Manchester United 1:1 Chelsea

skrifaði þann 26. október, 2014

Það er ekki ofsagt að flestir United aðdáendur hafi verið stressaðir fyrir leikinn í dag þegar Chelsea kom í heimsókn. En þó að það hafi tekið tímann sinn fór svo á endanum að jafntefli urðu sanngjörn úrslit leiksins.

Falcao og Jones höfðu meiðst á æfingum og Fellaini fékk tækifærið eftir góða frammistöðu gegn WBA.

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
12
Smalling
2
Rafael
7
Di María
17
Blind
31
Fellaini
11
Januzaj
8
Mata
20
Van Persie

á bekknum voru: Lindegaard, Blackett, Fletcher, Carrick, Herrera, A. Pereira og Wilson

Lið Chelsea leit hins vegar svona út, Diego Costa meiddur og Didier Drogba kom inn

Courtois
Felipe Luis
Terry
Cahill
Ivanovic
Matic
Fàbregas
Hazard
Oscar
Willian
Drogba

Óhætt er að segja að leikurinn hafi byrjað á fullu. Chelsea átti fyrsta færið, Oscar skaut í horn eftir hræðilega sendingu Rojo, Fellaini hreinsaði úr horninu og var svo kominn einna fremstur í hraðaupphlaupið en sú sókn endaði með skoti Di María yfir. Fellaini var svo aftur kominn inn í vörnina til að hirða boltann af Hazard inn í teig og stoppa þannig snyrtilega sókn Chelsea.

Leikurinn róaðist eftir þetta Chelsea voru mun meira með boltann en sóknir þeirra voru frekar varkárar og miðja United var fastari fyrir en búast hefði mátt við og Fellaini var strax að sýna takta sem hann hefur ekki sýnt áður í United treyju

United fékk svo tvö hörkufæri um miðjan hálfleikinn, fyrst varði Courtois frá Van Persie sem var kominn inn fyrir eftir frábæra stungu Januzaj og rétt á eftir skallaði Van Persie aftur fyrir sig beint á Courtois.

Leikurinn var nokkuð jafn eftir þetta, fór að mestu fram á miðjunni en Chelsea voru þó aðeins meira ógnandi, meira af því að vörn og miðja United átti það til að vera frekar holótt. Þar var helst við Rojo að sakast og jafnvel Blind, en Chris Smallinng átti fínan leik. De Gea bjargaði vel á 41. mínútu þegar lélegur skalli Rojo hleypti Hazard í gegn. Hazard gaf í í teiginn á aleinan Drogba en De Gea varði skot hans.

United var hins vegar síst lakari aðilinn og skapaði þó nokkur færi.  Januzaj skaut yfir í þokkalegu færi eftir að hafa spilað sig í gegn og rétt á eftir reyndi hann það aftur en þá sparkaði Ivanovic hann niður millimeter utan teigs. Di María átti snilldarsendingu úr aukaspyrnunni þvert út á Mata óvaldaðan, en skot hans fór víðsfjarri markinu, skelfileg sóun þar.

Fyrri hálfleikur því markalaus og alveg ágætur af okkar hálfu, fyrir utan smá veikleika í vörninni. Chelsea hefði getað fengið víti þegar Rojo og Smalling brutu báðir af sér í aukaspyrnufyrirgjöf, en dómarinn sleppti þeim. Nokkuð vel sloppið enda báðir með hálstak á sínum mönnum.

Chelsea byrjaði betur fyrstu mínútur seinni hálfleiks, en United náði að standa það af sér og náði ágætum sóknum. Hinu megin komst Hazard í gegn eftir frábært samspil við WIllian en David De Gea varði frábærlega í horn. Sú hetjudáð hafði þo ekkert að segja því hornið kom á nærstöng þar sem Drogba kom á fleygiferð frá vörninni, Rafael átti að vera að dekka hann en var alltof seinn á eftir honum. Drogba skallaði glæsilega eins og hans var von og vísa og Van Persie var ekki alveg á réttum stað til að hreinsa. 0-1. Eftir leik staðfesti Van Gaal að þarna hefðu verið mistök í samskiptum Fellaini og Rafael, enda stórir og sterkir Chelsea menn öllu fleiri en en stórir og sterkir United menn.

Eftir markið áttu United frekar erfitt uppdráttar. Di María fékk tvídekkun á sig og Chelsea spilaði mun betur. Besta færið var þó langskot WIllian sem De Gea varði ágætlega. Oscar hefði alveg getað fengið ódýrt rautt fyrir að sparka aftan í Smalling. Dómarinn lét þó gult nægja.

Mourinho hefur alltaf verið mikið fyrir að að reyna að loka leikjum á útivelli þegar hans lið er yfir frekar en að reyna að auka muninn. Hann tók Oscar útaf fyrir Mikel og um leið kom James Wilson inná fyrir Mata sem var búinn að vera næsta ósýnilegur.

Chelsea færin þar á eftir voru frá Ivanovic sem sólaði sig gegnum alla vörnina en skaut svo þvert að boltinn fór í innkast, og síðan skaut Willian vel framhjá.

United fór í meiri sóknarham eftir því sem á leið en það vantaði herslumuninn upp við markið. Van Persie komst innfyrir en Courtois varði, Januzaj skaut framhjá utan teigs og James Wilson skallaði fyrirgjöf Rafael hátt yfir. Eins og svo oft síðustu árin fóru þau horn sem fengust undantekningarlaust í hausinn á fyrsta varnarmanni þó að núna heiti spyrnumaðurinn Ángel di María en ekki Nani.

Það sem virtist helst að var að uppbygging spilsins var of hæg og menn tóku sér of mikinn tíma

Á 91. mínútu valdi Gary Neville Thibaut Courtois mann leiksins sem hann átti alveg skilið fyrir ágætar vörslur frá Van Persie, en á 93. mínútu braut Ivanovic á Di María vinstra megin. Hann fékk verðskuldað sitt annað gula spjald fyrir þetta. Aldrei þessu vant kom síðan frábær fyrirgjöf frá Di María, Fellaini besti maður United í þessum leik skallaði að marki, Courtois varði með kattliprum viðbrögðum og Robin van Persie af öllum mönnum skoraði með óverjandi skoti.

Þvílík gleði!

Þó að þetta hafi verið mjög erfitt stig að innbyrða þá er ekki hjá því litið að jafntefli voru sanngjörn úrslit. United var betra í fyrri hálfleik og eftir að Mourinho parkeraði rútunni þá fékk United þau tækifæri sem að lokum skiluðu árangri. Reyndar hefði Ivanovic átt að dekka Fellaini í aukaspyrnunni sem gaf markið en var búinn að láta reka sig útaf og Kurt Zouma, miðvörðurinn sem Mourinho setti inná á 90. mínútu var of seinn í Van Persie í markinu, en það sýnir bara hvernig lið geta gert mistök ef þau eru pressuð nóg.

Besti maður leiksins var án efa Fellaini. Lék stórvel á miðjunni og batt liðið vel saman. Eins átti Chris Smalling ágætan leik, og það fer að verða óþarfi að taka fram að David De Gea átti nokkrar stórkostlegar vörslur.

Van Persie var alveg á leiðinni að fá slæma gagnrýni fyrir leikinn, en í raun var það Courtois sem stöðvaði hann oftar en einu sinni og síðan var það einu skoti of mikið jafnvel fyrir Courtois.

Og gleði Robin var ósvikin!

Van Persie fagnar gegn Chelsea

Við förum með sjálfstraust inní borgarslaginn um næstu helgi, Rooney og Falcao verða vonandi með, og ég er alveg til í að setja smá pening á að Blackett taki sæti Rojo í liðinu. Og þá verð ég bara smá spenntur fyrir góðum úrslitum!

Tilvonandi Englandsmeistarar á Old Trafford á morgun?

skrifaði þann 25. október, 2014

Manchester United - ChelseaFyrsti stórleikur vetrarins er á morgun. Nú lýkur endanlega „auðvelda“ leikjaprógramminu sem talað hefur verið um og hefur fært okkur heil 12 stig í átta leikjum. Það þarf ekkert að kalla það afsakanir þó að hægt sé að færa fram ýmsar ástæður fyrir að gengið hefur ekki verið með besta móti, en það fer að verða nauðsynlegt að leikmenn, og þjálfari, fari að sýna hvað í þeim býr.

Eftir leik morgunsins þar sem annað spútniklið haustsins, West Ham, sá um Manchester City mun ekkert vanta upp á að Chelsea verði krýndir meistarar á morgun í blöðunum ef svo fer að þeir fari með þrjú stig frá Old Trafford á morgun. Það yrði auðvitað blaðabull af bestu gerð, en eitt væri nokkuð víst: Ef leikurinn á morgun tapast þá verður það ekki Manchester United sem skákar Chelsea í þeirri baráttu.

Fyrir leikinn á morgun áttu margir að vera orðnir frískir á pappírnum en það er minna um það í raun. Michael Carrick lék 60 mínútur í U21 leik í gær og verður eflaust á bekknum eftir langa fjarveru. Blackett lék allan leikinn og verður augljóslega ekki í byrjunarliði á morgun. Jonny Evans, Antonio Valencia og Paddy McNair verða frá enn um tíma. Di María og Herrera eru þó orðnir góðir og spila.

Fyrir vikið er liðsuppstillingarspáin ekki alveg eins flókin og ella.

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
4
Jones
2
Rafael
21
Herrera
17
Blind
11
Januzaj
31
Fellaini
7
Di María
20
Van Persie

Eftir óreiðuna gegn West Brom þar sem greinilega átti að æfa aðeins meira afturliggjandi sókn hljóta að verða einhverjar breytingar. Ég efast þó um að leikaðferðin breytist. Ummæli Van Gaal á fréttamannafundinum í gær virðast þó alveg gefa til kynna að Robin fái enn að byrja þó þolinmæði mín, og fleiri, sé alveg að verða á þrotum. Juan Mata verður ekki fyrir aftan hann, það ætla ég alveg að fullyrða og spái því að stóri maðurinn fái að fylgja eftir frábæru marki á mánudaginn með því að fá leik í uppáhaldsstöðunni sinni. Ég myndi heldur ekkert gráta það þó olnbogarnir á honum fyndu einn eða tvo Chelsea leikmenn fyrir, á meðan það er ekki spjaldavert.

Fyrir þann sem heldur að ungir leikmenn eigi að spila eins og þrítugir reynsluboltar í öllum leikjum var leikur Adnan Januzaj á mánudag mikil vonbrigði. Ég á hinn boginn vona að hann fái annað tækifæri ekki síst þar sem helstu möguleikar aðrir þarna á kantinum væru Mata, Falcao og Young.

Já, ég er í alvöru að spá því að einn eitraðisti framherji Evrópu byrji á bekknum. Ég get ekki lýst því hvað ég vona að ég hafi ég hafi rangt fyrir mér.  Mér finnst eins og vonir okkar í leiknum á morgun séu bundnar við þetta.

Chelsea

Andstæðingarnir já?

Courtois
Luis
Terry
Cahill
Ivanovic
Fàbregas
Matic
Hazard
Oscar
Schürrle
Diego Costa

Besta liðið í deildinni í vetur, besti markvörðurinn, besta vörnin (fyrir utan Southampton!?!), besta miðjan og besti framherjinn… nema Mourinho sé bara í alvöru að segja satt og Diego Costa sé meiddur. Ef svo ólíklega vill til þá er það líklega Drogba frammi. Loïc Rémy er örugglega meiddur og einhver efi um Drogba. Ef allir þessir klikka þá eru möguleikarnir Schürrle, sem er ekki nærri eins effektívur fremst, nú eða Fàbregas sem fölsk-nía.

Azpiliicueta er í banni og Mikel og Ramires eru að koma til baka úr meiðslum

Svo er bara spurningin hvort Mourinho kemur til að vinna eða til að tapa ekki. Ef hann velur hið síðarnefnda er ekki spurning um að Chelsea vinnur.

Mótsögn? Nei. Ef Chelsea lætur United um að sækja, þá munu skyndisóknir þeirra skila mörkum. United gæti hins vegar átt séns ef Chelsea blæs til sóknar og þéttir þannig vörn okkar og miðju.

Að lokum

Þessi bið milli leikja er alveg að fara með mig. Nú er þó a.m.k. leikur á morgun og væntingarnar eru þannig að ef við vinnum þá verður það svo algerlega frábært. En það besta ég vonast eftir er markajafnteflli. Eigum við að segja svona þrjú – þrjú?

Leikurinn byrjar kl 4 á morgun

enda breytist klukkan í Evrópu í nótt

WBA 2:2 Manchester United

skrifaði þann 20. október, 2014

Því miður þá þarf ég að skrifa skýrslu um tvö mikilvæg stig töpuð í kvöld. Eins og leikurinn þróaðist þá ætti maður kannski bara að vera sáttur með að hafa bjargað stigi í lokin, en þetta var mjög týpískur leikur frá United, eru meira og minna að stjórna leiknum en gera sér erfitt fyrir með því að gefa mörk á silfurfati. Byrjum á liðinu, það leit svona út:

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
4
Jones
2
Rafael
21
Herrera
17
Blind
7
Di María
8
Mata
11
Januzaj
20
Van Persie

Varamenn: Lindegaard, Smalling, Carrick, Fellaini, Fletcher, Young, Falcao.

Ég var mjög hissa á því að sjá þessa uppstillingu satt best að segja. Þó svo ég hefi verið spenntur fyrir því að sjá Januzaj aftur í liðinu þá vildi ég frekar hafa tvo framherja, það hefur virkað ágætlega hingað til og ætti að vera sjálfgefið í leikjum gegn liðum eins og WBA. Hinsvegar hefur Van Gaal þótt þessi leikur vera ágætis undirbúningur fyrir erfiða leiki gegn framundan gegn Chelsea og Man City, leikir þar sem líklegra er að við sjáum þetta kerfi notað. Varnarlínan sat hátt uppi en á sama tíma sátu framherjar liðsins frekar aftarlega á vellinum. Á tímabili þegar WBA var að spila boltanum meðal sinna varnarmanna þá komst nánast allt United liðið fyrir í miðjuboganum. Með allt þetta pláss fyrir framan og aftan, fóru WBA grimmir af stað og virtust ætla að sækja sér mark snemma, þetta gerðu þeir með því að dæla boltanum fram á sína kantmenn eða hinn snögga framherja Berahino. Þetta virkaði eftir aðeins 8 mínútur, þá skoruðu þeir mark eftir sömu uppskrift og mörg önnur mörk á þessu tímabili. Shaw fór full langt úr sinni stöðu og skildi eftir mikið pláss á vinstri kantinum fyrir Wisdom til að vaða upp og gefa fyrir, þar sem Sessegnon tók glæsilega við boltanum og smellti honum upp í vinstra hornið.

Fram að hálfleik var United meira og minna með öll völd á vellinum en hugmyndaleysið var algjört. Di María var sá eini sem virkaði hættulegur á meðan Mata og Januzaj voru slakir, því miður. Van Persie var svo einn að ströggla upp á toppi, reyna að búa sér til eitthvað pláss en ekkert gekk.

Í hálfleik gerði Van Gaal eina mikilvæga breytingu á liðinu þegar hann tók Herrara útaf og setti Fellaini inn á. Það tók Belgann ekki nema 3 mínútur að stimpla sig inn, hann gerði sig stórann og stæðilegan í boxinu hjá WBA, tók fyrirgjöf Di María niður og þrumaði boltanum svo glæsilega upp í þaknetið. Flott hjá stráknum og maður sá vel á fagninu hversu lengi hann var búinn að bíða eftir þessu marki. United virkaði mun líklegri til að bæta við marki eftir þetta, en á 66 mínútu verður vörnin enn og aftur ósamstíga. Jones stígur úr línunni, skilur Rafael eftir, sem gerir Berahino réttstæðan þegar stungusending kemur inn fyrir vörnina. Berahino setur boltann svellkaldur framhjá De Gea í markinu og okkar menn komnir undir gegn gangi leiksins. Síðan tók við sama eyðimerkurgangan og var í fyrri hálfleik. United heldur boltanum en gengur lítið að koma honum í hættuleg færi. Falcao kom loksins inn á 72 mín og liðið breytir í 4-4-2, en það fór síðan út um þúfur á 78 mín þegar Di María þarf að fara af velli vegna meiðsla og inn kemur vinur okkar Ashley Young. Núna vorum við með tvo óhæfa kantmenn, þá Young og Januzaj.

Það stefndi því allt í 2-1 sigur WBA þangað til á 87 mín þegar Daley Blind (fallegasti maðurinn á Englandi) skoraði með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig. Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og var United í þungri sókn allan tíma, en allt kom fyrir ekki, 2:2 jafntefli staðreynd.

Það voru of margir leikmenn að spila illa í dag og þar voru Mata og Januzaj e.t.v. verstir. Jones + Herrera voru klárlega ryðgaðir og aðrir voru meira og minna undir pari. Þetta var í fyrsta skipti sem þessi varnarlína spilar saman í vetur. Þó svo ég sé spenntastur fyrir þessum fjórum, þá sást æfingaleysi þeirra vel, þeir áttu sína ágætu kafla en inn á milli komu slæmir kaflar. Það er þessi óstöðuleiki sem er að fara illa með United þessa daga. Einnig verð ég að skella smá skuld á Van Gaal fyrir að hafa notað þetta kerfi. Ég skil ekki af hverju United fór varfærnislega inn í þennan leik, eins og þeir væru að spila gegn einu besta liði heims. Menn virtust ekki alveg klárir á því hvað ætti að gera og WBA átti frekar auðvelt með að leysa upp spilið. Við höfum oft séð þetta áður í vetur. Maður leiksins að mínu mati var Fellaini, hann kom inn á og spilaði eins og hann var vanur að gera með Everton, framarlega á vellinum, grimmur, stór og sterkur. Það var hann sem olli WBA mestum vandræðum.

Eftir viku er leikur við Chelsea á Stamford Bridge. Þar mætir United taktískum snillingi í Mourinho og það er alveg klárt mál að hann veit upp á hár hvar veikleikar United eru. Okkar menn verða að mæta mjög grimmir og einbeittir til leiks, þá getur allt gerst. Ef það á að draga sig eitthvað til baka og vera stressaðir, þá er voðin vís.

West Bromwich Albion annað kvöld

skrifaði þann 19. október, 2014

West Bromwich Albion - Manchester UnitedAnnað kvöld byrjar ballið aftur hjá okkar mönnum, eftir tveggja vikna landsleikjahlé, þegar United skutlar sér í tveggja tíma rútuferð til West Bromwich í úthverfi Birmingham. Þar mæta þeir heimamönnum í West Bromwich Albion á The Hawthorns vellinum. Leikurinn byrjar klukkan 19:00 og verður Mike Dean á flautunni.

Oft hefur maður nú fundist þessi landsleikjahlé frekar leiðinleg en íslenska landsliðið hefur svo sannarlega breytt því viðhorfi með árangri sínum undanfarið. Það er vonandi að United standi sig jafn vel og drengirnir okkar í landsliðinu því það er gríðarlega mikilvægt að vinna leikinn á morgun ef United ætlar að halda sér meðal þeirra bestu. Dagskráin framundan er ansi erfið því eftir leikinn á morgun á liðið leik við Chelsea (H), Man City (Ú), Crystal Palace (H) og svo Arsenal (Ú). Þó svo farið sé í hvern leik til að sigra hann, má alveg gera ráð fyrir einhverjum töpuðum stigum í þessum viðureignum, það er því mikilvægt að misstíga sig ekki gegn liðum eins og WBA og Crystal Palace.

Í síðustu sex leikjum sem United hefur spilað gegn WBA þá hafa okkar menn landað 4 sigrum, eitt (frægt 5:5) jafntefli og eitt tap. WBA eru þó hættulegir, þeir unnu Tottenham fyrr í haust og Liverpool átti í basli með að brjóta þá aftur í síðustu umferð. Af okkar mönnum eru þó að berast betri fréttir, menn eru hægt og rólega að koma aftur úr meiðslum. Herrera, Smalling, Young, Jones og Carrick verða víst allir klárir fyrir morgundaginn, ólíklegt er þó að þeir detti beint inn í byrjunarliðið, nema þá helst Jones og Herrera. Aftur á móti eru Evans, McNair, Lingard og Valencia enn meiddir og svo er Rooney auðvitað ennþá í banni.

Hérna kemur mín spá um byrjunarliðið:

1
De Gea
3
Shaw
5
Rojo
4
Jones
2
Rafael
17
Blind
7
Di Maria
21
Herrera
8
Mata
20
Van Persie
9
Falcao

Held að Jones og Herrera komi aftur beint inn í liðið, spurning er hvort Herrera verði í holunni og Mata út á kanti, finnst það þó ólíklegt þar sem Mata hefur staðið sig vel í 10-unni. Van Gaal getur varla horft framhjá því. Ef þetta verður uppstillingin á morgun þá er ég svolítið spenntur að sjá hvernig vörnin stendur sig, því þetta er sú vörn sem ég persónulega vil sjá slípast saman í vetur.

Að lokum þá er hér smá athyglisverð tölfræði sem ég rakst á:

  • Manchester United hefur notað 30 mismunandi leikmenn það sem af er þessu tímabili, fleiri en nokkur annar klúbbur. Það er jafn mikið og Moyes notaði allt síðasta tímabil og aðeins tvisvar sinnum hefur United notaði fleiri leikmenn, tímabilin 2008/2009 (33) og 2011/2012 (31).
  • Robin van Persie hefur skorað 4 mörk og gefið 2 stoðsendingar í síðustu 7 leikjum gegn WBA.
  • Angel Di Maria hefur, í fyrstu 5 leikjunum sínum á Englandi, átt þátt í 6 mörkum (3 mörk og 3 stoðsendingar).
  • Manchester United hefur aðeins unnið einn mánudagsleik af síðustu fimm í ensku deildinni (W1 D1 L3).
  • United hefur skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik en nokkur annar klúbbur í deildinni á þessari leiktíð. (9).

ÁFRAM MANCHESTER UNTIED!

Djöfullegt lesefni: 2014:09

skrifaði þann 18. október, 2014

Hér er það helsta sem við lásum/hlustuðum/horfðum á í síðustu viku…

Lesefni vikunnar:

Mynd vikunnar:

Van Der Sar og Van Gaal hjá Ajax
VanDerSar_VanGaal

Myndbönd vikunnar

Kevin Kilbane tók stutt viðtal Roy Keane

Gary Neville fer yfir markið hans Giggs gegn Arsenal

Lag vikunnar:

Lágnætti – Sólstafir