Það er varalið sem tekur á móti Watford en bekkurinn er sterkur
Varamenn: De Gea, Maguire 45′, Wan-Bissaka, Bruno, Fred, Matic 79′, Ighalo, Martial 66′, Rashford 66′
Það tók ekki langan tíma fyrir þetta varalið að komast yfir, Daniel James komst í gott færi á fjórðu mínútu sem var varið, og úr horninu skoraði fyrirliði dagsins, Scott McTominay með flottum skalla sem fór í jörðina og síðan í stöng upp við vinkil og inn, óverjandi.
United hélt uppi stöðugri pressu, komust hvað eftir annað inn í teig með fjölda sóknarmanna en var ekki búið að bæta við þegar Watford fékk allt í einu prýðisfæri. Masina komst í boltann eftir aukaspyrnu, Henderson blokkaði skotið vel og það var á leiðinni framhjá þegar Tuanzebe hreinsaði.
United hélt uppteknum hætti annars, pressaði stíft en það var þó ekki alveg laust við að Watford gæti sótt. Það var þó oftast auðvelt fyrir vörn United að stöðva það en eftir því sem leið á hálfleikinn komst Watford betur og betur inn í leikinn. Þegar hálftími var liðinn varð alls kyns darraðardans inni í teig eftir horn, Watford fékk síðan tvö í viðbót og loks var dæmd rangstaða. Ekki alveg nógu traust þó ekki hafi neitt orðið úr því í þetta sinn.
Það verður síðan að segjast sem var að Watford réði leiknum næstu tíu mínúturnar. Þeir nýttu það þó ekki og United komst aftur inn í leikinn og Juan Mata átti að skora þegar hann var kominn í gegn eftir frábæra hælsendingu Donny van de Beek en Bachmann varði mjög vel.
Dean Henderson var búinn að vera þokkalega öruggur en aðeins of ákafur stundum, tók tvisvar á rás út að hliðarlínu að reyna að komast í boltann gegn sóknarmanni, náði boltanum í annað skiptið en í hitt skiptið var næstum orðin hætta við markið, Bailly náði þó að hreinsa. Síðan rétt fyrir hlé fór hann út í bolta og hamraði hnénu í höfuð Eric Bailly. Bailly er alveg nógu brothættur þó ekki sé reynt að drepa hann og hann haltraði illa vankaður af velli.
Solskjær ætlaði að reyna að bíða en Watford sótti og fékk horn og þá tók hann enga sénsa og sendi Maguire inná. Hornið var slakt og United hreinsaði og með það var blásið til hálfleiks.
Seinni hálfleikur var aðeins minna líflegur. United sótti eitthvað en ógnin var lítil. Ekki bar mikið á Mason Greenwood og Dan James er Usain Bolt, fljótur og áhugasamur um fótbolta en ekki alveg með það sem þarf til að vera nógu góður.
Solskjær ákvað þá að hrista aðeins upp í þessu og gerði sjaldgæfa tvöfalda skiptingu um miðjan hálfleikinn, Martial og Rashford komu inná og Dan James og Mason Greenwood fóru útaf. Þetta breytti nú ekki of miklu þó Rashford ætti góðan sprett tíu mínútum fyrir leikslok, sem endaði með að Bachmann varði skotið.
Síðasta skiptingin var síðan að Matic kom inná fyrir Lingard til að þétta miðjuna
Það var sem sé afskaplega tíðindalítið allan seinni hálfleikinn og viðbótartíminn leið með aukaspyrnum fyrir bæði lið sem hvorug var nýtt á skynsaman hátt og United er komið í fjórðu umferð.