• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Pistlar Stjórinn

Sir Alex Ferguson hættir sem framkvæmdastjóri Manchester United

Tryggvi Páll skrifaði þann 8. maí, 2013 | 27 ummæli

Maður vissi að þessi dagur mundi einn daginn renna upp. Hvar byrjar maður?

Í gær fór orðrómur á stað um að Sir Alex Ferguson myndi stíga niður sem knattspyrnustjóri Manchester United við lok tímabilsins og rétt í þessu var það staðfest af liðinu í yfirlýsingu. Maður á bágt með að trúa þessu. Fyrstu viðbrögð mín og flestra sem ég fylgist með á Twitter voru svipuð, menn höfðu enga trú á því að orðrómurinn væri sannur en eftir því sem leið á kvöldið breyttist hljóðið örlítið, kannski var eitthvað sannleikskorn í þessu. Vísbendingarnar hafa nefnilega birst okkur smám saman síðustu tímabil en við höfum auðvitað ekki tekið eftir þeim, eða kannski bara hunsað þær, enda tilhugsunin um Manchester United án Sir Alex Ferguson eitthvað sem maður hefur bægt frá sér þó að reynsla og skynsemi segi manni að ekkert endist að eilífu, sama hversu gott það er.

Á Old Trafford hafa menn undanfarin tvö ár verið að sá fræum fyrir þennan dag. Í nóvember 2011 var heil hlið á Old Trafford, stærsta stúkan, skírð ‘The Sir Alex Ferguson Stand’ í skemmtilegri athöfn þar sem stjóranum var heldur betur komið á óvart. Það er líklega erfitt að reisa manninum betra minnismerki en það. Ári seinna var síðan reist stytta fyrir utan stúkuna. Styttan er tæpir þrír metrar á hæð og gnæfir yfir öllum sem koma að Old Trafford, líkt og afrekin sem Sir Alex Ferguson hefur unnið.

Flestir þekkja söguna á bakvið þegar Sir Alex Ferguson hætti við að hætta árið 2002. Þá hafði hann tilkynnt með þónokkrum fyrirvara að tímabilið 2001-2002 yrði hans síðasta. Sagt er að að félagið hafið verið búið að ráða Sven-Göran Eriksson sem eftirmann Sir Alex. Ferguson hefur sjálfur sagt að þessi ákvörðun hans um að hætta og sérstaklega það að tilkynna um yfirvofandi brottför sína með svo löngum fyrirvara hafi verið algjör mistök. Það var því nokkuð ljóst að næst þegar Sir Alex tæki þá ákvörðun um að hætta myndi sú ákvörðun vera tilkynnt án mikils fyrirvara og maður skilur afhverju þessi tilkynning kom í dag frekar en i lok tímabilsins. Það eru 2 leikir eftir af tímabilinu, liðið hefur verið langbesta liðið á tímabilinu og er búið að tryggja sér titilinn. Nú fá áhorfendur og aðdáendur liðsins það tækifæri að kveðja þessa goðsögn á knattspyrnuvellinum.

Það er helst að maður spyrji sig, afhverju núna? Það er ekki liðnir margir dagar síðan Sir Alex sagðist hafa engar áætlanir um það að hætta. Kannski hefur tilvonandi mjaðmaskurðaðgerð áhrif á þetta, kannski sú staðreynd að Mourinho er á lausu? Hver veit? Það sem vitum hinsvega er að arftaka Ferguson bíður líklega erfiðasta verkefni knattspyrnusögunnar. Hvort sem það er Mourinho, Moyes, Klopp getur hann þó huggað sig við að liðið stendur vel, með frábæran kjarna af reyndum leikmönnum og spennandi ungum leikmönnum og skuldastaðan fer snarbatnandi. Það er svo gríðarlega mikilvægt að vel takist við ráðningu nýs stjóra enda mikið undir. Pressan verður gríðarleg frá öllum hliðum leiksins, leikmennirnir sjálfir, aðdáendur og auðvitað blaðamennirnir sem munu hringsóla um arftakann ef illa gengur í byrjun. Þessi maður verður að hafa verulega sterk bein og við hin verðum að vera þolinmóð.

Ég er það ungur að árum að ég þekki ekki annað en Manchester United undir stjór Sir Alex. Hann hefur setið á Old Trafford einu ári lengur en ég hef verið til. Ég og svo margir aðrir sem höldum með Manchester United þekkjum ekkert annað en samfellda sigurgöngu undir stjórn Sir Alex Ferguson. Ávallt með hugmyndir Sir Matt Busby á bakvið eyrað hefur hann fært liðið á þann stall sem það hefði átt að vera á ef ekki hefði verið fyrir flugslysið í Munchen 1958. Undir stjórn Sir Alex hefur liðið, ólíkt öllum öðrum toppliðum á Englandi, alið upp leikmenn, heimsklassaleikmenn sem elska að spila fyrir félagið og þrá ekkert heitar en að spila í rauða búningnum og vinna titla. Menn velta því oft fyrir sér afhverju liðið nái alltaf að klóra sig til baka í leikjum, afhverju liðið sé alltaf á toppnum. Svarið er stefna Sir Alex að byggja á ungum leikmönnum sem þekkja ekkert annað en að spila fyrir félagið, þeir leggja sig meira fram en allir hinir. Undir stjórn Sir Alex hefur liðið hrundið frá hverri einustu hindrun að titlinum, allt frá hinum fornu fjendum í Liverpool til peningaveldanna í City og Chelsea. Hann hefur byggt upp svo mörg meistaralið, verið afskrifaður og risið upp á nýjan leik, og unnið svo marga titla, hvernig á eiginlega að vera hægt að feta í fótspor hans?

Undir styrkri stjórn Sir Alex hefur hann gert liðið að sigursælasta liði enskrar knattspyrnu og það kemst ekkert lið á Englandi í dag með tærnar þar sem hælar Manchester United eru varðar hvað varðar árangur á knattspyrnuvellinum. Það eru mikil forréttindi að halda með liði eins og Manchester United, það bliknar þó í samanburði á því halda með því liði sem er stýrt af Sir Alex Ferguson, mesta knattspyrnustjóra allra tíma. Takk fyrir okkur.

 

Efnisorð: Sir Alex Ferguson 27

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    ellioman says

    8. maí, 2013 at 08:28

    Maður verður að hrósa Tryggva fyrir þessa grein.
    Trúi þessu ekki. Maður er vel dofinn þessa stundina :(

    0
  2. 2

    Alexander says

    8. maí, 2013 at 08:35

    Ég varð bara að setjast niður þegar ég frétti þetta.. Maður er í sjokki.. Þessum degi mun maður seint gleyma

    0
  3. 3

    Róbert says

    8. maí, 2013 at 08:38

    það hlaut að koma að því.. nú er allveg eins betri tími og annar :(

    0
  4. 4

    Óskar Ingi says

    8. maí, 2013 at 08:49

    Uff. Enn þessi dagur hlaut að renna upp fyrr enn síðar. Spurninginn er hver tekur við ?

    0
  5. 5

    Skúli Skúlason says

    8. maí, 2013 at 08:58

    Maður er ekki að trúa þessu, sé mest eftir því núna að hafa aldrei drifið mig á leik :( hef alltaf sagt að ég muni fara áður en Ferguson hættir það verður víst ekki af því. Mér finnst einsog ég þekki hann, ég myndi heilsa honum útá götu ef ég myndi hitta hann!

    0
  6. 6

    Narfi Jónsson says

    8. maí, 2013 at 09:08

    Auðvitað hlaut að koma að þessu og ég tel að tímasetningin sé nokkuð góð. Næsti stjóri tekur við góðu búi, meistaraliði, en hefur samt gott svigrúm til að bæta við og gera liðið að sínu. Það er hægt að leika sér endalaust með það í huganum hver muni taka við og hverjir muni fylgja þeim stjóra, ef einhver. Moyes finnst mér spennandi, Fellaini myndi eflaust fylgja í kjölfarið, Mourinho er ekki maður sem ég hef viljað sjá taka við liðinu en er vissulega títtnefndur sem arftaki Fergusons og við gætum þá a.m.k. látið okkur dreyma um að Ronaldo fylgdi honum heim. Margt hefur verið slúðrað um Klopp og lærisveina hans og ég er persónulega spenntari fyrir honum en Mourinho. En hver sem tekur við, þá hlýtur það að vera klappað og klárt og verða tilkynnt fyrr en síðar.

    0
  7. 7

    Sveinn Þorkelsson says

    8. maí, 2013 at 10:39

    Mér er kalt og óglatt..
    Ég veit ekki hvern ég vil sjá taka við liðinu en það verður að vanda til verks, er ekki viss um að David Moyes geti fyllt í skóna hans Sir Alex Ferguson.

    Annars er ég nokkuð viss um að karlinn hafi ætlað hætta í fyrra, en síðan tók Man C dolluna á síðustu augnablikum tímabilsins í fyrra þannig að SAF ákvað að taka slaginn eitt tímabil í viðbót.

    0
  8. 8

    Sveinbjorn says

    8. maí, 2013 at 10:52

    Þetta eru svakalegar fréttir, maður var reyndar farinn að búast við þessu þegar maður heyrði
    að Ferguson væri að fara í mjaðmaaðgerð í sumar og yrði ekki heill fyrr en þegar næsta tímabil
    væri byrjað. En þvílíkur maður sem þetta er, að vera svona lengi hjá sama klúbbi og náð að
    halda honum á toppnum svona gríðarlega lengi verður ekki gert í nánustu framtíð.
    Sammála með það að þó að það sé engin góð tímasetning fyrir að besti knattspyrnustjóri allra
    tíma getur maður sagt, sé að hætta, þá er þetta besta tímasetningin. Eins var nefnt hér að ofan
    þá eru tveir leikir eftir þar sem að áhorfendur geta sungið nafnið Sir Alex, Sir Alex aftur og
    aftur alla leikina og gefið honum extra mikið lof þegar hann lyftir bikarnum á loft eftir Swansea
    leikinn. Og næsti þjálfari getur mótað liðið aðeins að sínum stíl.
    Sir Alex Ferguson hættir sem núverandi Englandsmeistari og goðsögn, og ég held að ég geti
    fullyrt að þessi leikur sem Ferguson hefur leikið verður ekki endurtekinn næstu 50 árin eða
    meira.

    Allt mitt líf hefur Ferguson verið við stjórn United og ég þekki því félagið ekki án hans.
    Þegar ég heyri einhvern segja Manchester United þá hugsa ég um tvennt, merki félagsins
    og andlitið hans Ferguson, brosandi eftir einn af sigurleikjum sínum, báðar þessar myndir
    eru þarna tvær, hlið við hlið, og ég hugsa að ég muni hugsa eins í framtíðinni, þegar nýr
    stjóri er tekinn við.
    Það er fyndið að segja frá því að þó maður hefur aldrei talað við hann, eða séð hann með eigin
    augum, þá finnst manni maður þekkja manninn. Margir leikmenn Manchester United segja að
    hann hafi verið sér sem faðir. Og ég er viss um að margir stuðningsmenn United hugsa eins
    og ég, að maður sé einhvern veginn skyldur honum.
    Þó svo að hann muni aldrei lesa þetta, eða heyra um þetta þá ætla ég að segja við hann: Takk,
    fyrir öll þessi ár. Takk fyrir alla leikina, sigrana, titlana og töpin. Þú ert mesti maður sem að
    hefur tengst knattspyrnu og einn mesti maður samtímanns. Ég óska þér alls hins besta í nýju
    starfi og lífinu.

    Í sambandi með það hver tekur við af honum þá eru held ég 90% líkur á því að Moyes eða
    Morinho taki við. Og í hreinskilni sagt þá væri ég mjög sáttur með báða þessa stjóra. Þeir hafa
    báðir sína kosti og galla. Ég hef alltaf verið hrifinn af Moyes, að halda liði í 5. -7. sæti svona
    lengi með ekkert fjármagn er næstum jafn magnað og Ferguson, hann hefur sýnt að hann
    lætur engan vaða yfir sig og ég hef trú á honum að hann gæti haldið okkur sem meisturum
    á næsta ári. Hann hefur líka sýnt það hjá Everton að hann er tryggur sýnu félagi, en hann
    hefur verið hjá félaginu sýnu í 11 ár (Smá innskot, en samkvæmt Wikipedia hefur hann verið
    ráðinn stjóri United, samt tekur maður þessu með fyrirvara).
    Morinho, hann mun klárlega gera okkur að meisturum á næsta ári og koma okkur langt í
    Evrópukeppni, hann hefur sýnt það að hann er einn af þeim bestu. En það er spurning hvað
    hann væri lengi hjá okkur. En ég held að enginn efist um hæfni hans sem knattspyrnustjóra.
    Svo væri líka gaman að horfa á Chelsea mennina svekkta og sára að missa af honum.

    En í dag er stór dagur, sem ég fyrir nokkrum dögum hélt að yrði á næsta ári. Þessi dagur er
    einn af þeim dögum sem Manchester United aðdáendur munu minnast í framtíðinni. Þetta er
    skrýtin tilfinning, en maður er samt spenntur hver tekur við. En ætli ég láti þetta ekki gott
    heita.
    Takk fyrir árin strákar og stelpur, sem Sir Alex hefur verið við stjórnvöllinn.

    0
  9. 9

    Hanes says

    8. maí, 2013 at 11:23

    Ég er skkíthræddur um að gengi liðsins á eftir að falla á næstu árum. Við verðum held ég alltaf í toppbaráttu en titlarnir verða færri því miður held ég.

    0
  10. 10

    Brynjar says

    8. maí, 2013 at 11:43

    Ég er mest hræddur um að Moyes sé ekki nægilega mikið aðdráttarafl til þess að fá bestu leikmenn í heimi. Ég get bara því miður ekki séð t.d. Ronaldo spila fyrir Moyes. Hann er góður þjálfari og er búinn að ná mögnuðum árangri en mér finnst það bara ekki vera nóg. Ég vil sjá Mourinho taka við núna og kannski Solskjær eða Giggs sem aðstoðarþjálfara.

    0
  11. 11

    Mr.T says

    8. maí, 2013 at 13:08

    Það er þá komið að því. Ég sá viðtal við Klopp á Sky um daginn fyrir leik Real og Dortmund.
    Þar virðist vera maður með sitt á hreinu og mjög jarðbundinn. Held að hann væri flottur fyrir okkur. Fá smá Þýskann aga í þetta.

    0
  12. 12

    diddiutd says

    8. maí, 2013 at 14:42

    Legend annað er ekki hægt að segja.. En semi off topic, ég held það þyrfti að auglýsa þessa síðu betur og virkja kommentakerfið betur, t.d. Er kop.is komnir með 10 fleiri komment á sinn þráð þar sem flestir eru að votta gamla virðingu ásamt því að gleðjast þezsum fréttum…

    Sá einn góðan á kop.is. … first thatcher died and now ferguson retired…. Somewhere out there is a scouser with a lamp and one wish left

    0
  13. 13

    Friðrik Árni says

    8. maí, 2013 at 15:18

    Takk fyrir mig Sir Alex!

    0
  14. 14

    ellioman says

    8. maí, 2013 at 16:12

    Juventus flottir:
    http://www.juventus.com/wps/portal/en/news/ferguson_news_eng_/

    0
  15. 15

    Ingi Rúnar says

    8. maí, 2013 at 16:19

    Takk kærlega Sir Alex.
    Èg sé ekki ástæðu til að õrvænta, fínn hópur sem við erum með í hondunum. Èg vill sjá Moyes eða Klopp, en efast um að Klopp sé tilbúinn til að færa sig, tannig að Moyes er velkominn. Maurinho er að ég held alls ekki maðurinn fyrir Man Utd, hann hefur aldrei veridð lengi í starfi. Hvort sem liðið lendir í lægð eða ekki, Næsti tjálfari verður að fá tíma númer 1, 2 og 3.
    Ef Ronaldo kæmi „heim“ væri minni hætta á lægð.

    Hvort er flottara aftan á næstu treyju?
    Sir Alex 26 ( Semsagt àrin við stjórn) eða
    Sir Alex 38 (Titlar)

    0
  16. 16

    Atli Þór says

    8. maí, 2013 at 18:00

    Ingi Rúnar

    Akkurat sama hugmynd og ég fékk í morgun þegar ég frétti þetta! Sir Alex 26 finnst mer passa betur :)

    0
  17. 17

    DMS says

    8. maí, 2013 at 18:32

    Ég er pínu efins með Mourinho. Hann myndi án efa skila einhverjum titlum, það er klárt mál. En hvort hann henti stefnu Man Utd er annað mál. Þeir eru væntanlega að leita sér að langtíma stjóra sem gefur ungum leikmönnum séns í bland við stóru nöfnin. Mourinho hefur yfirleitt stoppað stutt á hverjum stað fyrir sig, yfirleitt fengið rúmt fjárhagslegt svigrúm á leikmannamarkaði og svo haldið sína leið þegar hann er búinn að skila sínu. Hann er þekkt nafn í bransanum sem myndi auðvelda kaup á stórum nöfnum. Ég yrði samt eiginlega ekki almennilega sáttur með að fá Mourinho nema að Ronaldo myndi fylgja með :)

    Moyes er áhugaverður kostur. Skortir klárlega reynslu í Evrópukeppnum en þekkir ensku deildina vel og hefur haldið Everton ótrúlega ofarlega í töflunni miðað við hvað hann hefur úr litlu að moða. Hann hefur einnig þurft að sætta sig við að missa lykilmenn í sinni uppbyggingu, eitthvað sem er minni hætta á hjá United. Hann myndi án efa taka við ráðum frá Ferguson í bakherbergjum Old Trafford, eitthvað sem egóið hjá Mourinho gæti átt erfitt með. Kosturinn við Moyes er einnig sá að hann myndi sennilega viðhalda stefnu United í unglingastarfi og leikmannamálum. Ef ég mætti velja einn leikmann frá Everton sem ég væri til í að fá þá væri það Fellaini á miðjuna. Baines væri einnig góður kostur en við erum nokkuð vel settir með vinstri bakvörðinn hjá okkur.

    Það er ljóst að sama hvað gerist þá er liðið á stórum tímamótum. Nú er bara að refresha fréttasíðurnar næsta sólarhringinn og sjá hvað setur. Mér finnst svolítið stór tilviljun að Mourinho skuli vera á lausu akkúrat núna um leið og Ferguson hættir. Móri er búinn að vera að sleikja upp United undanfarið og það sást vel í viðtölunum eftir leikina gegn Real Madrid. Hinsvegar er ljóst að Mourinho tikkar í öll boxin hvað varðar hæfniskröfurnar sem voru settar upp fyrir næsta stjóra hjá David Gill, en hann sagði í viðtali að næsti stjóri United þyrfti að hafa góða reynslu í Evrópukeppnum. En núna er reyndar Gill hættur þannig að það er spurning hvað gerist í þessum efnum.

    0
  18. 18

    úlli says

    8. maí, 2013 at 20:19

    Mér finnst óskiljanlegt ef Mourinho verdur ekki fyrir valinu. Það hefur myndast einhver óútskýranleg tenging milli hans, Ferguson og Manchester United. Mourinho er búinn að gera þetta allt… hann hefur unnið í Portúgal, á Englandi, Ítalíu og Spáni. Núna er stærsta starfið í bransanum á lausu, og að taka við af manni eins og Ferguson er once in a lifetime dæmi. Gæti hann ekki viljað taka 15 ár á Old Trafford áður en hann klárar ferilinn með portúgalska landsliðinu? Ég veit það ekki, en hann er bókstaflega sá eini með hreðjarnar í þetta starf, að mínu mati.

    0
  19. 19

    Tryggvi Páll says

    8. maí, 2013 at 20:35

    Það stefnir allt í að David Moyes fái starfið. BBC segir að staðfesting þess eðlis muni líklega koma frá félaginu síðdegis á morgun. Það verður að segjast eins og er að hann er ekki mest spennandi kosturinn í stöðunni en kannski sá kostur sem meikar mest sens. Sjáum hvernig þetta þróast.

    Hvað varðar kommentið frá diddiutd er það auðvitað rétt, það væri gaman ef hér myndi skapast meiri umræða. Það verður þó að hafa í huga að við erum mjög ung síða á meðan kop.is er margra ára gömul síða. Að því leyti er ekki sanngjarnt að bera þessar síður saman. Kommentum hefur statt og stöðugt fjölgað hér frá því að við byrjuðum og ég hef ekki trú á öðru en eftir því sem þessi síða eldist og þroskast muni skapast hér góður umræðugrundvöllur fyrir United-menn. Við erum í það minnsta mjög ánægðir með viðtökurnar sem síðan hefur fengið og fer lesendahópurinn sístækkandi.

    0
  20. 20

    Emil says

    8. maí, 2013 at 21:32

    Sorgardagur en spennandi tímar framundan.
    Myndi velja Moyes alla daga ársins framyfir „hinn sérstaka“.

    Tryggvi, varðandi kommentin, þá er ég mikill aðdáandi kop.is síðunnar og var mjög ánægður með þetta framtak ykkar, en það skal játast að margir blóðheitir aðdáendur Liverpool mættu alveg telja uppá 10 áður en þeir skrifa sín orð inn.
    Magn er ekki ávísun á gæði :-)

    0
  21. 21

    Ó.Magni says

    8. maí, 2013 at 23:19

    Það er fáránleg pressa að taka við af Sir Alex og ég held í alvöru að það þurfi einhvern „sérstakan“ til þess. Er ekki viss um að Moyes nái að höndla þessa pressu.

    Árið 1986 var ég fimm ára gamall og það var árið sem ég byrjaði að halda með United að undirlagi stóra bróður. Ég þekki því ekki annað en að Sir Alex sé stjórinn og tengi hann alltaf við liðið. Það verður mjög skrýtið að fylgjast með liðinu á næsta tímabili og sörinn ekki við hliðarlínuna

    0
  22. 22

    Snorkur says

    9. maí, 2013 at 00:17

    Takk kærlega Sir Alex… vonum að valið verði rétt í framhaldinu

    skemmtileg nálgun meðan við bíðum :

    http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2321483/Sir-Alex-Ferguson-retires-David-Moyes-succeed-season-according-Football-Manager-simulation.html

    0
  23. 23

    Cantona no 7 says

    9. maí, 2013 at 01:11

    Takk Sir Alex.
    Guð blessi þig.

    Áfram Man. Utd.

    0
  24. 24

    Valdi Á says

    9. maí, 2013 at 01:59

    Jæja 8. maí 2013 var ansi skrýtinn dagur. Ég var annaðhvort brosandi eða með tárin í augunum. Þetta var bara smá sjokk að fá þetta með morgunmatnum.

    Nú er bara spurningin hver tekur við? Held að sá maður verði að geta unnið á svipuðum nótum og Ferguson fyrst og sett síðan sinn brag á þetta eftir því sem tíminn líður.

    0
  25. 25

    DMS says

    9. maí, 2013 at 13:11

    Eftir því sem ég hugsa þetta meira þá verð ég smeykari með þessa Moyes ráðningu. Er ég sá eini sem er pínu skeptískur að fá stjóra sem hefur ekki unnið titil þrátt fyrir að hafa verið 15 ár í bransanum og hefur litla sem enga reynslu í Evrópu? Þegar Fergie tók við United á sínum tíma þá var hann einn efnilegasti stjóri Bretlandseyja, búinn að vinna deildina þrisvar í Skotlandi með Aberdeen og hafði rofið einokunina sem var þar í gangi. Einnig vann hann 5 aðra titla utan Skotlands með Aberdeen (meðal annars European Cup Winners Cup og European Super Cup, sigrar gegn Real Madrid og Hamburg í úrslitaleikjunum).

    Mestu afrek Moyes eru að enda í 4. sæti með Everton og detta út úr 16 liða úrslitum UEFA Cup.

    David Moyes er án efa flinkur stjóri og gerir mikið úr litlu. Hann væri án efa einn besti kosturinn í stöðunni ef við værum að ströggla um miðja deild. En við erum núverandi Englandsmeistarar og með ótrúlega sigursæla sögu. Ég verð að viðurkenna að ég er pínu skeptískur en vona svo innilega að ég hafi rangt fyrir mér ef af þessu verður. Mér finnst skrítið að lið eins og United ætli að taka þetta mikla áhættu hvað þetta varðar. Þetta er ekki alveg eins og að kaupa efnilegan leikmann. Fyrir mitt leyti þá finnst mér ferilskrá Moyes vera svolítið þunn fyrir eitt stærsta og þekktasta lið heims. Ég óttast líka að ráðning hans muni hafa áhrif á hvaða leikmenn vilja koma til okkar. Stórstjörnur vilja spila fyrir bestu og sigursælustu stjórana, Moyes hefur enn ekki sannað sig sem slíkur.

    …og Phil Neville sem assistant manager? Er það ekki eitthvað grín?

    En jæja, sama hvað gerist þá mun maður bara taka því og gefa viðkomandi tækifæri. Stuðningsmenn United eru hinsvegar ansi ofdekraðir eftir tíma Ferguson þannig að mig grunar að þolinmæðin sé ekkert sérstaklega mikil.

    0
  26. 26

    fev says

    9. maí, 2013 at 13:30

    samningur hjá moyes að renna út þurfum ekki að borga honum mikið ,, bara það að fá morinho kostar fáranlega mikinn pening og þyrftum að borga upp samninginn hans þetta er pott þétt moyes vona bara að okkar bestu menn fari ekki

    verð að viðurkenna að ég er orðinn drullu þreyttur strax á þessu að rooney sé að fara og eitthvað bla bla bla

    0
  27. 27

    Friðrik says

    9. maí, 2013 at 14:21

    Soldið heimskulegt að Rooney sé að biðja um transfer á þessum tímapunkti. Við erum að fara lyfta bikarnum um helgina, held að þetta mátti alveg bíða þangað til að tímabilið væri búið. Mér finnst allavegana Rooney hafa verið slakur þettaa season, búin að skora 16 mörk núna miðað við 34 mörk sem hann gerði í fyrra. Getum fengið góða summu fyrir Rooney frá PSG eða Bayern og setjum það upp í Ronaldo sem mun ekki kosta 80 millur lengur, hann er ekkert að yngjast. Splæsa síðan í Falcao ? vera með RVP og Falcao frammi og Kagawa fyrir aftan þá og Ronaldo á kantinum. Eða spila Ronaldo frammi og splæsa frekar í miðjumann, reyndar vil ég að Cleverley stigi upp og hirði þessa stöðu á næsta tímabili.

    0

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Magnús Þór um Manchester Utd 3:1 Fulham
  • Arni um Manchester Utd 3:1 Fulham
  • Bjarni um Önnur ferð til Sevilla!
  • Egill um Real Betis 0:1 Manchester United
  • Helgi P um United 0 – 0 Southampton

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2023 · Keyrt á WordPress