
Það var ekki bara afveltan eftir ofát jólanna sem olli því að umfjöllun um fyrri hálfleik í þessum leik er engin. Einu færin í þessum hálfleik voru misgáfuleg langskot. Bæði Sá og Onana áttu eina fína vörslu hvor reyndar en annars var þetta tíðindalaust. United aðeins betri á boltanum en ósköp lítið sem kom úr því.
Það tók Bruno Fernandes hins vegar aðeins 85 sekúndur í seinni hálfleiknum til að næla sér í sitt einna gula spjald í leiknum fyrir að vera of seinn í að blokka boltann og fara í legginn á Wolves leikmanni. Klaufalegt en ekkert við þessu að segja. Úlfarnir fóru beint í sókn og skoruðu en blessunarlega var það rangstaða. En það var skammgóður vermir því Wolves tók forystuna á 59. mínútu með Ólympíumarki beint úr horni, þeirra langbesti maður Matheus Cunha tók hornið og sveiflaði boltanum í fjærhornið. Ef þið vissuð ekki hvað Ólympíumark var fyrir viku, vitið þið það núna, United búið að fá á sig tvö á átta dögum. Onana átti auðvitað að gera betur, þó að hann væri aðþrengdur af sóknarmönnum. 1-0.
Leikurinn var jafn óáhugaverður eftir þetta. Wolves drógu sig auðvitað hægt og rólega aftar og aftar á völlinn og leyfðu United að reyna að sækja, nokkuð sem virtist þeim ofviða. Loksins á áttundu mínútu af átta viðbættum mínútu missti United boltann, Cunha og Hwang Hee-chan óðu upp völlinn og Lisandro Martínez var einn til varnar. Hann reyndi að fara í Cunha sem auðvitað renndi boltanum á Hwang sem skoraði og niðurlægði United endanlega.
Það er erfitt að sjá eitthvað í þessum leik sem hægt er að taka jákvætt úr honum. Vissulega er vörnin oftast þétt en svo koma atriði eins og fyrra markið þar sem sóknarmönnum er leyft að þjarma að markverðinum án þess að hann fái neina hjálp.
United er auðvitað fullkomlega bitlaust, og það er ekki bara að Rasmus er ekki beittasti senter í heimi, hann getur lítið gert án tækifæra.
Næsti leikur er gegn Newcastle, án Bruno og Manuel Ugarte sem fékk sitt fimmta gula spjald á tíðinni og fer því í bann. Þar næst eru það Liverpool og Arsenal. Þetta verður eitthvað.