• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Rauðu djöflarnir

  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
  • Forsíða
  • Hópurinn
  • Greinasafn
  • Twitter
  • Leikir
  • Meiðsli
  • Djöflavarpið
Meistaradeild Evrópu

Atlético Madrid 1:1 Manchester United

Halldór Marteins skrifaði þann 23. febrúar, 2022 | 4 ummæli

Manchester United og Atlético Madrid gerðu í kvöld 1-1 jafntefli í fyrri leik sínum í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Heimamenn fengu draumabyrjun með flottu marki frá João Félix strax á 7. mínútu en hinn ævinlega spræki Anthony Elanga jafnaði metin á 80. mínútu. Þetta var ekki besti leikur Manchester United á tímabilinu en okkar menn eru rækilega með í þessu einvígi ennþá og allt undir á Old Trafford í seinni leiknum.

Byrjunarlið og helstu upplýsingar

Rangnick ákvað að stilla Victor Lindelöf upp í hægri bakverði, með þann möguleika að geta skipt í þriggja miðvarða kerfi innan leiks án þess að gera sérstaka skiptingu til þess. Svona var byrjunarlið Manchester United í leiknum:

1
de Gea
23
Shaw
5
Maguire
19
Varane
2
Lindelöf
6
Pogba
17
Fred
25
Sancho
18
Fernandes
7
Ronaldo
10
Rashford

Bekkur: Heaton, Henderson, Alex Telles (inn á 66′ fyrir Shaw), Bailly, Dalot, Jones, Wan-Bissaka (inn á 66′ fyrir Lindelöf), Hannibal, Lingard (inn á 82′ fyrir Sancho), Mata, Matic (inn á 66′ fyrir Pogba), Elanga (inn á 75′ fyrir Rashford).

Heimamenn hófu leik með þetta lið á vellinum:

13
Oblak
23
Reinildo
2
Giménez
15
Savic
12
Lodi
16
Herrera
4
Kondogbia
14
Llorente
24
Vrsaljko
10
Correa
7
Félix

Bekkur: Lecomte, Christian, Felipe, Hermoso, de Paul, Lemar (76′ fyrir Lodi), Serrano, Griezmann (76′ fyrir Félix), Suárez.

Mörk:

7′ – João Félix, stoðsending Renan Lodi

80′ – Anthony Elanga, stoðsending Bruno Fernandes

Spjöld:

Atlético Madrid – Héctor Herrera, Reinildo, Marcos Llorente, José Giménez

Manchester United – Luke Shaw, Victor Lindelöf, Marcus Rashford, Fred, Alex Telles

Leikurinn

Það var ágætis jafnræði hjá liðunum á boltann allra fyrstu mínúturnar en þó greinilegur munur á hversu beinskeitt liðin voru strax. Atlético Madrid átti fyrstu marktilraunir leiksins áður en fimm mínútur voru búnar og þurfti m.a. góða tæklingu frá hægri bakverðinum Victor Lindelöf til að koma í veg fyrir marktilraun frá Giminez.

En heimamenn fengu draumabyrjun á 7. mínútu þegar þeir skoruðu laglegt mark. Eftir hornspyrnu frá hægri sem var skölluð burt kom fyrirgjöf frá vinstri beint í hlaupið hjá João Félix sem kastaði sér fram og stangaði boltann fast í nærhornið. Frábærlega vel gert hjá Atlético þarna. Það hefur löngum verið martröð liða sem heimsækja þennan völl, sér í lagi í útsláttarkeppni, að fá akkúrat þessa byrjun á sig.

Embed from Getty Images

Enda duttu Atlético beint í það sem þeir gera hvað best, stjórna leiknum án þess að vera með boltann. Eftir að boltinn hafði verið nokkurn veginn 50/50 á hvoru liði fyrstu mínúturnar þá rauk það upp í að Manchester United var með boltann 70% af tímanum en náði lítið að komast með boltann áleiðis upp völlinn samt. Atlético-menn voru fullkomlega sáttir við að leyfa United að dútla með boltann á sínum eigin vallarhelmingi en settu pressuna í gang á fullu um leið og einhver skapandi leikmanna United fékk boltann eða liðið reyndi að spila sig upp völlinn. Að auki spiluðu þeir eins fast og dómarinn leyfði, notuðu brot óspart til að stöðva leikinn og fengu að gera það án þess að fá spjöld fyrir.

Þetta pirraði leikmenn United, sér í lagi Ronaldo, sem hefur án efa líka verið hluti af plönum Atlético Madrid. Eitthvað sem var auðvelt að teikna upp fyrir leik.

Embed from Getty Images

Á meðan fóru leikmenn Manchester United að safna spjöldum fyrir óþarfa. Lindelöf, Shaw og Rashford fengu gult fyrir að missa menn framhjá sér og stöðva álitlegar sóknir og Fred fékk gult fyrir að mótmæla hornspyrnu sem dæmd var á hann.

Það virtist í raun lítið í kortunum að Manchester United væri að fara að fá eitthvað út úr þessum leik. Atlético virtist hafa þetta allt í höndum sér. Eftir rúman klukkutíma gerði Rangnick þrefalda skiptingu þar sem Lindelöf, Shaw og Pogba fóru af velli fyrir Wan-Bissaka, Telles og Matic. Ekki beint skipting sem öskraði á sóknarþunga. Báðir bakverðirnir voru þó á gulu og skynsemi í að taka þá af velli. Manchester United var líka að gjörtapa baráttunni inni á miðjunni og vit í því að senda Serbann Matic inn á völlinn til að reyna að ná einhverjum tökum á leiknum þar.

Þegar korter var eftir af leiknum kom svo næsta skipting, þegar Svíinn Anthony Elanga kom inn á fyrir Marcus Rashford. Ég gjörsamlega dýrka Dr. Marcus Rashford en hann átti ekki góðan leik í kvöld. Flestar ákvarðanir voru rangar hjá honum, sérstaklega á ögurstundu, og hann komst illa inn í spilið með félögum sínum. Það hjálpaði honum ekki hversu illa United náði að vinna úr málum á miðjunni en hann á líka að geta gert betur sjálfur.

Anthony Elanga hefur hins vegar verið að koma frábærlega inn í vetur, ekki síst hefur hann getað komið með áhrif inn af bekknum, eins og sást bara vel í síðasta leik gegn Leeds United. Hann var búinn að vera inni á vellinum í 5 mínútur þegar hann skoraði jöfnunarmarkið. Eftir innkast á miðjum vellinum náði Fred að fleyta boltanum yfir á Bruno sem bar hann aðeins upp og gaf svo stungusendingu sem Reinildo rétt missti af með sinni tæklingu en endaði beint í hlaupinu hjá Elanga. Elanga skaut í fyrsta í fjærhornið, ekki fast en virtist koma Oblak að óvörum svo í netinu endaði boltinn. Fyrsta marktilraun Manchester United á rammann og staðan orðin 1-1.

Embed from Getty Images

Atlético Madrid var næstum búið að ná forystunni aftur þegar Griezmann setti boltann í slána með laglegu skoti úr teignum. Jesse Lingard átti hins vegar síðasta orðið í leiknum þegar hann tók langskot djúpt í uppbótartíma sem Oblak þurfti að verja en var ekki í teljandi vandræðum með það. Þetta skot varð hins vegar til þess að Manchester United endaði með fleiri tilraunir á ramma en Atlético Madrid.

Pælingar eftir leik og framhaldið

Atlético stjórnaði þessum leik megnið af honum. Gjörsamlega. En þeir áttu samt bara eina marktilraun á rammann. Það voru mjög, mjög, mjööög margir sem gagnrýndu bæði varnarlínu Manchester United og David de Gea í þessum leik en þrátt fyrir það áttu heimamenn ekki fleiri tilraunir á rammann. Áttu reyndar tilraun í rammann en ekki fleiri á rammann.

Embed from Getty Images

Aðalhausverkurinn í þessum leik hjá Manchester United var hversu illa gekk að ná tökum á miðjunni og skapa eitthvað fram á við. En Bruno Fernandes sýndi að hann þarf ekki nema eitt tækifæri til að búa til eitthvað sem ræður úrslitum. Stungusendingin hans var frábær. Reinildo hefði líklega átt að gera betur en sendingin var akkúrat nógu utarlega til að tækling varnarmannsins missti marks. Og Elanga gerði það sem hann hefur verið svo duglegur að gera í vetur, hafði áhrif á leikinn.

Þiggjum úrslitin úr þessum leik frekar en frammistöðuna. Liðið þarf þó að gera mun betur á Old Trafford 15. mars til að klára þetta einvígi.

Annars var annar jákvæður punktur við kvöldið því Tottenham náði ekki að fylgja eftir frábærum sigri þeirra á Manchester City um helgina heldur töpuðu gegn Burnley. Þeir eru því 7 stigum frá Manchester United með tvo leiki til góða.

Næsti leikur hjá okkar mönnum er hins vegar gegn Joshua King og félögum í Watford á Old Trafford á laugardaginn.

4

Reader Interactions

Athugasemdir

  1. 1

    Egill says

    23. febrúar, 2022 at 20:31

    Það versta við að það er bara febrúar er að við eigum ennþá eftir að þurfa að horfa uppá versta miðvörð í sögu Man Utd spila leik eftir leik.
    Það ætti að rífa niður 20legend borðann niður bara fyrir það eitt að gera þetta drasl að fyrirliða. Ég actually skammast mín í vinnunni eftir hvern einasta leik þegar fótbolti er ræddur.

    5
  2. 2

    Helgi P says

    23. febrúar, 2022 at 21:28

    Rashford er orðinn einn lélegasti leikmaðurinn evrópu

    4
  3. 3

    Einar says

    23. febrúar, 2022 at 22:17

    Vá hvað liðið var lélegt .

    3
  4. 4

    S says

    25. febrúar, 2022 at 14:21

    Hvar er jakvæðnin samt? Þá er ég að tala um kommentin ekki pistilinn. Geggjuð úrslit og Old Trafford siglir þessu heim

    0

Skildu eftir svar Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Primary Sidebar

Michelsen Tag Heuer er styrktaraðili Rauðu djöflanna

Síðustu ummæli

  • Turninn Pallister um Mánuður af sumarfríi
  • Arni um Mánuður af sumarfríi
  • Halldór Marteins um Mánuður af sumarfríi
  • Helgi P um Mánuður af sumarfríi
  • Scaltastic um Mánuður af sumarfríi

Tístvélin

Tweets by @raududjoflarnir

Facebook

Rauðu djöflarnir

Footer

Rauðu djöflarnir

  • Um okkur
  • Reglur

Fantasy deildin

Vertu með í Fantasy leiknum okkar!

Kóði: 1997321-460021

Leit

  • Um okkur
  • Reglur

Rauðu djöflarnir © 2022 · Keyrt á WordPress