eins og leikurinn þróaðist þá ætti maður kannski bara að vera sáttur með að hafa bjargað stigi í lokin, en þetta var mjög týpískur leikur frá United, eru meira og minna að stjórna leiknum en gera sér erfitt fyrir með því að gefa mörk á silfurfati. Byrjum á liðinu, það leit svona út:

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
4
Jones
2
Rafael
21
Herrera
17
Blind
7
Di María
8
Mata
11
Januzaj
20
Van Persie

Varamenn: Lindegaard, Smalling, Carrick, Fellaini, Fletcher, Young, Falcao.

Ég var mjög hissa á því að sjá þessa uppstillingu satt best að segja. Þó svo ég hefi verið spenntur fyrir því að sjá Januzaj aftur í liðinu þá vildi ég frekar hafa tvo framherja, það hefur virkað ágætlega hingað til og ætti að vera sjálfgefið í leikjum gegn liðum eins og WBA. Hinsvegar hefur Van Gaal þótt þessi leikur vera ágætis undirbúningur fyrir erfiða leiki gegn framundan gegn Chelsea og Man City, leikir þar sem líklegra er að við sjáum þetta kerfi notað. Varnarlínan sat hátt uppi en á sama tíma sátu framherjar liðsins frekar aftarlega á vellinum. Á tímabili þegar WBA var að spila boltanum meðal sinna varnarmanna þá komst nánast allt United liðið fyrir í miðjuboganum. Með allt þetta pláss fyrir framan og aftan, fóru WBA grimmir af stað og virtust ætla að sækja sér mark snemma, þetta gerðu þeir með því að dæla boltanum fram á sína kantmenn eða hinn snögga framherja Berahino. Þetta virkaði eftir aðeins 8 mínútur, þá skoruðu þeir mark eftir sömu uppskrift og mörg önnur mörk á þessu tímabili. Shaw fór full langt úr sinni stöðu og skildi eftir mikið pláss á vinstri kantinum fyrir Wisdom til að vaða upp og gefa fyrir, þar sem Sessegnon tók glæsilega við boltanum og smellti honum upp í vinstra hornið.

Fram að hálfleik var United meira og minna með öll völd á vellinum en hugmyndaleysið var algjört. Di María var sá eini sem virkaði hættulegur á meðan Mata og Januzaj voru slakir, því miður. Van Persie var svo einn að ströggla upp á toppi, reyna að búa sér til eitthvað pláss en ekkert gekk.

Í hálfleik gerði Van Gaal eina mikilvæga breytingu á liðinu þegar hann tók Herrara útaf og setti Fellaini inn á. Það tók Belgann ekki nema 3 mínútur að stimpla sig inn, hann gerði sig stórann og stæðilegan í boxinu hjá WBA, tók fyrirgjöf Di María niður og þrumaði boltanum svo glæsilega upp í þaknetið. Flott hjá stráknum og maður sá vel á fagninu hversu lengi hann var búinn að bíða eftir þessu marki. United virkaði mun líklegri til að bæta við marki eftir þetta, en á 66 mínútu verður vörnin enn og aftur ósamstíga. Jones stígur úr línunni, skilur Rafael eftir, sem gerir Berahino réttstæðan þegar stungusending kemur inn fyrir vörnina. Berahino setur boltann svellkaldur framhjá De Gea í markinu og okkar menn komnir undir gegn gangi leiksins. Síðan tók við sama eyðimerkurgangan og var í fyrri hálfleik. United heldur boltanum en gengur lítið að koma honum í hættuleg færi. Falcao kom loksins inn á 72 mín og liðið breytir í 4-4-2, en það fór síðan út um þúfur á 78 mín þegar Di María þarf að fara af velli vegna meiðsla og inn kemur vinur okkar Ashley Young. Núna vorum við með tvo óhæfa kantmenn, þá Young og Januzaj.

Það stefndi því allt í 2-1 sigur WBA þangað til á 87 mín þegar Daley Blind (fallegasti maðurinn á Englandi) skoraði með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig. Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og var United í þungri sókn allan tíma, en allt kom fyrir ekki, 2:2 jafntefli staðreynd.

Það voru of margir leikmenn að spila illa í dag og þar voru Mata og Januzaj e.t.v. verstir. Jones + Herrera voru klárlega ryðgaðir og aðrir voru meira og minna undir pari. Þetta var í fyrsta skipti sem þessi varnarlína spilar saman í vetur. Þó svo ég sé spenntastur fyrir þessum fjórum, þá sást æfingaleysi þeirra vel, þeir áttu sína ágætu kafla en inn á milli komu slæmir kaflar. Það er þessi óstöðuleiki sem er að fara illa með United þessa daga. Einnig verð ég að skella smá skuld á Van Gaal fyrir að hafa notað þetta kerfi. Ég skil ekki af hverju United fór varfærnislega inn í þennan leik, eins og þeir væru að spila gegn einu besta liði heims. Menn virtust ekki alveg klárir á því hvað ætti að gera og WBA átti frekar auðvelt með að leysa upp spilið. Við höfum oft séð þetta áður í vetur. Maður leiksins að mínu mati var Fellaini, hann kom inn á og spilaði eins og hann var vanur að gera með Everton, framarlega á vellinum, grimmur, stór og sterkur. Það var hann sem olli WBA mestum vandræðum.

Eftir viku er leikur við Chelsea á Stamford Bridge. Þar mætir United taktískum snillingi í Mourinho og það er alveg klárt mál að hann veit upp á hár hvar veikleikar United eru. Okkar menn verða að mæta mjög grimmir og einbeittir til leiks, þá getur allt gerst. Ef það á að draga sig eitthvað til baka og vera stressaðir, þá er voðin vís.

West Bromwich Albion annað kvöld

skrifaði þann 19. október, 2014

West Bromwich Albion - Manchester UnitedAnnað kvöld byrjar ballið aftur hjá okkar mönnum, eftir tveggja vikna landsleikjahlé, þegar United skutlar sér í tveggja tíma rútuferð til West Bromwich í úthverfi Birmingham. Þar mæta þeir heimamönnum í West Bromwich Albion á The Hawthorns vellinum. Leikurinn byrjar klukkan 19:00 og verður Mike Dean á flautunni.

Oft hefur maður nú fundist þessi landsleikjahlé frekar leiðinleg en íslenska landsliðið hefur svo sannarlega breytt því viðhorfi með árangri sínum undanfarið. Það er vonandi að United standi sig jafn vel og drengirnir okkar í landsliðinu því það er gríðarlega mikilvægt að vinna leikinn á morgun ef United ætlar að halda sér meðal þeirra bestu. Dagskráin framundan er ansi erfið því eftir leikinn á morgun á liðið leik við Chelsea (H), Man City (Ú), Crystal Palace (H) og svo Arsenal (Ú). Þó svo farið sé í hvern leik til að sigra hann, má alveg gera ráð fyrir einhverjum töpuðum stigum í þessum viðureignum, það er því mikilvægt að misstíga sig ekki gegn liðum eins og WBA og Crystal Palace.

Í síðustu sex leikjum sem United hefur spilað gegn WBA þá hafa okkar menn landað 4 sigrum, eitt (frægt 5:5) jafntefli og eitt tap. WBA eru þó hættulegir, þeir unnu Tottenham fyrr í haust og Liverpool átti í basli með að brjóta þá aftur í síðustu umferð. Af okkar mönnum eru þó að berast betri fréttir, menn eru hægt og rólega að koma aftur úr meiðslum. Herrera, Smalling, Young, Jones og Carrick verða víst allir klárir fyrir morgundaginn, ólíklegt er þó að þeir detti beint inn í byrjunarliðið, nema þá helst Jones og Herrera. Aftur á móti eru Evans, McNair, Lingard og Valencia enn meiddir og svo er Rooney auðvitað ennþá í banni.

Hérna kemur mín spá um byrjunarliðið:

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
4
Jones
2
Rafael
17
Blind
7
Di Maria
21
Herrera
8
Mata
20
Van Persie
9
Falcao

Held að Jones og Herrera komi aftur beint inn í liðið, spurning er hvort Herrera verði í holunni og Mata út á kanti, finnst það þó ólíklegt þar sem Mata hefur staðið sig vel í 10-unni. Van Gaal getur varla horft framhjá því. Ef þetta verður uppstillingin á morgun þá er ég svolítið spenntur að sjá hvernig vörnin stendur sig, því þetta er sú vörn sem ég persónulega vil sjá slípast saman í vetur.

Að lokum þá er hér smá athyglisverð tölfræði sem ég rakst á:

  • Manchester United hefur notað 30 mismunandi leikmenn það sem af er þessu tímabili, fleiri en nokkur annar klúbbur. Það er jafn mikið og Moyes notaði allt síðasta tímabil og aðeins tvisvar sinnum hefur United notaði fleiri leikmenn, tímabilin 2008/2009 (33) og 2011/2012 (31).
  • Robin van Persie hefur skorað 4 mörk og gefið 2 stoðsendingar í síðustu 7 leikjum gegn WBA.
  • Angel Di Maria hefur, í fyrstu 5 leikjunum sínum á Englandi, átt þátt í 6 mörkum (3 mörk og 3 stoðsendingar).
  • Manchester United hefur aðeins unnið einn mánudagsleik af síðustu fimm í ensku deildinni (W1 D1 L3).
  • United hefur skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik en nokkur annar klúbbur í deildinni á þessari leiktíð. (9).

ÁFRAM MANCHESTER UNTIED!

Djöfullegt lesefni: 2014:09

skrifaði þann 18. október, 2014

Hér er það helsta sem við lásum/hlustuðum/horfðum á í síðustu viku…

Lesefni vikunnar:

Mynd vikunnar:

Van Der Sar og Van Gaal hjá Ajax
VanDerSar_VanGaal

Myndbönd vikunnar

Kevin Kilbane tók stutt viðtal Roy Keane

Gary Neville fer yfir markið hans Giggs gegn Arsenal

Lag vikunnar:

Lágnætti – Sólstafir

Djöfullegt lesefni: 2014:08

skrifaði þann 10. október, 2014

Lesefni vikunnar:

David de Gea vonar að lærimeistari Edwin van der Sar geti komið honum á toppinn.

Nooruddean Choudry (@beardedgenius) útskýrir hvernig sala Welbeck til Arsenal getur bitið United í rassgatið

Danny Welbeck svarar fyrir sig

Við tókum upp nýjan podcast þátt

Manchester United eru ekki öruggir með að fá Ronaldo

Cristiano Ronaldo mun ekki ganga til liðs við United nema að hann taki á sig umtalsverða launalækkun

Jim White hjá Telegraph segir að United þurfi nýjan Roy Keane

Roy Keane segir að United hafi fengið Ronaldo vegna þess að hann lét John O’Shea líta út eins og trúð

David de Gea hugleiddi að yfirgefa United eftir erfiða byrjun á Old Trafford

Roy Keane – Fergie vildi að ég fengi sjöuna frekar en David Beckham

Svarið við af hverju Daley Blind er lykilmaður í ‘demantnum’

Radamel Falcao á páfagauk sem fagnar mörkunum hans 

Roy Keane var einn áhrifamesti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar en hver var efstur á listanum?

Sir Alex Ferguson lofar byrjun Louis van Gaal hjá United

Roy Keane fullyrðir að Ferguson hafi logið um hann í fjölmiðlum

United gæti fengið sekt frá UEFA ef þeir byrja að taka nýtt tillit til skulda í Financial Fair Play

Hinn ungi Tyler Blackett gæti verið að fá umtalsverða launahækkun

Lag vikunnar

Um helgina er væntanlegur þriðji pistill af ‘Úr bókahillunni’ seríunnar í boði Björns Friðgeirs

manchester-united-logo

Podcast Rauðu djöflanna – 2.þáttur

skrifaði þann 5. október, 2014

Það er landsleikjahlé á næsta leiti og því tilvalið tækifæri til að taka upp næsta þátt af podcastinu okkar. Þáttur nr. 2 er kominn í loftið og ætti að endast ykkur fram að næsta leik sem er ekki fyrr en 20. október þegar okkar menn heimsækja WBA.

Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan auk þess sem hægt er að hala honum niður í gegnum spilarann eða hér að neðan. Jafnframt má gerast áskrifandi að þættinum í gegnum ýmis podcast-forrit:

Gerast áskrifandi í iTunes
Gerast áskrifandi í öðrum forritum

Að þessu sinni ræddu Tryggvi Páll, Björn Friðgeir og Magnús um QPR, Leicester, West Ham og Everton-leikina, Meiðslamál, varnarlínuna, nýju leikmennina, leikina framundan og ýmislegt fleira.

MP3 niðurhal: 2. þáttur