Desember byrjar vel hjá Manchester United eftir 4-0 sigur á Everton á heimavelli í dag. Marcus Rashford og Joshua Zirksee skoruðu tvö mörk hvor í fyrsta deildarleik liðsins á Old Trafford undir stjórn Ruben Amorim.
Hvað breyttist í liðsvalinu?
Amorim hélt áfram að gera tilraunir með uppstillingu liðsins. Vörnin var óbreytt með Amad Diallo og Diego Dalot sem vængbakverði en Noussair Mazraoui, Mathijs de Ligt og Lisandro Martinez sem miðverði fyrir framan André Onana.
Casemiro og Kobbie Mainoo, sem fékk sitt fyrsta tækifæri undir Amorim, komu inn á miðjuna. Manuel Ugarte fór á bekkinn og Bruno Fernandez aftur fram í sína venjulegu stöðu fyrir aftan framherjann, sem var að þessu sinni Marcus Rashford. Nokkuð óvænt, eftir góða leiki síðustu vikur, var Alejandro Garnacho settur á bekkinn í stað Joshua Zirksee. Mason Mount datt líka úr liðinu.
Mörkin
Bæði lið komust í vænlegar stöður, frekar en opin færi, eftir stungusendingar áður en Marcus Rashford skoraði á 34. mínútu. Bruno Fernandes tók horn út í teiginn fjær þar sem Rashford mætti og skaut. Hann munaði um hjálp Jarrad Branthwaite sem renndi sér í boltann og stýrði honum inn. Það má fara betur yfir það síðar hversu mikið föst leikatriði United hafa batnað og þann fjölda marka sem það hefur þegar skilað á leiktíðinni.
Braintwaite, sem United reyndi að kaupa í sumar, gerði ekkert til að réttlæta 70 milljóna punda verðlagningu Everton á sér. Á 41. mínútu hirti Amad af honum boltann, kom á Bruno sem hafði nokkra kosti en sendi boltann þvert í teignum þar sem Zirksee var ákveðnari en tveir varnarmenn Everton og kom boltanum inn.
Þriðja markið kom strax eftir 20 sekúndur í seinni hálfleik. Casemiro vann boltann á miðjunni, hann barst í gegnum Zirksee upp til Amad sem losaði sig við varnarmenn Everton, renndi boltanum inn á Rashford sem kláraði færið.
Eftir þetta slakaði United heldur á, meira að segja fullmikið í fyrstu og fékk á sig tvö gul spjöld, á Mainoo og Martinez sem báðir missa af leiknum gegn Arsenal. Amorim fór líka að skipta inn á, trúlega með næstu leiki í huga. Síðasta markið kom á 64. Mínútu eftir að Amad pressaði boltann af miðverði Everton, og renndi honum á Zirksee sem kláraði auðvelt færi.
Þetta er allt að koma
Slagorð sem gagnaðist Framsóknarflokknum takmarkað, en á við stöðuna á leikmannahópi United. Harry Maguire spilaði 40 mínútur í dag og biðin styttist í Leny Yoro með hverjum deginum. Gallinn er að Martinez hafi krækt sér í leikbann. Líklegt virðist að Luke Shaw, sem kom inn um leið og Maguire, fái traustið vinstra megin í vikunni.
Ó þá náð að eiga Amad
Hann er eiginlega búinn að vera framúrskarandi síðan hann skoraði sigurmarkið gegn Liverpool í bikarnum í vor. Hann fór illa með varnarmenn Everton í dag, pressaði af þeim boltann eða skildi þá eftir í reyknum. Tvær stoðsendingar segja sína sögu um að hann tekur skynsamlegar ákvarðanir með boltann.
Halló Rashford!
Árið í fyrra var slæmt en hann hefur kannski ekki alveg notið sannmælis, 5 mörk og 3 stoðsendingar í 20 leikjum, fyrir daginn í dag, er engin hörmung. En hann er kominn með 3 mörk í 2 deildarleikjum hjá nýjum þjálfara. Mörkin voru tvö í dag og hann var líflegur með hlaupum og hraða.
Samkeppni innan hóps
Ruben Amorim hefur verið duglegur að hræra í liðinu, einkum sóknarlínunni fyrstu leikina. Það er í lagi því honum virðist vera að takast að skapa þá samkeppni sem þarf þannig allir séu á tánum þegar þeir fá tækifæri. Það hjálpar að hafa alla heila þannig menn þurfi virkilega að leggja sig fram til að fá að vera með aftur.
Þú líka, Zirksee
Talandi um samkeppni, þá var Joshua Zirksee flottur í dag, framherjinn sem ekki hafið skorað síðan á fyrsta leikdegi. Hann var fyrir aftan Rashford í dag og átti skínandi leik. Fyrir utan mörkin tvö þá sýndi hann sem talað var um þegar hann var keyptur í sumar, að þarna væri öðruvísi framherji með hæfileika til að tengja vel saman spil. Zirksee virtist hafa góða yfirsýn og fann samherja, einkum Amad, oft í góðum svæðum eins og þriðja markið var dæmi um.
Hvað þýða úrslitin?
Everton hafði verið á ágætu skriði síðustu vikur og sérstaklega varist vel. Það er því ánægjulegt að hafa brotið það sannfærandi niður, seinni hálfleikurinn í dag var vel spilaður. Það verður samt að halda fólki áfram á jörðinni, xG hlutfallið var ekki nema 0,73 gegn 0,65.
United færist með sigrinum upp í efri helming deildarinnar, í fyrsta sinn í alltof langan tíma. Liðið er með 9. Sæti, jafnt Newcastle og Aston Villa að stigum en með besta markahlutfallið. Stigi fyrir ofan eru Brentford og Tottenham auk þess sem ekki þarf nema eina umferð til að ná Nottingham Forest. En það er líka jafnstutt niður í Bournemouth 13. sæti.
Hvað næst?
Desember er mánuður hinna mörgu leikja og United spilar á miðvikudagskvöld útileik gegn Arsenal en Nottingham Forest mætir á Old Trafford næsta laugardag.