• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United

Halldór Marteins skrifaði þann 7. maí, 2022 | 13 ummæli

Frá því Sir Alex Ferguson, besti knattspyrnustjóri allra tíma, lagði stjórafrakkann á hilluna í maí 2013 hefur Manchester United spilað allnokkra leiki sem koma til greina sem sigurvegarar í þeim vafasama flokki verstu frammistöður United eftir að Fergie hætti. Í dag fengum við sterka tilnefningu, einn af of mörgum kandídötum frá þessu tímabili, í þann þrotaflokk. Það var nákvæmlega ekkert ósanngjarnt við þetta rúst. Stærra tap hefði ekki verið ósanngjarnt. Leikmenn Manchester United eru andlega komnir í sumarfrí fyrir löngu og það sést.

Þetta helsta

Manchester United stillti upp þessu byrjunarliði í dag:

1
De Gea
27
Telles
19
Varane
2
Lindelöf
20
Dalot
31
Matic
39
McTominay
18
Fernandes
8
Mata
36
Elanga
7
Ronaldo

Bekkur: Henderson, Fernandez, Jones, Maguire (71′ fyrir Mata), Wan-Bissaka, Fred (46′ fyrir Matic), Lingard, Cavani (46′ fyrir Elanga), Garnacho.

Heimamenn stilltu upp svona:

1
Sánchez
3
Cucurella
5
Dunk
34
Veltman
11
Trossard
25
Caicedo
8
Bissouma
20
March
10
Allister
13
Gross
18
Welbeck

Bekkur: Steele, Lamptey (75′ fyrir March), Webster (67′ fyrir Allister), Maupay (83′ Trossard), Lallana, Alzate, Duffy, Offiah, Ferguson.

Mörkin

15′ – Moisés Caicedo fyrir Brighton & Hove Albion. Langskot sem klobbaði Lindelöf og endaði í bláhorninu.

49′ – Marc Cucurella fyrir Brighton & Hove Albion. Átti gott hlaup inn í teig og fann sér pláss aleinn þar sem Trossard gat gefið út á hann og spænski varnarmaðurinn kláraði færið mjög vel með skoti upp í vinkilinn nær.

58′ – Pascal Gross fyrir Brighton & Hove Albion. Heimamenn fóru ævintýralega auðveldlega í gegnum vörn Manchester United. Sending frá markmanni á Cucurella á kantinum sem fann Trossard í hlaupi. Trossard gaf á Pascal Gross sem hljóp bara inn í teig og skoraði. Leikmenn United voru ekki einu sinni með.

60′ – Leandro Trossard fyrir Brighton & Hove Albion. Bara algjört grín á þessum tímapunkti. Welbeck fékk stungu innfyrir og var aleinn. Gat meira að segja chippað yfir De Gea. Dalot náði að bjarga marki frá Welbz en björgunin tókst ekki betur en svo að boltinn fór í vömbina á Trossard og í markið.

Spjöldin

45′ – Ronaldo (United) gult.

47′ – Dalot (United) gult.

Leikurinn sjálfur

Æi, díses fokking kræst!

Þetta var bara verðskuldað. Leikmenn Manchester United hafa orðið sér og félagi sínu trekk í trekk til skammar í vetur. Brighton var nær því að skora fleiri mörk en United að minnka muninn.

Lið sem tapar samanlagt 9-0 fyrir Liverpool á tímabilinu. Lið sem lætur Brighton og Hove Albion líta út eins og Harlem Globetrotters fótboltans. Það eru ekki margir leikmenn úr slíku liði sem geta með sannfærandi hætti gert tilkall til þess að fá að spila fleiri mínútur fyrir félagið. Einhverjir þeirra munu þó gera það, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í þessum hörmungum. Þeir verða þá að sýna meiri karakter í að bæta upp fyrir þetta en þeir gerðu í þessum leikjum. Og of mörgum fleiri leikjum í vetur.

Embed from Getty Images

Besti United-maðurinn í þessum leik var Manchester United stuðningsmaðurinn Moisés Caicedo sem er alltaf duglegur að læka alla samfélagsmiðlapósta sem tengjast Manchester United og skoraði fyrsta mark leiksins með laglegu langskoti á 15. mínútu. Sá leikmaður myndi líklega bæta þetta United-lið til muna.

Framundan

Manchester United á núna einn leik eftir á tímabilinu, gegn Crystal Palace á útivelli 22. maí.

West Ham United á þrjá leiki eftir. Gegn Norwich á útivelli á morgun, gegn Manchester City á heimavelli á sunnudag eftir viku og gegn Brighton & Hove Albion sunnudaginn 22. maí.

Wolves á líka þrjá leiki eftir á tímabilinu. Gegn Machester City á miðvikudag, gegn Norwich á sunnudag eftir viku og loks gegn Liverpool 22. maí.

West Ham getur náð United að stigum ef liðið vinnur Norwich og Manchester City, fyrir lokaumferðina. Wolves getur komist 2 stigum á eftir United ef liðið vinnur Manchester City og Norwich.

Það eru sennilega meiri líkur á að Manchester City tryggi Evrópudeildarsætið fyrir Manchester United en að United nái því á eigin frammistöðu.

13
Enska úrvalsdeildin

Tímabilið er aaalveg að klárast. Brighton úti á morgun.

Halldór Marteins skrifaði þann 6. maí, 2022 | Engin ummæli

Eftir erfiðar vikur var hressandi að fá góða frammistöðu og öruggan 3-0 sigur í síðasta heimaleik liðsins á tímabilinu, gegn Brentford síðastliðinn mánudag. Þá eru bara tveir leikir eftir af tímabilinu, sá fyrri þeirra verður spilaður á Amex-vellinum (eða Falmer-vellinum ef við sleppum sponsornum) í Brighton og Hove klukkan 16:30 á morgun. Dómari leiksins verður Andy Madley og VAR-dómari verður Chris Kavanagh.

Leikur liðanna á sama velli í fyrra var heldur betur sögulegur því þá skoraði Bruno Fernandes sigurmark Manchester United úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að leikurinn var flautaður af. Líklega í eina skiptið sem deildarleikur í efstu deild á Englandi hefur ráðist með marki eftir að leikurinn var búinn. Skemmtileg tilviljun að dómarinn í þeim leik var einmitt Chris Kavanagh sem verður í VAR-herberginu á þessum leik.

Manchester United er í baráttu um Evrópudeildarsæti og það væri fínt að ná í öll stigin í þessum leik vegna þess að eftir hann kemur rúmlega tveggja vikna pása áður en liðið spilar lokaleikinn sinn. Það er hætt við að ansi margir verði búnir að stimpla sig út í sumarfrí á þeim tíma og eflaust erfitt að gíra sig upp í síðasta leik tímabilsins eftir þetta tímabil.

Paul Pogba og Luke Shaw eru meiddir. Jadon Sancho og Harry Maguire hafa verið meiddir en gætu náð því að vera allavega í hópnum í þessum leik. Aron Wan-Bissaka er sömuleiðis tæpur og óvíst hvort hann nái þessum leik.

Embed from Getty Images

Brighton hefur átt fínasta tímabil og náðu að byggja á síðasta tímabili þegar liðið spilaði mjög skemmtilegan fótbolta en xG-lukkudísirnar voru ekki með þeim í liði. Í vetur hefur þetta tvennt náð að fylgjast betur að og er Brighton sem stendur í 9. sæti deildarinnar með 44 stig. Í apríl náði liðið m.a. að leggja bæði Arsenal og Tottenham á útivelli. Þeirra sprækastir í markaskorun hafa verið Neal Maupay með 8 mörk og Leandro Trossard með 7 mörk. Okkar maður Danny Welbeck hefur svo komið inn með 4 mörk en ekki náð að spila alla leiki liðsins. Hann er þó með 1 mark og 1 stoðsendingu í síðustu 2 leikjum. Hinn fjölhæfi Enock Mwepu er stoðsendingahæstur hjá Brighton, með 4 stoðsendingar á tímabilinu. Hann hefur líka skorað 3 mörk en það vekur kannski helst athygli að á þessu tímabili hefur hann spilað á miðri miðjunni, sem framliggjandi miðjumaður, aftast á miðjunni, kantmaður, sóknarmaður og bakvörður. Hans aðal staða virðist þó vera á miðri miðjunni.

Það er því mikil synd fyrir Brighton, og áhugafólk um fjölhæfa knattspyrnumenn, að Mwepu verður ekki með gegn United þar sem hann er meiddur. Pólski miðjumaðurinn Jakub Moder og framherjinn Jeremy Sarmiento verða líka frá vegna meiðsla. Þar munar meira um Moder því sá var búinn að spila þó nokkuð af leikjum. Sarmiento hafði bara spilað tvo leiki á tímabilinu þannig að liðið ætti að vera ágætlega undir það búið að spila án hans.

Manchester United hefur unnið sjö leiki í röð gegn Brighton og Hove Albion. Spáum því að þetta verði byrjunarliðið sem vinnur að því að ná þeim áttunda í röð:

De Gea
Telles
Lindelöf
Varane
Dalot
McTominay
Matic
Mata
Fernandes
Elanga
Ronaldo

Setjum svo þetta niður sem líklegt byrjunarlið hjá heimamönnum:

Sánchez
Webster
Dunk
Veltman
Cucurella
Caicedo
Bissouma
Lamptey
Trossard
Allister
Welbeck

Hvernig fer leikurinn?

0
Enska úrvalsdeildin

Man Utd 3:0 Brentford

Daníel Smári skrifaði þann 2. maí, 2022 | 2 ummæli

Manchester United vann flottan 3-0 sigur á Brentford í síðasta heimaleik tímabilsins. Það var annar bragur á sóknarleik liðsins og naut Juan Mata sín í botn þar sem að Spánverjinn virtist ná vel saman við undrastrákinn Cristiano Ronaldo, sem að skoraði sitt 24. mark á tímabilinu í kvöld. Mörkin þrjú gerðu Bruno Fernandes, Cristiano Ronaldo og Raphael Varane, sem að gerði sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn.

Brentford boss Thomas Frank on Cristiano Ronaldo: "I think it is fair to say that he’s not as good as he was in his prime."

Cristiano Ronaldo: pic.twitter.com/V8Qrg6EBen

— ESPN UK (@ESPNUK) May 2, 2022

Svona stillti liðið upp.

Byrjunarlið Man Utd:

1
De Gea
27
Telles
19
Varane
2
Lindelöf
20
Dalot
31
Matic
39
McTominay
36
Elanga
18
Bruno
8
Mata
7
Ronaldo

Leikurinn og framhaldið

Liðið spilaði lengst af ágætlega í leiknum. Það voru, eins og alltaf, augnablik varnarlega sem að myndu líklega ekki sjást hjá liðum í Lengjudeildinni, en heilt yfir komust okkar menn bara vel frá verkefninu. United er nú 6 stigum á undan West Ham, sem að á leik til góða, en sigurinn var mikilvægur í þessari æðislegu Evrópudeildarbaráttu. Liðið á enn tölfræðilegan möguleika á Meistaradeildarsæti, en er 5 stigum á eftir Arsenal, sem að á tvo leiki til góða. Ekki séns.

Aftur mótmæltu aðdáendur eignarhaldi Glazer fjölskyldunnar með því að vera seinir inn á völlinn og fjöldaútganga hafði verið skipulögð á 73. mínútu, en það voru ekki margir sem að létu sig hverfa. Þó var töluvert um gula og græna trefla í stúkunni.

‘Why do United fans complain about the Glazers, they spend so much on players!’

1) The Glazers haven’t spent anything, the money spent on transfers is generated by the club.
2) They’ve inflicted a current sum of £495m in debt.
3) They take out £11m a year in dividends. pic.twitter.com/bWVqlOA3Gm

— Alexei (@MUFC_redarmy99) May 2, 2022

Það segir kannski ýmislegt að frammistaðan í kvöld hafi verið með þeim betri í vetur. Líklega toppaði liðið í opnunarleik tímabilsins þegar að Leeds var gjörsigrað 5-1 og völlurinn var skoppandi eftir að nýkeyptur Raphael Varane gekk út á miðjan völlinn og heilsaði uppá aðdáendur. Ekki var um neina kennslustund að ræða, en það var allt annað að sjá hreyfinguna á boltanum.

Þar spilaði El mago, eða einfaldlega Juan Mata, ofboðslega stóra rullu. Það er í raun glæpsamlegt að litla snillingnum hafi verið spilað út á hægri væng stóran part ferilsins hjá United. Hann er eins hreinræktuð tía og þær gerast. Auðvitað eru lappirnar löngu farnar og hann hefur í raun ekkert erindi hjá risaliði eins og Manchester United, þ.e. ef að klúbburinn ætlar sér upp í hæstu hæðir. En líklega er viturlegra að nota hann, frekar en Marcus Rashford á þessum tímapunkti. Mata hefði getað nælt sér í stoðsendingu (og gerði það tæknilega…) en Cristiano Ronaldo var naumlega rangstæður. Eins og Guðmundur Benediktsson nefndi einhverntímann: „Þú gætir látið Mata fá boltann inni í símaklefa, troðfullan af varnarmönnum, en hann kæmi boltanum samt á samherja.“

Thank you @juanmata8 ❤️ pic.twitter.com/OCv6E7R3G1

— Aidan Walsh 🔰 (@AidanWalshMUFC) May 2, 2022

Ronaldo sannaði í þúsundasta skipti að aldur er bara tala. Það er með ólíkindum hvernig hann hefur stigið upp á þessum síðustu og verstu. Eftir að hafa upplifað verstu mögulegu sorg sem að hægt er að hugsa sér, þá hefur Portúgalinn beinlínis dregið vagninn. Hann er orðinn virkari þáttur í öllu uppspili og ef að hann kemst í færi að þá er útkoman alltaf sú sama. Skot og mark. Hvað verður um Ronaldo í sumar er svo stór spurning. Eins og hann hefur spilað undanfarið að þá finnst mér eiginlega ótrúlegt ef að Erik ten Hag metur dæmið þannig að hann hafi ekki not fyrir hann. Ef að Sebastian Haller gat orðið markamaskína í Meistaradeildinni undir stjórn Hollendingsins, að þá ætti að vera eitthvað hægt að vinna með Cristiano Ronaldo.

Ég pirraði mig örlítið á því að Ralf Rangnick skyldi ekki gefa unglingunum Alejandro Garnacho og Alvaro Fernandez nokkrar mínútur í kvöld. Phil Jones hafði fengið gott lófatak og smá spiltíma gegn Chelsea. Sömuleiðis þarfnaðist ég þess ekkert að sjá Edinson Cavani kveðja Old Trafford. El Matador hafði unnið sig inn í hug og hjörtu aðdáenda á síðustu leiktíð, en það hefur verið ótrúleg tilviljun hvernig meiðslaganga framherjans í vetur hefur einhvernveginn aldrei staðið í vegi fyrir honum þegar að stór landsliðsverkefni hjá Úrúgvæ eru framundan. Leggur sig alltaf fram inná vellinum, en það hefur verið eitthvað bogið við framboðið í vetur. En kannski er ég Neikvæður Nonni of að lesa aðeins of djúpt í þetta og Cavani hefur bara verið meiddur á óheppilegum tímum.

Næsti leikur er gegn Brighton á laugardaginn, kl. 16:30. Leikur liðanna á AmEx vellinum á síðustu leiktíð verður lengi í minnum hafður, en þar tryggði Bruno Fernandes ótrúlegan sigur úr vítaspyrnu eftir að flautað hafði verið til leiksloka. Væri gaman að endurtaka einhverja svoleiðis vitleysu!

Áfram Manchester United!

 

2
Enska úrvalsdeildin

Síðasti heimaleikur tímabilsins

Daníel Smári skrifaði þann 2. maí, 2022 | Engin ummæli

Manchester United leikur sinn síðasta heimaleik í kvöld. Andstæðingurinn er Brentford og hefst leikurinn kl. 19:00. Það eru engar líkur á því að liðið hafni í Meistaradeildarsæti, en aðeins meiri líkur eru á því að liðið gæti endað í 7. sæti og þar með í Sambandsdeild Evrópu. Okkar menn sitja sem sakir standa í 6. sæti, með 55 stig en West Ham eru sæti neðar með 52 stig. Undirritaður hlakkar ekkert sérlega til þess að hlusta á Evrópudeildarlagið fyrir leiki á fimmtudögum, en ég ætli það það sé ekki skömminni skárra en að hlakka til leikja gegn liðunum sem að lentu í 9. sæti í efstu deild í Færeyjum og Finnlandi. Þetta er staðan og henni verður að taka eins og hverju öðru hundsbiti.

Við mættum Býflugunum á útivelli í janúar. Sá leikur vannst 1-3 en það er spurning hvort að sigurinn hafi verið verðskuldaður. Okkar menn áttu í vök að verjast og Thomas Frank, stjóri Brentford, sagði eftir leik að sitt lið hefði „rústað“ Manchester United. Það má liggja á milli hluta hversu sönn þau orð eru í ljósi úrslitanna, en Brentford spilaði vel og átti eitthvað skilið úr leiknum.

Liðsfréttir

Það brutust út þær fréttir í síðustu viku að Austurríska knattspyrnusambandið væri á höttunum eftir Ralf Rangnick og vildi fá hann sem næsta landsliðsþjálfara. Þær fregnir voru svo staðfestar stuttu síðar og mun hann taka við taumunum þar. Nýja starfið mun þó ekki breyta hlutverki Ralf hjá Manchester United og mun hann áfram sinna þar ráðgjafastöðu undir Erik ten Hag.

Official. Ralf Rangnick has been appointed as new Austria coach until 2024. 🇦🇹🤝 #MUFC

“I will take over as national team manager of Austria at the end of the season but will continue consultancy with Man United. I’m looking forward to helping United become a real force again”. pic.twitter.com/XGGYF8Utla

— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) April 29, 2022

Jadon Sancho er með sýkingu í hálskirtlunum og missir af leiknum. Vængmaðurinn ungi gæti verið kominn í sumarfrí vegna veikindanna og mætir staðráðinn í að standa sig betur á næstu leiktíð. Við fengum smjörþefinn af því sem að hann hefur uppá að bjóða en hann, líkt og flestir í liðinu, hefur átt erfitt updráttar. Gleðigjafinn Paul Pogba og hinn síspræki Luke Shaw eru báðir meiddir og verða ekki með í kvöld.

Edinson Cavani, Harry Maguire, Jesse Lingard og Fred gætu allir spilað, en Cavani er þó ólíklegastur. Úrúgvæinn hefur ekki spilað síðan 15. mars, þegar að liðið tapaði gegn Atletico Madrid – sælla minninga. Persónulega finnst mér að hann ætti ekki að spila oftar fyrir liðið og auðvitað er auðvelt að vera vitur eftir á, en það voru mistök að endursemja við hann.

Í liði Brentford vantar Ethan Pinnock, Saman Ghoddos, Sergi Canos og Frank Onyeka. Pinnock hefur spilað nánast alla leiki á tímabilinu og verið afar mikilvægur í vörn Brentford. Thomas Frank hafði vonast til þess að hann yrði heill fyrir leikinn, en sú virðist ekki ætla að vera raunin.

Leikurinn

Það eina sem að ég vona er að liðið leggi sig 100% fram og að þeir gefi í það minnsta áhorfendum á Old Trafford ástæðu til þess að hafa hátt og hrópa lið sitt áfram. Það hefur verið ofboðslega leiðinlegt að sjá leikmenn beinlínis gefast upp og leggja ekki nóg á sig til að vinna grunnvinnuna inni á fótboltavellinum. Sama hvað þeir segja svo í viðtölum eftir leiki. Ég er að horfa á þig, Bruno Fernandes. Vinna fyrsta og annan bolta, vera ofan á í baráttunni inni á miðjunni og þéttir til baka. Þetta eru hlutirnir sem að ég vil sjá frá United í dag. Það mætti eiginlega halda að ég væri að tala um Watford eða Norwich.

Liðið í kvöld verður líklega keimlíkt því sem að við sáum gegn Chelsea. Þar lagði ég til að Ralf myndi gefa einhverjum ungliðum tækifæri. Hann gaf Alejandro Garnacho þrjár mínútur og leyfði jafnframt hinum síungu Juan Mata og Phil Jones að spreyta sig. Mögulega fær Garnacho lengri tíma í kvöld og hugsanlega einhver liðsfélagi hans úr unglingaliðinu. Þetta er allt mögulegt og hugsanlegt.

Líklegt byrjunarlið Man Utd:

1
De Gea
27
Telles
19
Varane
2
Lindelöf
20
Dalot
17
Fred
39
McTominay
10
Rashford
18
Bruno
36
Elanga
7
Ronaldo

Brentford liðið spilar af ákefð og pressar stíft. Á því verður væntanlega engin breyting í kvöld og mögulega tvöfaldast ákefðin, svona í ljósi þess að þeir vilja hefna fyrir tapið á Brentford Community Stadium – og líka vegna þess að það er ótrúlega auðvelt að spila gegn Manchester United ef að lið bara nenna að leggja á sig smá vinnu. Hættulegustu menn liðsins eru framherjinn Ivan Toney og vængmaðurinn Bryan Mbeumo. Komist þeir mikið í boltann er voðinn vís fyrir stórkostlega vörn okkar. Brentford hefur unnið frábæra sigra gegn liðum á borð við Arsenal og Chelsea og gætu vel tekið þrjú stig í kvöld. Vonum nú ekki.

Spá

2-1 sigur. Lendum 0-1 undir, en Cristiano Ronaldo skorar tvívegis á síðustu 20 mínútunum og tryggir sigur.

Áfram Manchester United!

 

 

0
Enska úrvalsdeildin

Manchester United 1:1 Chelsea

Zunderman skrifaði þann 28. apríl, 2022 | 1 ummæli

Málshátturinn segir að „litlu verði Vöggur feginn.“ Manchester United verðskuldaði vart stig í kvöld en eftir tvö hrikalega ósigra í röð er stigið velkomið í baráttunni um að slefa inn í Evrópukeppni. Jöfnunarmarkið á líka heima í samantekt yfir það besta frá liðinu í vetur – þótt samkeppnin þar sé ekki hörð.

Embed from Getty Images

Chelsea hafði nóg pláss í aðgerðir sínar, einkum framan af leik. Marcus Rashford, sem byrjaði á hægri kanti, skilaði takmörkuðu varnarframlagi og Alex Telles hafði ekki mikla glóru um það, frekar en fyrr daginn, hvað væri að gerast annars staðar en beint fyrir framan hann. Þetta nýttu Chelsea-menn sér óspart og leituðu ítrekað að Reece James sem heita átti hægri bakvörður en var mun framar á vellinum. Að lokum var það hann sem oftast snerti boltann í leiknum.

United var mestallan leikinn í vörn. Það segir sitt að liðið átti tæplega helmingi færri sendingar en Chelsea. Í sókninni voru leikmenn staðir, biðu eftir að fá boltann í fæturna. Helst voru það Anthony Elanga og Cristiano Ronaldo sem sýndu vilja til að hlaupa inn í svæði. United náði stöku sinnum þokkalega hápressuköflum, gjarnan voru það Scott McTominay eða Elanga sem gáfu þar tóninn.

Embed from Getty Images

Bruno Ferndandes virtist uppteknari af því að segja öðrum til verka heldur en loka á sendingaleiðir Chelsea, tölti á milli manna. Hann virtist dauðuppgefinn, ekki hafa kraft í verk og rúinn sjálfstrausti þá sjaldan að hann komst í þokkalega stöðu.

Chelsea fékk nokkur ágætis færi. Kannski ekki beint dauðafæri en þeim mun fleiri. Skottilraunirnar voru 21 gegn 6 og vænt mörk 2,1 gegn 0,4. David de Gea bjargaði trúlega stiginu eftir um hálftíma leik þegar hann varði frá Kai Havertz sem kominn var einn í gegn eftir stungusendingu.

Ronaldo og Matic

Fyrsta markið kom á 60. mínútu. James sendi frá hægri inn á teiginn, þar skallaði Havertz boltann áfram til Cesar Azpilicueta sem hamraði hann viðstöðulaust niður í fjærhornið.

Forskot Chelsea entist ekki nema í þrjár mínútur. Ralf Rangnick og öðrum stuðningsmönnum til mikillar gleði tókst að setja góða pressu á Chelsea ofarlega á vellinum. Dalot vann boltann, kom honum á Matic, hans fyrsta sending náði ekki í gegn en hann fékk boltann og vippaði honum inn á Ronaldo sem kláraði færið með góðu skoti upp í nærhornið.

Embed from Getty Images

Staða Ronaldo er einkennileg. Staðreyndin er sú að hann er ásamt Son næstmarkahæstur í deildinni með 17 mörk. Af síðustu 10 mörkum United hefur Ronaldo skorað níu, aðeins jöfnunarmark Fred gegn Leicester kemst þar á milli. Samt er spurningin með hann, eins og reyndar de Gea, hvort það sem þeir gera einstaklega vel – annar að skora mörk, hinn að verja skot, sé nóg.

De Gea hefur sem kunnugt er, verið gagnrýndur fyrir að vera gamaldags og styðja ekki nógu vel með leik liðsins með að koma út úr markinu eða geta spilað boltanum. Um leik Ronaldo í kvöld er hægt að segja að hann lagði sig fram, var í skallaeinvígum og kom niður á miðju til að hjálpa til í vörn og sókn, jafnvel of oft. Á móti er augljóst á honum líkt og Sylvester Stallone í Expendables á sínum tíma að mesta snerpan og hraðinn eru farin, í kvöld sem stundum fyrr í vetur hefði fimm árum yngri Ronaldo klárað sig framhjá varnarmanni og í skotfæri í stað þess að vera stöðvaður.

Embed from Getty Images

Um Matic má segja að hann lét ekki mikið yfir sér, var nær allan tímann skammt fyrir framan vörnina og yfirferðin var ekki mikil. Hann var hins vegar sterkur í návígum og skilaði boltanum ágætlega frá sér. Þegar yfir lauk hafði United betur í návígum bæði á jörðu og í lofti, tæklingum og yfirburði; 30-13 í hreinsunum. Þar fóru fremstir auk Matic, Ronaldo, Telles og Raphael Varane. Í hálfleik var United vel undir í þessum tölfræðiþáttum, sem öðrum. Það var hins vegar eins gott að þessi atriði unnust, annars hefði getað farið verulega illa þriðja leikinn í röð.

Þolanlegur lokakafli

Chelsea skipti inn á sóknarmönnum þegar leið á og á 80. mínútu átti James skot í utanverða stöngina. Besti kafli United kom hins vegar í kjölfarið eftir að Juan Mata og Phil Jones komu inn fyrir Matic og Rashford, um leið og United skipti í 3-5-2 leikkerfi. Mata var baráttuglaður, sýndi ástríðu, fór í og vann návígi auk þess að finna opin svæði með sendingum og hlaupum. United fékk ekki teljandi færi en hélst betur á boltanum.

Embed from Getty Images

Alejandro Garnacho spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu, kom inn á í uppbótartíma en náði ekki að koma við boltann.

Efnisorð: Chelsea Cristiano Ronaldo Leikskýrsla Leikskýrslur 1
  • Go to page 1
  • Go to page 2
  • Go to page 3
  • Interim pages omitted …
  • Go to page 385
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Dór um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Tony D um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Sindri um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • Scaltastic um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United
  • SHS um Brighton & Hove Albion 4:0 Manchester United

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress