• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Arsenal kemur í heimsókn

Halldór Marteins skrifaði þann 29. september, 2019 | 4 ummæli

Manchester United á mánudagsleik í þessari umferð gegn öðru liði sem hefur átt gloppótta byrjun á leiktíðinni. Arsenal kemur í heimsókn með það á bakinu að hafa fengið á sig næstflest skot allra liða í úrvalsdeildinni. Þeir voru þó í fjórða sæti þegar þessi umferð hófst og vilja líklega gjarnan halda því sæti áfram. Okkar menn þurfa á sigri að halda af mörgum ástæðum, ekki síst fyrir sjálfstraustið og til að halda áfram að vera með í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 annað kvöld, dómari leiksins verður Kevin Friend.

Okkar menn

Það hefur verið strembin byrjun á tímabilinu hjá okkar mönnum. Helsta vandamál liðsins hefur verið að skora mörk. Miðað við tölfræðimælingar hefur liðið í öllum sínum leikjum átt að skora meira en andstæðingarnir miðað við xG. En það segir auðvitað lítið þegar liðið nær ekki að klára þessi færi sem það þó nær að skapa. Gæðaleysi, reynsluleysi og skortur á sjálfstrausti eru helstu ástæður fyrir því þegar lið ná ekki að breyta xG yfirburðum í raunverulega yfirburði. Þetta er blanda sem hrjáir Manchester United þessa dagana, þótt það megi vissulega rökræða um það í hvaða hlutföllum þetta einkennir liðið okkar núna.

En það sem þarf ekki að rökræða er að United er með of fá stig og að spila of illa fyrir okkar smekk, hvað sem öllum xG-pælingum líður.

Fyrir ári síðan var liðið með 10 stig eftir fyrstu 6 umferðirnar, búið að skora 9 mörk en fá á sig 9 mörk og var í 7. sæti deildarinnar. Núna er liðið með 8 stig, búið að skora 8 mörk en fá á sig 6. Varnarleikurinn hefur batnað en sóknarleikurinn versnað til muna, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að 4 af þessum 8 mörkum komu í fyrsta leiknum.

En helstu jákvæðu punktarnir síðustu vikur hafa þó verið sóknarmennirnir Mason Greenwood og Daniel James. Mason Greenwood er þannig leikmaður að hann getur tekið verulega lágt xG og breytt því í mark. Það er vonandi að hann geti haldið því áfram, við þurfum svo sannarlega á því að halda.

Það er töluvert um meiðsli í hópnum, eitthvað sem hefur ekki hjálpað til. Þeir sem eru frá vegna meiðsla eru:

Eric Bailly, Tim Fosu-Mensah, Anthony Martial, Marcus Rashford, Diogo Dalot og Angel Gomes auk þess sem bæði Pogba og Shaw eru tæpir fyrir þennan leik.

Miðað við þetta má búast við byrjunarliðinu einhvern veginn svona:

De Gea
Young
Maguire
Lindelöf
Wan-Bissaka
Pogba
Matic
McTominay
James
Greenwood
Lingard

Það kæmi þó ekki á óvart að sjá einhverjar frekari breytingar, til dæmis ef Axel Tuanzebe dytti inn í miðvörðinn við hlið Harry Maguire. Ef Pogba nær ekki leiknum þá er spurning hvort Fred fái tækifærið eða hvort það verði einhver önnur lausn fundin.

Gestirnir

Arsenal er með 11 stig fyrir þennan leik eftir 3 sigra, 2 jafntefli og 1 tap. Liðið hefur skorað 11 mörk í 6 leikjum en fengið 10 mörk á sig. Liðið var með þriðja besta árangur liðanna í deildinni á heimavelli í fyrra en þann 8. besta á útivelli, það virðist mikill munur á því hvernig Arsenal spilar eftir því hvort þeir eru á heima- eða útivelli.

Í þessum 6 leikjum sem eru liðnir af tímabilinu hefur Arsenal fengið á sig 110 marktilraunir. Það eru 18,3 marktilraunir að meðaltali í leik. Aðeins Aston Villa (111) hefur fengið á sig fleiri tilraunir. Til samanburðar hefur United fengið á sig 56 marktilraunir í þessum 6 leikjum. Manchester City hefur síðan aðeins fengið á sig 36 tilraunir. Þó má alveg benda á að þrátt fyrir allan þennan tilraunafjölda þá voru alveg nokkur lið búin að fá á sig fleiri mörk en Arsenal fyrir þessa umferð.

Arsenal hefur sýnt óstöðugleika í varnarleik sínum og misgóðan karakter. Liðið byrjaði á 2 góðum sigrum en steinlá svo gegn Liverpool. Eftir að hafa lent 0-2 undir gegn Tottenham á heimavelli náði liðið að koma til baka og jafna en næstu umferð á eftir gerðist það öfuga á útivelli gegn Watford. Arsenal komst þá í 2-0 í fyrri hálfleik en Watford átti gríðarlegan fjölda marktilrauna í seinni hálfleik og jafnaði verðskuldað. Í síðasta deildarleik lenti Arsenal marki undir og missti mann af velli í fyrri hálfleik en náði þó að vinna Aston Villa 3-2 svo það má sjá að það hefur ekki verið mikil lognmolla í kringum þetta Arsenallið.

Maitland-Niles fékk rautt spjald í síðasta leik en tók út leikbannið í deildarbikarleiknum í vikunni, þar sem Arsenal vann 5-0 sigur á Nottingham Forest. Hann gæti því spilað þennan leik. Það eru þó einhverjir frá vegna meiðsla. Alexandre Lacazette er meiddur og miðjumaðurinn ungi, Emile Smith Rowe. Rowe hafði þó lítið spilað með Arsenal á tímabilinu, og ekkert í deildinni, svo hans verður ekki saknað. Þá hefur framlína Arsenal sýnt að hún getur vel skorað fullt af mörkum þótt Lacazette sé ekki með. Hector Bellerin og Kiernan Tierney spiluðu báðir í deildarbikarnum eftir að hafa verið að jafna sig á meiðslum. Þegar hefur verið gefið út að Bellerin verði ekki með í þessum leik en það er spurning hvort Tierney gæti fengið mínútur. Sama á við um Rob Holding.

Hér er mögulegt byrjunarlið gestanna:

Leno
Kolasinac
Luiz
Sokratis
Chambers
Xhaka
Guendouzi
Nelson
Ceballos
Pépé
Aubameyang

Pælingar fyrir leik

Manchester United hefur ekki tapað deildarleik gegn Arsenal á Old Trafford síðan 2006. Í þeim 12 deildarleikjum sem liðin hafa spilað á vellinum síðan þá hefur United unnið 8 og 4 endað með jafntefli. Síðustu tímabil, þegar gengi United hefur verið vægast sagt kaflaskipt, þá hefur liðið oftar en ekki náð að gíra sig einna mest upp í leiki gegn Arsenal. Það er óskandi að slíkt haldi áfram, þótt maður hafi vissulega oft verið bjartsýnni fyrir leik gegn Arsenal en núna.

Jesse Lingard má endilega nota þennan leik til að koma sér aftur í gang. Arsenal er það lið sem Lingard hefur skorað flest mörk gegn og hann hefur oft átt prýðisleiki gegn Lundúnarliðinu. Hans framlag síðustu mánuði hefur verið undir pari.

Arsenal er að fá á sig gríðarlegt magn af marktilraunum. Það er hreint ótrúlegt að lið sem er þó þetta gott skuli vera í þessum vandræðum. Okkar menn eru í vandræðum með að skora mörk. Vonandi verður lagt upp  með að nýta þetta vesen Arsenal og við fáum að sjá helling af skotum og marktilraunum frá okkar mönnum.

Efnisorð: Arsenal 4

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Þorgeir says

    29. september, 2019 at 11:54

    3-0

    1
  2. 2

    guðmundur Helgi says

    29. september, 2019 at 23:20

    Spai oruggum sigri manutd.

    1
  3. 3

    Turninn Pallister says

    30. september, 2019 at 11:59

    Verður mjög erfiður leikur, báðir stjórar þurfa nauðsynlega sigur til að réttlæta það að halda djobbinu. Óhugnaleg staðreynd, en ef við töpum þessum leik, þá erum við ekki nema 3 stigum frá fallsæti eftir 7 umferðir með aðeins 8 stig af 21 mögulegu.
    Þó svo að ég sé hlynntur því uppbyggingarstarfi sem Solskjær er að vinna að, þá er ég hræddur um að kveikurinn fari að styttast hjá eigendum, stuðningsaðilum og áhangendum félagsins ef árangurinn batnar ekki. Á góðum degi þá eigum við að geta unnið þetta Arsenal lið, en miðað við meiðsli og slæmt gengi undanfarið, þá get ég ekki verið bjartsýnn.

    2
  4. 4

    gummi says

    30. september, 2019 at 12:40

    Held að þetta verði bara easy leikur fyrir Arsenal og Solskjær verður rekinn eftir 5 til 6 leiki

    2

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Turninn Pallister um Mánuður af sumarfríi
  • Arni um Mánuður af sumarfríi
  • Halldór Marteins um Mánuður af sumarfríi
  • Helgi P um Mánuður af sumarfríi
  • Scaltastic um Mánuður af sumarfríi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress