• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska bikarkeppnin

Chelsea 1:0 Manchester United

Magnús Þór skrifaði þann 14. mars, 2017 | 28 ummæli

Chelsea fara í undanúrslitaleikinn þar sem þeir mæta Tottenham. Svekkjandi leikur í kvöld þar sem Michael Oliver dómari var í aðalhlutverki. Ander Herrera fékk eitt ósanngjarnasta rauða spjald leiktíðarinnar vegna þess að Oliver var búinn að skipa sig sérstakan verjanda Eden Hazard sem gerði tilkall til Edduverðlauna í fyrri hálfleiknum.

Embed from Getty Images

Það er ekki hægt að segja að liðið hafi verið að leika eitthvað sérstaklega illa í þessum leik. Miðað byrjunarliðið átti United að verjast á mörgum mönnum og sækja svo hratt með Henrikh Mkhitaryan og Marcus Rashford. Liðið byrjaði leikinn frekar vel og pressuðu Chelsea stíft framarlega á vellinum með ágætum árangri.  Það tók Chelsea alveg 15-20 mínútur að byrja þennan leik en þegar það gerðist varð Eden Hazard mjög áberandi á vellinum. Á fimmtán mínútna kafla fiskaði hann Herrera af velli með leikrænum tilburðum þegar þeir mættust á vellinum. Rauða spjaldið drap okkar menn töluvert niður og ekki hjálpaði Fellaini > Mkhitaryan skipting til. En staðan var þrátt fyrir allt 0:0 í hálfleik.

Embed from Getty Images

Seinni hálfleikurinn var ekki uppá marga fiska hjá United. Chelsea gjörsamlega stjórnaði leiknum og United náði aldrei upp almennilegu spili. Á 51.mínútu var það N’Golo Kante sem skoraði það sem reyndist sigurmark leiksins með langskoti. Um var að ræða einbeitingarskort í vörninni sem gerðist þó ekki oft í kvöld. Marcus Rashford átti í rauninni eina færi liðsins þegar hann kom í sér í dauðafæri gegn Thiebault Courtois eftir magnaðan sprett þar sem hann fíflaði varnarmenn Chelsea úr skónum. Skotið frá Rashford var hinsvegar ekki gott en það var beint á Courtois. Chelsea sigraði því þennan leik með einu marki gegn engu.

Maður leiksins

Fyrir mér eru tveir kandídatar í mann leiksins. David de Gea sem átti magnaðar vörslur, sérstaklega í fyrri hálfleiknum og Marcos Rojo sem gaf allt í þennan leik og tókst að gera Diego Costa pirraðan sem er alltaf gaman.

Maður leiksins í kvöld var Marcos Rojo.

Embed from Getty Images

Byrjunarliðið í kvöld

1
De Gea
5
Rojo
4
Jones
12
Smalling
36
Darmian
6
Pogba
21
Herrera
25
Valencia
18
Young
22
Mkhitaryan
19
Rashford

Varamenn: Romero, Bailly, Blind, Carrick, Fellaini (Herrera), Lingard (Young), Mata.

Nánar verður rætt um þennan leik og næstu leiki í 32. þætti af Podkasti Rauðu djöflanna. Þátturinn var tekinn í kvöld og ætti að fara í loftið á morgun

Efnisorð: Chelsea FA Bikarinn 28

Reader Interactions

Comments

  1. jonas says

    13. mars, 2017 at 18:57

    Nú er RASHFORD ekki veikur

  2. Rauðhaus says

    13. mars, 2017 at 19:06

    3-4-3… hate to say I told you so.

  3. Halldór Marteins says

    13. mars, 2017 at 19:32

    Jæja, Pogba, ég myndi ekkert hata það að fá eins og einn stórleik frá þér núna, kæri vinur. Þú hefur það bara bak við eyrað. Takktakk

  4. Turninn Pallister says

    13. mars, 2017 at 20:25

    Djöfull sem Costa er mikill viđbjóđur af manni. Hvar var rauđa spjaldiđ þarna dómari?

  5. Roy says

    13. mars, 2017 at 20:29

    Vá hvað Herrera getur farið í taugarnar á mér stundum, hann dettur í svo mikla heimsku inn á milli.

  6. maggi says

    13. mars, 2017 at 20:37

    Pogba tyndur i enn einum leiknum sem skiptir mali. Herrera að fa odyrasta spjald arsins. Eini leikmaðurinn sem eg truði að gæti gert eitthvað fram a við farinn ut af. Allir leikmenn inna vellinum þreyttir aður en þetta rauða spjald kom. Hvað ætli stuðullinn a united afram se nuna? 😕

  7. gummi says

    13. mars, 2017 at 20:41

    Heimskulegt af Herrera, var ekki spjald á Costa. Bæði lið eru inní þessu einsog er og United hefur áður unnið bikarleiki með 10 menn inná.

  8. Karl Gardars says

    13. mars, 2017 at 20:48

    Sammála með Costa, þetta er svo ógeðslega sorglegt eintak af manni að hann lætur suarez líta þolanlega út. Vertu fastur fyrir og pínu dirty, gott og vel en svona skítseiðisháttur er svo mikið hann. Þetta var í.þ.m gult spjald á olnbogann ef ekki rautt og Oliver algjör heigull að taka ekki á þessu ef línuvörðurinn sá þetta þ.e.a.s.
    Seinna gula á Herrera var bara kjaftæði. Ég var einmitt búinn að sakna þess að sjá svona baráttu frá okkar mönnum. Oliver er bara drullu hræddur. Thats it.
    Ég bjóst svo sem ekki við sigri en það er svo glatað þegar leikir eru eyðilagðir svona.

  9. gummi says

    13. mars, 2017 at 21:23

    Seinna spjaldið á Herrera átti rétt á sér, heimskulegt brot þegar það var búið að sparka Hazard niður stöðugt, Rashford getur reddað þessu á núll einni

  10. Jónas Björn says

    13. mars, 2017 at 21:28

    Sturluð staðreynd. Gini Wijnaldum er með betri tölfræði en Pogba í öllu. Wijnaldum er ekki einu sinni fastamaður í Liverpool. Wijnaldum 20 m Pogba 90m
    Pogba er ofmat

  11. gummi says

    13. mars, 2017 at 21:37

    Pælið í því ef að kanté hefði komið í staðinn fyrir Pogba :(

  12. Rúnar Þór says

    13. mars, 2017 at 21:39

    Paul Pogba á að skammast sín. Markið var 100% honum að kenna. Var ekki á sínum stað og var langt frá að blokka skotið eins og hann átti að gera. Endalaust að sogast að boltanum og skilja allt eftir opið, og svo bara jogg. Þetta var leikurinn sem við þurftum á því að halda að hann myndi stíga upp í fjarveru annarra leikmanna og þetta er frammistaðan sem hann skilar! Viðbjóður. Veikur Rashford gerði mun meira

  13. gummi says

    13. mars, 2017 at 21:41

    sorglegt að sjá hve chelsea voru mikið betri

    var rashford bjartasta ljósið ?

    afhverju fær felaini að spila þennan leik

    afhverju lætur smalling ekki alla í liðinu vita að dómarinn er að stöðva brotin á hazard og næsti maður fær spjald ?

    alltof mikið af grundvallarmistökum sem að sökkva liðinu sem heild og sorglegt að horfa á liðið liggja í vörn

  14. gummi says

    13. mars, 2017 at 21:43

    Sammála með að markið sé pogba að kenna, hve oft sjáum við hann slökkva á sér varnarlega og gefa öðrum liðum mark ?

    en glæsilegt að hann gefi kanté mark sem skorar svona sirka 2 mörk á leiktíð

  15. Turninn Pallister says

    13. mars, 2017 at 21:49

    Mér fannst viđ ekki spila mikiđ verr en Chelsea fyrstu 20 mínúturnar. En því miđur þá er Herrera því miđur réttilega rekinn útaf í þá og þá var sagan öll. Finnst þađ vera afrek útaf fyrir sig ađ viđ hefđum ekki fengiđ fleiri en 1 mark á okkur, þar sem mér fannst á köflum viđ vera 2 færri á vellinum. Hvorki Fellaini né Pogba geta skilađ sömu vinnusemi og Herrera, því miđur. Okkur vantar sárlega annan mann í þessa stöđu á vellinum.

  16. Cantona no 7 says

    13. mars, 2017 at 22:16

    Herrera átti aldrei að fá tvö gul spjöld þ.s. Hazard leikur hann út af.
    Dómgæslan í þessum leik var náttúrulega skandall,en við erum nokkuð vanir því.
    Þarna er dómarinn að eyðileggja leikinn.
    Vonandi klárum við rússana á fimmtudaginn.
    G G M U

  17. Auðunn says

    13. mars, 2017 at 22:26

    Það er svo margt og mikið sem maður getur sagt eftir þennan leik að maður veit ekki hvar á að byrja.
    Það er búið að benda á Pogba hérna sem á algjörlega rétt á sér en honum til varnar þá vantar honum betri leikmenn í kringum sig. Sérstaklega leikmenn sem geta verndað hann.
    Hann á að skila hlutverki sem hann er ekkert sérstaklega góður í því það vantar mann eins og Kante í þetta lið.
    Herrera er fínn en hann er svo sannarlega enginn Kante.
    Fellaini er grín, Bastian fær ekki sénsinn og Carrick kominn yfir sitt besta.
    Það sem ég hugsaði mest á meðan leik stóð var hversu hrikalega léleg kaup United hefur gert í gegnum tíðina og borgað fáránlegar upphæðir fyrir ekki meiri gæði á miðjunni fyrir utan Pogba.
    Mourinho er á réttri leið með að laga þetta en hann þarf líklega 2-3 glugga í viðbót.

  18. Karl Gardars says

    13. mars, 2017 at 22:44

    Mér fannst við alls ekki spila illa miðað við allt og allt og það var virkilega góð barátta í liðinu. Menn slökktu á sér í markinu og þ.m.t DDG sem annars varði eins og villimaður.
    Oliver átti ekki góðan leik, Costa átti að fá 3 gul og Marcus hefði mátt setja hann þarna í lokin.
    Þetta var langbesta liðið í deildinni og þeir áttu bágt með að brjóta okkur manni fleiri. Þetta er allt á réttri leið hjá Mourinho og liðsheild að verða til aftur.
    Rússarnir skulu nú fá að finna til tevatnsins.

  19. kristjans says

    13. mars, 2017 at 22:46

    Get ekki Pogba… Skil ekki hvers vegna þetta er dýrasti leikmaður í heimi. En kannski er þetta eins og Auðunn segir, hann þarf aðra leikmenn í kringum sig. Af hverju ekki að gefa Schweinsteiger tækifæri á miðjunni? Og ég myndi vilja sjá Blind fá að spila á miðjunni, var leikmaður ársins í Hollandi í þeirri stöðu.

  20. Rúnar Þór says

    13. mars, 2017 at 23:17

    Sjáið líka í markinu. Pogba sogast út í kant í átt að boltanum, lítur aftur fyrir sig og sér Kante aleinan og fer þá að benda eitthvað eins og einhver annar ætti að taka hann. Svo var hann pirraður þegar Kante skoraði. Þetta var þitt svæði og þinn maður! Þýðir ekkert að kvarta í liðsfélögunum þegar þú ert sá seki

  21. Rauðhaus says

    13. mars, 2017 at 23:33

    Alveg furðulegt að benda bara á Pogba í markinu þegar það er augljóst að mesta sökin liggur hjá DDG. Hann var einfaldlega ekki tilbúinn. Sá boltann allann tímann og hefði klárlega varið þetta skot ef hann hefði verið á tánum.

    Pogba byrjaði leikinn vel en var mjög slakur eftir að Oliver ákvað að eyðileggja leikinn.

  22. Hjörtur says

    13. mars, 2017 at 23:45

    Vantar ekki bara Gylfa í þetta lið?

  23. Halldór Marteins says

    13. mars, 2017 at 23:56

    Jæja, þessi leikur fór svona.

    Merkilegt nokk er ég hvorki mjög fúll né sérstaklega pirraður eftir leikinn. Mér fannst liðið sýna flottan anda og góða baráttu.

    Þetta var leikur tveggja góðra stjóra sem lögðu mikið upp úr sinni taktík. Leikmenn Manchester United komu gríðarlega grimmir til leiks og maður tók eftir nokkrum góðum, taktískum punktum hjá liðinu sem voru greinilega vel æfðir.

    Það var lagt upp með að fara harkalega í Hazard. Það var alltaf að fara að verða áhætta og það kostaði rautt spjald í þetta skiptið. Annan dag hefði það sloppið. Gameplanið var samt flott, fannst mér. Manni færri varð þetta að allt öðrum leik.

    Það er mikið kvartað yfir Pogba. Kanté er búinn að vera besti fótboltamaður Englands tvö tímabil í röð. Hann hefur verið að slátra heilu miðjunum einn síns liðs og verkefni hans í kvöld var að líma sig á Paul Pogba. Conte var hræddur við Pogba og vildi taka hann úr umferð. Það verk varð auðveldara fyrir Chelsea eftir að Pogba missti Herrera við hlið sér. Samt sem áður fannst mér hann ekkert eiga ömurlegan dag, þetta var bara drulluerfitt.

    Mourinho lagði upp með að stoppa Hazard með taktískum hætti, Jones átti að líma sig á hann og hinir tveir miðverðirnir að vera tilbúnir að taka við af honum. Tveir miðverðir í vörn, einn á Hazard. Darmian átti svo að eiga Willian, Young tilbúinn að droppa niður í bakvörðinn þegar Darmian þurfti að elta Willian.

    Þetta fannst mér mjög skemmtileg taktík hjá Mourinho og skilaði sér í mun opnari leik en ég bjóst við fyrsta hálftímann. Eftir rauða spjaldið var, eins og ég sagði, um allt annan leik að ræða.

    En varðandi markið. Willian var greinilega orðinn leiður á að hafa þennan skugga alltaf yfir sér hægra megin svo hann skipti um kant. Pogba sá það og tók hjálparvörnina. Boltinn barst á Kanté. Ég kenni Pogba ekkert um það, hefði alltaf viljað fá hann í hjálparvörnina á Willian, enda hættulegur leikmaður. Ef það er einhver sem þú ert til í að fái skot utan af velli þá er það Kanté. Maður sem skorar ekki mikið. En hann smellhitti hann þarna. Það þurfti svona mark, mark sem gerist ekki oft, til að Chelsea næði að vinna 10 leikmenn Manchester United.

    United hefði getað gert ýmislegt betur. En það var bara andskoti margt sem mér fannst gaman að sjá þarna og gott að taka úr leiknum. Treysti á Mourinho að nýta þetta og byggja ofan á það.

    Minn maður leiksins er samt Rojo, fyrir það hversu stjarnfræðilega mikið hann náði að pirra Diego Costa :D

  24. Óli says

    14. mars, 2017 at 01:45

    Við töpuðum einfaldlega fyrir betra liði í dag.

    Þetta er svekkjandi en það sem skiptir öllu máli er að komast í meistaradeildina, hvort sem það gerist gegnum fjórða sætið eða Evrópudeildina. Ég hef smá áhyggjur af því að það sé einhver niðursveifla í gangi, hugsanlega smá þreyta kominn í liðið sem byrjaði að gera vart við sig á móti Southampton (leikur sem hefði átt að tapast).

  25. Rúnar G. says

    14. mars, 2017 at 08:09

    „vegna þess að Oliver var búinn að skipa sig sérstakan verjanda Eden Hazard sem gerði tilkall til Edduverðlauna í fyrri hálfleiknum“
    Stórmerkileg lýsing á þeirri leggjasparkhátíð sem gestaliðið bauð upp á í leiknum. Ég fagna því að góðir leikmenn fái vörn frá dómurum á þennan hátt.

  26. Heiðar says

    14. mars, 2017 at 08:49

    DDG var að mínu mati óheppinn í markinu sem Kante skoraði. Var akkúrat í loftinu að hoppa til vinstri þegar Kante hleður í skotið. Hefði DDG staðið kyrr í nokkur sekúntubrot í viðbót áður en skotið reið af hefði hann varið þetta.
    Annars ítreka ég að breiddin er ekki nógu mikil í liðinu og það þarf að laga með góðum sumarglugga.

  27. Rauðhaus says

    14. mars, 2017 at 10:27

    Ég er ekki sammála að þetta hafi verið „óheppni“ hjá DDG í markinu. Hann sá boltann og Kante allan tímann og átti ekki að vera í loftinu þegar Kante er að hlaða í skotið. Auðvitað eru þetta samt ekki einhver stórkostleg mistök sem sjást ekki oft og tíðum hjá mörgum markvörðum.
    Ég segi samt líka að DDG átti að öðru leyti frábæran leik, að vanda. Ég er bara að benda á að það er ósanngjarnt að benda á Pogba og kenna honum um markið þegar það blasir við að helsta sökin liggur hjá DDG.

  28. Tommi says

    14. mars, 2017 at 13:33

    Hvernig væri að menn hættu að fókusa á að Pogba sé dýrasti leikmaður í heimi. Hefur komið með mikil gæði inn á miðjuna. United borgaði þessa upphæð því þeir gátu það.

    Hann er vissulega ekkert yfir gagnrýni hafinn en þeir sem hafa eitthvað vit á fótbolta vissu að við værum ekki að fá Ronaldo eða Messi týpu. Fannst hann ekkert afleitur í þessum leik, var ljóst að þetta yrði mjög erfitt eftir að við urðum einum færri. Hann var einnig að mæta afburða miðjumönnum og mjög líkamlega sterku sem og fersku liðið.

    Þetta rauða spjald var mjög strangt, ef maður skoðar bæði þessi brot þá er alveg hægt að sleppa spjaldi í bæði skiptin. Þetta eyðileggur leikinn einfaldlega. Sami dómari Oliver leyfði Watford að strauja Martial þegar united tapaði gegn þeim í september það kostaði mark. Það var klárt brot þannig að þessi dómari frat fyrir mér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • sófinn um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Helgi P um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Elis um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Halldór Marteins um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi
  • Steve Bruce um Manchester United 5-4 Lyon: Sá góði, sá vondi og sá ótrúlegi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2025 · Keyrt á WordPress