Podkast Rauðu djöflanna – 22.þáttur

skrifaði þann 25. apríl, 2016

Þeir Tryggvi Páll, Maggi og Björn mættu til leiks í 22. þættinum af podkasti Rauðu djöflanna. Rætt var um sigurleikinn gegn Everton um helgina sem tryggði United sæti í úrslitaleik FA-bikarsins í fyrsta skipti síðan 2007. Þá var einnig spáð í spilin fyrir síðustu fjóra leikina í deildinni.

Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan auk þess sem hægt er að hala honum niður í gegnum spilarann eða hér að neðan. Jafnframt má gerast áskrifandi að þættinum í gegnum ýmis podkast-forrit:

Gerast áskrifandi í iTunes
Gerast áskrifandi í öðrum forritum

MP3 niðurhal: 22.þáttur

Manchester United 2:1 Everton

skrifaði þann 23. apríl, 2016

Manchester United - Everton  - WembleyVið erum komnir í úrslit í FA bikarnum! Vá, þetta var frábær leikur í dag og fyllilega verðskuldaður sigur hjá okkur mönnum. Þurftu reyndar að hafa fullmikið fyrir honum að mínu mati, svona miðað við yfirburðina í fyrri hálfleik, en það er það bara allt í lagi því svona sigrar eru hvort sem er alltaf sætari en einhver öruggur 3-0 sigur, erum við ekki bara sammála um það?

Rennum fyrst yfir liðin, þau voru svona:

De Gea
Rojo
Blind
Smalling
Fosu-Mensah
Fellaini
Carrick
Martial
Rooney
Lingard
Rashford

Varamenn: Romero, Darmian, Mata, Herrera (87 mín), Valencia (62 mín), Schneiderlin, Memphis

Van Gaal hefur í allan vetur notað ákveðna leikmenn í deild og svo aðra leikmenn í bikar/Evrópu. Þrátt fyrir að mér finnist liðið spila betur með Schneiderlin sem djúpan miðjumann var það alveg morgunljóst að Carrick og Fellaini myndu byrja þennan leik, sem varð svo raunin. Fosu-Mensah kom inn í hægri bakvörð fyrir Darmian en að öðru leyti var uppstillingin eins og við mátti búast.

Evertonliðið var svona skipað:

Robles
Baines
Jagielka
Stones
Besic
Gibson
McCarthy
Cleverley
Barkley
Lennon
Lukaku

Svolítið brotinn hópur því Barry var fjarverandi á miðjunni, Jagielka ekki í 100% standi í vörninni og svo vantaði alveg hægri bakvörð í liðið. Það kom því í hlut Muhamed Besic, sem oftast spilar sem djúpur miðjumaður, að spila í hægri bakverði og það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Leikurinn byrjaði ansi glæfralega því eftir aðeins 5 mínútur komst Lukaku einn inn fyrir De Gea og átti bara eftir að „renna“ boltanum í autt markið en fyrirliðinn okkar var mættur á staðinn og náði að skalla glæsilega af línu. Það fór smá hrollur um mann á þessum tímapunkti því manni fannst eins og þetta gæti orðið einn af „þessum leikjum“, það voru hinsvegar óþarfa áhyggjur því út fyrri hálfleik réð United leiknum algjörlega.

Þar var fremstur í flokki Anthony Martial sem nýtti sér ítrekað veikleika Everton í hægri bakvarðastöðunni. Besic réð nákvæmlega ekkert við hann, Martial labbaði framhjá honum trekk í trekk og skapaði mikinn ursla í vörn Everton. Það bar loksins ávöxt á 34 mínútu þegar þegar Martial fór í göngutúr upp vinstri kantinn, framhjá Besic, gaf fyrir og þar var enginn annar en Marouane Fellaini mættur á nærstöngina með sokkinn góða og stakk upp í okkur sem vildu frekar sjá Schneiderlin og Herrera sem miðjuparið í leiknum. Fínt mark og staðan 1-0. United hélt áfram að halda boltanum vel út fyrri hálfleikinn, Everton náðu ekki upp neinu spili og vörnin þeirra leit ekki vel út. Það var í raun frekar svekkjandi að United skyldi ekki ná að pota inn öðru marki áður en flautað var til hálfleiks.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum, sérstaklega fyrri parts hálfleiksins þegar Everton bjuggu til nokkur góð færi. Á 56 mínútu fékk Ross Barkley boltann vinstra meginn í teignum og í stað þess að loka á hann renndi Fosu-Mensah sér í mjög svo illa ígrundaða tæklingu og straujaði Barkley niður. Dómarinn var ekki lengi að ákveða sig og dæmdi vítaspyrnu en í endursýningu kom í ljós að Mensah hafði snert boltann á sama tíma og hann snerti manninn og því hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi verið rangur dómur. Ég skil dómarann þó mjög vel, án endursýningar leit þetta út fyrir að vera rakið víti og meira að segja 50/50 víti með endursýningu, að mínu mati allavega. Lukaku fór á punktinn en meistari De Gea, hver annar, varði þéttingsfasta spyrnu Lukaku glæsilega. Hvar væri Manchester borg ef ekki væri fyrir David De Gea?

Eftir þetta virtist Everton aðeins slegnir út af laginu og í kjölfarið átti United nokkur góð færi. Fyrst opið skot framhjá hjá Lingard, sem átti frekar lélegan leik greyið, og svo Fellaini sem hefði skorað ef Jagielka hefði ekki varði boltann með hendinni, sem auðvitað átt að vera víti og rautt en dómarinn sá ekki. Eftir þetta vöknuðu Everton menn heldur betur til lífsins og fóru að setja meiri pressu á United. Það skilaði sér á 75 mín þegar Gerard Deulofeu kemur með fasta fyrirgjöf inn í teig, Chris Smalling reynir að hreinsa frá en gekk ekki betur en svo að boltinn hrekkur af sköflungnum og framhjá De Gea í eigið mark. Gríðarlega óheppni og ekkert við því að gera.

Við tóku æsilegar 15 mínútur þar sem bæði lið hótuðu að stela sigri. Það virtist þó allt stefna í framlenginu en Anthony Martial var með aðrar hugmyndir. Þegar 55 sekúndur voru eftir af leiknum fær Martial boltann á kantinum, gefur inn á miðjuna á Herrera sem var þá nýkominn inn á, hann nær að snúa við með boltann, detta, og svo gefa inn fyrir á hlaupandi Martial sem smellir honum snyrtilega framhjá Robles í marki Everton. Wembley sprakk, þvílíkt mark, þvílíkt augnablik!

Þar við sat! 2-1 sigur staðreynd. Liðið í heild sinni var stórgott í dag, það er hægt að nefna nokkra leikmenn sérstaklega, til dæmis Fellaini, De Gea og Fosu-Mensah (þrátt fyrir vítaspyrnudóminn). Það var þó einn leikmaður sem var alveg framúrskarandi í dag og það var Anthony Martial, hann gjörsamlega tók yfir þennan leik og sigldi þessu heima. Án efa besta frammistaða United leikmanns í vetur.

Já, við erum komin í úrslit á Wembley þann 21 maí þar sem við mætum annað hvort Crystal Palace eða Watford. Þennan árangur eigum við skilið, liðið hefur jú verið frekar heppið með drátt á tíðum, en seinni leikurinn gegn West Ham og svo leikurinn í dag voru barasta mjög góðir frá United og liðið að sýna ansi góða takta. Hver veit, er þetta loksins að smella hjá Van Gaal, korteri fyrir lokun? Eitt er ljóst, við getum seint þakkað honum kærlega fyrir að hafa þorað að kaupa Anthony Martial á þá upphæð sem hann gerði. Sú fjárfesting hefur borgað sig baka strax og mun halda áfram að borga sig til baka um ókomna tíð!

Sá hlær best sem síðast hlær.

Martial - What a waste of money

Wembley á morgun!

skrifaði þann 22. apríl, 2016

Manchester United - Everton  - WembleyÁ morgun klukkan 16:15 er Manchester United er að fara að spila undanúrslitaleik í FA bikarnum á Wembley Stadium. Í gegnum árin hefur United verið tíður gestur á Wembley, hvort sem það var í Samfélagsskildinum, deildarbikar nú eða jafnvel í úrslitaleik Meistaradeildar. Hlutirnir hafa hinsvegar ekki alltaf gengið upp hjá okkur í FA bikarnum síðan liðið vann bikarinn árið 2004. United hefur tapað í úrslitum gegn bæði Arsenal (2005) og Chelsea (2007) og svo tapað undanúrslitum gegn einmitt Everton (2009) og Man City (2011). Þrátt fyrir að þessi bikar hafi vafist fyrir okkur þá hafði liðið alltaf í nógu að snúast á öðrum vígstöðvum og verið í bullandi séns að vinna aðra titla. Þar af leiðandi hefur la-la árangur í FA bikarnum kannski ekki truflað okkur svo mikið.

Núna er tíðin aftur á móti önnur, leikurinn á morgun er klárlega mikilvægastur fyrir sálarlíf stuðningsmanna United því liðið hefur ekki verið í meira dauðafæri til að vinna eitthvað síðan Sir Alex Ferguson hætti. Þó úrslitaleikir í bikar geti alltaf dottið hvernig sem er þá verður að teljast líklegast, bara út frá tölfræðinni, að sá sem fer með sigur á hólmi á morgun sé líklegri til vinna annað hvort Crystal Palace eða Watford í úrslitaleiknum á Wembley þann 21 maí (ég afsaka jinxið hér með).

Everton

Tímabilið hjá Everton hefur verið mikil vonbrigði. Eftir snaggaralega spilamennsku undir stjórn Roberto Martínez síðustu tvö ár hefur liðinu hrakað töluvert á þessu tímabili og sitja aðeins í 11 sæti, 2 stigum frá 16 sætinu. Þeir hafa til dæmis ekki landað sigri í síðustu 6 leikjum og þar á meðal er háðuleg útreið í grannaslagnum gegn Liverpool á miðvikudaginn þar sem liðið tapaði 4-0.

Nokkuð er um forföll í hópnum hjá Everton, sérstaklega hjá mikilvægum varnarmönnum. Hvorki Jagielka né Coleman verða með og síðan fór John Stones af velli gegn Liverpool og er því á mörkunum að vera leikfær, sömu sögu má segja um Gareth Barry sem er í basli með nárann á sér. Í sama leik var Funes Mori vikið af leikvelli eftir eftir glórulausa tæklingu og verður hann því í banni gegn United. Þrátt fyrir allt þetta þá munu þeir leikmenn sem mæta til leiks verða æstir í að rétta skútuna við og bjarga tímabilinu á lokametrunum með sigri í FA bikarnum.

United

Við eigum það sameiginlegt með Everton að tímabilið hefur hingað til verið svolítil vonbrigði. Ég held að enginn hafi svo sem búist við því að United myndi fara alla leið og vinna ensku deildina, en eins og deildin hefur spilast í vetur þá verður að segjast að United missti af góðu tækifæri til að gera mun betur en þeir hafa gert. Liðið hefur þó verið að rétta úr kútnum undanfarið og spilað miklu betri bolta, sem hefur skilað 5 sigrum í síðustu 6 leikjum. Það er því enn von að klára tímabilið með stæl, vinna FA bikarinn og enda í 3-4 sætinu á undan Arsenal og/eða Man City. Það væri vel ásættanlegt tímabil miðað við hvernig allt hefur þróast.

Leikmenn eru meira og minna komnir aftur inn í hóp eftir endalausa meiðslasögu í vetur þannig að við ættum að geta stillt upp nokkurn veginn sterkasta hóp, fyrir utan Shaw og Schweinsteiger auðvitað. Liðið mun eflaust líta út einhvern veginn svona:

De Gea
Rojo
Blind
Smalling
Darmian
Fellaini
Carrick
Martial
Rooney
Mata
Rashford

Ég vona auðvitað að við munum frekar sjá Herrera og Schneiderlin í liðinu á kostnað Carrick og Fellaini en miðað við róteríngar Louis Van Gaal hingað til þá spilar Schneiderlin einungis í deildarleikjum. Mér þykir því líklegt að LVG verði með tvo varnarsinnaða miðjumenn til að eiga við hina sterku miðju Everton. Það er reyndar alveg séns að hann setji Herrera inn fyrir Mata fari með liðið í 4-3-3 eins og gegn West Ham, en mér þykir það þó ólíklegt.

Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé mikilvægasti leikur sem United hefur spilað síðan þeir áttust við Wolfsburg í Þýskalandi þann 8 desember. United féll á því prófi en núna er sjúkrapróf og það er um að gera að nýta tækifærið, þau koma ekki á hverju ári.

Ég hef trú á þessu!

Manchester United 2:0 Crystal Palace

skrifaði þann 20. apríl, 2016

Nokkuð þægilegur 2-0 sigur á Crystal Palace í kvöld.

Liðið sem hóf leik var eftirfarandi;

1
De Gea
36
Darmian
17
Blind
12
Smalling
25
Valencia
35
Lingard
28
Schneiderlin
9
Martial
10
Rooney
8
Mata
39
Rashford

Bekkurinn; Romero, Fosu-Mensah, Rojo, Young, Fellaini (’77), Herrera (’71) og Memphis (´64 mín).

Það fyrsta sem maður tók eftir þegar leikurinn byrjaði var að stúkan var hálftóm. Að sama skapi var augljóst að Morgan Schneiderlin var í rauninni eini djúpi miðjumaður United í fyrri hálfleik. Fyrir framan hann voru svo Juan Mata og Wayne Rooney, á vængjunum voru svo Anthony Martial og Jesse Lingard.

Okkar menn byrjuðu leikinn af krafti og strax eftir 4. mínútur átti Matteo Darmian fyrirgjöf af vinstri kantinum sem hrökk af Demian Delaney og í netið, staðan orðin 1-0. United hélt öllum völdunum á vellinum og fékk Martin Kelly gult spjald stuttu síðar fyrir að reyna toga í Martial eftir að Frakkinn þaut framhjá honum.

Hvað varðaði leikskipulagið þá var augljóst að Lingard og Martial áttu að þrýsta mikið inn völlinn og báðir bakverðir United sóttu stíft upp vængina. Allavega fyrstu mínútur leiksins þar sem United reyndi að pressa Crystal Palace út um allan völl. Svínvirkaði hún þar sem Palace komust varla yfir miðju fyrstu 10 mín. leiksins. Eftir það róaðist leikurinn aðeins.

Eftir um hálftíma leik tók United aftur völdin og átti þónokkur skot á markið en Julian Speroni stóð vaktina vel í markinu og staðan því 1-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var í raun mjög svipaður og fyrri hálfleikurinn. United byrjaði mjög vel og eftir 53. mínútur fékk United horn. Ótrúlegt en satt þá ákvað Daley Blind að lúðra boltanum inn í teig í stað þess að taka stutt horn. Þar var boltinn skallaður út þar sem Darmian tók boltann á bringuna áður en hann HAMRAÐI honum stöngin inn.

Eftir það virtust bæði lið nokkuð sátt með stöðuna en leikurinn spilaðist út mjög svipað og fyrri hálfleikurinn. Crystal Palace ógnaði lítið sem ekki neitt og United var nálægt því að bæta við.

Lokatölur 2-0.

West Ham United vann sinn leik og eru því aðeins stigi á eftir okkar mönnum en eftir jafntefli nágranna okkar í bláu þá eru aðeins tvö stig á milli liðanna þó svo að Arsenal sitji á milli okkar í töflunni með leik til góða.

Nokkrir punktar

a) Mjög fagmannleg frammistaða. Liðið spilaði fínan fótbolta og núlluðu Crystal Palace algjörlega út.

b) Hluti af punkti a) var örugg frammistaða Chris Smalling. Ekki í fyrsta skipti í vetur. Setti hann Emanuel Adebayor í vasann og leiddi það til þess að David De Gea þurfti ekki að verja skot í kvöld.

c) Það var þó annar varnarmaður sem stal athyglinni í dag en maður leiksins var Matteo Darmian með mark og stoðsendingu. Einnig tók hann Wilfried Zaha og setti í rassvasann en það er vert að benda á að Zaha er sá leikmaður í úrvalsdeildinni sem er með flestar heppnaðar Take ons. Vonandi að Ítalinn haldi þessu áfram út tímabilið því hann þarf nauðsynlega á sjálfstraustinu að halda.

d) Eins gaman og mér finnst að sjá nýjar útfærslur á föstum leikatriðum þá held ég að einu mörkin sem United hefur skorað eftir horn í vetur er þegar boltanum er bombað beint inn í teig frekar en að taka stutt krúsídúllu horn.

d) Magnað hversu vel spilandi liðið er þegar það er aðeins einn djúpur miðjumaður að stjórna spilinu.

e) United er núna búið að vinna sex heimaleiki í röð, og haldið hreinu í fimm þeirra. Vonandi er liði að detta í smá gír núna þegar squeeky bum time á tímabilinu er að fara í gang.

Lýsendurnir töluðu sérstaklega um hvað völlurinn var tómur í lok leiks.

Crystal Palace kemur í heimsókn

skrifaði þann 19. apríl, 2016

Manchester United - Crystal Palace

Á morgun koma lærisveinar Alan Pardews í heimsókn á Old Trafford.

Í mjög stuttu máli þá er þetta frekar einfalt, til að halda draumnum um að spila í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili þá þarf leikurinn á morgun að vinnast. Mjög einfalt.

En við skulum þó aðeins fara ofan í saumana hérna.

Crystal Palace
Eftir að hafa gert 0-0 jafntelfi við okkar menn í lok október þar sem þeir voru almennt á fínu róli þá fór allt til fjandans og er Crystal Palace búið að sogast niður í fallbaráttu. Þeir eru þó níu stigum frá fallsæti svo þeir hafa eflaust ekki of miklar áhyggjur af því að spila í Championship deildinni á næsta ári.

Með það í huga þá hefur Alan Pardew sagst ætla að hvíla nokkra leikmenn á morgun sökum þess að undanúrslit FA bikarsins fara fram um helgina. En þar mætir Crystal Palace nýliðum Watford á meðan okkar menn mæta Everton í hinum leiknum.

Þrátt fyrir að hafa ekki unnið í síðustu fimm heimsóknum á Old Trafford þá kemur Crystal Palace á ágætis skriði inní leikinn á morgun. Þeir hafa unnið Norwich,gert jafntefli við Arsenal og West Ham í síðustu þremur leikjum. Það er því ljóst að vanmat mun ekki skila United neinu á morgun.

Talið er að Yannick Bolasie, Scott Dann. Joel Ward og Joe Ledley missi allir af leiknum.

Okkar Menn
Fyrir utan afhroðið gegn Spurs núna um daginn þá hafa okkar menn unnið fjóra af síðustu fimm leikjum. 1-0 sigrar unnust á Manchester City, Everton og Aston Villa á meðan West Ham United var sigrað 2-1. Var Marcus Rashford aðalmaðurinn eins og undanfarnar vikur.

Í sigrinum gegn Aston Villa þá gerði Louis Van Gaal þónokkrar breytingar á liðinu svo stóra spurningin hvort einhver af þeim sem kom inn haldi sæti sínu. Talið er að Van Gaal sé með hugann við Everton leikinn um helgina í FA bikarnum og hvíli því nokkra leikmenn.

Hvað meiðslalistann varðar þá sitja Luke Shaw, Adnan Januzaj, Bastian Schweinsteiger og Will Keane enn sem fastast á téðum lista en Van Gaal staðfesti að Ander Herrera kæmi inn í hópinn.

Miðað við blaðamannafund Van Gaal þá má reikna með því að Rashford byrji þar sem hann er vægast sagt heitur fyrir framan mark andstæðingana þessa dagana en drengurinn hefur tryggt sigra aftur og aftur undanfarnar vikur. Á fundinum var hann spurður út í Arsenal og möguleikann á því að enda í topp fjórum en hann svaraði með því að liðið gæti aðeins einbeitt sér að sínum eigin leikjum og það væri planið. Að lokum hrósaði hann þjálfara u21 liðsins, Warren Joyce, í hástert en virðist sem Van Gaal sé mjög sáttur með þjálfarann sinn.

Jákvæðar fréttir fyrir leikinn eru þær að bati Luke Shaw gengur mjög vel þó hann sé ekki enn farinn að æfa með liðinu. Miðað við þá jákvæðni sem geislar af Shaw í viðtali við heimasíðu félagsins þá er vonandi að hann finni sitt gamla form um leið og hann snýr aftur á völlinn. Held að allir geti verið sammála um að liðið hefur saknað hans gífurlega í vetur.

Luke Shaw

Leikurinn hefst klukkan 19:00 á morgun.