United mætti City í bikarúrslitaleik FA bikarsins, keppninni sem er kölluð sú elsta og virtasta í Englandi. Það kom ekki mikið á óvart í uppstillingu Ten Hag fyrir leikinn nema kannski að Fred byrjaði leikinn, Eriksen byrjaði í holunni og Bruno út á kanti. Meiðsli eru náttúrulega enn að plaga United en Antony var frá, Martial meiddist í lokaræðu Ten hag eftir leikinn gegn Fulham og Martinez auðvitað enn meiddur.
Liðin
Lið Manchester United. Enginn Antony
Varamenn: Butland, Dalot, Maguire, Malacia, McTominay, Pellistri, Elanga, Garnacho, Weghorst
Lið City
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði vægast sagt illa en Ilkay Gundogan skoraði eftir aðeins 13. sekúndur. Menn á ölver voru enn að ná í fyrsta bjórinn og varla hægt að ímynda sér verri byrjun. Ortega spyrnti boltanum langt fram, Haaland vann skallaeinvígi, Fred var ekki alveg í sambandi og Lindelöf skallaði sendingu Haaland beint fyrir fætur Gundogan sem tók hann á lofti og smellti honum í netmöskvann. David De Gea var stóð límdur á marklínunni og þrátt fyrir að skot Gundogan hafi verið gott þá mátti De Gea alveg reyna að verja skotið, þar sem boltinn endaði ekki í samskeytunum. Jæja 1-0 fyrir City og útlitið ekki gott. United vann sig aðeins inn í leikinn en City var lengst af betri aðilinn, Haaland fékk tvö færi sem enduðu annars vegar í höndum De Gea og hins vegar talsvert yfir markið. Á 32. mínútu sendi Bruno boltann yfir á Wan-Bissaka sem var í hlaupi inn á teiginn, Wan-Bissaka skallaði boltann aftur inn á teiginn en boltinn endaði í höndum Ortega. United menn vildu þó meina að boltinn hafi farið í hönd Jack Grealish, nokkru seinna stoppaði Paul Tierney leikinn og fór í VAR skjáinn. Eftir smá skoðun í VAR skjánum var ákvörðunin ljós, VÍTI fyrir United. Bruno fór á punktinn og sendi Ortega í vitlaust horn, 1-1 og allt í járnum. Lítið gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Varane komst þó næst því að skora eftir að Casemiro fleytti áfram sendingu úr horni sem Varane náði að setja fótinn í en boltinn talsvert framhjá City markinu. 1-1 í hálfleik og þrátt fyrir hörmulega byrjun þá var ekkert sem skildi liðin að í hálfleik. City voru vissulega betri í fyrri hálfleik og héldu boltanum betur. United átti erfitt með að spila boltanum í gegnum fyrstu pressu City og oft enduðu United menn á því að láta De Gea sparka langt. Spánverjinn er ekkert sérstaklega góður að hitta á sína eigin samherja þegar hann bombar boltanum fram og oft á tíðum endaði boltinn bara hjá Ortega markmanni City. City sköpuðu sér þó ekki urmul færa og áttu erfitt með að brjóta vörn United á bak aftur svona eftir 13. sekúndu leiksins. Eriksen var líklegast slappasti leikmaður United í fyrri hálfleik og hefur ekki alveg verið hann sjálfur eftir meiðslin. Það átti sér galið atvik í lok fyrri hálfleiks þegar að Wan-Bissaka „braut“ á Grealish og fékk gult spjald, ég hef sjaldan séð mann grýta sér í jörðina við jafn litla snertingu og Grealish þar, en dómarinn ræður víst.
Seinni hálfleikur
Líkt og fyrri hálfleikinn byrjuðu City þann seinni betur og héldu boltanum vel. Á 50. mínútu braut Fred á Kevin De Bruyne út við hliðarlínu á vallarhelmingi United. De Bruyne tók aukaspyrnuna sjálfur, lyfti boltanum út fyrir teiginn þar sem Ilkay Gundogan beið, þjóðverjinn tók boltann í fyrsta og boltinn endaði í netinu, 2-1 fyrir City. Gundogan hitti boltann með legghlífinni og mann leið eins og hann væri heila eilífð að markinu. Mitt mat er að De Gea hefði átt að gera talsvert betur, það geta verið einhverjir markmanns sérfræðingar sem segja að hann hafi séð boltann seint. David De Gea er samt þekktur fyrir að vera shot stopper og að vera frekar lélegur í fyrirgjöfum, ef United á að fyrirgefa slappleika hans í fyrirgjöfum þá þarf hann að bæta það upp með því að verja svona skot. Það sem eftir lifði leiks reyndi United hvað þeir gátu en fengu ekki mikið upp úr því krafsi. Garnacho sem kom inn á fyrir Eriksen átti fína tilraun sem fór rétt framhjá markinu. Rashford átti fínt skot fyrir utan teig sem fór rétt yfir. Á loka mínútum leiksins skapaðist alvöru darraðardans inn í teig City þar sem Ortega varði vel, boltinn lenti ofan á slánni og McTominay sem kom inn á fyrir Lindelöf skallaði boltann í Rodri og í horn. City fengu líka ágætis færi í seinni hálfleik, De Bruney átti skot sem De Gea varði og Gundogan skoraði eftir að að De Gea varði skot frá Haaland en þjóðverjinn var klárlega rangstæður. Eftir 4 mínútna framlengingu sem varð 5 og hálf eftir tafir hja City leikmönnum flautaði Paul Tierney til leiks loka. Loka niðurstaða 2-1 fyrir City og þeir eiga enn séns á þrennunni.
City voru betri í leiknum en það United þurftu aðeins meiri heppni með sér í lið til þess að koma leiknum í framlengingu. Það er alveg augljóst að þetta City lið er betra en United liðið en það er samt ekki ósigrandi. Mér fannst vanta aðeins meiri ákefði og þrótt í United leikmennina, það hefði kannski ekki skilað sigri en bara að láta City leikmenn finna aðeins meira fyrir því hefði getað komið liðinu í framlengingu. Mörkin sem City skora eru bæði eitthvað sem á að vera hægt að koma í veg fyrir. Einbeitingarleysi á upphafs mínútum frá miðju- og varnarmönnum til markmanns er óásættanlegt í úrslitaleik. Seinna markið er líka einbeitingarleysi og markmannsmistök, það er það sem svíður mest að þetta er ekki City að vera „unplayable“ það er vel hægt að koma í veg fyrir þessi mörk.
Tímabil United er nú búið og nú hefst tímabil sem við United þekkjum of vel, að vera orðaðir við annan hvern leikmann í Evrópu. Fyrir mér, þrátt fyrir tap í þessum úrslitaleik, þá er Ten Hag á réttri leið með liðið og það verður spennandi að sjá liðið sem hefur næsta tímabil hjá Rauðu Djöflunum.