• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Meistaradeild Evrópu

Manchester United 2:0 Benfica

Halldór Marteins skrifaði þann 31. október, 2017 | 10 ummæli

Manchester United er svo gott sem komið áfram úr A-riðlinum í Meistaradeild Evrópu eftir öruggan sigur á Benfica í kvöld. Á meðan vann CSKA frá Moskvu útisigur á Basel sem þýðir að United þarf núna 1 stig úr næstu tveimur leikjum til að tryggja sér sigur í riðlinum.

Þessi leikur var ekki tekinn í fimmta gírnum en sigurinn var heldur ekkert sérstaklega mikið í hættu, sérstaklega ekki þar sem Manchester United er með besta markmann heims á milli stanganna.

Byrjunarlið Manchester United í leiknum var svona:

1
De Gea
17
Blind
3
Bailly
12
Smalling
36
Darmian
31
Matic
39
McTominay
11
Martial
14
Lingard
8
Mata
9
Lukaku

Varamenn: Romero, Lindelöf, Shaw, Herrera, Mkhitaryan, Young, Rashford

Byrjunarlið gestanna frá Benfica:

1
Svilar
3
Grimaldo
33
Jardel
66
Dias
8
Douglas
21
Pizzi
5
Fejsa
7
Samaris
84
Goncalves
9
Jimenez
18
Salvio

Varamenn: Cesar, Lisandro, Eliseu, Lopez, Cervi, Jonas og Seferovic.

Fyrri hálfleikurinn

Benfica var meira með boltann framan af í fyrri hálfleik og höfðu nokkuð gott sjálfstraust í miðjuspilinu. Scott McTominay virkaði örlítið óöruggur rétt til að byrja með en óx mikið eftir því sem á leið leikinn. Benfica reyndi að ná góðu spili og hafði til að byrja með ákveðin tök á miðjunni en það jafnaðist út með tímanum.

Dómarinn hefði alveg getað dæmt þrjú víti í fyrri hálfleiknum. Bailly teygði hugtakið „öxl í öxl“ út í ansi súrrealískar víddir og varnarmaður Benfica hljóp Mata niður í hinum vítateignum. En dómarinn dæmdi vissulega víti, það kom eftir einn af þó nokkrum frábærum sprettum Anthony Martial í leiknum, þar sem hann dansaði sig í gegnum varnarlínu Benfica og fór svo illa með einn varnarmann Benfica að hann bókstaflega datt um koll og bæði greip boltann og felldi Martial.

Embed from Getty Images

Martial fór sjálfur á vítapunktinn. Vítið var ekkert frábært en ekkert glatað heldur. Það var meðfram jörðinni og út í hornið en hefði mátt vera fastara. Markvörðurinn Svilar náði einu skrefi óséðu og las svo vítaspyrnuna vel. Maður hefur séð töluvert betri víti en líka töluvert slakari vítaspyrnur. Svilar fékk þarna tækifæri til að sýna hvað hann getur eftir að hafa átt mikla sök í marki Manchester United í síðustu umferð.

Stuttu seinna fékk David De Gea líka að minna á sig. Þá varði hann hörkuskot frá sprækasta leikmanni Benfica, Diogo Goncalves. Skotið var utan teigs en stefndi í fallegum boga upp í markvinkilinn þegar De Gea varði.

David de Gea’s world class save! #DaveSaves

pic.twitter.com/oUuBCD9x8b

— United Report (@ManUtdReport_) October 31, 2017

Martial hélt áfram að vera besti leikmaður Manchester United fram á við og átti fleiri spretti sem sköpuðu hættu. Manchester United náði líka stundum skemmtilegum skorpum af samspili en heilt yfir var þetta bara rólegt. Það stefndi í að liðin færu markalaus inn í leikhlé en þá var Nemanja Matic farið að leiðast þetta svo hann tók til sinna ráða. Hann lét einfaldlega vaða af 30 metra færi, boltinn söng í stönginni, fór svo aftan í Svilar markmann og þaðan í markið. Gríðarleg óheppni hjá Svilar að fá þetta skráð sem sjálfsmark en skotið flott hjá Matic. Hann lætur ekki oft vaða en þegar hann gerir það…

Embed from Getty Images

Lukaku fékk svo dauðafæri til að koma United í 2-0 stuttu seinna eftir gjafasendingu frá varnarmanni Benfica en þá kom Svilar vel út á móti Lukaku og náði að verja.

Seinni hálfleikur

Jesse Lingard þurfti að fara af velli í hálfleik eftir að hafa meiðst við samstuð í fyrri hálfleik. Inn á fyrir hann kom Mkhitaryan. Manchester United hafði tök á leiknum fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks og það virkaði eins og liðið ætlaði bara einfaldlega að drepa leikinn alveg og taka 1-0 sigurinn bara.

En eftir 10 mínútna leik komust Benfica meira inn í leikinn. Á 60. mínútu fengu þeir dauðafæri upp úr engu þegar Goncalves fíflaði Smalling og komst innfyrir vörnina, þetta minnti eiginlega helst á gegnumbrot í handbolta. Goncalves átti fínt skot sem stefndi neðst í markhornið en De Gea varði frábærlega. 5 mínútum síðar var komið að Bailly að reyna að rétta Benfica hjálparhönd með jöfnunarmarkið. Þá átti hann hörmulega sendingu á Smalling sem Jimenez komst inn í. Smalling gerði hins vegar vel í því að trufla hann en engu að síður náði Jimenez fínu skoti sem endaði í stönginni. Þarna sluppu United, og þá sér í lagi Bailly, með skrekkinn.

Mourinho leist ekkert á þetta og setti Ander Herrera inn á fyrir Juan Mata til að reyna að ná aftur tökum á miðjunni. Við það breytti Manchester United úr 4-2-3-1 í 4-3-3 þar sem McTominay fór að spila framar en hann hafði verið að gera.

Embed from Getty Images

Þegar rétt um korter var eftir af leiknum var Martial tekinn af velli og afmælisbarn dagsins, hinn tvítugi Marcus Rashford, kom inn á í hans stað. Hann hélt áfram þar sem Martial skildi við og átti strax hættulegan sprett inn í vítateig Benfica. Þar var brotið á honum og réttilega dæmd vítaspyrna. Lukaku steig upp og ætlaði að taka vítið. En þá kom Herrera að og sagði að hann ætti að taka vítið. Að endingu var það samt Daley Blind sem átti að taka vítið. Svilar hafði lesið Martial vel en í þetta skipti var það Blind sem las markvörðinn og sendi öruggt víti í mitt markið þar sem Svilar var farinn í annað hornið.

Embed from Getty Images

Þar með var þetta komið. Benfica reyndi svosem aðeins en hafði ekki mikið í það að vinna bug á United vörninni, hvað þá klettinum í markinu þar fyrir aftan. 2-0 sigur staðreynd, sanngjarn sigur þrátt fyrir að spilamennskan hafi ekki verið nein sérstök flugeldasýning.

Pælingar eftir leik

Scott McTominay kom inn í liðið í þessum leik. Ekki ósennilegt að Ander Herrera hafi verið hvíldur sérstaklega þar sem hann á væntanlega fyrir höndum mikil hlaup og mikla vinnusemi á sunnudaginn þegar Manchester United mætir Chelsea í London. McTominay komst heilt yfir mjög vel frá sínu. Hann reyndi aldrei að fela sig, hann tók þátt í öllu og það var ekkert í hans fasi sem gaf til kynna að hann væri þetta lítið reyndur. Hann á alveg eitthvað í land ennþá en ef hann heldur áfram að sýna svipaða takta og svipað swagger þá verður mjög gaman að sjá hvað verður úr honum.

Scott McTominay's game by numbers:

2 shots
3 dribbles
3 interceptions
3 aerial duels won
5 tackles
100% dribbles completed

Box-to-box. pic.twitter.com/OZBsQLlDLV

— Statman Dave (@StatmanDave) October 31, 2017

Anthony Martial hefði rúllað upp titlinum maður leiksins ef hann hefði skorað úr þessari vítaspyrnu. Eða náð að skora/leggja upp þar fyrir utan. Hann var samt langsamlega hættulegasti sóknarleikmaður Manchester United í leiknum. Það er er svo gaman að fylgjast með honum þegar hann hleypur af fullum krafti á ringlaða varnarmenn.

Embed from Getty Images

David De Gea er einfaldlega bestur í marki. Við þreytumst seint á að segja það enda er það bara svo satt og svo skemmtilegt. Hann var maður leiksins í kvöld að mínu mati. Stundum reyndi ansi skyndilega og óvænt á hann en hann lokaði þessu bara. David De Gea hefur núna haldið hreinu í 14 leikjum af 18 á tímabilinu, með lands- og félagsliði. Veggur!

Næsti leikur er svo stórleikur gegn Chelsea. Chelsea skíttapaði gegn Roma í kvöld en þetta verður engu að síður hörkuleikur. Næsti leikur í Meistaradeildinni er svo útileikur gegn Basel. Eins og áður sagði þarf United aðeins 1 stig til viðbótar til að tryggja sigurinn í riðlinum. Það er um að gera að klára það bara sem fyrst.

#UCL games under the Old Trafford lights ❤️ pic.twitter.com/6I4h4nlUb2

— Manchester United (@ManUtd) October 31, 2017

10

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Karl Garðars says

    31. október, 2017 at 20:04

    Þetta átti pjakkurinn alveg skilið. Ég reiknaði ekki með að ég yrði einhvern tímann sæmilega sáttur með að okkar menn skori ekki úr vítaspyrnu. :)

    2
  2. 2

    Bjarni says

    31. október, 2017 at 20:07

    Lukaku ekki snert boltann og aðrir á hálfum hraða. Er ég eitthvað frekur að biðja um meira t.d áhuga. Væri fínt að byrja á því. Eigum ekkert skilið út úr þessum eins og staðan er.

    1
  3. 3

    Kjartan says

    31. október, 2017 at 20:09

    Assgoti var markmaðurinn kominn langt út í vítinu, vel varið samt

    2
  4. 4

    Bjarni says

    31. október, 2017 at 20:38

    Stórskemmtilegur Svilar lyftir leiknum upp. Er hvatvís, óheppinn og glaðlegur gutti sem á framtíðina fyrir sér. Hef gaman af honum.

    3
  5. 5

    Rúnar Þór says

    31. október, 2017 at 21:45

    Athyglisverðar rimmur fyrir Svilar haha er góður ver víti og skorar 2 sjálfsmörk hahaha

    En af hverju er verið að láta Lukaku sprengja sig út og spila 90mín?? Hvílið hann í guðanna bænum, veitir ekki af smá hvíld

    2
  6. 6

    Cantona no 7 says

    31. október, 2017 at 22:25

    Góður sigur og nokkuð þægilegur.
    Vonandi verða menn betri í London á sunnudaginn.
    G G M U

    1
  7. 7

    Audunn says

    1. nóvember, 2017 at 08:35

    Þetta var frekar langt því frá að vera eitthvað spes leikur að hálfu United, voru heilt yfir frekar lélegir bara á löngum köflum og það vantar töluvert upp á hugmyndarflug þegar kemur að sóknarleiknum.
    Hann er ansi daufur og einhæfur þessa dagana.
    En sigur er sigur og þrjú stig það sem málið snýst um, maður getur ekki verið annað en sáttur með það.
    Við þurfum nauðsinlega að fá Pogba tilbaka, hann er heili liðsins inn á miðjunni, án hans er liðið kannski ekki heilalaust en klárlega hugmyndasnautt.
    Eins þarf Móri að kaupa skapandi miðjumann og það helst í Janúar, allir miðjumenn sem við eigum utan einn eru frekar varnarsinnaðir að mínu mati.

    3
  8. 8

    DMS says

    1. nóvember, 2017 at 15:04

    Sá einmitt að Paul Scholes var að kalla eftir alvöru tíu hjá United. Honum finnst þeir aðilar sem við erum að spila í holunni í dag leita alltof mikið til baka eða út á vængina og í kjölfarið einangrist Lukaku meira þarna frammi. En þetta vonandi batnar þegar Pogba kemur til baka, við söknum hans mikið og það sést á leik liðsins fram á við. Eru annars engar fréttir af honum?

    0
  9. 9

    Audunn says

    1. nóvember, 2017 at 18:56

    Jà það er töluvert til í þessu DMS.
    Við eigum samt nægilega góðar 10-ur að mínu mati í leikmönnum eins og Mata og Mikka, Lingard er síðan fínasta uppfylling og back up leikmaður.
    Hins vegar hefur Mata ekki verið neitt spes það sem af er tímabilinu.
    En það getur samt ekki verið tilviljun að þessar 10-ur okkar leita mikið tilbaka. Það hlýtur að vera skipun stjórans sem ræður því sem og hvað bakverðirnir fara lítið upp völlinn í àkveðnum leikjum.
    Mourinho er mjög varnarsinnaður stjóri, full varnarsinnaður að mínu mati à köflum.

    2
  10. 10

    Karl Garðars says

    3. nóvember, 2017 at 11:47

    Zlatan tekur tíuna í einhverjum leikjum. Hann var ekki framleiddur með bakkgír.

    2

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Bob um United 1 : 2 City
  • Arni um United 1 : 2 City
  • Helgi P um United 1 : 2 City
  • Egill um United 1 : 2 City
  • Egill um United 1 : 2 City

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2023 · Keyrt á WordPress