Maggi og Ragnar fóru yfir leikinn gegn Nottingham Forest, fréttir vikunnar, mögulega mótherja í Meistaradeild Evrópu og leikinn framundan gegn Arsenal.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 113. þáttur
Magnús Þór skrifaði þann | 1 ummæli
Maggi og Ragnar fóru yfir leikinn gegn Nottingham Forest, fréttir vikunnar, mögulega mótherja í Meistaradeild Evrópu og leikinn framundan gegn Arsenal.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 113. þáttur
Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann | 10 ummæli
Tæpt var það, Teitur. Manchester United marði heimasigur gegn Nottingham Forest 3-2 í leik sem vissulega þandi taugarnar óþægilega mikið. Veðrið hafði sitt að segja en himnarnir hreinlega opnuðust í miðjum leiknum og úrkoman í Manchesterborg hefur verið mæld í tommum en ekki millimetrum. Það gerði leikmönnum erfitt um vik og boltinn var augljóslega þungur og óútreiknanlegur.
Erik ten Hag neyddist til að gera breytingar á liðinu þar sem Luke Shaw var frá vegna meiðsla. En það var ekki eina breytingin heldur tók hann Garnacho út úr liðinu og í hans stað kom Anthony Martial sem þýddi að Rashford fór á vinstri vænginn.
Á bekknum voru þeir Henderson, Maguire, Lindelöf, Pellistri, Sancho, Gore, Garnacho, McTominay og Fernandez.
Steve Cooper gerði mannabreytingar og uppstillingarbreytingar á Forest liðinu sem vann Sheffield United í síðustu viku. Hann stillti upp í 3-4-2-1 leikkerfi og í liðið kom Yates í stað Mangala. Að öðru leyti var liðið óbreytt.
Þeir sem vonuðust eftir öflugri byrjun á þessum leik hafa ekki verið sviknir. En United brunaði upp í sókn og uppskar hornspyrnu strax á fyrstu sekúndum leiksins. Það var upphafið af skelfilegum kafla þar sem gestirnir náðu að hreinsa boltann út úr teignum og unnu seinni boltann. Einungis Antony og Rashford voru fyrir utan teiginn þar sem boltinn barst á Taiwo Awoniyi sem tók á sprett og hristi Rashford af sér og var einn á auðum sjó með allan United vallarhelminginn fyrir framan sig og boltann líka. Nígeríumaðurinn bar boltann inn í teig, tók smá gagnhreyfingu til að plata Onana og lagði boltann svo í hægra hornið þó Onana hefði náð að koma við boltann. 1-0 fyrir gestina og ekki komnar 90 sekúndur á klukkuna hjá Stuart Atwell.
United fór úr öskunni í eldinn skömmu síðar. Heimamenn gáfu klaufalega aukaspyrnu á vinstri kantinum. Fyrirgjöfin kom og Lisandro Martinez skallaði boltann frá en fór ekki betur en svo að boltinn fór í höfuðið á Willy Boly og þaðan í markið framhjá Onana sem virtist ekki sjá boltann fyrr en hann snerti netið. Staðan orðin 2-0 og ekki komnar fimm mínútur gegn liðinu með einn slakasta árangur á útivelli á síðustu leiktíð.
United reyndu hvað þeir gátu að girða sig í brók eftir þessa tvöföldu rassskellingu en þrátt fyrir að vera 91% með boltann fyrsta korterið eða svo, var lítið að frétta fyrir framan mark gestanna. Það reyndi lítið á Matt Turner í markinu enda datt vörn gestanna mjög djúft og hugðist halda fengnum hlut. Það virtist leikmönnum United ansi strembið framan af að halda tempóinu í leiknum því margir þeirra áttu slakar sendingar og fyrsta snertingin brást mörgum.
Það kom svo loksins að því á 17. mínútu eftir þunga pressu United að stíflan brast. Bruno átti skot fyrir utan teig sem Turner varði út í vítateiginn þar sem Rashford komst á boltann. Hann tók þríhyrningaspil við Martial og komst upp að endalínunni og sendi boltann inn í markmannsteiginn. Þar var kominn svífandi léttur Dani á fleygiferð, þó ekki Hojlund heldur Christian Eriksen sem tók temmilega netta snertingu með utanverðri ristinni á boltann og stýrði honum í fjærhornið og breytti stöðunni í 2-1.
Það liðu ekki nema þrjár mínútur áður en næsta tækifæri féll okkur í skaut þegar Casemiro átti þrususkot sem Turner þurfi að verja en gerði það líka vel. Gestirnir héldu að sér höndunum og fóru ekki mikið fram völlinn á þessum tíma. Þegar 26. mínútur voru liðnar kom næsta dauðafærið þegar United fékk hornspyrnu eftir skot frá Bruno Fernandes. Úr horninu kom fyrirgjöf sem rataði á pönnuna á Casemiro sem stóð einn og óvaldaður við fjærstöngina. En þrátt fyrir að markvörðurinn væri viðsfjarri og markið stóð autt tókst okkar manni að skalla framhjá stönginn sem hefur líklegast verið erfiðara en að skalla inn í tómt markið.
Aron Wan-Bissaka átti fínan leik og sýndi laglega takta þegar hann potaði boltanum framhjá varnarmanninum sem stóð eins og pottaplanta á meðan Englendingurinn hljóp kringum hann og reyndi að koma boltanum inn í teiginn en færið rann út í sandinn. Áfram hélt United að blása og blása en virki heimamanna hélt fram að hálfleik og andrúmsloftið á Old Trafford virtist eima af einhvers konar vonleysi um að liðið væri fært um að ná inn tveimur mörkum í viðbót þrátt fyrir að vera miklu meira með boltann.
Erik ten Hag var ekki séttur við fyrri hálfleikinn rétt eins og sérhver United maður og hann var ekki að bíða með skiptingarnar. Lindelöf kom inn fyrir Varane sem var búinn að vera frekar daufur í leiknum. Honum hefur líklegast líka tekist að hrista aðeins upp í leikmönnunum því þeir virtust ekki mæta huglausir inn í síðari hálfleikinn eins og í Tottenham leiknum. Það leið ekki á löngu áður en fyrsta markverða atvikið leit dagsins ljós.
Fyrirliðinn og töframaðurin Bruno Fernandes tók aukaspyrnu út á vængnum en boltinn endaði hjá Rashford sem var utan við teiginn. Sá enski átti hins vegar gullfallega fyrirgjöf inn í teiginn, beint á ennið á Bruno sem skallaði boltann yfir á fjærstöngina þar sem Casemiro kom á ferðinni, tók hálfvandræðalega snertingu með innanverðu lærinu en tókst samt sem áður að skófla boltanum inn í netið og bæta þar með upp fyrir mistökin fyrr í leiknum. 2-2 og Old Trafford tók við sér að nýju enda meira en 40 mínútur eftir af leiknum með viðbótartíma.
Leikmenn liðsins nýttu sér það sem byr undir báða vængi og einungis tveimur mínútum eftir markið fékk Antony stórhættulegt færi þar sem hann tók hreyfingar sem hann er þekktur fyrir og leitaði inn á völlinn og skaut með vinstri fæti, snúningstuðru sem skrúfaðist í áttina að innanverðu hliðarnetinu en Matt Turner kom eins og þruma úr heiðskýru með sjónvarpsvörslu og bjargaði í horn.
United hélt áfram að þjarma að gestunum sem vörðust vel og settu 10 útileikmenn fyrir aftan boltann flestum stundum. Þar til á 67. mínútu þegar Bruno fékk háa stungusendingu inn fyrir varnarlínuna og fyrirliðinn Worrall ákvað að reyna klæða hann úr í stað þess að hleypa honum einum inn fyrir. Stuart Atwell var ekki lengi að rífa upp rauða kortið og senda Worrall í sturtu. VAR herbergið staðfesti dóminn og gestirnir orðnir einum manni færri þegar 23 mínútur lifðu eftir af leiknum.
Aukaspyrnan var eitthvað sem United menn vilja fljótt gleyma, Bruno ætlaði að taka renna boltanum á Diogo Dalot sem stóð tiltölulega einn og óvaldaður vinstra meginn í teignum en portúgalski bakvörðurinn var með hugann einhvers staðar allt annars staðar en á Old Trafford það augnablik og virtist búast við skoti frá samlanda sínum.
Loksins virtist Rashford fá sitt gamla sjálfstraust aftur þegar hann tók Danilo á og með laglegri elastico hreyfingu setti hann Danilo úr jafnvægi og komst framhjá honum utanvert og tók af rás inn í teig. Danilo reyndi að stöðva hann en fór í hægri löppina á Rashford og Atwell benti á vítapunktinn óhikað. Takmörkuð snerting en vissulega hægt að færa góð rök fyrir því að hann stöðvar Rashford ólöglega og fyrirliðinn fékk að stilla sér upp.
Matt Turner valdi rétt horn en Bruno var öryggið uppmálað og setti boltann bæði fast og alveg út við stöngina og kom United yfir í fyrsta sinn í leiknum. 3-2 og stuðningsmennirnir trylltust í stúkunni.
En gestirnir lögðust ekkert í kör heldur færðu sig framar á völlinn og hafa eflaust tvíelfst þegar þeir sáu að uppbótartíminn var heilar 11 mínútur. Þeim tókst að þvinga Onana í sjónvarpsvörslu á 84. mínútu eftir að Willy Boly skaut boltanum af stuttu færi og í endursýningu sást að boltinn stefndi inn í markið út við stöngina. Virkilega vel gert hjá nýja markverðinum okkar sem hafði ekkert átt sérstakan dag í rammanum.
En honum tókst þó að halda markinu tómu út uppbótartímann jafnvel þótt leikurinn gengi langt fram yfir uppgefnar 11 mínúturnar og 3-2 baráttusigur á heimavell gegn Nottingham Forest staðreynd.
Þessi leikur spilaðist ekki eins og höfundur vonaðist eftir. Enn og aftur virðast leikmennirnir okkar ekki mæta með rétt hugarfar frá upphafi til enda leiksins og það kostar okkur mistök og mörk. United var mun meira með boltann eins og búist var við enda er mótherjinn ekkert ófeiminn við að sitja djúpt og beita skyndisóknum. Þær svínvirkuðu og leikplanið gekk vel eftir. United var 67% með boltann og var með 2,91 xG og skoraði 3 mörk. Jafnframt var liðið með 18 skot og fengu fjögur dauðafæri (big chances) á sama tíma og Nottingham Forest var með eitt slík og xG 1,24 en skoraði tvö.
Byrjum á gagnrýninni svo hægt sé að enda á betri nótum. Liðið er alls ekki vel still saman í öftustu línu. Martinez og Varane virtust ekki tala sama tungumálið í fyrri hálfleiknum og bakverðirnir voru oft víðsfjarri enda leikplanið þannig að þeir áttu að leita inn á miðjuna. Martial var alls ekki upp á sitt besta og tókst engan veginn að réttlæta það að byrja aftur í næsta leik en Rasmus Hojlund verður að öllumlíkindum klár þá og mögulega var þetta tækifærið fyrir Frakkann.
Onana virtist ekki geisla af sér sama sjálfstrausti og -öryggi og hann gerði fyrr í mánuðinum. Hann var ragur af línunni og hefði mögulega geta gert betur í öðru markinu. Liðið í heild skortir sjálfsöryggi og greddu til að mæta inn í leikina og það verður að skrifast á stjórann.
En þetta voru þrír punktar á heimavelli og þrátt fyrir að mótherjinn hafi ekki verið hátt skrifaður á blaði fyrir þessa leiktíð þá náðu þeir í góð úrslit á síðustu leiktíð og létu Arsenal menn virkilega hafa fyrir hlutunum í fyrstu umferðinni. Bruno Fernandes var augljóslega maður leiksins en Portúgalinn var alls staðar á vellinum og sinnti báðum hlutverkum sínum, sem fyrirliði og sem skapandi miðjumaður, af einskærri snilld. Þá var það auðvitað við hæfi að hann var sá sem rak smiðshöggið á endurkomusigurinn með vítaspyrnunni.
United er nú með sex stig eftir þrjá leiki og vonandi eru einhverjar stíflur brostnar í markaskoruninni og menn að komast í gang enda ekki seinna vænna. Vonandi blæs þessi endurkoma nýju lífi og sjálfstrausti í okkar menn enda stórleikur um næstu helgi þegar liðið mætir á Emirates völlinn gegn Arsenal senm sitja fyrir ofan okkur með 7 stig. Sá leikur er á sunnudaginn 15:30.
Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann | 3 ummæli
Þessi viðureign gegn Nottingham Forest á laugardaginn getur ekki komið nógu fljótt fyrir suma á meðan einhverjir myndu helst vilja taka heilt undirbúningstímabil fyrir leikinn. United er með þrjú stig eftir tvo leiki, ósanngjarn heimasigur gegn Úlfunum og grautfúlt útitap gegn Tottenham en þetta upphaf leiktíðarinnar skilur vafalaust eftir ákveðið óbragð í munninum hjá stuðningsmönnum Rauðu djöflanna og minnir óneitanlega að sumu leyti á upphaf síðustu leiktíðar.
En það er fullsnemmt að byrja að örvænta. Erik ten Hag hefur vissulega fengið sinn skammt af gagnrýni fyrir liðsuppstillingu og skiptingar í þessum tveimur umferðum en gullfiskaminni ákveðins minnihluta stuðningsmanna er fljótt að gleyma hversu vel hann gerði á síðustu leiktíð þrátt fyrir að vera bæði með þunnan og takmarkaðan hóp auk þess að þurfa að takast á við prímadonnur og vandræði innan vallar sem utan. Undirbúningstímabilið virðist þó ekki hafa dugað til að slípa breytingar á leikkerfi og nýja leikmenn inn í leikstílinn liðsins en bæði Onana og Mount náðu einungis hluta undirbúningstímabilsins og tannhjólin hafa ekki verið að smellpassa saman í þessum fyrstu tveimur leikjum.
Á undanförnum misserum hefur United ekki átt í miklum vandræðum með Nottingham Forest en síðustu fjórir leikir liðanna hafa endað 2-0 eða 3-0 fyrir United. En sagan hefur ekkert að segja um daginn í dag. United hefur einungis skorað 1 mark á meðan Forest hafa sett 3 mörk á sama tíma. Það myndi hins vegar gjörbreyta stöðunni ef við skoruðum meira úr þeim færum sem við sköpum okkur, því vænt mörk (xG) og mörk fengin á sig (xGC) gefa upp betri mynd af ástandinu þó þau breyti ekki neinum úrslitum.
Í leiknum gegn Úlfunum var United með 1,97 xG en að sama skapi voru Úlfarnir með 1,72 xG og við það má bæta að líklegast hefðu þeir átt að fá vítaspyrnu undir lok leiksins sem telur ekki inn í þessa tölfræði. En í leiknum gegn Angeball var hins vegar Tottenham með 2,54 xG og skoruðu 2 mörk en á sama tíma var United með 2,45 xG en skoruðu ekki mark. United heldur því áfram uppteknum hætti með að skapa sér færi og nýta þau ekki. Sama vandamál var til staðar í fyrra enda var það hverju mannsbarni augljóst að framherji með alvöru markanef myndi færa United nær titilbaráttunni að nýju meira en nokkur önnur staða.
Það voru því eflaust margir sem hristu hausinn þegar miðjumaður var fyrstur inn um dyrnar og markvörður þar á eftir og síðan var farið í eltingaleik við framherja. En hann kom loksins inn í dæmið núna fyrir nokkrum vikum þegar hinn hávaxni, hárprúði dani, Rasmus Hojlund hjólaði inn um dyrnar á Leikhúsi draumanna. En hann hefur reyndar ekki komið við sögu í neinum leik vegna álagsmeiðsla í baki sem komu upp á yfirborðið í læknisskoðuninni fyrr í mánuðinum. Nýjustu fréttir herma að hann mun verma bekkinn loksins núna um helgina en nýnýjustu fréttirnar herma hins vegar að það hafi komið bakslag og hann verði ekki með.
Forestmenn keyptu rúmlega tvö heil byrjunarlið af leikmönnum á síðasta leiktímabili og hreint ótrúlegt að Steve Cooper hafi náð að púsla saman þessum risastóra hóp á jafnskömmum tíma og raun bar vitni og haldið þeim uppi í deild þeirra bestu. Þetta kaupæði þeirra var hálfkómískt en nauðsynlegt enda komust þeir upp í Úrvalsdeildina að miklu leyti með aðstoð leikmanna sem hurfu á braut um sumarið en þeir náðu að halda sér uppi og þrátt fyrir að margir hallist að því að þeir muni smitast allhressilega af secondseasonsyndrome hafa þeir farið ágætlega af stað í ár. Fyrst mættu þeir á erfiðan útvöll gegn Arsenal og töpuðu þar 2-1 og gerðu sér síðan lítið fyrir og skelltu Sheffield United 2-1 en þeir verða eflaust í talsverðri fallbaráttu við lið á borð við Sheffield United svo þetta var kærkominn sigur.
Í sumar hafa þeir hins vegar ekki verið eins umsvifamiklir á leikmannamarkaðinum eins og í fyrra en þeir hafa engu að síður fengið til liðs við sig þá Matt Turner (markmann) frá Arsenal, Anthony Elanga (kantmann) frá okkur, Chris Wood (framherja) frá Newcastle United og Ola Aina (varnarmann) á frjálsri sölu. Einungis Sam Surridge og Braian Ojeda hafa verið seldir frá félaginu en svo hafa nokkrir runnið út af samningi eins og til dæmis Jesse nokkur Lingard.
Steve Cooper heldur sig líklega við 3-4-3 leikkerfið og því spái ég að liðið sem mætir okkur komi til með að líta svona út á blaði:
Helsta ógn þeirra Forest manna er að sjálfsögðu Liverpool akademíustrákurinn, Taiwo Awoniyi, sem virðist ekki geta hætt að skora. Þessi 26 ára gamli nígeríski vinnuhestur er tröll að takast á við og þegar Virgil van Dijk á erfitt með þig á æfingum er líklegast eitthvað varið í þig. Það er svo ekki á það bætandi að eftir að hann er búinn að vera að þjösnast á miðvörðum mótherjanna í 60-70 mínútur samfleytt, tekur séntilmaðurinn Chris Wood við og sýgur úr þér síðustu orkuna á lokametrunum. Leikurinn mun því líklegast taka vel á líkamlega fyrir mennina í öftustu línunni okkar á laugardaginn leyfi ég mér að fullyrða.
Mikilvægasti leikmaðurinn þeirra er samt að öllum líkindum Morgan Gibbs-White sem var hreint út sagt þeirra langbesti leikmaður á síðustu leiktíð. Það hjálpar svo ekki til að fá þá Brennan Johnson og Serge Aurier á flugbrautinni á vinstri kantinum gegn vinstri bakverði sem er ekki vanur að spila fyrir okkur, a.m.k. ekki vinstra megin hver svo sem það verður. En meiðslalistinn hjá gestunum er líka langur en á honum eru þeir Felipe, Biancone, Montiel, Aina, Richards og Hennessey.
Styrkur liðsins snýst einna helst um að spila hratt upp kantana, sérstaklega á hægri kantinum með Brennan Johnson í fararbroddi með Awoniyi sem targetman sem heldur boltanum meðan liðið færir sig ofar á völlinn. Steve Cooper átti það til á síðustu leiktíð að breyta á milli 3-4-3 og 3-4-1-2 þar sem munurinn lá í því hvort hann spilaði með tvo framherja með „tíu“ fyrir aftan eða tvo sókndjarfa vængmenn sitthvoru megin við framherjann. Nottingham Forest er lið sem er vanalega minna með boltann en andstæðingurinn og þegar þeir eru án bolta færist liðsstillingin vanalega í 5-2-3. Bakverðir þeirra sjá vanalega um að teygja varnarlínu mótherjanna til að búa til pláss á miðjusvæðinu (svæði 14) fyrir utan vítateiginn en við sáum einmitt Úlfana gera ekki ósvipaða hluti í fyrstu umferðinni og virtust Cunha og Neto hafa fullt af plássi á miðsvæðinu til að gera aðhlaup á vörnina okkar aftur og aftur. Vonandi hefur liðið og stjórinn lært af fyrri mistökum og heldur þeim þéttar á laugardaginn.
United hefur ekki verið að heilla marga það sem af er og þarf ýmislegt að breytast til að svo verði. Það kallar á breytingu á byrjunarliðinu en fyrir síðasta leik kallaði höfundur eftir því að Sancho kæmi inn í liðið en viti menn, sama byrjunarlið og í fyrstu umferðinni og svipað ósannfærandi leikur og í raun alls ekki boðlegur útileikur gegn toppliði. Núna fær Erik ten Hag og restin af liðinu tækifæri á nýjan leik til að rétta úr kúrnum. Það fyrsta sem þarf að laga er hugarfarið en það hefur verið harðlega gagnrýnt að menn virðast vera að jogga fram og til baka um völlinn, hengja haus þegar á móti blæs og eiga erfitt með að gíra sig í 90 mínútna leik. Hringir þetta einhverjum dejavu-bjöllum? Þarf stjórinn að henda hópnum aftur í 14 km hlaup og rífa menn út úr sumarfríshugarfarinu og koma mönnum í leikinn eins og á síðustu leiktíð eða er nóg að taka snöggan hárblásara og gera mannabreytingar?
Það er alvitað að knattspyrnustjórar eru þrjóskari en múrsteinar í aldagömlum kirkjum sem þráast oft við að spila leikmönnum þrátt fyrir að þeir ættu að henda þeim á tréverkið. Anthony er dæmi um það, en brassinn hefur ekki verið nálægt sínu besta og virðist vera one-trick-pony sem auðvelt er að loka á. Í ofan á lagi er mögulega hugur hans ekki fyllilega í leiknum eftir að fréttir um ásakanir fyrrum kærustu litu dagsins ljós að nýju núna fyrir nokkrum dögum. Þetta, ásamt slakri frammistöðu Garnacho og Rashford, finnst mér kalla á róteringar á liðinu. Garnacho þarf að endurheimta sjálfstraustið með því að koma inn á síðasta hálftímann af leiknum og kveikja í áhorfendum og liðsfélögum sínum á sama tíma og Anthony þarf smá pásu.
Það myndi gefa Sancho tækifæri til að byrja í sinni mest skapandi stöðu, hægri kantinum þar sem hann getur róterað við Bruno í tíunni á meðan Marcus Rashford fer í sína hættulegustu stöðu, vinstri kantinn, þar sem honum líður langbest. En hver á þá að leysa toppinn, fyrst Hojlund er ennþá frá og verður ekki tilbúinn fyrr en eftir landsleikjahlé hið fyrsta? Svarið er Anthony Martial. Postulínsmaðurinn sjálfur. Frakkinn kom inn á á 85. mín gegn Tottenham en maður lifandi hvað flæðið með hann og Jadon Sancho er allt annað. Mistök Erik ten Hag (að mínu mati) voru að gera breytinguna ekki fyrr og að halda Rashford ekki inni á vinstri kantinum með Martial því eins og glöggir stuðningsmenn muna þá tengja þeir tveir jafn vel saman og Ástríkur og Steinríkur.
Varnarlínan þarf ekki endilega neinar breytingar en þeir þurfa hins vegar að skrúfa hausinn á sig og finna út úr því hvernig þeir koma í veg fyrir að opnast eins og brostin stífla þegar miðjumönnum liðsins tekst ekki að sópa upp fyrir framan þá. En nú fyrir 11 mínútum síðan voru að berast þær fréttir að Luke Shaw verður frá í einhverjar vikur sem flækir málin enn meira þar sem Tyrell Malacia er líka frá vegna meiðsla. Það er því augljóst að varnarlínan gegn Notthingham Forest verður eitthvað óvanaleg hvernig sem hún mun svo líta út.
Á meiðslalistanum hjá okkar mönnum eru þeir Amad Diallo, Harry Maguire, Kobbie Mainoo, Mason Mount, Luke Shaw, Tom Heaton og nýji maður Rasmus Hojlund. Það er því ekki úr mörgum að velja þegar kemur að sumum stöðum á vellinum.
Mikið hefur verið rætt, skrifað og hugsað um gengi United í síðustu tveimur umferðum og sparkspekingar og spekúlantar hafa keppst við að gagnrýna liðið, stjórann, einstaklinga og stuðningsmenn fyrir allt milli himins og jarðar að því er virðist. Fótboltaáhugamenn og -sérfræðingar margir hverjir virðast þjást af ákaflega takmörkuðu minni sem oft nær ekki lengra en tvær vikur aftur í tímann. Skemmst er að minnast þess hvernig Graeme Souness kallaði Casemiro „steady Eddie“ og sagði hann hafa hafa verið heppinn að spila í þessu Real Madrid liði og núna er Jamie Garragher að tala um að þessi kaup okkar á brassanum séu ekki eins góð kaup og Declan Rice eða Moises Caicedo þar sem Casemiro sé bara örugglega búinn á því en hitt eru „örugg, framtíðarkaup“. Þá er gott að minnast þess einnig að þessir tveir töldu Lisandro Martinez ekki eiga neitt erindi í Ensku úrvalsdeildina. Held að þeir séu enn að plokka upp úr sér þræði úr þeim táfýlusokk.
Liðið er sem stendur með 3 stig eftir tvo leiki og það er þremur stigum meira en við vorum með á sama tíma í fyrra. Það að ætla dæma leiktíðina eftir tvo fyrstu leikina er einfaldlega allt of snemmt en þó má ekki líta framhjá því að ákveðin varhugaverð teikn eru á lofti. Liðið hefur ekki skorað nema 1 mark og það gegn liði sem varð fyrir algjörri uppstokkun á leikmannahóp og þjálfarateymi þremur dögum fyrir leikinn og síðan tókst þeim ekki að skora gegn liði sem eins er með glænýjan stjóra sem er þekktur fyrir að spila blússandi sóknarbolta á kostnað varnarinnar. Eins hefur líkamstjáning leikmanna United ekki verið álitleg og það er hlutverk þjálfarans og fyrirliðans að laga.
En við tökum einn leik í einu áður en við förum að hugsa út í leiktíðina í heild sinni. Í dómaragallanum verður enginn annar en stórflautuleikarinn Stuart Atwell sem blæs leikinn á stundvíslega kl 14:00 að íslenskum tíma. Minni að lokum á ljómandi gott djöflavarp frá því fyrr í vikunni þar sem farið var yfir leikmannamálin, Mason Greenwood og síðasta leik liðsins.
Magnús Þór skrifaði þann | 1 ummæli
Maggi, Ragnar, Hrólfur og Bjössi fóru yfir tapleik gegn Tottenham Hotspur. Einnig var yfir fréttir vikunnar af félagaskiptum, yfirtöku og brottför Mason Greenwood.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 112. þáttur
Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann | 19 ummæli
Erik Ten Hag gerði engar breytingar á United liðinu sem marði Úlfanna í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þrátt fyrir frekar slappa frammistöðu var kannski ekki búist við miklum hræringum á byrjunarliðinu en flestir höfðu kannski búist við að Sancho kæmi inn í byrjunarliðið á kostnað Garnacho. Postecoglou nýi stjóri Tottenham gerði tvær breytingar frá jafnteflinu við Brentford en Pape Sarr kom inn fyrir Oliver Skipp og Pedro Porro byrjaði í stað Emerson Royal.
Varamenn: Henderson, Vitek, Dalot, Lindelof, Eriksen, McTominay, Pellistri, Martial, Sancho
United átti fyrsta almennilega færið á annarri mínútu þegar Mason Mount vann boltann hátt á vellinum, boltinn féll fyrir Garnacho utarlega í teig Tottenham, hann sendi boltann á Antony en brasilímaðurinn setti boltann rétt yfir. Tveimur mínútum seinna átti Garnacho fínt hlaup inn á teig Tottenham en skot hans frekar auðvelt fyrir Vicario markmann Spurs, góð tilraun samt sem áður. Spilamennska United fyrstu 10 mínúturnar talsvert mikið betri en gegn Úlfunum á mánudaginn, þó að það segi kannski ekki mikið. Á 13. mínútu þröngvaði Antony boltanum inn fyrir á Marcus Rashford sem sýndi hraða sinn og náði boltanum á undan Vicario en Rashford kominn í mjög þrönga stöðu og Vicario varði skot hans.
Á 22. mínútu á Bruno rabona sendingu inn á teig Tottenham og Rashford í góðu færi en skalli hans yfir markið, kannski fínt þar sem Rashford virtist rangstæður og það hefði eiginlega ekki mátt VAR-a þessa fegurð af. Tottenham átti stuttu seinna hraðasókn eftir lélega sendingu frá Casemiro en skot Kulusevski var ekkert vandamál fyrir Onana. Á 26. mínútu reykspólaði Rashford framhjá Van de Ven, koma boltanum svo á Garnacho sem átti skot í hendi Romero, boltinn útaf í horn í stað þess að fara á markið, höndin alveg útrétt ekki við líkamann en Craig Pawson í Stockley Park sá ekkert athugavert við það. GALIN dómgæsla, í raun grátbrosleg. Stuttu seinna átti Tottenham góða hraðasókn þar sem Son laumaði boltanum á Pape Sarr en Onana varði vel. Á 36. mínútu fékk Bruno dauðafæri og algjörlega DAUÐAFÆRI. Shaw átti glæsilega sendingu inn í teig og Bruno einn á markteig alveg einn, aleinn. Fyrirliðinn skallaði boltann hátt yfir.
Á 40. mínútu áttu Tottenham sína hættulegasta sókn, Son keyrði inn á teiginn lagði hann fyrir Pedro Porro sem hamraði boltann í slána, Tottenham hélt boltanum og áttu fyrirgjöf sem fór af Luke Shaw og þaðan í stöngina. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleiknum þó svo að liðin hafi fengið sín hálf færi.
United voru talsvert betri í fyrri hálfleik og Bruno hefði algjörlega átt að koma United yfir á 36. mínútu með skalla, þá má ekki gleyma augljósu hendinni á Romero sem ég er enn að reyna að skilja afhverju var ekki dæmt sem víti. Það verður þó líklega ekki rætt jafn mikið um þetta og úthlaup Onana gegn Wolves, sem er líklegast búið að gera eins og hálfs klukkustundar heimildarmynd um. Tottenham brögguðust þó aðeins undir lok fyrri hálfleiks og náðu að setja United aðeins undir pressu. Það má þó segja að spilamennska United var sannkölluð hátíð miðað við spilamennsku þeirra gegn Wolves, pressan var fín og menn sendu tuðruna yfirleitt á samherja en ekki andstæðinga líkt og gegn Wolves. Ég vil líka minnast á eitt, Andre Onana var mjög góður í fyrri hálfleik, mjög óvanalegt þegar markmaður United grípur háan bolta inn í teig, þá átti hann sturlaða sendingu á Garnacho sem bjó til mjög hættulega stöðu en fyrirgjöf Garnacho fór af varnarmanni (svo ekki sé minnst á að verja skotin sem komu á markið).
xG í fyrri hálfleik
United: 1.42
Tottenham: 0.51
United byrjuðu seinni hálfleikinn á afturfótunum og Tottenham voru ekki lengi að refsa, Kulusevski komst upp að endalínu, sendi boltann fyrir boltinn skoppaði af varnarmanni og fyrir Pape Sarr sem þrumaði honum upp í þaknetið (Tottenham 1 – 0 United). United reyndi að svara um leið en Antony fékk fínt færi en setti boltann í stöngina, Tottenham átti þá leik og Udogie fékk fínt færi eftir undirbúning frá Son en Onana varði vel. Seinni hálfleikurinn byrjar mjög fjörlega, Tottham menn vildu fá víti eftir að Martinez stuggaði við Romero inn í teig en það hefði verið mjög soft. United fékk svo aukaspyrnu fyrir utan teig á 55. mínútu, Bruno sendi boltann inn í teig og Casemiro átti mjög fínann skalla en Vicario varði glæsilega. Tottenham virtust vera að vakna alltaf meira og meira á 61. mínútu spólaði Son sig inn á teig og átti skot sem Shaw gerði vel í að komast fyrir.
Á 66. mínútu gerði United þrefalda skiptinu Dalot, Sancho og Eriksen komu inn á fyrir Garnacho, Antony og Wan-Bissaka. Postecoglou gerði líka breytingu stuttu seinna og setti Ben Davies og Ivan Perisic inn á fyrir Richarlison og Udogie, virtist ástralski grikkinn ætla að þétta aðeins raðirnar. Það virtist hafa virkað ágætlega a.m.k. róaðist leikurinn talsvert mikið eftir skiptingar Postecoglou. United virðist hafa ákveðið að taka upp spilamennskuna gegn Wolves í seinni hálfleik og á 83. mínútu átti Tottenham sendingu inn í teig laflausa, sem Ben Davies hitti ekki og Martinez eiginlega ekki heldur sem fipaði Onana og boltinn lak í netið, Tottenham 2 – 0 United. Lítið gerðist eftir þetta United fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig í uppbótartíma en Bruno setti boltann yfir. United var eiginlega hætt fyrir uppbótartímann og þó að hann væri 9 mínútur þá gerðu þeir samt eiginlega ekkert.
United voru ekki í leikformi gegn Wolves og virtust bara vera í formi til að spila einn hálfleik í dag. Ég veit ekki hvort var meira svekkjandi að byrja tímabilið og horfa upp á spilamennskuna gegn Wolves eða sjá spilamennskuna í fyrri hálfleik gegn Tottenham og fá vonarglætu en vera svo kippt harkalega niðrá jörðuna í seinni hálfleik. United menn voru góðir í fyrri hálfleik voru á undan í flesta bolta náðu að vinna boltann oft á vallarhelmingi Spurs. Tottenham unnu sig betur inn í leikinn í lok fyrri hálfleiks. Lundúnarliðið hélt því bara áfram í seinni á meðan United virtist vera missa alltaf meiri og meiri tök á leiknum.
Sendingar fóru að verða lélegri, voru alltaf meira og meira á hælunum og eftir á í alla bolta. Það er stórundarlegt að lið eins og United og leikmennirnir sem þar spila geti komið svona óundirbúið til leiks og þá meina ég ekki taktísklega því miðað við fyrri hálfleik þá var taktíkin ekkert að eyðileggja fyrir United, heldur aðallega bara að geta ekki hlaupið almennilega heilann fótboltaleik. Boltinn sem Ten Hag vill spila virkar ekki ef menn eru of þreyttir í að taka hlaup til þess að opna á sendingaleiðir. Það virðist hafa gerst í seinni hálfleik, leikmenn of búnir á því til þess að taka óeigingjörn hlaup til þess að opna fyrir aðra samherja.
Þá er enn þá alveg augljóst að United þarf almennilegan framherja vonandi fer að styttast í að Rasmus Hojlund geti spilað sinn fyrsta leik. Ekki bara er Rashford ekki nægilega góð nía heldur er Rashford líka bara lang besti kantmaður United og liðið mun hættulegra með hann í þeirri stöðu en upp á topp. Síðast en ekki síst verður að minnast á dómara leiksins, það er gjörsamlega fráleitt að United hafi ekki fengið víti í fyrri hálfleik sem hefði getað breytt leiknum talsvert mikið. Súrindin eru samt ekki jafn mikil og í hálfleik, þrátt fyrir að mörk breyti leikjum þá miðað við spilamennsku United í seinni hálfleik hefði Tottenham samt unnið þó að United hefði leitt 1-0 inn í hálfleik.
Eftir tvær umferðir er United með 3 stig, það er betra en í fyrra en ekki nægilega gott. Leikmenn þurfa að koma sér í almennilegt leikstand fyrir næsta leik. Vonandi geta leikmenn United spilað heilann leik næstu helgi án þess að líta út undir lok leiksins eins og meðal bumbuboltaleikmaður eftir 30 mínútur á sparkvelli.
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!