Það var ekki bara afveltan eftir ofát jólanna sem olli því að umfjöllun um fyrri hálfleik í þessum leik er engin. Einu færin í þessum hálfleik voru misgáfuleg langskot. Bæði Sá og Onana áttu eina fína vörslu hvor reyndar en annars var þetta tíðindalaust. United aðeins betri á boltanum en ósköp lítið sem kom úr því.
Það tók Bruno Fernandes hins vegar aðeins 85 sekúndur í seinni hálfleiknum til að næla sér í sitt einna gula spjald í leiknum fyrir að vera of seinn í að blokka boltann og fara í legginn á Wolves leikmanni. Klaufalegt en ekkert við þessu að segja. Úlfarnir fóru beint í sókn og skoruðu en blessunarlega var það rangstaða. En það var skammgóður vermir því Wolves tók forystuna á 59. mínútu með Ólympíumarki beint úr horni, þeirra langbesti maður Matheus Cunha tók hornið og sveiflaði boltanum í fjærhornið. Ef þið vissuð ekki hvað Ólympíumark var fyrir viku, vitið þið það núna, United búið að fá á sig tvö á átta dögum. Onana átti auðvitað að gera betur, þó að hann væri aðþrengdur af sóknarmönnum. 1-0.