Ruben Amorim stýrir Manchester United í fyrsta sinn á Old Trafford þegar liðið tekur á móti Noregsmeisturum Bodø/Glimt í Evrópudeildinni annað kvöld. Ekki eru teljandi breytingar á þeim leikmönnum sem Portúgalinn hefur að spila frá því um helgina.
Lisandro Martinez er heill en Jonny Evans tók ekki þátt í æfingunni í dag. Hann er tæpur. Aðrir miðverðir virðast heldur ekki tilbúnir. Hinn ungi Godwill Kukonki fékk að æfa með, en hann tók líka þátt í fyrstu æfingum Amorims í síðustu viku.
Amorim valdi að láta þá leikmenn byrja, í 1-1 jafnteflinu gegn Ipswich á sunnudag, sem hann hafði haft mestan tíma til að vinna með. Það gefur til kynna að eftir því sem líður á muni verða meiri breytingar á liðinu.
Hann mun væntanlega leita svara við spurningu eins og hverjir henti sem kantbakverðir og hver eigi að byrja frammi. Marcus Rashford var þar á sunnudag en var ósýnilegur eftir að hann skoraði. Kobbie Mainoo sat líka á bekknum allan þann leik þótt miðja United væri ekki að gera neinar rósir.
Hvað er þetta Bodø/Glimt?
Norsku mótherjarnir eru áhugaverðir. Liðið fór upp í norsku úrvalsdeildina haustið 2017, vann hana eftir að hafa fallið, hélt sér í henni 2018 en hefur síðan verið besta lið Noregs. Bodø/Glimt varð Noregsmeistari 2020, 2021 og í fyrra og hefur verið áskrifandi að riðlakeppnum í Evrópu, ýmist í Evrópudeild eða Sambandsdeildinni og jafnvel komist í útsláttarkeppni. Besti árangurinn var fjórðungsúrslit í Sambandsdeildinni 2022 þar sem liðið vann fyrri leikinn gegn Roma en tapaði síðan illa. Vert er að geta þess að Kjetil Knudsen hefur verið aðalþjálfari liðsins frá 2018.
Það sem af er vetri hefur liðið farið ágætlega af stað, unnið tvo leiki, þar af annan gegn Porto sem United gerði jafntefli við og gert eitt jafntefli en tapað einum. Þá er liðið efst í norsku deildinni og mætir Lilleström, sem er fallið í lokaumferðinni um helgina. Sögusagnir eru um að Bodø/Glimt muni hvíla leikmenn á morgun til að hafa þá klára til að tryggja titilinn.
Af áhugaverðum leikmönnum er vert að benda á Jens Petter Hauge, sem hefur skorað þrjú af 20 mörkum liðsins í Evrópukeppnum í ár en markaskorunin hefur annars dreifst nokkuð vel. Jens Petter er vængmaður sem ólst upp hjá Bodø/Glimt og var með liðinu í upphafi þessarar gullaldar, en fór síðan til AC Milan og þaðan Frankfurt áður en hann kom heim að láni í byrjun árs. Þá er vert að benda á Danann Kasper Høhg sem spilaði fimm leiki með Val sumarið 2020.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 og er í beinni á Stöð 2 Sport 3.