• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Grannaslagur eða stjóraslagur? Manchester City í heimsókn.

Björn Friðgeir skrifaði þann 9. september, 2016 | 6 ummæli

Manchester-United-Manchester-cityLoksins, loksins, loksins, loksins.

Það er grannaslagur á morgun, og ólíkt síðustu þremur árum þá er það grannaslagur sem skiptir öllu máli!

Fyrir sex mánuðum síðan fór United í heimsókn til City og Tryggvi eyddi upphituninni í að ræða mál Louis van Gaal. Í sjálfum leiknum var Marcus Rashford enn og aftur stjarnan, skoraði 250. mark United í grannaslag og tryggði United 1-0 sigur og kom liðinu upp í… sjötta sætið. City sat þá hins vegar í fjórða sæti.

https://twitter.com/ManUtd/status/773446725096841216

En nú er öldin önnur í Manchester. Bæði lið eru með fullt hús stiga og bæði lið hafa splæst í nýjustu framkvæmdastjórauppfærsluna.

Mynd: Marca
Mynd: Marca

Pep og José eru mættir og augu heimsins beinast nú öll að Manchester. Síðustu daga hafa dagblöð á Spáni, Ítalíu, í Portúgal og Þýskalandi slegið upp hverri opnunni á fætur annarri til að fjalla um grannaslaginn í Manchester. Það þarf varla að taka fram að aldrei áður hefur þetta gerst, Manchester er nú í dag stærsti grannaslagur evrópska boltans. Þvílíkur dagur! En við látum evrópsku blöðin um að horfa á þetta sem José gegn Pep, við ætlum að einbeita okkur að leiknum á morgun og hugsa minna um það hvað þessi stjórar hafa gert hjá fyrri liðum.

jose-vs-pepVið vissum í vor að hlutirnir myndu breytast hjá City. Við vonuðum að hlutirnir myndu breytast hjá United. En það sem gerst hefur hjá United hefur farið fram úr björtustu vonum okkar allra. Leikurinn á morgun verður fyrsti prófsteinninn á það hvort að þessi bjarta byrjun sé raunveruleg eða hvort við þurfum aðeins að tempra vonirnar.

En við vitum hvað hefur verið að gerast hjá okkur síðasta mánuðinn, við vitum að United keypti dýrasta leikmann allra tíma, við vitum að Zlatan byrjaði betur en við þorðum að vona, við vitum að Bailly hefur sömuleiðis byrjað betur en nokkur bjóst við, við vitum að Rashford ætlar að halda áfram á þessu tímabili eins og hann lauk því síðasta og að Blind, Valencia og Fellaini eru orðnir einhverjir aðrir leikmenn en við höfum séð síðustu ár og að Luke Shaw spilar eins og hann hafi aldrei fótbrotnað.

Og við vitum að José Mourinho ætlar sér ekkert annað en sigur á erkióvininum. Pep Guardiola.

En hvað vitum við um Manchester CIty

Andstæðingurinn

Pep Guardiola lét ekki frekar en José Mourinho sitt eftir liggja á leikmannamarkaðnum í sumar. Enginn þeirra var reyndar nándar nærri eins dýr og Paul Pogba, en styrking leikmannahópsins er ótvíræð og áherslan á yngri leikmenn áberandi.

city-2016Við þekkjum öll John Stones sem efnilegasta miðvörðinn í Englandi, og þó hann hafi verið mistækur í fyrra hefur hann byrjað tímabilið með City gríðarvel. Leroy Sané er líklega mesta efnið í Þýskalandi og hann væntir þess að byrja á morgun eftir að hafa verið meiddur fyrstu vikur tímabilsins.

Ilkay Gündogan hefur verið í félagaskiptaslúðrinu síðustu ár og yfirleitt orðaður við United en endaði hjá City. Hann hefur þó verið meiddur eins og Sané og ólíklegt að hann verði með. Þó að einna minnstar væntingar hafi verið gerðar til Nolito af þessum sumarkaupum hefur þessi 29 ára Spánverji verið lykilmaður í fyrstu þremur leikjum City og skorað tvö mörk og lagt upp eitt í deild og skorað annað að auki í undankeppni Meistaradeildarinnar. Það verður verðugt verkefni fyrir Antonio Valencia að sýna að hann geti líka varist eftir góða byrjun sóknarlega séð.

En stærstu liðsfréttirnar af City eru auðvitað þær að Sergio Agüero verður í banni eftir olnbogaskotið í síðasta leik. City á sjálft sitt undrabarn í markaskorun og það verða mér vonbrigði ef Guardiola tekur ekki sénsinn á Kelechi Iheanacho. Lið City verður því líklega svona

Bravo
Clichy
Kolarov
Stones
Zabaleta
Fernandinho
Nolito
Silva
De Bruyne
Sterling
Iheanacho

Semsé, Iheanacho frekar en Sané, ef Sané byrjar þá er líklegt að Nolito, De Bruyne eða Sterling fari framar sem fölsk nía. Claudio Bravo er kominn í markið í stað Joe Hart sem frægt er og Bacary Sagna og Vincent Kompany líklega enn meiddir.

Þessi miðja City er feikna sterk og kantmennirnir skæðir. Luke Shaw mun án efa standa fyrir sínu og það er sem fyrr segir verðugt verkefni fyrir Valencia að halda Nolito niðri. Hann er hins vegar nýkominn frá Ekvador úr landsliðsverkefnum og gæti hugsanlega verið hvíldur.

Manchester United

Liðið velur sig næstum því sjálft:

De Gea
Shaw
Blind
Bailly
Valencia
Pogba
Fellaini
Rashford
Rooney
Mata
Ibrahimović

Já, ég ætla að vona að Marcus Rashford fái tækifærið. Anthony Martial hefur ekki verið eins sprækur í haust og hann getur og hann fær smá hvíld. Rashford sýndi gegn Hull að hann getur skorað og hann sýndi í U-21 landsleiknum hvað hann er raunverulega beittur. Hann á skilið að byrja

Embed from Getty Images

Ég bind hins vegar engar vonir við það að Wayne Rooney fái svipaða hvíld og Martial, ekki síst vegna þess að Henrikh Mkhitaryan er meiddur eftir landsleikjahléið og mjög tæpt að hann verði góður.Einhver áhöld voru um það hvort Fellaini væri meiddur, en hann lék áttatíu mínútur með Belgíu um helgina og við höfum því ekki áhyggjur af miðjunni.

Ég þori varla að leggja meira útaf þessu United liði. Við höfum séð hvað það getur gegn minni liðunum en nú er það alvaran. Stærsta spurningin sem ég hef er: Mun José Mourinho breyta liðinu af því að hann vill fyrir alla muni ekki tapa fyrir Guardiola? Verður skellt í þriggja manna miðju og smellt í lás? Þeirri spurningu fæ ég svar við strax og liðið birtist á morgun kl 10:30, klukkustund áður en leikurinn byrjar kl 11: 30 að íslenskum tíma.

Efnisorð: Manchester City Pep Guardiola Upphitun 6

Reader Interactions

Comments

  1. Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says

    9. september, 2016 at 11:40

    Frábær upp,hitun !! takk fyrir það :-)
    Ein smá athugasemd, þið voruð alltaf með upplýsingar um næsta leik United efst hægra megin á síðunni (kom sér einstaklega vel) verður þetta ekki áfram ?
    Annars takk fyrir í alla staði frábæra síðu :-)

  2. Audunn says

    9. september, 2016 at 11:52

    Það er búið að snúa þessum leik allt of mikið upp í einvígi Pep og Móra að mínu mati.
    Móra hefur gengið ílla gegn Pep þar sem hugmyndarfræði Pep virðist hafa vinninginn eins og fortíðin sýnir.
    Þetta verður ansi hreint áhugaverðugur leikur og gæti gefið okkur einhverja smá hugmynd um hvor stjórinn er kominn lengra með sitt lið ef svo má segja.
    Annars er erfitt að dæma það útfrá einum leik en gefur einhverjar vísbendingar.
    Ég vonast að sjálfsögðu til þess að sjá United dómera þennan leik svolítið þar sem þeir eru jú á heimavelli, amk hafa yfirhöndina á flestum stöðum.
    Eins vona ég að Fellaini verði hvíldur og við fáum að sjá góðan fótbolta þó ég eigi ekkert sérlega von á miklum breytingum frá Móra.

    Þessi leikur verður hans fyrsta alvöru test sem stjóri Man.Utd, úrslitin, fótboltinn sem verður spilaður að hálfu Man.utd og svo hvernig hann bregst við mótlæti (ef hlutirnir fara ekki eins og menn óska sér) verður krufið til mergjar eftir leik.

  3. Lúftpanzer says

    9. september, 2016 at 12:08

    Bæði lið með 9 stig eftir 3 umferðir og bragging-rights næstu vikna í Manchesters í húfi. Eðlilegt samt að það sé gert mikið úr Mourinho vs. Pep.. tveir langstærstu stjórarnir í heiminum í dag og hafa eldað grátt silfur saman oftar en þeir kæra sig um. Eru stærri og sigursælli egó að þjálfa í boltanum í dag?

    Sjaldan hlakkað jafn mikið til leiks, stress spenna einsog hún gerist best. Mikið er yndislegt að fá þessa tilfinningu aftur eftir 3 mögur ár.

    City er með hrikalega öflugt lið – við þurfum að eiga topp, toppleik til að vinna einsog Harry Redknapp myndi segja. Ég spái 2-2 jafntefli og set pening á það. City kemst í 1-2 en Rashford jafnar í uppbótartíma. Stórmeistarajafntefli og tiltölulega ásættanleg úrslit þó maður vonist alltaf eftir sigri.

    Ég vona að Fellaini spili á morgun og verði áfram integral partur af góðum bolta United – vertu tilbúinn með sokkinn Audunn ;)

  4. Halldór Marteinsson says

    9. september, 2016 at 13:14

    Mourinho var að tala um það á blaðamannafundi að allir leikmenn gætu tekið þátt í leiknum. Það er mjög jákvætt, ég hafði sérstakar áhyggjur af bakvarðamálum þar sem ákveðinn efi var með þátttöku bæði Shaw og Valencia eftir landsleikjahléð. Þeir ættu þó að vera á sínum stað á morgun, það munar um það. Eins að Mkhitaryan sé ekki alveg úti, það er öflugt að hafa hann til taks. Jafnvel þótt það væri bara síðustu 20-30 mínúturnar af bekknum.

    Svo vona ég að Fellaini haldi áfram sínum góða leik, hann gæti verið lykillinn að miðjubaráttunni hjá United.

  5. Runólfur Trausti says

    9. september, 2016 at 20:43

    Það eru cirka 100% líkur að Fellaini byrji þennan leik miðað við hvernig Mourinho fer oftast inn í stórleikina.

    Ef ekki væri fyrir ósnertanleika Rooney þá mætti alveg eins búast við því að Schneiderlin væri á miðri miðjunni með Fellaini og Pogba þar fyrir framan – Móri hefur jú notað Pepe og Zouma á miðjunni á undanförnum árum.

    Hvað varðar spá þá þori ég ekki að segja neitt … það er einhver hrollur í manni. Vona bara að spennustigið verði rétt stillt. Þá sérstaklega hjá Móra og Zlatan.

    Hvað varðar „Næsta leik“ fídusinn sem var alltaf í vinstra horninu þá er síðan í smá breytingum og lagfæringum en við erum að vinna í því að fá eins og 1-2 auglýsingar inn sem væru eflaust á þeim stað. En við ættum þó að finna pláss fyrir „Næsta leik“ fídusinn hvað á hverju.

  6. Dogsdieinhotcars says

    10. september, 2016 at 02:22

    Góð upphitun, Björn Friðgerir stendur alltaf fyrir sínu. Ein spurning: var ekki einu sinni alltaf nákvæm tímasetning á næsta leik efst á hægri spássíunni á þessari síðu? Myndi vilja það aftur.

    Að leiknum á morgun: við eigum að reyna að setja smá krossa á þá og láta reyna á þennan nýja markmann; velkominn í ensku deildina. Fellaini og Zlatan eiga að koma sterkir þar inn. Muniði bara hvernig De Gea höndlaði það fyrsta seasonið.

    Ég ætla að gerast djarfur og spá 3-1 fyrir okkar mönnum, en ég segi að á morgun snýst þetta miklu meira um hugarfar og karakter en gæði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • sófinn um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Helgi P um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Elis um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Halldór Marteins um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Steve Bruce um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2025 · Keyrt á WordPress