• Skip to primary navigation
  • Skip to content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Podkast
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Podkast
Evrópudeildin

Dregið í Evrópudeildinni

Björn Friðgeir skrifaði þann 16. desember, 2019 | Engin ummæli


Í hádeginu verður dregið í Evrópudeildinni. Manchester United er í efra styrkleikaflokki og getur því mætt einu eftirfarandi liða:

APOEL, Bayer Leverkusen, CFR Cluj, Club Brugge, Eintracht Frankfurt, Getafe, FC Köbenhavn, Ludogorets, Olympiakos, Rangers, Roma, Shakhtar Donetsk, Sporting CP eða  Wolfsburg

Nóg af möguleikum þarna og við uppfærum í hádeginu.

Efnisorð: Dráttur 0
Enska úrvalsdeildin

Manchester United 1:1 Everton

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 15. desember, 2019 | 13 ummæli

Í dag tók Old Trafford á móti Duncan Ferguson og lærisveinum hans í Everton en bæði lið hafa verið að glíma við þónokkur meiðsli og

1
De Gea
23
Shaw
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
17
Fred
39
McTominay
10
Rashford
14
Lingard
21
James
9
Martial

Á bekknum eru svo þeir Sergio Romero, Juan Mata, Ashley Young, Mason Greenwood, Andreas Pereira, Brandon Williams og Alex Tuanzebe.

Pickford
Holgate
Mina
Keane
Digne
Iwobi
Davies
Bernard
Coleman
Richarlison
Calvert-Lewin

Bekkurinn: Stekelenburg, Baines, Tosun, Niasse, Kean, Martina og Gordon.

Veikindi héldu bæði Gylfa Þór Sigurðssyni og Sidibé heima í dag og því var Duncan Ferguson neyddur til að breyta liði sínu rétt fyrir leik.

Leikurinn byrjaði skemmtilega, Anthony Martial fékk boltann á vinstri vængnum og kom boltanum á Fred sem bar boltann inn í teiginn. Þar barst boltinn á afmælisbarnið Jesse Lingard sem snéri með bakið í markið en snéri sér í skotinu en boltinn rétt framhjá markinu eftir aðeins 17 sek.

Embed from Getty Images

Hinu meginn á vellinum kom fyrsta færi gestanna einungis örfáum sekúndum síðar þegar de Gea þurfti að hafa sig allan við að blaka fyrirgjöf sem stefndi í vinkilinn yfir markið en meiddist um leið er hann lenti á stönginni. Kröftugar upphafssekúndur sem kveiktu verulega upp í áhorfendum.

Næsta hættulega færi kom á tíundu mínútu þegar ekkert virtist vera í gangi hjá Victor Lindelöf ákvað sá sænski að húrra boltanum inn fyrir vörn Everton þar sem Rashford komst í ágætis skotfæri en boltinn fór framhjá markinu.

Strax í kjölfarið fékk Daniel James stungusendingu inn fyrir vörnina og Pickford hikaði og kom ekki út á móti en laust skot hans rúllaði framhjá markinu.

Embed from Getty Images

Enn eitt áfallið fyrir Everton kom á 23. mínútu þegar Lucas Digne gaf merki um að hann þyrfti skiptingu. Í hans stað kom hinn reynslumikli og 35 ára gamli Leighton Baines sem hafði fram að þessu einungis spila átta mínútur í deildinni. Erfiðar sjötíu mínútur fyrir hann framundan gegn Daniel James.

Innan skamms fengu rauðu djöflarnir svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig eftir að Tom Davies hafði brotið á Scott McTominay eftir frábæra móttöku skotans. Úr spyrnunni kom fast skot frá Rashford, en aðeins of nálægt Pickford sem náði að koma hönd á boltann.

Embed from Getty Images

Þegar hér var komið við sögu hafði United verið með boltann yfir 70% af leiknum en okkar menn hafa hingað til ekki staðið sig neitt húrrandi vel í þeim viðureignum sem við höfum haft svo mikið af boltanum.

https://twitter.com/utdarena/status/1206220384074420229

Skömmu síðar fengu Everton hornspyrnu þar sem Calvert-Lewin náði að trufla David de Gea þegar sá spænski kom út úr búrinu og boltinn fór yfir allan pakkann og endaði í Lindelöf og þaðan í netið. VARsjáin skoðaði atvikið en komst að þeirri niðurstöðu að Calvert-Lewin hefði ekki brotið á markverðinum og markið stóð. 0-1 og Duncan Ferguson fagnaði eins og enginn væri morgundagurinn.

Síðari hálfleikur

Fred átti fyrsta hættulega tækifærið í síðari hálfleik þegar boltinn datt fyrir framan hann í d boganum en skot hans yfir.  Aftur fengu heimamenn hættulegt færi þegar Martial sótti aukaspyrnu út við hornfánann en Harry Maguire vantaði svona 7 cm í viðbót til þess að ná fyrirgjöfinni.

Sama sagan virtist vera að endurtaka sig, United meira með boltann en ekki að nýta sér það og fá færi sem sköpuðust.

Embed from Getty Images

Eftir um klukkustundarleik  komst United í sókn þar sem Luke Shaw átti þrumuskot að marki sem Pickford sló út í teig fyrir framan Daniel James sem hamraði boltann í andlitið á Lingard. Ekki beint afmælisgjöfin sem hann átti von á. En eftir það fór Lingard útaf og inn á í hans stað kom Mason Greenwood þegar um 25 mínútur voru eftir.

Á 70. mínútu fengu United hornspyrnu sem endaði með skoti frá sjálfum Lindelöf en skot hans með vinstri fætinum var hársbreidd frá því að enda í netinu. Mikil pressa frá United þessa stundina en enn og aftur ekki mikil hætta sem henni fylgdi. Þó líflegra en í fyrri hálfleik.

Embed from Getty Images

Það var hreinlega EKKERT sem leit út fyrir að United væri að nálgast jöfnunarmarkið þegar James sendi á Greenwood rétt fyrir utan teiginn. Sá ungi smellti boltanum milli lappa varnarmanns og alveg út við stöngina og Pickford átti ekki möguleika á að verja. 1-1 og vonarneistinn kviknaði á ný.

Gestirnir fengu þó nokkur færi en Aaron wan-Bissaka átti enn og aftur stórleik og var með Richarlison í vasanum á lokamínútunum. Alex Iwobi átti svo skot sem de Gea þurfti að hafa sig allan við og varði í horn.

Embed from Getty Images

Næsta skipting hjá United kom þegar um fimm mínútur voru til loka venjulegs leiktíma en þá fór Daniel James útaf fyrir spænska töframanninn Juan Mata. Everton menn sigldu þessu svo þægilega í höfn enda búnir að tefja síðasta hálftímann rúmlega.

1-1 var niðurstaðan og alls ekki glæsilegur leikur frá okkar mönnum. Þó að Ole Gunnar Solskjær hafi gert 9 breytingar á liðinu í vikunni var ekki að sjá að menn væru óþreyttir og tilbúnir í 90 mínútna slag. Fred og McTominay virkuðu þreytulegir síðustu tuttugu mínúturnar, James og Rashford voru langt frá sínu besta og þá átti Lingard ekki góðan dag.

Embed from Getty Images

Það var rólegt yfir Mason Greenwood fram að markinu hans en hann hefur núna skorað þrjú mörk úr síðustu fjórum skotum sínum. Wan-Bissaka var stórkostlegur að vanda og hélt Richarlison í skefjum allan leikinn. De Gea sinnti öllu sínu en leit ekki vel út í markinu en spurning hvort annar dómari hefði dæmt brot á Calvert-Lewin þegar sá síðarnefndi slengdi höndinni í andlitið á spánverjanum.

Engu að síður heldur Evrópugrýlan áfram að hrella okkur. Það virðist vera ómögulegt fyrir United að sigra eftir evrópuleik í miðri viku. Þá eigum við einnig erfitt með lið sem ætla sér að verjast og beita skyndisóknum.

Embed from Getty Images

Það er sama rulla enn og aftur, okkur vantar skapandi miðjumann með töfra einmitt í svona leiki og framherja sem býður upp á aðra eiginleika fyrir framan markið en Martial og Rashford bjóða upp á. Erling Braut Håland og James Maddison í janúar? Ólíklegt en hver veit, það vantar í það minnsta einstaklinga með svipaða hæfileika.

Embed from Getty Images

Næsti leikur er bikarleikur gegn Colchester á miðvikudaginn en næsti deildarleikur er gegn neðsta liðinu, Watford, en þeir virðast ekki fyrir sitt litla líf geta unnið fótboltaleik og sitja á botninum með 9 stig. Það verða því mikil vonbrigði ef 3 stig skila sér ekki af Vicarage Road.

 

13
Enska úrvalsdeildin

Sögulegur leikur þegar Everton kemur í heimsókn

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 14. desember, 2019 | 2 ummæli

Eftir brösótt gengi hjá Manchester United það sem af er yfirstandandi tímabili hefur United tekist að rétta skútuna af með þremur einkar sterkum sigrum. Fyrst lagði liðið José Mourinho og lærisveina hans í Tottenham eftir að sá portúgalski hafði stýrt liðinu í þremur sigurleikjum í röð.

Eftir það lá leiðin í bláa hluta borgarinnar á Etihad völlinn þar sem United hreinlega lék sér að veikri vörn heimamanna og málaði borgina rauða í kjölfarið. Þetta var í fyrsta sinn á tímabilinu þar sem liðinu tekst að vinna tvo deildarleiki í röð. Til að láta kné fylgja kviði tók liðið svo upp á því að slátra hollenska liðinu AZ Alkmaar 4-0 í lokaumferð riðlakeppninnar í Evrópudeildinni núna á fimmtudaginn var.

Embed from Getty Images

Það má því vissulega færa rök fyrir því að ákveðinn skriðþungi sé að myndast með liðinu og liðið undir stjórn Ole Gunnar Solskjær virðist  vera að finna sinn stíl með liðið. Sá leikstíll sver sig kannski ekki í United-ættina, að liggja aftarlega og þéttir fyrir og leyfa mótherjanum að sitja á boltanum og beita svo leifturhröðum skyndisóknum.

En ólíkt United-liðinu í tíð Mourinho þegar varnarsinnaði boltinn skilaði úrslitum kannski en var ekki mikið fyrir augað, virðast stuðningsmenn margir hverjir vera tilbúnir til að fyrirgefa Solskjær þennan leikstíl því þegar liðið brýst fram til sóknar halda því engin bönd.

Embed from Getty Images

Leikmenn eins og Marcus Rashford, Anthony Martial og Daniel James eru eins og rakettur með utanborðsmótor eftir endilöngum vellinum og eru sífelld ógn við varnarlínur andstæðinganna.

Þá hefur vörnin hægt og sígandi verið að þéttast og þó að samvinna Harry Maguire og Victor Lindelöf verði betri með hverjum deginum þá er án efa stærstu breytinguna að finna hægra meginn þar sem Aaron Wan-Bissaka nokkur er búinn að reisa 183 cm háan múr sem enginn virðist eiga leið í gegnum.

Embed from Getty Images

Raheem Sterling átti t.a.m. ekki skot á rammann í City leiknum og Son Heung-Min var sömuleiðis haldið í skefjum en saman hafa þessir leikmenn komið að 21 deildarmarki á tímabilinu.

Báðir þessir leikmenn fengu sína lægstu einkunn á tímabilinu fyrir 90 mínútna deildarleik inn á WhoScored.com í viðureignum sínum gegn Wan-Bissaka. Englendingurinn ungi hefur verið hreint út sagt stórkostlegur og afburðaleikmaður í sinni stöðu.

Embed from Getty Images

Þá hefur miðjan okkar mikið verið í brennideplinum sérstaklega í fjarveru Paul Labile Pogba og hnignandi fótboltaferils hjá Juan Mata og Nemanja Matic en skoski skriðdrekinn og brasilíska túrbínan hafa stigið allhressilega upp og sýnt hvað í þeim býr í síðustu leikjum.

Hér er að sjálfsögðu átt við Fred og Scott McTominay. Þeirra samvinna hefur verið algjört lykilatriði í þessum baráttusigrum okkar en enn vantar einn göldróttan sendingasnilling í hæsta gæðaflokk til að fjölga færunum sem liðið skapar. Það verður því spennandi að sjá hvað Solskjær gerir í janúarglugganum.

Embed from Getty Images

En þá að leiknum. Mótherjinn að þessu sinni verður Everton en eins og flestir muna á United harm að hefna eftir að Gylfi og félagar slátruðu veiklulegu United liðinu með fjórum mörkum gegn engu á Goodison Park í apríl.

En Everton liðið hefur ekki átt sjö dagana sæla á þessu tímabili en liðið tilkynnti um brotrekstur Marco Silva þann 5. desember. Liðið sat þá í fallsæti og virtust allar bjargir bannaðar en leikjaplanið sem blasti við Everton var ekki af léttari endanum.

Eftir grátlegt tap gegn Leicester City og svo hinn örlagaríka 5-2 leik við Liverpool 4. desember biðu leikir við Chelsea, Manchester United, Leicester í bikar, Arsenal og stuttu síðar Manchester City. Það var því stór spurning hvort reka ætti Silva og fá inn nýjan stjóra/bráðabirgðastjóra til að taka við strax eða bíða þar til þessari leikjahrinu væri lokið.

Embed from Getty Images

Stjórn félagsins lét þó slag standa og fékk Silva sparkið strax eftir Liverpool leikinn og réð því tímabundið Duncan Ferguson (stóra Dunc) til að stýra liðinu þar til annar stjóri væri fáanlegur. Skotinn spilaði fyrir fyrir Everton á árunum 1994-1998 og svo aftur frá 2000-2006 og á að baki yfir 200 leiki fyrir félagið og er í miklum metum meðal stuðningsmanna liðsins.

Undir hans stjórn tókst liðinu að leggja Lampard og leikmenn hans í Chelsea 3-1 á Goodison Park. Reyndar hefur Lundúnarliðið verið í miklu basli undanfarnar vikur svo hugsanlega má ekki lesa of mikið í þann leik en engu að síður sterkur sigur fyrir stóra Dunc.

Embed from Getty Images

Eins og flestum landsmönnum er kunnugt leikur Gylfi Þór Sigurðsson með Everton en hann hefur nánast verið í áskrift þegar kemur að því að skora á Old Trafford en íslenski fyrirliðinn hefur skorað 4 mörk í síðustu 5 heimsóknum sínum í Leikhús draumanna.

Gylfi hefur þó eitthvað hökkt í byrjun tímabilsins rétt eins og flestir leikmenn Everton liðsins. Í sumar fengu þeir kærkominn liðsstyrk þegar Moise Kean kom frá Juventus á tæpar 30 millj. punda og Alex Iwobi kom frá Arsenal fyrir svipaða upphæð.

Þá var André Gomes keyptur frá Barcelona en hann var á láni hjá Everton á síðustu leiktíð. Þessir leikmenn áttu að hjálpa liðinu að komast úr flokki næstbestu liðanna utan „stóru 6“ en þeim hefur ekki tekist það og úrslitin á tímabilinu sjaldnast fallið með Everton.

Embed from Getty Images

Everton glímir við ágætis meiðslapakka rétt eins og United en Yerri Mina, Seamus Coleman, André Gomes, Fabian Delph og Jean-Philippe Gbamin eru allir frá vegna meiðsla. Þá bættust bæði Morgan Schneiderlin og Theo Walcott á listann eftir æfingu í vikunni sem gerir málin enn flóknari fyrir Ferguson. Því má gera ráð fyrir að byrjunarlið Everton muni líta út eitthvað á þá leið:

Pickford
Digne
Holgate
Keane
Sidibe
Iwobi
Davies
Sigurðsson
bernard
Richarlison
Calvert-Lewin

Leikurinn sjálfur verður þó merkilegur að mörgu öðru leyti. Því að öllum líkindum verður leikurinn sá 4000. í röð hjá Manchester United þar sem liðið er með uppalinn leikmann úr akademíunni í hópnum. Allar götur síðan í október 1937 hefur United verið með leikmann úr akademíu liðsins í hópnum eða í 82 ár samfleytt.

Á þessu tíma hafa 279 uppaldir leikmenn verið í hópnum en 237 þeirra hafa spilað fyrir liðið. Þó að 42 þessara uppöldu leikmanna hafi ekki spilað keppnisleik fyrir hönd Rauðu djöflanna þá er ekki þar með sagt að ekkert hafi orðið úr þeim. Meðal þessara leikmanna eru Tom Heaton, Danny Drinkwater og Matty James svo fáeinir séu nefndir.

Í aðeins 13 af þessum 3.999 leikjum sem komnir eru hefur viðkomandi einungis vermt tréverkið en ekki komið inn á völlinn. Hreint út sagt mögnuð og áhugaverð tölfræði en ekkert lið kemst með tærnar þar sem United hefur hælana í þessum málefnum.

Embed from Getty Images

Þessi leikur verður því skráður í sögubækurnar hvernig sem hann fer en þó að United virðist vera á skriði og Everton liðið gæti virst brothætt þá er kannski áhugavert að rýna betur í smáatriðin og tölfræðina.

United hefur þrjá sigra og tvö jafntefli í síðustu fimm leikjum á meðan Everton hefur tapað þremur og unnið tvo. United hefur yfirleitt gengið vel gegn Everton en í 54 deildarleikjum í Úrvalsdeildinni hefur United unnið 36 gert 9 jafnteflið og 9 tapað, nú síðast í apríl þegar Everton skoraði fjögur.

Þá hefur Everton ekki riðið feitum hesti frá heimsóknum sínum til Manchesterborgar en í 26 leikjum hefur liðið einungis unnið einu sinni (5 jafntefli og 20 töp). Hins vegar er önnur áhugaverð tölfræði sem vert er að líta til. Á tímabilinu hefur United staðið sig einkar vel gegn liðum í efri hluta deildarinnar en virðist eiga í erfiðleikum með liðin í 10. – 16. sæti eins og sjá má af þessari töflu.

Græn merking táknar sigurleik gegn liðinu, blátt þýðir jafntefli og rautt er tap. Það sést því vel þegar taflan er skoðuð hvar vandamálið í stigasöfnun United á leiktíðinni liggur.

Solskjær þarf því að finna lausn á þessu vandamáli hið fyrsta enda er það neðri hluti deildarinnar sem er að velkjast fyrir okkur. Vissulega hefur liðið verið með einn lengsta meiðslalista Evrópu það sem af er leiktíðar en það útskýrir einungis hluta. Það er spurning hvort menn séu einfaldlega ekki að mæta rétt gíraðir í þessa leiki en virðast eiga mun auðveldara með undirbúning fyrir stóru leikina.

Embed from Getty Images

Ole Gunnar Solskjær mun reyna að tengja saman þrjá deildarsigra í röð sem væri þá í fyrsta skiptið frá því að hann tók við sem bráðabirgðastjóri. Enn eru nokkrir leikmenn fastir á meiðslalistanum, Eric Bailly er byrjaður að æfa aftur og sömuleiðis Timothy Fosu-Mensah og Diogo Dalot, Jesse Lingard hlaut minniháttar meiðsl gegn City en Marcos Rojo kemur inn í janúar að öllum líkindum. Þá er Paul Pogba líklegast að koma inn í lok desember en hann hefur ekki spilað síðan í september eftir að hann meiddist á ökkla.

Embed from Getty Images

Í vikunni kom Matic til baka en hann var í byrjunarliðinu gegn AZ Alkmaar sem fór eins og áður sagði 4-0. United hefur átt erfitt uppdráttar eftir Evrópudeildarleiki í miðri viku og því var mikilvægt að Solskjær gæti hvílt einhverja leikmenn í vikunni.

Menn eins og David de Gea, Aaron wan-Bissaka, Victor Lindelöf, Jesse Lingard, Scott McTominay, Fred, Luke Shaw, Daniel James og Marcus Rashford fengu allir kærkomna hvíld og ættu því að vera eiturferskir á sunnudaginn gegn Everton.

1
De Gea
23
Shaw
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
17
Fred
39
McTominay
10
Rashford
14
Lingard
21
James
9
Martial

Með sigri getur United saxað á Chelsea sem situr eins og staðan er í 4. sæti deildarinnar en þeir eiga leik við Bournemouth um helgina. Þá mætir Manchester City á Emirates leikvanginn þar sem Freddie Ljungberg og lærisveinar hans taka á móti þeim en City er þessa stundina í 3. sætinu, 8 stigum á undan United. Það er því mikilvægt að halda rétt á spilunum núna og sigla þessum þremur stigum í hús og halda áfram á beinu brautinni. Meistaradeildarsætið virðist allt í einu ekki vera mjög fjarlægur draumur.

Embed from Getty Images

2
Evrópudeildin

Manchester United 4:0 AZ Alkmaar

Halldór Marteins skrifaði þann 12. desember, 2019 | 13 ummæli

Manchester United spilaði í kvöld lokaleik sinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Það var heimaleikur gegn liðinu í 2. sætinu, AZ Alkmaar frá Hollandi. Fyrir leik höfðu bæði lið þegar tryggt þátttöku sína í 32-liða úrslitum en þó var barist um hvort liðið myndi enda á toppi L-riðils og þar með vera í betri stöðu fyrir dráttinn á mánudaginn. Manchester United dugði jafntefli á meðan AZ þurfti að leika til sigurs.

Manchester United stillti upp þessu byrjunarliði í leiknum:

22
Romero
53
Williams
5
Maguire
38
Tuanzebe
18
Young
31
Matic
37
Garner
15
Pereira
8
Mata
26
Greenwood
9
Martial

Varamenn: Grant, Jones, Laird, Fred, McTominay, Chong, Rashford.

Gestirnir frá Hollandi stilltu upp þessu byrjunarliði:

1
Bizot
15
Wijndal
30
Wuytens
20
Clasie
2
Swensson
10
Wit
8
Koopmeiners
6
Midtsjö
11
Idrissi
7
Stengs
26
Sugawara

Varamenn: Druijf, Vlaar, Kramer, Ouwejan, Boer, Aboukhlal, Reijnders.

Leikurinn sjálfur

Fyrri hálfleikurinn var afskaplega leiðinlegur. Það var nokkuð greinilegt að United nægði jafntefli en AZ þurfti sigur. Hollenska liðið var meira með boltann og reyndi að gera eitthvað. United lá þó ekki aftarlega heldur reyndi að halda hárri varnarlínu en voru mjög passífir með boltann og lítið að skapa. AZ reyndi að finna leiðir í gegnum rangstöðutaktíkina með stungum en það gekk lítið. Helstu færin sem AZ fékk var eftir klaufaskap í vörn United, t.d. eitt skipti þegar fyrirliðinn Ashley Young dólaði sér alltof lengi með boltann og missti hann. Þar var hann þó heppinn því sóknarmenn AZ náðu ekki að skapa sér neitt úr þeirri gjöf.

Bjartasti punktur fyrri hálfleiksins var þegar United vann boltann á eigin vallarhelmingi, eftir rúman hálftíma. Mason Greenwood fékk boltann fyrir framan eigin teig og sýndi yfirvegun í að finna réttu sendinguna í gegnum pressandi andstæðing, frekar en að dúndra bara eitthvert. Sendingin fann Juan Mata sem hafði ekrur af auðu plássi fyrir framan sig. Hann bar boltann upp völlinn og sendi á hægri kantinn þar sem Ashley Young kom brunandi aleinn upp kantinn. Young kom svo með fínustu sendingu fyrir, út í teiginn aftur á Juan Mata. Mata náði hins vegar ekki nógu góðu skoti heldur setti boltann beint í varnarmann. Flott sókn en ekki nógu gott slútt.

Markalaust í hálfleik. Hvorugt liðið líklega sátt með spilamennskuna en United þó sáttari við stöðuna. Mögulega var það upplegg hjá Solskjær að fara varlega inn í fyrri hálfleikinn og passa fyrst og fremst upp á að lenda ekki undir. Kannski áttu leikmenn ekki auðvelt með að mótivera sig í þennan fyrri hálfleik.

Hver sem ástæðan var þá var seinni hálfleikurinn allt annar og miklu skemmtilegri.

AZ byrjaði reyndar seinni hálfleikinn betur og fékk fyrsta almennilega færið. Þá náðu þeir stungufyrirgjöf af kantinum sem varnarlína United náði illa að eiga við. Sóknarmaður AZ fékk boltann en náði sem betur fer ekki að gera mikið við hann heldur átti slakt skot beint á Romero.

Þá var loks komið að Manchester United. Á 50. mínútu átti Garner sendingu upp hægri kantinn á Mason Greenwood. Hinn ungi og gríðarlega efnilegi Greenwood lét vaða á bakvörðinn, tók nokkur skæri og bjó sér til pláss fyrir fyrirgjöf. Hann fann Martial í góðu svæði í vítateignum. Frakkinn hafði nóg pláss til að láta vaða en skaut því miður yfir markið. Virkilega vel gert hjá Mason en Martial hefði mátt gera betur.

Embed from Getty Images

Aðeins 3 mínútum síðar var komið að fjórum leikmönnum sem hafa fengið að finna fyrir gagnrýnisröddum að undanförnu. Allir höfðu þeir fengið að heyra það fyrir heldur slaka frammistöðu í fyrri hálfleik. Fyrstur var það Andreas Pereira, hann var með boltann við hornfána AZ og með varnarmann í bakinu þegar hann ákvað að taka bara suddalegan snúning og skilja varnarmanninn eftir í reyknum. Þar fann hann Juan litla Mata og skiptist á sendingum við hann á leið að teignum. Juan Mata fann svo serbneska reynsluboltann Nemanja Matic en hélt hlaupinu áfram inn í teiginn. Matic þræddi stungusendingu í gegnum fjölmennan varnarpakka gestanna, beint á Mata. Mata lét boltann fara undir hægri fótinn en tók hann svo með vinstri fætinum inn að markinu og var í góðri stöðu til að láta vaða. Þess í stað gaf hann fyrir. Fyrirgjöfinn virtist ætla að sigla framhjá öllum þegar fyrirliðinn Ashley Young mætti allt í einu, ekki einu sinni á fjærstönginni heldur ennþá lengra fjær en það, hægra megin í teignum. Hann lét vaða með flottu skoti úr nokkuð þröngu færi og sendi boltann upp í þaknetið. Stórglæsilegt mark og ísinn brotinn hjá okkar mönnum.

Aðeins fimm mínútum síðar var United búið að bæta við marki. Fyrsta markið í leiknum hafði verið fyrsta mark United á tímabilinu sem var án aðkomu leikmanns úr unglingastarfi Manchester United. Fyrir það mark var elsti markaskorari United á tímabilinu Jesse Lingard. Í öðru markinu voru það þó James Garner og Mason Greenwood, báðir fæddir 2001, sem bjuggu það mark til. United hafði verið í sókn en misst boltann við vítateig AZ. Hollendingarnir gerðu sig líklega til að bruna í skyndisókn en James Garner braut þá sókn á bak aftur með tæklingu, boltinn barst á Mason sem lét einfaldlega vaða fyrir utan teig. Frábært skot sem söng í netinu. Liðið getur þakkað fyrir VARleysið því tækling Garner var ekki alveg lögleg. En fallegt var markið engu að síður og United komið í 2-0 gegn liði sem hafði haldið hreinu í 8 af síðustu 9 leikjum sínum á undan þessum.

Embed from Getty Images

Manchester United var þó hvergi nærri hætt. Solskjær sá að United var komið í vænlega stöðu og ákvað að taka ekki óþarfa sénsa með Anthony Martial. Hann sendi Tahith Chong inn í staðinn fyrir Frakkann. Chong fór þá á hægri kantinn í staðinn fyrir Greenwood. Stuttu síðar var Greenwood kominn á fulla ferð inn í teiginn þegar það var brotið á honum. Réttilega dæmt víti sem Juan Mata skoraði úr af miklu öryggi. 3-0 fyrir United.

Og aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 4-0. Juan Mata fann Mason Greenwood sem bjó sér til pláss sjálfur til að skjóta og lét vaða. Markvörður AZ kom engum vörnum við, virkilega flott skot. Mason Greenwood er einn efnilegur slúttari.

Eftir þetta var leikurinn búinn. Solskjær gat leyft sér að taka Harry Maguire og Ashley Young af velli fyrir Phil Jones og Ethan Laird. AZ vissi að leikurinn var búinn, náðu þó aðeins að reyna á Romero þegar 10 mínútur voru eftir með fínu skoti sem argentínski markvörðurinn gerði vel í að blaka yfir markið. Mason Greenwood reyndi að búa sér til færi til að klára þrennuna en það hafðist ekki. Flott úrslit þó og United sigrar bæði leikinn og vinnur riðilinn.

Pælingar eftir leik

Frábær úrslit. Frábær seinni hálfleikur. Frábær Mason Greenwood.

Manchester United kláraði þennan L-riðil mjög vel. Liðið hélt hreinu í 5 leikjum af 6. Markaskorunin batnaði eftir því sem leið á og liðið átti frábæran seinni hálfleik í þessum leik.

Embed from Getty Images

Mason Greenwood. Getum við rætt þennan dreng meira? Hann er 18 ára gamall síðan í október en hann bara einfaldlega virkar tilbúinn í stærri verkefni en bara með einhverjum varaliðum. Menn eru að keppast við að tala um hann í sömu andrá og Robin van Persie þegar kemur að því að klára færi, hann getur skotið eins og engill með báðum löppum. Hann er áræðinn og leikinn, það er kraftur í honum. Hann er einfaldlega einn af þessum fótboltaleikmönnum sem gera mann spenntan í hvert skipti sem hann fær boltann. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut og vonandi fer hann að fá stærra hlutverk í liðinu.

Sergio Romero var að spila sinn 50. leik í kvöld. Hann hélt auðvitað hreinu, það eru varla fréttir. Hann var að halda hreinu í 31. skiptið, hefur auk þess aldrei tapað á Old Trafford á ferlinum. Hann hefur nú haldið hreinu jafn oft og Tim Howard, Bandaríkjamaðurinn þurfti þó 27 fleiri leiki til að ná þessari tölu.

Embed from Getty Images

Það verður dregið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar í hádeginu á mánudaginn. Manchester United fer í efri pottinn í þeim drætti, sem þýðir lægra skrifaðir andstæðingar og að United spilar seinni leikinn á heimavelli. Með United í efri styrkleikaflokki eru:

Ajax (NED)
Arsenal (ENG)
Braga (POR)
Basel (SUI)
Benfica (POR)
Celtic (SCO)
Espanyol (ESP)
Gent (BEL)
Internazionale Milano (ITA)
İstanbul Başakşehir (TUR)
LASK (AUT)
Malmö (SWE)
Manchester United (ENG)
Porto (POR)
Salzburg (AUT)
Sevilla (ESP)

Í neðri styrkleikaflokki eru þessi lið:

APOEL (CYP)
AZ Alkmaar (NED)
Bayer Leverkusen (GER)
CFR Cluj (ROU)
Club Brugge (BEL)
Copenhagen (DEN)
Eintracht Frankfurt (GER)
Getafe (ESP)
Ludogorets (BUL)
Olympiacos (GRE)
Rangers (SCO)
Roma (ITA)
Shakhtar Donetsk (UKR)
Sporting CP (POR)
Wolfsburg (GER)
Wolves (ENG)

Manchester United getur ekki dregist gegn liði frá Englandi eða AZ Alkmaar í 32-liða úrslitum. 32-liða úrslitin verða spiluð 20. og 27. febrúar á næsta ári.

Efnisorð: Ashley Young Juan Mata Mason Greenwood 13
Evrópudeildin

Lokaleikurinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar

Halldór Marteins skrifaði þann 11. desember, 2019 | 2 ummæli

Eftir tvo frábæra sigra í röð í ensku úrvalsdeildinni er aftur kominn tími til að beina sjónum okkar að Evrópukeppninni sem liðið okkar tekur þátt í þennan veturinn. Það er komið að sjötta og síðasta leiknum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. United hefur þegar tryggt sér sæti í 32-liða úrslitunum en það er þó mikilvægt að halda efsta sætinu því þannig sleppur liðið við að mæta efstu liðunum í hinum riðlunum eða þeim fjórum liðum sem koma úr Meistaradeildinni með bestan árangur. Að auki myndi liðið þá fá seinni leik á heimavelli. Jafntefli dugar Manchester United til að halda efsta sætinu í riðlinum en við viljum auðvitað enda þessa riðlakeppni með sigri. Það verður dregið í 32-liða úrslitin á mánudaginn, klukkan 12:00 að íslenskum tíma.

Þessi leikur fer hins vegar fram annað kvöld, klukkan 20:00. Dómari leiksins verður Sandro Schärer frá Sviss. Hann sver sig vonandi í ættina og verður hæfilega hlutlaus í þessu öllu.

Staðan í riðlinum

Staðan í L-riðlinum er ljómandi fín eins og er:

Liðið hefði getað tryggt sér sigurinn í riðlinum með sigri í síðasta leik en það var skynsamlegt að taka ekki of mikla sénsa í fimbulkuldanum í Astana. Og alltaf gaman að sjá efnilega unglinga fá sénsinn, það er eitt af því sem Manchester United hefur staðið fyrir í gegnum tíðina. Markaskorunin hefur ekki verið alltof góð í þessari keppni en varnarleikurinn frábær að mestu, fjórum sinnum hefur liðið haldið hreinu í fimm leikjum.

AZ hefur á móti verið í miklu markastuði í þessari keppni, þrátt fyrir að hafa ekki náð að skora gegn okkar mönnum í fyrri leik liðanna í þessari keppni. AZ hefur náð að skora í öllum hinum fjórum leikjunum til þessa, samtals 15 mörk. Að vísu hafa 11 af þessum mörkum komið í leikjunum tveimur gegn Astana.

Manchester United

Þótt markaskorunin hafi ekki verið upp á tíu til þessa í Evrópudeildinni þá hefur sóknarleikur Manchester United verið að batna til muna á síðustu vikum, ef horft er á allar keppnir. Eftir leikinn gegn Chelsea í upphafi tímabils tóku við 12 leikir í röð þar sem United náði ekki að skora meira en 1 mark í leik. Í þeim 10 leikjum sem eru liðnir síðan sú törn endaði er United búið að skora að meðaltali 2,1 mark í leik.

Það hefur auðvitað munað heilmikið um að fá Anthony Martial inn í liðið aftur, sá er einn hæfileikaríkasti sóknarmaðurinn í enska boltanum og hefur verið að sýna mjög flotta og stöðuga tölfræði á tímabilinu. Það er að segja þegar hann hefur getað spilað, það sem hefur aðallega verið að trufla hann eru meiðsli.

Þá hefur Marcus Rashford verið gríðarlega heitur í síðustu leikjum, bæði með enska landsliðinu og Manchester United. Það er vonandi að hann haldi áfram á því striki og haldi áfram að þagga niður í að mörgu leyti óverðskulduðum gagnrýnisröddum.

Það eru enn meiðslavandræði að hrjá liðið. Paul Pogba verður því miður ekki tilbúinn ennþá. Bailly, Fosu-Mensah, Dalot og Rojo eru líka frá, auk þess sem Matic og Shaw eru skráðir tæpir. Það munaði þó heilmiklu að fá akkerið Scott McTominay aftur á miðjuna. Viljum við að Solskjær taki sénsinn á að spila honum í þessum leik eða passa frekar upp á að hann verði klár í slaginn gegn Duncan Ferguson og félögum í Everton um helgina?

Svona væri hægt að stilla upp annað kvöld:

Romero
Williams
Jones
Tuanzebe
Young
Matic
Pereira
Chong
Gomes
Mata
Greenwood

Hvernig mynduð þið vilja sjá liðið í þessum leik?

AZ Alkmaar

AZ er í 2. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar, 3 stigum á eftir Ajax. Liðið hefur unnið 12 leiki af 16, gert 2 jafntefli og tapað 2 leikjum. Í þessum 16 leikjum hefur AZ skorað 38 mörk (2,375 pr leik) en fengið á sig 8 (0,5 pr leik). AZ hefur, eins og Manchester United, þegar tryggt sér áfram upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar með því að vinna 2 leiki og gera 3 jafntefli.

Markahæsti leikmaður liðsins, bæði í hollensku deildinni og Evrópudeildinni, er hinn 18 ára gamli Myron Boadu. Hann hefur skorað 10 mörk í deildinni og 4 í Evrópudeildinni. En hann fékk rautt spjald gegn Partizan í síðustu umferð og missir því af þessum leik. Fjórir leikmenn eru næstmarkahæstir hjá AZ í Evrópudeildinni, allir með 2 mörk. Einn þeirra er líka næstmarkahæstur hjá AZ í hollensku deildinni, það er hinn 23 ára gamli Oussama Idrissi. Idrissi er með tvöfalt ríkisfang, bæði hollenskt og marokkóskt, og er baneitraður, réttfættur vinstri kantari sem hefur gaman af því að leita inn á völlinn og láta vaða. Hann hefur líka skorað 9 mörk í hollensku deildinni, 6 mörk í 3 bikarleikjum auk markanna 2 í Evrópudeildinni. Leikmaður sem þarf að passa upp á.

Það eru tveir menn meiddir hjá AZ. Annars vegar er það Albert Guðmundsson, hins vegar er það gríski varnarmaðurinn Pantelis Hatzidiakos.

Líklegt byrjunarlið hjá AZ:

Bizot
Wijndal
Wuytens
Clasie
Svensson
Koopmeiners
Midtsjö
Wit
Idrissi
Druijf
Stengs

Efnisorð: AZ Alkmaar 2
  • Page 1
  • Page 2
  • Page 3
  • …
  • Page 313
  • Næsta síða »

Primary Sidebar

Ingólfur Gissurarson - Framúrskarandi fasteignasali

Síðustu ummæli

  • Heiðar um Manchester United 1:1 Everton
  • Björn Friðgeir um Manchester United 1:1 Everton
  • Auðunn um Manchester United 1:1 Everton
  • Tómas um Manchester United 1:1 Everton
  • Karl Garðars um Manchester United 1:1 Everton

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2019 · Keyrt á WordPress