• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Enska úrvalsdeildin

Uppgjör tímabilsins 2020/21

Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann 14. júlí, 2021 | Engin ummæli

Betra seint en aldrei sagði einhver. Ritstjórn Rauðu djöflanna lagðist yfir nokkrar spurningar til að líta um öxl og leggja sína gagnrýni á tímabilið. Leikmannakaup og pælingar varðandi næsta tímabil fá að bíða um sinn.

Hver er þín skoðun á tímabilinu í heild? Hverjar voru helstu framfarirnar og mestu vonbrigði tímabilsins?

Frikki

Í fljótu bragði er auðvelt að benda á að öruggt 2. sæti frá janúarglugganum er betra en að ná 3. sæti í lokaumferðinni. En heilt yfir er tímabilið búið að vera bæting frá því síðasta og vissulega ákveðnar framfarir hjá liðinu. Taplausir á útivelli og að vera með 31 stig úr leikjum þar sem við lendum undir verður að teljast merki þess að þrautseigja einkenni þetta United lið. Þá voru framfarir í sóknarleik liðsins enda raðaði liðið inn 121 marki í öllum keppnum á tímabilinu. Vonbrigði tímabilsins geta talist nokkur, t.d. að falla út úr Meistaradeildinni eftir afdrifarík mistök í Tyrklandi eða úrslitaleikurinn gegn Villareal.

Gunnar

Að fara úr tæpu Meistaradeildarsæti í nokkuð öruggt annað sæti eru framfarir. Vonbrigði að ná ekki að komast í gegnum riðilinn í Meistaradeildinni eftir góða byrjun eða klára úrslitaleik Evrópukeppninnar.

Maggi

Ég held að ég sé jákvæðari en margir en ég er heilt yfir mjög sáttur. Væntingarnar voru nánast engar eftir erfiða byrjun á tímabilinu en frábært gengi á útivöllum tryggði á endanum sanngjarna stöðu liðsins í deildinni. United var og ennþá aðeins á eftir City en það er ekki jafnlangt á milli liðanna og hefur verið undanfarin ár.

Daníel

Úff. Svo ótrúlega blendnar tilfinningar. Fyrir tímabilið hefði maður sennilega gefið hægri handlegginn fyrir 2. sæti í deild og þar með flogið inn í Meistaradeildina. En svo miðað við hvernig tímabilið spilaðist, þ.e. hversu illa Liverpool, Tottenham og Chelsea gekk og að hafa tímabundið setið á toppi deildarinnar, þá svíður það örlítið að hafa ekki í það minnsta hrætt City smá í restina.

Luke Shaw tók gríðarlega stór framfaraskref í vetur og Edinson Cavani reyndist ákaflega drjúgur á mikilvægum augnablikum. Það er mikið lán að Úrúgvæinn hafi ákveðið að taka eitt ár til viðbótar hjá okkur. Fyrir utan að vera frábær markaskorari, þá er Cavani mikill liðsmaður og reiðubúinn að miðla ómetanlegri reynslu til yngri leikmanna liðsins.

Um vonbrigði tímabilsins þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja. Það er tapið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Villarreal. Þar var svipað uppá teningnum og gegn mörgum liðum sem spiluðu með lága varnarblokk gegn United – lítið um svör hjá okkar mönnum. Það er nauðsynlegt fyrir Solskjær að næla í bikar á næsta tímabili.

Þorsteinn

Væntingar fyrir tímabilið voru að gera betur en á tímabilinu á undan. Sem sagt komast nær deildartitlinum og ná helst í einn bikar. Miðað við hvernig tímabilið hófst má þakka fyrir að liðið hafi komist í meistaradeildina eftir á að hyggja. Hamfarirnar í seinni hluta riðlakeppninnar þýddi að liðið yrði í Evrópudeildinni eftir áramót. Ef vonbrigðin voru mikil eftir undanúrslit síðasta árs gegn Sevilla þá voru þau yfirþyrmandi þetta tímabilið með tapi gegn Villareal í vítaspyrnukeppni.
Það sem einkenndi liðið þetta tímabilið í deild var að liðið tapaði ekki á útivelli allt tímabilið sem hefur einungis gerst fjórum sinnum frá upphafi knattspyrnu á Englandi (1888) í efstu deild. Einnig unnust tíu leikir í deild eftir að liðið hafi lent undir, sem er met í úrvalsdeildinni.
Þegar ég horfi á tímabilið í heild finnst mér það vonbrigði á öllum vígstöðum nema í deildinni. Annað sætið er frábær árangur ef miðað er við hversu frábær lið City og Liverpool eru. Einnig fór Chelsea á rosalegt skrið eftir að Tuchel mætti á Brúnna sem endaði með sigri í Meistaradeildinni. Árangurinn í Meistaradeildinni voru þvílík vonbrigði eftir að liðið fór á endanum ekki áfram þrátt fyrir að fá fjóra leiki þar sem eingöngu þurfti að ná í fjögur stig. Þar svíður tapleikurinn í Tyrklandi mest þar sem algjört hugsunarleysi varð í marki Demba Ba eftir hornspyrnu okkar manna.

Frammistaða leikmanna (bestu leikmenn tímabilsins 1.-3. sæti og vonbrigði)

Frikki

Þetta finnst mér ekki vera keppni.

  1. Luke Shaw er langbesti vinstri bakvörðurinn í þessari deild og hefði með réttu átt að fá a.m.k. 2 stoðsendingar undir lok tímabilsins en samvinna hans og Rashford heldur áfram að dafna og þroskast.
  2. Bruno Fernandes er tannhjólið í kökunni sem lætur allt malla á venjulegum degi en má láta meira til sín taka í leikjum gegn hinu stóru liðunum. Síðast en ekki síst verð ég að tala um
  3. Harry Maguire en á síðari hluta tímabilsins virtist hann ná betri kjölfestu og átti lykilþátt í því að United tapaði bara einum deildarleik af 28 leikjum frá 7. nóv til 11. maí.

Vonbrigðin fólust í því að sjá Anthony Martial mistakast að halda uppi leikformi síðustu leiktíðar og einnig að sjá Donny van de Beek sitja jafn mikið á bekknum og raun bar vitni, sérstaklega eftir að hann skoraði í fyrsta leiknum sínum.

Gunnar

Bruno Fernandes. Það keppir enginn við hann.
Luke Shaw. Brást við samkeppninni og gerði sig ómissandi.
Paul Pogba eftir áramót. Sýndi loks stöðugleika með United og fór að vera liðsmaður.

Vonbrigðin: Anthony Martial. Maður ársins í fyrra, var þá algjör lykilmaður, en náði engan veginn að fylgja því eftir.

Maggi

Luke Shaw – Steig heldur betur í vetur og samkeppnin frá Alex Telles er klárlega að skila sínu.
Harry Maguire – Það sást í lok tímabilsins hversu mikilvægur og góður leikmaður hann er þegar liðið var án hans. Miklu betri en hann fær credit fyrir.
Bruno Fernandes/Paul Pogba – Átti erfitt meða að velja á milli en þeir voru báðir frábærir á sitthvorum tímanum og vonandi munum við sjá þá samstillta á næsta tímabili. En ef ég verð að velja bara annan þeirra þá er það Bruno Fernandes

Vonbrigði tímabilsins:

  1. Anthony Martial – Hann virtist algjörlega laus við allt sjálfstraust og spurning hvort að önnur deild myndi henta honum betur.
  2. Donny van de Beek – Hverju eða hverjum sem er að kenna þá var Hollendingurinn ungi ekki alveg að virka en það væri óskynsamlegt að afskrifa hann strax.
  3. Fred – Það sást oft í vetur hversu takmarkaður leikmaður hann er. Hann er einn af þessum sem er ágætur að hafa í hóp en ekki nógu góður til að vera byrjunarliðsmaður.

Daníel

  1. Bruno Fernandes
  2. Luke Shaw
  3. Harry Maguire

Vonbrigðin – Anthony Martial gekk bölvanlega að finna form á tímabilinu eftir að hafa staðið sig afar vel á því síðasta og lauk leik í mars þegar hann meiddist.

Þorsteinn

1. Bruno Fernandes: 28 mörk og 17 stoðsendingar í 58 leikjum er tölfræði sem aðeins heimsklassa leikmenn státa af. Hvar værum við án Bruno? Vil helst ekki hugsa þá hugsun til enda.
2.
Marcus Rashford: 42% sókna United í deild í vetur voru upp vinstri kantinn sem segir til um hversu mikið liðið reiðir sig á Rashford sóknarlega. Margar gagnrýnisraddir voru á lofti allt tímabilið gagnvart honum þrátt fyrir að hann væri meiddur allt tímabilið. Hann kom að 36 mörkum liðsins á tímabilinu sem er vel ásættanlegt fyrir útherja í Manchester United.
3.
Luke Shaw: Með komu Alex Telles í liðið umbreytist Shaw í þann leikmann sem United bjóst við þegar hann var keyptur sumarið 2014. Ótrúlega traustur varnarlega þar sem staðsetningar, styrkur hans og hraði nýtast vel. Ofan á góðan  arnarleik var hann mikilvægur liðinu sóknarlega. Var hann algjör lykill í því hversu vel Rashford spilaði á tímabilinu. Þeir tveir náðu einstaklega vel saman og er vonandi eitthvað sem heldur áfram á komandi árum. Ef tölfræðinn er skoðuð er þetta besta tímabil Shaw sóknarlega á ferlinum, eitt mark og sex stoðsendingar. Ofan á þetta allt saman hélst hann að mestu leyti heill allt tímabilið sem hefur ekki verið sjálfsagt á hans ferli.
Vonbrigði: Donny van de Beek og Martial eru vonbrigði tímabilsins fyrir mér. Hollendingurinn sýndi svo gott sem aldrei það sem ég hafði áður séð hjá honum, þá bæði með landsliði sínu og í þeim evrópuleikjum sem ég sá hjá Ajax. Ég vona svo
innilega að hann nái fótfestu í liðinu á komandi árum þar sem hann er frábær leikmaður. Það má þó segja að hann fékk kanski ekki alveg það traust sem hann þurfti frá Ole Gunnari til að geta skinið. Eftir frábæran endi á tímabilinu á undann hrundi það gjörsamlega allt niður við upphaf ný afstaðins tímabils hjá Martial. Óstöðugleiki er það orð sem lýsir Martial
hvað best og tel ég United ekki geta beðið lengur með að það lagist. Martial er að mínu mati kominn eða að nálgast endastöð hjá United og þarf að fara að róa á önnur mið.

Leikur ársins og mark ársins.

Frikki

Mörg sem koma til greina, Rashford gegn Brighton, Edinson Cavani gegn Fulham, fyrsta United markið hjá Amad Diallo gegn AC Milan og vippan hjá Bruno gegn Everton. En markið sem Bruno skoraði gegn Newcastle eftir glæsilega skyndisókn var í sérstöku uppáhaldi.

Leikur ársins var 6-2 gegn Leeds, en 6-2 gegn Roma, 5-0 RB Leipzig og 9-0 gegn Southampton voru flottir leikir líka.

Gunnar

Bruno gegn Everton.

Leeds heima trúlega leikur ársins. PSG úti og Leipzig heima koma einnig til greina

Maggi

Erfitt að nefna ekki 9:0 slátrunina á annars þokkalegu Southampton liði. Bruno Fernandes markið gegn Everton var einstaklega fallegt. Virkaði svo áreynslulaust en var algjörlega óverjandi.

Daníel

Leikur ársins er 6-2 sigurinn á Leeds. Það var sérlega dásamlegt í ljósi þess að það var búið að dásama drengina hans Bielsa í bak og fyrir en draumurinn um sigur á heimavelli erkifjendanna var úti eftir 20 mínútur. Yndislegt.

Edinson Cavani gegn Fulham (H) er að mínu mati mark ársins. Önnur mörk sem komu til greina voru Paul Pogba gegn West Ham (Ú), Bruno Fernandes gegn Everton (H) og Pogba gegn Fulham (Ú).

Þorsteinn

6-2 sigur á Leeds er leikur tímabilsins.
Mark Bruno Fernandes eftir frábæra skyndisókn í 1-4 sigri á Newcastle er mark
ársins hjá mér

Frammistaða OGS og þjálfarateymisins. Hafa orðið framfarir hjá liðinu og hvað þarf enn að bæta?

Frikki

Það hefur alltaf verið talað um framfarir (progress) í kringum liðið og ef miðað er við frammistöðuna í deildinni síðustu 3 ár þá er sú raunin. Vissulega hafa orðið framfarir, liðið endar ofar á töflunni, með fleiri stig og fleiri skoruð mörk. Liðið hristi af sér undanúrslitagrýluna hans Ole Gunnar Solskjær og komst í úrslit Evrópudeildarinnar. Þá verður að nefna þrautseigjuna sem skein í gegn á tímabilinu. +30 stig úr leikjum þar sem liðið lendir undir er hreint út sagt magnaður árangur.

Hins vegar er enn talsvert í land og lið eins og United á ekki að lenda svo oft í þeirri stöðu að þeir þurfa að koma til baka. Siðan er Ole Gunnar vanalega mjög lengi að skipta inn leikmönnum, virðist ekki treysta nema rétt byrjunarliðinu og heldur alltof mikilli tryggð við McTominay og Fred á miðjunni sem gerir leikplanið mjög fyrirsjáanlegt og einhæft. Það virðist líka vera ákveðið ráðaleysi gegn liðum sem sitja djúp og verjast á 11 mönnum, það virðist vera ansi flókið fyrir okkur þegar lið mæta okkur og ætla ekki að sækja.

Maggi

Liðið fer úr 3. sæti í 2. sætið og var töluvert nær toppsætinu en í fyrra þannig að það hafa klárlega verið framfarir. Liðið kemst líka í úrslit Evrópudeildarinnar og tapaði þeim leik eingöngu vegna þess að David de Gea varði enga af 11 spyrnum
Villarreal og lét svo verja frá sér. Það sem ég vil sjá lagað er þessi áhersla á að spila 4-2-3-1. Þetta er líklega vegna þess að Solskjær treystir vörninni ekki alveg nógu mikið (þess vegna er að öllum líkindum verið að kaupa nýjan miðvörð) og þessir djúpu miðjumenn í liðinu eru ekki nógu góðir til að vera einir fyrir aftan Paul Pogba og Bruno Fernandes.

Gunnar

Sá fyrra svar um samantektina. United kláraði í ár flest minni liðin og tapaði ekki fyrir stóru liðunum. Þannig lagði OGS leikina upp. Það er búið að taka til í félaginu og marka stefnu í yngri liðunum þannig þar virðast vera koma upp leikmenn.
OGS þarf að læra að nota varamenn. Hann hreyfir hópinn illa og í lokin sást verulega þreyta í lykilmönnum, t.d. Bruno. Ég hef áhyggjur af að þetta álag umbreytist í meiðslum hjá mönnum eins og Rashford. Að skipta ekki fyrr en eftir 90 mínútur gegn Villareal voru trúlega dýrkeypt afglöp. Hann hefur fengið bakkup til að kaupa leikmenn sem hann svo ekki notar. Meðferðin á mönnum eins og James og van der Beek er grimm og furðulegt að Lingard fékk engin tækifæri. Fannst líka t.d. Tuanzebe og Williams fá fullfá sjénsa.

Daníel

Mér finnst framfarir hafa orðið á liðinu að mörgu leyti. Sóknarleikur liðsins er mun meira flæðandi, en það örlar oft á hugmyndaleysi ef að lið bakka niður og bjóða ekki uppá svæði fyrir aftan sig til að hlaupa í. Á ýmsu mætti skerpa í vörninni sömuleiðis, sér í lagi því sem að kallast á ensku “ball watching” – þ.e. að gleyma gjörsamlega hvar maðurinn sem þú átt að dekka er staðsettur af því að þú ert of upptekinn af flugi boltans.

Þorsteinn

Ole náði að halda góðum stöðugleika hjá liðinu í deild í gegnum svo gott sem allt tímabilið sem er framför frá t.d. tímabilinu á undann þar sem dalinir voru oft langir en hafa nú styðst. Hann hefur náð að bæta leikmenn (t.d. Fred og Shaw) og bætt sig í að spila mönnum á réttum augnablikum þar sem kraftar þeirra hafa nýst (t.d. Cavani
gegn Southampton úti og James gegn Leeds heima). Það sem þarf en að bæta er leikstjórnun og leikjaupplegg í risa leikjum þar sem United er ekki “underdog”. Tveir þannig leikir voru á tímabilinu og töpuðust þeir báðir. Fyrst í úrslita leik um að komast úr riðlinum í CL gegn Leipzig og svo loks leikurinn gegn Villarreal. Í báðum þeim leikjum stýrir liðið leiknum illa og fær svo á sig mörk eftir glataðan varnarleik.

Leikmannamál. Er hópurinn nógu góður til að keppa um titla? Hvaða leikmenn þarf liðið að losa og hvaða leikmenn ættum við að fá í glugganum?

Frikki

Núna er Jadon Sancho á leiðinni og þá er framlínan orðin ansi spennandi með Rashford, Cavani, Greenwood og Sancho ásamt Martial, Mata og ungu leikmennina Amad, Elanga, Shoratire, Mejbri o.fl. Hins vegar er alltof mikið um leikmenn í hópnum sem eru ekki að hjálpa liðinu að nálgast enska titilinn en taka pláss sem hægt væri að nýta betur. Nemanja Matic, Phil Jones, Andreas Pereira, Diogo Dalot, Lee Grant, Daniel James, Fred og Jesse Lingard eru allt leikmenn sem mættu fara. En ef eitthvað er að marka síðustu ár þá kannski seljum við 1-2 af þessum leikmönnum og framlengjum við hina.

Til að ná að veita Manchester City, Liverpool og Chelsea samkeppni á næsta ári þurfum við háklassa miðvörð til að spila með Maguire, Varane væri draumur. Jadon Sancho verður leikmaður United núna eftir Evrópumótið sem veitir okkur loksins hægri vængmanninn sem við höfum grátbeðið um í fjölmörg ár. Það sem eftir stendur er þá varnarsinnaður miðjumaður og virðist helsta slúðrið snúast um Eduardo Camavinga en ég tæki glaður á móti hverjum sem er sem er uppfærsla á McT/Fred og gæti þá mögulega fært okkur í 4-3-3. Trippier hefur mikið verið orðaður við okkur en ég myndi heldur vilja sjá Ethan Laird fá tækifæri sem varaskeifa Wan-Bissaka.

Miðvörður, varnarsinnaður miðjumaður og hægri kantur eru þær stöður sem við þurfum að fá byrjunarliðsleikmenn í til þess að eiga möguleika á titilbaráttu í vetur og eins og staðan er í dag er búið að versla Sancho og Varane er ekki óraunhæfur möguleiki. Annars mætti líta til Umtiti hjá Barca eða Koundé hjá Sevilla. Sem varnarmiðjumann mætti líta til Camavinga sem er gríðarlega spennandi og efnilegur leikmaður frá Angóla. Annars hafa margir verið nefndir eins og Rice, Phillips, Zakaria, Bissouma og Soumaré (sem er farinn til Leicester) en Camavinga væri mitt val. Sá virkilega á eftir Moises Caicedo síðasta sumar en Camavinga er hins vegar skör ofar..

Á næsta ári mætti svo skoða framherjamálin en þá dettur líka inn klásúla hjá einum tilteknum norðmanni sem þekkir ágætlega til Ole Gunnar Solskjær og átti ansi afkastamikið og gott samband við nýjasta leikmann liðsins, Jadon Sancho á meðan þeir voru báðir hjá Dortmund.

Maggi

Hópurinn er næstum því nógu góður. Hef oft talað um það í Djöflavarpinu að liðið sé bara 2-3 góðum kaupum frá því að geta háð almennilega titilbaráttu. Ég stend enn við það. Anthony Martial, Nemanja Matic, Phil Jones og Andreas Pereira. Diago Dalot og Jesse Lingard verða að öllum líkindum seldir líka.
Myndi klárlega ekki segja nei við Raphael Varane eða Pau Torres og svo vantar liðinu djúpan miðjumann og þar sem James Garner er ekki alveg kominn á þann stað þá þarf líklega að kaupa í stöðuna. Eftir að hafa horft á EM þá hafa leikmenn eins og Manuel Locatelli og Konrad Laimer heillað mig mikið en ég tel ólíklegt að Declan Rice verði keyptur sérstaklega ef United er að fara eyða miklu í Sancho + miðvörð.

Gunnar

Hann er nógu góður til að keppa um bikara, varla Englandsmeistaratitilinn enn. Það þarf að losa leikmenn sem eru dýrir í launum en spila ekki reglulega og leikmenn sem ekki hafa sýnt nógu mikinn stöðugleika til að nýtast til lengri tíma. Dæmi um þetta eru Lingard og því miður Martial. Daniel James gæti velt fyrir sér sinni stöðu ef nýr kantmaður kemur. Menn eins og Tuanzebe og Williams verðskulda lán. Það myndi muna mikið um varnartengillið eða miðvörð þannig ekki þyrfti alltaf að spila með tvo slíka. Edinson Cavani hefur sýnt hvað góður, stöðugur framherji getur gert fyrir liðið, en hann er orðinn hálffertugur svo það er ekki treystandi á hann þar heilt tímabil.

Daníel

Núverandi hópur er ekki nægilega góður til að keppa á öllum vígstöðvum. Breiddin er ekki mikil og það eru ekki sægur af leikmönnum sem geta komið inn af bekknum og haft raunveruleg áhrif á leiki þar sem liðinu gengur illa.

Miðjan er vandamál. Við sjáum það best á EM hversu vel Paul Pogba spilar þegar hann er með alvöru sópara (Kanté) með sér.  Ég vil sjá Scott McTominay í Manchester United um ókomna tíð en miðja sem samanstendur af honum og Fred er aldrei að fara að vinna til margra titla á tímabili.

Að því sögðu að þá hefur liðið verið þrálátlega orðað við Raphael Varane frá Real Madrid. Það væri alvöru félagi við hlið Harry Maguire og myndi bæta hraða við varnarlínuna. Það vantar gæði í vörnina, þar sem að það er ekki séns að hægt sé að treysta á að heilsa Eric Bailly sé 100% heilt tímabil og Victor Lindelöf getur spilað frábærlega, en svo gefið tvö klaufamörk í næsta leik.

Framar á vellinum erum við í betri málum. Marcus Rashford og Bruno Fernandes stóðu sig vel á tímabilinu og Cavani átti glimrandi spretti sömuleiðis.

Mason Greenwood var lengi í gang en hann átti í vandræðum í einkalífinu framan af tímabili en sótti í sig veðrið þegar líða tók á það. Nú þegar Jadon Sancho er á leiðinni að þá má búast við enn meiri sköpunarkrafti – hötum það ekki!

Þorsteinn

Já, hópurinn er nægilega góður til að keppa um titla en ekki þá stærstu sem eru í boði. Lið sem vill ekki sækja upp hægri kant sinn er ekki vænlegt til árangur á risa mómentum. Því þarf t.d. eitt stykki Sancho í liðið sem ætti að verða bylting fyrir liðið. Svo aftrar liðinu mjög að þurfa að stilla tveim varnarsinnuðum miðjumönnum gegn miðlungs liðum. Liðið þarf vel spilandi og kraftmikinn CDM sem getur staðið einn fyrir framann vörnina án þess að liðið gjaldi fyrir það. Ndidi væri að mínu mati drauma lausnin af þeim sem gætu verið í boði í heiminum í dag. Bissouma í Brighton væri einnig spennandi kostur. Aðrar viðbætur væri að fá samkeppni inn í miðvarðar- og hægri bakkvarðar stöðuna. Dæmi um leikmenn sem gætu hentað í þær viðbætur og hafa verið orðaðir við liðið eru Varane, Pau Torres, Max Aarons og Trippier. Einnig er  tímaspursmál um hvenær liðið nær í heimsklassa senter. Þau kaup þyrftu ekki að vera í sumar en yrðu sennilega nauðsynleg næsta sumar. Ef horft er yfir sviðið núna eru raunar bara tveir sem myndu haka í það box, Kane og Haaland. Ef liðið ætlar sér Kane þarf það að gerast í sumar en Haaland gæti beðið fram á það næsta.
Leikmenn sem mætti losa væru: Jones, Mata, Lingard, de Gea, Grant, Martial, Matic, Williams, Chong, Pereira og mögulega Dalot. Stærstu fréttirnar sem eru kannski á þessum lista er de Gea. Persónulega vil ég láta reyna á Henderson og sjá svo að ári hvort markmannskaup yrðu nauðsyn. De Gea er því miður orðinn game over hjá United, hann vinnur varla lengur inn stig fyrir liðið sem er nauðsynlegt fyrir stór lið og því kominn tími á að leiðir skilji.

Ákveðið var að taka ekki frekar umræðuna um næsta tímabil, leikmannakaup og væntingar til liðsins. Þess í stað vonast ritstjórnin til þess að geta tekið Djöflavarp fyrir tímabilið og farið betur yfir þau mál. Ath. Kaupin á Sancho voru ekki gengin í gegn þegar flest þessi svör voru rituð.

Góðar stundir!

0

Reader Interactions

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Tómas um Nýr stjóri tekinn við
  • Scaltastic um Crystal Palace 1:0 Manchester United
  • Helgi P um Crystal Palace 1:0 Manchester United
  • Þorleifur um Lokaleikur á morgun: Til hvers?
  • Tony um Lokaleikur á morgun: Til hvers?

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress