Leikurinn byrjaði fjörlega. United sótti frá fyrstu mínútu, Fulham lá nokkuð til baka og tók skyndisóknir, í þeirri fyrstu komst Rodallega inn fyrir en var ekki í góðu færi, gaf boltann og Evans komst fyrir. Evans þurfti síðan að taka boltann snyrtilega af Rodallega í næstu sókn, vel gert. Hinu megin pressaði United, úr einu horni varð mikið japl jaml og fuður í teignum, Schwarzer varði vel skot Evra, svo skallaði varnarmaður skot Rooney frá og loksins hélt Schwarzer skoti Evra
Það er búið að vera röfla mikið á netinu undanfarið um að Asmir Begovic sé á leiðinnni til United, en De Gea sýndi hvað hann getur þegar hann varði snilldarlega ekta John-Arne Riise neglu. De Gea setti síðan örlitla snertingu með löngutöng í skot frá Ruiz, en það var nóg til að skotið small í stöng.
Þannig að þrátt fyrir mikla sókn United, fór verulega um mann þegar Fulham kom upp á móti. Það vantaði að taka á móti þeim, sérstaklega á miðjunni.
Eftir þessa hasar byrjun mátti búast við að leikurinn róaðist aðeins og það varð til þess að United náði góðum tökum á leiknum og Fulham féll enn aftar á völlinn. Yfirburðunum fylgdi meðal annars að Rafael (í skóm merktum Fabio) spiluðu mjög framarlega. Nani datt stundum inn á miðjuna af vinstri kantinum og átti alveg þokkalega spretti en á hinum kantinum var Valencia eins og hann hefur oft verið í vetur, ekki nógu góður.
Eftir hálftíma leik kom enn einn sénsinn hjá United, gott skot Rooney small í stöng. Annars var þetta mikið til spil hjá United á vallarhelmingi Fulham og tilraunir til að finna holur í varnarveggnum.
Rétt fyrir hálfleik átti United horn, þegar allt í einu slokknaði á öllum flóðljósum, eftir smá bið tók dómarinn liðin útaf. Biðið varð ekki mjög löng samt, einhverjum tókst að kveikja á ljósunum og síðan tók smá tíma að komast í fulla birtu, og leikmenn komu aftur inn á. Ekkert varð úr horninu og ekkert að ráði þessar síðustu fjórar mínútur.
Seinni hálfleikurinn byrjaði á svipaðan hátt. United hélt boltanum að mestu, Fulham reyndi en fengu þó ekki færi. Það var alveg kominn tími á skiptingu eftir klukkutíma leik og það var Javier Hernandez sem kom inná fyrir Tony Valencia. Enn einn vonbrigðaleikurinn frá TonyV og spennandi skipting. Hún frískaði aðeins upp á leik United en ekki þó nóg. Giggs kom inn á þegar kortér var eftir fyrir Cleverley. Rétt eftir það kom svakalega sending frá Carrick inn á Van Persie sem reyndi að flikka boltanum til hliðar á Hernandez í staðinn fyrir að skjóta sjálfur, og boltinn fór í varnarmann. Eitt besta færið í seinni hálfleik þar þó vissulega væri þrengt að Van Persie.
Hinumegin skallaði Rafael af línu eftir horn og svo kom loksins loksins mark. Það þurfti eitthvað sérstakt til þess. Rooney fékk langa sendingu fram, lék beint inn í teiginn og í stað þess að gefa þvert á Van Persie eða Hernandez, tók hann skarið af og með nákvæmu skoti setti hann boltann framhjá varnarmanni og Schwarzer og í hornið fjær. Glæsilegt mark, hans tíunda í 10 leikjum.
Leiknum lauk með miklum hasar. Van Persie skallaði af línu, United fór beint upp og Hernandez var kominn maður á móti markmanni en tókst að vera of lengi að hlutunum með mann í bakinu og ekkert varð úr skotinu.
En á endum hafðist þetta. Enn einn leikurinn þar sem við hirðum þrjú stig með smá herkjum. Um tíma vorum við að spila glimrandi bolta og skapa góð færi og Mark Schwarzer vann sannarlega fyrir kaupinu sínu í dag. En Fulham lék líka vel og De Gea var sömuleiðis góður í dag. Að auki komu tveir skallar af línu (skylduvörn reyndar báðir) og við getum verið ánægð með þrjú stig sem voru sannarlega ekki gefins.
Auk De Gea áttu margir góðan leik. Evra var flottur, Ferdinand og Evans að mestu traustir í vörninni og Carrick á miðjunni. Nani spilaði mjög vel og boðar vonandi gott fyrir næstu mánuði. Valencia hins vegar slakur, og Robin van Persie ekki mjög sýnilegur. En til þess erum við með tvo stjörnuleikmenn frammi, ef annar á rólegan dag er hann engu að síður að taka til sín varnarmenn og opna fyrir hinn. Og Rooney hefur sannarlega verið að nýta það, maður leiksins.
Það er engin ástæða til að vera að telja einhverjar hænur á þessu stigi tímabils, en það er bara fínt að vera með 10 stiga forskot þegar við höfum leikið leik meira. Fleiri svona sigra takk.
DMS says
Þetta var flottur sigur í mjög jöfnum leik á útivelli sem hefur oft reynst okkur erfiður. Valencia heldur áfram að valda vonbrigðum og mér fannst Nani nú ekkert sérstakur heldur þó hann hafi verið skárri en Ekvadorinn. Þetta fer samt vonandi að koma hjá Nani með fleiri leikjum, það eru batamerki á lofti. Það væri rosalega gott að fá kantmennina okkar aftur í gang í sitt gamla form núna þegar líða fer að lokasprettinum.
De Gea var flottur í dag og Carrick bætti upp fyrir slaka frammistöðu í síðasta leik. Við höfum ekki oft unnið 1-0 sigra á þessari leiktíð, flott að halda markinu hreinu. Það var gaman að sjá leikmenn fleygja sér fyrir skot Fulham manna í uppbótartímanum, Evans kominn með krampa að pína sig áfram og Rooney öflugur. Nú vonum við bara að menn snúi til baka heilir úr þessari landsleikjatörn, eigum erfiðan leik fyrir höndum gegn Everton í næsta leik.
Maður leiksins hjá United: Wayne Rooney
Maður leiksins hjá Fulham: Bryan Ruiz
Svo segir maður bara í lokin….áfram Liverpool!
Friðrik says
Mögnuð markvarsla hjá De Gea frá Ruiz, ekki í fyrsta sinn sem hann ver skot sem maður gerir ekki einu sinni kröfu á markverði að verja. Við þurfum ekki Begovic sem spilar með 7-8 manna varnarmúr fyrir framan sig í hverjum leik.
Gunnþór Sig says
flottur leikur og það sem mikilvægast er 3 stig!:)
Stefan says
Hefði viljað sjá Hernandez skora 2-0 þarna í blálokin en hann er aldeilis farinn að verða skemmtilegur leikmaður :)
Mjög ánægður með Rooney og Evans í þessum leik.
Ætla svo að vona að De Gea fari að fá virðingu frá stuðningsmönnum United, fyrir mér er bara spurningin hvort hann vilji vera og verði ekki annað Pique dæmið.
Johann ingi says
Finnst yndislegt að horfa á united þessa dagana. Baráttan,samkenndin og sigurlöngunin er áþreifanleg og eg held maður ætti bara að hætta ad drulla yfir einstaka leikmenn. Þeir bæta hvorn annan upp og við gerum alltaf einhvern vegin nóg til að vinna.
Mig hlakkar ekkert lítið til að mæta á Sandiago bernabeu þann 13. Feb til að horfa á mína menn spila sinn besta bolta af öllu sínu hjarta líkt og þeir gerðu í kvöld.
PS. Ef þad er einhver á leidinnii á leikinn frà isl. Þá væri þad bónus.
Áfram man u !
Bósi Arnars says
Þetta var geggjaður leikur. 1-0 var stressandi, EN að sjá Evra vera spila svona vel bæði varnarlega og sóknarlega er frábært uppá komandi leiki, eins er Rio að sýna gamla og frábæra takta sem gefur okkur áþreifanlegan styrk á vellinum sem og í klefanum.
Nani lýtur vel út en einsog einhver sagði hérna fyrir ofan þarf hann meiri leiktíma og þegar hann er búinn að fá hann er ég viss um að hann eigi eftir að reynast okkur þvílíkt mikilvægur á lokasprettinum í öllum keppnum. Sérstaklega þegar mín gamla hetja Valencia er alls ekki að skila sínu. Young fer að koma til baka, með hann og Nani heita á könntunum og Evra að sækja svona upp einsog hann hefur verið að gera, tala nu ekki um Rafael. Þá hafa Rooney og RVP það sem þeir þurfa fyrir aftan sig til að gera okkur að meisturum. (jafnvel þreföldum meisturum) :) :)
úlli says
Ég veit ekki hvað er að hrjá Valencia, en ég elska hvað hann er mikill liðsmaður og sáttur með sitt hlutverk. Tók einhver eftir því þegar honum var skipt út af og hljóp beint að hliðarlínunni? Án gríns, hversu oft sér maður þetta nú til dags? Nánast hver einasti leikmaður hefði tekið joggið á þetta.
En þetta var útúrdúr. Snilldarmark hjá Rooney, minnir mig á mark sem Ronaldo skoraði á sama velli fyrir nokkrum árum í stöðunni 0-0, ákveðin gæði sem skilja á milli feigs og ófeigs. Það verður að segjast eins og er að staðan í deildinni er orðin ansi vænleg.
úlli says
Hér er markið hans Ronaldo (reyndar var þetta greinilega í stöðunni 1-1) http://www.redcafe.net/f6/did-rooneys-finish-remind-you-anything-365753/
Cantona no. 7 says
Frábær sigur í skemmtilegum leik.
Liðið er að spila vel en á samt mikið inni.
Áfram Man. Utd.
DMS says
Getið þið ímyndað ykkur fárið sem hefði skapast ef De Gea hefði gert sömu mistök og Reina í dag?
Baldur Seljan says
Gríðarlega mikilvægt að vinna á Craven Cottage. Klárlega einn af tíu erfiðustu útivöllum deildarinnar. 9 stiga forusta er eitthvað sem maður getur glaðst yfir næstu daga. Ef að City heldur áfram að misstíga sig í næstu 4-5 leikjum, þá stórlega efast maður um að þeir komi tilbaka. Aldrei að segja aldrei þó ,þar sem það eru nú ennþá 39 stig eftir í pottinum. Lýst samt mjög vel á viðhorfið hjá United þessa daganna, þeir eru ekkert að pæla í hversu langt þeir eru komnir á undan nágrönnunum og hugsa bara um einn leik í einu.
úlli says
DMS: De Gea gerði svipuð mistök fyrir nokkrum dögum.
Runólfur says
Hvaða mistök voru það Úlli ?
Annars var þetta stór skemmtilegur leikur (sérstaklega þar sem maður var á leiknum). Jákvætt að halda hreinu en liðið hefði átt að skora allavega þrjú mörk. Svo er eitt, það var gífurlegt magn af Manchester United stuðningsmönnum á leiknum og VÁ! Þessir drengir sungu non stop í 90 mín + það stóðu ALLIR! Gæslan reyndi ekki einu sinni að sannfæra menn um að sitja því það stóð hver einasta sála. Mér fannst Valencia reyndar betri en oft áður og rétt áður en hann var tekinn útaf átti hann líklega besta sprettinn sinn í öllum leiknum. Held að Valencia sé að spila með einhverskonar meiðsli en Fergie vill ekki setja hann á sjúkralistann því að Valencia verður gífurlega mikilvægur í varnarleiknum á Bernabau núna í Feb.
úlli says
Run-DMC: Ég á við markið á móti Southampton.
DMS says
Myndi nú ekki segja að það væri sambærilegt, Carrick átti ömurlega sendingu til baka á De Gea og setti hann í erfiða stöðu, þó vissulega hafi úthlaupið verið gert af hálfum hug. Reina hljóp hinsvegar næstum því út úr teignum við að elta Aguero þegar það hefði verið mun skynsamlegra að bíða og láta varnarmennina sjá um að setja pressu á hann.