• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Newcastle á morgun

Björn Friðgeir skrifaði þann 1. desember, 2023 | 22 ummæli

Eftir þessi hrikalegu vonbrigði á miðvikudaginn er annar risaútileikur næstur á dagskrá. United fer til Newcastle og tekst á við Saudi United.

Meiðslalistinn hjá okkur er nokkurn veginn óbreyttur, Mason Mount er byrjaður að æfa en verður nær örugglega ekki með á morgun. Það var skynsamlegt að henda Mainoo ekki í djúpu laugina í İstanbul en hann verður að vera á miðjunni á morgun

Liðið verður því svona

24
Onana
23
Shaw
5
Maguire
5
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
37
Mainoo
39
McTominay
17
Garnacho
8
Bruno
10
Rashford
11
Højlund

Newcastle er líka í stökustu vandræðum, meiddir hjá þeim eru Jacob Murphy, Joe Willock, Matt Targett , Javier Manquillo , Harvey Barnes, Sven Botman, Elliot Anderson, Dan Burn (back) og Callum Wilson meiddir. Sandro Tonali er svo í nær árs banni vegna veðmángs.

Liðinu er spáð svo:

Pope
Livramento
Lascelles
Schär
Trippier
Joelinton
Guimarães
Miley
Gordon
Isak
Almírón

Newcastle hefur verið hrósað í vetur fyrir góða frammistöðu, en United er stigi á undan! Það er nauðsynlegt til að sveifla pendúlnum til baka úr umræðunni eftir Galatasaray leikinn að vinna á morgun eða í það minnsta tapa ekki. Það getur United haldið haus þokkalega hátt í deildinni

Leikurinn er kvöldleikur og hefst stundvíslega klukkan átta og við hvetjum ykkur öll að ganga á hæfilegum hraða um gleðinnar dyr!

22
Evrópudeildin

Galatasaray 3:3 Manchester United

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 29. nóvember, 2023 | 11 ummæli

Manchester United mætti Galatasaray í næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Erik ten Hag stillti upp áhugaverðu byrjunarliði en enginn Casemiro né Rashford voru í hópnum í dag. Sá enski í banni og sá brasilíski meiddur. Leiknum lauk með 3-3 jafntefli eftir bráðfjörugan leik, sérstaklega síðari hálfleik. Vonin lifir, en veik er vonin um að komast áfram í 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni.

24
Onana
23
Shaw
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
4
Amrabat
39
McTominay
17
Garnacho
8
Fernandez
21
Antony
11
Hojlund

Á bekknum voru þeir Bayindir, Heaton, Reguilon, Varane, Dalot, Gore, Mainoo, Mejbri, Martial, Pellistri og Hugill.

 

Fyrri hálfleikur

Leikurinn var þess merki strax frá fyrstu mínútu að mikið væri undir. United virtust öflugri fyrstu mínúturnar en heimamenn voru samt líflegir líka. Fyrsta færið leit dagsins ljós þegar United kom boltanum í teig af vinstri hluta vallarins og Garnacho renndi boltanum inn í markmannsteiginn.

Rasmus Hojlund, sem hefur verið magnaður í Meistaradeildinni fyrir United, tókst að komast fram fyrir varnarmanninn en hitti boltann ekki en fékk hann þess í stað aftan á kálfann eða í hælinn og upp fyrir sig og var nánast búinn að skapa annað færi fyrir sig um leið en boltinn útaf vellinum án þess að hann næði aftur til hans.

Embed from Getty Images

Skömmu seinna kom laglegasta spilamennska United í fyrri hálfleik þegar Antony fékk boltann á hægri kantinum og varði góðu korteri í að stoppa og horfa á Bruno Fernandes sem stóð einn og óvaldaður við vítateigshornið en ákvað að gefa ekki á hann heldur pota boltanum inn í teiginn.

Þar gerði Hojlund sig stóran og hlífði boltanum og lagði hann út á Bruno sem dróg varnarmennina í sig og renndi boltanum á eitt stykki argentískan táning að nafni Garnacho. Sá stutti var einn á auðum sjó, lagði boltann fyrir vinstri löppina og harmaði boltann af 9 metra færi upp í þaknetið þar sem Muslera í markinu kom engum vörnum við.

Embed from Getty Images

1-0 og United tók forystuna í þessum mikilvæga leik. Gestirnir voru reyndar nánast búnir að svara um leið. Þeir fengu gott tækifæri stuttu síðar þegar þeir fengu horn en Onana gerði virkilega vel í að loka búrinu. Hins vegar kom það næsta áhugaverða þegar Bruno fékk sendingu fyrir utan vítateig heimamanna í næstu sókn.

Enginn leikmaður Galatasaray virtist vita að sá portúgalski kann að skjóta af þessu færi því enginn virtist nálgast hann eða ætla að trufla hann að neinu leyti svo fyrirliðinn okkar ákvað að hamra hann inn í markið án mikillar mótspyrnu mótherjanna.

Embed from Getty Images

United hefði geta verið komið í 0-3 eftir að Rasmus Hojlund var að valda usla í síðasta þriðjungnum á vellinum og varnarmennirnir virstust ekki ráða við hann en þess í stað komust heimamenn í sókn sem endaði með því að Bruno Fernandes ákvað að taka Hakim Ziyech niður á frábærum stað rétt fyrir utan vítateiginn. Ziyech steig upp sjálfur og stillti boltanum á meðan United stillti upp í vegg og sömuleiðis heimamenn.

Þeir mynduðu vegg við hliðiná veggnum okkar en Ziyech skaut í það gat sem myndaðist þegar þeir færðu sig. Hefði átt að fara laflaust á markið og vera einfalt fyrir Onana í markmannshorninu en hann hafði stolið nokkrum metrum í hina áttina þegar skotið reið af. Hann rann til og boltinn lak í netið. Ótrúlegt mistök og allt í einu kom stressið aftur þegar staðan var orðin 1-2.

Embed from Getty Images

Galatasaray voru nálægt því að jafna metin skömmu síðar en Maguire gerði vel í að koma sér fyrir skot Icardi. Lengra komust þeir þó ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu og fór United inn í leikhlé með eins marks forystu. Hættulegustu menn heimamanna voru þeir Ziyech og Boey á hægri kantinum ásamt Mertens og Icardi en Zaha virtist vera í vasanum á fyrrum samherja sínum á vinstri vængnum.

Luke Shaw og Garnacho áttu í einhverjum erfiðleikum með að reikna út underlaps hjá Boey og virtust samskipti enska bakvarðarins og argentíska kantmannsins benda til þess að þeir hefðu ekki spilað saman áður.

 

Síðari hálfleikur

Fyrsta færi síðari hálfleiks lét ekki standa á sér. Dries Mertens átti þá fyrirgjöf af hægri vængnum en sem betur fer brást Kan Achan bogalistin og hann setti boltann í hliðarnetið úr stórgóðu færi. Heimamenn héldu áfram að vera með tögl og haldir í leiknum. United tókst þó að tengja saman gott spil og skapa smá hættu með fyrirgjöf frá Bruno en Muslera virtist ekki átta sig á fluginu á boltanum en tókst þó að blaka honum út í teiginn og Galatasaray tókst að losa boltann.

Embed from Getty Images

En svo hófst síðari leikur fyrir alvöru. Antony og Wan-Bissaka léku léttan þríhyrning á hægri kantinum og enduðu með að koma Wan-Bissaka í ákjósanlega fyrirgjafarstöðu. Þá mætti engin önnur en skoska hraðlestin á fleygiferð inn í teiginn og renndi sér á boltann og setti hann í netið. 3-1 og United aftur komið í bílstjórasætið í þessari viðureign.

Erik ten Hag gerði þá tvöfalda breytingu, Anthony Martial og Kobbie Mainoo inn á fyrir þá Amrabat og Hojlund. Marokkómaðurinn á gulu og Daninn að stíga upp úr meiðslum. Skynsamlegt í stöðunni. Heimamenn gerðu þá líka skiptingar, Ndombele og Mertens út fyrir Olivera og Akturkoglu þegar hálftími var eftir af venjulegum leiktíma.

Embed from Getty Images

Aftur braut Bruno Fernandes á Ziyech á sama stað fyrir utan teiginn með nákvæmlega sömu aðferð, narti í hælana. Það reyndist vera fyrirboði fyrir endurtekningu á því sem gerðist í fyrirhálfleik. Ziyech fiskaði aukaspyrnuna og tók hann og skoraði úr henni vegna mistaka hjá Onana. Það er hreint ótrúlegt hvað þetta mark var keimlíkt mark. Ótrúlegt með öllu. Martial virtist trufla hann með því að gera atlögu að boltanum en náði ekki til hans. En Kamerúninn átti að gera miklu, miklu betur.

Völlurinn tók við sér við þetta og það er erfitt að vera í þessari gryfju með 52 þús manns á móti þér og þurfa að hanga á forystu í hálftíma. Rétt nokkrum sekúndu síðar komst Akturkoglu í gráupplagt færi fyrir utan teig en Onana gerði betur þar og handsamaði boltann auðveldlega.

Embed from Getty Images

Heimamenn komust svo í stórhættulega skyndisókn þegar United pressaði þá hátt á vellinum en þeir komu boltanum hátt upp hægri kantinn þar sem Torreira renndi boltanum svo til baka út að vítateigshorninu þar sem Ziyech var mættur og reyndi að skrúfa boltann inn í fjærhornið en Onana stökk hátt og klófesti boltann örugglega. Áfram héldu heimamenn að þjarma að United og pressan jókst og stressið einnig.

Það tók ekki langan tíma fyrir heimamenn að jafna. Akturkoglu átti þá frábæran sprett þegar hann skildi Mainoo eftir og komst inn fyrir vörnina og hamraði boltann á nærstöngina og Onana kom engum vörnum við. 3-3 og vonir United að fjara út.

Embed from Getty Images

Tempóið snarjókst við þetta og komust liðin í álitlegar sóknir til skiptist næstu mínúturnar. Bæði lið þyrftu öll þrjú stigin til að styrkja stöðu sína og möguleika um leið á 16-liða úrslitunum. Garnacho komst í gott færi þegar United komst í álitlega sókn 4 á 3 en skot hans rétt framhjá. Aftur komst United í góða sókn strax í kjölfarið en McTominay bar boltann í átt að teignum og átti gott skot en rétt framhjá. Allt í járnum.

Þá gerði ten Hag næstu breytingar þegar hann tók Garnacho og Wan-Bissaka útaf fyrir þá Diogo Dalot og Facundo Pellistri. United gerði orrahríð að marki heimamanna með skotum á þessum kafla leiksins en þau voru misgóð og mishættuleg. Pellistri tíjst að prjóna sig inn í teiginn og draga fjóra varnarmenn í átt að sér en ákvað að skjóta sjálfur í stað þess að renna boltanum út á samherja sem hefði verið betra í stöðunni.

Embed from Getty Images

Þetta kvöld virtist stefna í jafntefli sem gerði lítið fyrir bæði liðin. United yrði þá að treysta á heimasigur gegn Bayern og Galatasaray þyrfti að treysta á útisigur gegn FCK.

Næst fékk Wilfred Zaha færi þegar hann var með boltann fyrir framan d bogann og smellti boltanum beint í fangið á Onana sem var fljót að koma boltanum í leik og United brunaði í sókn. Dalot bar boltann upp hægri vænginn og renndi honum svo út á Bruno sem hafði allan tímann í heiminum og lagði hann fyrir sig og hamraði boltann í stöngina og aftur fyrir endamörk.

Það var eins og að verið væri að horfa á góðan tennisleik. United komst aftur í góða sókn þegar Martial sendi boltann á Pellistri sem náði að koma boltanum aftur á Martial sem bjó sér til smá pláss og var að hlaða í skotið en missti hann aðeins of langt frá sér og boltinn barst út fyrir teig þar sem McTominay átti slakt skot yfir markið.

Embed from Getty Images

Aftur kom stórhættuleg færi United þegar Dalot renndi boltanum inn í markmannsteiginn þar sem Pellistri var að reyna koma boltanum á markið en Muslera og Torreira náðu einhvern veginn í sameiningu að loka á hann og halda liðinu í leiknum. United gerði gríðarlega harða atlögu að marki heimamanna í uppbótartímanum en tókst ekki að nýta sér það.

3-3 er niðurstaðan og fyrir hlutlausa var þessi leikur fínasta skemmtun. United getur gengið sátt frá borði með stigið en stór spurning verður sett við Onana í þessum viðureignum við Galatasaray í Meistaradeildinni. Fyrstu tvö mörkin skrifast á hann og United kasta frá sér tveggja marka forystu í tvígang. Þessar aukaspyrnur voru jafn mikil óþarfi og derhúfa í gaddinum í janúar og fyrirliðinn verður að líta í eigin barm þar sem hann gaf þær báðar á silfurfati.

Embed from Getty Images

Núna stendur riðill þannig að United þarf að treysta á að Galatasaray fari ekki með sigur af hólmi í næstu umferð á útivelli gegn FCK. Þá þurfum við að sigra Bayern á heimavelli en þeir hafa ekki tapað leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í síðustu 36 leikjum. Þannig að brekkan er orðin að þverhnípi en frammistaðan í kvöld var aðdáunarverð sé tekið inn í reikninginn hve mikið var undir, ferðalag liðsins, erfiður heimavöllur og fjarvera lykilleikmanna. Í raun mjög góð frammistaða hjá útileikmönnum liðsins en því miður brást rammaverndarinn.

Næsti leikur liðsins er leikur gegn Newcastle í deildinni á erfiðum heimavelli þeirra, St. James’s Park. Glory, glory!

 

 

 

 

Efnisorð: Alejandro Garnacho Bruno Fernandes Galatasaray 11
Evrópudeildin

Duga eða drepast í Tyrklandi!

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 28. nóvember, 2023 | 2 ummæli

Galatasaray - Manchester UnitedÞá er komið að næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en United á eftir útileik við Galatasaray og heimaleik í lokaumferðinni gegn Bayern Munich. Fyrir leik morgundagsins er liðið á botni A-riðils með einungis 3 stig úr heimasigri gegn FC Kaupmannahöfn. Liðið hefur tapað úti gegn FCK og Bayern og tapaði á heimavelli fyrir tyrkneska liðinu og stendur því eftir sem fyrr segir á botninum. Það er þó örlítill vonarneisti fyrir stuðningsmenn United ef liðinu tekst að kreista fram sigur gegn Galatasaray og FCK tapar fyrir Bayern á útivelli.

Þá væri liðið með 6 stig í öðru sæti riðilsins og þyrfti ákjósanleg úrslit úr síðustu umferðinni til að eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslitin. Fari hins vegar svo að United sigli ekki heim með stigin þrjú er liðið svo gott sem úr leik. Það er því sannkallaður úrslitaleikur í vændnum og nú er að duga eða drepast í Tyrklandi.

 

Manchester United

United hefur átt ágætisgengi að fagna í deildinni að undanförnu þó vissulega hafi frammistaða liðsins ekki kannski endurspeglað það. Úrslitin hafa ekki látið standa á sér en leikirnir hafa ekki verið glæsilegir ef frá er talin síðasta viðureign þar sem Alejandro Garnacho ákvað upp á sitt einsdæmi að bjóða í sannkallaða 5-sekúndna flugeldasýningu í formi hjólhestaspyrnu af dýrustu gerð. Henni var svo fylgt eftir með tveimur mjög góðum mörkum, fyrsta sem kom úr vítaspyrnu eftir að Martial var felldur í teignum og það þriðja kom eftir huggulegt samspil liðsins þar sem Frakkinn rak svo endahnykkinn á með laglegu vippumarki.

Embed from Getty Images

Liðið hefur unnið 5 af síðustu 6 deildarleikjum og er búið að klifra upp töfluna hægt og sígandi en alls ekki með neinum glæsibrag og því kannski ekki margir stuðningsmenn sem eru hoppandi hæð sína af kæti yfir spilamennsku liðsins þó sigrar hafi unnist.

En í öðrum keppnum hefur ekki gengið vel (og í raun gekk alls ekki vel í deildinni framan af leiktíðinni) en United hefur runnið á rassgatið í öðru hverju skrefi þar. Liðið flaug út úr deildarbikarnum gegn Newcastle sem gerðu 8 breytingar á sínu liði og svo hafa Galatasaray og FCK unnið sitthvorn leikinn gegn okkur í Meistaradeildinni og eru með stigi meira en við en sambærilega markatölu. Rasmus Hojlund hefur verið okkar besti leikmaður í Evrópukeppni en Onana hefur líka spilað stóra rullu en bæði jákvæða og neikvæða þegar kemur að viðureignum í Meistaradeildinni.

Embed from Getty Images

En núna er Daninn meiddur og óljóst hvort hann verði með og því eru allar líkur á að Martial leiði línuna. En áður en við lítum á spá fyrir liðsuppstillingu er vert að líta til hvernig viðureignir United gegn tyrkneskum liðum hafa reynst okkur. Liðið mætti Bursaspor í Meistaradeildinni 10/11 en United sigraði 3-0 heima og 0-1 úti. Þá mætti liðið Besiktas á tímabilinu á undan en liðið skiptust þá á 1-0 sigrum á útivöllum. Fenerbache mættu okkur 96/97 en United tætti þá gjörsamlega í sig í frumeindir, fyrst 0-2 á útivelli og svo 6-2 á Old Trafford. Þessi lið mættust svo aftur í Evrópudeildinni 16/17 þar sem United vann heimaleikinn 4-1 en tapaði 1-2 í Tyrklandi.

Embed from Getty Images

Það var svo árið 1993 þegar United mætti á heimavöll Galatasaray þar sem heimamenn tóku á móti okkar mönnum með orðunum „Welcome to Hell“ eftir að liðin höfðu gert 3-3 jafntefli á Old Trafford. Síðari viðureign liðanna endaði þó með markalausu jafntefli og það var ekki fyrr en 2012 sem Galtasaray tókst að sigra gegn United 1-0 á heimavelli. Var það þá í fyrsta sinn sem þeir skoruðu gegn Rauðu djölfunum frá því 1993 en milli þessara leikja mættust liðin fjórum sinnum.

En þeim tókst að skora þrjú mörk á Old Trafford í október og það verður því ansi strembið að mæta á svona erfiðan útivöll í miðri viku og eiga Newcastle sem virðast vera í fantaformi um næstu helgi.

24
Onana
23
Shaw
2
Lindelöf
5
Maguire
29
Wan-Bissaka
37
Mainoo
39
McTominay
17
Garnacho
8
Fernandez
21
Antony
10
Rashford

Ég spái því að ten Hag vilji fá sinn mann á hægri vænginn fyrir varnarvinnuna sem hann skilar. Garnacho var verulega duglegur um allan vinstri hluta vallarins um helgina og tel ég að hann muni halda sæti sínu og því komi stjórinn til með að setja Rashford upp á toppinn og Brassinn fái tækifærið í Tyrklandi.

Mainoo ætti að byrja eftir þessa glæsilegu frammistöðu á sunnudaginn en það verður að hafa það í huga að þetta er táningur og ekki eðlilegt að gera þær kröfur á hann að byrja leiki svo ört þó við værum líklegast öll til í að sjá meira af honum enda ferskur andblær inn í þetta United lið um þessar mundir.

Embed from Getty Images

Svo er það virkilega gott að vera kominn aftur með Luke Shaw í bakvörðinn eftir þessi meiðsli en ég tel líklegt að Wan-Bissaka byrji á hinum enda varnarinnar. Hann var hvíldur í deildarleiknum enda kannski búist við því að United yrði meira með boltann en í þessum leik verður varnarvinnan að vera skotheld og hann er að mörgum talinn sterkari varnarlega en portúgalski samherjinn hans.

Varnarlína United hefur reyndar haldið hreinu í nokkrum af síðustu leikjum sínum en það verður að stimplast örlítið á heppni eða getuleysi mótherjanna til að klára færin sín því nóg fengu t.d. Everton menn af færum um helgina. En Lindelöf og Maguire hafa þó verið að stíga upp í fjarveru Varane og Martinez og nú virðist sá franski ekki eiga aftur leið inn í liðið. Spurning hvort ten Hag vilji ekki rugga bátnum of mikið í öftustu línu.

 

Galatasaray

Heimamenn í Galatasaray stálu sigrinum gegn okkur á Old Trafford eftir að United komst tvívegis yfir í leiknum. Casemiro fékk rautt spjald í leiknum og skömmu síðar komust þeir yfir og United gerði ekki nægjanlega mikið til að ná stigi úr þeim leik. Heima í Tyrklandi er Galatasaray eitt af stórveldunum og hafa þeir, ásamt Besiktas og Fenerbache verið í sérklassa undan farna áratugi. Liðið situr í 2. sæti með jafnmörg stig og Fenerbache sem er í fyrsta en með betri markatölu. Þeir hafa unnið alla sex heimaleiki sína og unnið fimm útileiki og hafa einungis tapað einum og eru með eitt jafntefli í útileikjum í deildinni  á tímabilinu.

Embed from Getty Images

Eina liðið sem hefur sigrað þá á útivelli var Bayern Munich sem lentu reyndar undir til að byrja með en skriðu yfir línuna að lokum og unnu 2-1 sigur. Við FCK gerðu þeir svo 2-2 jafntefli á þessum velli en voru 0-2 undir þar til á 86. mínútu þegar þeir skoruðu tvö mörk á tveggja mínútna kafla. En nú er komið að okkar mönnum og þeir hafa harma að hefna og sjálfsagt enginn meira en Andre Onana sem átti arfaslakan leik gegn þeim á heimavelli.

Galatasaray hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar að undanförnu en í liðinu má sjá leikmenn á borð við Tete, Wilfred Zaha, hinn skrautlega Mauro Icardi, Davinson Sanchez og fyrrum Man City bakvörðinn Angelino. Lucas Torreira er fastamaður á miðjunni þeirra ásamt þeim Akturkoglu og Ayhan en það verður áhugavert að sjá hvernig Erik ten Hag stillir miðjunni upp á morgun sérstaklega í ljósi þess að þetta miðju-tríó valtaði yfir miðjuna okkar í síðustu viðureign liðanna. Miðjan okkar samanstóð af Mason Mount, Casemiro og Hannibal Mejbri en miðjubardaginn tapaðist algjörlega.

Embed from Getty Images

Á morgun geri ég hins vegar ráð fyrir því að sjá Dries Mertens í tíunni og Tanguy Ndombelé í stað heimamannanna ofangreindu. Óneitanlega öflugri og reyndari miðjumenn og því er á brattann að sækja fyrir okkar menn. Ndombele hefur þó ekki spilað nema 157 mínútur það sem af er leiktíð og því mögulega spilar Ayhan á morgun.

Icardi hefur verið langbesti leikmaður Galatasaray í vetur og reikna ég með því að hann verði hættulegastur heimamanna en Wilfried Zaha er einnig leikmaður sem United þekkir vel til enda hefur hann oftar en áður reynst okkur erfiður. En sem betur fer fyrir okkur eigum við mótefnið við honum en fyrrum samherji hans er einmitt Aaron Wan-Bissaka.

Embed from Getty Images

Bakvörðurinn átti einmitt hreint út sagt magnað tæklingu sem bjargaði marki þegar Zaha var kominn einn inn fyrir vörn United í leik með Crystal Palace á síðustu leiktíð. Í viðtali eftir leikinn lýsti Zaha einmitt því augnabliki þegar hann áttaði sig á því að köngulóin var að elta hann og sagði jafnframt að hann (Wan-Bissaka) væri sá eini sem getur náð svona tæklingum og við vonum að hann haldi uppteknum hætti, það er að halda aftur af Zaha, á morgun.

Okan Buruk er frekar vanafastur og ósveigjanlegur þegar kemur að liðsuppstillingum og því geri ég ráð fyrir að hann stilli upp í hefðbundið 4-2-3-1 og við sjáum liðið ekki ósvipað þessu:

Muslera
Angelino
Bardakci
Ayhan
Boey
Torreira
Ndombele
Zaha
Mertens
Yilmaz
Icardi

Leikurinn hefst klukkan 17:45 á morgun og Spánverjinn Jose Sanchez dansar um völlinn með flautuna en leikur Bayern og FCK hefst kl 20:00 en leikið er á Allianz vellinum, heimavelli Bayern. Við verðum að vona að Bæjarar geri okkur greiða og haldi áfram að vinna leiki í Meistaradeildinni og á sama tíma verðum við að hamra járnið á meðan það er heitt og taka öll þrjú stigin með okkur heim!

Embed from Getty Images

 

Efnisorð: Galatasaray 2
Enska úrvalsdeildin

Everton 0 : 3 Manchester United

Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann 26. nóvember, 2023 | 10 ummæli

United heimsótti særða Everton menn á Goodison Park í dag klukkan 16:30. Erik Ten Hag gerði nokkrar breytingar á liði sínu frá sigrinum á Luton fyrir landsleikjahlé. Luke Shaw var kominn aftur í byrjunarlið United, loksins loksins. Martial byrjaði þar sem Rasmus Hojlund er frá vegna meiðsla, en stóru fréttirnar voru að Kobbie Mainoo byrjaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Sjálfur var Erik Ten Hag í leikbanni og mætti með sixpensarann upp í stúku en Mitchell van der Gaag stýrði skútunni af hliðarlínunni. Eins og kom fram í upphituninni þá voru dregin 10 stig af Everton í landsleikjahléinu fyrir brot á Financial Fair Play (FFP). Stuðningsmenn Everton og klúbburinn eru talsvert ósátt við þessa refsingu þar sem ónefnt ögn ljósblárra lið 50 km í burtu liggur undir grun að brotið reglur FFP ögn oftar. Stuðningsmenn Everton héldu því uppi bleikum spjöldum sem á stóð „Corrupt“. Topp lið deildarinnar gerðu jafntefli um helgina, sem varð til þess að Arsenal tilti sér á toppinn og þá tapaði Tottenham, United gat því með sigri minnkað muninn í toppliðið niður í 6 stig og muninn í Tottenham í 2 stig.

 

Liðin:

United:

24
Onana
23
Shaw
2
Lindelöf
5
Maguire
20
Dalot
39
McTominay
37
Mainoo
17
Garnacho
8
B.Fernandes
10
Rashford
9
Martial

Bekkur: Bayindir, Varane, Reguilon, Wan-Bissaka, Amrabat, Hannibal, Pellistri, Van De Beek, Hugill

Everton:

1
Pickford
19
Mykolenko
32
Brantwaite
6
Tarkowski
18
Young
27
Gana
7
McNeil
37
Garner
16
Doucoure
11
Harrison
9
Calvert-Lewin

Bekkur: Virginia, Coleman, Godfrey, Danjuma, Chermiti, Patterson, Keane, Hunt, Dobbin

 

Fyrri hálfleikur

United byrjaði leikinn kröftulega svona eins og liðið hefur gert nokkrum sinnum á tímabilinu, liðið keyrði af strax í sókn sem þó ekkert varð. Stuttu seinna eða á annarri mínútu hélt liðið ágætlega boltanum hátt upp á vallarhelmingi Everton, sem varð til þess að Dalot fékk boltann frá McTominay í fínustu fyrirgjafastöðu. Portúgalinn slengdi boltanum fyrir en sendingin virtist þó vera of aftarlega fyrir Garnacho á fjærstönginni. EN VÁ VÁ VÁ, MAÐUR LIFANDI, GARNACHO DRENGUR HNEIGÐU ÞIG. Þvílík hjólhestaspyrna!!! Drengurinn sótti boltann á þriðjuhæð og smellti honum í fjærhornið, Pickford ekki nálægt boltanum og þó að hann væri með venjulega langa handleggi þá hefði hann samt ekki verið nálægt því að verja. Þetta fer niður sem eitt af bestu mörkum úrvalsdeildarinnar. 0-1 fyrir United og aðeins þrjár mínútur liðnar, svona mörk ættu samt eiginlega að gilda tvöfalt.

Næstu fimm mínútur í leiknum var eins og leikmenn inn á vellinum væru frekar að einbeita sér að því að leita að hökunni sinni eftir markið frekar en að spila fótbolta. Á þessum kafla var mikið um langar spyrnur og liðin héldu ekkert sérstaklega mikið í boltann. En það var svo Everton sem tók í raun völdin á vellinum, United liðið átti í stöðugum vandræðum með háspressu Everton og hasíteraðir stuðningsmenn bláliða byrjuðu að láta vel í sér heyra. Calvert Lewin átti máttlaust skot sem fór beint á Onana á 10. mínútu. Þrátt fyrir að Everton væri klárlega betri aðilinn þá skapaði liðið sér ekki mikið en á sama tíma skapaði United enn minna í þau fáu skipti sem liðið komst á seinasta vallahelminginn. Já United var eins og Arnar Gunnlaugs myndi orða það að „suffera“, sem er eiginlega galið á móti Everton.

Síðustu 15. mínúturnar af fyrri hálfleik náði Everton að skapa sér loksins ákjósanleg færi, Calvert-Lewin átti hættulegt skallafæri eftir horn á 31. mínútu, en skallinn tiltölulega beint á Onana. Aðeins mínútu seinna skoppaði boltinn heppilega fyrir títtnefndan Lewin sem átti fínt skot sem Onana varði vel, fyrrum United maðurinn James Garner komst í frákastið sem átti skot af stuttu færi sem fór af Onana og Maguire og var við það að leka í netið þegar að Kobbie Mainoo, kom eins og eimreið og hreinsaði boltann í burtu af línunni. Það virtist liggja mark í loftinu, mínútu síðar fékk Doucoure mjög fínt færi eftir lága fyrirgjöf en setti boltann talsvert framhjá. Tæplega tíu mínútum síðar fengu Everton tvö færi með mínútna millibili, annars vegar annað skallafæri hjá Lewin sem skallaði boltann yfir og hins vegar fínt skotfæri hja Idrissa Gana Gueye sem fór hátt yfir.

United lifði þó af og komst inn í hálfleik marki yfir og jahérna þvílíkt mark. United byrjuðu vel og af krafti en það var eins og allur vindur færu úr liðinu eftir þetta sturlaða mark Garnacho. Everton byrjaði hægt og rólega að þjarma meira og meira að United og seinustu 15 mínúturnar í fyrri hálfleiknum voru algjörlega eign Everton. United eins og svo oft áður í vetur átti í erfiðleikum með að spila sig út úr fyrstu pressunni, menn kannski alveg tilbúnir að taka óeigingjörn hlaup til þess eins að losa um aðra og Everton virkuðu bara frekar áræðnir. Það segir allt sem segja þarf að United átti bara eitt skot að marki (ekki á markið heldur að marki), það er ekki gott.

 

Seinni hálfleikur

Everton menn voru ekki jafn ferskir í upphafi síðari hálfleiks, líkt og þeir voru í lok þess fyrri. United liðinu tókst að draga aðeins úr tempóinu í leiknum og liðið náði að halda aðeins meira í boltann. Þegar að síðari hálfleikur var aðeins sex mínútna gamall komst United í álitlega sókn, Bruno Fernandes kom boltanum inn á Antohony Martial sem tók hann með sér inn í teiginn, aðþrengdur Everton mönnum fór frakkinn brosmildi niður í teignum. John Brooks flautaði, sagði Martial að standa upp og gaf honum gult fyrir dýfu. Það var erfitt að sjá fyrst hvort um einhverja snertingu hefði verið að ræða, en í endursýningu sást að fyrrum United maðurinn, Ashley Young, setti vissulega bara löppina fyrir Martial og alveg fáránlegt að gefa gult fyrir dýfu. Stockley Park ákvað samt að taka sér u.þ.b. 2 mínútur í að ákveða hvort þetta augljósa víti væri víti eða ekki og sendu svo John Brooks í skjáninn svona til að auka dramatíkina. Að lokum komst hann þó að þeirri niðurstöðu að þetta væri víti, tók gula spjaldið til baka og United í góðum séns að tvöfalda forystuna. Bruno ákvað að leyfa ísköldum Rashford að taka vítið, ný klipping hjá heiðursdoktornum, hún truflaði ekkert og Rashford lúðraði boltanum upp í þaknetið yfir Pickford sem fór í rétta átt. 0-2 fyrir United og útlitið orði hreint ekki slæmt. Everton menn tók miðju og voru staðráðnir í að svara, mínútu eftir markið fékk Gueye boltann á skoppinu og lét vaða fyrir utan vítateig, Onana gerði samt virkilega vel í því að blaka boltanum yfir.

Eftir þetta fór að draga talsvert af Everton, liðið hélt kannski ágætlega í boltann á tíðum en náði að skapa sér lítið. United tókst að hægja á leiknum og beitti skyndisóknum, allt í einu var það eiginlega United sem var talsvert líklegra til þess að bæta við frekar en Everton að minnka muninn. Á 72. mínútu gerði van der Gaag tvöfalda breytingu, Garnacho koma útaf í stað Pellistri og Amrabat leysti Kobbie Mainoo af hólmi. Þremur mínútum eftir skiptingarnar komst United í hraða sókn, Fernandes þræddi boltann á Martial og frakkinn kominn einn gegn Pickford, það vafðist lítið fyrir Anthony sem laumaði boltanum rétt yfir öxl Pickford, eins og hann væri í five-side með yngri bróður sínum og vinum hans. Smekkleg afgreiðsla en það er líka hans helsti kostur, 0-3 fyrir United. Við þett fór leikurinn Everton hélt áfram að sækja en virtust vera búnir að játa sig sigraða, bleik spjaldaðir stuðningsmenn mynduðu ekki jafn óvinveitt andrúmsloft og krafturinn sem liðið bjó yfir í lok fyrri hálfleiks var nánast horfinn. Mykolenko var þó nálægt því að minnka muninn þegar hann átti hörku skot í þverslána. United tókst að halda leiknum rólegum og liðið stólaði bara á skyndisóknir enda Everton menn talsvert fáliðaðir til baka. Á 95. mínútu fengu Everton þó besta færið sitt í síðari hálfleik, eftir hornspyrnu skallaði Tarkowski boltann aftur fyrir, boltinn fór af hnéi Jack Harrison en United náði að böðla boltanum burt af marklínunni. Þetta var það síðasta marktæka sem gerðist í leiknum, góður 0-3 sigur á Everton.

 

Að lokum

United voru ekkert sérstaklega góðir í þessum leik, liðið byrjaði af krafti og það dugði til þess að koma liðinu yfir snemma leiks. Eftir markið var mikið um brot og leikurinn fór ekki á neitt sérstakt flug, fyrr en seinustu 15 mínúturnar í fyrri hálfleik. Það voru þó bara Everton menn sem ákváðu að fara á flug á þeim kafla, United leikmennirnir voru í alvöru brasi með háu pressuna á þeim kafla. United komu talsvert betur út í seinni hálfleikinn með skírt leikplan, róa leikinn aðeins og ekki leyfa Everton að keyra upp tempó og spennu og fá „crowd-ið“ með sér. United fékk augljósa vítaspyrnu, snemma í seinni hálfleik, þó að Stockley Park og John Brooks hafi fundist þetta vera eitthvað vafamál (miðað við tímann sem tók að dæma víti). Það var smá vatnsgusa í andlitið fyrir Everton og eftir það þá náði liðið aldrei að byggja upp stemninguna sem myndaðist í lok fyrri hálfleiks. United kláraði svo dæmið með smekklegu marki Anthony Martial um miðbik seinni hálfleiks og þar fóru sigurmöguleikar Everton út um gluggann. Everton menn mega þó alveg eiga það að þeir hættu ekkert þó að þeir hafi misst smá dampinn eftir mark 2 og 3.

Það var eiginlega ótrúlegt að United hafi ekki fengið mark á sig í leiknum en Onana varði nokkrum sinnum vel og þá voru Maguire og Lindelöf ágætlega solid í hjarta varnarinnar. Ég vil þó taka fram að þessa leiks verður bara minnst sem leikurinn þar sem Garnacho skoraði eitt af fallegustu mörkum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Ég vil líka minnast á Kobbie Mainoo, mér fannst hann standa sig virkilega vel, óhræddur við að fá boltann undir pressu og var mjög hreyfanlegur annað en margir í liði United, þessi strákur haldist hann heill er framtíðin. Skemmtilegt að loksins vinna með meira en einu marki og loksins er liðið ekki með neikvæða markatölu.

United situr enn þá í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en er nú einungis tveimur stigum á eftir Tottenham sem situr í 5. sæti. United er líka bara sex stigum á eftir toppliði Arsenal sem er ótrúlegt miðað við spilamennsku liðsins og almennt bras í upphafi tímabils. United er með 15 stig af síðustu 18 mögulegum í úrvalsdeildinni, spilamennskan er ekki frábær en þessa stundina en vonandi með menn að snúa til baka úr meiðslum þá getur United farið að horfa upp á við. Næsti leikur United er gegn Galatasaray í meistaradeildinni, í Tyrklandi, sannkallaður úrslitaleikur ef United ætlar sér áfram.

 

10
Enska úrvalsdeildin

United heimsækir Everton

Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann 25. nóvember, 2023 | 1 ummæli

Loksins loksins er landsleikjahléið búið og ekkert svoleiðis fyrr en í mars á næsta ári. United heimsækir bláa helming Liverpool borgar, þegar að liðið sækir Everton heim í Guttagarð á sunnudag klukkan 16:30. United mætir til leiks eftir landsleikjahléið sem mest „in form“ lið ensku úrvalsdeildarinnar, sem er fáránleg staðreynd ef horft er á spilamennsku liðsins. Það er þrátt fyrir allt í alvöru staðreynd að í síðustu fimm úrvalsdeildarleikjum hefur ekkert lið fengið jafn mörg stig og Manchester United. United er þó enn bara í 6. sæti deildarinnar 7 stigum á eftir toppliði Manchester City.

Þrátt fyrir landsleikjahlé þá virðist drama-ið samt sem áður fylgja United, nú halda blaðasnápar og twitterstrákar því fram að Ten Hag og Varane talist varla við þar sem Varane hefur ekki spilað mikið undanfarið. Þá virðast yfirvonandi kaup Jim Ratcliffe á hluta félagsins ekki vera alveg jafn yfirvofandi og talið var fyrir landsleikjahlé, svo virðist sem það gæti beðið fram í janúar.

Landsleikjahléið var þó ótrúlegt en satt dramatískari fyrir mótherja United um helgina, Everton, heldur en fyrir rauðu djöflana. Everton gerðust nefnilega sekir um að hafa brotið Financial Fair Play (FFP) reglurnar, en félagið tilkynnti talsvert meira tap en úrvalsdeildin leyfir. Úrvalsdeildin ákvað því að draga 10 stig af Everton og situr liðið því í næst seinasta sæti deildarinnar. Það virðist skipta máli hvursu blátt liðið er þegar að því kemur að dæma í FFP málum hjá FA.

Oft er talað um það að vont sé að mæta liðum sem eru nýbúin að skipta um þjálfara (e. new manager bounce), ætli það sé ekki enn verra að mæta liði sem er nýbúið að missa rúmlega 70% af stigunum sínum. Fyrir allt þetta fíaskó sat Everton í 14. sæti deildarinnar, en liðið er búið að vera á fínu róli eftir slæma byrjun á tímabilinu. Liðið er búið að vinna þrjá af síðustu fimm leikjum í deild. Miðað við að spilamennska United hefur verið slök á þessu tímabili og að því virðist ómögulegt fyrir liðið að skora þá er ekki beint draumurinn að mæta særðu liði sem Sean Dyche stýrir. Það eru vissulega mörg lið í þessari deild sem eru talsvert betri en Everton, en Sean Dyche er þekktur fyrir að kunna að múra fyrir  og þegar að lið hans fá alvöru mótiveringu þá veita þau yfirleitt ágætis baráttu.

Meiðslalistinn hjá United er enn þá talsvert langur en það virðist þó sem svo að hann gæti farið að styttast. Luke Shaw er farinn að æfa sem og Tyrell Malacia ekki er víst hvort þeir verði tilbúnir í leikinn á sunnudag. Jonny Evans og Rasmus Højlund meiddust fyrir landsleikjahlé og eru báðir tæpir en ættu þó að vera í hóp. Talsvert lengra er þó í að Eriksen, Casemiro og Martinez verði tilbúnir til leiks en síðarinefndu tveir munu ekki spila fyrr en í byrjun næsta árs. Miðað við þær fréttir sem undirritaður hefur lesið þá virðist Andre Onana vera tilbúinn þrátt fyrir að hafa farið útaf meiddur í leik með Cameroon. Meiðslakrísa United er orðinn það mikil að jafnvel ámeðan ég skrifaði þessa efnisgrein í þessari upphitun bættist við leikmaður á meiðslalistann. Þetta er dagsatt FotMob endurhlóð sig á meðan ég skrifaði þessa efnisgrein og bætti Pellistri við á listann, hann er því greinilega líka tæpur núna. Síðast en ekki síst bárust þær fréttir að Mason Mount væri líka meiddur og frá í u.þ.b. mánuð, þetta er eiginlega orðið fáránlegt.

 

Líklegt byrjunarlið

 

Svona spái ég liðinu á sunnudag, mér sýnist Ten Hag vera alveg kominn á Maguire vagninn og farinn af Varane lestinni. Mér finnst ólíklegt að Shaw byrji leikinn en held að komi mögulega við sögu. Það er erfitt að stilla upp miðjunni, mér finnst flest allir leikmenn hafa verið vonbrigði á þessu tímabili en ég held að það sé alveg öruggt að bæði McTominay, Rashford og Bruno byrji allir. Svo er það spurningin hversu heill Højlund er, miðað við það sem er til á bekknum þá held ég að það sé nauðsynlegt að hann starti. Þá hafa einhverjið haldið því fram að Erik Ten Hag muni gefa Kobbie Mainoo sitt fyrsta start á tímabilinu.

 

Að lokum

Sigur um helgina er mjög mikilvægur, 4 af 5 liðunum sem eru fyrir ofan United í töflunni eiga viðureignir á móti hvoru öðru og því er þetta kjörið tækifæri til þess að saxa á forskot þessara liða. Það sem ég held þó að flest allir United stuðningsmenn vonist eftir er að liðið spili skemmtilegan fótbolta og séu ekki í bölvuðu ströggli á 75. mínútu við að troða inn einu marki. Auðvitað vil ég frekar að United liðið vinni þó að það sé ljótur sigur, en spilamennskan er orðin talsvert þreytt. Framherjar og framliggjandi leikmenn United þurfa líka að fara að stimpla sig inn í vinnuna þessi markaþurrð er orðin vel frústrerandi ég tala nú ekki um þegar þessir leikmenn klúðra nokkrum dauðafærum í leik eins og gegn Luton. John Brooks er dómari vonandi verður ekkert VAR fíaskó í þessum leik, Luton leikurinn var fínn að því leiti að VAR hafði bara hægt um sig.

1
  • « Go to Previous Page
  • Go to page 1
  • Go to page 2
  • Go to page 3
  • Go to page 4
  • Interim pages omitted …
  • Go to page 423
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Gummi um Manchester United 0:3 AFC Bournemouth
  • Helgi P um Manchester United 0:3 AFC Bournemouth
  • Egill um Manchester United 0:3 AFC Bournemouth
  • Herbert Hjálmarsson um Manchester United 0:3 AFC Bournemouth
  • Arni um Manchester United 0:3 AFC Bournemouth

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2023 · Keyrt á WordPress