• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska bikarkeppnin

Upphitun: Brighton í undanúrslitum bikarsins

Zunderman skrifaði þann 22. apríl, 2023 | Engin ummæli

Embed from Getty Images

Á tímabili í vetur átti Manchester United raunhæfan möguleika á fjórum titlum. Deildarbikarinn er í húsi en Englandsmeistaratitillinn óraunhæfur og liðið úr leik úr Evrópudeildinni eftir slæmt tap gegn Sevilla á fimmtudag. Á sunnudag er röðin komin að Brighton í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

Til mikils er að vinna, kannski sérstaklega fyrir Brighton, sem aðeins einu sinni hefur leikið til úrslita í keppninni. Það var fyrir 40 árum, árið 1983, gegn Manchester United. Brighton var fallið en náði 2-2 jafntefli í fyrri leiknum en United vann þann seinni 0-4.

Vísbendingar eru um að leikjaálagið sé farið að segja til sín hjá United. Þreytumerki hafa verið í nokkrum af síðustu, að minnsta kosti náði það aldrei flugi á fimmtudaginn. Á móti er hægt að benda á góða spilamennsku í síðustu deildarleikjum gegn Everton og Nottingham Forest.

Aukin meiðsli eru annað þreytumerki. Á blaðamannafundi í gær sagðist Erik ten Hag að of skammt væri liðið frá leiknum í Sevilla til að segja til um hverjir hefðu komist heilir á líkama úr honum. Þar er stærsta spurningamerkið Anthony Martial, sem fór meiddur af velli.

Erfiðasta valið verður í miðvarðastöðunum, Lisandro Martinez og Raphael Varane eru báðir meiddir og einhverjum til gleði er Harry Maguire í banni. Viktor Lindelöf ætti því að vera með öruggt sæti og líklegt að Luke Shaw, sem þó hefur ekkert sést til í vikunni verði við hlið hans. Diego Dalot hefur verið vinstri bakvörður því Tyrrell Malacia glímir við meiðsli. Mögulega verður hann með á morgun.

Annað miðvarðakostur er Casemiro en þá þarf að finna annað miðjumann. Scott McTominay er gjarnan miðvörður í skoska landsliðinu en hann er trúlega meiddur. Bruno Fernandes missti af Evrópuleiknum vegna leikbanns svo hann er vonandi ferskur.

Brighton hefur verið eitt af spútnikliðum deildarinnar í vetur og undanfarið ár reynst United óþægilegt, eins og sigur þess á United í fyrsta leik ten Hag í haust er dæmi um. Stemming er í herbúðum liðsins sem afgreiddi Chelsea um síðustu helgi og á enn fjarlægan möguleika á Meistaradeildarsæti.

Markvörðurinn Jason Steele, varnarmaðurinn Joel Veltman og framherjinn Evan Ferguson, sem orðaður hefur verið við United, eru tæpir en gætu spilað. Jeremy Sarmiento, Tariq Lamptey, Adam Lallana og Jakub Moder eru meiddir.

Leikurinn hefst klukkan 15:30 á sunnudag og leikið er á Wembley. Hann er sendur út beint á Stöð 2 Sport.

0
Evrópudeildin

Sevilla 3:0 Manchester United

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 20. apríl, 2023 | 9 ummæli

Sevilla tók á móti Manchester United í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld en Sevilla hefur verið ótrúlega seigt í þessari keppni síðastliðinn áratug eða svo. Erik ten Hag stillti upp í 4-2-3-1 og fyrsta sumarlið United var svona:

1
De Gea
20
Dalot
2
Lindelöf
5
Maguire
29
Wan-Bissaka
18
Casemiro
15
Sabitzer
25
Sancho
14
Eriksen
21
Antony
9
Martial

Bekkurinn: Butland, Vitek, Malacia, Shaw, Fred, Pellistri, Iqbal, Elanga, Rashford og Weghorst.

 

Sevilla gerði fjórar breytingar frá seinasta leik:

Bono
Acuna
Marcao
Bade
Navas
Gudelj
Fernando
Lamela
Rakitic
Ocampos
En-Nesyri

 

Fyrri hálfleikur

Fyrstu mínúturnar af leiknum voru fjörugar og United hélt boltanum ágætlega ofarlega á vellinum og virtust sprækir flestir en þegar dróg til tíðinda þá var það því miður hinu megin á vellinum. Strax á 7. mínútu renndi Harry Maguire boltanum til baka á David de Gea eftir að sá enski var pressaður meðan hann var á boltanum. Pressa heimamanna færðist þá ofar og En-Nesyri nálgaðist Spánverjann hratt. Maguire bauð sig mitt á milli tveggja sóknarmanna og de Gea renndi boltanum á hann en fyrirliðinn var með þrjá menn í kringum sig og endaði á að setja boltann í Erik Lamela og þaðan hrökk boltinn fyrir fætur En-Nesyri. Eftirleikurinn var of auðveldur og renndi hann boltanum framhjá de Gea sem átti ekki möguleika á að koma vörnum við og staðan orðin 1-0.

Embed from Getty Images

Miðvörður heimamanna, Marcao, þurfti að fara meiddur út af eftir hálftíma leik en í hans stað kom Suso (ekki sem miðvörður).

Á 40. mínútu áttu heimamenn aðra góða sókn sem endaði með því að Acuna átti fyrirgjöf frá vinstri vængnum að vítateigspunktinum og þar tók Lucas Ocampos við tuðrunni, lagði hana fyrir sig og smellti honum í hægra hornið fram hjá de Gea en VAR kom til bjargað og hélt stöðunni í 1-0 þar sem Acuna var hársbreidd fyrir innan varnarlínuna.

Raunar var þetta nokkuð búið að liggja í loftinu. Stuttu áður hafði Ocampos komist í gott færi þegar fyrirgjöf kom frá vinstri kantinum þar sem de Gea þurfti að slengja höndinni mitt á milli Diogo Dalot og Ocampos til að blaka honum frá og koma í veg fyrir gráupplagt dauðafæri.

United byrjaði hálfleikinn vel en eftir þetta mark virtist liðið hafa fengið högg á sig sem það náði ekki að hrista af sér. United átti nokkrar góðar sóknir en heimamenn tóku smám saman völdin á veldinum og líklegast sanngjarnt að fara inn í hálfleikinn í stöðunni 1-0.

Embed from Getty Images

 

Síðari hálfleikur

Erik ten Hag gerði tvær breytingar í hálfleik, Jadon Sancho og Aaron Wan-Bissaka fóru útaf og í þeirra stað komu Marcus Rashford og Luke Shaw eftir smávægileg meiðsli héldu þeim frá síðustu leikjum.

En það var ekki til að breyta miklu því leiknum lauk eftir einungis 80 sekúndur af síðari hálfleik þegar Rakitic tók hornspyrnu og smellti henni fyrir markið þar sem Loic Badé reis manna hæst en þrátt fyrir að hann hitti ekki boltann tók honum að skora. Boltinn hrökk af öxlinni á honum og hátt í loftið í boga yfir de Gea sem stökk máttleysislega í átt að boltanum sem endaði í slánni og datt þaðan inn fyrir línuna og staðan orðin 2-0 og þá 4-2 í heildina.

Embed from Getty Images

Rakitic var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann átti hörku gott færi við vítateigshornin vinstra megin en de Gea sló boltann út fyrir og í horn. Aftur skapaðist mikil hætta fyrir framan markið þegar boltinn virtist hafa viðkomu í öllum mönnunum í báðum liðum sem stóðu í markmannsteignum en inn vildi tuðran ekki. Hreint út sagt ótrúlegt að boltinn hafi ekki farið inn en að lokum dæmt brot á heimamenn.

Enn ein meiðslin hjá Anthony Martial litu svo dagsins ljós í dag en hann neyddist til að fara útaf á 54. mínútu og Wout Weghorst mætti í hans stað. Fred fékk svo óvænt tækifæri þegar Sabitzer var tekinn útaf á 68. mínútu en Sevilla menn réðu lögum og lofum í leiknum þá og það kórónaði Youssef En-Nesyri þegar um níu mínútur voru eftir af leiknum. Acuna hreinsaði þá boltann hátt og langt frá markinu eftir að United var búið að liggja í smá pressu á heimamönnum og Marokkómaðurinn tók á rás með Lindelöf á hælunum en David de Gea var á sjaldséðnum stað langt fyrir utan vítateig og sýndi okkur afhverju hann fer sjaldan út úr teignum.

Embed from Getty Images

Því þegar hann ætlaði að hreinsa boltann virtist hann gleyma því í hálfa sekúndu að hann væri í fótbolta því hann reyndi að stíga á boltann að því er virtist og snertingin sem hann náði gerði nánast ekkert nema að fullkomna færið fyrir En-Nesyri sem tók boltann viðstöðulaust og lagði hann auðveldlega framhjá de Gea og rak síðasta naglann í kistuna og tryggði Sevilla inn í undanúrslitin. Leikurinn fjaraði svo út eftir það, United tókst ekki að gera mikið til að trufla taugar heimamanna enda þriggja marka munur sem erfitt er að vinna upp á innan við korteri.

 

Að leik loknum…

Það er auðvelt að vera svartsýnn, pirraður og jafnvel reiður eftir slíka frammistöðu eins og við horfðum upp á í kvöld. Slíkt var getuleysið, metnaðarleysi, baráttuleysið og hugleysið. Ekki einn leikmaður á vellinum vann fyrir laununum sínum með þessari frammistöðu ætla ég mér að fullyrða. Það er alveg hægt að fela sig á bak við það að varnarlínan var samsett af varamönnum eða mönnum að spila úr stöðum, okkar bestu menn voru í banni eða gátu ekki byrjað en þetta var sorglega léleg frammistaða. Sama þó þarna hafi United mætt með vængbrotið lið.

Fram á við var ekkert að frétta og þegar þú mætir á útivöll og þarf að skora til að vinna, þá gengur það ekki upp. Varnarlega var glundroði sem einkenni okkur. Við sáum um að koma Sevilla inn í næstu umferð því án markanna sem við skoruðum eða gáfum þeim þá skoruðu þeir einungis eitt mark. Hin mörkin komu á silfurfati.

Embed from Getty Images

En ef við eigum að líta á björtu hliðarnar þá mætum við Brighton í næsta leik í undanúrslitum bikarsins og þá verður Bruno Fernandes tiltölulega vel hvíldur þar sem hann kom ekkert við sögu í þessum leik. Fyrir þá sem óttast að Harry Maguire muni skora sjálfsmark í því einvígi þá getiði huggað ykkur við það að hann er í leikbanni en líklega erum við núna komnir í bobba þegar Luke Shaw var farinn að haltra en það hefði verið best að notast við hann í miðvarðarstöðunni um helgina.

Hópurinn er ansi þunnur en fyrir Pollýönnurnar þarna úti þá er hægt að líta á það sem tækifæri fyrir aðra til að skína. Því miður var enginn að skína í þessum leik en það kemur leikur eftir þennan leik og dagur eftir þennan dag. Glory, glory!

Embed from Getty Images

 

 

 

9
Evrópudeildin

United heldur áfram í La Lig… Evrópudeildinni!

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 19. apríl, 2023 | Engin ummæli

Þá er komið að síðari viðureign United og Sevilla en eins og mörgum er eflaust kunnugt um þá glutraði United niður tveggja marka forystu á heimavelli í síðustu viku. Liðinu tókst að komast yfir snemma í leiknum með tvennu frá Sabitzer á fyrstu 20 mínútum leiksins. Allt stefndi í þægilegan sigur þangað til spilaborgin hrundi hjá United, fyrst klúðraði liðið dauðafæri þegar Weghorst renndi boltanum á Malacia sem var alltof lengi að koma fyrir sig skotfætinum og svo sá bakvörðurinn um að skora sjálfsmark og minnka muninn í 2-1. Vont varð verra þegar sóknarmaður Sevilla skallaði boltann í trýnið á Harry Maguire og þaðan fór boltinn í netið og grátlegt jafntefli niðurstaðan.

Í millitíðinni mætti United svo í æfingaleik gegn Nottingham Forest þar sem mótstaðan virtist lítil sem engin og David de Gea fékk kærkomna hvíld þó hann hafi verið á vellinum. En á morgun verður leikið á Spáni og verður þetta í fjórða skiptið á leiktíðinni sem United mætir þangað í þessari keppni. Það þýðir í raun að eftir leikinn verður United búið að leika sem nemur 20% af La Liga því liðið hefur mætt Real Sociedad(#4), Barcelona (#1), Real Betis (#5) og núna Sevilla (#13) bæði heima og heiman.

Sevilla

Ljóst er að Sevilla, sem virðist vera einhver ótemja í þessari blessuðu Evrópudeild, verður sýnd veiði en ekki gefin þrátt fyrir að liðið sé í þrettánda sæti deildarinnar og mun lakara en þau lið sem United hefur þegar lagt að velli. Liðið hefur nýverið skipt um stjóra, í raun rétt fyrir fyrri leikinn á Old Trafford enda hefur gengi liðsins verið ferlegt en liðið var í bölvuðu brasi í riðla keppni Meistaradeildarinnar þar sem þeir lágu 0-4 gegn City og 1-4 gegn Dortmund á heimavelli og í raun kom eini sigur þeirra gegn danska liðinu FC Kobenhavn en hann skilaði liðinu inn í Evrópudeildina. Liðið marði svo PVS Eindhoven 3-2 samanlagt og Fenerbache 2-1 í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar og hafa því þrætt nálarauga á leið sinni inn í 8-liða úrslitin.

Embed from Getty Images

Sevilla stillti upp í 4-2-3-1 leikkerfið í síðustu viku, rétt eins og United, en voru yfirspilaðir fyrstu 30-40 mínúturnar og vonandi gerist það aftur á morgun því United var komið með veglega forystu þá. Þeirra sterkustu menn eru vafalaust Rakitic, Jesus Navas, Fernando og Ocampos en Bono í markinu og El-Nesyri kannast vafalaust margir við eftir frábært gengi Marokkó á heimsmeistaramótinu í nóvember á síðasta ári. Það voru hins vegar United menn sem sáu um að skora öll mörkin í síðasta leik og því líklegast réttast að nefna Maguire og Malacia sem hættulegustu leikmennina á morgun.

En að öllu óverðskulduðu gríni slepptu þá má gera ráð fyrir svipaðri uppstillingu þar sem Mendilibar mun líklegast breyta litlu. Einu leikmennirnir sem ekki eru til taks fyrir heimaliðið eru þeir Joan Jordan sem er meiddur og Montiel sem átti afleitan leik í fyrri leiknum og líklegast verra fyrir United að hann sé ekki að fara spila þennan leik. Annars spái ég liðinu svona:

Bounou
Acuna
Marcao
Nianzou
Gudelj
Gudelj
Fernando
Torres
Rakitic
Ocampos
Lamela

Manchester United

Góðu fréttirnar fyrir Sevilla eru þær að meiðslalistinn hjá United er lengri en leiðin á milli Staðarskála og Blönduósar og þar að auki er Bruno Fernandes í leikbanni eftir ömurlega dómgæslu í fyrri viðureigninni. Annars eru þeir McTominay, Malacia, Heaton, Varane, Martinez, Rashford, van de Beek og Garnacho allir meiddir og ólíklegt að þeir taki þátt á morgun. Luke Shaw er aftur kominn í hóp og sömuleiðis Rashford sem fór með til Spánar en hann náði einni æfingu með liðinu og einhverjum einstaklingsæfingum þar áður svo hann ætti að vera leikfær. Hins vegar er það komið á hreint að Sabitzer og Malacia eru leikfærir og flugu með út til Spánar eftir að hafa ekki verið með um helgina.

Embed from Getty Images

En ef við ætlum að líta á björtu hliðarnar þá hefur Erik ten Hag sannarlega snarbreytt gengi liðsins gegn spænsku liðum í Evrópukeppnum en liðið er taplaust á útivöllum í keppninni og hefur í raun einungis tapað gegn Real Sociedad með vafasömu víti sem dæmt var á Martínez á Old Trafford. Sigur heima gegn Real Betis og Barcelona og úti gegn Real Sociedad og Real Betis auk tveggja jafntefla við Barca og Sevilla í leikjum þar sem við vorum mun sterkari aðilinn gefa von um farsæla ferð til Spánar að þessu sinni.

Þá muna eflaust líka þeir sem eru eldri en tvævetur að United kláraði þessa keppni síðast 2017 með hálft liðið á hækjum fyrir útslitaleikinn (Rojo, Zlatan, Shaw, Young og Bailly).

Embed from Getty Images

Það er því allt hægt þótt brekkan sé að vísu óþarflega brött í augnablikinu. Það sem mun skipta sköpum er varnarleikur liðsins en núna um helgina vantaði 3 af 4 úr byrjunarliðsvörninni okkar. Lindelöf kom hins vegar firnasterkur inn og steig vart feilspor á meðan Maguire virkaði ryðgaður en náði þó að smyrja legurnar og var betri eftir því sem á leið. Malacia meiddist gegn Sevilla og Aaron Wan-Bissaka og Diogo Dalot spiluðu í bakvörðunum báðir en leikurinn gegn Nottingham Forest var eins og áður sagði helst til of auðveldur til að nokkuð reyndi á varnarlínuna.

Embed from Getty Images

Það verður því að koma í ljós hvort United takist að halda hreinu á morgun en Sevilla hefur ekki skorað mikið á heimavelli. Gengið þar hefur líka verið upp og ofan þar sem liðið hefur unnið fimm, tapað fimm og gert 4 jafntefli. Brekkan er því alls ekki óyfirstíganleg.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða breytingar Erik ten Hag gerir á morgun þegar hann verður án fyrirliðans (á vellinum), besta markaskorarans (sem er að koma eftir meiðsli og byrjar líklegast ekki*), sterkasta miðvarðarparsins og án nokkurs vinstri bakvarðar (sama og *). Það kæmi ekki á óvart að sjá eitthvað sem við höfum ekki séð áður en ég spái liðinu svona:

1
De Gea
20
Dalot
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
18
Casemiro
17
Fred
25
Sancho
14
Eriksen
21
Antony
9
Martial

Fred hefur af einhverjum ástæðum verið út úr liðinu en hann þarf að koma inn núna í fjarveru McTominay, Bruno og Sabitzer og tel ég að það muni mæða mikið á miðjunni okkar í þessum leik og því gott að fá einn með úthvílda tveggja lítra túrbínuvél á miðsvæðið í þann hundaslag sem þar mun ríkja. Sancho hefur verið að vaxa ásmegin og virðist loksins vera að finna taktinn aftur eftir erfiða byrjun og sama má segja um Antony sem virðist bæta sig með hverjum leiknum og átti mjög góðan leik gegn Forest og Sevilla en þeir munu skipta með sér köntunum í fjarveru Rashford en líklegt verður að teljast að hann komin inn á í leiknum.

Þið heyrðuð það samt fyrst hér. Wout Weghorst verður leikmaðurinn sem klárar leikinn með einum eða öðrum hætti. Honum gengur bölvanlega í deildinni heima fyrir en Evrópudeildin er sviðið fyrir hann til að stimpla sig inn í sögubækurnar fyrir United. Mín spá er 1-2 fyrir United, Anthony með markið okkar og við sjáum líklega um að jafna sjálfir og svo kemur Hollenska stórstirnið og skýtur okkur inn í undanúrslitin. Glory, glory!
Embed from Getty Images

0
Enska úrvalsdeildin

Nottingham Forest 0 – 2 Manchester United

Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann 16. apríl, 2023 | 3 ummæli

Erik ten Hag þurfti að stilla upp Maguire og Lindelöf  í hjarta varnarinnar vegna meiðsla Varane og Martinez. Líklegt að einhverjir United stuðningsmenn séu tilbúnir með brjóstsviðalyf í sófanum ef Harry og Victor fara að gera einhverjar gloríur. Marcel Sabitzer átti að hefja leik en meiddist í upphitun og Eriksen kom inn í byrjunarliðið í stað hans. Þá koma Dalot inn í stað Malacia, það má einnig geta þess að Marc Jurado 19 ára bakvörður fær sæti á bekknum í fyrsta skiptið. Slæmu fréttirnar af liðsuppstillingu Forest voru þær að Jonjo Shelvey settist á bekkinn, það hefði verið vel þegið að hafa hann inn á til þess að vera 12 maður United.

 

Liðin:

United:

1
De Gea
20
Dalot
5
Maguire
2
Lindelöf
29
Wan-Bissaka
18
Casemiro
8
Fernandes
25
Sancho
14
Eriksen
21
Antony
9
Martial

Bekkur: Butland, Elanga, Pellistri, Weghorst, Jurado, Fred, Iqbal

 

Forest:

12
Navas
19
Niakhaté
26
McKenna
38
Felipe
32
Lodi
28
Danilo
23
Freuler
7
Williams
9
Awoniyi
10
Gibbs-White
20
Johnson

 

Fyrri hálfleikur

United menn byrjuðu frekar sprækir og fengu fínt færi á upphafsmínútunum þegar Navas sló boltann út í teig þar sem Sancho mætti á ferðinni en skot hans í varnarmann. Á 4 mínútu byrjaði brjóstsviðinn þegar Forest loftaði boltanum fram, Maguire og Awoniyi knúsuðust eitthvað sem endaði á að Maguire lá þver og endilangur ofan á Awoniyi og fékk gult spjald. Sæmilegi klaufaskapurinn hjá Maguire. Forest fékk fínasta færi eftir langt innkast nokkrum mínútum seinna en skot Awoniyi í varnarmann og í innkast. Leikurinn róaðist aðeins eftir fyrstu 10 mínúturnar, Harry Maguire virtist vera frekar illa stilltur og átti nokkar sendingar beint útaf. Á 18 mínútu átti Bruno Fernandes fínt skot sem Navas varði vel. Nokkrum augnablikum seinna fengu Forest hornspyrnu, upp úr henni fékk Maguire boltann í höndina, ekkert var þó dæmt enda hefði það verið mjög harður dómur. United var talsvert betri aðilinn en skyndisóknir Forest oft ágætar og föstu leikatriðin þeirra taugatrekkjandi, á 25. mínútu endaði hornspyrna Forest í stönginni eftir að boltinn fór af Maguire og McKenna.

Á 32. mínútu pressaði Martial boltann af Forest mönnum og hrökk boltinn til Fernandes sem stakk boltanum inn á Martial, Navas varði skot frakkans en Antony var mættur á fjær og potaði boltanum yfir línuna, 0-1 fyrir United. Undir lok fyrri hálfleiksins fengu bæði lið fín færi, fyrst voru það Forest menn sem geystust í sókn, eftir misheppnaða sendingu inn fyrir vörn United sem Dalot náði, missti Portúgalinn boltann of langt frá sér og beint á Awoniyi  sem smellti boltanum yfir markið. Fernandes fékk þá fínasta skallafæri í uppbótartíma en skallaði boltann örfínt framhjá, hefði átt að láta reyna á Navas þar!

United menn voru talsvert betri í fyrri hálfleik en sköpuðu sér ekkert urmul færa. Forest menn reyndu að berja frá sér og það var alltaf ónotatilfing sem helltist yfir mann þegar Forest menn loftuðu boltanum inn í pakkaðann teig United. Forest menn munu að öllum líkindum halda áfram að beita skyndisóknum í byrjun seinni og um að gera að ná öðru marki sem fyrst.

 

Seinni hálfleikur

Seinni hálfleikur var einungis 90 sekúndna gamall þegar Neco Williams átti fyrirgjöf inn í teig United og boltinn af vinstri fæti Dalot í útrétta hægri hönd portúgalans. Það er þó ekki vítaspyrna ef boltinn hrekkur af fæti leikmannssins í hönd hans, en það botnar enginn lengur í reglunni um hendi víti í fótbolta, þannig vissulega fór um mann kaldur hrollur við þetta atvik. Nokkrum mínútum síðar átti United álitlega sókn sem endaði með sendingu frá Sancho fyrir en Martial aðeins of seinn til og náði ekki til knattarins. Eftir langa þunga sókn United fékk United horspyrnu á 55. mínútu, Bruno tók stutt horn á Eriksen sem setti hann aftur á Bruno sem átti geggjað skot en Navas varði boltann frábærlega í slána. United sóknin hélt áfram eiginlega næstu fimm mínútur og bæði Antony, Bruno og Eriksen áttu allir fínar skot tilraunir.

Á 64. mínútu fengu United aukaspyrnu, Bruno vippaði boltanum yfir varnarlínu Forest og Eriksen með boltann skoppandi einn gegn Navas en daninn náði ekki að hemja boltann. Sex mínútum síðar fékk Martial mjög gott skallafæri eftir sendingu frá Casemiro, en skallinn framhjá. Þetta var það seinasta sem Martial gerði í leiknum en hann Erik Ten Hag gerði sína fyrstu breytingu í leiknum og setti Wout Weghorst inn á fyrir Martial. United hélt áfram að þjarma að marki Forest, Antony átti skot/sendingu með hægri (já hægri) sem Navas sló út í teiginn og það mátti engu muna að United leikmaður næði til boltans.

Loksins, loksins! Antony keyrði upp völlinn og köttaði inn á vinstri (sjokker) í stað þess að skjóta sneiddi hann boltann glæsilega inn á Dalot sem var að taka hlaup inn á teiginn og portúgalinn setti hann þægilega fram hjá Navas. Fyrsta mark Dalot í ensku úrvalsdeildinni og staðan 0-2 United. Fred koma inn á fyrir Eriksen rétt eftir markið. Eftir þetta fór leikurinn að snúast dálítið upp í gamla góða bumbubolta taktík, menn fengu bara boltann og keyrðu og hvíldu svo í sókninni eftir á, þetta skilaði samt engu nema því sama og það gerir í bumbubolta (of löngum seinustu sendingum, menn að missa boltann of langt frá sér og þrusudúndrum yfir markið). Cooper hafði séð nóg af því þannig hann ákvað að setja Jesse Lingard inn  völlinn til að koma einhverju skikki á leikinn. Þegar að tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma koma há sending inn fyrir vörn Forest, Niakhate og Weghorst börðust um boltann, Weghorst var eitthvað smá pirraður og ákvað að reyna að fá rautt spjald og sló til Niakhate en hitti eiginlega ekki þannig hann fékk bara gult spjald. Þetta var það seinasta sem gerðist í leiknum og 0-2 sigur United staðreynd.

 

 

Að lokum

United voru talsvert betri í leiknum og áttu skilið að vinna stærra, Bruno var gjörsamlega frábær og leitt að hann hafi ekki skorað, né lagt upp. Varafyrirliðinn gjörsalega hægeldaði miðju og vörn Forest manna, þá var Antony einnig mjög góður. United gerði nákvæmlega það sem þurfti í þessum leik, spiluðu bara sinn leik, voru þolinmóðir og ekki með neitt vesen. Það má samt alveg nefna að liðið mætti alveg vera klínískara í færunum sem þeir fá, Keylor Navas er samt augljóslega frekar góður markmaður. Ég gerði mikið grín af brjóstsviða bræðrunum Maguire og Lindelöf, en þeir hentu í kaffi og sígó frammistöðu og Forest áttu ekki skot á rammann í leiknum. United voru með 3.49 í xG á meðan Forest voru með 0.68 í xG, United var 68% með boltann, United átti 8 skot á markið en Forest ekkert. Tölfræðin eigilega talar sínu máli, þetta var þægilegur sigur að lokum, þó að á meðan staðan var 1-0 þá er alltaf stress til staðar. United fer til Sevilla í vikunni og þá eru undanúrslit FA bikarsins gegn Brighton næstu helgi.

Tottenham og Newcastle töpuðu í gær og þessi sigur var því gulls í gildi, baráttan um meistaradeildarsæti  heldur áfram og United nú með þremur stigum meira en Newcastle, komnir aftur upp í þriðja sæti. Tottenham situr hins vegar í fimmsta sæti 6 stigum á eftir United og United á leik til góða.

 

 

 

 

 

3
Enska úrvalsdeildin

United gengur skaddað til skógar

Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann 15. apríl, 2023 | Engin ummæli

United mætir Nottingham Forest á morgun sunnudaginn 16. apríl klukkan 15:30, leikurinn fer fram á heimavelli Forest, City Ground í Nottingham. Það er óhætt að segja að maður er ekki enn búinn að jafna sig á leiknum í miðri viku gegn Sevilla. Öruggur sigur í súginn, Varane fór hnjaskaður af velli og Lisandro Martinez meiddist,  þegar þetta er skrifað er enn ekki komið í ljós hvað sé að plaga Martinez. Ten Hag er þó búinn að staðfesta við fjölmiðla að þetta hefur ekkert að gera með hásinina sem eru góðar fréttir.

Þétta leikjaprógrammið heldur víst áfram þrátt fyrir meiðsli lykilleikmanna. Baráttan um meistaradeildasæti á næstu leiktíð er í hámarki og gríðarlega mikilvægt að United missi ekki stig gegn liðum eins og Forest í þeirri baráttu. Þrátt fyrir að United sé í miklum meiðslum getum við huggað okkur um stundarsakir við það að Nottingham Forest er í svipuðum ef ekki meiri meiðslavandræðum. Það reyndar ætti að koma maður í manns stað þar á bæ, enda keypti félagið bókstaflega tugi manns í sumar- og janúargluggunum.

Nottingham Forest berst núna fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni en liðið situr í 18. sæti með 27 stig jafn mikið og Everton sem er í 17. sæti en með talsvert verri markatölu. Forest hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum, en síðasti leikur þeirra var 2-0 tap á Villa Park í Birmingham. Forest menn hafa þó verið ágætir á heimavelli í vetur og hafa fengið 21 stig af 27 stigum sínum á heimavelli eða 78% stiga sinna í deildinni. Svipaða sögu má segja með United en félagið hefur verið talsvert betra á heimavelli, það er þó ekki jafn mikill munur og hjá Forest.

Það má búast við mikilli baráttu á City Ground núna á sunnudaginn, bestu leikmenn Forest á tímabilinu Brennan Johnson og Morgan Gibbs-White gætu alveg strítt lemstraðri vörn United einhvern veginn. Það er þó vonandi að Jonjo Shelvey fá að spila leikinn því hann hefur gert í því að reyna fella Forest eftir að hann var keyptur frá Newcastle núna í janúar.

Það er ekki alveg gott að segja hvernig Erik Ten Hag mun stilla upp vörn United í þessum leik, sérstaklega þar sem óvissa ríkir um Raphael Varane. Undirrituðum finnst það ekkert ólíklegt að við fáum að sjá miðvarðarparið sem gefur öllum United mönnum stífan brjóstsviða (Maguire og Lindelöf), Aaron Wan Bissaka og Tyrell Malacia verða þá líklegast í bakvarðarstöðunum.

 

Líkleg byrjunarlið

United:

1
De Gea
12
Malacia
2
Lindlöf
5
Maguire
29
Wan-Bissaka
18
Casemiro
8
Fernandes
25
Sancho
15
Sabitzer
21
Antony
9
Martial

Mér finnst frekar líklegt að Sabitzer byrji eftir flotta frammistöðu gegn Sevilla, þá er ég ekki viss um að Eriksen sé tilbúinn í heilan leik. Vörnin er spurningarmerki eins og minnst hefur verið á og hnjask Varane óljóst. Þá held ég að framlínan verði óbreytt enda ekki mikið um augljósa kosti á bekknum þó að Wout sé alltaf spenntur fyrir að prófa hvort hann geti skorað eða a.m.k. hitt á markið. Pellistri er líka kostur en ólíklegt að hann fái traustið til þess að byrja leikinn.

Forest:

12
Navas
26
McKenna
38
Felipe
4
Worrall
15
Toffolo
23
Freuler
6
Shelvey
7
Williams
28
Danilo
20
Johnson
10
Gibbs-White

Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því hvernig byrjunarliðið hjá Forest verður, Kouyate meiddist í seinasta leik og Freuler kom inn á í hans stað. Þá meiddist Niakhaté líka eitthvað smávægilega og ekki víst að hann geti byrjað, ég gæti því trúað að Mckenna komi inn í hans stað. Ef Steve Cooper vill vinna þá ætti Shelvey ekki að byrja leikinn, hann virðist þó enn vera að bíða eftir 35m sleggjunni sem Shelvey á inni einu sinni á hverju tímabili. Vonandi heldur Jonjo bara uppteknum hætti og er verri en enginn fyrir lið sitt, það væri þó alveg dæmigert að hann myndi hlaða í draumamark gegn United.

 

 

Að lokum

Þetta er hættulegur leikur, United verður að vinna þennan leik og halda 3 stiga bilinu í Tottenham, þá er þetta líklegast „auðveldasti“ leikurinn sem United á eftir á tímabilinu. Þrátt fyrir meiðsli lykilleikmanna þá mega djöflarnir ekki tapa stigum í þessari viðureign. Það er líka alltaf erfitt að spila gegn liði í fallbaráttu sérstaklega þegar að liðið er með heimavallarstuðning. Það er gott að Casemiro sé kominn aftur og vonandi veitir hann miðvörðunum hverjir sem þeir verða þarft skjól í leiknum, bara plís ekkert rautt Case, takk! Það er einhver ónota tilfinning sem ég hef fyrir leiknum en ef liðið mætir bara gírað til leiks þá ættu þetta að vera þrír þægilegir punktar í pokann góða. Forest hefur unnið United einu sinni frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar af ellefu skiptum, United hefur unnið átta sinnum og tvisvar hafa liðin skilið jöfn. Ég bið ekki um mikið bara að sigrar United verði 9 eftir þennan leik

0
  • « Go to Previous Page
  • Go to page 1
  • Go to page 2
  • Go to page 3
  • Go to page 4
  • Go to page 5
  • Go to page 6
  • Interim pages omitted …
  • Go to page 412
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Bob um United 1 : 2 City
  • Arni um United 1 : 2 City
  • Helgi P um United 1 : 2 City
  • Egill um United 1 : 2 City
  • Egill um United 1 : 2 City

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2023 · Keyrt á WordPress