Ruud van Nistelrooy verður aðalþjálfari Manchester United í fyrsta – og trúlega eina – skiptið þegar liðið tekur á móti Leicester í deildarbikarnum annað kvöld.
Eftir langa þrautagöngu ákváðu stjórnendur United að fullreynt væri með Erik ten Hag og honum var sagt upp störfum í gærmorgun. Strax var ákveðið að Ruud myndi stýra liðinu á meðan nýr þjálfari yrði fundinn. Það virðist hafa gengið hratt og Ruben Amorim gæti jafnvel verið tekinn við fyrir helgi.
En fyrst er það leikurinn á morgun. Það er sérstök staða að Erik ten Hag hafi, eftir tapið gegn West Ham á sunnudag, haldið blaðamannafund um leikinn gegn Leicester. Við slíkar kringumstæður mega miðlar ekki birta ummælin í ákveðinn tíma.
Sá frestur rann út á hádegi í dag – og þá var ten Hag farinn – sem þýðir að fæstir miðlar hafa kosið að birta nokkuð frá fundinum. Nokkrir molar hafa lekið út, til viðbótar við tugguna um „við verðum að gera betur“ hljómaði leiðinlega kunnuglegt stef um að bataferli Luke Shaw „gengi ekki eins og ætlað var.“
Noussair Mazraoui mun hafa meiðst á hné um helgina. Mason Mount og Tyrrell Malacia hafa verið við einhverjar æfingar. Indælt væri að sjá þá aftur í hóp. Lengra er í Kobbie Mainoo, Harry Maguire og Leny Yoro en Antony er ekki stóra áhyggjuefnið.
Ólíklegt er að Ruud geri miklar breytingar, aðrar en bregðast við meiðslum. Helst er spurning hvort hann velji liðið út frá því að gefa leikmönnum sem sjaldnar spila færi, til dæmis Altay Bayindir eða ungum mönnum á borð við Harry Amass eða Toby Collyer.
Sennilegast er að leikurinn sjálfur hverfi í skuggann af stjóraskiptunum. Tímaspursmál virðist hvenær Amorim taki við, staðfesting á komu hans gæti legið fyrir eftir leik, jafnvel strax í kvöld því lið hans Sporting Lissabon er að spila deildarleik.
Augun verða eflaust líka á Ruud. Hann heldur sennilega blaðamannafund þar sem hann verður örugglega spurður út í brottrekstur ten Hag og tilkomu Amorims. Eins og aðrir aðalþjálfarar í dag kemur sá portúgalski trúlega með eigið þjálfarateymi og óvíst er að nokkurt pláss verði þar fyrir van Nistelrooy. Sama hvað stuðningsmönnum United, þungt haldnir af nostalgíu Ferguson-tímans, vilja.
Þeir vonast alltént eftir sigri. Það er eina leið til að byggja upp það sjálfstraust sem liðið sannarlega þarfnast. Og væntanlega vill nýr þjálfari fá fleiri leiki en færri, sérstaklega þegar þeir fela í sér tækifæri til að vinna bikar.
Leikurinn hefst klukkan 19:45.