Chelsea - Manchester United

Chelsea á Stamford Bridge á morgun

skrifaði þann 22. október, 2016

Chelsea - Manchester UnitedLeikjahrinan spennandi heldur áfram á morgun klukkan 3, þegar United fer til London og mætir Chelsea á Stamford Bridge.

Eftir jafnteflið á Anfield á mánudaginn búast mörg við því að United mæti til að spila stífan varnarleik. Sú skoðun lítur framhjá því að mestan hluta fyrri hálfleiks gegn Liverpool átti United leikinn og spilið fór að mestu fram á vallarhelmingi Liverpool. Það ásamt frískum leik á fimmtudaginn ætti að sýna að það er engin ástæða til að gefa sér það fyrirfram að leikurinn á morgun verði eins og síðari hluti Liverpoolleiksins. Það er engu að síður alveg á hreinu að það verður lagt upp með að þegar United þarf að verjast þá verði varnarleikurinn eins öruggur og hægt er

Ef leikurinn á fimmtudaginn sagði okkur eitthvað þá var það að Paul Pogba er mun betri þegar hann spilar aðeins aftar á vellinum en á móti Liverpool og að Juan Mata ætti að vera sjálfvalinn í liðið

Ég ætla því að vona að liðið muni líta svona út

1
De Gea
17
Blind
12
Smalling
3
Bailly
25
Valencia
6
Pogba
21
Herrera
18
Young
8
Mata
19
Rashford
9
Zlatan

Það er að vísu smá vafi á hvort Smalling verði búinn að ná sér eftir meiðsli í leiknum á fimmtudaginn. Þá fer Blind eflaust í miðvörðinn og Shaw kemur inn.

Stamford Bridge er ekki happasælasti útivöllur United síðustu árin. Frá því að Abramovitsj tók yfir hefur United leikið 17 leiki þar, tapað 10, gert 5 jafntefli og unnið aðeins tvo, meistaradeildarleikinn 2011 og þennan frábæra leik árið 2012.

Sagan er því ekki með United en það er ekki eins og liðið fari inn á völlinn með mark í mínus fyrirfram útaf sögunni. Gengi Chelsea í haust hefur verið nokkuð gott, en þeir hafa þó tapað fyrir Liverpool og Arsenal. Nýji stjórinn, Antonio Conte hefur breytt liðinu síðustu tvo leiki yfir í sitt uppáhaldskerfi, 3-4-2-1. Þannig má búast við að Azpilicueta og Cahill nái að bjarga því ef David Luiz fer að gera einhverjar gloríur í vörninni. Í síðasta leik liðsins móti Leicester voru Victor Moses og Marcos Alonso gríðarlega sterkir og United verða að vera viðbúnir þeim.

Courtois
Cahill
David Luiz
Azpilicueta
Alonso
Matic
Kanté
Moses
Hazard
Pedro
Costa

Miðjubaráttan verður áhugaverð, Kante er ekki búinn að vera jafn áhrifamikill og hann var hjá Leicester en Herrera verður að spila jafn vel og hann gerði gegn Liverpool til að taka á Eden Hazard sem er að spila gríðarvel þessa dagana.

Að þessu öllu sögðu býst ég við frekar varnarsinnuðum leik af hálfu United. Ef Mata kemur inn í liðið fyrir Fellaini getum við samt vonast eftir að leikurinn verði frekar í stíl við fyrri hálfleikinn gegn Liverpool, og að Pogba og Zlatan verði ekki jafn slakir og þeir voru í þeim leik.

Ef þetta gengur upp þá ætla ég að vera djarfur og spá því að United fari frá London með öll stigin þrjú!

P.s. Mér er sagt að José Mourinho hafi einhvern tímann verið stjóri Chelsea. Það kann að hafa einhver áhrif á leikinn.

Manchester United 4-1 Fenerbache

skrifaði þann 20. október, 2016

Jæja, þetta var kærkomið.

Það var boðið til ágætis fyrirpartýs fyrir leik United og Chelsea um helgina þegar Fenerbache kíkti á Old Trafford með Robin van Persie í fararbroddi. Verkefni kvöldsins, þriðja umferð Evrópudeildarinnar.

Mourinho kom ekkert rosalega á óvart í liðsvali sínu. Hann Ákvað að hvíla Zlatan og aldrei þessu vant fékk Romero ekki sénsinn í markinu. Pogba fékk ekki hvíld en Martial, Rooney, Mata og fleiri snéru aftur.

1
De Gea
23
Shaw
3
Bailly
12
Smalling
36
Darmian
31
Carrick
28
Pogba
7
Lingard
8
Mata
11
Martial
10
Rooney

Bekkur: Romero, Fosu-Mensah, Rojo, Fellaini, Memphis, Rashford og Zlatan.

United byrjaði leikinn af krafti frá fyrstu mínútu. Fenerbache gat ekki spilað mikinn sóknarleik og varðist stærstan hluta leiksins. Það sem einkenndi fyrsta hálfleik leiksins var mjög áköf pressa United hátt á vellinum þannig að andstæðingarnir áttu í miklum erfiðleikum að byggja upp spil. Tyrkirnir færðu sig því aftar á völlinn og leyfðu United að halda boltanum.

Okkar menn potuðu og potuðu í vörn Fenerbache framan af fyrri hálfleik en gekk lítið að skapa opin færi. Eins og svo oft á síðasta tímabil var uppspil United aðeins of hægt og fyrirsjáanlegt. Liðið komst nokkrum sinnum í ágæta stöðu þegar leikmenn eins og Mata, Lingard, Pogba og Martial spiluðu hratt á milli sín en úrslitaákvörðunin klikkaði oftar en ekki.

Það breyttist þó á 30. mínútu þegar Michael Carrick sprengdi upp gestanna með klassísri Carrick-sendingu. Hann gaf gjörsamlega stórkostlega sendingu, svona 50-60 metra langa, inn fyrir vörn Fenerbache, beint á tærnar á Juan Mata sem var kominn einn í gegn. Mata féll í teignum eftir að Simon Kjær reyndi að komast í boltann. Hreint og klárt víti.

Pogba steig upp, tölti rólega að boltanum og setti hann öruggt í netið. 1-0. Akkúrat það sem þurfti.

Seinna mark United kom aðeins tveimur mínútum síðar og var ekki ósvipað því fyrra frá A-Ö. Juan Mata gaf yndislega stungusendingu inn fyrir á Martial sem var kominn einn í gegn. Aftur ýtti varnarmaður gestanna við okkar manna. Aftur var dæmt víti. Flestir bjuggust við að Pogba myndi skella sér á punktinn en Martial gerði það bara sjálfur og smellti boltanum á sama stað og Pogba. 2-0 og þar með var leikurinn eiginlega bara búinn.

United bætti þó við einu marki í viðbót fyrir lok fyrri hálfleik. Í uppbótartíma gaf Wayne Rooney fyrir frá hægri. Sendingin var þó fyrir aftan Lingard sem gerði samt fáránlega vel í að leggja boltann fyrir sig og út í teig þar sem Paul Pogba beið sultuslakur. Hann gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum í þaknetið fyrir utan teig. Frábært mark, frábær fyrri hálfleikur.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði, með marki. United vann boltann á miðjunni. Pogba kom boltanum á Wayne Rooney sem virkaði eins og batti með varnarmann gestanna í bakinu. Rooney kom boltanum á Lingard sem lét vaða af löngu færi og skoraði glæsilegt mark. 4-0.

Það gerðist fátt meira markvert í leiknum. Robin van Persie skoraði reyndar sárabótamark á 83. mínútu. Það var nú eiginlega bara skemmtilegt enda var maður farinn að vorkenna honum fyrir að þurfa að vera í frekar glötuðu liði. Old Trafford kættist við þetta mark og fagnaði van Persie vel. Skömmu áður hafði Mata næstum því bætt við fimmta markinu eftir frábæran undirbúning frá Memphis Depay sem kom inn í seinni hálfleik ásamt Marcos Rojo og Timothy Fosu-Mensah.

Mjög fínn sigur því staðreynd og United er komið á topp A-riðilsins á markatölu en Feyenoord vann sigur á Zorya Luhansk í hinum leik riðilsins.

Nokkrir umræðupunktar

  • Gegn Liverpool var Mourinho með Young og Rashford á köntunum og Pogba í holunni. Hér í dag var Martial á vinstri og Mata og Lingard róteruðu í holunni. Auðvitað var andstæðingurinn mun lakari en Liverpool og vitum að Mourinho vill vera varnarsinnaður í stóru leikjunum. Maður getur þó ekki annað en velt því fyrir sér hvort að þessi blanda sé ekki meira við hæfi. Martial kemur með gríðarlegan hraða Lingard og Mata ná svo fáranlega vel saman. Þeir eru ótrúlegir þegar þrengt er að þeim og ná alltaf að spila boltanum frá sér. Það opnar á Pogba sem var frábær í dag.
  • Juan Mata á bara að vera byrjunarliðsmaður í 99 prósent leikja. Hann er einfaldlega að spila þannig að það er ekki hægt að halda honum út úr liðinu. Hann spilaði aðalhlutverk í fyrstu tveimur mörkum og hefur verið prímusmótorinn í þeim leikjum sem liðið hefur verið að spila hvað best.
  • Wayne Rooney var frammi og stóð sig bara mjög vel. Þetta var hans besti leikur í langan tíma. Hann lagði upp fjórða mark United og átti stóran þátt í þriðja markinu. Hann spilaði frammi í kvöld og maður veltir því fyrir sér hvort að þetta sé ekki bara hans staða það sem eftir er af United-ferli hans.
  • Þeir sem komu inn stóðu sig mjög vel. Carrick var frábær að venju og mætti að ósekju alveg fá fleiri sénsa í deildinni. Það var einnig virkilega gaman að sjá Darmian og hann innkomu. Hann var öflugur í pressunni og steig varla feilspor varnarlega og minnti á þann Darmian sem hóf sinn United-feril. Hans besti leikur í langan tíma.

Tísthornið

Robin van Persie snýr heim á ný – Fenerbahçe kemur í heimsókn

skrifaði þann 19. október, 2016

Það er afskaplega skammt stórra högga á milli hjá United. Útileikur gegn Liverpool á mánudaginn var, heimaleikur gegn Chelsea á sunnudaginn og Pep kemur svo í heimsókn eftir viku. En áður en að við getum farið að huga að þessu þarf United að spila leik í Evrópudeildinni sem væri afskaplega fínt að vera laus við. Fenerbahçe er að koma á Old Trafford og með þeim kemur gamall félagi sem reyndist okkur vel. Robin van Persie.

Áður en að við rennum aðeins yfir tyrkneska liðið er við hæfi að kíkja aðeins á stöðuna í A-riðli Evrópudeildarinnar. Hún er nákvæmlega svona:

screen-shot-2016-10-18-at-23-06-54

Gestirnir á morgun sitja á toppi riðilsins eftir sigur á Feyenoord í síðustu umferð. Þeir gerðu hins vegar jafntefli gegn Zorya í fyrstu umferðinni. Feyenoord lifir enn á sigrinum gegn okkur í fyrstu umferð á meðan okkar menn eru með þrjú stig eftir sigur gegn Zorya um daginn.

Ætli Mourinho sér upp úr riðlinum, sem ég er ekkert endilega viss um að sé raunin, þarf helst að vinnast sigur á morgun gegn Fenerbahçe. Eftir leikinn á morgun verða tveir heimaleikir búnir og það verður ekki sniðugt að þurfa að fara til Tyrklands og Úkraínu í seinni umferðinni með það á bakinu að þurfa að sækja stig til að tryggja sér sæti í 32-liða úrslitum.

Allir klárir á stöðunni í riðlinum? Ok. Skoðum þá aðeins söguna.

Sagan

Það er ogguponsu saga á milli þessara liða og það eru helst tveir leikir sem koma upp í hugann, báðir í Meistaradeildinni. Sá fyrri átti sér stað fyrir rétt tæpum 20 árum, 30. október 1996. Þá mættu Tyrkirnir í heimsókn á Old Trafford sem þá var óvinnandi vígi fyrir andstæðinga okkar í Evrópu. Bókstaflega því að Manchester United hafði, fyrir þann leik, aldrei áður tapað heimaleik í Evrópukeppni. Met sem hafði staðið í 40 ár og leikmenn eins og Alfredo di Stefano og Diego Maradona, lið eins og Real Madrid og Barcelona höfðu komið og farið, án sigurs.

Þangað til Fenerbahçe kom í heimsókn. Mark frá Elvir Bolic 13 mínútum fyrir leikslok tryggði fyrsta tap United á heimavelli í Evrópukeppni frá upphafi. Ótrúlega súrt.

Seinni leikurinn sem ég vil minnast hér var þó örlítið skemmtilegri. Það var í september 2004 og Sir Alex hafði nýlega splæst í einn ungan dreng sem hefur gefið okkur svo margar gleðistundir. Sú fyrsta kom gegn Fenerbahçe.

Rooney gekk til liðs við United glímandi við örlítil meiðsli sem varð til þess að fyrsti leikur hans frestaðist örlítið. Í viðtali við Manutd.com rifjaði hann leikinn upp fyrir ekki svo löngu síðan. Þar sagði hann að hann hefði verið tilbúinn að spila leikinn helgina fyrir viðureignina við Tyrkina. Sir Alex hélt nú ekki og ef ég þekki okkar mann rétt hefur það heldur betur kveikt í kallinum.

Restina þekkja menn náttúrulega. Rooney kom inn og skoraði einhverja eftirminnilegustu þrennu seinni ára. Stjarna var fædd, söguna þekkjum við mætavel.

Allir klárir á sögunni? Ok, skoðum þá aðeins Fenerbaçhe.

Fenerbahçe

Andstæðingur morgundagsins er sögufrægur klúbbur. Einn af þeim sigursælustu í Tyrklandi og er að sjálfsögðu starfandi í Istanbúl eins og allir stærstu klúbbar Tyrklands. Fenerbahçhe er í raun miklu meira en bara knattspyrnufélag en innan félagsins er starfrækt sunddeild, blakdeild, körfuboltadeild, siglingadeild og margt, margt fleira.

Félaginu gekk afskaplega vel á síðasta tímabili og lenti í öðru sæti deildarinnar, ekki nema fimm stigum frá meisturum Besiktas. Það þýddi að liðið fékk sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar datt liðið reyndar út gegn Monaco og átti það heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér.

Stjórnarmenn liðsins virðast ekki hafa verið neitt sérstaklega kátir með það og ráku þjálfara liðsins, Vitor Pereira, nánast á staðnum eftir leikinn. Við tók Dirk Advocaat sem síðast afrekaði nákvæmlega ekki neitt með Sunderland. Þeir eru ekki mikið fyrir stöðugleikann þarna í Tyrklandi líkt og nýleg byltingartilraun þar í landi vitnar um en Advocaat er 12. stjóri liðsins á síðustu 15 árum.

Þjálfaraskiptin voru þó ekki einu sviptingarnar í upphafi tímabils. Heill hellingur af leikmönnum lét sig hverfa á milli tímabil og heill hellingur af leikmönnum kom í staðinn. Meðal þeirra sem yfirgáfu bátinn voru Nani, sem fór til Valencia, Raul Meireles og Bruno Alves. Allt Portúgalar sem er ef til vill ekki tilviljun miðað við að forveri Advocaat er Portúgali.

Inn komu miklar hetjur á borð við Gregory Van der Wiel, Martin Skrtl og Jeremain Lens en skoði maður hóp liðsins undanfarin ár má alveg segja að liðið sé ákveðin ruslakista fyrir leikmenn sem muna mega sinn fífil fegri. Það er þó einn leikmaður sem stendur upp úr og það er Robin van Persie, sá mikli meistari. Hann er langbesti maður liðsins og mörkin hans komu liðinu langleiðina að titlinum á síðasta tímabili, eitthvað sem við könnumst ágætlega við.

En þrátt fyrir Van Persie hefur gengið brösuglega á tímabilinu hingað til og mögulega þjálfaraskiptin og þessar miklu breytingar á leikmannahópnum eitthvað að gera með það. Liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki í deildinni og er í níunda sæti með 9 stig eftir 7 umferðir, átta stigum á eftir toppliðunum þremur.

Að öðru leyti ætla ég ekki að þykjast vita mikið um þetta Fenerbaçhe-lið en ég get þó sagt ykkur það, lesendur góðir, að liðið stillti svona upp í síðasta leik og þeir munu án efa stilla upp á svipaðan hátt gegn okkur á morgun.

Demirel
Kaldirim
Skrtl
Kjær
Van der Wiel
Souza
Topal
Sen
van Persie
Potuk
Emenike

Allir klárir á Fenerbaçhe? Ok, kíkjum þá aðeins á okkar menn.

United

Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af Evrópudeildinni en hún hefur þó þann ótvíræða kost að þá ættu þeir leikmenn sem minna hafa spilað að fá séns til þess að sanna sig og gefa leikmönnunum sem meira mæðir á tækifæri til þess að hvíla sig.

Mér finnst Mourinho ekki hafa nýtt sér þetta nógu vel. Pogba hefur byrjað báða leikina til þessa og Zlatan byrjaði síðasta leik. Að mínu mati eiga þessir leikmenn að vera víðsfjarri byrjunarliðinu í þessari keppni og þá sérstaklega Zlatan.

Liðið spilaði leik á mánudaginn sem tók án efa gríðarlega á bæði á líkama og sál. United spilaði mjög agaðan leik og flestir ef ekki allir gáfu sig 100% í leikinn. Framundan er virkilega erfið leikjatörn enda Chelsea og City handan við hornið. Það er því afar mikilvægt að rótera vel á morgun. Hvað er það versta sem gæti gerst? United dottið úr Evrópudeildinni? Hræðilegt alveg hreint.

Ég vil því hvíla Zlatan, Pogba, Smalling, Blind og Ander Herrera sem átti einhvern besta leik sem ég man eftir hjá einum leikmanni gegn Liverpool. Inn mega koma leikmenn sem hafa fengið færri tækifæri á tímabilinu í bland við þá leikmenn sem hafa verið að rótera. Æskilegt byrjunarlið væri því eitthvað á þessa leið.

1
De Gea
23
Shaw
3
Bailly
5
Rojo
36
Darmian
16
Carrick
28
Schneiderlin
14
Lingard
10
Rooney
8
Mata
19
Rashford

Umræðan í kringum United er svona í neikvæðari kantinum eftir jafnteflin tvö gegn Stoke og Liverpool og því væri ágætt að fá einn þægilegan sigur svona áður en að farið er út í leikina gegn Chelsea og City. Hvernig væri það?

Leikurinn er á morgun og hefst klukkan 19.00. Hann er í beinni á Stöð 2 Sport 2 og líklega á flestum betri öldurhúsum landsins.

Liverpool 0:0 Manchester United

skrifaði þann 17. október, 2016

Það óvæntasta við byrjunarliðið var að Ashley Young var mættur á vinstri kantinn. Mata og Lingard settust á bekkinn en Fellaini kom inn á. Byrjunarliðið var svona:

1
De Gea
17
Blind
12
Smalling
3
Bailly
25
Valencia
27
Fellaini
21
Herrera
18
Young
6
Pogba
19
Rashford
9
Zlatan

Varamenn: Romero, Rojo, Shaw (92′), Carrick, Lingard, Mata, Rooney (77′)

 

Byrjunarlið Liverpool var svona:

1
Karius
7
Milner
6
Lovren
32
Matip
2
Clyne
23
Can
14
Henderson
10
Coutinho
11
Firmino
15
Sturridge
19
Mané

Varamenn: Mignolet, Klavan, Moreno (86′), Lucas, Grujic, Lallana (60′), Origi (86′)

Fyrri hálfleikur

Uppleggið hjá Manchester United til að byrja með virtist vera að hægja verulega á leiknum og hafa hann líkamlegan. Enda spilaði það inn á styrkleika Manchester United og kom Liverpool út úr sínu comfort zone. United var tilbúnari í baráttu um boltana og var að vinna fleiri bolta. Liverpool hjálpaði svo til með því að missa boltann klaufalega líkega þegar það var lítil pressa á þeim.

Liverpool var mun meira með boltann. United sýndi hins vegar meiri baráttu þegar kom í einvígi um boltann og vann fyrsta og annan bolta mun oftar en Liverpool. United áttu líka 5 fyrstu marktilraunir leiksins en þau voru reyndar langskot og trufluðu Karius í marki Liverpool lítið.

Í vörninni voru kantmenn United gífurlega agaðir, það má eiginlega segja að þeir hafi einfaldlega límt sig á bakverði Liverpool og dekkað þá út úr leiknum. Á meðan eltu bakverðir United kantmenn Liverpool inn að miðjum vellinum svo oft virkaði eins og United væri með 6 manna varnarlínu. Það virkaði líka vel til að draga úr hættunni af þessum frábæru kantmönnum Liverpool.

Ander Herrea var frábær í fyrri hálfleiknum og Bailly mjög duglegur að lesa sendingar Liverpool og komast inn í boltann. Pogba spilaði svo nánast sem fremsti maður. Náði ekki mikið að komast inn í sóknarleikinn hjá United eða stjórna honum en hafði töluvert að segja um varnarleik United í fremstu línu.

livmun16ht

Meðalstaða á snertingum leikmanna United í fyrri hálfleik

Seinni hálfleikur

Seinni hálfleikur byrjaði á svipaðan hátt. Eftir 10 mínútna leik átti Pogba stórhættulega fyrirgjöf beint á kollinn á Zlatan en Svíinn náði ekki að stýra knettinum að marki Liverpool. Hann hefði átt að gera betur þar því færið var gott. Hann þurfti reyndar að teygja sig mikið eftir boltanum en maður gerir miklar kröfur til Zlatan.

Þá fór nú að hressast yfir leiknum og David De Gea þurfti nokkrum mínútum síðar að sýna hvers vegna hann er besti markmaður í heimi með stórkostlegri markvörslu frá Emre Can. Klopp brást við því með að taka Sturridge af velli og setja Adam Lallana inn á völlinn. Liverpool hafði saknað Lallana í leiknum, sérstaklega þegar kom að hápressunni.

Það hafði mjög jákvæð áhrif á leik Liverpool sem byrjuðu jafnt og þétt að auka pressuna á vörn United. Þeirra lykilmenn náðu að spila boltanum mun betur saman á meðan baráttuandi Manchester United virtist dofna og leikmennirnir komnir heldur mikið á hælana. De Gea þurfti aftur að taka á honum stóra sínum til að verja stórgott skot frá Coutinho og það gerði hann mjög vel. Hafði haft lítið að gera fram að því en það fylgir starfinu hjá United að þurfa að halda fókus og vera tilbúinn á stóru augnablikunum.

Á 77. mínútu kom fyrirliðinn okkar svo inn á fyrir Rashford. Það varð samt engin taktísk breyting hjá liðinu heldur fór Rooney bara í stöðuna hans Rashford á hægri kantinum. Manchester United fékk sína fyrstu hornspyrnu á 81. mínútu, Blind tók hornið og Fellaini vann sinn skallabolta en stýrði boltanum framhjá markinu, engin teljandi hætta en hefði mátt nýtast betur.

Á 84. mínútu virtist Firmino vera að sleppa einn innfyrir vörn United en Valencia hljóp hann uppi og tók eina Ragga Sig tæklingu. Frábær tækling sem bjargaði algjöru dauðafæri. Á þessum tímapunkti voru pressan og hlaupin hjá Liverpool farin að segja til sín og leikmenn farnir að krampast upp. Það kom því tvöföld skipting á 86. mínútu þar sem Milner og Firmino fóru út af fyrir Moreno og Origi.

Það var svo mjög lýsandi þegar 2. mínúta af 3 í uppbótartíma var að klárast þá skipti Mourinho Young út af fyrir Shaw. Young gaf sér góðan tíma í að koma sér af vellinum á meðan Emre Can reyndi að hjálpa honum við það. Á þeim tíma, og raunar töluvert lengur í leiknum, hafði Manchester United aðallega verið að verja stigið sem þeir þó höfðu. Og það tókst, lokastaðan í leiknum var 0-0.

livmun16ft

Eftir leikinn

Ander Herrera var stórkostlegur í þessum leik. Hann var kóngurinn á miðjunni og átti hvað mestan þátt í að Liverpool náði ekki að spila sinn hættulega sóknarbolta. Tölfræðin hjá honum var frábær og svo var allt það sem mælist ekki með tölfræði líka framúrskarandi, baráttuandinn og eldmóðurinn sem hann sýndi. Eftir að Mourinho tók við Manchester United þá er nánast eins og við höfum fengið nýjan leikmann í Ander Herrea. Megi það halda áfram á sömu braut.

Aðrir sem voru flottir í þessum leik voru David De Gea, Anthonio Valencia og Eric Bailly. Að sama skapi fannst mér Fellaini ljómandi fínn í þessum leik. Hann hefur líklega gert nákvæmlega það sem hann átti að gera. Ef þú vilt koma andstæðingnum út úr þægindarammanum með því að hægja verulega á tempóinu í leiknum og láta finna vel fyrir þér, þá er Fellaini mjög góður í því. Hans hlutverk átti ekki að vera að skapa eitthvað í þessum leik, til þess voru mennirnir fyrir framan hann.

Vonbrigðin í þessum leik voru Zlatan og Pogba, þeir náðu ekki að komast almennilega í takt við leikinn. Þarna hefur maður á tilfinningunni að hefði leikurinn verið spilaður eftir áramót og liðin í svipuðum stöðum í deildinni þá hefði Mourinho tekið meiri áhættur, jafnvel skipt Mata inn á eða skipt um uppstillingu. En á þessum tímapunkti skiptir það meira máli fyrir Mourinho að United tapaði ekki leiknum.

Næsti leikur í deildinni er svo Chelsea á útivelli. Chelsea hefur ekki verið á sama fluginu og Liverpool svo það er ekki ólíklegt að Mourinho komi þangað með það sem fyrsta markmið að sækja 3 stig og sem annað markmið að verja stigið. Hefði einhver sagt mér fyrir þessa 2 leiki að markmiðið væri að sækja a.m.k. 4 stig þá hefði ég alveg skrifað upp á það. En verði markmiðið aftur að verja stigið framar öllu öðru þá get ég ekki sagt að maður verði mjög sáttur með það.

Twitterhornið

Liverpool heimsótt á Anfield annað kvöld

skrifaði þann 16. október, 2016

Liverpool - Manchester UnitedRisaslagur á mánudagskvöldi, klukkan 19:00. Erkifjendurnir í nágrannaborgunum Manchester og Liverpool. Rauðustu liðin í norðurhluta Englands. Rauðustu liðin á Englandi! Manchester United gegn Liverpool. José Mourinho gegn Jürgen Klopp. Paul Pogba gegn Jordan Henderson.

Liverpool hafa verið í fluggírnum í flestum leikjum haustsins á meðan okkar menn hafa sjaldan sýnt okkur sparihliðarnar. Síðan kom landsleikjahlé og það verður forvitnilegt að sjá hvað smá pása gerir fyrir þessi lið. Stjórarnir eru báðir miklir stemningskallar og það er ekki ólíklegt að þessi viðureign ráðist á því hvor stjórinn nær að mótivera sinn hóp betur.

Ég minni á 28. þátt Djöflavarpsins, podkasts Rauðu djöflanna. Við fórum vel yfir þennan leik og fengum Kristján Atla frá Kop.is í heimsókn til að ræða Liverpool.

Mótherjinn

Það var fyrir akkúrat ári síðan, 17. október 2015, sem Liverpool spilaði fyrsta leikinn undir stjórn Jürgen Klopp. Sá leikur var 0-0 jafntefli gegn Tottenham. Stuttu síðar kom kafli þar sem Liverpool fór á Stamford Bridge og vann þar 1-3, tapaði síðan heimaleik gegn Crystal Palace, 1-2, áður en liðið vann Manchester City á útivelli með 4 mörkum gegn 1. Þetta er nokkuð lýsandi fyrir óstöðugleikann hjá Liverpool síðustu misserin.

En í Jürgen Klopp hefur Liverpool fengið frábæran knattspyrnustjóra. Hann virðist smellpassa inn í þetta félag og það er eiginlega frekar óþolandi að Liverpool skuli hafa fengið svona skemmtilegan stjóra. Runólfur skrifaði góða grein þar sem hann stúderaði Klopp og það sem hann er að gera hjá Liverpool. Fyrir þá lesendur sem vilja kynna sér málin betur er óhætt að mæla með þeirri grein.

Staðreyndin er sú að Liverpool er núna með 3 stigum meira en Manchester United og geta með nógu stórum sigri á okkar mönnum farið í efsta sæti deildarinnar á markamun. Og þeir geta vissulega skorað mörkin. Fyrir þessa umferð var Liverpool markahæsta lið deildarinnar með Manchester City. Bæði lið höfðu skorað 18 mörk í 7 leikjum (2,57 mörk pr. leik), 5 mörkum meira en Manchester United.

En Liverpool hefur verið duglegt við að fá á sig mörk, 10 mörk í 7 leikjum. Áður en þessi umferð hófst þurfti að fara niður í 11. sæti deildarinnar til að finna annað lið sem var komið með tveggja stafa tölu af mörkum á sig (Watford með 13). Liverpool hefur ekki enn tekist að halda hreinu í deildinni, United hefur náð því tvisvar sinnum. Liverpool hefur einu sinni ekki náð að skora, í tapinu gegn Burnley. United hefur skorað í öllum sínum leikjum.

Það er því allt útlit fyrir það að við fáum mörk í þennan leik. Sem þýðir væntanlega markalaust jafntefli…

Okkar menn

Mourinho hatar ekkert að fara á Anfield og sækja 3 stig. Skiptir hann yfirleitt litlu máli þótt það þýði að leggja rútunni og nappa þessu svo, eða nýta sér þegar andstæðingurinn rennur…

Sumar byrjunarliðsstöðurnar eru alveg negldar niður fyrir þennan leik. Við vitum t.d. að De Gea mun alltaf byrja þennan leik og að Zlatan verður aðalmaðurinn á toppnum. En það eru nokkrar spurningar sem þarf að pæla í fyrir þennan leik.

Wayne Rooney

Síðast þegar Manchester United fór í heimsókn á Anfield í deildinni þá skoraði Wayne Rooney sigurmarkið í þeim leik. Wayne Rooney hefur skorað 6 mörk fyrir Manchester United gegn Liverpool, jafn mörg og Denis Law, Bryan Robson og Mark Hughes. Hann hefur spilað 21 leik gegn þeim í United-treyju, af núverandi leikmönnum United er aðeins Carrick með fleiri leiki (22). Næstur á eftir Wayne Rooney er De Gea með 13 leiki. Hann er því reynslumikill og hefur oftar en ekki spilað lykilhlutverk í þessum viðureignum.

En! Wayne Rooney síðustu mánaða hefur verið skugginn af þeim leikmanni sem hann var með Manchester United hér áður. Sífellt hefur fjölgað í þeim hópi stuðningsmanna sem hafa viljað sjá hann missa áskriftina sem hann hafði á byrjunarliðssæti. Og núna hefur það gerst, ekki bara hjá Manchester United heldur líka hjá enska landsliðinu.

Þótt það hafi kannski ekki haft merkileg áhrif hjá landsliðinu þá virðist það hafa haft áhrif á Manchester United. Það hefur losnað um Pogba og Mata blómstrar í holunni. En það þýðir samt ekki að Wayne Rooney geti ekki komið inn í þennan leik. Hann gæti það alveg. Hann er samt örugglega ekkert að fara að byrja þennan leik. Eða hvað? Nah… og þó.

Vörnin (hvað á að gera við Daley Blind?)

Valencia er að fara að starta þennan leik sem hægri bakvörður. Það þarf ekkert að pæla í því. Darmian hefur bara einfaldlega ekki verið að spila neitt að ráði og Fosu-Mensah er of ungur í stórleik eins og þennan. Valencia hefur líka verið nokkuð solid í byrjun tímabils og jafnvel átt mjög góða spretti.

Aðalpælingin varðandi varnarlínuna er hins vegar: á Daley Blind að byrja leikinn í miðverði, bakverði eða á bekknum?

Daley Blind var oft á tíðum frábær með Smalling í fyrra og náði einnig að mynda öflugt miðvarðapar með Bailly í byrjun þessa tímabils. Hann hefur einn besta fótboltaheilann í deildinni, hvað þá í liði Manchester United, og hefur sendingagetu sem er sjaldséð í öftustu línu liða.

En hann hefur sannarlega sína galla líka. Hann er hæææægur leikmaður. Og á það til að slökkva á sér, þegar hann gerir mistök þá líta þau oftar en ekki hræðilega illa út fyrir hann, samanber í leiknum gegn Manchester City.

Þegar hann er með kveikt á heilanum er hann þó alltaf mun fljótari að hugsa en hlaupa. Það hvernig hann les leikinn varð t.d. þýska landsliðinu innblástur í leið þeirra að heimsmeistaratitilinum. Það er mjög mikilvægur eiginleiki.

Síðustu leiki hefur hann verið að spila sem bakvörður. Luke Shaw er kominn aftur eftir meiðsli og veikindi. Það sem Shaw hefur umfram Blind er hraði. Og hraði er eitthvað sem sannarlega getur skipt máli þegar andstæðingurinn er Liverpool, lið sem gerir út á hraða, hlaup og læti. Hvort berstu við það með hraða eða yfirvegun, Shaw eða Blind?

Miðjan (er pláss fyrir Fellaini?)

Það er eitt sem er öruggt í öllum miðjupælingum: Paul Pogba byrjar leikinn. Annað er nokkurn veginn í lausu lofti. Vissulega hafa Herrera og Mata verið að spila vel með Pogba en er það nóg fyrir svona viðureign? Er það heppilegt gegn þessu liði sem hefur þennan spilastíl?

Marouane Fellaini. Nafn sem merkilega margir stuðningsmenn Manchester United þola ekki. Nafn sem nánast hver einasta stuðningsmanneskja Liverpool hatar af ástríðu. Fellaini kom til Manchester United 2. september 2013, daginn eftir að Manchester United tapaði leik á Anfield með marki frá Daniel Sturridge á 4. mínútu. Eftir að Fellaini kom til United hefur liðið spilað 9 leiki gegn Liverpool, Fellaini hefur spilað 7 þeirra. Fyrsti leikurinn var deildarbikarleikur í september 2013, þá spilaði Fellaini ekki. Hann hafði spilað deildarleik gegn Manchester City 3 dögum áður. Fyrir utan tilgangslausan (en mjög skemmtilegan) æfingaleik í Miami í ágúst 2014 þá hefur Fellaini spilað alla leiki gegn Liverpool síðan. Og hverja einustu mínútu í síðstu sex leikjum í röð, þar sem Manchester United hefur unnið 3, tapað 2 og gert 1 jafntefli.

Það er ástæða fyrir því að hann hefur spilað þessa leiki. Það er ástæða fyrir því að stuðningsmenn Liverpool hata Fellaini.

Það er gott að hafa Fellaini í slagsmálin, það er gott að hafa hann til að hafa alltaf einhvern til að senda á til að losa um hápressu, það er gott að hafa hann þarna til að láta litlu og fínlegu leikmenn Liverpool finna fyrir því, það getur bara verið ansi gott að hafa hann inni á vellinum. Jafnvel þótt hann sé ekki þessi flashy leikmaður.

En Mata og Herrera hafa líka alveg sýnt það að þeir geta komið á Anfield og látið Liverpool finna fyrir því. Og þeir hafa spilað nógu vel að undanförnu til að eiga skilið að byrja þennan leik.

Svo hvað verður það? Heldur Mourinho sig við 4-2-3-1 með 2 djúpa og einn í holu eða færir hann sig kannski í 4-3-3? Þurfum við Fellaini til að losa um hápressuna eða geta Pogba, Herrera, Mata og félagar einfaldlega spilað sig út úr henni?

Kantarnir

Ef það er eitthvað sem er nálægt því að vera öruggt varðandi kantana hjá United þá er það að Rashford fær væntanlega sæti í byrjunarliðinu. Hann er bara það góður, í það góðu formi, með það mikið sjálfstraust og hefur sýnt að hann getur deliverað á stórum mómentum í stórum leikjum. Hann er líka uppalinn local lad sem veit nákvæmlega hvað þessi viðureign þýðir. Hann er snöggur og áræðinn leikmaður með flottar staðsetningar þegar hann tekur hlaup inn í teiginn án bolta, hann mun geta refsað vörn Liverpool og þess vegna þarf hann að byrja þennan leik.

Martial hefur verið í lægð að undanförnu, þótt hann hafi reyndar skorað glæsilegt mark í síðasta leik. Því myndi liggja beinast við að Rashford taki hans stöðu vinstra megin. En þá er spurning um hægri kantinn.

Lingard hefur verið að spila þar. Hann er góður í því hlutverki, jafnvel þótt hann hafi átt off dag gegn Manchester City. Hann er taktískt þenkjandi og frábær í varnarvinnu, bæði hátt á vellinum og þegar hann þarf að liggja aftar. Hann er góður í því að víxla á hlutverkum, eins og hefur sést t.d. á samvinnu hans og Mata. Hann er líka mikill stemningskall.

Talandi um Mata, það væri auðvitað séns að hafa Mata þarna hægra megin. Þá stöðu þekkir hann ágætlega hjá Manchester United, hann þekkir hana m.a.s. vel á þessum tiltekna velli. Það að hafa Mata úti hægra megin í þeirri stöðu að geta leyst inn á holusvæðið myndi skapa pláss á miðjunni til að bæta Fellaini við, sleppa jafnvel holunni alveg og þétta United-miðjuna þar fyrir aftan með 3 manna línu. Það mætti jafnvel setja Pogba í eins konar holuhlutverk, með meira frjálsræði fyrir aftan tvo dýpri leikmenn sem myndu sjá um að kovera vörnina og hjálpa svo til í sókninni.

Mkhitaryan er kominn aftur til æfinga eftir meiðsli. En eftir City leikinn þá efast ég um að hann sé raunhæfur möguleiki svona stuttu eftir meiðsli. Hef þó ekki misst trú á Mikka, hlakka til að sjá hvað hann getur.

Viðureignin

Í þessum leik mætast liðið sem hleypur mest á vellinum og liðið sem hleypur minnst. Eftir 7 leiki hefur Liverpool hlaupið samtals 814,8 km en Manchester United hefur hlaupið 735,6 km.

Í hverjum leik er Liverpool því að hlaupa að meðaltali 116,4 km. Manchester United er með 105,1 km pr. leik.

Það þýðir að hver leikmaður Liverpool hefur verið að hlaupa að meðaltali 10,6 km á móti 9,6 km að meðaltali frá leikmanni Manchester United. Inni í þeirri tölfræði eru markmenn liðanna. Markmenn liða í ensku deildinni hlaupa að meðaltali 5,6 km í leik. Sé það dregið frá fer meðaltal annarra leikmanna Liverpool yfir 11 km á meðan meðaltal annarra leikmanna Manchester United nær enn ekki 10 km pr. leik.

Munurinn á milli liðanna per leik eru 11,3 km. Það er eins og einn (Liverpool)leikmaður.

Þegar kemur að sprettum (e. sprints) þá er Liverpool einnig í efsta sæti, með 4.165 spretti eftir 7 leiki eða 595 spretti pr. leik. Manchester United er reyndar ekki í neðsta sæti þar heldur 8. sæti með 3.524 spretti, 503,4 spretti pr. leik.

Munurinn á liðunum hvað það varðar er rúmlega 90 sprettir per leik. Sem þýðir að á hverri einustu mínútu í venjulegum leiktíma er Liverpool að taka aukasprett á við Manchester United.

Öll þessi hlaup skipta auðvitað ekki eins miklu máli og það að skora mörk og vinna leiki. En þarna sést vel knattspyrnuheimspeki Jürgen Klopp. Hann vill láta liðin sín hlaupa það mikið að það virkar eins og það sé með aukamann inni á vellinum. Mourinho þarf því að finna svör við því. Annað hvort með því að láta Manchester United hlaupa meira eða með því að láta öll þessi aukahlaup Liverpool tapa tilgangi sínum.

Líklegt byrjunarlið

1
De Gea
17
Blind
12
Smalling
3
Bailly
25
Valencia
6
Pogba
21
Herrera
19
Rashford
8
Mata
14
Lingard
9
Zlatan

Ætla að spá því að Blind haldi sæti sínu. Til þess er leikskilningurinn bara of mikilvægur. Og sendingargetan er mikilvæg bæði upp á að losa um hápressu og þegar kemur að föstu leikatriðunum, sem ættu að geta reynst okkar mönnum hættulegt vopn í þessum leik.

Ég er engan veginn viss með miðjuna. Mér finnst ágætlega líklegt að Fellaini byrji en þar sem þessi miðja hér að ofan hefur verið að standa sig vel þá tel ég hana líklegasta. Vel agaður Herrera á að geta gert góða hluti og Mata gæti verið lykill í að refsa Liverpool í skyndisóknum.