Manchester United er komið í Meistaradeildarsæti eftir þennan þægilega sigur á Fulham. Paul Pogba var enn og aftur frábær og Anthony Martial sýndi gamla takta. Heimamenn í Fulham byrjuðu leikinn reyndar betur og með smá heppni hefðu getað tekið forystu í leiknum. Það var samt Manchester United sem tók forystuna í þessum leik með laglegu marki frá Pogba sem setti boltann framhjá Rico við nærstöngina. Tæplega 10 mínútum seinna jók Martial muninn þegar hann spændi upp vörn heimamanna og lagði boltann örugglega framhjá Rico. Staðan í hálfleik var Fulham 0:2 Manchester United.
Heimsókn til Fulham
Manchester United heimsækir Fulham á Craven Cottage í hádegisleiknum á morgun. United er búið að vera á svakalegri siglingu undir stjórn Ole Gunnar Solskjaer á meðan heimamenn róa lífróður til að bjarga sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.
Antonio Valencia og Matteo Darmian eru frá vegna meiðsla á meðan Marcos Rojo er farinn að æfa aftur. Það er í raun ekkert því til fyrirstöðu að Ole geti stillt upp sínu sterkasta liði en stóra spurningin er hver fær hitt sætið í hjarta varnarinnar með Lindelöf.
Manchester Utd 2:2 Burnley
Leikurinn
Það hlaut að koma að því að þessi sigurhrina myndi enda. En einhvern veginn bjóst maður vikki við því að það myndi gerast gegn Burnley á Old Trafford. Leikurinn sýndi að það er enn ansi langt í land þó svo að margt hafi lagast heilmikið. Fyrri hálfleikurinn var ekki nógu góður og átti Marcus Rashford að skora í upplögðu færi en á einhvern ótrúlegan hátt tókst það ekki. Það hjálpaði heldur ekki neitt að Anthony Martial hafði meiðst aðeins fyrir leikinn og þurfti því að gera breytingu á sóknarleiknum sem virkaði bara alls ekki. Tom Heaton varði svo þessi fáu skot sem rötuðu á rammann. Burnley komust yfir snemma í seinni hálfleik með marki frá Ashley Barnes eftir mistaka kokteil hjá United þar sem Andreas Pereira átti mesta sökina. Ole tók sinn tíma að gera breytingar en það voru þeir Pereira og Romelu Lukaku sem voru teknir af velli en Jesse Lingard og Alexis Sánchez leystu þá af hólmi. Heimamenn pressuðu stöðugt en bjuggu ekki til nógu mikið af færum. Chris Wood kom svo Burnley í 0:2 á 83. mínútu og aftur var varnarmistökum um að kenna. Þetta stefndi í að ætla að vera einstaklega svekkjandi kvöld og dæmigert fyrir tímabilið í heild. United fékk vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar og skoraði Paul Pogba örugglega framhjá Heaton sem á alltaf leik lífs síns í þessum viðureignum. Dómarinn bætti svo við 5 mínútum af „Ólatíma“ og vaknaði smá von um að hægt væri að bjarga kvöldinu. Það gerðist svo á 92. mínútu þegar Victor Lindelöf skoraði eftir frákast en Heaton hafði varið mjög vel og boltinn hrokkið til Svíans sem gerði allt rétt. Niðurstaðan 2:2 jafntefli og Solskær enn ósigraður.
Djöflavarpið 69. þáttur – Ole, Ole, Ole, Ole!
Maggi, Friðrik og Björn settust niður og töluðu um Ole Gunnar Solskjær.
Við viljum endilega fá ykkar álit þannig að virk þáttaka í athugasemdarkerfinu er vel þegin.
Ef þið viljið senda okkur spurningar þá er það hægt að senda okkur skilaboð á Facebook síðu Rauðu djöflanna.
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan auk þess sem hægt er að hala honum niður í gegnum spilarann eða hér að neðan. Jafnframt má gerast áskrifandi að þættinum í gegnum ýmis podkast-forrit:
Cardiff City 1:5 Manchester United
Þvílík frammistaða í kvöld. Þetta var fyrsti United leikurinn í langan tíma sem ég hef hlakkað til að horfa á. Ég var mjög forvitinn að sjá liðsvalið sem var nokkurn veginn það sama og í síðustu leikjum en munurinn er sá að Paul Pogba sneri aftur í byrjunarliðið. Það sem kom kannski mest á óvart var að Nemanja Matic hélt sæti sínu í liðinu. Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United minntist á það á blaðamannafundinum fyrir leikinn að liðsvalið í þessum fyrsta leik yrði að miklu leyti undir þeim Michael Carrick og Kieran McKenna komið en þeir stjórnuðu æfingum eftir brottrekstur José Mourinho. Phil Jones var líka óvænt í byrjunarliðinu á kostnað Eric Bailly sem fór á bekkinn.