Flestir United stuðningsmenn hafa væntanlega einhvern pata af því að fjármál United eru ekki eins frjálsleg og margir myndu vilja. Nú, ef þú hefur ekki heyrt af því máttu bóka að við eigum eftir að skrifa eitthvað um það á næstunni.
Í þessari viku virðist vera frágengið að Eden Hazard sápuóperan er á enda, hann mun ganga til liðs við Chelsea. Kaupin eiga að kosta Chelsea 35 m. punda, 6 milljónir fara til umba Hazards og launin 180-200 þúsund pund á viku. Til fimm ára er þetta samtals pakki upp á 75 milljónir.
Þessa sömu viku eru samningar að nást milli United og Borussia Dortmund um að Shinji Kagawa ( 香川 真司 ) gangi til liðs við United fyrir kaupverð upp á 12,5 milljónir punda með árangursbundnum aukagreiðslum sem gætu hækkað verðið í 17,5 milljónir. Óljóst er með laun, en sögur segja að Kagawa sé með 20þúsund á viku hjá Dortmund og talan 40 þúsund nefnd fyrir vikulaun hjá United.
Skv. fréttum var Hazard búinn að samþykkja kjör hjá United og eins voru Lille og United ásátt um kaupverð þannig að svo virðist sem United hafi í fyrsta skipti frá 30. ágúst 2008 samþykkt útlát yfir 30 milljónum punda.
Í staðinn erum við að fá mann sem kostar rúmlega þriðjung hins, og laun sem eru brotabrot. Er United endanlega farið að versla á útsölum?
Eins og pistlar framtíðar munu vonandi sýna verð ég síðasti maður til að verja Glazera og innkaupastefnu United síðustu þrjú ár, þvert á móti.
Á hinn bóginn tel ég að kaupin á Kagawa ef af verða einhver þau glúrnustu sem hægt er að gera sem stendur. Allt bendir til að við séum að fá toppspilara sem mun koma með kraft og hraða fremst á miðjuna, jútúb myndbönd svo langt sem þau ná sýna mann sem er bæði nokkuð skotviss en um leið alltaf viljugur að gefa á samherja til að skapa betra færi. Verðið sem við erum að borga er mun lægra en ella því pilturinn er á síðasta ári samnings og vill ólmur koma til Englands, og sérstaklega til United.
Þeir sem benda síðan á að hann muni eflaust selja nokkrar treyjur í Japan hafa eflaust rétt fyrir sér. En að ætla að það sé eitthvað annað en bónus í pakkanum held ég sé vitleysa. Allt bendir til að við séum að fá fínan spilara. Þótt hann sé ef til vill ekki alveg jafn frábær og Eden Hazard mun hann nær örugglega bæta lið United.
Ég ætla því hiklaust að vona að frá þessu verði gengið sem fyrst og flokka þetta undir kjarakaup.
Hvort við munum eyða meira í sumar, það er önnur saga og annar pistill.
Sigurjón says
Hann svo sannarlega lofar góðu. Var eiginlega sá eini gegn Everton í kvöld sem virtist vera með meðvitund. Ef mennirnir í kringum hann ranka aðeins við sér í næsta leik, þá er ekki nokkur vafi á því að maðurinn á eftir að skapa allnokkur mörk!