Síðan er komin upp aftur eftir tæknileg vandamál, rétt í tæka tíð til að minna á leikinn gegn Liverpool á eftir kl 16:30.
Við getum ekki beðið!!
Björn Friðgeir skrifaði þann | 10 ummæli
Síðan er komin upp aftur eftir tæknileg vandamál, rétt í tæka tíð til að minna á leikinn gegn Liverpool á eftir kl 16:30.
Við getum ekki beðið!!
Björn Friðgeir skrifaði þann | 19 ummæli
Það var ekki bara afveltan eftir ofát jólanna sem olli því að umfjöllun um fyrri hálfleik í þessum leik er engin. Einu færin í þessum hálfleik voru misgáfuleg langskot. Bæði Sá og Onana áttu eina fína vörslu hvor reyndar en annars var þetta tíðindalaust. United aðeins betri á boltanum en ósköp lítið sem kom úr því.
Það tók Bruno Fernandes hins vegar aðeins 85 sekúndur í seinni hálfleiknum til að næla sér í sitt einna gula spjald í leiknum fyrir að vera of seinn í að blokka boltann og fara í legginn á Wolves leikmanni. Klaufalegt en ekkert við þessu að segja. Úlfarnir fóru beint í sókn og skoruðu en blessunarlega var það rangstaða. En það var skammgóður vermir því Wolves tók forystuna á 59. mínútu með Ólympíumarki beint úr horni, þeirra langbesti maður Matheus Cunha tók hornið og sveiflaði boltanum í fjærhornið. Ef þið vissuð ekki hvað Ólympíumark var fyrir viku, vitið þið það núna, United búið að fá á sig tvö á átta dögum. Onana átti auðvitað að gera betur, þó að hann væri aðþrengdur af sóknarmönnum. 1-0.
Leikurinn var jafn óáhugaverður eftir þetta. Wolves drógu sig auðvitað hægt og rólega aftar og aftar á völlinn og leyfðu United að reyna að sækja, nokkuð sem virtist þeim ofviða. Loksins á áttundu mínútu af átta viðbættum mínútu missti United boltann, Cunha og Hwang Hee-chan óðu upp völlinn og Lisandro Martínez var einn til varnar. Hann reyndi að fara í Cunha sem auðvitað renndi boltanum á Hwang sem skoraði og niðurlægði United endanlega.
Það er erfitt að sjá eitthvað í þessum leik sem hægt er að taka jákvætt úr honum. Vissulega er vörnin oftast þétt en svo koma atriði eins og fyrra markið þar sem sóknarmönnum er leyft að þjarma að markverðinum án þess að hann fái neina hjálp.
United er auðvitað fullkomlega bitlaust, og það er ekki bara að Rasmus er ekki beittasti senter í heimi, hann getur lítið gert án tækifæra.
Næsti leikur er gegn Newcastle, án Bruno og Manuel Ugarte sem fékk sitt fimmta gula spjald á tíðinni og fer því í bann. Þar næst eru það Liverpool og Arsenal. Þetta verður eitthvað.
Björn Friðgeir skrifaði þann | 12 ummæli
Fyrsta kortérið í þeum leik var næsta viðburðasnautt, Amad átti eitt kot úr teignum sem Kepa tók auðveldlega og Semnyo átti sömuleiis langskot beint á Onana. Bournemouth var meira með boltann, en skapaði ekkert. Þeir presuðu hin vegar vel á United sem komust lítið áleiðis. Kortérið eftir það var svo auðveldlega svipað, lítið sem gerist, þangað til á 29. mínútu að Bournemouth fékk aukaspyrnu við hliðarlínuna hægramegin, boltanum sveiflað inn á teiginn og það var Dean Huijsen sem skallaði aftur fyrir sig og boltinn sveif í netið fjær, langt frá Onana. Zirkzee átti Huijsen en var ekki að trufla hann að ráði. Einfalt mark.
Eftir markið tók það United einhvern tíma að átta sig á að þetta gengi ekki, og loks kom að því að þeir settu smá fútt í sóknir. Fernandes var einna atkvæðamestur, átti skot úr teignum eftir að United komst þrír á tvo, en Kepa varði það í horn.
E Bournemouth fór með forystuna inn í hálfleik og Amorim skipti Leny Yoro inn áður en sá seinni hófst, Tyrell Malacia fór af velli. Sá hafði verið brothættur framan af en verið þolanlegtur í sókninni engu að síður. Þegar United sýndi litla tilburði til að setja kraft í leik sinn eftir að hálfleikurinn var farinn af stað beið Amorim ekki lengi og skellti Höjlund og Garnacho inná strax á 65. mínútu og Zirkzee og Ugarte var kippt útaf. Þetta gaf lítið og skömmu seinna gaf Mazraoui klaufalega vítaspyrnu, felldi Kluivert í stað þes að ná til boltans. Justin Kluivert tók sjálfur vítið og skoraði örugglega, og kom Bournemouth í 2-0.
Það tók svo Bournemouth aðeins tvær mínútur að komast í 3-0. Fín spilamennska sem Semenyo átti góðan þátt í, gaf á Denilson sem sendi áfram upp kantinn á Quattara, sá lék upp með teig, og inn í teiginn, Semenyo var lítt valdaður á vítapunktinum og skoraði örugglega. Vörn United alveg úti að aka þarna. Rétt eftir þetta átti Garnacho möguleika að krafsa í bakkann, komst innfyrir en lét Kepa verja frá sér. Loksins var United aðeins að rumska. Höjlund átti skot sem Kepa varði í horn en leikurinn leið hægt og hljóðlega eftir þetta. United reyndi alls konar en ekkert gekk og öruggur sigur Bournemouth í höfn.
Við höfum séð batamerki í sumum leikjum síðan Amorim tók við en í þessum var allt gamla ruglið í gangi. Vörnin brothættari en laufabrauð, miðjan ósýnileg og Joshua Zirkzee, segjum minna en ekkert um hann.
Verkefnið er risastórt, og verður líklega og því miður bara leyst með leikmannakaupum. Sem hafa augljóslega gengið svona líka glimrandi vel síðustu 11 árinu.
Zunderman skrifaði þann | Engin ummæli
Hefð er fyrir að spila þétt í ensku úrvalsdeildinni um jól og áramót, enda fótboltinn lengi helsta afþreying vinnandi fólks í Englandi. Jólatörn Manchester United byrjar á Bournemouth á morgun. Það er hins vegar lítil breyting fyrir lið sem undanfarinn mánuð hefur, eins og oftast, spilað tvo leiki á viku.
Eftir Bournemouth á United leik gegn Úlfunum á öðrum degi jóla og síðan gegn Newcastle þann 30. desember en síðan kemur frí í tæpa viku fyrir heimsókn til Liverpool.
Þegar leikið er þétt skiptir máli að skipta út leikmönnum til að halda þeim ferskum og forðast meiðsli. Ruben Amorim hefur verið óhræddur við það síðan hann tók við liðinu fyrir mánuði og trúlega gert það betur en margir aðrir forverar hans. Út frá því er erfitt að giska á byrjunarliðið, nema að Amad Diallo er orðinn eins og malt og appelsín á jólum – ómissandi.
United hefur séð það svartara í meiðslum. Masoun Mount þurfti þó að fara út af snemma gegn Manchester City fyrir viku og fréttirnar af honum eru ekki góðar, fjarvera í nokkrar vikur. Það gæti opnað pláss í hópnum fyrir Marcus Rashford, sem settur var í skammarkrókinn í síðustu viku. Ef hann verður áfram utan hóps hefur hann trúlega leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Í vörninni eru brestir. Victor Lindelöf fór út af meiddur í hálfleik gegn Tottenham á fimmtudag og Luke Shaw er meiddur. Mathijs de Ligt var veikur í vikunni og Harry Maguire fer í leikbann við næsta gula spjald. Vörnin velur sig því nokkurn vegin sjálf.
United er fyrir leikinn í 13. sæti með 22 stig en Bournemouth í því sjötta með 25 stig. Sigurinn gegn City fyrir viku skilaði United ekki upp um sæti, en færði það nær þéttum pakka því sex stig eru upp í fjórða sætið. Góð jólavertíð gæti því bætt stöðuna í deildinni verulega. Sigur gegn Bournemouth myndi til dæmis senda United upp fyrir liðið af suðurströndinni.
Hjá gestunum er það að frétta að Alex Scott, Julian Araujo, Luis Sinsterra, Marcos Senesi og Marcus Tavernier glíma við meiðsli og verða varla með.
Leikurinn hefst á morgun klukkan 14:00. Leikið er á Old Trafford.
Zunderman skrifaði þann | Engin ummæli
Manchester United heimsækir Tottenham í fjórðungsúrslitum ensku deildarbikarkeppninnar í kvöld. Bæði lið fögnuðu frábærum en ólíkum sigrum í deildinni á sunnudag. Umræðan hjá United hefur í vikunni þó mest snúist um framtíð Marcus Rashford.
Eftir mánuð í starfi hefur Ruben Amorim ákveðið að taka sinn fyrsta stórslag. Marcus Rashford og Alejandro Garnacho voru báðir settir út úr hópnum gegn Manchester City á sunnudag. Báðir geta státað af mörkum og stoðsendingum á tímabilinu, en ekki endilega liðsframlagi en milli línanna mátti lesa gagnrýni á áhrif þeirra inni í hópnum og frammistöðu á æfingum.
Garnacho var í hópnum sem fór til Lundúna í gær og hefur borið harm sinn, enn sem komið er, í hljóði. En þar var enginn Rashford. Veikindi eru sögð hafa átt sinn þátt í að hann var ekki með gegn City, hann æfði ekki daginn fyrir leik en gerði það hins vegar á leikdegi.
En það eru vísbendingar um að vík hafi myndast milli vina. Áreiðanlegir miðlar hafa sagt frá því að United sé tilbúið að selja Rashford strax í janúar. Undanfarin misseri hafa þeir sagt frá því undir rós að ekki væri allt eins og það ætti að vera hjá Rashford. Markaþurrðin í fyrra gaf það líka til kynna.
Opinberu voru fréttirnar af djammi, sem hann var bekkjaður fyrir. En á móti var bent á að leikmenn áður fyrr hefðu gert verri hluti án þess að það væri á allra vörum en gat líka bent til að hann væri uppteknari af öðrum hlutum en brauðstritinu. Í öðrum fréttum var tekið fram að Rashford bæri mjög á sér tapleiki á æfingum. Það má túlka sem metnaðargirni eða að hann væri fúllyndur. Eins kom fram að Rashford hefði oftar en einu sinni skipt um talsmann.
Í það minnsta er á hreinu að Rashford hefur ekkert gert til að réttlæta risasamninginn sem hann fékk sumarið 2023. Þegar leið á síðasta vetur myndaðist sú tilfinning að nýtt félag og umhverfi gæti gert bæði honum og United gott.
Það hefði verið hægt að sópa ýmsu undir teppið eftir síðustu helgi ef Rashford sjálfur hefði ekki drifið sig í viðtal hjá Henry Winter. Winter var áður yfirmaður knattspyrnuskrifa hjá einu stórblaðanna, Daily Telegraph, en lenti í niðurskurði í fyrravor. Hann hefur síðan starfað sjálfstætt. Það endurspeglar furðulega stöðu, jafnvel örvæntingu, að Rashford hafi farið beint í viðtal hjá honum, þar sem hann sagðist vera tilbúinn að skoða ný verkefni. Viðtal sem félagið vissi ekki af fyrr en stuttu áður en það birtist, sem er ekki venjan. Það segir líka beint út að Rashford hafi tekið því virkilega illa að vera settur út úr hóp og hringt strax í umboðsmanninn með skipun um að finna honum nýtt lið.
Það væri ekkert mál ef hann hefði spilað vel undanfarið ár. En það er alls ekki staðan. Evrópsku stórliðin hafa ýmist ekki áhuga eða ekki efni á honum, hvorki laununum eða líklegu kaupverði. Lausnirnar gætu verið Sádi-Arabía eða Bandaríkin, sem væri stórt skref niður fyrir 27 ára gamla enska stjörnu. Til að bæta gráu ofan á svart sagði The Athletic í gær að Sádunum þætti Rashford ekki nógu góður. En það eru til fleiri lið til dæmis Chelsea.
Það virðist því fokið í flest skjól. Í fljótu bragði virðist Rashford ekki eiga leið en bíta í það súra, að reyna að hlýða Amorim og leggja sig fram á vellinum – fái hann á annað borð tækifæri til þess. Hinn kosturinn er að vera áfram í fýlu með mögulega stigvaxandi refsingum, á borð við að vera látinn æfa einn úti í horni. Stuðningsmenn United eru tilbúnir að elska hann sem Manchester-strákinn, en þeir álíta hann ekki stærri en liðið eða nýja þjálfarann eftir frammistöðu síðustu 18 mánaða.
Í öðrum fréttum þá er Mason Mount meiddur. Hann átti að fara í skoðun í gær til að meta alvarleikann þannig í kvöld gæti verið opinberað hve lengi hann verði frá. Noussair Mazroui meiddist líka gegn City og er tæpur. Luke Shaw er áfram frá.
United vann City á borgarleikvanginum á sunnudag 1-2, með mörkum sem Amad Diallo skóp. Aðrar fréttir vikunnar hafa snúist um miklar framfarir Amads og hvernig Rashford og Garnacho geti tekið hann sér til fyrirmyndar.
Deildarbikarinn hefur oft verið nýttur til að hvíla leikmenn og gefa öðrum tækifæri. Amorim hefur verið duglegur við að hreyfa liðið til þessa og spurningin er hvað hann gerir í kvöld. Þannig hefur Altay Bayindir verið í markinu í báðum deildarbikarleikjunum í haust. En Amorim gæti líka lagt allt í deildarbikarinn í von um titilinn, eins og forverar hans gerðu.
Eftir erfiðar vikur snérist gæfan Tottenham í hag á sunnudag þegar liðið burstaði Southampton 5-0. Það kostaði stjóra Southampton vinnuna. Bakvörðurinn Destiny Udogie meiddist í leiknum og er tæpur. Spurs hefur verið í vandræðum með vörnina því þeir Ben David, Cristian Romero, Micky van de Ven eru meiddir, sem og markvörðurinn Guglielmo Vicario. Sóknarmennirnir Mikey Moore, Wilson Odobert og Richarlson eru líka frá. Yves Bissouma hefur afplánað leikbann en Rodrigo Betancur er í banni.
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!