40 tímar í leik

skrifaði þann 28. júlí, 2015

Ónefndur ritstjórnarmeðlimur var aðeins of snöggur á sér og kom með upphitun fyrir leikinn gegn PSG sem verður aðfaranótt fimmtudags.

Til að gera okkur ekki öll viðþolslaus úr spenningi var greinin látin hverfa og þau sem vöknuðu seint þurfa að bíða.

Annars er það helst að frétta að Marcos Rojo klúðraði vegabréfsáritunarmálum og kemst ekki til Bandaríkjanna, enginn veit hvar Ángel di María er og United er búið að hafna 28,5 milljón punda boði í hann, Pedro málið er enn málið, Ramos er ekki búinn að skrifa undir samning, og

Hver er Sergio Romero

skrifaði þann 27. júlí, 2015

Við hér hjá Rauðu Djöflunum höldum áfram að kynna nýja leikmenn liðsins til sögunnar. Nú er það nýi markmaðurinn okkar, Sergio Romero sem kemur til liðsins á frjálsri sölu. Hann mun eflaust spila minna hlutverk en hinir fjórir leikmennirnir sem hafa nú þegar gengið til liðs við félagið en það stefnir í að Romero muni vera varamarkmaður fyrir David De Gea, allavega í vetur.

Sergio Romero er fæddur 22. febrúar árið 1987 í Argentínu. Það gerir hann 28 ára í dag, sem er nú frekar ungt miðað við stöðuna sem hann spilar. Romero er uppalinn í Argentínu og spilaði fimm leiki fyrir Racing Club áður en hann var keyptur til AZ Alkmaar. Við stjórnvölin hjá AZ Alkmaar á þeim tíma var Louis van Gaal og spilar það líklega hvað stærstan þátt í að Sergio Romero er orðinn leikmaður Manchester United í dag. Hann þekkir Van Gaal, hann þekkir hugmyndafræðina og leikstílinn ásamt því sem hann virðist vera nokkuð sáttur með að sitja á bekknum.

Eftir fjögurra ára dvöl í Hollandi þar sem AZ Alkmaar vann meðal annars hollensku deildina og spilaði í riðlakeppni Meistarardeildar Evrópu þá fór Romero til Sampdoria á Ítalíu árið 2011. Það má deila um hversu gott skref á ferlinum það var en Sampdoria voru þá í Serie B. Það tímabil endaði Sampdoria í sjötta sæti deildarinnar en komst upp um deild eftir umspil. Eftir fínt tímabil með Sampdoria í Serie A árið eftir ákvað Romero að fara á lán til Monaco. Þar spilaði hann aðeins þrjá leiki og þegar hann snéri aftur til Sampdoria á síðasta tímabili hélt bekkjarsetan áfram. Hann var á eftir Emiliano Viviano í goggunarröðinni, aðdáendur enska boltans gætu kannast við kauða en hann sat á varamannbekk Arsenal tímabilið 2013-2014. Þrátt fyrir bekkjarsetu undanfarin tvö tímabil þá hefur Romero samt sem áður verið aðalmarkmaður Argentíska landsliðsins á þeim tíma og spilað yfir 60 leiki fyrir þjóð sína frá því að hann spilaði sinn fyrsta landsleik 2009.

Á HM í fyrra var Romero einn af bestu leikmönnum Argentínu  Hann fékk reyndar á sig þrjú mörk í riðlinum gegn Bosníu Herzegóvínu og Nígeríu en þessi varsla hans gegn Íran

leiddi til þessa tísts hér

Hann hélt síðan hreinu gegn Sviss og Belgíu þannig að eitt mark nægði Argentínu til sigurs í þeim leikjum og svo líka gegn Hollandi Van Gaal. Það kom Argentínu í vítakeppni og þá varði Romero frá Vlaar og Sneijder og kom Argentínu í úrslit, þar sem mark Mario Götze nægði Þjóðverjum til sigurs.

Sem fyrr segir dugðu þessar hetjudáðir hans þó ekki til að koma honum í lið hjá Sampdoria síðasta vetur.

Í Sergio Romero er Manchester United að fá ágætlega reynslumikinn markmann sem Van Gaal virðist treysta. Að því sögðu þá treysti Van Gaal líka Victor Valdes á svipuðum tíma í fyrra. Að öllum líkindum mun Romero verja tréverkið mest megnis af vetrinum og ef til vill spila með U-21 liðinu til að viðhalda leikformi. Hvað þetta þýðir fyrir hina markmenn liðsins veit ég ekki en fyrir voru þeir David De Gea, Anders Lindegaard, Sam Johnstone og auðvitað Victor Valdes. Það má þó reikna með því að Victor Valdes verði seldur hvað úr hverju og líklega munu Lindegaard eða Johnstone einnig yfirgefa félagið í þessum félagaskiptaglugga. Þegar það er komið á hreint munum við renna lauflétt yfir markmannsmálin hjá félaginu.

Sergio Romero genginn til liðs við United – Staðfest!

skrifaði þann 27. júlí, 2015

Núna rétt í þessu var Manchester United að tilkynna á Twitter síðu félagsins að Sergio Romero væri genginn til liðs við félagið.

Sergio Romero kannast flestir við en hann hefur spilað 62 landsleiki fyrir Argentínu síðan 2009. Hann er því þriðji argentíski leikmaðurinn sem Louis van Gaal fær til liðsins. Munurinn á Romero á hinum tveimur, Marcos Rojo og Angel Di Maria er sá að Van Gaal og Romero unnu saman hjá AZ Alkmaar í Hollandi á árunum 2007-2009. Romero fór svo frá Hollandi til Sampdoria á Ítalíu árið 2011 þar sem hann hefur verið þangað til hann varð samningslaus í sumar, með stoppi í Frakklandi tímabilið 2013-2014 en hann fór á láni til Monaco það tímabil.

Sergio Romero er aðeins 28 ára gamall en kemur hann að öllum líkindum til með að vera varamarkmaður fyrir David De Gea í vetur. Hvað gerist eftir það veit enginn en Romero skrifaði undir þriggja ára samning. Þetta þýðir að framtíð Anders Lindegaard er líklega endanlega ráðin en hann hefur trúlega lítinn áhuga á að vera þriðji markmaður liðsins annar árið í röð. Ennig þýðir þetta að Victor Valdes á enga framtíð fyrir sér hjá félaginu og verður seldur hvað á hverju.

Van Gaal hafði þetta að segja eftir undirskrift Romero; „Sergio is very talented. He will be a great addition and I’m looking forward to working with him.“

Sergio Romero er fimmti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Manchester United í sumar en hinir eru eins og flestir vita; Memphis Depay, Matteo Darmian, Morgan Schneiderlin og Bastian Schweinsteiger.

Manchester United 3:1 Barcelona

skrifaði þann 25. júlí, 2015

Það er aldrei leiðinlegt að vinna Barcelona!

Liðið sem byrjaði var svona

De Gea
Shaw
Blind
Jones
Darmian
Carrick
Schneiderlin
Young
Memphis
Mata
Rooney

David de Gea kom inn í byrjunarliðið en annars var það óbreytt frá hinum leikjunum á undirbúningstímabilinu.

United var ekki lengi að koma sér yfir. Eftir ágæta sókn United  á vann liðið horn á 7. mínútu. Það var mjög gaman að sjá Ashley Young skrúfa alveg yndislega bolta inn í teiginn þar sem Wayne Rooney var alveg einn og lítið mál fyrir hann að skalla boltann í netið.

 

Eins og við var að búast voru Börsungur meira með boltann. Að mestu leyti var þó varnarlínan okkar með hlutina á hreinu. Darmian, Jones, Blind og Shaw réðu við flest það sem Barcelona-menn voru að reyna að gera og það sem slapp í gegn var David de Gea með á hreinu. Efasemdir hafa verið uppi um Daley Blind sem miðvörð en það verður að segjast eins og er að það má fara að efast um þessar efasemdir því hann stóð sig einna best af varnarmönnum liðsins í þessum leik.

Sóknartilburðir United voru á köflum nokkuð liprir og þar fóru Mata og Young fremstir í flokki. Ashley Young var óheppinn að skora ekki eftir frábæran undirbúning frá Mata og Rooney eða Young hefði getað skorað eftir mikinn darraðadans í teignum. Heilt yfir ágæt frammistaða í fyrri hálfleik.

Eins og gefið var út fyrir leik tók byrjunarliðið 60 mínútur og á 60. mínútu gerði LvG 11 breytingar. Liðið leit þá svona út:

Johnstone
Blackett
McNair
Smalling
Valencia
Herrera
Fellaini
Januzaj
Pereira
Lingard
Wilson

Valencia birtist í sínum fyrsta leik og athygli vakti að Evans spilaði ekki en að Fellaini kom inn vegna meiðsla Schweinsteiger.

Kjúklingarnir voru ekki lengi að stimpla sig inn. Eftir örfáar mínútur höfðu Pereira, Wilson, Blackett og Lingard komið okkur í 2-0. Sannkallað akademíumark þegar Pereira fann Wilson á kantinum, Blackett tók framhjáhlaupið og sýndi mikla yfirvegun í teignum áður en kom boltanum á Lingard sem var einn og óvaldaður í teignum. Frábært mark.

 

Hálfleikurinn spilaðist að mörgu leyti svipað og sá fyrri. Barcelona var með boltann, United sýndi laglega varnartilburði og sýndu lipra sóknartilburði. Rafinha minnkaði muninn í 2-1 með virkilega góðu marki áður en að Januzaj innsiglaði sigurinn 3-1.

 

Heilt yfir góð frammistaða, sérstaklega varnarlega. Það var einnig mjög gaman að sjá hvað ungu leikmennirnir komu mjög vel inn í þetta og voru óhræddir. Aftur er liðið að standa sig vel á undirbúningstímabilinu og undir stjórn Louis van Gaal er liðið taplaust í æfingaleikjum. En líkt og Louis van Gaal benti á eftir leikinn skipta úrslit þessara leikja engu máli. Það eina sem skiptir máli í augnablikinu er leikurinn gegn Tottenham.

Nokkur tíst

Veislan heldur áfram

Barcelona í kvöld

skrifaði þann 25. júlí, 2015

ÍManchester United - Barcelona - Levi's kvöld kl. 20.05 að íslenskum tíma tekur United á móti Barcelona á Levi’s vellinum í Santa Clara, nýjum heimavelli San Francisco 49ers. Eftir tiltölulega létta leiki í þessari ferð er kominn tími að takast á við aðeins erfiðara verkefni.

Louis van Gaal og Wayne Rooney voru með blaðamannafund í gærkvöld þar sem fátt merkilegt kom fram utan það að Bastian Schweinsteiger er lítilsháttar meiddur og Van Gaal tekur ekki séns á honum í kvöld. Að öðru leyti eru allir heilir. Þeir Ángel di María, Marcos Rojo og Javier Hernandez koma allir til San Francisco í dag en auðvitað of seint til að vera með í leiknum. Síðan var Van Gaal óvenju skýr með það að vilja ekki tjá sig um leikmannakaup,

Van Gaal gaf það út að í leiknum í kvöld væri kominn tími á að sjá hvernig liðið ætti að líta út gegn Tottenham eftir tvær vikur. Byrjunarliðið fær 60 mínútur, en ekki 45 eins og hingað til og hann ætlast til þess að það standi sig.

De Gea
Shaw
Blind
Jones
Darmian
Schneiderlin
Carrick
Young
Memphis
Mata
Rooney

Þessi hópur útileikmanna var að æfa saman á æfingu í gær og er því mjög líklegt að þetta sé byrjunarliðið, og þá nákvæmlega eins og í síðustu leikjum. David de Gea fleygði sér til og frá á æfingu í gær og er því orðinn góður af þessum bakmeiðslum sem hann vildi meina að væru að hrjá hann. Valencia ætti að vera orðinn góður líka. Miðvarðarspurningin er nokkuð opin, og þar sem við fáum Rojo ekki inn fyrr en síðar og allt bendir til að einhver annar miðvörður komi til okkar þá segir það ekki allt um hverjir verða miðverðirnir í vetur. Darmian hefur staðið sig vel og Valencia er að koma til baka frá meiðslum þannig að orð Van Gaal um að Darmian sé á eftir Valencia í röðinni munu ekki gilda í kvöld. Schweinsteiger myndi líklega komið inn ef hann væri ekki meiddur.

Barcelona er búið að leika einn leik á æfingaferðalaginu, unnu LA Galaxy 2-1. Þeir verða væntanlega aðeins meira í innáskiptingum og eru Messi- og Neymar-lausir vegna Copa América en auðvitað með gríðarsterkt lið. Einhverjir eru að gera því skóna að Arda Turan og Aleix Vidal geti komið við sögu, þar sem þeir geta spilað vináttuleiki þó að kaupbannið á Barcelona geri það að verkum að þeir geta ekki spilað alvöruleiki með liðinu fyrr en á næsta ári.

Einna forvitnilegast verður að sjá hvort Pedro verður látinn spila… og þá með hvoru liðinu! En án gríns, þá virðast auknar líkur á að við ætlum okkur að fá hann til okkar og ef hann spilar ekki þá munu þær sögur aukast. Síðan ef myndavélarnar spotta Sergio Romero í stúkunni eins og sögusagnir eru um, þá getum við alveg bókað að hann sé að ganga til liðs við United.

Þessi leikur er öllu meira spennandi fyrirfram en síðustu leikir og tímasetningin alveg prýðileg. Helmingur ritstjórnar ætlar að fleygja dauðum dýrum á grill og horfa á leikinn og hver veit nema í kjölfarið fylgi podkast.

Manchester United 3:0 Barcelona

Það er síðan ekki úr vegi að hita upp fyrir leikinn með að horfa á einhvern besta leik á Old Trafford fyrr og síðar, leik United og Barcelona í Evrópukeppni bikarhafa vorið 1984. Ef þú hefur ekki séð þennan leik þá er þetta skylduáhorf!