Leikið var í kvöld í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu og mættu Rauðu djöflarnir á Allianz völlinn í Þýskalandi þar sem heimamenn í Bayern tóku vel á móti þeim. Erik ten Hag stillti upp sínu sterkasta liði ef frá eru taldir allir á meiðslalistanum og allir þeir sem eru í skammarkróknum.
Leikurinn fór hraustlega af stað en United átti dauðafæri strax í upphafi leiks þegar fyrirgjöf frá vinstri kantinum sneiddi markmannsteiginn en Bayern björguðu í horn á síðustu stundu. United virtust óhræddir í spilinu upp völlinn þrátt fyrir að vera á einum erfiðasta útivelli í Evrópu en á sama tíma reyndu heimamenn sífellt að finna Gnabry og Sane með stungusendingum inn fyrir varnarlínu United.
Pressa United virkaði á köflum vel og skilaði sér í nokkrum unnum boltum ofarlega á vellinum sem settu heimamenn í örlítinn hnút. Rashford átti góðan sprett upp vinstri kantinn og skildi Laimer eftir í grasinu en fyrirgjöfin frá honum endaði í föstu gripi Ulrich í marki heimamanna. Svona voru margar sóknir United, fínt uppspil en vantaði síðustu sendinguna til að regla smiðshöggið á sóknina.
Lengi vel var leikurinn fram og til baka á þessum upphafs mínútum og United virtust aðeins vera búnir að girða sig í brók eftir flengingu helgarinnar. Menn hlupu hver fyrir annan og sinntu varnarvinnunni þótt stundum hafi litlu mátt muna að heimamenn kæmust inn fyrir. Eftir tæplega hálftímaleik komst Bayern meira inn í leikinn og tók meiri völd á vellinum eftir erfiða byrjun. Þeir léku boltanum vel á milli sín en það virkaði þó ekki hættulegt. Sem oft getur reynst lognið á undan storminum.
Því þegar Leroy Sane fékk boltann á hægri kantinum og tók stutt þríhyrningaspil við Kane sem var í vítateig United, fékk Sané sæmilegasta skotfæri fyrir utan teiginn, Skotið var ekkert sérstakt og í raun beint á Onana sem ákvað að leyfa boltanum hins vegar að fara undir sig. 1-0, nokkuð gegn gangi leiksins þó heimamenn hafi reyndar verið farnir að fikra sig ofar á völlinn.
Aftur áttu heimamenn góða sókn sem endaði með því að Musiala brunaði á Dalot og komst djúpt í vítateiginn og eftir smá klafs og með örlítilli heppni fríaði hann sig frá þeim portúgalska og renndi boltanum á frían Gnabry sem setti boltann í fjærhornið og tvöfaldaði forystuna.
United hengdu hins vegar ekki hausinn, a.m.k. ekki strax og voru fljótir að skapa sér færi hinu megin á vellinum en næsta færi kom þegar Reguilon átti fyrirgjöf sem í raun lak yfir á fjærstöngina en Pellistri var mjög nálægt því að ná að pota boltanum inn en náði ekki til hans.
Leroy Sané var svo aftur á ferðinni rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar hann dansaði tango inn í teig gestanna en sem betur fer skrúfaði hann boltann framhjá markinu. 2-0 í hálfleik og ekkert sem benti til þess að heimamenn myndu ekki fara frá borði með öll þrjú stigin.
Síðari hálfleikur fór af stað með látum. Rasmus Hojlund opnaði markareikning sinn fyrir United eftir einungis fjögurra mínútna leik en því miður var Adam ekki lengi í Paradís því jafnmörgum mínútum síðar fengu heimamenn vítaspyrnu. Harry Kane steig auðvitað á punktinn og setti boltann fast út við vinstri stöngina og Onana átti ekki fræðilegan möguleika að verja boltann. 3-1 og aftur virtist allt stefna í þægilega siglingu fyrir Bayernmenn.
Næsta markverða færi kom stuttu seinna þegar Sané komst inn fyrir vörnina vinstra meginn í teig United og kom fyrir sig skotfætinum en skaut í stöngina innanverða. Hann hefði líklegast geta gert algjörlega út um leikinn með örlítið hnitmiðaðra skoti en inn vildi boltinn ekki að þessu sinni. Við tók langur kafli af Sambandsdeildarklassa tennis, boltinn fór vallarhelminga á milli án þess að púlsinn hækkaði nokkurn tímann.
Allt þar til að United ákvað skyndilega að blása til sóknar þegar lítið lifði af venjulegum leiktíma. Þá upphófst skrautlegur kafli þar sem Martial átti sendingu á Bruno sem tók boltann viðstöðulaus áfram á Casemiro sem var í hlaupinu inn fyrir. En sá brasilíski datt og lá í teignum en tókst að sparka laust í boltann sem rúllaði í fjærhornið framhjá öllum sem í teignum voru. 3-2 og örlítill vonarneisti leit dagsins ljós, þrátt fyrir að uppbótartíminn væri einungis 4 mínútur.
En það kom í hlut varamannanna Thomas Muller og Mathys Tel hjá heimamönnum að skora næsta mark, en þýski reynsluboltinn vippaði boltanum laglega yfir varnarmúr gestanna og sá kornungi tók boltann viðstöðulaust og smurði honum upp í þaknetið framhjá Onana og jarðaði þar með vonir gestanna um að taka svo mikið sem eitthvað úr leiknum með heim til Englands. 4-2.
En það var hins vegar ekki allur vindur úr okkar mönnum ennþá því Garnacho kom askvaðandi upp vinstri vænginn og lék á örmagna Laimer og uppskar aukaspyrnu í upplögðu færi. Fyrirliðinn Bruno mætti á svæðið og setti boltann á markið, þó með ákveðnum fyrirgjafarbrag sem skilaði sér í því að Casemiro náði að nudda sér upp við tuðruna og hún endaði í netinu. 4-3.
En þá var tíminn búinn og ljóst að heimamenn halda uppteknum hætti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar áfram og fara með sigur af hólmi. United tókst í raun aldrei að komast nálægt þeim því mest allan leikinn lifði þessi 2 marka forysta. Besti maður vallarins var Musiala en Sané fylgir fast á eftir honum.
Onana vill sjálfsagt gleyma þessum leik enda óskaði hann sjálfur að fá að fara og tala við fréttamenn eftir leikinn. Margir úr United liðinu voru líflegir en varnarlínan var alls ekki nógu góð og einstaklingsmistök gerðu það að verkum að United átti í raun aldrei séns. En þetta var þó miklu skárra en um helgina. Næsti leikur er á laugardaginn þegar United mætir Kompany og lærisveinum hans í Burnley.
Zorro says
Takk fyrir mig ….þetta verður lélegra með hverjum leik😬😬😬😬😬
Egill says
Rashford þarf að fara, that’s it I said it.
Hann hefur fullt af hæfileikum en enga heilastarfsemi, er hauglatur og eigingjarn.
Við eigum að selja hann asap og nota peninginn í að styrkja fleiri stöður.
Sancho er refsað fyrir að vera latur á æfingum, en Rashford kemst upp með að vera latur alla leiki.
Og ekki fara að benda á heimskulega tölfræði yfir skoruð mörk, hann gat ekkert fyrir HM í fyrra, var frábær eftir HM og út febrúar, en skelfilegur eftir það. Og þá segir tölfræðin að hann hafi verið frábær á síðasta tímabili, á meðan sannleikurinn er að þetta voru rétt rúmlega 2 mánuðir.
En annars er það bara sama tuðið og áður, léleg vörn, lélegur markmaður, lélegt leikskipulag o.s.frv. En ETH þarf bara meiri tíma en aðrir stjórar þannig að allt er í himnalagi.
Hjöri says
Sá ekki leikinn, en varla tel ég það lélegt að tapa fyrir B.M. á útivelli með einsmarks mun, og skora 3 mörk hjá þeim.
Zorro says
Þeir voru miklu betri en við fyrir utan fyrstu 20 min…þetta er allt svo máttlaust..svo er vörnin alveg King Kong….Linderloff ein aumasti hafsent í sögu man.utd…gefur bara til hliðar og á markmanninn….hversu leiðinlegt er þetta…..fengið 14 mörk á okkur í síðustu leikjun..Bruno að spila fyrir aftan í vitleysri stöðu…mórallinn lélegur…erum alltaf skrefinu á eftir í öllu…vorum bara heppnir í restina með 2 skítamörk…svo setti Bayern í gírinn…..ekki hægt að afsaka leik eftir leik…Ten Hag gerði ömurlega skrítin kaup á leikmönnum….hver vill koma til okkar…jú dúkkulísur sem hirða launin sín….úff þetta er bara vont
Arni says
Það þarf nú að fara taka Onana úr liðinu hann er búinn að vera skelfilegur