• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Manchester United 1:1 Chelsea

Zunderman skrifaði þann 28. apríl, 2022 | 1 ummæli

Málshátturinn segir að „litlu verði Vöggur feginn.“ Manchester United verðskuldaði vart stig í kvöld en eftir tvö hrikalega ósigra í röð er stigið velkomið í baráttunni um að slefa inn í Evrópukeppni. Jöfnunarmarkið á líka heima í samantekt yfir það besta frá liðinu í vetur – þótt samkeppnin þar sé ekki hörð.

Embed from Getty Images

Chelsea hafði nóg pláss í aðgerðir sínar, einkum framan af leik. Marcus Rashford, sem byrjaði á hægri kanti, skilaði takmörkuðu varnarframlagi og Alex Telles hafði ekki mikla glóru um það, frekar en fyrr daginn, hvað væri að gerast annars staðar en beint fyrir framan hann. Þetta nýttu Chelsea-menn sér óspart og leituðu ítrekað að Reece James sem heita átti hægri bakvörður en var mun framar á vellinum. Að lokum var það hann sem oftast snerti boltann í leiknum.

United var mestallan leikinn í vörn. Það segir sitt að liðið átti tæplega helmingi færri sendingar en Chelsea. Í sókninni voru leikmenn staðir, biðu eftir að fá boltann í fæturna. Helst voru það Anthony Elanga og Cristiano Ronaldo sem sýndu vilja til að hlaupa inn í svæði. United náði stöku sinnum þokkalega hápressuköflum, gjarnan voru það Scott McTominay eða Elanga sem gáfu þar tóninn.

Embed from Getty Images

Bruno Ferndandes virtist uppteknari af því að segja öðrum til verka heldur en loka á sendingaleiðir Chelsea, tölti á milli manna. Hann virtist dauðuppgefinn, ekki hafa kraft í verk og rúinn sjálfstrausti þá sjaldan að hann komst í þokkalega stöðu.

Chelsea fékk nokkur ágætis færi. Kannski ekki beint dauðafæri en þeim mun fleiri. Skottilraunirnar voru 21 gegn 6 og vænt mörk 2,1 gegn 0,4. David de Gea bjargaði trúlega stiginu eftir um hálftíma leik þegar hann varði frá Kai Havertz sem kominn var einn í gegn eftir stungusendingu.

Ronaldo og Matic

Fyrsta markið kom á 60. mínútu. James sendi frá hægri inn á teiginn, þar skallaði Havertz boltann áfram til Cesar Azpilicueta sem hamraði hann viðstöðulaust niður í fjærhornið.

Forskot Chelsea entist ekki nema í þrjár mínútur. Ralf Rangnick og öðrum stuðningsmönnum til mikillar gleði tókst að setja góða pressu á Chelsea ofarlega á vellinum. Dalot vann boltann, kom honum á Matic, hans fyrsta sending náði ekki í gegn en hann fékk boltann og vippaði honum inn á Ronaldo sem kláraði færið með góðu skoti upp í nærhornið.

Embed from Getty Images

Staða Ronaldo er einkennileg. Staðreyndin er sú að hann er ásamt Son næstmarkahæstur í deildinni með 17 mörk. Af síðustu 10 mörkum United hefur Ronaldo skorað níu, aðeins jöfnunarmark Fred gegn Leicester kemst þar á milli. Samt er spurningin með hann, eins og reyndar de Gea, hvort það sem þeir gera einstaklega vel – annar að skora mörk, hinn að verja skot, sé nóg.

De Gea hefur sem kunnugt er, verið gagnrýndur fyrir að vera gamaldags og styðja ekki nógu vel með leik liðsins með að koma út úr markinu eða geta spilað boltanum. Um leik Ronaldo í kvöld er hægt að segja að hann lagði sig fram, var í skallaeinvígum og kom niður á miðju til að hjálpa til í vörn og sókn, jafnvel of oft. Á móti er augljóst á honum líkt og Sylvester Stallone í Expendables á sínum tíma að mesta snerpan og hraðinn eru farin, í kvöld sem stundum fyrr í vetur hefði fimm árum yngri Ronaldo klárað sig framhjá varnarmanni og í skotfæri í stað þess að vera stöðvaður.

Embed from Getty Images

Um Matic má segja að hann lét ekki mikið yfir sér, var nær allan tímann skammt fyrir framan vörnina og yfirferðin var ekki mikil. Hann var hins vegar sterkur í návígum og skilaði boltanum ágætlega frá sér. Þegar yfir lauk hafði United betur í návígum bæði á jörðu og í lofti, tæklingum og yfirburði; 30-13 í hreinsunum. Þar fóru fremstir auk Matic, Ronaldo, Telles og Raphael Varane. Í hálfleik var United vel undir í þessum tölfræðiþáttum, sem öðrum. Það var hins vegar eins gott að þessi atriði unnust, annars hefði getað farið verulega illa þriðja leikinn í röð.

Þolanlegur lokakafli

Chelsea skipti inn á sóknarmönnum þegar leið á og á 80. mínútu átti James skot í utanverða stöngina. Besti kafli United kom hins vegar í kjölfarið eftir að Juan Mata og Phil Jones komu inn fyrir Matic og Rashford, um leið og United skipti í 3-5-2 leikkerfi. Mata var baráttuglaður, sýndi ástríðu, fór í og vann návígi auk þess að finna opin svæði með sendingum og hlaupum. United fékk ekki teljandi færi en hélst betur á boltanum.

Embed from Getty Images

Alejandro Garnacho spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu, kom inn á í uppbótartíma en náði ekki að koma við boltann.

Efnisorð: Chelsea Cristiano Ronaldo Leikskýrsla Leikskýrslur 1
Enska úrvalsdeildin

Chelsea kemur í heimsókn

Daníel Smári skrifaði þann 27. apríl, 2022 | 2 ummæli

Jæja! United fær tækifæri til að svara fyrir ófarirnar á Emirates og verkefnið gæti orðið býsna strembið. Á morgun, fimmtudag, mæta Evrópumeistarar Chelsea í heimsókn á Old Trafford. Leikurinn hefst kl. 18:45. Formið hjá bláliðum Thomas Tuchel hefur verið fínt, en tap gegn Arsenal hefur sennilega sviðið sárt. Við eigum það að minnsta kosti sameiginlegt. Þá datt liðið úr Meistaradeildinni eftir frábært einvígi gegn Real Madrid, þar sem að Karim Benzema reyndist munurinn á liðunum. Fæst orð bera minnsta ábyrgð hvað okkar form varðar.

Líkt og Arsenal og Manchester United voru toppliðin og stærstu leikirnir í kringum aldamótin að þá kom Chelsea eins og stormsveipur í toppbaráttuna þegar að Rússinn Roman Abramovich keypti félagið árið 2003. Á Jose Mourinho tímanum velti undirritaður því fyrir sér hvort að við myndum þurfa að horfa uppá Chelsea lyfta dollunni næstu 10 árin, en Sir Alex Ferguson var ofboðslega fljótur að klippa á hnútinn og úr varð virkilega spennandi og skemmtilegur rígur tveggja frábærra liða. Þó að liðin ættu eftir að etja oftar kappi eftir það að þá náði rígurinn augljóslega hámarki þegar að liðin mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008. Það er af sem áður var…

Liðsfréttir

Talsvert er um meiðsli í leikmannahópi United um þessar mundir. Það kemur lesendum líklega gríðarlega á óvart að Edinson Cavani er ekki heill heilsu, en ásamt honum eru Fred, Harry Maguire, Jadon Sancho, Luke Shaw, Aaron Wan-Bissaka og hinn sívinsæli Paul Pogba allir á meiðslalistanum. Ralf minntist á það á blaðamannafundi fyrir Arsenal leikinn að Pogba myndi líklega ekki spila aftur á tímabilinu og því er þrælöruggt að gera ráð fyrir því að ferli hans hjá Manchester United sé lokið – í annað sinn. Dýrt spaug.

Ralf talaði um að mögulega yrði einhverjum af yngri leikmönnum liðsins gefið tækifæri. Hann nefndi þar til dæmis Hannibal Mejbri til sögunnar, en sagði að mikilvægt væri að henda kjúklingunum ekki of snemma í djúpu laugina og að augnablikið þurfi að vera rétt. En miðað við lengd meiðslalistans að þá fáum við að sjá nokkra á bekknum, í það minnsta.

Rangnick: "Right now, it seems we have 14 in our professional team without the youngsters that are available and probably three or four of those young players will be part of the squad." #mulive

— utdreport (@utdreport) April 27, 2022

Gestirnir eru ekki í jafn miklum meiðslavandræðum. Vinstri bakvörðurinn Ben Chilwell er frá út tímabilið og Callum Hudson-Odoi og Mateo Kovacic verða ekki með. Hægri bakvörðurinn Reece James hefur náð sér af meiðslum og Andreas Christensen var með niðurgang, sem að Daninn hefur vonandi jafnað sig á. Þá er miðvörðurinn Antonio Rudiger byrjaður að æfa aftur, en er þó spurningamerki fyrir morgundaginn.

Við hverju má búast?

Ég hef ekki beinlínis verið rödd bjartsýninnar í upphitunum mínum undanfarið og liðið hefur svosem ekki beinlínis gefið manni ástæðu til þess að breyta þeim stíl. Þó að Meistaradeildarsætið sé nokkurnveginn geirneglt hjá gestunum og svo gott sem úr sögunni hjá okkur, þá tel ég að Chelsea muni pressa okkur stíft og koma okkur í allskonar vandræði. Chelsea kaffærði Real Madrid í pressu oft á tíðum, en undanfarið hefur liðið þó verið að leka fleiri mörkum en venjulegt þykir undir Tuchel.

Þetta myndi kannski gefa öðrum liðum byr undir báða vængi, en okkar menn eru vægast sagt vængstífðir og ekki líklegir til þess að nýta sér það. Ég gef leikmönnum það að færasköpun var með talsvert betra móti gegn Arsenal en hún hafði verið í langan tíma fyrir heimsóknina á Emirates. Vörnin heldur þó áfram að vera spaugileg og þarf alvöru uppstokkun í sumar.

Eins og áður segir að þá er liðið án nokkurra aðalliðsmanna. Hversu slæmt það er… hreinlega veit ég ekki. Það er varasamt að henda of mörgum krökkum í byrjunarliðið gegn góðu liði eins og Chelsea, en að sama skapi myndum við kannski sjá sómasamlegar hlaupatölur og vilja til þess að gera vel fyrir aðdáendur og klúbbinn. Miðað við ummæli á blaðamannafundi dagsins mun Ralf reyna að takmarka eins og hann getur fjölda unglingaliðsleikmanna í byrjunarliðinu.

Líklegt byrjunarlið Man Utd:

1
De Gea
27
Telles
19
Varane
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
39
McTominay
31
Matic
10
Rashford
18
Bruno
36
Elanga
7
Ronaldo

Spá

Við töpum þessum leik nokkuð sannfærandi 1-3. Chelsea komast í 0-3 áður en að Ronaldo klórar í bakkann fyrir okkur úr vítaspyrnu. Sokkið mig endilega, kæru leikmenn.

Áfram Manchester United!

 

2
Enska úrvalsdeildin

Arsenal 3:1 Man Utd

Daníel Smári skrifaði þann 23. apríl, 2022 | 4 ummæli

Manchester United liðið fer tómhent frá London í dag. 3-1 tap niðurstaðan í leik sem að þurfti alls ekki að tapast. Öfugt við undanfarna leiki þá náði liðið að skapa sér talsvert af marktækifærum, en allt kom fyrir ekki. Dómgæslan í leiknum var ekki uppá marga fiska og stóru augnablikin féllu okkur ekki í vil, hvort sem að það var okkur að þakka eða flautugerpinu.

Just like United most weeks, this ref gets paid to be absolutely APPALLING at his job. Sound 👌

— Scott Patterson (@R_o_M) April 23, 2022

Svona stillti Manchester United upp:

1
De Gea
27
Telles
19
Varane
2
Lindelöf
20
Dalot
31
Matic
39
McTominay
25
Sancho
18
Bruno
36
Elanga
7
Ronaldo

Bekkur: Henderson, Bailly, Jones, Maguire, Wan-Bissaka, Lingard, Garnacho, Rashford, Mata

Leikurinn

Leikurinn var ekki gamall þegar að fyrsta kómedía Manchester United leit dagsins ljós. Fyrirgjöf frá vinstri kantinum rataði fyrst við fætur Raphael Varane, en Frakkinn hitti boltann afleitlega og hann barst því til Alex Telles. Telles leit verr út ef eitthvað var og hitti boltann bara alls ekki, sem varð til þess að tuðran endaði hjá Bukayo Saka. Englendingurinn klippti á vinstri löppina og þrumaði á mark United. David de Gea varði vel til hliðar, en gat ekki reiknað með því að Diogo Dalot myndi sleppa því að fylgja Nuno Tavares inn í teiginn, svo að eftirleikurinn var auðveldur fyrir Tavares. Hann fylgdi eftir skoti Saka og setti boltann í opið markið. 1-0 eftir 3 mínútur. Flott er.

Næstu mínútur létu Arsenal boltann ganga óáreittir sín á milli án þess að skapa sér nokkuð. Á 10. mínútu átti Aaron Ramsdale afleita sendingu inn á miðjan vallarhelming Arsenal. Scott McTominay hirti boltann og kom honum á Bruno Fernandes. Portúgalinn var nokkuð lengi að athafna sig í ágætis færi og miðvörðurinn Gabriel blokkaði skot hans. Bruno virtist einhvernveginn aldrei hafa trú á því að hann gæti gert sér mat úr þessu fína tækifæri. Stuttu síðar féll Anthony Elanga í vítateig heimamanna eftir baráttu við Nuno Tavares, en Craig Pawson sá ekki ástæðu til þess að benda á punktinn.

Á þessum tímapunkti voru United búnir að vinna sig inn í leikinn og töldu sig eiga að fá aðra vítaspyrnu um miðbik fyrri hálfleiks. Þá tók Jadon Sancho Cedric Soares á og varnarmaðurinn féll við. Í leiðinni sópaði hann boltanum undan löppum Sancho með höndunum. Sancho brást eðlilega ókvæða við og heimtaði víti, rétt eins og restin af liði United gerði. Pawson hélt nú ekki. Stuttu áður hafði Diogo Dalot átt skot í þverslánna.

The most obvious penalty VAR will ever review and they refused to give it. Ridiculous decision pic.twitter.com/wDzcfubAoZ

— Sam Pilger (@sampilger) April 23, 2022

Litlu síðar var farsinn svo endanlega fullkomnaður. Snyrtilegt spil Arsenal við vítateig United endaði með því að Telles og Saka féllu í teignum, en Eddie Nketiah var mættur til að þruma boltanum inn. Nketiah var þó dæmdur rangstæður og United þá mögulega hólpið. Eða hvað? Nei, Craig Pawson ákvað að líta á VAR-skjáinn og komst að þeirri niðurstöðu að Telles hefði brotið á Saka og því vítaspyrna dæmd. Úr vítinu skoraði svo Saka sjálfur og staðan orðin 2-0.

Þetta rotaði þó ekki United sem að svaraði strax. Nemanja Matic átti glimrandi góða fyrirgjöf sem að rataði til Cristiano Ronaldo. Ronaldo kláraði færið örugglega og fagnaði með því að benda til himins, til minningar um son sinn sem að lést við fæðingu. Markið var hans hundraðasta í Úrvalsdeildinni, en það fyrsta kom gegn Portsmouth þann 1. nóvember 2003. Það sem eftir lifði hálfleiks virtist Arsenal liðið líklegra til að bæta við, en United að jafna en staðan í hálfleik var 2-1.

💯 @PremierLeague goals for @Cristiano!#MUFC | #ARSMUN pic.twitter.com/MnzqSjtmSd

— Manchester United (@ManUtd) April 23, 2022

United tók öll völd í seinni hálfleik. Og eftir 10 mínútna leik þá fengu okkar menn loks víti. Nuno Tavares setti handlegginn langt út í loftið og Nemanja Matic skallaði boltann beint í hann. Það virtist algjörlega borðleggjandi að Ronaldo færi á punktinn og gripi tækifærið til þess að jafna metin. Nei, þess í stað var það Bruno Fernandes, sem að hefur átt gríðarlega erfitt uppdráttar undanfarna mánuði og í raun ekki verið annað en skugginn af sjálfum sér. Kannski yrði þetta augnablikið til þess að vakna úr dáinu. Portúgalinn setti vítið í stöng og Arsenal menn fögnuðu ákaft.

Áfram hélt sókn United. Ramsdale varði ágætlega frá Elanga úr þröngu færi og Ronaldo skoraði mark sem að var afar tæplega dæmt af vegna rangstöðu. Þá skaut Diogo Dalot í stöngina og í fyrsta sinn í langan tíma þá gat maður sagt að United væri í raun að spila ágætis fótbolta. Á 70. mínútu var hins vegar leik lokið. Þá fékk Bruno Fernandes boltann fyrir framan teig United, en var algjörlega sofandi og Mohamed Elneny hirti af honum boltann og lagði hann fyrir Granit Xhaka. Svisslendingurinn þrumaði boltanum í bláhornið og David de Gea kom engum vörnum við. Það spilaði líklega smá part að Nketiah var í sjónlínu Spánverjans og þar að auki rangstæður – en sá dómur var ekki að fara að falla með okkur frekar en flestir í þessum leik.

Eftir þetta varð sigurinn formsatriði fyrir Arsenal. Það virtist allur vindur úr United, sem að höfðu spilað vel í síðari hálfleik en ekki átt erindi sem erfiði. Ekki er hægt að segja að tímabilið kristallist í þessari frammistöðu þar sem að undanfarið hefur liðið varla náð að skapa sér færi. 3-1 niðurstaðan og Meistaradeildin er úr sögunni, þó að það sé enn einhver tölfræðilegur séns.

4 – Manchester United have lost four consecutive away league games for the first time since a run of six between December 1980 and March 1981. Sickness. #ARSMUN

— OptaJoe (@OptaJoe) April 23, 2022

Framhaldið

Það er bara næsti leikur og svo næsti eftir það o.s.frv. Erik ten Hag er væntanlegur og maður bindur vonir við að það verði lagleg sumarhreingerning á Old Trafford. Ég fæ heilablóðfall ef að ég þarf að sjá suma af þessum leikmönnum mikið oftar. Við komumst bara í gegnum þetta saman og fáum svo vonandi að fagna saman í framtíðinni. Líklega ekki á næsta tímabili, en kannski tímabilið eftir það? Skulum allavega passa okkur á gamla Liverpool frasanum!

Áfram Manchester United

4
Enska úrvalsdeildin

Rauðu Djöflarnir mæta Skyttunum

Daníel Smári skrifaði þann 22. apríl, 2022 | Engin ummæli

Arsenal gegn Manchester United. Í kringum aldamótin var þetta leikurinn. Wenger gegn Ferguson. Keane gegn Vieira. Tvö langbestu lið Englands að etja kappi. Umræðan fyrir viðureignir þessara liða í kringum aldamótin var eins og fyrir þungavigtarbardaga í hnefaleikum. Pressan át upp öll skot og ummæli sem að hægt var að snúa útúr, eins og það þyrfti að kasta meiri olíu á eldinn. Á leikdag gerðist svo yfirleitt eitthvað sem að mátti kjamsa á – stundum bókstaflega! Það er skemmst frá því að segja að sú er ekki raunin í dag. Liðin hafa í besta falli verið sæmileg undanfarin misseri og heyja nú stórundarlega baráttu um þetta eftirsótta 4. sæti – ásamt Tottenham og West Ham. Þar standa Norður-Lundúnaliðin, Spurs og Arsenal, betur að vígi en Man Utd og West Ham.

Manchester United mætir Arsenal á Emirates vellinum á morgun, laugardag. Hefst skemmtunin kl. 11:30 og því hafa langþreyttir aðdáendur afsökun til að leita í kaldan drykk snemma. Liðin mættust í desember 2021 á Old Trafford og þar hafði United 3-2 sigur, í síðasta leik Michael Carrick sem knattspyrnustjóri liðsins. Þar skoruðu Bruno Fernandes og Cristiano Ronaldo (2) mörk United, en Emile Smith-Rowe og Martin Ödegaard mörk gestanna. Núverandi stjóri okkar, Ralf Rangnick, fylgdist með leiknum úr stúkunni og hugsaði máske með sér að kannski þyrfti ekki að breyta svo miklu…

Nýr stjóri – nýtt lið?

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá nokkrum að nýr þjálfari tekur við taumunum hjá United í sumar. Manchester United tilkynnti í gær að Erik ten Hag, núverandi stjóri AFC Ajax, myndi taka við sem knattspyrnustjóri á Old Trafford í sumar. Þar fer Gunnar Gunnarsson, eða Zunderman, yfir feril og ferðalög Ten Hag og hvað hefur leitt Hollendinginn til Manchester.

New beginnings.

🔴⚪⚫ x 🔴⚪🔵#MUFC || #WelcomeErik pic.twitter.com/hXSP3XQnAy

— Manchester United (@ManUtd) April 21, 2022

Ten Hag veit að breytingar eru í vændum. Nokkuð stór hluti hópsins mun yfirgefa félagið í lok tímabils og verður nokkuð spennandi að sjá hvernig sumarglugginn verður hjá United.

Í einum potti ertu með þá sem að hafa ekki endurnýjað samninga sína. Paul Pogba, Jesse Lingard, Nemanja Matic, Juan Mata, Edinson Cavani, Lee Grant eru allir að klára samninga sína í vor og það er afar ólíklegt að endursamið verði við nokkurn þeirra. Vill það einhver stuðningsmaður? Burt, burt, burt.

Hverja ætti liðið svo að selja? Alla segja sumir. Það gerist víst aldrei. Alex Telles, Aaron Wan-Bissaka, Eric Bailly, Phil Jones og Anthony Martial (já, hann er enn til) eru allir á hættusvæði. Ég er ekki forseti aðdáendafélags Harry Maguire, en mér finnst ólíklegt að hann verði látinn fara. Fyrirliðinn varð fyrir því áfalli að fá senda sprengjuhótun og það þarf ekki að orðlengja um hversu ömurlegt það er.

Rangnick is preparing to take Harry Maguire out of #mufc's starting lineup to face Arsenal tomorrow #mulive [@lauriewhitwell]

— utdreport (@utdreport) April 22, 2022

Svo er það stóra spurningin hversu margir verða fengnir inn. Ralf Rangnick sagði eftir tapleikinn gegn Liverpool að jafnvel TÍU leikmenn yrðu fengnir til félagsins. Hvort að sú verði raunin skal ósagt látið, en það er vitað að einhverjir þurfa að koma í staðinn fyrir þá sem að yfirgefa klúbbinn. Undirrituðum finnst þurfa að styrkja nær allar stöður, þó að mest liggi á því að miðsvæðið sé uppfært. Það er með hreinum ólíkindum hversu illa hefur verið keypt þar inn á síðustu árum, enda töpum við miðjubaráttunni nánast undantekningarlaust.

Leikurinn og andstæðingurinn

Það er hver einasti leikmaður og amma þeirra að bíða eftir því að tímabilið verði flautað af. Liðið mun gera ótal mistök í sama hálfkæringi og hefur viðgengist í allan vetur og það er bara bara spurning hversu æstir Arsenal menn eru í að ganga á lagið. Þeir eru stórundarlegt lið sem að getur unnið mjög góð lið, en sömuleiðis steinlegið á móti afleitum liðum. Hljómar kunnuglega.

Í liði Arsenal eru fínir leikmenn. Norðmaðurinn Martin Ödegaard hefur tekið miklum framförum og skorað 6 mörk í deildinni á leiktíðinni. Hann er orðinn ákveðin kjölfesta í spili liðsins og er afar flinkur á boltanum, ásamt því að vera mjög útsjónarsamur. Annar leikmaður sem að hefur sprungið út á tímabilinu er Emile Smith-Rowe. Smith-Rowe er uppalinn í Arsenal og hefur sýnt að hann hefur gott auga fyrir sendingu og er nokkuð markheppinn einnig. Svo ber að varast vængmanninn Bukayo Saka. Englendingurinn á bara eftir að verða betri og mér þykir líklegt að hann verði einn af mikilvægustu leikmönnum Arsenal á næstu árum. Liðið er orðið nokkuð skipulagt undir Mikel Arteta og eins og áður segir, þá hefur það staðið í liðum á borð við Liverpool og Manchester City en fengið svo skell á móti liðum eins og Crystal Palace.

Ice cold in both boxes… 🧊 #CHEARS pic.twitter.com/yNH4nLacl3

— Arsenal (@Arsenal) April 21, 2022

Varðandi okkur að þá er eiginlega lítil ástæða til þess að orðlengja of mikið um hvað Ralf reynir að plana eða setja upp með. Þessir leikmenn gera það sem þeir vilja og ef að hlutirnir detta ekki fyrir þá, þá er ofsalega stutt í uppgjöf og fýlu. Þó væri dásamlegt að geta fagnað sigri á Emirates. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Hannibal Mejbri byrji sinn fyrsta leik í Úrvalsdeildinni. Hann sýndi ekki mikil gæði á boltanum gegn Liverpool, en hann sýndi þó örlítið hjarta. Sem er meira en aðrir leikmenn Manchester United geta sagt.

Líklegt byrjunarlið Man Utd:

1
De Gea
20
Dalot
2
Lindelöf
4
Jones
29
Wan-Bissaka
46
Hannibal
39
McTominay
36
Elanga
18
Bruno
25
Sancho
7
Ronaldo

Áfram Manchester United!

 

 

 

0
Enska úrvalsdeildin

Erik ten Hag er næsti stjóri Manchester United

Zunderman skrifaði þann 21. apríl, 2022 | 2 ummæli

Loksins er leyndarmálinu sem öll vissu ljóstrað upp.

🇳🇱👔

The new First-Team Manager of Manchester United: Erik ten Hag.#MUFC || #WelcomeErik

— Manchester United (@ManUtd) April 21, 2022

🇳🇱 Made in the Netherlands. Ready for Manchester.

🔴 Erik ten Hag's next step is United.#MUFC || #WelcomeErik pic.twitter.com/SwsCwFja10

— Manchester United (@ManUtd) April 21, 2022

Fylgst með Ten Hag

Lið hans Ajax spilaði á páskadag til úrslita um hollenska bikarinn gegn PSV Eindhoven.

Eflaust eru einhverjir betur inni í hollenskum fótbolta og Ajax heldur en ég, en undanfarna mánuði hafa skapast nokkur tækifæri til að horfa á Ajax. Samhliða hrakförum Manchester United gegn Atletico Madrid í Meistaradeildinni gat ég haft annað augað á Ajax – Benfica. Það kvöld lá Ajax á Benfica, vann boltann hátt og átti sæg af tækifærum en að lokum var það annar eftirsóttur einstaklingur, Darwin Nunez, sem skoraði úr eina færi Benfica.

Ég náði líka lokamínútum í Groeningen – Ajax. Þar var Ten Hag dúðaður inni í úlpu og með húfu á hliðarlínunni. Ajax var í smá brasi en þriðja markið í 1-3 sigri kom í blálokin eftir bolta sem vannst af varnarmanni heimaliðsins við miðlínu. Lið Ten Hag eru einmitt sögð spila hápressu og leggja áherslu á að vinna boltann framarlega af mótherjanum.

Stuðningsmenn Manchester United hafa eflaust fengið að heyra ýmislegt um ágæti og feril Ten Hag síðustu mánuði, að minnsta kosti nóg til að meirihluti þeirra – sem og stjórnendur félagsins – virðast sannfærðir um að hann sé rétti maðurinn til að rétta við United-skútuna.

Maður með skoðanir

En það má fara stuttlega yfir það helsta. Ten Hag er alinn upp í bæ nærri Twente, foreldrar hans eru fasteignasalar og fjölskyldan ágætlega efnuð en Erik valdi þó frekar fótboltann en feril hjá fjölskyldufyrirtækinu. Hann er sagður hugsa stöðugt um fótbolta og alltaf hafa verið tilbúinn að spyrja og hafa aðrar skoðanir en flestir aðrir.

Hann spilaði sem miðvörður og átti þokkalegan feril sem atvinnumaður á tíunda áratugnum, lengst af hjá Twente. Hann fór síðan að þjálfa hjá félaginu og var meðal annars aðstoðarmaður Steve McClaren, aðstoðarmanns Sir Alex Ferguson árið 1999. Hann byrjaði sem aðalþjálfari hjá Go Ahead Eagles, ráðinn af Marc Overmars og kom liðinu upp um deild en varð síðan aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá Bayern München. Það kom mörgum á óvart, flestir héldu að Ten Hag myndi halda áfram að klífa metorðastiga aðalþjálfara en hann valdi í staðinn að auka við þekkingu sína.

Hann snéri síðan aftur til Hollands, tók við Utrecht og kom liðinu í Evrópukeppni áður en Overmars, nú orðinn yfirmaður hjá Ajax, hringdi aftur í Ten Hag sem hefur verið aðalþjálfari Amsterdam-veldisins síðan í desember 2017. Bæði þjálfarinn og leikmennirnir slógu i gegn á leið liðsins i undanúrslit Meistaradeildarinnar 2019, einkum fyrir að hafa yfirspilað Real Madrid. Fyrir þann leik var reyndar talað um að starf Ten Hag væri í hættu.

En meðan lykilleikmenn fóru hélt Ten Hag áfram og byggði upp nýtt lið samhliða því að gefa ekki eftir í deildinni í Hollandi. Nú hyllir hins vegar undir að bæði þjálfarinn og fjöldi leikmanna fari.

Leikmenn sem leikið hafa undir Ten Hag tala um að hann hafi gott auga fyrir smáatriðum en sé kröfuharður, bæði innanvallar sem utan. Slíkt gæti orðið erfiðra, eða umdeildara, í stórliði á borð við Manchester United. Einstakir leikmenn hafa lýst honum sem leiðinlegum meðan flestir segja Ten Hag sýna þeim umhyggju. Honum hefur jafnvel tekist að hafa stjórn á mönnum sem hafa orð á sér fyrir að vera erfiðir, eins og Marco Arnautovic. Eins á eftir að koma í ljós hversu vel leikmennirnir laga sig að leikaðferðum hans. Hann hefur líka orð á sér að vera hreinskiptinn, jafnvel hrokafullur, í samskiptum við blaðamenn. Kannski er dálítill Louis van Gaal í honum.

Hálft liðið á förum

En hvað gerðist á páskadag og hvaða ályktanir er hægt að draga? Varast ber að álykta út frá einum leik og kannski sú slær staðreynd að Ajax tapaði aðeins á bjartsýni stuðningsmanna United. Leikurinn gat reyndar dottið hvoru megin sem var, tvö mörk voru dæmd af liðinu vegna rangstöðu, það virtist snuðað um víti auk fleiri væra. En það var líka dæmt mark af PSV og það fékk fín færi.

Ajax komst yfir um miðjan fyrri hálfleik. Ryan Gravenberch skoraði með fínu langskoti eftir samspil við Davy Klaasen. Gravenberch er 20 ára gamall miðjumaður sem United gæti eflaust nýtt sér. Hann er stór, 1,90 metrar en á auðvelt með að finna sendingaleiðir á milli varnarmanna andstæðinganna sem kemur samherjum hans í góðar stöður. Um margt minnir bæði leikstíll og líkamsburðir hans á Paul Pogba. Þegar leið á bikarúrslitaleikinn var Gravenberch kominn aftastur til að senda boltann fram á við. Hann slapp einu sinni að fá gult í staðinn fyrir rautt spjald fyrir að brjóta á PSV-manni sem var sloppinn í gegn. Synd að Bayern München virðist hafa tryggt sér hann.

Af einstökum leikmönnum Ajax var hann helst sá sem vakti athygli en hálft liðið hefur verið orðað við United. Vængmaðurinn Anthony var ekki með, er meiddur út tímabilið en miðvörðurinn Jurriën Timber spilaði 90 mínútur. Hann staðsetur sig vel og er vel spilandi en nær ekki 180 sm. hæð, sem gæti skapað honum vandræði í skallaeinvígum í enska boltanum.

Gamli United-maðurinn Daley Blind spilaði 90 mínútur sem vinstri bakvörður. Það segir sitt um hollenska boltann að hann leit vel út. En hann sýndi bæði styrki sína og galla frá United. Blind er afar vel spilandi leikmaður, það reyndist nokkrum sinnum vel hjá van Gaal að hafa miðvörð sem gat sent 40 metra sendingar en hann vinnur engin spretthlaup. Nefna má líka framherjann Brian Brobbey sem er líkamlega þroskaðri en flestir 20 stráklingar. Hann er með samning við RB Leipzig.

Ajax spilaði fótbolta, PSV barðist

Framan af tímabilinu í hollensku deildinni fékk Ajax varla á sig mark, þeim hefur aðeins fjölgað síðustu vikur. Þrátt fyrir að mikið sé látið með Ten Hag og Ajax er liðið ekki með neina yfirburðaforustu í deildinni, fjögur stig á PSV. Þó má segja að PSV er með gott lið og fínan stjóra, Þjóðverjann Roger Schmidt, einn úr Red Bull skólanum. Hann hættir eftir tímabilið.

Talsvert er talað um að Ten Hag hafi endurbyggt lið sitt árlega. Það gerir PSV líka. Bæði lið eru samsett úr ungum leikmönnum sem verða seldir og gömlum leikmönum sem ekki eru lengur nógu góðir fyrir stærstu deildirnar. Þannig er Mario Götze, sem skoraði sigurmarkið á HM 2014, hjá PSV í dag. Eftir stendur þó að markaðsvirði Ajax er tvöfalt hærra en PSV samkvæmt Transfermarkt.

Sem fyrr segir var Ajax liðið sem var meira með boltann. Hann gekk vel manna á milli, þótt halda megi því fram að vantaði hafi fleiri afgerandi marktækifæri. Á móti sýndi PSV gríðarlega líkamlega baráttu og beitti flottum skyndisóknum. Mörkin komu með stuttu millibili í byrjun seinni hálfleiks, það fyrra skalli eftir fast leikatriði, hið seinna eftir að náð slakri hreinsun varnarmanna Ajax. Nafn þess sem skoraði sigur markið, Cody Gakpo, gæti átt eftir að heyrast oftar.

Þarna mættust því tveir ólíkir leikstílar og lið sem ekki munar miklu á. Ten Hag reyndi þegar leið á leikinn að skipta um kerfi og þótt það hafi ekki virkað til fulls vantaði ekki mikið upp á að Ajax næði jöfnunarmarkinu. Það tók líka fulla áhættu, Gravenberch mættur í vörnina en Blind í sóknina til að vinna skallaboltana.

Með liðsuppstillingu sinni sýndi Ten Hag að hann er tilbúinn að taka stórar ákvarðanir. Marten Stekelenburg var í markinu í stað André Onana. Það hefur víst verið vesen í tengslum við félagaskipti Onana til Inter Milan.

Eftir stendur að tíminn einn leiðir í ljós hvort Ten Hag sé réttur kostur fyrir United. Þótt hann hafi ekki unnið bikarinn var lið hans tilbúið í alvöru bikarúrslit. Sjálfur var Ten Hag að þessu sinni berhöfðaður á hliðarlínunni með skallann og sýndi heilmikla ástríðu, fagnaði markinu ákaft og var eins og liðið til í slaginn.

2
  • « Go to Previous Page
  • Go to page 1
  • Go to page 2
  • Go to page 3
  • Go to page 4
  • Go to page 5
  • Go to page 6
  • Interim pages omitted …
  • Go to page 388
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Tómas um Velkominn í enska boltann, hr. Ten Hag
  • Helgi P um Velkominn í enska boltann, hr. Ten Hag
  • Hjöri um Velkominn í enska boltann, hr. Ten Hag
  • Gummi um Velkominn í enska boltann, hr. Ten Hag
  • Arni um Velkominn í enska boltann, hr. Ten Hag

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress