Eftir að hafa lent í gífurlegum meiðslum á síðasta tímabili tók Louis Van Gaal þá ákvörðun að það væri betra að skera hópinn niður. Þrátt fyrir að liðið væri að fara í Meistaradeildina og reikna mátti með að hörmungin gegn Mk Dons myndi ekki endurtaka sig. Því kom það mörgum á óvart að Van Gaal ætlaði sér að minnka hópinn, sérstaklega eftir meiðslavitleysuna sem átti sér stað í fyrra.
Framan af tímabilinu virtist sem þetta hefði verið hárrétt ákvörðun, einu meiðslin framan af vetri voru þrír varnarmenn. Luke Shaw fótbrotnaði í leik gegn PSV í Meistaradeildinni, Antonio Valencia þurfti að fara í aðgerð sökum þrálátra meiðsla og Marcos Rojo var sendur í aðgerð eftir að hafa farið aftur úr axlarlið. Þetta voru í rauninni allt meiðsli sem Van Gaal gat ekki haft áhrif á, en á síðasta tímabili voru flest öll meiðsli liðsins svokölluð vöðvameiðsli, sem gerðust á æfingu.
Þegar þetta er skrifað eru sex leikmenn sem spiluðu í áðurnefndum leik gegn PSV á meiðslalistanum. Það virðist því sem breyttar æfingaraðferðir Van Gaal hafi ekki verið nóg. Hvort um sé að ræða ofspilun á tilteknum leikmönnum er ekki mitt að segja en núna í febrúar voru allt í einu komnir 14-15 leikmenn á meiðslalistann. Verandi með lítinn hóp hefur Van Gaal þurft að teygja sig ofan í unglingastarf félagsins og hefur hann dregið hverja kanínuna á fætur annarri upp úr hattinum.
Hér að neðan rennum við yfir þá leikmenn liðsins sem höfðu ekki spilað fyrir félagið fyrr en í vetur en flestir þeirra eru það ungir að þeir eru ekki með sína eigin Wikipedia síðu og margir þeirra varla spilað fyrir u21 lið Manchester United. Tekið skal fram að greinin var skrifuð áður en Juan Mata tryggði liðinu 1-0 sigur á Watford í gær.
Markmenn
Þrátt fyrir að hafa ekki spilað þá hafa tveir ungir markmenn félagsins verið á bekknum núna undanfarið. Eftir að David De Gea meiddist á hné gegn Midtjylland í Evrópudeildinni þurfti Svissneski Portúgalinn Joel Castro Pereira (f. 1996) að skella sér á bekkinn á meðan Romero stóð í búrinu. Þar sem Pereira hafði spilað í FA bikarnum með Rochdale fyrr í vetur þá var ákveðið að kalla Dean Henderson (f. 1997) úr láni frá Stockport County. Þrátt fyrir að allir þjálfarar beggja markmanna tali einstaklega vel um þá þá er ekki líklegt að þeir eigi mikla framtíð fyrir sér hjá félaginu, nema þá sem varamarkmenn fyrir David De Gea.
Varnarmenn
Meiðslalisti félagsins byggist að mestu á varnarmönnum, svo skiljanlega hafa þó nokkuð margir varnarmenn fengið að spreyta sig í vetur.
Cameron Borthwick-Jackson
Einn af þeim fyrstu sem fékk að spreyta sig var Cameron Borthwick-Jackson (f. 1997) en hann kom inná fyrir Marcos Rojo í 2-0 sigri gegn West Bromwich Albion þann 7. nóvember 2015. Síðan þá hefur fengið að spreyta sig reglulega og var hann í byrjunarliðinu gegn Wolfsburg í leiknum sem flestir vilja gleyma.
Eftir gífurlega þroskaðar frammistöður ásamt því vera með eitraðar fyrirgjafir hafa menn velt fyrir sér af hverju drengurinn fékk ekki sénsinn strax eftir að Shaw og Rojo duttu út en hann hefur staðið sig mjög vel þrátt fyrir að vera aðeins á öðru tímabilinu sínu með u21 liði félagsins. Það helsta sem menn geta sett út á drenginn er undarlegur hlaupastíll en það gleymist fljótt ef frammistöðurnar verða svipaðar og undanfarið.
Guillermo Varela
Annar bakvörður sem fékk eldskírn gegn Wolfsburg er Guillermo Varela (f. 1992), hægri bakvörður frá Úrúgvæ sem minnir um margt á minn ástkæra Rafael. Varela á þann vafasama heiður að vera fyrstu kaup David Moyes sem stjóra félagsins. Í fyrra var hann lánaður til varaliðs Real Madrid þar sem Zinedine Zidane hrósaði honum í hástert.
Eftir mikla bekkjarsetu þá kom Varela mjög sterkur inn gegn Derby og sýndi svo gífurlegan þroska og yfirvegun í leiknum gegn Arsenal en eftir að hafa fengið gult spjald eftir aðeins 9 mínútur bjuggust margir við því að Alexis Sanchez myndi gera honum lífið leitt en Varela tók Sanchez og stakk honum hreinlega í rassvasann.
Michael Carrick, sem spilaði við hlið Varela í vörninni, ákvað að minnast sérstaklega á frammistöðu drengsins eftir leikinn. Hans helstu kostir eru svipaðir og hjá Rafael en hann er mjög góður sóknarlega en varnarlega er fullt sem má bæta. Sem stendur finnst höfundi hann þó talsvert betri kostur en Antonio Valencia eða Ashley Young.
Timothy Fosu-Mensah
Í áðurnefndum leik gegn Arsenal fór Marcos Rojo útaf fyrir leikmann að nafni Timothy Fosu-Mensah (f. 1998) inná. Hans fyrsti leikur gegn liðinu sem var í 2. sæti í deildinni en Fosu-Mensah virtist slétt saman og átti í rauninni frábæra innkomu. Drengurinn kom frá Ajax sumarið 2014 og hefur spilað með u18 og u21 liðinu síðan þá.
Þrátt fyrir að hafa komið inn á í vinstri bakvörð gegn Arsenal þá hefur hann spilað þó nokkrar stöður síðan hann kom til Englands. Hann hefur spilað allar stöður í vörninni, ásamt því að hafa verið djúpur á miðju bæði fyrir United og Holland.
Hann er meira að segja það fjölhæfur að hann hefur leyst af í holunni svokölluðu en sem stendur virðist sem hans besta staða sé í vinstri bakverði eða hafsent. Hans helstu kostir eru helst þeir að drengurinn minnir á fullvaxta karlmann frekar en 18 ára gutta. Eitthvað segir mér að hann og Memphis gætu orðið fínustu vinir í lyftingarsalnum.
Joe Riley
Í leiknum gegn Shrewsbury þá kom Joe Riley (f. 1996) inn á fyrir Borthwick-Jackson í hálfleik. Verandi á sínu fyrsta tímabili með u21 liðinu þá tók það hann smá tíma að finna sína stöðu en í mjög góðu liði þá endaði þessi réttfæti leikmaður sem hefur spilað bakvörð, hægri kant og miðju í vinstri bakverði! Þrátt fyrir það þá hefur hann fengið mikið lof frá þeim sem fylgjast vel með u21 félagi liðsins á Twitter.
Verandi sóknarsinnaður leikmaður að upplagi þá hentar það honum vel að spila bakvörð með u21-liði sem vill helst spila blússandi sóknarbolta. Það kemur því ekki á óvart að hann hafi byrjað í 5-1 sigrinum á Midtjylland þar sem United varð hreinlega að vinna. Þar spilaði hann 79 mínútur áður en Rojo kom aftur til baka úr axlarmeiðslunum sínum.
Donald Love
Eftir að hafa byrjað tímabilið á láni hjá Wigan í League One (Þriðju efstu deild) þá kom hinn 21 árs gamli Donald Love (f. 1994) inná þegar Matteo Darmian meiddist gegn Sunderland. Fékk Love annan séns gegn Midtjylland í Danmörku en því miður fyrir hann þá töpuðust báðir þessir leikir og í síðasta u21 leik þá meiddist hann og má því reikna með að hann fái ekki marga sénsa í framtíðinni. Hann var samt sem áður í miklum metum hjá Warren Joyce og Paul McGuinnes en Love var mjög fjölhæfur og hafði spilað þó nokkrar stöður áður en það var ákveðið að festa hann í hægri bakverði.
Regan Poole
Á einhvern ótrúlegan hátt taldi akademía Cardiff að Regan Poole (f. 1998) væri ekki nægilega góður og losuðu sig við hann. Eftir það fór hann á reynslu bæði hjá Liverpool og United, á jafn ótrúlegan hátt endaði hann í Newport County þar sem hann spilaði 15 leiki í League Two (Fjórðu efstu deild) áður en United keypti hann þaðan.
Það tók sinn tíma fyrir hann að fá alþjóðlega leikheimild en þegar það komst í gegn þá var Poole skráður í leikmannahóp United, bæði fyrir deild og Evrópudeildina en kom Poole, sem hefur verið United aðdándi frá blautu barnsbeini, inn á fyrir Ander Herrera í títtnefndum 5-1 sigri á Midtjylland. Þrátt fyrir að hafa komið inn á miðjuna þá er Poole að upplagi varnarmaður, spurning hvar United sjá hann fyrir sér í framtíðinni.
Miðjumenn og framherjar
James Weir
Eftir frábæra frammistöðu gegn Arsenal var Herrera tekinn útaf í lok leiks fyrir James Weir (f. 1995). Hann er einn af mörgum fínum miðjumönnum sem hefur komið upp úr akademíu félagsins en því miður virðist sem fæstir séu alveg í þeim klassa sem menn vilja sjá frá miðjumönnum United.
En sumir blómstra seinna en aðrir og er Danny Drinkwater gott dæmi um einn slíkan. Hvað varðar Weir þá er hann metinn mikils hjá þjálfurum félagsins og talið að hann eigi bjarta framtíð fyrir sér. Hann er sóknarsinnaður miðjumaður með gott auga fyrir spili og mjög góður að slútta.
Marcus Rashford
SÍÐAST EN EKKI SÍST þá er það drengurinn, undrið og kraftaverkið Marcus Rashford (f. 1998). Eftir gífurleg meiðsli í framlínu liðsins þá var Rashford hent í byrjunarliðið í téðum 5-1 sigri á Midtjylland eftir að Martial meiddist í upphitun. Fæstir vissu hver Rashford var enda hefur hann aðeins byrjað u21 leiki í vetur og er í raun ennþá í u18 liði félagsins. Okkar manni var eiginlega slétt sama um það og ákvað að smella í tvo mörk og hjálpa við að koma United áfram í Evrópudeildinni.
Ekki nóg með það heldur var Rashford aftur í byrjunarliðinu gegn Arsenal. Bjuggust fæstir við því að drengurinn myndi eiga séns gegn hafsentapari sem innihélt Gabriel, oftar en ekki kenndur við mannætu, og Laurient Koscielny sem er af mörgum talinn einn besti hafsent deildarinnar í dag.
Enn og aftur þá var Rashford alveg drullu sama, hann heimtaði boltann, hann keyrði á vörnina hjá Arsenal og var næstum búinn að fiska víti með góðu hlaupi. Hann stoppaði reyndar ekki þar heldur kom hann United yfir í leiknum með mjög yfirveguðu slútti eftir að boltinn datt til hans í teignum. Það var reyndar ekki nóg og nýtti hann fyrirgjöf frá Jesse Lingard til hins ítrasta þegar hann stangaði knöttinn í netið framhjá Petr Cech.
Til að fullkomna nú þegar fullkominn leik þá stakk hann sér innfyrir vörn Arsenal eftir sendingu frá Juan Mata, hélt boltanum og lagði hann svo út á Herrera sem kom United í 3-1.
Auðunn Atli says
Af þessum 8 strákum sem hér eru taldir upp get ég alveg séð 4-5 eiga bjarta framtíð hjá United, það er ekki amalegt að gefa 8 leikmönnum frá unglingaliðum United séns í aðalliðinu á einu og sama tímabilinu, það er mjög vel gert hjá Van Gaal og það má svo sannarlega hrósa honum fyrir það. Ég er þess handviss að við myndum ekki sjá þetta hjá Móra eða öðrum þjálfurum ef útí það er farið.
Ég er mjög spenntur fyrir mönnum eins og Rashford, Mensah, Jackson og Varela á komandi árum.
Það er bjart framundan hjá United þegar að þessu kemur þökk sé þjálfurum liðsins.
Stundum þarf að færa fórnir til að gefa efnilegum strákum séns og koma þeim á legg, það er ákveðið uppbyggingar starf í gangi og ég held að menn verði að hafa þolinmæði fyrir henni, þetta er það sem Man.Utd snýst um, þetta er vörumerki liðsins.
Það er ekkert víst eins og ég hef nefnt áður að við fáum að sjá allt það góða sem Van Gaal er að gera fyrr en eftir 2-4 ár, ég held hinsvegar að biðin verði þess virði.
Ég geri svo ráð fyrir að hann haldi áfram að byggja liðið upp með því að losa sig við nokkra leikmenn í sumar og fá til sín nokkra sterka leikmenn í þeirra stað.
Mér finnst að hann ætti að fá að halda áfram með liðið næsta tímabil, það er ekki glóra í því að mér finnst að reka hann í sumar og fá Móra eða einhvern annan inn á meðan þessi uppbygging er í fullum gangi.
Ég held að þessir ungu strákar treysti Van Gaal fullkomlega og vilji starfa með honum áfram.
Dogsdieinhotcars says
Ég ætla ekki að þykjast hafa vitað eitthvað mikið um þessa gæja:
En eftir að hafa lagst í smá research; þá eru menn að tala um Fosu-Mensah sem mesta efni síðan Pogba, ég er allavega hrikalega spenntur.
Þá eru menn að ræða að best væri að þroska hann í miðjumann og sem miðvörð til vara. Helstu hæfileikar eru taktísk vitund og leikskilningur. Svona ásamt því að vera vaxinn eins og Essien 16 ára.
Smá vídjó með kallinum (rosalegt lag. Ekki gott) https://www.youtube.com/watch?v=-oKCMRqvlrs
Jón Hannes Kristjánsson says
Flott grein og fróðleg.
Bjorn says
Ókei Varela og Rafael eru nákvæmlega ekkert líkir leikmenn að öðru leyti en því að þeir spila sömu stöðuna. Persónulega er ég miklu hrifnari af Varela, hann er mun yfirvegaðari og stöðugari. Rafael minnir mig mun meira á Carvajal hjá Real, báðir leikmenn sem er engan veginn hægt að treysta á. LVG gerði það sem átti að vera löngu búið að gera þegar hann losaði sig við Rafael.
Keane says
Finnst alltaf spes þegar menn tala um ofspilun á leikmönnum.. svo horfir maður á Barcelona í öllum keppnum.