Landsleikir

skrifaði þann 30. mars, 2015

Það eru landsleikir á fullu og því er hálfgerð gúrkutíð hvað varðar Manchester United. Björn Friðgeir fór yfir helsta slúðrið á föstudaginn og sú umræða er í fullu gildi ennþá.

Leikmenn United hafa verið hér og þar með landsliðum sínum og hér er stutt yfirferð yfir hvað menn hafa verið að brasa:

Radamel Falcao bar fyrirliðabandið þegar Kólumbía kafsigldi Bahrein 6-0. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Kólumbíu-menn spiluðu einnig gegn Kúveit í dag. Falcao reimaði á sig markaskónna á nýjan leik og skoraði á eins öruggan hátt og hægt er af vítapunktinum. Falcao er þar með búinn að jafna markamet Arnoldo Iguarán. 25 stykki.

Wayne Rooney, Michael Carrick og Phil Jones spiluðu þegar England lagði Litháen auðveldlega 3-0. Chris Smalling sat á bekknum á meðan Rooney færðist enn nær markameti Sir Bobby Charlton með því að skora eitt mark auk þess sem hann lagði upp mark fyrir Raheem Sterling. Á góðum degi hefði Rooney skorað þrennu en auk marksins átti hann skot í stöng og skalla í slá. Innkoma Carrick þótti mjög góð. England mætir Ítalíu í vináttuleik á morgun.

David de Gea sat á bekknum í 1-0 sigri Spánverja á Úkraínu-mönnum. Spánverjar spila svo vináttuleik við Hollendinga á morgun en Daley Blind og félagar slysuðust á 1-1 jafntefli gegn Tyrkjum á laugardaginn eins og flestir Íslendingar ættu að vita.

Antonio Valencia og liðsfélagar hans í Ekvador máttu þola 1-0 tap gegn Mexíkóum í vináttuleik. Enginn annar en Javier Hernandez skoraði sigurmarkið og það var ekki af lakara taginu. Ekvador mætir Argentínu-mönnum í vináttuleik á miðvikudaginn en Marcos Rojo og Angel di Maria eru í hópnum. Di Maria var fyrirliði liðsins í vináttuleik gegn El Salvador sem endaði með 2-0 sigri Argentínumanna. Di Maria lagði upp fyrra markið en Rojo sat á bekknum.

Paddy McNair nældi sér í sinn fyrsta landsleik fyrir N-Írland í 1-0 tapi gegn Skotum á miðvikudaginn en sat á bekknum í 2-1 sigri á Finnum um helgina. Jonny Evans hélt sér í leikformi í banninu og spilaði báða leikina.

Nani spilaði í 2-1 sigri Portúgala á Serbum. Hann þótti ekki spila vel.

Marouane Fellaini hélt hinsvegar áfram að spila vel er hann skoraði ekki eitt, heldur tvö mörk, í 5-0 sigri Belga á Kýpverjum. Belgar eiga svo leik gegn Ísrael á morgun.

Fellaini er eini leikmaðurinn sem á eftir að spila keppnisleik en aðrir leikmenn eru bara í vináttuleikjum. Engin meiðsli það sem af er og ágætar frammistöður hjá lykilmönnum okkar.

Býsna gott.

Landsleikir? Nei, stóra slúðurfærslan.

skrifaði þann 28. mars, 2015

Við verðum flest ef ekki öll ekki að hugsa um United milli þrjú og fimm í dag, en þangað til er ágætt að taka smá snúning á United.

Byrjum samt á ágætu marki Wayne Rooney gegn Litháen í gær:

Ef einhverjum datt í hug að silly season myndi ekki byrja fyrr en nær drægi sumri þá er það alger misskilningur. Slúðurmaskínur eru komnar í fjórða gír og United er orðað við nýja, eða sömu leikmennina í hverri viku. Samt er það svo að fleiri og fleiri eru að komast á þá skoðun að stór hluti leikmannakaupa sumarsins séu ef ekki frágengin, þá a.m.k. langt komin

Eitt er víst og það er að leikmannakaupin verða hnitmiðaðri nú en þau hafa verið lengi. Eftir að allt virðist farið að smella á vellinum er enn ljósara en fyrr hvað þarf að gera. Ég ætla að taka sénsinn og leika mér að því að segja hvað ég tel miklar líkur á að þeir komi

Miðvörður:

Það verður keyptur miðvörður.

 • Mats Hummels (65% líkur)
 • Nicolás Otamendi (25% líkur)
 • Aleksandar Dragović (5% líkur)
 • Marquinhos (2%)
 • Einhver annar (5% líkur)

Líkurnar á að Hummels komi virðast aukast með hverjum deginum. Otamendi er aðeins eldri og slúðrið þar hættir ekki, en það kom vel fram um daginn þegar bæði Times og Telegraph voru með greinar, sem nær örugglega komu úr innsta hring, að aldur er ekki lengur mál. Á Fergie tímanum átti ekki að kaupa leikmenn eldri en 27 ára nema eitthvað alveg sérstakt kæmi til en það á ekki við.

Dragović er ólíklegur en samt þess virði að hafa auga á honum. Hann hefur verið að standa sig vel með Kiev og eins og ástandið er í Rússlandi eru líkur á brunaútsölu hjá mörgum liðum þar. Marquinhos var nefndur en hann er nýbúinn að skrifa undir samning hjá PSG.

En ég held að líkurnar séu allar með því að það verði annaðhvort Hummels eða Otamendi sem verði í treyju númer sex á Old Trafford í haust því það má telja fullvíst að Jonny Evans verði ekki í henni. Líklegt má telja að annað hvort Smalling eða Jones fái líka að fara.

Hægri bakvörður

Það verður keyptur hægri bakvörður.

 • Nathaniel Clyne (40%)
 • Dani Alves (25%)
 • Einhver annar (35%)

Ekki hugmynd hér. Clyne er síorðaður við liðið og umræðan um Dani Alves neitar að deyja. Alves yrði aldrei annað en timabundin lausn og ég vil ekki sjá hann. Nema hugsanlega ef það er til að geyma Clyne hjá Southampton í eitt ár. Clyne átti mjög góðan leik með Englandi í gær og mun örugglega fara frá Southampton fyrr en síðar.

Miðjutröll

Það verður keyptur sterkur miðjumaður

 • Paul Pogba (30%)
 • Felipe Anderson (10%)
 • William Carvalho (10%)
 • Kevin Strootman (0%)
 • Einhver annar (50%)

Það er erfitt að sjá hvað er að gerast hér. United hefur örugglega áhuga á Pogba og Felipe Anderson og Calvalho eru leikmenn sem er ekki verra að hafa í bakhöndinni.  Ef Ángel di María fer til Parísar, sem er ekki útilokað þó nýjustu fréttir hermi að United vilji fyrir alla muni halda honum, þá væri hugmynd að fá leikmann á móti. Síðan er hægt að nefna nöfn nær endalaust, Vidal og Gündogan eru kannske tveir af þeim sem eru með líkur yfir núlli en að ætla að sjá eitthvað meira er mikill vandi.

Kantmenn og sóknarmiðja

Ef 4-3-3 verður að veruleika þurfum við meira á köntunum

 • Memphis Depay (95%)

Ég ætla að ganga svo langt að segja að það þarf einhvers konar öfugt kraftaverk, eða meiðsli til að Memphis Depay verði ekki leikmaður Manchester United næsta tímabil.

 • Gareth Bale (10%)
 • Lucas Moura (2%)
 • Cristiano Ronaldo (1%)

Nú erum við komin út í vitleysuna. Gareth greyið Bale er í einhverju tjóni hjá Real og ef hann fer frá Real er Manchester nær eini mögulegi áfangastaðurinn, United eða Chelsea. Paul Scholes líst vel á að Bale komi til United og sama má eflaust segja um flestalla stuðningsmenn.

Lucas Moura væri einn af fáum leikmönnum sem ég myndi vilja sjá koma frá PSG fyrir Di María. Við fengum hann ekki á sínum tíma en hann hefur ekkert versnað.

Og líkurnar á að Ronaldo komi hækkuðu úr 0,49% í 0,51% eftir að hann hefur átt í smá basli með Bale. En 1 á móti 200 er samt einn á móti 200.

Framherjar

Ég fór yfir framherjamöguleikana í síðasta mánuði og það hefur eitt breyst síðan þá. 4-3-3 er orðið Leikkerfið með stóru L-i. Og það sem það hefur í för með sér að það er aðeins einn ekta framherji inni á vellinum í einu. Og sá framherji heitir nú og mun heita næstu árin Wayne Rooney.

Hvað þýðir það? Jú, við erum með of mikið af toppframherjum, sérstaklega þegar litið er til þess að tveir af þeim hafa ekki verið svipur hjá sjón. Þess vegna munu bæði Robin van Persie og Falcao fara frá Manchester United í sumar.

 • Harry Kane (5%)
 • Paulo Dybala (2%)
 • Mauro Icardi (2%)
 • Danny Ings (5%)
 • Alexandre Lacazette (2%)
 • Karim Benzema (2%)
 • Edinson Cavani (10%)

Eini maðurinn sem er líklegri en aðrir hér eru Cavani sem kemur ef Di María fer til PSG og uppfyllir Galácticos drauma Ed Woodward. Af þessum mönnum vil ég langhelst sjá Harry Kane koma inn. Ef Falcao og Van Persie fara báðir þá er ólíklegt að Wilson fari á lán jafnvel þó einn leikmaður komi inn, en við munum samt þurfa þrjá sentera til að berjast um þetta eina sæti framherja sem 4-3-3 kerfið býður upp á. Það er hægt að vera svolítið spenntur fyrir því hvað gerist hér

Eigum við að leika okkur smá?

De Gea
Shaw
Rojo
Hummels
Clyne
Herrera
Carrick
Pogba
Depay
Mata
Rooney

Á bekknum: Valdes, Jones, Valencia, Fellaini, Di María,  Januzaj, Kane.

Vill einhver kvarta undan þessu liði? Benda á veiku punktana?

Verða þessi pilta

Verða þessi piltar allir hjá United næsta vetur? Mér sýnist þeir bara nokkuðánægðir með tilhugsunina.

En hvað sem öðru líður ætla ég að halda því stíft fram að United verði búið að ganga frá leikmannakaupum sínum fljótlega eftir að glugginn opnar. Það er búið að tala við alla þá sem þarf að tala við og ganga úr skugga um hverjir hafa áhuga og hverjir ekki og afgangurinn snýst um að ganga frá upphæðum við söluliðið. Og ég ætla að halda því fram að ef United kaupir fjóra stjörnuleikmenn þá eru í það minnsta þrír af þeim nefndir í þessum pósti.

Djöfullegt lesefni: 2015:10

skrifaði þann 24. mars, 2015

Henry Winter, blaðamaður Telegraph fékk að setjast niður með Louis van Gaal í síðustu viku og úr varð þetta skemmtilega viðtal sem veitir góða innsýn inn í þankagang Van Gaal.

Ef maður skoðar svo þetta viðtal og tvær greinar sem hafa áður birst í þessum lesefnispóstum, þessa takísku yfirferð og þessa yfirferð yfir feril Louis van Gaal, fær maður ansi hreint góða heildarmynd af Hollendingnum okkar og hvað hann sé að byggja upp hjá Manchester United.

United gegn Liverpool

Allskonar

Leikmannaslúður

Lag vikunnar

Strapping Young Lad – „Love“

Mánudagspælingar 2015:02

skrifaði þann 23. mars, 2015

Maður er ennþá að koma sér niður á jörðina eftir leikinn á Anfield í gær. Andrýmið á milli 4. og 5. sætis er orðið ansi þægilegt fyrir næstu umferð þar sem við tökum á móti Aston Villa á meðan Liverpool og Arsenal mætast innbyrðis á Emirates-vellinum. Að mæta á þennan geysierfiða útivöll þar sem aflinn undanfarin ár hefur verið af skornum skammti og fara heim með þrjú stig er frábært. Að gera það eins og liðið gerði í gær er einfaldlega stórkostlegt.

Louis van Gaal tók Brendan Rodgers í kennslustund og las leikplan Liverpool-manna eins og opna bók. Eftir fimm mínútna kafla í byrjun leiks lauk komst Liverpool-liðið einfaldlega ekki að. Líkt og leikmenn Tottenham fengu að kynnast fyrir rúmri viku fengu leikmenn Liverpool ekkert rúm til þess að athafna sig. Líkt og fyrir viku síðan geta menn sagt að andstæðingur United hafi átt slakan dag en þeir sem segja það opinbera ekkert nema fávisku sína. Leikmenn Liverpool gátu lítið í leiknum í gær einfaldlega vegna þess að Manchester United leyfði þeim það ekki. Það var ekki fyrr en að leikmenn United slökuðu aðeins á pressunni að Liverpool komst aðeins inn í leikinn aftur í seinni hálfleik. Halda áfram að lesa

Liverpool 1:2 Manchester United

skrifaði þann 22. mars, 2015

Öldungis frábær sigur á Anfield í höfn!

Frammistaða liðsins gegn Tottenham um síðustu helgi var nægileg til þess að Louis van Gaal ákvað að breyta ekki liðinu.

1
De Gea
17
Blind
4
Jones
12
Smalling
25
Valencia
21
Herrera
16
Carrick
18
Young
31
Fellaini
8
Mata
10
Rooney

Di María kom á bekkinn eftir bannið og Rojo eftir meiðsli.

Varamenn:  Valdes, Rafael, Rojo, Di Maria, Januzaj, A Pereira, Falcao.

Lið Liverpool var líka eins og við var búist:

Mignolet
Sakho
Sktel
Can
Moreno
Allen
Henderson
Sterling
Coutinho
Lallana
Sturridge

Það er eins gott að taka það fram að ef fyrri hálfleikurinn gegn Tottenham var sá besti sem hafði sést í einhver ár frá United, þá var fyrri hálfleikurinn í dag enn betri. United hreinlega át Liverpool. Halda áfram að lesa