Leicester City – Old Trafford – Laugardagur.

skrifaði þann 30. janúar, 2015

Við eigum harma að hefna gegn Leicester sem eru að koma á Old Trafford á morgun. Við máttum þola alveg sérstaklega óþolandi tap gegn þeim í fyrri leik þessara liðaLeikurinn var spilaður 21. september og var annar leikurinn sem liðið spilaði eftir lokun sumargluggans. Hinn leikurinn var gegn QPR þar sem liðið sundurspilaði máttlaust lið QPR og vann 4-0. Eftir brösuga byrjun á tímabilinu vonaði maður því að framtíðin yrði eins og QPR-leikurinn. Öll sumarkaupin komin í hús, allt klárt.

Eftir klukkutíma leik gegn Leicester litu hlutirnir mjög vel út. United var 1-3 yfir og var á köflum að spila alveg frábæran bolta. Markið hjá Ángel di Maria var auðvitað alveg stórglæsilegt og ef það hefði verið árið 2012 hefði Robin van Persie auðveldlega verið kominn með þrennu. Ég var svo ánægður með spilamennsku liðsins eftir um klukkutíma leik og bjartsýnn á framhaldið að ég asnaðist til þess að láta þetta út úr mér:

Eins og við má búast við þetta stórkostlega jinx mitt hrundi allt hjá United. Dómarinn kom Leicester-mönnum aftur inn í þetta með því að gefa þeim ódýrt víti 5 sekúndum eftir að James Vardy, sem leit út eins og heimsklassaleikmaður á þessum síðasta hálftíma, braut á Rafael. Leicester skoraði úr vítinu og eftir það þurftu andstæðingarnir enga hjálp frá dómurunum, liðið okkar sá alveg um það. Mínútu eftir vítið jafnaði Leicester og við þekkjum framhaldið. Þetta endaði 5-3. Gegn Leicester. Þess má geta að Leicester hafði skorað 4 mörk í leikjunum á undan og í næstu 8 leikjum skoraði Leicester hvað mörg mörk? Jú, auðvitað 4 mörk. Hvernig í andskotanum fórum við eiginlega að því að fá á okkur 5 mörk gegn þessu liði? Þetta tap situr ennþá svo í mér að í hvert sinn sem ég lít á töfluna bæti ég þessum þremur töpuðu stigum úr þessum leik við töfluna. Ég verð bara pirraður á því að rifja þetta upp.

Eftir að hafa náð að skilja okkur aðeins frá þessum Meistaradeildarsætabaráttupakka með 6 leika sigurhrinu fyrir jól erum við aftur komin í bullandi baráttu um 3-4. sæti. Jafnteflahrinan um jólin, tapið gegn Southampton og ágætis form hjá liðunum í kring hefur gert það að verkum. Taflan lítur svona út:

deild29jan15

Þetta er nokkuð þéttur pakki og til þess að ná markmiðum þessa tímabils megum við ekki misstíga okkur mikið. Þegar við vorum að velta fyrir okkur þessum örlitlu möguleikum sem við höfðum á Meistaradeildarsæti undir lok síðasta tímabilsins útbjó ég þessa töflu:

Við þurfum líklegast rúmlega 70 stig til þess að tryggja a.m.k. 4. sætið og því er ekkert brjálað svigrúm í þessum 16 leikjum sem eftir eru. Það eru 48 stig í pottinum og ég myndi halda að við þyrftum svona 38 af þeim til þess að vera alveg örugg með að spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Við þurfum því að fara að setja saman svipaða sigurhrinu og við sáum fyrir jól. Næstu 6 umferðir eru lykilinn að góðum árangri á tímabilinu. Hér eru næstu 6 umferðir hjá liðunum sem eru að berjast um 3-4. sæti:

 

Á pappír eigum við léttustu umferðirnar framundan. Við mætum einungis West Ham af þessum liðum í kringum okkar á meðan t.d. Liverpool, Spurs og West Ham eiga tiltölulega erfiða dagskrá framundan. Liðin í kringum okkur eru því að fara að taka stig af hverju öðru á meðan við sleppum að mestu við það. Við þetta bætist að á sama tímabili spila Arsenal, Liverpool og Spurs í Meistaradeild og Evrópudeild auk þess sem að Liverpool og Arsenal eru ennþá í bikarkeppninni auk okkar og Tottenham spilar úrslitaleik deildarkeppninnar. Þetta er kjörið tækifæri til þess að gera eins og fyrir jól og skilja okkur aðeins frá pakkanum með því að fara á góða sigurtörn.

Það er líka eiginlega eins gott að liðið geri það. Þessir 6 leikir eru gegn liðum sem í venjulegu árferði ættum við alltaf að ná í meirihluta stiganna. En eftir þessa hrinu bíður rosaleg prófraun á Louis van Gaal og félaga. Í næstu 6 leikjum mætum við Spurs, Liverpool, Villa, City, Chelsea og Everton. Ef við ætlum okkur eitthvað á þessu tímabili verðum við einfaldlega að láta til okkur taka í næstu 6 leikjum. Miðað við hvað við megum tapa fáum stigum í þeim leikjum sem eftir er væri ekki gott að þurfa að vinna upp stigamun á önnur lið í þessu rosalegu leikjadagskrá sem bíður okkar eftir næstu 6 leiki.

Fyrsta skrefið er því sigur gegn Leicester.

Leicester er á botni deildarinnar með 17 stig eftir 22 leiki. Þeir hafa skorað 20 mörk sem þýðir að fjórðungur marka þeirra á tímabilinu kom gegn Manchester United!  Eftir sigurinn gegn United fór liðið í svakalega dýfu sem það hefur ekki náð að lyfta sér úr. Þetta var reyndar svo harkaleg dýfa að liðið vann ekki leik í deildinni fyrr en 28. desember. Hvernig í andskotanum töpuðum við gegn þessu liði!? Ég vil fá þrjú stigin okkar aftur. Merkilegt nokk þá hafa Leicester-menn staðið skítsæmilega í stærri liðum deildarinnar. Gegn Chelsea í byrjun tímabilins voru þeir óheppnir að tapa og þeir hafa náð jafnteflum gegn Arsenal og Liverpool auk þess að standa vel í City-mönnum og slá Tottenham út úr bikarnum fyrir skömmu.

Þeirra besti leikmaður á tímabilinu, Alsír-maðurinn Riyad Mahrez, verður ekki með enda með Alsír í bullandi baráttu í Afríkukeppninni. Í Leicester er alveg haugur af fyrrum United-mönnum. Ritchie de Laet spilar alla leiki og hefur staðið uppúr á þessu tímabili hjá Leicester. Aðrir leikmenn eru Matty James, Danny Simpson, Danny Drinkwater og Tom Lawrence og spila þeir allir mismikið. Nick Powell var þarna á láni en fékk engin tækifæri og var því sem betur var kallaður heim.

James Vardy hefur ekki gert neitt af viti síðan hann kláraði United í september og því reikna ég fastlega með að hann fari aftur í gang á morgun. Leicester hefur styrkt sig í janúar, fengið til liðs við sig Mark Schwarzer eftir að Kasper Schmeichel meiddist illa auk þess sem að þeir eiga ef til vill athyglisverðustu kaup þessa afskaplega slappa janúarglugga. Þeir nældu sér í einn heitasta framherja Evrópu beint fyrir framan nefið á Chelsea. Andrej Kramaric kom frá Rijeka í Króatíu þar sem hann var aldeilis að finna netmöskvana með meira en mark í leik. Áhugasamir geta lesið um þennan unga Króata hér. Hann á nú að lífga við ansi dapra framlínu Leicester. Hann kom inn á í síðasta leik Leicester en ég geri fastlega ráð fyrir að hann fái fyrsta tækifærið í byrjunarliðinu á Old Trafford. Augljóslega hæfileikaríkur framherji en við skulum vona að hann bíði aðeins með að finna sig í ensku deildinni.

Hjá okkar mönnum veit ég ekki betur en allir séu heilir utan Smalling, Evans og Young. Ég trúi eiginlega ekki öðru en að Louis van Gaal negli í demantinn gegn Leicester enda ættu þeir ekki að valda okkur miklum vandræðum sóknarlega. Leicester-menn virðast þó stíga upp um gír gegn stærri liðunum. Við eigum samt alltaf að sigra þetta blessaða lið og það er alveg víst að við munum fá færi til þess, við þurfum bara að nýta þau en færanýtingin hefur verið döpur frá því að við unnum góða sigra gegn Newcastle og Liverpool á heimavelli.

Verkefnið á morgun er því þrjú stig og ná að hefja næstu sigurhrinu. Liðið verður svona, allt annað er bara vitleysa, VITLEYSA SEGI ÉG!

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
4
Jones
25
Valencia
7
Di Maria
17
Blind
21
Herrera
8
Mata
10
Rooney
9
Falcao

Spái baráttusigri og að við skorum a.m.k. eitt mark eftir hornspyrnu frá Phil Jones.

Uppfært 13:31. Louis Van Gaal tilkynnti á blaðamanna fundi núna rétt í þessu að Michael Carrick væri að glíma við vöðvameiðsli og er frá næstu fjórar vikurnar. Einnig kom fram að Darren Fletcher sé staddur í London að tala við West Ham United svo það má reikna með því að Daley Blind komi inn í hlutverk Carrick´s á miðjunni í þessum leik. Að lokum virðist vera sem samningi Anderson hafi verið rift og á hann að vera staddur í Brasilíu sem stendur að semja við nýtt lið.

Djöfullegt lesefni: 2015:04

skrifaði þann 28. janúar, 2015

Lespakki vikunnar kominn í hús og inniheldur hann mikið af slúðri í þetta skiptið…

Lesefni vikunnar:

Lag vikunnar:

Soen – „Tabula Rasa“

Besta byrjunarliðið – Tryggvi Páll

skrifaði þann 26. janúar, 2015

Í síðustu leikjum Manchester United hefur Louis van Gaal stillt upp í 3-4-1-2 uppstillingu sem hefur farið mikið í taugarnar á stuðningsmönnum United. Við hér á ritstjórninni munum á næstu dögum birta okkar skoðanir á því hvernig best væri að stilla upp liðinu, við vitum jú auðvitað miklu betur en Louis van Gaal!

Fyrirkomulagið er þannig að við birtum tvo byrjunarlið, eitt sem á að rúlla upp QPR á heimavelli og annað sem á að ná í sigur á Stamford Bridge gegn Chelsea. Runólfur birti sína færslu á mánudaginn. Á þriðjudaginn kom Bjössi með sitt álit, á miðvikudaginn lét Spaki maðurinn ljós sitt skína, á fimmtudaginn birti Sigurjón sitt óskabyrjunarlið. Maggi kom með sínar hugmyndir á föstudaginn og nú er komið að Tryggva Páli:

Áður en ég fer yfir mínar skoðanir á því hvernig best sé að stilla upp langar mig að fara aðeins yfir afhverju ég þoli ekki 3-4-1-2 uppstillinguna.

Eins og flestir er ég ekki mikill aðdáandi 3-4-1-2 uppstillingarinnar sem við höfum fengið að njóta undarfarnar vikur. Það er þó ekki hægt að neita því að hún veitir okkur ákveðið öryggi varnarlega enda er liðið ekki búið að vera að fá á sig mikið af mörkum undanfarið. Liðið spilaði 9 leiki í röð með þessa uppstillingu og fékk aðeins á sig 5 mörk og aldrei meira en eitt mark í leik. Þetta hefur gert það að verkum að eftir brösuga byrjun okkar manna eru nú aðeins tvö lið búin að fá á sig færri mörk í deildinni, Southampton og Chelsea.

Mörkin hafa hinsvegar látið á sér standa. Við skoruðum 3 gegn Liverpool og Newcastle og 2 gegn Southampton (úr ein færunum sem við fengum) en annars er liðið bara að skora 0-1 mark í leik. Ég tel ekki mörkin sem við skoruðum gegn QPR og Yeovil með enda komu þau eftir að Louis van Gaal breytti um uppstillingu í miðjum leik. Sóknarlega erum við því frekar daprir. Nei, við erum bara ógeðslega lélegir. Óneitanlega mjög sérstakt þar sem lið með leikmenn á borð við Mata, Rooney, Di Maria og Falcao ætti að vera að skora 2-3 mörk í leik.

Þessi fræga leikspeki sem Louis van Gaal er alltaf að tala um er svolítið á huldu en eitt er augljóst, miðverðirnir eiga að fá boltann frá markmanninum og þeir eiga að hefja sóknarleikinn. Þetta sjáum við í hverjum einasta leik. Miðverðirnir okkar þurfa því ekki bara að vera góðir varnarlega (sem þeir eru tæplega) heldur einnig að vera góðir sendingarmenn (sem þeir eru klárlega ekki). Hin gríðarlegu meiðsli í varnarlínunni hjálpa vissulega ekki til og mér þætti gaman að sjá stöðuna í deildinni ef liðin í kringum okkur hefðu þurft að glíma við svipaða meiðslatíðni í varnarlínunni. En það er sama þó að við kaupum Mats Hummels eða látum eitthvað nobody úr unglingaliðinu spila, þeir eiga alltaf að fá boltann og spila honum frá sér. Þetta er krafan, óháð því hvort að við spilum með tvo miðverði eða þrjá.

Þá komum við að því sem ég tel vera helst gallann við leikkerfið 3-4-1-2: Hún leggur of mikla ábyrgð á herðar veikustu leikmanna okkar á kostnað þeirra sterkustu.  

Þegar liðið spilar 3-4-1-2 spilum við því með þrjá menn í  stað tveggja í þeirri stöðu þar sem við erum verst settir. Þá er einu minna pláss fyrir miðjumann og það er skortur á miðjuspili sem er helsta vandamál United sóknarlega. Andstæðingarnir pressa miðjumenn og sóknarmenn okkar þegar varnarmennirnir reyna að leita að sendingarmöguleika þannig að það er lítið í boði. Þessvegna sjáum við miðverðina yfirleitt annaðhvort spila boltanum á milli sín eða negla fram á við upp á von og óvon.

Tölfræðin styður þetta. Hlutfall sendinga fram á við (forward passes) er 29.4% sem er það lægsta í deildinni. United á flestar sendinga til hliðar (sideways passes) inni í eigin vallarhelmingi í deildinni, 3268 stykki. United er  í 2. sæti þegar kemur að sendingum til baka (backward passes) inni í eigin vallarhelmingi eða 1227.

Í þau fáu skipti sem miðverðirnir finna miðjumann fá þeir yfirleitt boltann aftur vegna þess að með þrjá miðverði er alltaf einn laus. Þeir bjóða upp á einfalda og áhættulausa sendingarmöguleika. Skapandi miðjumennirnir okkar fá boltann sjaldan í hættulegum stöðum sem verður til þess að sóknarmenn okkar komast mun sjaldnar í hættuleg færi en ella. Miðverðirnir okkar, langveikustu leikmennirnir okkar eru því skyndilega nánast orðnir aðalmennirnir í liðinu.

Ef við erum veikastir í miðverðinum er vængbakvarðastaðan án efa sú næstveikasta. Þar hafa Ashley Young og Antonio Valencia ráðið ríkjum enda Rafael og Luke Shaw verið mikið frá vegna meiðsla. Það mæðir talsvert á vængbakvarðastöðunni, ekki síst vegna þess að leikmaðurinn er einn með heilan væng. Eins og andstæðingar okkar spila eru vængbakverðirnir oft galopnir með heila flugbraut á vængnum fyrir framan sig. Miðjan er pressuð þétt sem skapar pláss á vængjunum. Það er augljóslega lagt upp með að nýta sér þetta pláss, hversu oft höfum við ekki séð við t.d. Wayne Rooney negla í 30 metra skiptingu á galopinn Antonio Valencia?

Gallinn er einfaldlega sá að þessir leikmenn eru ekki í þeim gæðaflokki að geta haldið úti byrjunarliðssæti helgi eftir helgi. Antonio Valencia var eitt sinn alveg frábær en sá maður hefur ekki látið sjá sig í langan tíma. Hann fær boltann oft í verulega fínum stöðum en er lengi að athafna sig á ögurstundu. Framherjarnir er löngu búnir að klára hlaupin sín þegar Tony V dregur eina bragðið sitt upp úr hattinum: sparka boltanum áfram og dúndra eins fast og hann getur inn í teig. Þetta gerist oft í leik og með þesu klúðrar hann oft verulega fínum sóknarstöðum.

Það verður að viðurkennast að Ashley Young hefur komið svolítið á óvart á tímabilinu og það má alveg hrósa honum fyrir það enda var maður alveg búinn að afskrifa hann. Það breytir því þó ekki að hann er ekki og var líklega aldrei í þeim gæðaflokki sem við viljum sjá spila fyrir United. Hann, líkt og Valencia, hefur eitt bragð. Hann er réttfættur en spilar vinstra megin og þarf því að koma boltanum á hægri löppinna áður en hann kemur boltanum fyrir. Það gerir það að verkum að framherjarnir eru flestir búnir að klára hlaupin sín áður en að Young færir boltann yfir á réttan fót. Young getur alveg notað vinstri löppina eins og við sáum gegn Aston Villa en samt velur hann alltaf að koma boltanum yfir á betri löppina.

Þetta gerir þessa leikmenn alveg einstaklega fyrirsjáanlega og það er auðvelt að verjast þeim ef varnarmennirnir hafa unnið heimavinnuna sína. Þeir eru líka lengi að athafna sig og drepa allt flæði í sóknarleiknum með hægaganginum. Þetta er afskaplega bagalegt. Þetta mikla pláss sem vængbakverðirnir okkar eru að fá í leikjum nýtist því lítið sem ekkert til þess að létta á pressunni á miðjumönnunum okkar eða til þess að skapa hættuleg færi.

Í 3-4-1-2 byrjar allt og endar á miðvörðunum okkar og vængbakvörðunum okkar sem eru okkar langverstu stöður. Eins og ég sagði í upphafi leggur 3-4-1-2 of mikla ábyrgð á herðar veikustu leikmanna okkar á kostnað þeirra sterkustu. Þessir tveir þættir gera það að verkum að uppspil United er hægt og fyrirsjáanlegt.

Þegar liðið stillir upp, hvort sem það er gegn Chelsea eða QPR vil ég að það sé gert með því sjónarmiði að hæfileikar okkar bestu leikmanna fái að njóta sín og að spilið sé bæði hratt og ófyrirsjáanlegt (duh!). Að mínu mati er okkar bestu leikmenn Angel di Maria og Wayne Rooney. Ég vil að þetta séu fyrstu leikmennirnir niður á blað og að leikkerfið snúist um að ná sem mestu út úr þessum leikmönnum.

Í fullkomnum heimi myndi ég vilja sjá einhverja útfærslu af 4-2-3-1/4-5-1 gegn stærri liðunum en ég held að við höfum ekki mannskapinn í það eins og er. Þess vegna myndi ég vilja sjá liðið spila demantinn, hvort sem það er gegn Chelsea eða QPR, munurinn liggur í mannskapnum sem byrjar leikinn:

Gegn QPR:

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
12
Smalling
25
Valencia
7
Di Maria
16
Carrick
21
Herrera
8
Mata
10
Rooney
9
Falcao

Eins og ég sagði áðan snýst þetta um að ná sem mestu út úr bestu leikmönnunum okkar. Ángel di Maria er með flestar stoðsendingar, flestar lykilsendingar, flest framhjáhlaup (dribbles) og flestar stungusendingar allra leikmanna í Manchester United. Hann er lykilmaðurinn liðsins, drifkrafturinn. Þegar hann fer af stað með boltann gerast hlutir. Við höfum séð hann spila á miðjunni, á kantinum og frammi. Þessi framherjatilraun var bara eitthvað grín og gekk ekki upp. Á kantinum er hann þokkalegur en þá fáum við ekki að sjá þessi hlaup hans frá djúpum stöðum á miðjunni sem skapa yfirleitt mikla hættu. Það er betra fyrir hann að fá boltann á miðjunni og hlaupa út á kantana, fremur en að fá hann á köntunum og hlaupa inn. Í demantinum nýtast allar hans bestu hliðar. Hann er vinstra megin á miðjunni og þarf bæði að sinna miðjuskyldum og kantskyldum og getur fengið boltann á miðjunni og keyrt sóknina áfram. Ángel á því að vera á miðjunni og ekkert múður.

Wayne Rooney er að mínu mati miklu betri sem framherji en miðjumaður eins og við þróunin hefur verið undanfarin tímabil. Hann státar af ansi laglegum árangri í markaskorun og er á góðri leið með að verða markahæsti leikmaður í sögu United OG enska landsliðsins. Bjartsýnustu menn gætu jafnvel tekið undir það að hann muni slá markamet Alan Shearer í Úrvalsdeildinni. En bara þeir bjartsýnustu. Það eru til margir miðjumenn betri en MiðjumannaWayne en þeir eru ekki svo margir sem eru betri en FramherjaWayne.

Rooney er svo auðvitað nokkuð alhliða leikmaður, sem er ástæðan fyrir því að hann getur spilað á miðjunni. Þar er sköpunarkraftur hans sem vegur þyngst. Næststoðsendingahæstur og í þriðja sæti yfir lykilsendingar og stungusendingar. Þetta+framherjahæfileikar hans gera hann að stórhættulegum leikmanni ef hann fær að spila frammi. Hann getur dregið sig aðeins neðar á völlinn úr framherjastöðunni og skapað pláss og færi fyrir fremsta framherjann en jafnframt verið fremsti maður og klárað færin. Þegar hann spilar á miðjunni fara kraftar hans helst í því að negla í 40 metra þversendingar á Antonio Valencia/Ashley Young. Það kemur afskaplega lítið úr því. FramherjaWayne er 20/10 maður. 20 mörk, 10 stoðsendingar á leiktíð. Það er ómetanlegt en það gerist ekki nema hann spili frammi.

Ég púsla því mönnum í kringum þessa tvo leikmenn.

De Gea og Shaw eru sjálfkjörnir. Rojo er að mínu mati sá miðvörður sem hefur verið að spila best á þessu tímabili. Ég hefði getað valið hvern sem er af Smalling, Jones eða Evans við hliðin á Rojo. Það er ekki mikill munur á þessum leikmönnum. Af þeim hefur þó Smalling líklega verið að spila skást á tímabilinu og hann hefur því vinninginn. Þrátt fyrir að vera ekki mikill aðdáandi Valencia í vængbakverðinum finnst mér hann nýtast mun betur í bakverðinum. Hann er agaður leikmaður, öskufljótur og nautsterkur sem eru góðir eiginleikar í vörninni. Það mæðir ekki jafn mikið á honum sóknarlega í þessari stöðu þannig að veikleikar hans hafa ekki jafn mikil áhrif á sóknarleik liðsins.

Carrick situr fyrir framan vörnina og verndar hana og dreifir spilinu. Herrera er hægra megin við hann. Ég skil ekki afhverju hann fær ekki fleiri tækifæri undir Louis van Gaal. Liðið spilar alltaf betur með hann innanborðs og hann er alhliða leikmaður, góður jafnt sóknarlega sem varnarlega. Vinstra megin er svo maðurinn sem allt á að snúast um. Angel di Maria á að vera drifkrafturinn í liðinu. Í þessari stöðu er hann einn besti leikmaður heims eins og Michael Cox skrifaði í grein fyrir tímabilið.

Gegn QPR og öðrum minni liðum er Mata góður kostur. Hann er ótrúlega naskur á að vera á réttum stað á réttum tíma í teig andstæðinganna og sérstaklega gegn minni liðunum á Old Trafford. Fyrir framan hann eru svo Wayne Rooney og Falcao. Ég vel Falcao fram yfir Robin van Persie vegna þess að mér finnst hann töluvert betri að skapa sér færi en Hollendingurinn sem hefur verið ótrúlega staður á tímabilinu. Falcao er að djöflast í mönnum allan liðlangan leikinn auk sem við erum bara að bíða eftir að þessi frábæri framherji smelli í gang. Um leið og hann fær betri þjónustu fara mörkin að flæða og með því færanýtingin.

Gegn Chelsea myndi ég henda þessu svona upp:

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
12
Smalling
25
Valencia
7
Di Maria
16
Carrick
31
Fellaini
10
Rooney
20
Robin van Persie
9
Falcao

Fellaini kemur inn fyrir Herrera til þess að fá bastarð inn á miðjuna til þess að vera með almenn leiðindi. Mata dettur út enda á hann til að týnast í stóru leikjunum. Rooney fer í holuna og getur þá hjálpað til á miðjunni ef þess þarf.

Pælingin með þessum báðum liðum er sú að með tvo miðverði í liðinu fækkar þessum auðveldu sendingamöguleikum til baka um einn, miðjumennirnir okkar verða að taka meiri áhættu með boltann og með þá miðjumenn sem við höfum er þessi áhætta alveg þess virði. Að auki er auka miðjumaður kominn á völlinn í stað auka miðvarðar og því fleiri leikmenn á miðjunni til þess að gefa á. Miðjumennirnir okkar komast betur inn í leikinn og framherjarnir fara að fá betri þjónustu. Okkar bestu leikmenn eru í sínum bestu stöðum, Rooney er ekki á miðjunni og Angel di Maria er ekki frammi. Demanturinn hentar einfaldlega best miðað við þá leikmenn sem eru til staðar hjá United í dag.

Lykilatriðið er samt það, burtséð frá því hvaða kerfi við spilum er að áherslan verði á það að bestu leikmennirnir okkar axli mestu ábyrgðina og að boltinn fari í gegnum þá frekar en að spil okkar velti á okkar verstu leikmönnum eins og er raunin með því að stilla up í 3-4-1-2.

Cambridge United 0:0 Manchester United

skrifaði þann 23. janúar, 2015

Vil þakka leikmönnum Manchester United og Louis van Gaal og þjálfarateymi hans fyrir að gera þetta föstudagskvöld alveg drepleiðinlegt.

Liðið var svona:

1
de Gea
17
Blind
5
Rojo
4
Jones
25
Valencia
7
Di Maria
16
Carrick
31
Fellaini
11
Januzaj
9
Falcao
49
Wilson

Bekkur: Valdes, Rafael, Shaw, RvP, Herrera, Fletcher, McNair

Það var kalt og vindasamt í Cambridge í kvöld þegar Cambridge United fékk bikarúrslitaleikinn sinn gegn Manchester United. Frá fyrstu mínútu var augljóst að leikmenn litla liðsins væru fullkomlega klárir í þennan leik. Þeir hlupu og börðust gríðarlega vel, sérstaklega fyrstu 20 mínútunar. Á þeim voru þeir nokkuð skeinuhættir og aðallega úr föstum leikatriðum þar sem þeir pökkuðu mönnum á David de Gea. Smám saman náði United þó tökum á leiknum og Cambridge-menn pökkuðu í vörn. Yfirleitt voru 9-10 menn að verjast í tveimur þéttum línum fyrir framan markmanninn.

Sóknarleikur United snerist um að koma boltanum út á kant en allt sem United gerði í þessum leik var löturhægt og fyrirsjáanlegt. Miðverðirnir okkar fengu að koma upp með boltann en negldu yfirleitt boltanum eitthvað langt í burtu. Okkar menn voru líklega ekki bara klárir í þennan leik. Í þau tvö skipti sem ég man eftir að sókn upp miðjuna tókst fengum við hættulegust færi leiksins. Í fyrra skiptið stakk Carrick boltanum inn á Falcao en markmaður Cambridge varði mjög vel. Í seinna skiptið vippaði Di Maria boltanunm inn á Robin van Persie sem negldi hátt yfir. Mjög góð færi og að minnsta kosti annað þeirra hefði átt að nýtast.

United skrúfaði aðeins upp pressuna undir lokin en Cambridge-menn voru svo rosalega þéttir fyrir og hægur sóknarleikur United beit ekkert á Cambridge vörnina. 0-0 jafntefli staðreynd og því ljóst að við fáum annan leik gegn Cambridge, í þetta skiptið á Old Trafford og þar ættu okkar menn nú að klára þetta frekar auðveldlega.

Þetta var afskaplega slappt, það verður að segjast alveg eins og er en ég nenni ekki að vera að svekkja mig of mikið á þessu. Menn ættu þó alltaf að fara varlega í að draga einhverjar rosalega ályktanir af spilamennsku liðsins í svona leikjum. Liðið er að spila á pínulitlum velli í kulda og roki þar sem andstæðingurinn leggur sig 300% fram. Vissulega var þetta lélegt en þetta er ekkert sem við höfum ekki séð áður frá United t.d. stjórn Alex Ferguson sem átti til að lenda í vandræðum á útivöllum gegn minni liðum í bikarnum. Það sem skiptir máli í svona leikjum er einfaldlega að ná sigri, ekki að spila eitthvað stórkostlega. United gerði nóg til að skora a.m.k. eitt mark í leiknum. Þessi leikur var nánast sami leikur og gegn Yeovil í fyrri umferð nema munurinn er sá að nú náðum við ekki að pota inn einu marki. Það hefði hinsvegar hæglega getað gerst.

Frammistaða margra leikmanna var þó ekki þeim til framdráttar og að mér læðist sá grunnur að farið verði í aðra hreingerningu í sumar.

Hvað um það. Lítum á jákvæðu hliðarnar. Við fáum annan United leik sem er afskaplega fínt á þessu Evrópulausa tímabili.

Besta byrjunarliðið – Maggi

skrifaði þann 23. janúar, 2015

Minnum á upphitunina fyrir bikarleikinn gegn Cambridge United.

Í síðustu leikjum Manchester United hefur Louis van Gaal stillt upp í 3-4-1-2 uppstillingu sem hefur farið mikið í taugarnar á stuðningsmönnum United. Við hér á ritstjórninni munum á næstu dögum birta okkar skoðanir á því hvernig best væri að stilla upp liðinu, við vitum jú auðvitað miklu betur en Louis van Gaal!

Fyrirkomulagið er þannig að við birtum tvo byrjunarlið, eitt sem á að rúlla upp QPR á heimavelli og annað sem á að ná í sigur á Stamford Bridge gegn Chelsea. Runólfur birti sína færslu á mánudaginn. Á þriðjudaginn kom Bjössi með sitt álit, á miðvikudaginn lét Spaki maðurinn ljós sitt skína og í gær birti Sigurjóni sitt óskabyrjunarlið. Nú er komið að Magga:

Hver kannast ekki við að horfa á fótboltaleik og kvarta yfir liðsvalinu. Af hverju er alltaf að spila og af hverju B alltaf á bekknum. Svo held ég að allir stuðningsmenn (og konur) séu búnir að fá nóg af 3-5-2, 3-4-1-2, 5-3-2 eða hvað sem þetta heitir. Ég setti mig því í hlutverk knattspyrnustjórans og valdi sterkasta liðið að mínu mati. Afraksturinn ætti ekki að koma mjög á óvart. Halda áfram að lesa