Það fyrsta sem maður gerir þegar leikjadagskráin fyrir hvert tímabil er birt er að athuga hvenær Manchester United keppir við Liverpool. Leikjadagskráin fyrir þetta tímabil kom út 18. júní og þá kom í ljós að við myndum mæta Liverpool helgina 13/14. desember. Nú er sú helgi framundan. Á sunnudaginn mætum við Liverpool á Old Trafford.
Eins og Sigurjón orðaði það í síðasta þætti af Podcastinu okkar á United alltaf harma að hefna gegn Liverpool. Í þetta skiptið eigum við þó kannski örlítið meiri ástæðu en venjulega til þess vilja fara með sigur af hólmi á sunnudaginn.
Menn gleyma þessu ekki:
Manchester United vs Liverpool 0-3 ~ All Goals… by SportChannel
Eða þessu:
Eða þessu:
Og svo þessi hrikalega fyndni brandari sem maður sá í einhverri mynd svona 80.000 sinnum allt fyrravor:
Thatcher’s dead, Fergie’s retired and Liverpool are going to win the league. Somewhere there’s a Scouser with a lamp and no wishes left.
— hrtbps (@hrtbps) April 13, 2014
Ha ha ha.
Svo gerðist þetta:
Tímabilið í fyrra skánaði örlítið við þetta en það leit samt allt út fyrir að Liverpool myndi samt sem áður takast að tryggja sér titilinn, enda með gott forskot á endasprettinum. Þetta tímabil gat varla farið verr og hið stanslausa háð og sjálfumgleði Liverpoolmanna virtist ætla að halda áfram út í hið óendanlega enda svosem ágæt innistæða fyrir því ef Liverpool myndi nú loksins takast að hirða titilinn eftir nærri því þriggja áratuga bið.
Svo gerðist þetta:
Líklega besti möguleiki Liverpool á að vinna titilinn í áraraðir rann þeim úr greipum þegar Captain Fantastic sjálfur brást á ögurstundu. Liverpool endaði því tímabilið með rosalega fína markatölu og fullt af stigum en lítið annað. Helvítis lampinn og óskirnar voru komnar í hendurnar á Andy Tate eða eitthvað.
Í upphafi þessa tímabils voru Liverpool-aðdáendur alveg sérstaklega kokhraustur eftir þetta fína gengi á síðasta tímabili. Pennarnir á því ágæta bloggi Kop.is spáðu sínum mönnum 2. sæti og þegar maður rennir yfir athugasemdirnir við færsluna þeirra sést að menn höfðu ekki mikla trú á okkar mönnum. Maður fékk alltaf þá tilfinningu í haust þegar maður var að ræða þessi mál við Liverpool-menn nær og fjær að þeim fyndist eins og loksins væri Liverpool komið framúr Manchester United og þannig myndi það vera til frambúðar. Liðið var betra, stjórinn var betri, leikkerfið var betra, allt var betra.
Rökfræðin á bakvið þetta var einhvernveginn svona: Liverpool var stórveldið. Liverpool féll af toppnum og kom ekki aftur upp fyrr en áratugum seinna. Manchester United var stórveldi. Mancester United var fallið af toppnum. Nú hlyti Manchester United að fylgja sama lögmáli og leiðin væri greið fyrir Liverpool að fylla upp í tómarúmið sem áratugalangt fall United myndi skilja eftir sig. Þetta rímaði ágætlega við þá tilfinningu sem maður fær af Liverpool-mönnum að þeir finnist réttmæt staða Liverpool, þrátt fyrir að það hafi fátt verið á bakvið það undanfarna áratugi, vera sú sem Manchester United hefur haft síðustu 2-3 áratugi.
Maður gat svosem ekki mikið sagt við þessu lengst af sumri. Maður vissi ekki alveg hvað Louis van Gaal myndi gera þó manni litist vel á hann. Hópurinn var farinn að dragast aftur úr eftir áralanga vanfjárfestingu og Woodward og co voru ekki beint að hjálpa manni með að versla ekki leikmenn fyrr en á síðustu mögulegu stundu. Maður vissi þó nokkurnveginn að þó að Mancester United væri kannski bognað væri það alls ekki brotið enda félagið ljósárum á undan öðrum félögum í deildinni hvað varðar peningamál og markaðsmál og þvíumlíkt. Tímabilið byrjaði samt ekki vel og það blés ansi byrlega fyrir Liverpool-mönnum. Eftir þrjá leiki vorum við 1 stig, þeir með 6. Maður fékk að heyra ýmislegt skemmtilegt um peningaeyðslu og allt það og sérstaklega um þetta lögmál sem ég minntist á hér að ofan. Tími Liverpool var kominn, okkar tími var liðinn.
Eða hvað? Svona er staðan í deildinni í dag. Eftir fimm leika sigurhrinu sitjum við í þriðja sæti sem skv. flestum Liverpool-mönnum var óhugsandi fyrir tímabilið. Liverpool er í 9. sæti með markatöluna 19-19 og hrunið úr Meistaradeildinni eftir að hafa lent í riðli sem var nánast bara formsatriði að komast upp úr. Ekki nóg það með eru bloggsíður og fréttamiðlar fullir af vangaveltum um framtíð Rodgers sem þjálfara Liverpool, aðeins 7 mánuðum eftir að hann stýrði liðinu næstum því til sigurs í deildinni. Næstum því.
Leikurinn á sunnudaginn
Liverpool-liðið er nánast óþekkjanlegt frá síðasta tímabili að varnarleiknum undanskildum. Hann var hörmulegur í fyrra og hann er hörmulegur í ár. Munurinn er sá að í fyrra skartaði Liverpool heitasta framherjapari deildarinnar frá því að Cole & Yorke voru upp á sitt besta. Sturridge og Suarez rifu í sig hverja vörnina á fætur annari á svo áhrifaríkan hátt að það skipti engu máli þó að Liverpool fengi á sig 2-3 mörk í leiðinni, þeir félagar bættu bara um betur. Liðið skoraði 101 mark en fékk á sig 50. Þetta form SAS eins og menn kölluðu þá veitti restinu að liðinu gríðarlegt sjálfstraust. Við þekkjum þetta frá því að við vorum með Ronaldo, menn vissu að hann myndi alltaf gera eitthvað stórkostlegt í hverjum leik.
Suarez beit sig svo í burtu frá Liverpool og Sturridge hefur verið meiddur allt tímabilið. Það munar um minna, sérstaklega þegar engin af sumarkaupunum hefur staðið undir væntingum. Balotelli er engin Suarez, Lambert er enginn Sturridge og Markovic, Moreno, Can og Manquilo eru allt ungir leikmenn sem eiga eftir að aðlagast enskum fótbolta. Við þetta bætist að Steven Gerrard er árinu eldri og án Suarez og Sturridge lítur hann afskaplega illa út í varnarmiðjuhlutverkinu sínu. Í fyrra gat hann setið til baka, stýrt spilinu og dælt sendingum hingað og þangað. Það hentaði hans veikleikum og styrkleikum einstaklega vel. Hann átti frábært tímabil (fyrir utan 5 sekúndna kafla gegn Chelsea) en hann hefur engan veginn blómstrað á svipaðan hátt enda hefur hann þurft að verjast miklu meira en hann hefur fengið að sækja.
Miðjan hefur því verið afskaplega opin enda er Lucas ekki sá ægilegi varnartengiliður sem Liverpool-menn hafa yfirleit haldið fram. Við þetta bætist að í fjarveru Sturridge sem er afskaplega duglegur að hlaupa í eyður til að skapa færi fyrir sjálfan sig eða pláss fyrir aðra hefur Gerrard þurft að treysta á tvo framherja. Balotelli og Lambert. Balotelli virðist alltaf hafa meiri áhuga á sjálfum sér heldur en liðinu og hann hans M.O. er ekki alveg að hlaupa í eyðurnar eða berjast fyrir liðið. Lambert er að mörgu leyti ágætis framherji en það er galið að lið sem ætlaði sér í titilbaráttu þurfi að treysta á hann sem framherja nr. 1 eins og hann hefur verið undanfarið. Hann var ekki keyptur til þess enda hefur hann ekki getu til þess.
Á köntunum og rétt fyrir aftan sóknarmennina hafa leikmenn sem áttu að skapa mörkin fyrir Liverpool í vetur ekki verið að afreka mikið. Markovic getur eflaust orðið hörkuspilari en hann hefur ekki sýnt mikið á þessu tímabili. Coutinho er heillum horfin og fer brátt að færast í mínusflokkinn hjá nefndinni sem sér um leikmannakaup eftir að hafa verið einn af fáum sem fengu pláss í plúsflokknum. Af einhverjum duldum ástæðum hefur svo Lallana ekki fengið að láta ljós sitt skína. Þetta reikningsdæmi gefur þá útkomu að fram á við er Liverpool gjörsamlega steingelt og minnir hreinlega á spilamennsku United undir Moyes þegar verst lét. Hreyfingarleysi fremstu manna gerir það að verkum að miðjan hefur fáa góða sendingarmöguleika.
Þetta sást vel um síðustu helgi. Ég hef líklega einhverja sjálfspíningarhvöt en ég horfði á steindautt 0-0 jafntefli Liverpool og Sunderland um síðustu helgi og ég sver að það var kafli í leiknum þar sem miðjumenn Liverpool létu boltann ganga a milli sín á miðjunni í svona 5 mínútur fram og til baka án þess að neitt gerðist. Það mætti halda að Tom Cleverley væri að stýra miðjuspilinu. Lið hafa því byrjað að pressa þessa miðju harkalega til þess að vinna boltann hátt á vellinum og þegar það tekst veitir Steven Gerrard ekki mikla vernd fyrir vörnina.
Í vörninni hafa þeir félagar Dejan Lovren og Martin SKRTL ráðið ríkjum enda virðist varnartröllinu Sakho ekki vera treystandi. Enn einn í mínusflokkinn. Við United-menn fengum nú aldeilis að heyra það hvað United-vörnin væri slök en hún er hreinn og klár Berlínarmúr við hliðina á þessum félögum. Þeir hafa verið það slakir að Liverpool-menn voru brjálaðir þegar kom í ljós að Kolo Touré gat ekki spilað leikinn mikilvæga gegn Basel um helgina vegna meiðsla. Þú veist að ástandið er slæmt þegar Kolo Touré er orðinn lykilmaður í vörninni á gamalsaldri. Bakvið þessa snillinga er svo Simon Mignolet sem virðist æstari í að gefa andstæðingum boltann en á sína eigin liðsmenn.
Sóknin hjálpar ekki miðjumönnunum sem hjálpar ekki varnarmönnunum sem hjálpar ekki markmanninum sem hjálpar ekki liðinu. Og á hliðarlínunni stendur knattspyrnustjórnunargoðið Brendan Rodgers og virðist ekki hafa einu einustu hugmynd um hvað hann geti gert til að snúa genginu við.
Sumir myndu stinga upp á því að byrja að spila varnarleik enda er víst svo auðvelt að þjálfa hann en hann myndi líklega ekki hlusta á þær raddir enda of upptekinn við að hlusta á sjálfan sig. Svona Liverpool í dag. Hörmuleg spilamennska og framtíð stjórans í hættu. Við munum þvi mæta særðu dýri á sunnudaginn sem er alltaf tvíeggjað sverð. Spurningin er einfaldlega hvort að dýrið sé við að það deyja eða hvort það sé ennþá smá kraftur eftir.
- Ef það er einhver kraftur eftir gætum við mætt Liverpool-liði sem mætir af hörku í þennan leik. Menn ætli aldeilis að berjast fyrir liðið og bjarga framtíð knattspyrnustjórans sem færði þá nær fyrirheitna landinu en nokkur annar hafði gert. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir Liverpool enda hrikalegt að detta út úr Meistaradeildinni OG tapa fyrir Manchester United með nokkurra daga millibili. Tap í þessum leik og liðið er búið að dragast langt aftur úr pakkanum. Tap í þessum leik og liðið verður afskaplega illa stemmt fyrir hina mikilvægu jólatörn. Sigri liðið gæti það gleymt óförunum í Meistaradeildinni og veitt þeim aukið sjálfstraust. Það gæti verið fyrsta skrefið í björgunarleiðangri þessa tímabils. Ef það kveikir ekki í mönnum gerir það ekkert.
- En ef liðið er við það að deyja mætum við liði sem hefur misst trúnna á Rodgers sem þjálfara og þar sem menn einblína á allt það neikvæða. Við vitum allt um það hvað gerist þegar leikmenn hafa ekki trú á þjálfaranum. Þeir leggja sig ekki fram og vilja losna við hann.
Ef lið 1 mætir á Old Trafford á sunnudaginn munum við eiga von á hörkuleik. Sannkölluðum nágrannaslag þar sem barist verður til síðasta blóðdropa. Ef lið 2 mætir á svæðið verður þetta þægilegur sigur hjá okkar mönnum.
Á blaðamannafundi Rodgers kom fram að það verði metið á sunnudaginn hvort að Balotelli geti spilað, Kolo Touré er heill heilsu og Lallana líka eftir að hafa brákað rifbein gegn Leiceister. Flanagan og Sturridge eru svo meiddir og koma ekki nálægt þessum leik. Ef eitthvað er að marka síðustu leiki má búast við að Rodgers stilli upp eftirfarandi liði:
United
Okkar menn eru á mjög fínu róli í deildinni. 5 sigurleikir í röð og þar af tveir gegn liðum sem ætla má að verði í baráttunni í efri hluta deildarinnar. Frá því að glugginn lokaði í byrjun september hefur United nælt sér í 26 stig sem er aðeins einu minna en fyrirframkrýndir meistarar Chelsea hafa halað inn á sama tímabili. Allt hófst þetta með endurkomu Carrick en liðið hefur ekki tapað leik frá því hann jafnaði sig af meiðslum og fór að byrja leikina.
Í þessari fimm leikja sigurhrinu hefur liðið spilað 3 heimaleiki og 2 útileiki. Í útileikjunum má segja að heppnin hafi verið í liði með okkur og við hirtum öll stigin þrátt fyrir að spila undir pari. Á heimavelli er hinsvegar ekki hægt að segja annað en að stigin 9 hafi verið fyllilega verðskulduð gegn Crystal Palace, Hull og Stoke en í þessum leikjum var United töluvert sterkari aðilinn. Í raun hefur heimavallaformið verið afskaplega fínt annað en á síðasta tímabili. Á Old Trafford hefur liðið fengið 19 af 24 mögulegum og aðeins Chelsea hefur átt sterkari heimavöll á tímabilinu.
Leikmenn liðsins ættu því að koma fullir sjálfstrausts inn í þennan leik enda engin ástæða til þess að óttast þetta Liverpool-lið eins og það er að spila um þessar mundir. Á blaðamannafundi í dag hrósaði Louis van Gaal liðinu fyrir þessa fimm leikja sigurhrinu og staðfesti það að Angel di Maria myndi ekki taka þátt vegna meiðsla en óstaðfestar fréttir frá Argentínu hermdu að hann myndi vera með í leiknum. Smalling meiddist gegn Southampton og Luke Shaw og Daley Blind eru enn frá vegna meiðsla. Aðrir eru án meiðsla en Phil Jones og Jesse Lingard eru þó að koma sér í form eftir meiðslin. Rafael og Jonny Evans gætu snúið aftur í byrjunarliðið og svo er það alltaf spurningin með Falcao?
Van Gaal var spurður út í það hvort að Falcao gæti snúið aftur í byrjunarliðið. Svarið var:
Yes. He could make a return
Þetta setur upp áhugaverðar pælingar um það hvernig United stillir upp gegn Liverpool. Gegn Chelsea og Manchester City hlóð Louis van Gaal í 4-3-3 og gegn Arsenal og Southampton skellti hann í 3-4-1-2. Gegn veikari liðum á heimavelli hefur Van Gaal verið að nota sér teninginn (demantinn) góða með góðum árangri. Van Gaal hefur verið svolítið varfærinn gegn erfiðari andstæðingum en satt best að segja vil ég ekki sjá það á sunnudaginn. Við erum að fara að mæta Liverpool-liði sem er með lítið sem ekkert sjálfstraust og illa spilandi um þessar mundir.
Þessvegna vil ég sjá United stilla upp í demantinnn. Tvo framherja til þess að valda þessari handónýtu Liverpool-vörn vandræðum. Leikmann í holuna til þess að tryggja það að Steven Gerrard þurfi að sinna varnarvinnu og svo þrjá aðra leikmenn á miðjuna til þess núlla út miðjuna hjá Liverpool. Ég vil sjá liðið setja frakka á Gerrard og svo pressa hátt svo að varnarmennirnir eigi fáa möguleika að gefa boltann út. Það er lykilatriði að vinna boltann hátt á miðjunni og keyra á vörnina, það er veikasti hlekkur Liverpool-liðsins. Ég vil sjá þá keyra á Liverpool-liðið frá fyrstu mínútu. Þetta Liverpool-lið er í vandræðum og mark snemma leiks gæti brotið þá.
Ég vil því sjá eftirfarandi lið:
Young má halda sæti sínu enda staðið sig undarlega vel í vinstri bakverðinum og satt best að segja er eiginlega ekkert um annað að ræða. Rojo og Evans taka líklega miðverðina og Rafael má koma inn fyrir Valencia enda passar hann betur í þessa stöðu. Miðjan velur sig sjálf í fjarveru Di María og stóra spurningin er hvort að Falcao byrji eða ekki. Að mínu veltur það á því hvort að stjórinn vilji nota Mata. Rooney er sjálfkjörinn og Robin van Persie vann sér inn byrjunarliðssæti með spilamennsku sinni gegn Southampton. Mata gæti hinsvegar dottið út og Rooney komið í holuna og Falcao farið fram. Þó það væri auðvitað geggjað að sjá United stilla upp þessari sóknarlínu er líklegast að Falcao verði á bekknum og komi inn á þegar líða fari á leikinn.
Við erum í dauðafæri til þess að skemma rækilega fyrir Liverpool. Tap gegn okkur á sunnudaginn og Rodgers lendir í stórvandræðum. Mórallinn í liðinu mun þjóta niður rétt fyrir jólatörnina. Þetta er gullið tækifæri til þess að hefna fyrir síðasta tímabilið og sýna þeim að síðasta tímabil var algjör undantekning sem muni ekki endurtaka sig. Við getum sent Liverpool aftur í meðalmennskuna. Það er verkefnið á sunnudaginn.
Endum þetta á uppáhaldsmarkinu mínu sem United hefur skorað gegn Liverpool á Old Trafford. David Beckham árið 1996 í 1-0 sigri.
Leikurinn hefst kl 13.30 á sunnudaginn.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Frábær upphitun :D
Birkir says
Magnað að geta komið inná þessa síðu og lesið svona frábæra upphitun og allt sem þið eruð að gera hérna allur þessur fróðleikur á okkar fallegu íslensku;) þúsund þakkir
Keane says
Hafðu þakkir Tryggvi Páll, flottur pistill
Ingi says
Frábær upphitun!
Narfi Jónsson says
Mögnuð upphitun, er ekki örugglega sunnudagur á morgun?
Andri H. Oddsson says
Takk fyrir frábæra upphitun. Það er vissulega rétt að Liverpool hafa verið að spila mjög illa undarfarnar vikur en þrátt fyrir það er ég einungis hóflega bjartsýnn fyrir þennan leik. Tilfellið er að þegar þessi lið mætast þá virðist ekki skipta máli hvar þau eru stödd í deildinni. Hinsvegar gæti verið eitthvað annað upp á teningnum í dag því það er eitthvað verulega mikið að innan þeirra herbúða og vandmálið virðist vera stórt. Við gleðjumst yfir því og óskum eftir sigri á Sunnuaginn.
Valdi Á. says
Frábær upphitun!! Gaman að koma heim og lesa þetta. Kemur manni í gírinn fyrir helgina.
Halldór Marteinsson says
Glimrandi fín upphitun :)
Alltaf að verða meiri og meiri aðdáandi síðunnar og alls þess sem hún hefur að bjóða. Metnaður í þessu!
Það er annars velkomin tilbreyting frá síðasta tímabili að vera spenntur og jafnvel bjartsýnn fyrir komandi Liverpool viðureign.
Væri helst til í sama lið og Tryggvi setur upp hér að ofan. Held að lykilmennirnir séu De Gea, Captain Rooney, Young og Fellaini. Aðrir koma kannski með meira flair en ég held að þessir fatti mest hvað það snýst um að spila g
fyrir United og komi með rétta attitude-ið í leikinn.
Ingi says
Miðað við allt þessa dagana, þá á Man Utd einfaldlega að vinna þennan leik.
Spái 3-0 eða 2-0
Ingvar says
Flott upphitun en eins og svo oft undanfarin ár þá skiptir akkúrat engu hvernig liðin hafa verið að spila leikina á undan. Þetta eru bikarleikir og það hefur yfirleitt ekki komið okkur vel þegar Liverpool er upp við vegg þegar þeir mæta á old trafford. Við þurfum að spila talsvert betur á morgun heldur en við höfum gert í síðustu leikjum ef við ætlum að fá eitthvað úr leiknum.
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Takk fyrir þetta Tryggvi og að auki þá tek ég heilshugar undir allar þakkirnar hér að ofan. Það eru forréttindi að hafa aðgang að þessari síðu sem bíður upp á svona vönduð skrif og nánast alveg laus við hroka :-)
Vitið þið hvað, ég nánast á ekki til orð til að lýsa hrifningu minni með ykkur sem standið að þessari síðu og ég er enn stoldari Manchester United maður í hvert skipti sem ég les þessa málefnalegu og vönduðu pistla hér inni.
1000 þakkir fyrir mig og megum við öll gleðjast enn frekar eftir hádegi á sunnudaginn kemur !
kv,
Sigurjón Arthur Friðjónsson(SAF)
Karl Garðars says
Sammála síðustu ræðumönnum. Þessi síða er glæsileg í alla staðu og þið sem standið að henni eigið skilið trailer af Thule! Alltaf gaman að lesa pistlana ykkar! Takk fyrir mig.
Sindri Þorsteinsson. says
Nokkrir punktar varðandi liðið sem að Tryggvi spáir.
1. Rafael; einn óútreiknanlegasti bakvörður sem að við höfum átt. Getur sprengt upp kantinn og lagt upp mörk,, þó að hann eigi það til að gleyma því að hann er varnarmaður.
2. Evans og Rojo; Fyrir mér er Rojo eini CD sem að gæti mögulega náð 25 leikjum+ (þar sem aðeins einn af Evans, Smalling og Jones er heill hverju sinni)
3. Ashley hinn ungi; Þvílík uppreisn æru sem þessi er að fá, hélt að fuglaskíturinn hefði kórónað síðasta tímabil en aldeilis ekki!
4. Fellaini-Carrick-A.Herrera; Fellaini hangir inni þrátt fyrir skelfilega spilamennsku gegn Southampton, ég vildi svo fyrir viku að hann fengi hvíld en allt kom fyrir ekki. Herrera flottur hingað til (nema gegn WBA), samt ekki fram úr björtustu vonum. Ef að Carrick dalaði mest allra í deildinni milli tímabila 12/13-13/14 (sú umræða fór í gang á íslenskum fréttmiðli) hafa ansi margir í deildinni dalað mikið meira þetta tímabil, allavega miðað við gengi okkar með honum.
5. Mata; Hefur það orðspor að hverfa gegn stóru liðunum og tryggja stigin gegn þeim minni, hann ætti því að vera lykilmaður í leiknum.
6. RVP; Eins mikið og ég vil sjá el tigré spila þá er ómögulegt að taka Robin úr liðinu eftir síðasta leik.
Held að McNair komi inná fyrir meiddan Evans ekki seinna en á 50. mínútu.
Fletcher kemur síðan inná fyrir Mata eftir 85 mínútur og nær að gefa boltann nokkrum sinnum á Carrick og niður á varnarmennina.
Vona innilega að Falcao spili, held samt að stóru-hreðja Gaal geymi hann á bekknum og segi aðspurður eftir leik “Yeah, Falcao needs to train and play with the youngsters, he still lacks fitness“, það þarf jú, eins og allir vita, að vera heill í tvo mánuði til að spila hálfleik.
Vil ekki vera of neikvæður samt, Van Gaal er að snúa öllu til betri vegar og hann á alla mína virðingu.
GGMU
KPE says
Ég vil alls ekki að Rafael byrji þennan leik. Ekki bara það að hann er stíga upp úr meiðslum þá er hann svo fáránlega óútreiknalegur. Gæti átt stórleik en hann gæti einnig lent í bölvuðu basli með Sterling eða einhvern þarna og fengið á sig eitthvað hrikalega kjánalegt víti eða rautt spjald. Vil ekki taka áhættuna með hann. Leikurinn má ekki klúðrast við eitthvað þannig kjaftæði. Valencia á að byrja þennan leik allan daginn!
Rauðhaus says
Þrátt fyrir að ég sé almennt mikill aðdáandi Mata þá vona ég að hann byrji leikinn á bekknum og Wilson byrji inn á.
Ástæðan: Í fjarveru Di Maria erum við átakanlega lausir við snögga leikmenn. Þetta háði okkur augljóslega í fyrra (og núna í ágúst) og sást greinilega í síðasta leik gegn Southampton.
Held líka að Liverpool komi til með að reyna að pressa okkur hátt uppi (líkt og Southampton gerði). Það þýðir að varnarlína gæti orðið hátt uppi og þá er gott að hafa sérlega fljótan senter.
Við einfaldlega verðum að hafa hraða í liðinu okkar. Hann fæst með Wilson.
Runólfur Trausti says
Alveg sammála Rauðhaus með Wilson pælinguna enda vildi ég sjá hann starta gegn Southampton (til að nýta svæðin á bakvið bakverðina þeirra og það að hafsentarnir þeirra eru frekar hægir finnst mér) en það að drop-a Mata er ekki svarið held ég.
Svarið er frekar að droppa Fellaini (sem var arfaslakur gegn Southampton). Mata hefur verið nýttur í sumum leikjum undanfarið á miðri miðjunni í „demantinum“ okkar. Kannski var það bara leikurinn gegn Hull sem ég er að husa um (þegar Rooney var ekki með) en þá datt Mata oft niður á vinstri „vænginn“ í demantinum / tíglinum og Herrera fór upp í holuna. Ástæðan fyrir því er sú (að ég held) að Mata er einn best „pass and move“ leikmaður liðsins – það sést best á „Heppnaðar Sendingar“ % hans. Þannig að ef liðið vill halda boltanum aftarlega þá eru hann og Carrick fullkomnir í því á meðan Herrera gefur meiri hraða/greddu og „penetration“ ofar á vellinum.
Allavega ef tígullinn verður spilaður myndi ég persónulega stilla þessu upp svona en svo gæti vel verið LvG prófi aftur 4-2-3-1 eins og hann hefur spilað í stóru leikjunum hingað til.
Björn Friðgeir says
Þó United væru heimsmeistarar og Liverpool komið í 7. deild væri ég mökkstressaður fyrir leik gegn Liverpool.
OK.
Kannske ekki 7. En 4.deild. Klárt mál.
Mikið brothætt í báðum liðum, en ef United leikmenn spila af fullri getu þá vinnum við leikinn. Þarf engum að koma á óvart að ég myndi elska að sjá Wilson í byrjunarliði. Þegar ég hugsa um það þá er ég eilítið smeykur við það að Falcao byrji. En hann kemur inná.
Eina sem ég vil ekki sjá er þriggja manna vörn!
Komasooooooo!
Rauðhaus says
Get tekið undir það sem Runólfur segir, enda Mata auðvitað frábær leikmaður. Mikilvægast er að Vvð byrjum með lið sem getur átt þann kost að sækja hratt.
Tek líka undir með Bjössa varðandi 3 manna vörnina.